Ögmundarhraun

Á Reykjaneskaganum eru skráð 29 þekkt tófugreni, en bæði eru og hafa sannarlega verið miklu mun fleiri í gegnum tíðina. Mergðin uppgötvast fyrst og fremst við fyrstu snjóa haustsins þar sem varla verður þverfótað fyrir tófusporum ofan byggða. Fátækt skráninganna skýrist fyrst oog fremst á skilningsleysi hlutaðeigandi skráningaraðila, auk þess sem við grenin virðist við fyrstu sýn vera fátt um mannvistarleifar.

Vogaheiði

Yrðlingur við greni í Vogaheiði.

Ef hins vegar, ef betur er að gáð, er því öðruvísi farið; bæði má sjá við þau fyrirhleðslur, hlaðnar litlar vörður sem og hlaðin skotbyrgi refaskyttna. Og ef enn betur er gaumgæft má sjá í námunda við þau bæli skyttanna og ummerki eftir dvöl þeirra þar, s.s. tóm vínföng o.fl. Skilja má hugi viðkomandi i ljósi sögunnar því á tímabili voru verðmæti refaskinnanna metin á við „Skagfirskan hest“.
Þekkt greni voru, á tímum refaskyttnanna, merkt með þremur vörðum, með þremur steinum hver, umhverfis grenið. Slík merkt greni má t.d. enn sjá ofan Lónakotssels og víðar.

Eldborgargreni

Eldborgargreni ofan Knarrarnessels.

Elstu heimildir um refaveiðar á Skaganum eru minjar grjóthlaðinna refagildra. Þær eru 98 talsins á landssvæðinu. Samkvæmt sögnum, með tilkomu haglabyssunnar hér á landi um og eftir 1870, urðu til frægar þaulsetnar grenjaskyttur fyrrum. Þetta voru einstaklingar er lágu úti um sumarið heilu sólarhringana og stundum að vetrarlagi með það að markmiði að ná og drepa varginn. Brjóstbirtan hélt á þeim hita í einmannaleikanum, sem þeir reyndar kunnu svo vel við. Ummerkin má enn sjá við grenin neðst í Ögmundarhrauni, ofan Straumssels, við Þrætugrenin á mörkum Grindavíkur og Selvogs, í Vogaheiði og við Kálffell.
Dæmi má sjá minjar nálægt bæjum þar sem handsamaðir yrðingar voru geymdir með það að markmiði að nota þá til að efna fyrir foreldrið, svonefnd Yrðlingabyrgi.

Geldingahraun

Geldingahraun – Hryggjargrenið.

Skotvopna er reyndar fyrst getið á Íslandi í tengslum við þá atburði sem gerðust 1482 er Þorleifur Björnsson verst Andrési Guðmundssyni og mönnum hans vopnuðum byssum þegar þeir ráðast á virkið á Reykhólum. Byssueign var fyrst orðin nokkuð almenn á 19. öld en Skotfélag Reykjavíkur (Reykjavig Skydeforening) var fyrsta íþróttafélag á Íslandi. Það var stofnað 1867. Skothúsvegur í miðbæ Reykjavík dregur nafn sitt af æfingahúsi þess.
Tveimur árum síðar 21. nóvember árið 1869 stóðu fimmtán menn að stofnun skotfélags Keflavíkur Riffel-Skytte-Forening for Kjeblevig og Omegn, allt kunnir kaupmenn og borgarar í þorpinu. Í fyrstu stjórninni sátu H.P. Duus kaupmaður og faktorarnir P.I. Levinsen og Ólafur Norðfjörð.

Snorri Jóhannesson

Snorri Jóhannesson.

Árið 1872 tókst félaginu að koma sér upp sérstöku húsi til fundahalda og nefndist það Skothúsið. Mun það vera fyrsta húsið í Keflavík sem sérstaklega var byggt til samkomuhalds og voru dansleikir haldnir í húsinu auk funda félagsins. Skothúsið stóð upphaflega fyrir ofan Duustúnið eða nálægt gatnamótun Grófinnar og götunnar út á Berg. Það var seinna keypt af Jóni Ólafssyni útvegsbónda og flutt á lóð hans við Vesturgötu og gert að íbúðarhúsi. Skothúsið var rifið árið 1906 er Jón byggði núverandi hús á staðnum.

Í Borgfirðingabók 2013 segir Snorri Jóhannesson frá tófunni og tófuveiðum. Auðvelt er með góðum skilningi að heimfæra frásögn hans upp á slíkar veiðar á Reykjanesskaganum fyrrum:
„Íslenski refurinn er náskyldur og nauðalíkur ref bæði á Grænlandi, Svalbarða og í norður Skandinavíu, en á síðasttalda staðnum er heimskautarefurinn nánast að verða aldauða.

Refur

Refur.

Hér á landi eru tvö litarafbrigði, hvítt og mórautt, þessi dýr para sig saman og eru að flestu leyti eins ef undan er skilinn liturinn. Jafnvel þótt hvítt og mórautt dýr eigi saman yrðlinga verður ekki um nein litarafbrigði að ræða, yrðlingarnir verða annað hvort hvítir eða mórauðir, þar segir móðir náttúra stopp. Nokkuð mun hafa sloppið út úr refabúum, bæði fyrr á árum og eins nú í hinu seinna refaeldi.
Dýr sem hafa orðið til við æxlun íslenska refsins og þessara dýra hafa sum annan litarblæ og er þetta sérstaklega áberandi á yrðlingunum, eins virðast þau erfa aukna frjósemi. Hinsvegar sluppu út silfurrefir á fyrrihluta sl. aldar og tímguðust í einhverjum tilfellum með íslenska refnum, vel mátti merkja áhrif þess fyrst á eftir en þau eru löngu horfin, enda var það ekki í miklum mæli sem þau dýr sluppu, og voru auðunnin.

Eldvörp

Leiðigarður fyrir tófu í Eldvörpum þar sem eitrað var fyrir ref.

Veiðar hafa breyst mikið á undanförnum árum, færst víða frá því að vera vel skipulagt nauðsynjaverk, unnið af alúð og samviskusemi, í það að verða illa eða ólaunað sport, framkvæmt af hverjum þeim sem áhuga hefur. Á þetta sérstaklega við um vetrarveiðar. Grenjavinnsla er sem betur fer enn stunduð líkt og áður hjá mörgum sveitarfélögum, en önnur hafa dregið úr og jafnvel hætt, dyggilega studd af mönnum sem telja brýnna að rannsaka en veiða. Sumir þessara manna telja að veiðar séu til einskis án undangenginna rannsókna.

Refur

Refur.

