Eru selir menn í álögum?
Á Vísindavef Háskóla Íslands má lesa margt fróðlegt, m.a. eftirfarndi um seli:
„Víða um heim er talsverð hjátrú sem tengd er selum með einum eða öðrum hætti. Mönnum þykir skepnan falleg, einkum skinn hennar og augu. Oft hefur selum þótt svipa til manna, sérstaklega höfuðlag þeirra, og sagt er að selurinn hafi mannsaugu. Þetta hefur meðal annars orðið til þess að í þjóðtrúnni fer ýmsum sögum af því að selir séu menn í álögum eða framliðið fólk.
Í þjóðtrú Grænlendinga og annarra selveiðiþjóða skipar selurinn sérstakan sess og þær óskráðu reglur sem gilda um selveiðar og meðferð selsins draga dám af þessari þjóðtrú.
Í Færeyjum er til sú trú að selir séu fólk sem hefur fyrirfarið sér í sjó eða drukknað af öðrum ástæðum. Þar í landi hafa því margir haft illan bifur á selveiðum. Færeyingar veiða í rauninni afar lítið af sel hvort sem þjóðtrúin ræður þar nokkru um eða ekki.
Hér á landi fylgir selnum talsverð þjóðtrú. Margir þekkja söguna af því þegar Sæmundur fróði (1056-1133) fór heim úr Svartaskóla og lét kölska breyta sér í sel og synda með sig til Íslands. Vilji menn lesa meira um Sæmund er þeim bent á svar Sverris Jakobssonar við spurningunni Hvar var Svartiskóli sem Sæmundur fróði sótti?
Annars segir þjóðsagan um uppruna sela að þeir séu hermenn Faraós. Þeir drukknuðu í Rauðahafinu er þeir hugðust elta Móses þegar hann leiddi Ísraelsmenn þurrum fótum yfir hafið á flótta frá Egyptalandi, sem kunnugt er af frásögum Biblíunnar. Hermennirnir urðu allir að selum en hundar sem þeim fylgdu urðu að steinbítum.
Sagt er að einu sinni á ári gangi selirnir á land, sumir segja á nýársnótt, aðrir þrettándanótt (sjá Er það satt að sum dýr tali mannamál á þrettándanum? eftir Rakel Pálsdóttur), Þá kasti þeir hömum sínum, öðlist manneðli sitt á ný og dansi og skemmti sér á ýmsa lund. Af samskiptum manna og sela þessa nótt fer mörgum sögum bæði í þjóðtrú okkar Íslendinga og nágranna okkar, þar á meðal Færeyinga.
Einna þekktust slíkra sagna hér og í Færeyjum er sagan af bóndanum unga sem gekk til sjávar á nýársnótt og varð vitni að landgöngu og skemmtan selanna. Hann fylgdist með framferði þeirra um stund og hreifst mjög af fegurð stúlknanna, enda dönsuðu þær naktar í tunglsljósinu. Hann sá hvar hamirnir lágu og ákvað að taka einn þeirra og geyma.
Þegar hillti undir dögun tóku selirnir á sig hamina og stungu sér í sjóinn, allir nema ung stúlka, sú sem átti haminn er bóndinn hafði tekið. Bóndinn neitaði að fá henni aftur haminn þótt hún þrábæði hann, fékk hana með sér heim og tók sér fyrir konu. Haminn læsti hann niður í kistu og bar lykilinn ávallt á sér. Mikið óyndi var ætíð í konunni þótt hún yndi hag sínum vel að öðru leyti og elskaði mann sinn.
Liðu nú fram stundir og eignuðust þau sjö börn, á sjö árum. En þá gerðist það að bóndi var að fara til sjós, skipti um buxur og gleymdi lyklinum heima. Konan stóðst þá ekki mátið, opnaði kistuna og náði hamnum. Þegar bóndi áttaði sig á að hann hafði gleymt lyklinum sneri hann til lands og sá þá hvar konan var komin niður að sjó og hafði farið í haminn. Hann heyrði hana telja harmatölur sínar og mæla fram þessa vísu:
Mér er um og ó,
ein af fólki Faraó,
á sjö börn í sjó
og sjö á landi þó.
Að svo mæltu stakk hún sér í sjóinn og sneri ekki aftur. En þegar börn bónda voru síðar að leik í fjörunni sást selur synda skammt frá landi og segja sumir að hann hafi kastað leikföngum til barnanna. Bóndinn varð hins vegar aldrei samur eftir þetta og dó að lokum af harmi (sbr. Sigfús Sigfússon: Ísl. þjóðs. IV, 187-188).
Dýrahljóð geta verið misjöfn eins og mannanna. Oftast er þó sagt að asninn hríni. Selurinn er sagður góla.
Alls eru þekktar 33 tegundir hreifadýra (Pinnipedia) en þær eru flokkaðar í tvær yfirættir (e. superfamily). Annars vegar er það yfirættin Phocoidea en til hennar teljast 18 tegundir hinna eiginlegu sela: átuselur, weddell-selur, pardusselur, ross-selur, landselur, útselur, beltanóri, hringanóri, bajkalselur, kaspíaselur, vöðuselur, kampselur, blöðruselur, blettanóri, sandvíkurselur, munkselur, skerjasæfíll og kóngasæfíll.“
Meðfylgjandi mynd af selum eru teknar við Skógtjörn á Álftanesi.
Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=6378
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=73613