Bláhvíti fáninn
Bláhvíti fáninn var herfáni íslenskrar sjálfstæðisbaráttu á fyrstu árum 20. aldar, fáninn sem Einar Benediktsson hyllti með kvæði sínu Rís þú unga Íslands merki.
Danir kölluðu bláhvíta fánann mótmælafánann. Í júnímánuði 1913 lá danskt varðskip á Reykjavíkurhöfn og blöktu danskir fánar víða um bæinn í virðingarskyni. Verslunarmaðurinn Einar Pétursson, bróðir Sigurjóns glímukappa á Álafossi, var á skemmtisiglingu um höfnina og hafði dregið upp bláhvíta fánann á báti sínum. Foringi danska varðskipsins taldi þetta ögrun og vanvirðingu við kónginn og lét taka fánann af Einari. Mikil reiðialda fór um Reykjavík þegar þetta spurðist, dönsku fánarnir hurfu allir sem einn af húsum bæjarins og brátt blakti bláhvíti fáninn á hverri stöng. Boðað var til fjölmenns mótmælafundar um kvöldið með þessum orðum: Dönsku hervaldi var í morgun beitt í íslenskri höfn! Og þegar danski sjóliðsforinginn gekk á land höfðu Íslendingar fjölmennt á Steinbryggjuna og myndað eins konar göng með bláhvíta fánanum og varð sá danski að lúta örlítið undir fánaborginni þegar hann gekk upp bryggjuna.