Álfhóll – skilti
Við Álfhól í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar má m.a. lesa eftirfarandi:
Hóllinn er trúlega þekktasti álfhóll Kópavogs og hefur skapað sér slíkan sess í skipulagi bæjarins að varla verður honum hnikað héðan af. Hann er sýnilegt dæmi um þjóðtrú Íslendinga og hve sterk hún hefur verið allt fram á þennan tíma. Hólinn mætti merkja með látlausum hætti.
Álfhóll er stórgrýttur grasi gróinn hóll sem gengur út í götuna. í hólnum er sagt að búi þrír álfar, einn gamall og tveir unglingsálfar; en að þeir hafi verið fleiri hér áður.
Fjórum sinnum er talið að álfar hafi haft áhrif á framkvæmdir við hólinn.
Byrjað var á lagningu Álfhólsvegar seint á fjórða áratugnum. Veginn átti að leggja frá Hafnarfjarðarvegi að Álfabrekku og tengja við Nýbýlaveg. vel gekk að leggja veginn út að Álfhólnum en þegar þangað var komið og átti að fara að sprengja var framkvæmdafé uppurið. því er haldið fram að álfar hafi komist í bókhald bæjarins.
Áratug síðar átti að hefja framkvæmdir aftur. Fyrsta skrefið var að ryðja burt hólnum en þegar þær framkvæmdir hófust fóru dularfullir atburðir að gerast. Vinnuvélar biluðu, verkfæri skemmdust og mörg þeirra hurfu á óskiljanlegan hátt. Hætt var við að ryðja burtu hólnum og var settur hlykkur á veginn fram hjá honum.
Í lok níunda áratugarins átti að endurbæta veginn. Framkvæmdirnar gengu mjög vel þar til ráðgert var að leggja mabik upp að hólnum. Fjarlægja átti hluta hólsins en til þess átti að nota öflugan steinbor tengdan kraftmiklli loftpressu. Þegar menn hófust handa við að bora í klöppina þá brotnaði borinn. Það dugði heldur ekki til að ná í annan bor því allt fór á sama veg og segja sjónarvottar að hann hafi hreinlega kubbast í sundur.
Í kjölfar þess neituðu verkamenn að koma nálægt hólnum með vélar og verkfæri. Vegaskipulaginu var breytt og er þarna þrenging og hraðahindrun á veginum ásamt gangbraut sem þjónar vel þeim börnum sem sækja Digranesskola.
Áhrifum álfa var þó ekki lokið. Lóðunum austan við hólinn var úthlutað á níunda áratugnum og þar á meðal var lóðin Álfhólsvegur 102, sú sem næst liggur hólnum. Eigandi lóðarinnar hóf þar aldrei framkvæmdir heldur skilaði lóðinni með þeim skýringum að honum litist ekki á lóðina og vildi ekki byggja þar. Að öðru leyti vildi hann sem minnst um málið segja. Hvort sem álfum var um að kenna eða ekki þá er enn ekkert hús númer 102 við Álfhólsveg og fellur lóðin ásamt hólnum nú undir bæjarvernd.
Hvort sem um er að ræða álfa, röð tilviljana eða ókunnug öfl þá er Álfhóllinn athyglisvert kennileiti í bænum. Örnefnið er hluti af sögu bæjarins og álfasögurnar af þessum skemmtilega stað gefa tilefni til mikilla vangavelta.