Íslenski refurinn er lítið dýr, meðalþyngd um tæp 4 kg, læður um 3.1 og refir 3.6. Í eðlilegu árferði bæta dýrin nokkuð á sig yfir vetrarmánuðina eða allt að hálfu kílói og verður þá meðalþyngd oft aðeins rúm fjögur kíló. En ýmis frávik eru eðlilega frá því, til eru dæmi um refi allt að átta kílóum. Ekki veit ég hver meðalfjöldi yrðlinga er, en samkvæmt mínum gögnum er sú tala ríflega fjórir. Fæstir refir verða eldri en átta til tíu ára þótt í einstaka tilfellum sé vitað, að eldri dýr hafi veiðst. Þeir eiga ekki nokkurn óvin í náttúrunni nema manninn og afföll eru ekki teljandi ef undan eru skildar veiðar.
RefirFlest vetrarveidd dýr, allavega þau sem veiðast í skothúsum, eru á fyrsta eða öðrum vetri, enda ekki óeðlilegt þar sem fjöldi ungra dýra er nokkuð mikill að hausti sérstaklega þar sem illa er staðið að grenjavinnslu. Sagt hefur verið að refurinn sé þindarlaus en auðvitað er það ekki rétt, eins var sagt, að vegna þess ætti hann erfitt með að hlaupa undan brekku. Refurinn er hinsvegar brekkusækinn, leitar ávallt á brattann sé hann á flótta, og skilar vel. Mér hefur virst að framlappir refa séu styttri hlutfallslega miðað við afturlappir, kann það ef satt er að vera ástæða þess að dýrin eru seinni niðurímóti en á brattann. En þetta er nú aðeins tilgáta.
RefagildraRefir hafa verið veiddir allt frá landnámi, og fyrr á öldum þóttu refabelgir (skinn) konungsgersemar og fékkst mikið verð fyrir, eins tel ég víst að fljótt hafi hagsmunir manns og refs rekist á og hafi veiðar verið stundaðar til að minka tjón sauðfjárbænda og þeirra er höfðu nytjar af varpi.
Það má finna í lögum, að menn eru skyldaðir til að drepa ákveðinn fjölda refa ella greiða refatoll. Ég tel líklegt að hér hafi verið mikið um refi fyrr á öldum og illa hafi gengið að fækka þeim með þeim aðferðum sem þá voru tiltækar.
Aðallega voru það gildruveiðar ýmis konar en með tilkomu skotvopna breyttist þetta mikið en þó ekki nóg og var þá gripið til þess að eitra. Ekki eru öruggar sagnir um áhrif þess eiturs sem notað var fyrstu árin, algengast var eitur úr jurtaríkinu sem hét eða nefnt Kransauga. En um það segir Kristleifur á Stóra-Kroppi.
Refagildra„Í ungdæmi mínu (1861) þekktist ekki annað eitur en Kransaugu. Voru það kringlóttar plötur, öskugráar að lit, á stærð við smáar jakkatölur. Á rönd þeirra var lítil karta, sem sýndi, að þau voru ávöxtur af stöngli slitin. Þau voru hörð sem horn. Voru þau tálguð niður í flísar og síðan skorin með tóbaksjárni, þar til þau voru fín sem duft.“ Ekki bar mönnum saman um árangur af þessu, en eftir að menn tóku að nota striknín nánast gjöreyddust refir á stórum svæðum, en smám saman fóru dýrin að vara sig á þessu og hættu sum þeirra að ganga í hræ. Hafa menn er til þekktu haldið fram að slík dýr hafi orðið varasamari gagnvart sauðfé, enda eingöngu orðið að reiða sig á veiðar.

Hryggjargreni

Refaskyttubyrgi við Hryggjargrenin.

Það var skylda að eitra og gerðu það bæði einstakir bændur og einnig sáu sum sveitarfélög til þess að eitrað væri í afréttum að afloknum leitum. Bannað var að bera út eitur 1964, og var það gert til verndar arnarstofninum, en ernir fóru gjarnan í eitruð hræ og drápust. Það má teljast merkilegt að ekki hlytust af slys á fólki þar sem stryknín sem er hvítt duft ekki ólíkt hveiti var til á mjög mörgum heimilum til sveita.
Kynni mín af tófum hófust snemma eða þegar ég kom barn að aldri að Húsafelli 1953. Eftir að hætt var að leita þar grenja snarfjölgaði tófunni. Henni tók að stórfjölga næstu árin og kvað þar svo rammt að, að varla var hægt að renna fé í vatn á Húsafelli án þess að bitið yrði.

Lónakot

Lónakot – yrðlingabyrgi.

Á árunum milli stríða var mjög hátt verð á refaskinnum og einnig yrðlingum. Var gangverð á fallegum mórauðum læðuyrðlingum allt að 300 kr sem lét nærri að vera verð fyrir snemmbæra kú á þeim árum, efnuðust margir á þessu og var slegist um að komast að við grenjavinnslu, sem dæmi má nefna að eitt vorið seldi Lárus í Grímstungu yrðlinga fyrir 10.000 kr. sem var mikill peningur á þeim árum.

Þessir yrðlingar voru teknir inná refabúin til eldis og skinnin síðan seld, einstaka læða var látin lifa til undaneldis. Þessu ævintýri lauk um það bil er seinna stríðið hófst og lögðust þá af öll refabú og markaður fyrir yrðlinga þar með.

Urðarásgreni

Urðarásgreni.

Snjóaárin 1994-5 fjölgaði tófugrenjunum til mikilla muna. Þau vor var illt fyrir refi að ná grenjum vegna snjóa og bleytu. Urðu þá dýrin að lækka á sér og gutu í byggð ef svo má segja. Á þessum árum var einnig orðin breyting í mörgum sveitum, jarðir komnar í eyði í búskaparlegu tilliti, og menn hættir að fara um hagana líkt og áður var. Þannig að þar kom upp mikið af grenjum, öllum að óvörum og virðist dýrunum líða vel og eru hér flest fjallagreni að verða ónýt vegna þess að ekkert dýr hefur viljað nýta þau um lengri tíma.
Veiðar fóru mest fram á vorin á grenjum, en þó hafa ætíð verið til menn sem hafa glímt við refinn á veturna, ýmist legið fyrir við æti eða rakið slóðir, örfáir hafa náð tökum á að líkja eftir hljóðum refa og hafa þeir oft náð góðum árangri. Nú eru einnig fáanlegar ýmsar gerðir af flautum sem hægt er að líkja eftir hljóðum refa með og hafa þær reynst mörgum vel.

Þrætugrenin

Hleðslur við Þrætugrenin.

Algengast var að tveir menn lægju saman á greni, grenjaskyttan og vökumaður, þó var nokkuð misjafnt hvað aðstoðarmenn voru titlaðir eftir landshlutum. Hér um slóðir var byrjað að gá í greni um 6. júní, helst ekki fyrr, en það gat þó raskast ef vart varð bíts. Eins áttu sumir bændur til að gá á
greni óumbeðið og væri þar búskapur varð að fara strax ella gátu dýrin flutt og reynst erfitt að finna þau aftur.
Það er þess vegna mjög góð regla að fara ekki að gá í greni nema að höfðu samráði við grenjaskyttu á viðkomandi svæði, þannig að tryggt sé að hægt sé að fara umsvifalaust finnist greni sem dýr eru í.
En þessi tími var meðal annars valinn vegna þess að líkur voru að yrðlingar væru á heppilegum aldri til að auðvelt væri að ná þeim, um tveggja til þriggja vikna gamlir.

