Hænsn – íslenskar hænur
Jafnan er talað um „landnámshænsn“ og þá átt við þau hænukvikyndi sem landnámsmenn komu með hingað til lands frá Noregi og/eða Færeyjum. Á sjöunda áratugnum var þetta hænsnakyn sem hugsanlega hefur verið til í landinu frá landnámi, mjög nálægt því að deyja út.
Íslenska hænsnakynið var mjög harðgert og hafði ýmsa aðra eiginleika sem önnur kyn hafa ekki haft. Það blandaðist þó brátt með öðrum kynjum eða kynblendingum. Þannig fengust og bæði fallegri fuglar og litríkari, en líka litlausari.
Íslensku hænurnar voru litlar, 1,3 – 1,5 kg að þyngd en hanar 1,7 – 2,0 kg. Þær höfðu allar gulhvítar eyrnaskífur. Flestar höfðu frekar lítinn fiðurtopp á höfði. Þær voru mismunandi á lit en svart og brúnt var algengasti liturinn. Þær voru mjög fúsar til að unga út eggjum og var það mjög einkennandi eiginleiki. Eggin voru frekar keilulaga 50 – 60 gr. að þyngd og voru frá því að vera svo til hvít til þess að vera ljós brún.
Soðin eggin voru þétt í sér og mjög bragðgóð.
Íslenskar hænur voru hvorki með fiðraða fætur eða vangaskegg en dverghænur sem lengi voru til víða um land blönduðust íslenskum hænum mjög auðveldlega. Þær eru mjög gjarnan með þannig fiðurlag og sömuleiðis með mjög fjölbreyttar kambgerðir. Stundum komu fram litaðir einstaklingar frá þeim sem seldu holdakjúklinga til áframeldis. Hætt er við því að þessir fuglar ásamt dverghænum hafi náð að blandast inn í íslenska stofninn.
Ekki má heldur gleyma að á Íslandi voru til innfluttir litaðir stofnar s.s. Brúnir ítalir og Barred Plymuth Rock – holdakyn frá USA sem var nokkuð útbreitt hér fyrir austan á árunum milli 1950 og 1960. Telja má svo til öruggt að bæði þessi kyn og ekki síður Hvítir ítalir, hafi víða blandast gamla íslenska hænsnakyninu.
Fyrr á tímum voru íslenskar hænur til á flestum sveitabæjum, litlar, harðgerðar og mjög litskrúðugar eins og íslensku búfjárkynin. Þessar hænur fengu að vera úti mikinn hluta ársins og voru fundvísar á ýmislegt ætilegt á rölti sínu um hlaðvarpann. Þær fengu og líka alla grænmetismatarúrganga frá heimilinu sem hundarnir ekki vildu. Þær verptu vel yfir sumarið og unguðu jafnvel út – ef þær fengu það.
Upp úr 1970, þegar farið var að huga að restunum af þessu kyni, var einungis vitað var með vissu um eina hreinræktaða hænu, sem orðin var meira en 15 ára gömul. Þessa hænu átti Svandís Jónsdóttir á Selsstöðum í Seyðisfirði. Hún átti miklar þakkir skildar fyrir að ala hana svo lengi en þessa hænu ásamt fleirum fékk hún hjá tengdaforeldrum sínum sem fluttu til Seyðisfjarðar frá Bárðarstöðum í Loðmundarfirði 1949 og hefur þessi hænsnastofn vafalítið verið þaðan kominn.
