A.m.k. 125 letursteinar á Reykjanesskaga
Á Mbl.is 20. mars 2002 birtist eftirfarandi undir fyrirsögninni; „Leita að letusteinum„.
„FERLIR, ferða- og útivistarhópurinn, hefur að undanförnu verið að skoða og leita letursteina nálægt Keflavík og vill fá upplýsingar um fleiri. Ferlisfélagar segja að vitað sé um ýmsar áletranir og hægt að ganga að þeim vísum.
Ferlisfélagar segja að vitað sé um ýmsar áletranir og hægt að ganga að þeim vísum. Nefna þeir sálmavers sem er klappað á stein við Prestsvörðuna (séra Sigurðar Sívertsen) ofan við Leiru, áletranir á steinum við Básenda, stafi sem klappaðir eru í bergið við Helguvík og á klöpp á Keflavíkurbjargi, ártal og stafi á klöpp í Másbúðarhólma, ártöl og stafi á klapparsteini ofan við Þórshöfn, stafi á hellu yfir fornmannagröf í Garði, rúnir á steini við Kistugerði og ártal á steini í Fuglavík sem og stafi sem eru á klöpp þar í fjörunni og ártal og stafi undir Stúlknavörðunni.
Þá eru nokkur dæmi um svonefnda LM-steina (landamerkjasteina) sem og leturhellur.
Í fréttatilkynningu frá Ferli kemur fram að auk þessara áletrana séu til heimildir um letur á klöpp eða hellu yfir smalagröf innan við forna túnhliðið á Hólmi, leturstein á Draughól við Garð, en áletrunin á að vera tengd handtöku manna Kristjáns skrifara á Kirkjubóli, áletrun við eða á Dauðsmannsvörðu norðan Vegamótahóls (við Sandgerðisveginn forna) og ártal á steini í eða við Kolbeinsvörðuna á mörkum Voga og Njarðvíkur. Ef einhver getur upplýst hvar áletranir þessar geta verið eða hefur séð þær er viðkomandi beðinn um að láta Ómar Smára Ármannsson vita (omarsmari@simnet.is), einnig um annað það er málið varðar og kann að þykja merkilegt.“
Áletranir á steinum eða klöppum geta verið minningarmörk, ártöl, ártöl sögulegra viðburðir, landamerki eða hvaðaneina, allt annað en grafskriftir í kirkjugörðum.
Þjóðminjasafnið hefur dregið til sína allnokkra steina með áletrunum þar sem þeir eru jafnan geymdir í hinum dýpstu dýflissum safnsins. Að sjálfsögðu ættu slíkir steinar að vistast á þeim stöðum, sem þeir áttu uppruna sinn í hinu sögulega samhengi eða hjá hlutaðeigandi byggða- eða minjasafni.
Á Reykjanesskaganum er að finna a.m.k. 125 þekkta letursteina í mismunandi ásigkomulagi. Nauðsynlegt er að viðhalda þeim ásamt því að varðveita vitneskju um sögu þeirra. Til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að skrá staðsetningu, munnmæli og sögur þeirra sem þekkja til steinanna ásamt því að halda utan um og taka saman helstu heimildir um þá.
Heimild:
-Mbls 20. mars 2002 – Leita að letusteinum.
-https://www.mbl.is/greinasafn/grein/658213/