Greni

Grenið í Lönguhlíðum.

Einnig er auðveldara að ná dýrunum þegar yrðlingarnir eru nýfarnir að fara út úr greninu, þá sækja bæði dýrin nokkuð jafnt að. Séu yrðlingarnir yngri, er refurinn oft laus við og kemur stundum ekki heim á grenið dögum saman, hinsvegar þegar þeir eldast, fara þeir að verða full aðgangsharðir við læðuna og breytast þá hlutverkin og tekur þá refurinn meira við uppeldinu.
Það má segja að himinn og haf sé milli aðstæðna þeirra sem liggja á grenjum nú til dags og þess er áður var. Á það við um nánast allt, frá klæðnaði, skotvopnum og einnig hve auðvelt er að komast að grenjum á farartækjum. Það var ekki fyrr en um miðja s.l. öld að notkun riffla með sjónaukum varð almenn við refaveiðar og óhætt er að segja að það sé einhver mesta byltingin hvað refaveiðar varða. Ég ætla mér ekki að hafa skoðun á hvaða rifflar, stærð skotfæra og sjónaukar henti best, enda nánast um trúarbrögð að ræða í þeim efnum. Þetta eru dýr tæki og má segja að verðið endurspegli gæðin, hinsvegar eru að mínu mati flest allir rifflar sem hér fást nægjanlega nákvæmir til refaveiða, en veldur hver á heldur. Það eina sem hefur færst til verri vegar er það, að nú til dags hafa menn ekki þann tíma sem oft þarf til (þolinmæði).

Mælifellsgreni

Skjól refaskyttu við Mælifellsgreni.

Oft getur verið kalsamt að liggja á greni en þær stundir gleymast fljótt þegar veðrið er gott og vel gengur. Þegar farið er af stað til grenjaleitar er mikilvægt að vera þannig útbúinn að geta lagst finnist greni í ábúð, víðast eru það þekkt greni sem leituð eru í hefðbundnum grenjaleitum, einnig þarf stundum að leita nýrra grenja sé grunur um slíkt, það er þó fátíðara nú til dags að eytt sé tíma í slíka leit nema grunur sé um bitvarga, sem ekki finnast við hefðbundnar grenjaleitir.
Áður fyrr lágu menn nánast ofan á grenjunum um það vitna skotbyrgi sem hlaðin voru á flestum grenjum og var reyndar skylda að halda við. Þetta var vegna þess að menn áttu þess ekki kost að skjóta á lengra færi en tuttugu og fimm til þrjátíu metrum. Nú er hægt að velja sér staði mun lengra frá og hafa þannig betri yfirsýn yfir svæðið.

Vogaheiði

Vogaheiði – tófuhreiður. Tófan getur jafnan utan grenis, t.d. undir moldarbarði, og flytur síðan yrðlingana, ca. viku gamla, yfir í nálægt grenið.

Ég reyni ávallt að ná báðum dýrunum áður en ég fer að hugsa um yrðlingana, en þetta fer þó nokkuð eftir því hve gamlir þeir eru. Nú hin seinni ár ligg ég helst ekki lengur en eina nótt og oftast tekst að fullvinna greni á þeim tíma, aðeins ef um bitdýr er að ræða verður að liggja þar til öllu er náð sé þess nokkur kostur.
Aðeins um skothús – Þegar ég hóf refaveiðar var ekki mikið um að menn legðu út æti fyrir ref, en þó voru nokkrir sem þetta gerðu. Ég hófst handa við að koma upp skotbyrgi framan við Húsafell ásamt Sveini Björnssyni mági mínum. Þetta gekk nokkuð vel en þó var mikið um allskyns tilraunastarfsemi, svo sem ljós og sjónauka á haglabyssur. Mikið um mistök, en við vorum að læra og ég er reyndar enn að því. Ekki varð veiðin mikil á nútímamælikvarða enda mun minna af tófum, það sem þá þótti nokkuð góð vetrarveiði fæst nú jafnvel á einni nóttu.

Húshólmi

Húshólmi – greni.

Best er að koma skothúsi þannig fyrir að refirnir komist ekki hring um þau, áður fyrr dugðu girðingar að mestu leyti til að koma í veg fyrir slíkt, en um það er ekki að ræða lengur þar sem refir eru ekki hræddir við slíkt eftir að þeir fluttu í byggð. Áður fyrr runnu refir með girðingum og fóru ógjarnan yfir þær. Fái refir að ganga óáreittir í æti um nokkurn tíma, verða þeir kærulausir og koma þá oft í það án þess að fara í vindstöðu fyrst. Þá er um að gera
að velja hentugt veður, hagstæða vindátt og tunglsljós. Hér vestanlands er norðanátt eðlilega hagstæðust, þá er oftast léttskýjað og nýtist tunglið þá betur. Að þessu verður að hyggja þegar valinn er staður. Mörg dæmi eru um að menn leggi út æti með of stuttu millibili, það verður aðeins til þess að enginn nær nokkrum árangri. Mitt álit er að ekki eigi að vera styttra milli skothúsa en tíu kílómetrar, hið minnsta, nema að skilji ár eða eitthvað það sem hindrar refina í að hlaupa á milli.

Ísólfsskáli

Byrgi refaskyttu við greni í Skollahrauni við Ísólfsskála.

Sé veiðum ekki sinnt, en aðeins lagt út æti er það til bölvunar, virkar sem fengieldi og skemmir fyrir þeim sem eru að stunda þetta af samviskusemi. Nú til dags eru margir með mjög vönduð skothús, oft eru tveir saman og geta þá haft vaktaskipti, en langar eru næturnar fyrrihluta vetrar einum manni ef engin dýr eru á ferðinni. Yfirleitt kyndi ég ekki skothús þannig að oft er ansi kalt, oftast sit ég í svefnpoka og þannig má segja að þetta sé bærilegt. Sé kynt þá er erfiðara að halda sér vakandi, eins er ákveðin slysahætta af slíku eins og dæmin sanna.
Fyrstu árin sem ég stundaði skothúsveiðar, hagaði þannig til að ég þurfti að ganga nokkra leið, svo að ég varð að varast að svitna ekki á göngunni, gerðist það, gat vistin orðið nánast óbærileg til að byrja með, eða þar til larfarnir sem næst mér voru þornuðu.
Það er ótrúlegt hvað getur orðið til að stytta manni stundir eftir að sest er að. Það eru oft norðurljós, mýs hlaupandi á hjarninu og séð hef ég Branduglu á músaveiðum um miðja nótt í mars. En ef heyrist í tófu þá lifnar nú heldur yfir og ekki vandræði að halda sér vakandi, þá gleymist kuldinn og tíminn líður mun hraðar.

Skógarnef

Skógarnefsgrenin.