Veturinn eftir útvegaði Ólína Jónsdóttir, íslenskan hana frá Þorbrandsstöðum í Vopnafirði. Vorið eftir verpti Toppa 10 eggjum sem ungað var út í útungunarvél, og klöktust 6 ungar úr þeim, 4 hænur og 2 hanar. Nokkrum árum seinna, þegar Dr. Stefán Aðalsteinsson hjá RALA hóf að safna restunum af íslenska hænsnakyninu, var kominn upp all góður stofn af þessum hænum, og var hægt að senda 104 egg til útungunar og 48 nýklakta unga sem aldir voru upp af RALA í Þormóðsdal í Mosfellssveit, en þetta voru um 28 % af þeim eggjum sem söfnuðust og 60 % af lifandi fuglum. Uppeldið gekk vel og var stofninn í umsjá RALA til ársins 1985 er honum var komið í fóstur á Hvanneyri. Nokkru seinna var hætt að vista stofninn á Hvanneyri en bændur á Steinum II í Stafholtstungum og Syðstu-Fossum í Andakílshreppi fengnir til að sjá um stofninn. Það er af Toppu gömlu að segja að hún verpti ekki framar en lifði þó nokkur ár til viðbótar, í góðu yfirlæti hjá fóstra sínum.
Af og til komu fréttir af íslensku „landnámshænsnunum“ í fjölmiðlum sem urðu þess valdandi að fólk hafði nokkrar áhyggjur af stofninum þar sem virtist sem að allar ræktaðar íslenskar hænur væru af íslenskum stofni og þar með er þeim dembt inn í ræktunina. Það er svo ekki fyrr en 2002 að safnað var saman eggjum til útungunar frá nokkrum af þeim sem töldu sig vera með íslenskar hænur. Fuglarnir sem komu úr þessum eggjum ollu miklum vonbrigðum því þeir voru mjög misjafnir bæði að stærð og útliti – greinilega blendingar. Ekkert er öruggara til að eyðileggja hreinræktaðan stofn en að blanda í hann fuglum af öðrum stofnum. Það var einungis á tveim stöðum sem íslenska stofninn eins og hann hafði verið ræktaður hann en það var á Naustum við Akureyri nokkrar hænur og í Kristnesi hjá þeim Helga og Beate en þau höfðu fengið fugla frá Hvanneyri rétt eftir að stofninn var fluttur þangað og engu blandað í hann síðan. Reyndar hafa þau beint litavalinu í ræktuninni að svörtum lit þannig að lang flestir fuglarnir eru svartir og mjög fallegir, en aðrir litir eru samt til staðar.
Haughænsn eða landnámshænan eiga uppruna sinn að rekja til landnámstíma þessa lands og eru mjög skrautleg að lit. Stofninn einkennist af litlum og harðgerðum einstaklingum og skartar öllum regnbogans litum, sérstaklega hanarnir. Þessi tegund hefur ekki hentað sem varphænur og um miðja síðustu öld hófst markviss ræktun erlendrar varptegundar. Varð fyrir valinu hvít tegund ,hvítur Ítali, frá Miðjarðarhafinu að uppruna. Frjóvguð egg eru flutt inn til landsins reglubundið og þeim ungað út í sérstakri sóttkví. Þeir dvelja svo um stund í einangrun áður en þeim er dreift til kjúklinga- og eggjaframleiðenda víða um land. Stærstu hænsnabúin eru á Reykjanesinu og á Suðurlandi.
Ýmislegt hefur gengið á í íslenska landnámsstofninum í gegnum tíðina og nánast þótti útséð um að stofninn myndi deyja út ef ekki yrði eitthvað að gert. Nú í dag hefur í fyrsta sinn á landinu verið stofnað félag er einsetur sér að halda íslensku hænunni hér við. Það nefnist Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna og var stofnað 1. nóvember 2003. Stofnendur þess voru 148 talsins en nú hafa bæst við 19 félagar í viðbót. Að sögn Jóhönnu G. Harðardóttur, einum af stofnendum þess, eru í dag að meðaltali 8-10 hænur á eigenda er halda þær hér á landi. Ekki eru svokallaðar dverghænur inn í þessari tölu né þær taldar til landnámshænsna.
Heimildir:
-husdyragardur.is/htmlphp/haensni.htm#nanari
-Mbl. 13. maí 1995