Alfaraleiðin

Alfaraleiðin

Hér er Alfaraleiðin rakin frá Kúagerði að Þorbjarnarstöðum í Hraunum við Hafnarfjörð. Þetta er austari hluti Almenningsvegarins frá Vogum, gamla þjóðleiðin millum Innnesja og Útnesja.
UpphafNæst er haldið frá Kúagerði upp fyrir Reykjanesbrautina og að austurjaðri Afstapahraunsins en þar mátti rekja götuna áfram en líklega er hún nú horfin undir nýbreikkaða brautina. Rétt við gamla Keflavíkurveginn á móts við Hvassahraun er Hvassahraunsrétt og þar finnst gatan aftur ofan vegarins. Hún liðast upp hólaklasann á milli Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautarinnar. Innan við hólana hverfur hún síðan undir brautina rétt áður en vegirnir fara að liggja alveg samhliða austan Hvassahraunsbæjarr. Há uppfylling er þar sem Almenningsvegurinn kemur undan brautinni og þar er gatan mjög greinileg en vörður eru engar við hana á þessu svæði.
Handan Reykjanesbrautar kemur gatan í ljós skammt norðvestan við bifreiðaplan austan mislægra gatnamóta. Þar er hún vel greinileg, en vanrækt hefur verið að merkja „upphaf“ hennar þar. Þarna er kjörinn upphafsstaður ef fólk vill ganga leiðina áleiðis til Hafnarfjarðar, enda um þægilega göngu að ræða, ca. 1 1/2 – 3 klst.
Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást  á stangli við götuna. Áberandi varða á hæð hægra megin götunnar er framundan. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Varða er úleiðis hægra megin. Um er að ræða gamla hlaðna refagildru.

AlfaraleiðinInnan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð[ir] og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðir með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Í suðaustri sést varða í allnokkurri fjarlægð. Þar er selsvarðan ofan Lónakotssels. Selstígurinn liggur þarna yfir Alfaraleiðina þar sem tvær vörður eru við veginn.
Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing á mörkum Straums og Óttarsstaða. Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er sú fyrsta af nokkrum fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Kapelluhrauni. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Þar skammt frá liggur Rauðamelsstígur (Skógargatan/Óttarsstaðaselsstígurinn) yfir veginn. Norðar liggur svo vestari Straumsselsstígur yfir götuna, skammt vestan Miðmundarhæðar. Á hæðinni er há varða, Miðmundarvarða, eyktarmark frá Þorbjarnarstöðum. Neðan við Alfaraleidin-37hæðina er gatan mjög greinileg en frá hólnum uns hún hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahús á vegum álversins). Þar  sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra en það er nú með öllu horfið vegna rasks.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Kapellan er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna og allt til Hafnarfjarðar er gatan óljós eða með öllu horfin, en norðan Reykjanesbrautar, austan álversins, sést hún liðast um Hellnahraunið áleiðis að Hvaleyri. Þar er nú golfvöllur og stendur ein varðan innan um flatirnar. Skammt innan og norðan við hana stendur há og reisuleg markavarða.
Sjá MYNDIR.

Heimild m.a:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.

Ferðalangar