Ég notast mest við haglabyssu í skothúsi, á henni er ljósnæmur riffilsjónauki með ljósi í krossinum, ég endaði á þessu eftir að hafa reynt allt frá nætursjónaukum til allskyns ljósgjafa. Riffil hef ég oft með en nota hann aðeins á dýr sem ekki koma í ætið og halda sig í vindlínu, þar eru þau oft að dóla, jafnvel eftir að birta tekur og tekst þá stundum að ná þeim.
Það hefur alltaf verið erfitt að leita uppi og vinna öll greni sem finnast, jafnt á friðlýstum svæðum sem annarsstaðar.“

Heimild:
-Borgfirðingabók – Ársrit 2013 (01.12.2013), „Það sást tófa“, Snorri Jóhannesson, bls. 100-113.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Ingólfsfjall

Á Reykjanessskaganum eru 204 nafngreindar vörður, fæstar við gömlu þjóðleiðirnar, flestar vel varðaðar.

Vörður

Vörður.

„Vörður munu aldrei verða taldar til stórvirkja í byggingarlist, en engu að síður eiga þær sér afar langan aldur og sumar þeirra sérstaka sögu.
Giskað hefur verið á að vörðurnar séu meðal þess fyrsta sem fjarlægir forfeður okkar á steinöld tóku sér fyrir hendur í mannvirkjagerð. Síðan hafa menn verið að hlaða vörður á öllum tímum sögunnar og notað þær sem viðmiðun í margvíslegum tilgangi.
Á fyrri öldum voru vörður nýttar í nálægum löndum til að merkja leiðir um fjöll og óbyggðir, sýna landamæri og -merkja, skil á milli bújarða, benda á siglingaleiðir með ströndum fram og til að vísa á fengsæl fiskimið, svo að eitthvað sé nefnt. Þessar venjur við vörðuhleðslu fluttu landnámsmenn með sér hingað, þegar þeir komu siglandi frá Noregi, Bretlandseyjum og víðar að á 9. og 10. öld og settust hér að.

Brandur

Vörðurnar Brandur og Bergur austan Ísólfsskála, hlaðnar af samnefndum vinnumönnum á bænum.

Vörður hafa verið gerðar af margvíslegum stærðum og gerðum. Í fyrstu hafa þær verið einfaldar og helst gerðar með þeim hætti að setja einn stein upp á annan og síðan koll af kolli, þ.e. sem leiðarvísar. En brátt hefur mönnum lærst að vanda meira til verksins, raða mörgum steinum saman í þyrpingu, helst hellusteinum, og hlaða síðan hverju steinalaginu ofan á annað, þar til komin var myndarleg og sýnileg varða, jafnvel meira en mannhæðar há. Slíkar vandlega hlaðnar vörður, einkum þær er hlaðanar voru á traustum grundvelli, gátu staðið um tugi ára, án þess að haggast, og jafnvel öld fram af öld, svo sem dæmin sanna.

Landnámsmenn Íslands komu að auðu landi og óbyggðu að mestu. Fyrstu árin í nýju landi hafa farið í að kanna næsta umhverfi á hverjum stað og síðan í framhaldi af því að leita hagkvæmra leiða milli byggða. Fyrst í stað könnuðu menn hinar skemmri leiðir, en ljótlega lögðu þeir land undir fót til að leita leiða milli landshluta. Líður þá ekki á löngu, þar til þeir þekkja deili á helstu hálendisleiðum um landið þvert og endilangt. Að sjálfsögðu urðu þessir landnemar að sýna mikla gætni og varúð, þegar þeir fóru um fjöll og óbyggðir í landi sem þeir þekktu lítið sem ekkert til. Þess vegna merktu þeir gjarna leiðir sínar með því að hlaða vörður, enda grjót tiltækt næstum hvarvetna á fjöllum. Slík leiðarmerki komu sér vel til að rata sömu leið tilbaka og þá ekki síður fyrir hina sem á eftir komu.

Mosfellsheiði

Þrívörður við sæluhúsið í Moldarbrekkum.

Á öllum tímum hafa menn líka hlaðið vörður sem minnismerki um tiltekna atburði, svo að þeir féllu síður í gleymsku. Eitt gleggsta dæmið um slíkt eru, til dæmis, Prestsvarðan ofan Leiru. Vörður þessar eru hinar stæðilegustu, þótt aldnar séu. Í Landnámu segir frá uppruna varðanna. Af frásögn hennar má vera augljóst að t.d. Hallbjarnarvörður við Kaldadal voru hlaðnar sem bautasteinar yfir þá sem féllu og þá ein fyrir hvern mann. Þannig hlóðu menn vörður til minningar um vígaferli og aðra válega atburði og hefur svo trúlega verið á öllum tímum. En menn minntust líka merkra og gleðilegra atburða með því að hlaða vörður.

Þingvallahraun

Vörður á Klettaborg í Þingvallahrauni.

En þótt vörður væru víða hlaðnar til minningar um menn og atburði, þá fer það ekki milli mála að oftast voru þær settar upp sem vegvísar á hálendisleiðum og annars staðar, þar sem slík mannvirki voru talin gagnleg. Fornmenn ferðuðust um hálendið milli landshluta og lengi fram eftir öldum þeystu þar um biskupar og aðrir höfðingjar og embættismenn með flokka sína og fylgdarmenn. Margir aðrir eins og vermenn, skreiðarflutningamenn, kaupafólk og fleiri fóru líka um fjöllin sinna erinda og hélst svo lengi.

Skógfellavegur

Vörður við Skógfellaveg.

Þegar kemur fram á 18. öld virðist tekið að draga mjög úr slíkum hálendisferðum, því að eitt af því sem Landsnefndin 1770 leggur áherslu á til viðreisnar með þjóðinni er að lagfærðir verði sem flestir fjallvegir ásamt með ýmsum öðrum samgöngubótum. Lítið varð þó úr slíkum framkvæmdum. Þó komst á árið 1776 skipuleg póstþjónusta og landpóstar tóku þá að ferðast um byggðir og óbyggðir. Hreyfing komst aftur á þessi mál undir aldamótin síðustu. Árið 1897 kom hingað til lands danskur vísindamaður, Daniel Bruun að nafni, og ferðaðist víða í því skyni að rannsaka eyðibýli og fleira.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð vetrarleiðin.

Þá skal nefnd sérstök tegund af vörðum sem kallaðar voru beinakerlingar. Voru þær margar hverjar stórar og stæðilegar. Slíkar vörður urðu í umræðu ferðamanna eins konar persónugervingar kvenna og þá einkum gleðikvenna. Ferðamennirnir gerðu gjarna klúrar vísur í orðastað þessara beinakerlinga, settu í hrosslegg eða sauðarlegg og stungu síðan milli steina í vörðurnar. Slíkar vísur voru sem sé stílaðar frá beinakerlingu til þeirra sem síðar fóru um veginn. Var þetta gert til skemmtunar í fásinni þeirra sem fóru um fjöllin. Frægust allra þessara kerlinga mun þó vera Beinakerlingin á Kaldadal, en hún stendur þar sem talin var hálfnuð leið frá Þingvöllum til Húsafells. Í orðastað þessarar víðfrægu beinakerlingar varð fyrir margt löngu þessi staka kveðin: Sækir að mér sveina val sem þeir væri óðir; kúri ég ein á Kaldadal, komi þið, piltar góðir.

