Botnadalur – Huldufólkskirkja; skilti

Botnadaldur

Í Botnadal í Grafningshreppi er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Huldufólkskirkja í Botnadal.

Hafsteinn Björnsson

Hafsteinn Björnsson (1914–1977).

Hamrabeltið hér fyrir ofan virðist ekki merkilegt við fyrstu sýn og af því fara raunar ekki miklar sagnir. Hafsteinn Björnsson, miðill, hefur lýst því sem fyrir hann bar á þessum stað árið 1938. Hann dvaldist á Nesjum í Grafningi um tveggja ára skeið og varð oft var við huldufólk, kindur þess og hesta. Undir lok dvalarinnar var hann orðinn vel kunnugur huldufólksbygðinni og vissi upp á hár hver bjó í hvaða steini og kletti.

Sagan héðan úr Botnadal hljóðar svo:
„Ég var staddur í brekkunni norðvestan megin í dalnum. Furðaði mig stórlega á því, sem mér nú bar fyrir augu. Stór hóll, sem ég hugði að ætti að vera þarna gegnt mér hinum megin í dalnum, var allt í einu horfinn. Í stað hans blasti við mér fögur kirkja. Stóð kirkjan opin og sá ég inn að altarinu. Þar á loguðu ljós og yfir því var fögur altaristafla. Litur kirkjunnar að innanvar ljósblár. Sá ég nú að fólk dreif að úr öllum áttum. Sumir komu ríðandi, aðrir fótgangandi. Þetta fólk var á öllum aldri, allt frá smábörnum á fyrsta ári upp í hrörleg gamalmenni, sem rétt eigruðu áfram.

Botnadalur

Botnadalur – kort á skiltinu.

Búningur fólkisns var harla sundurleitur. Var sumt fremur fátæklega til fara, en margir voru þarna í glitklæðum og var búningur sumra kvennanna mjög skrautlegur. Presturinn var háaldraður, stór vexti og virðulegur með hvítt alskegg, sem féll niður á bringu. Hann kom frá bæ, sem var skammt frá kirkjunni, kom hempuklæddur út úr bænum og gekk þannig til kirkjunnar.“
Hafsteinn fylgdist með athöfninni, sem var greinilega skírn tveggja barna. Sýnin tók þó brátt enda:
„En allt í einu var stórri hendi brugðið fyrir auglit mér og henni veifað fram og aftur. Fékk ég þá glýju í augun og fann til hræðslu. Ég reyndi samt að láta eins og ekkert væri. Og í gegnum þessa stóru hönd sem stöðugt tifaði fyrir andlitinu á mér sá ég eins og í móðu huldufólkskirkjuna og fólkið, sem nú var að ganga út, þar til er allt rann saman við umhverfið. Höndin, sem brugðið var fyrir augu mér, hvarf og sýnin var horfin. Eftir stóð venjulegur hóll, þar sem kirkjan hafði áður staðið.“
Árið áður en þetta gerðist hafði Hafsteinn séð skrautbúið fólk koma gangandi yfir ísi lagt Þingvallavatn og stefna á Botnadal. Eftir að hann varð vitni að skírninni taldi hann víst að það hefði verið á leið til messu í huldufólkskirkjunni.“

Botnadalur

Botnadalur – huldufólkskirkjan t.v.