Ástjörn
Gunnar Ólafsson og Guðríður Þorvarðardóttir skrifuðu grein um „Ástjörn“ í Náttúrufræðinginn árið 1998:
„Ástjörn við Hafnarfjörð er í kvos vestan undir Ásfjalli og er u.þ.b. 4,71 ha að stærð. Bakkar tjarnarinnar eru raklendir og að norðaustanverðu er stórt mýrarstykki niður undan gamla Ásbænum en mýrlendið við tjörnina er samtals 8,46 ha að stærð. Upp af votlendinu taka við þurrir grýttir móar sem eru að gróa upp og hefur trjám verið plantað í þá norðan og austan megin við tjörnina. Tvö gömul tún eru norðan tjarnarinnar, annars vegar við Stekk og hins vegar við Ás.
Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna eina flórgoðavarpið á Suðvesturlandi og í tjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað. Vegna þessarar sérstöðu var Ástjörn og svæðið umhverfis hana friðlýst í samræmi við náttúruverndarlög árið 1978. Í desember 1996 var verndarsvæðið stækkað með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið. Umhverfisnefnd Hafnarfjarðar hefur umsjón með friðlandinu og annast stjórn og eftirlit með fólkvanginum. (Stjórnartíðindi B, nr. 189/1978 og nr. 658/1996.)
Tilurð Ástjarnar
Ástjörn á tilveru sína að þakka hrauni sem hefur lokað fyrir eðlilegt afrennsli vatns úr dalkvosinni sem tjörnin er í. Ástjörn er því uppistöðutjörn sem er lokuð af hraunstíflu. Hið sama á við um Hvaleyrarvatn sem er í dalkvos milli Vatnshlíðar og Selhöfða sunnan við Ásfjall. Vötn og tjarnir af slíkri gerð einkennast af því að þau eru oft vogskorin og tiltölulega næringarrík og ber Ástjörn af hvað dýralíf og gróður snertir. Hraunið sem myndar stífluna liggur að tjörninni vestanverðri. Áður en hraunið rann hefur sennilega verið mýri þar sem Ástjörn er nú og afrennsli til sjávar verið vestan við Hvaleyrarholt. Í dag er ekkert yfirborðsrennsli úr tjörninni en áður en framkvæmdir við íþróttasvæði Hauka hófust árið 1990 féll stundum læna úr tjörninni milli hraunsins og Hvaleyrarholts, en náði þó jafnan skammt (Freysteinn Sigurðsson 1976).
Hvaleyrarholt og Ásfjall eru að mestu úr grágrýti sem er yngra en 0,7 milljón ára og undir Ástjörn er einnig að finna grágrýti frá sama tíma. Hraunið sem stíflar Ástjörn er hluti af Hellnahrauni, sem er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og sjást þess engin merki að það hafi nokkurn tíma verið gróið að marki. Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hafa verið nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun.
Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra-Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra-Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Yngra-Hellnahraun hefur einnig verið nefnt Tvíbollahraun, en það hefur að öllum lfkindum runnið í sömu goshrinu og Breiðdalshraunið á síðari hluta 10. aldar og komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum (Sigmundur Einarsson 1991).
Út frá þessu má ætla að Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum, er Eldra-Hellnahraun rann, en kringum árið 950, þegar Yngra-Hellnahraun myndaðist, rann hrauntota fyrir norðvesturenda tjarnarinnar og tjörnin fékk á sig núverandi mynd.
Gróður í og við Ástjörn
Við Ástjörn eru ýmsar gerðir gróðurlenda: votlendi, lyngmóarog bersvæðisgróður auk gróðurs í hraunsprungum. Fjölbreytilegur gróður vex í tjörninni og næsta nágrenni hennar.
Í suðausturenda tjarnarinnar vex tjarnastör á allstóru svæði. Í þessum fláka verpir flórgoðinn en hann byggir sér flothreiður, einn íslenskra fugla, og notar m.a. störina til þess.
Nokkrar sjaldgæfar plöntur vaxa í tjörninni og má nefna tjarnarlauk, sem vex á botni hennar, álftalauk sem vex að jafnaði á kafi í vatni og sennilega einnig vatnalauk. Blautasti hluti mýrlendisins er prýddur hófsóleyarbrúskum á vorin en síðsumars skartar engjarósin þar dökkrauðu.
Burknar eru algengir í hrauninu við Ástjörn, t.d. og stóriburkni, fjöllaufungur og þríhyrnuburkni en gróður í hraungjótum líkist annars mjög þeim gróðri sem finnst í skógarbotnum.
Í móunum vestan við Ástjörn vex blátoppa, sem er af grasaætt og vex víða á holtum á höfuðborgarsvæðinu og suður fyrir Hafnarfjörð en er afar fágæt annars staðar á landinu. Einnig má þar finna gullkoll og í graslendinu við Stekk má síðsumars sjá stórar breiður af maríuvendi.
Í lýsingu Garðaprestakalls frá árinu 1842 er sagt að innan um hraunin og í fjallshlíðum í sókninni hafi vaxið hrís, víðir, einir og lyng. Hrísið óx meðal annars sunnan í Ásfjalli. Hrísið, sem að öllum líkindum hefur verið fjalldrapi, var notað sem skepnufóður og til eldiviðar og var þegar árið 1842 talað um að eyðing þess væri vandamál (Árni Helgason 1938).