Beinakerling

Beinakerling.

Auðvelt væri að halda áfram með að rifja upp gamlar beinakerlingarvísur sem margar hverjar eru haglega gerðar. En oft þóttu þær grófar í meira lagi. Breyttir samgönguhættir á bílaöld og meiri hraði en fyrrum hafa valdið því að menn nú á tímum staldra lítt við hjá fornum vörðum á fjallvegum og fágætt mun orðið að kveðnar séu beinakerlingavísur.“

Ástæður fyrir gerð varðanna og tilgangur hefur jafnan verið margskonar. Vörður eru nær undantekningarlaust hlaðnar úr grjóti, fengnu á staðnum, oft ferkantaðar (Skógfellastígur næst Grindavík), en einnig hringlaga (ofan við Auðnasel) eða tilviljunarkennar, með “stelpu- og strákalagi” (Hafnir, Merkines, Prestastígur og Strandarheiði) eða með öðru lagi og misjafnlega háar, allt frá einu umfari til tuga.

Hraunsholtssel

Vörður ofan Hvassahraunssels.

Vörðurnar voru jafnan hlaðnar sem vegvísar (vegprestar) til að leiðbeina ferðafólki rétta leið, t.d. í vondum veðrum (þoku, snókomu eða skafrenningi), til heilla (að kasta steini í dys eða vörðu hafði tvenns konar merkingu – a) að halda þeim, er þar var dysjaður, niðri eða b) að öðlast fararheill. Þær voru einnig reistar sem minningarmörk (um fólk, sem dó á þeim stað, sem þær voru síðan reistar á, sbr. Þyrluvarðan, Ólafsvarða og Stúlkuvarða), til gamans (sérkennileg varða á Strandarheiði, í Katlahrauni eða við Reykjanesbrautina þar sem tvöfölduninni líkur að vestanverðu (samskonar varða er skammt ofar í heiðinni, miklu mun eldri)) og til gagns (varða ofan við Merkines þar sem legið var fyrir ref (varðan notuð sem „útsýnisgluggi“) og varða ofan við Brunnastaði, en í henni er refagildra).

Garðsstígur

Þrívörður ofan Garðs.

Vörður voru líka oft hlaðnar sem kennileiti, t.d. frá sjó (Brúnavörður) eða sem mið að ákveðnum stað eða sjóleið (yfirleitt mjög stórar eða háttstandandi), á landamerkjum (til að aðgreina mörk jarða eða svæða), við greni (oft litlar (kannski steinn á steini) og yfirleitt þrjár stutt frá hverri annarri – grenið í miðjunni), við upphaf vega eða vegamóta (og þá oft tvær eða þrjár hlið við hlið (fór eftir fjölda gatna, sem komu þar saman s.s. Rauðamelsstígur, Óttarstaðaselsstígur og Skógargata), ofan við mannvirki (selin) eða tiltekinn stað (fjárskjól – vatnsstæði eða jarðfall og sprungur þar sem fé gat leynst við leitir), við brýr yfir sprungur eða farartálma, sem leiðarmerki eða innsiglingamerki (Hóp við Grindavík, Þórkötlustaðanes, Nesjar), og þannig mætti lengi telja. Beinakerlingar eða skilaboðavörður voru t.a.m. ekki óþekktar.

Prestastígur

Varða við Prestastíg.

Fyrrum var regla á hlutunum, sbr. það að vörður voru jafnan allar sömu megin við götu. Þannig var auðveldara að fylgja þeim, einkum við slæmar aðstæður. Oft var steinhella höfð út úr vörðunni götumegin (Hvalsnesleiðin, Árnastígur). Svo var einnig oft á gatnamótum. „Vörðutippi“ þessi vísuðu til norðurs skv. konunglegri tilskipun þess tíma.
Í seinni tíð má æ oftar sjá fólk hlaða vörður, yfirleitt skammt utan alfaraleiða. Þessar vörður eiga væntanlega að vera minnisvarðar fólksins um veru þess á þessum stað á tilgreindum tíma. Eftir að fólkið er farið gefur varðan sjálf í rauninni ekkert til kynna, nema að vera öðrum til ama og afleiðingar. Hafa ber í huga að fyrrum voru vörður hlaðnar til leiðbeininga fyrir aðra, en ekki einungis þá, sem hlóðu þær.

Garðstígur

Garðstígur – Efsta-Dauðsmannsvarða.

Strangt til tekið má víst ekki endurhlaða gamlar fallnar vörður, en þó hefur það nú verið gert víða um land, s.s. við Skógfellaleiðina að hluta og Árnastíg að hluta og víða hefur fólk lagt stein í „lágvaxnar“ vörður til að gera þær sýnilegri á ný. Hafa ber í huga að gömlu föllnu vörðurnar standa enn fyrir sínu. Glöggskyggnir sjá vel þessar jarðlægu „grjóthringi“ á jörðinni og geta fylgt þeim eins og til var ætlast. Skiptir þá engu hversu háreyst hrúgan er.
Jarðskjálftar og frostveðrun hafa oft leikið vörður grátt. Lengst hafa þær staðið, sem reistar hafa verið á klöpp. Bæði er það að frostveðrunin nær ekki til þeirra líkt og systra þeirra, sem hlaðnar hafa verið á mold- eða melbornu undirlagi, en auk þess skiptir máli hvernig „sveiflan“ í svæðisbundum jarðskjálftum liggur.

Fremstohöfði

Fremstihöfði – landamerkjavarða.

Vörður úr hraungrýti standast betur „áreiti“ en þær vörður, sem hlaðnar hafa verið úr sléttum grágrýtishellum auk þess sem vörður eru einfaldlegar misjafnlega gamlar. Þannig standa t.a.m enn margar vörður, sem hlaðnar voru við Hlíðarveginn (vetrarleiðina) á fjórða áratugi 20. aldar, á meðan nær allar vörðurnar á Selvogsgötunni eru fallnar, en á milli leiðanna eru einungis nokkrir tugi metra.

Þjóðsögur eru til um vörður, likt og annað dulumhjúpað. Þannig segir t.d. að sá sem færir til landamerkjavörðu skal að honum látnum dæmdur til að bera grjót til eilífðarnóns. Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að var við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök „tiltekt“ trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á „réttum“ gjörðum hans í hinu jarðneska lífi – og yfirvaldið hafði velþóknun á. Þjóðsögur hafa jafnan tengst vörðum – og öfugt.

Reykjanes

Vörðurkort af Reykjanesi – Ási.

