Násjór
„Um sjóinn þekki eg að eins þessar sagnir.
Fyrst er það jafnsönn sem almenn sögn, en einkum í brimlendingum, að þrjár öldur miklar fylgist jafnan að, hver á eptir annari, og heita þær ólag, en bilið, sem verður á milli þeirra, heitir lag. Fyrsta aldan er ávalt mest þeirra þriggja, en hinar minni. Einginn skyldi hugsa til að leggja að landi með fyrstu ólagsöldu, eða verða svo seinn að taka lagið (nota hléð milli ólaganna), að fyrsta ólagsaldan nái honum; ekki tjáir heldur að leggja að landi með annari ólagsöldu, því þá er enn hin þriðja vís. En þriðju ólagsöldu skal kappkosta að fylgja, og „róa þá lífróður“, til þess að eiga lagið í hönd á eptir; er þá jafnan lífsvon, og að lagið endist, til að lenda á og bjarga skipi. Í laginu eru eins 3 bárur, og í ólaginu, en allar minni, og stundum þó 4; heitir þá fjórða báran aukabára. Stundum verður ekki lag eða hlé milli ólaga í lánga tíma, svo að 24, 18, 12 eða 6 ólagsöldur fylgjast að. Það er önnur sögn, að þegar eitt skip hefir farizt í lendingu, hvort sem það hefir hitt ólag, eða því hefir borizt á af öðrum orsökum, þá komi kyrð á sjóinn stundarkorn á eptir, og heitir sú kyrð dauðalag, svo þeim lendist vel, sem þá leggja að landi á eptir, þegar sjórinn hafi feingið sitt; er það kallað að lenda á dauðalagi þeirra, sem drukknað hafa.
Þá eru og nefndir násjóir; sjást þeir stundum, þegar á sjó er verið, og þykja æfinlega boða skipreika. Násjóir eru annaðhvort 3, 6 eða 9; falla þeir hver á fætur öðrum, og eru auðþektir á litnum, því ýmist eru þau rauðleitari (fyrir vestan), eða blárri (fyrir austan), en sjór er vanalega. Náöldur eru enn kallaðar; sagt er, að þær séu tvær í senn, og falli önnur frá landi, en önnur að, og þegar þær mætast, verður dynkur mikill, og heitir það náskellur. Það boðar og skipreika. Þá er nefnt náhljóð í sjó, og er það alt annað, en heyrist í kirkjugörðum.
Vestfirðíngar segja, að það fylgi násjónum, og er það veinhljóð í sjónum, áþekt dauðaveini deyjandi manns. Náhljóð heyrist opt á landi, og boðar manna drukknun, eins og hitt, sem áður er talið.“
Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri 1862, bls. 660-661.