Fuglalíf við Ástjörn
Við Ástjörn má finna kjörlendi allmargra fuglategunda. Nokkrar tegundir verpa þar að staðaldri en Ástjörn er einnig viðkomustaður ýmissa tegunda á leið til og frá landinu, enda er fæðuframboð í tjörninni mikið. Fuglar eru sérhæfðir í búsvæðavali og ákveðnar tegundir eru bundnar við vissar gerðir búsvæða. Almennt má segja að ein meginforsendan fyrir fjölbreyttri varpfuglafánu á tilteknu svæði sé margbreytileiki í gerð búsvæða.
Þótt friðlandið sé lokað allri almennri umferð yfir varptímann (1. maí – 15. júlí) er fuglaskoðun með sjónauka möguleg frá jaðarsvæði friðlandsins. Þó svo að fuglaskoðarar séu utan friðlandsmarka verður ætíð að gæta þess að trufla ekki fuglalífið. Á Ástjörn og í næsta nágrenni hennar má sjá fjölmargar fuglategundir.
Nokkrir mjög sjaldgæfir fuglar hafa einnig sést við Ástjörn og má þar til nefna trjámáf, sem er amerísk tegund og líkist hettumáfi en er minni og spengilegri, svo og dvergmáf og kolþernu(Arnþór Garðarsson 1979).
Flórgoðinn
Flórgoðinn er minni en minnstu endur og í varpbúningi með einkennandi gullna eyrnaskúfa á dökku höfðinu. Í góðum sjónauka má sjá rauðleitan háls og síður. Flórgoðinn verpir við ferskvötn þar sem hann hefur fæðu og varpstaði við sitt hæfi. Aðalfæða flórgoðans á sumrin er hornsíli og vatnaskordýr. Algengast er að sjá flórgoða kafa eftir æti en þeir tína líka af vatnsborðinu. Flórgoðinn er einstakur meðal íslenskra fugla því hann er algjörlega háður vatnalífi og fer ekki einu sinni á land til að verpa, heldur gerir sér flothreiður sem hann festir í stör eða annan vatnagróður. Flórgoðar ættu að hafa fæðu við sitt hæfi í Ástjörn og vötnum í nágrenninu eins og Urriðakotsvatni og Vífilsstaðavatni, en ákjósanleg varpskilyrði er aðeins að finna í tjarnarstarabreiðunum við Ástjörn og Urriðakotsvatn.
Flórgoðinn var áður nefndur sefönd, enda héldu menn að hér væri um önd að ræða.
Í ferðabók Eggerts og Bjarna (1975), sem segir frá ferðum þeirra á árunum 1752-1757, kemur fram að sefönd hafi verið á stöðuvötnum í Gullbringusýslu. Ekki segir hvort um varpfugla sé að ræða eða hvort hún hafi aðeins sést á vötnunum.
Fyrr á þessari öld voru flórgoðar mun tíðari varpfuglar á Suðvesturlandi en nú og var m.a. vitað um varp við Silungatjörn og Leirtjörn á Miðdalsheiði og Rauðavatn ofan Reykjavíkur, auk Urriðakotsvatns og Ástjarnar. Sumarið 1992 var svo komið að á öllu svæðinu frá Laugardal í austri að Hofgarðatjörn á Snæfellsnesi í vestri var aðeins eftir ein flórgoðabyggð, þ.e. við Ástjörn og Urriðakotsvatn.
Elstu heimildir um flórgoðabyggðina við Ástjörn eru frá 1954 en fyrir þann tíma er ekki vitað til að fuglaskoðarar hafi sótt þangað. Flórgoðar hafa verið árvissir varpfuglar við tjörnina alla tíð síðan (4-6 pör). Elstu heimildir um flórgoða við Urriðakotsvatn eru frá svipuðum tíma og við Ástjörn. Þeir eru óreglulegir varpfuglar við Urriðakotsvatn en stöku pör hafa orpið þar á undanförnum árum.
Fornir vegir hjá Ási
Fyrr á öldum lágu margar leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og voru það ýmist vegir, götur eða stígar. Sú leið sem mest var farin, og aðallega þegar farið var með hesta, lá úr Hafnarfirði öðru hvorum megin við Hamarinn upp yfír Öldur, þar sem nú er kirkjugarðurinn, framhjá Lækjarbotnum og upp í Kaldársel. Þaðan lá leiðin að Undirhlíðum og síðan ýmist norðan við Undirhlíðar eftir svonefndum Undirhlíðavegi eða sunnan við Undirhlíðar eftir svonefndri Dalaleið. Undirhlíðavegur var aðalvegurinn milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar og var oftast farinn á sumrin þegar farið var lausríðandi eða með lest. Var þessi leið talin vera um 8 stunda lestargangur. Þegar Undirhlíðavegur var valinn var farinn Ketilstígur yfir Austurhálsinn yfir í Krýsuvík, en ef Dalaleið var valin var farið með norðurströnd Kleifarvatns að Krýsuvík.
Gangandi menn fóru oft um tvo stíga, Stórhöfðastíg og nokkru vestar Hrauntungustíg, milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi.
Þegar ferðamenn ætluðu Stórhöfðastíg var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, og oft gist þar ef menn komu t.d frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls og suður yfir Selhraun að Stórhöfða og þaðan áfram að Fjallinu eina og komið inn á Undirhlíðaveg við Norðlingaháls. Ef menn völdu Hrauntungustíg var farið frá Ási um Skarð vestan Ásfjallsaxlar yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness og stefnan tekin á Hrútafell, en skammt þar sunnan við er komið inn á Ketilstíg (Ólafur Þorvaldsson 1949).“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 67. árg. 1997-1998, 3.-4. tbl. bls. 275-286.