Má sem dæmi nefna þjóðsöguna um Herdísi og Krýsu. Vörður voru hlaðnar í Kerlingadal um landamerkjastríð þeirra – að þeim látnum. Sjá má þær enn við gömlu þjóðleiðina. Í niðurlagi sögunnar segir að „nú segir ekki af ferðum þeirra grannkvennanna fyrr en Krýs kemur þar á götunni sem hún liggur yfir hina nyrztu Eldborgina, þá kemur Herdís í flasið á henni að sunnan. Þegar þær hittust varð fátt af kveðjum, en því fleira af illyrðum á milli þeirra er hvor um sig þóttist eiga land það er þær stóðu á. Ekki er þess að vísu getið hvernig hvorri um sig hafi farizt orð, en svo lauk að hvor hézt við aðra vegna landadeildarinnar.

Lagði þá Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga. En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum.

Krýsa og Herdís

Dysjar Krýsu og Herdísar. Dys smalans er neðst á myndinni.

Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna þegar riðið er út í Krýsuvík norðan til á Eldborginni nyrztu, og sér dysirnar þar enn; dys Krýsar er það sem nær er Krýsuvík, en Herdísar hitt sem fjær er.
Meðan þær voru að mæla hvor um fyrir annari kom að þeim smalinn úr Krýsuvík, en svo brá honum við heitingar þeirra að hann féll þegar dauður niður og er hann dysjaður hægra megin við götuna þar upp undan sem þeirra dys er niður undan svo ekki skilur nema gatan ein. Dys þeirra grannkonanna eru enn kölluð Krýs og Herdís og þar með eru þau kölluð sýsluskil Gullbringusýslu og Árnessýslu, svo eru þau og talin landamerki milli Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.“

Vörðufell

Markavarðan á Vörðufelli.

Þá má nefna vörðunar á Vörðufelli. Þar segir m.a. að „svo er sagt að ræningjar hafi komið í land ekki langt frá Krýsuvíkurlandi og hefði flokkur mikill af þeim komið gangandi og stefnt fram til Krýsuvíkur, en er til þeirra sást var strax sendur maður til Eiríks prests. Reið hann sem mest mátti, hitti prest og bjóst hann strax með sendimanni, en er þeir sáu heim að bænum þá hafði ræningjaflokkurinn staðar numið á hóli nokkrum fyrir sunnan kirkjuna í Krýsuvík og börðust í ákafa svo að þeir drápust þannig niður fyrir vopnum sjálfra sín, en komust aldrei heima að bænum.
En nokkru eftir þetta er sagt að prestur hafi farið austur á Selvogsheiði og numið staðar á felli einu lágu; hafi hann þá byggt þar upp fjarska margar vörður og sagt að meðan nokkur varðan stæði mundi Selvogurinn ekki verða rændur og heitir fellið síðan Vörðufell“.

Þingvallavegur

Gamli-Þingvallavegur; varða.

Í seinni tíð hafa gamlar vörður verið endurhlaðnar. Oft hefur þá verið tilviljun háð hvoru megin gömlu götunnar þar hafa verið hlaðnar. Víða má þó enn sjá leifar af gömlu vörðunni. Fyrrum var hverjum vinnufærum manni gert skylt að vinna hluta úr ári við garð- eða grjóthleðslu. Hægt var og að skylda búandi menn til að hlaða vörður. Þannig krafðist presturinn í Höfnum, sem einnig var prestur í Grindavík, þess af bændum þar í sveitum að hver þeirra skyldi hlaða a.m.k. eina vörðu og jafnvel tvær á þeirri leið, sem síðan varð nefnd Prestastígur.

Vörðurnar voru með jöfnu millibili, nokkurn veginn jafn háar og allar sömu megin við götuna. Þó er ein varða ólíkar hinum. Það er varðan á Presthól. Hún er klofin.

Prestastígur

Prestastígur.

Segja má að vörðuröðin lýsi vel samfélaginu og fólkinu, sem það mótar; flestar öðrum líkar, en þó ekki án undantekninga. Einn hleðslumaðurinn hefur ákveðið að gera sína vörðu öðruvísi og kannski meira eftir sínu höfði. Eflaust hefur það kostað mikla umræðu og jafnvel fordæmingu á sínum tíma, en í dag er þetta sú varða, sem vekur hvað mesta athygli og er hvað eftirminnilegust á þessari 16 km löngu leið.

Út frá vísindalegum og akademískum forsendum væri eflaust hægt, með mikilli vinnu, að finna bæði tilefni og hugmyndir fyrir „vörðugerð“ fyrri tíma, jafnvel allt frá upphafi landnáms sem og samlíkingar við vörður hér á landi og annars staðar – þaðan sem landnámsmennirnir eru taldir hafa komið – og farið. Niðurstaðan, hversu merkileg sem hún kynni að verða, myndi eflaust vekja athygli fárra, en varla fjöldans.

Skilaboðavarða

Skilaboðavarða millum Krýsuvíkur og Herdísarvíkur.

Þegar „æft“ fólk leggur af stað í leiðangur með það fyrir augum að „endurfinna“ eitthvað, sem um er getið í örnefnaskrám, sóknarlýsingum, munnmælum eða öðrum heimildum, treystir það jafnan á kennileitin í landslaginu (sem yfirleitt er hvert öðru líkt). Þá er fyrst og fremst skyggnst eftir vörðunum. Ástæðan er sú að fólk hafði fyrrum tilhneigingu til að „merkja“ tiltekna staði, sem það vildi, að þeirra fólk gæti fundið aftur með sem minnstri fyrirhöfn. Örnefnin voru mikilvægur leiðarvísir, en vörðurnar gáfu nákvæma staðsetningu til kynna. Því má með sanni segja að vörðunar hafi verið það sem GPS-eða umferðarmerkin eru núna.

Hellisheiði

Hellisheiði – hellirinn á Hellisheiði; dágott varðað skjól.

Á nýrri leiðum, einkum við vagnvegina, voru vörðurnar jafnan hlaðnar sömu megin og hærri en fyrr. Því miður eru allflestar eldri vörðurnar fallnar og grónar orðnar. Vörður, sem sjá má í dag, voru allflestar hlaðnar kerfisbundið með fjárstuðningi landssjóðs. Munu þetta vera vörður sem hlaðnar voru eftir árið 1861 samkvæmt þágildandi skipan konungs frá 15. mars 1861, sbr. tillögudrög Alþingis frá 1857 að frumvarpi til vegaumbótarlaga: „12. gr.: Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag, skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annarri, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur, eður annað merki, á þeirri hlið, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leiðbeiningar .“
Vörðurnar voru gerðar í ákveðnum tilgangi, s.s. að viðhalda sýslugötum, alfaraleiðum eða sem aðdragandi endurbóta, t.d. fyrir vagna. Á fyrstu áratugum 20. aldar tóku síðan sjálfrennireiðavegirnir við þeim eldri og þar með urðu vörðurnar smám saman óþarfar í landslaginu.

Gluggavarða

Gluggavarðan á Mosfellsheiði.

Vörður voru líka oft hlaðnar sem kennileiti, t.d. við selin, eða tiltekinn stað, fjárskjól, byrgi vatnsstæði eða jarðfall og sprungur þar sem fé gat leynst við leitir, við brýr yfir sprungur eða farartálma, sem leiðarmerki eða innsiglingamerki, – og þannig mætti lengi telja. Oft voru vörður hlaðnar sem eyktamörk til að sýna hvað tímanum leið.

Vörður voru, að gefnu tilefni, reistar sem minningarmörk (um fólk, sem hafði dáið á þeim stað, sem þær voru síðan reistar á, sbr. varða (dys) í Svínaskarði og varða (dys) norðan Sandfells milli Vindáss og Fossár. Dauðsmannvörðurnar á Miðnesheiði höfðu sama tilgang.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi. Hefur nú (2024) verið eyðilögð.

Fyrstu vörðurnar voru að öllum líkindum á landamerkjum, sbr. forn skrif um helgun lands. Mikilvægt að öðrum, sem á eftir kæmu, væru mörkin ljós. Að öðrum kosti kynni að koma til átaka um landayfirráð.
Landamerkjavörður voru á mörkum jarða. Við sumar þeirra, einkum á ystu mörkum í seinni tíð, var jafnframt í grafið tákn á klöpp, t.d. L, M, LM, X, V, + og eða ártal. Landamerki Reykjavíkur sem staðfest voru á 19. öld voru t.d. klöppuð í klappir á þremur stöðum með ártali. Á Markhellu (Markhellur, Markhelluhólar, Mark(a)hólar ofan Hrauna má t.a.m. sjá klöppuð nöfn þeirra þriggja jarða, sem þar mætast.

Laufhöfðavarða

Laufhöfðavarða.

Ágúst H. Bjarnason upplýsti m.a. að „eitt einkenni á landamerkjavörðum væri það, að í þær neðst voru iðulega sett viðarkol eða kolabitar. Þetta hafði eg eftir föður mínum. Síðar rann upp fyrir mér, að eg hafði líka lesið þetta einhvers staðar, en eg mundi ekki hvar.
Fyrir skömmu var eg að glugga í rit og þá rakst ég á eftirfarandi. – Þar segir svo: „Eldarnir hafa líklega verið gerðir á landamerkjum, og mun þangað að rekja þann sið, sem tíðkazt hefur fram undir vora daga, að setja viðarkol í landamerkjaþúfur.““

Sýsluvörður voru hlaðnar á mörkum sýslna. Oft voru þetta áberandi vörður á hólum og öðrum landfræðilegum kennileitum. „Vörður“ þessar gátu einnig verið stakir steinar eða áberandi bergstandar (Sýslusteinn sunnan Lyklafells) eða hólar. Á mótum sýslna voru gjarnan hlaðnar tvær eða fleiri vörður til áherslu, sbr. þrívörðurnar á Mosfellsheiði.

Hádegishóll

Varða á Hádegishól.

Eyktarmörk voru kennileiti tengd tíma sólarhringsins. Sólarhringnum var skipt í fjóra hluta; morgun, dag, aftann og nótt. Samkvæmt fornri reglu var hverjum hluta síðan skipt í tvær eyktir. Í einum sólarhring eru þess vegna átta eyktir, hver um sig þrjár klukkustundir á lengd. Eyktirnar voru þessar; ótta kl. 3, miður morgunn – rismál kl. 6, dagmál kl. 9, miðdegi, hádegi kl. 12, nón kl. 15, miður aftann – miðaftann kl. 18, náttmál kl. 21 og miðnætti – lágnætti kl. 24.
Víða um land má af þessum sökum finna miðmundarvörður, dagmálavörður, hádegisvörður, nónvörður, miðaftansvörður og fleirri í líkum dúr.

Villingavatn

Villingavatn – varða við gömlu ferjuleiðina að Skálholti.

Lengri aðalleiðirnar lágu milli bæja og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása og úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mislangar, allt frá og til fjarlægustu landshluta eða bara út frá bæ í fjárskjólið og stekkinn. Við þessar leiðir má víða finna misgamlar minjar, s.s. hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum, vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti á ferðum sínum.

Greinileg ummerki eru á fjölmörgum götum eftir umferð fólks frá upphafi landnáms á Reykjanesskaganum. Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í harða hraunhelluna, s.s. sjá má á Hellisheiðarvegi og Selvogsgötu þar sem vegirnir liggja um slétt hraun. Jafnan voru sumargöturnar sem hlykkjast um móa og heiðar óverulega varðaðar, en vetrarleiðirnar, sem voru beinni, voru það hins vegar bæði sýnilegar og þéttar. Ástæðan er einföld. Ágætt dæmi um slíka vörðuröð má glögglega sjá yfir Hellisheiði svo og ofanverðum Hlíðarvegi millum Kerlingaskarðs og Austurása, auk Hvalsnesleiðar yfir Miðnesheiði.

Selvogsgata

Varða við Selvogsgötu neðan Grindaskarða.

Í móum og á heiðum uppi má enn víðast hvar sjá hvar leiðir lágu þótt þær hafi afmáðst að hluta. Sumar eru reyndar áfangaleiðir og tengjast öðrum eða greinast út frá þeim til ýmissa staða. Reyna má að flokka leiðirnar miðað við notagildi. Þannig lágu þjóðleiðir milli byggðalaga. Þessir vegir sjást að mestu enn þann dag í dag. Þessar leiðir voru mikið farnar allt til þess tíma að vegir voru gerðir fyrir sjálfrennireiðina er kom hingað til lands í byrjun 20. aldar. Verleiðir má sjá við verin, bæði á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Byggðakjarnar á landssvæðinu, s.s. Stafnes, Bæjasker, Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströnd, voru t.d. mikilvægar verstöðvar fyrir bæði vermenn alls staðar að af landinu og fiskflutninga, ekki síst til Skálholtsstóls, um aldir.

Selstígar lágu upp í selstöðurnar t.d á Miðnesheiðinni, Fuglavíkurselið, Stafnesselið og Hvalsnesselið, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. Enn má t.a.m. sjá leifar af 443 slíkum á landssvæðinu, ef vel er að gáð.

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn – með vegvísi til norðurs.

Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og varla er til sú sveit eða hérað að ekki var þar kirkjustígur eða –gata. Bæði hefur leiðarkerfið þróast frá fyrstu tíð og götur verið lagfærðar. Þær mótuðust undan hesta- og mannafótum. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Með tilkomu vagnsins fóru fram vegbætur á mikilvægustu leiðunum. Sjá má slíkar umbætur á Hvalsnesveginum, Sandgerðisveginumog Stafnesgötunni (kaupstaðarleiðinni).
Mikilvægt er að varðveita þessar gömlu leiðir. Varðveislan felst ekki síst í notkun. Með því fyrir áhugasamt fólk að halda áfram að ganga þessar götur frama veginn verða þær öðrum sýnilegar og líkur minnka á að þær falli í gleymskunnar dá.

Brúar- og gjáavörður má sjá víða þar sem hraun er sprungið eða misgengi algengt, s.s. á selsstígunum í Vogaheiði, Vatnsleysuheiði og á Þingvöllum. Vörður þessar vísa á brýr eða aðgengilega staði til að komast yfir djúpar og langar gjár. Yfirleitt eru þær við þjóðleiðir eða stíga, s.s. selstígana í fyrrgreindum heiðum og við Prestastíginn á Þingvöllum. Á slíkum stöðum hafa gjarnan verið gerðar vegabætur með undirhleðslum til að auðvelda yfirferð manna og skepna.

Garðsstígur

Dauðsmannsvarða.

Dauðsmannsvörður má t.d. víða finna á heiðum og fjallvegum. Þrjár slíkar eru í heiðinni ofan Sandgerðis. Ein, þ.e. sú nyrsta á skv. gömlum sögnum að vera með áletrun. Sigurður sagði að enn hefði hin meinta áletrun við Neðri-Dauðsmannsvörðu við Sandgerðisveginn ekki komið í ljós. Varðan er hálfhrunin, en þá má enn sjá ferkantaða lögun hennar. Varðan er nokkuð utan við götuna, í slakka, svo hún hefur ekki þjónað neinum sem leiðarmerki í lifandi lífi. Sagan segir að þarna hafi maður eða jafnvel menn orðið úti og varðan verið hlaðin til minningar um hann eða þá. Áletrun átti að hafa verið klöppuð á stein í eða við vörðuna. Þrátt fyrir nokkra leit hefur hún enn ekki fundist. Næsta verkefni verður líklega að taka hvern stein fyrir sig og skoða nánar. Það verður talsverð vinna, en vel framkvæmanleg við góðar aðstæður. Þá er og tími kominn til að endurhlaða vörðuna með því grjóti sem út frá henni liggur. Sjaldgæft er að grjót hafi fengi að vera í friði á Suðurnesjum því oftar en ekki var það tekið, hvar sem til þess sást, að ekki var talað um ef það var uppraðað og aðgengilegt til brúks, ekki síst í fornum hlöðnum görðum. Það var endurnýtt annað hvort í hafnarmannvirki eða við vegagerð. Þannig hurfu heilu garðarnir og stór hluti af merkilegum vörðum á svæðinu. Þó má víða enn sjá fótstykkin standa sem minnismerki um þær vörður sem voru. Sömu sögu er að segja um gjótgarða og vörður víðar á Skaganum.

Suðurnesjabær

Efri-Dauðsmannsvarða.

Þá eru Dauðsmannsvörður í heiðinni ofan við Berghús auk þess sem Efri-Dauðsmannsvarðan á efsta Draughólnum við Draugagil hefði verið hlaðin upp að nýju. Tugir manna urðu úti á gömlu þjóðleiðunum um Miðnesheiði fyrr á öldum. Flestir voru þeir á leið frá kaupmanninum í Keflavík, síðla dags eða undir kvöld.
Eflaust standa ennþá fleiri vörður, eða fallnar, á Miðsnesheiði sem minningarmörk um fólk, er varð þar úti á sínum tíma, en eru núlifandi fólki flestu gleymt. Og enn rölta menn um heiðina, meira og minna „dauðir“ fyrir sögu þeirra, sem þar hafa orðið til í gegnum aldirnar.
Villuvörður hafa í gegnum tíðina verið hlaðnar í nokkrum óbyggðum landsins, sem jafnan hefur verið talið nauðsynlegt að fella til grunna. „Vér viljum taka til dæmis hér syðra heiðina, er liggur frá Vogastapa og suður á Garðskaga, milli Hafna, Rosmhvalsneshrepps, Garðs, Leiru, Keflavíkur og Njarðvíka. Heiði þessi er allstór, smáhólótt, og ákaflega villugjörn, en svo að segja er varða þar á hverjum hól, og verða þær að líkindum fleiri mönnum að bana, en illt loptslag þar, draugar og staupagjafir í Keflavík, sem hingað til hefir verið álitið að væri orsök til þess, að svo margir hafa orðið úti og dáið þar í heiðinni.

Neðri-Dauðsmannsvarða

Neðri-Dauðsmannsvarða.

Ef vissar vörður væru í heiði þessari, er vel mætti rekja sig eptir og engar villuvörður (draugar í heiðinni) í kring, mundu færri verða þar úti. Villuvörður þessar hafa smalar eða þeir er staðið hafa yfir fé að líkindum hlaðið sér til dægrastyttingar, en eigi gætt þeirra afleiðinga, er verða kynni af verki þeirra fyrir ókunna ferðamenn.“ Í dag eru svonefndar „ferðamannavörður“ eða „-vörtur“ af sama toga spunnar.

Dysjar eru upphækkuð vörðulíki; grafir eða grafhýsi úr grjóti. Hér á landi var fólk dysjað ef ekki þótti tilefni til greftrunar með viðhöfn, t.d. þegar fólk, sem hafði orðið úti í vondum veðrum, fannst alllöngu síðar. Dysjarnar voru gerðar úr hrúgu af grjóti.
Illþýði og galdramenn voru yfirleitt dysjuð eða urðuð, þ.e. fleygt yfir þau grjóti og lítt vandað til þessara síðustu híbýla þeirra. Oft eru „dysjarnar“ orðnar til í framhaldi af vörðu, reista til minningar um mann, sem t.d. varð úti á tilteknum stað eða til heilla, þ.e.a. ferðalangar trúðu því að með því að bæta steini í „dysina“ færi það þeim fararheill.

Fornasel

Varða við Fornasel.

Selsvörður voru hlaðnar sem kennileiti ofan við sel eða selstöður. Þær voru gjarnan við endann á selstígnum, ofan við selshúsin. Í fyrrum landnámi Ingólfs má enn merkja minjar yfir 400 selja og selstaða (selin voru nytjastaðir bæjanna fyrir árið 1900, s.s. kúasel, fjársel, eggjasel, kolasel o.s.frv.). Sérhvert sel átti sér selsstíg eða – götu, því á þeim tíma höfðu mennirnir ekki enn lært að nýta sér þyrlur til að ferðast ummerkjalaust á milli staða. Þetta er meira skrifað til gamans því sjaldnast hafa selstígar og – götur ratað inn í fornleifaskráningar, einkum hér áður fyrr. Við selstígana voru gjarnan hlaðnar litlar vörður, einkum við stíga þeirra selja er voru í alfaraleið. Ferðalangar komu gjarnan við í seljum, leituðu þar skjóls og stofnuðu til kynna við starfsfólkið; einkum selsmatsseljuna, en síður smalann. Út frá því hafa spunnist margar huldusagnir.

Skjólvörður voru fremur litlar, til merkis um op fjárskjóla eða skjóla þar sem fé leitaði einkum hlés fyrir veðrum, t.d. í grónum hraunhólum og sprungum.
Smalar nýttu sér þessi merki við leitir, enda til þess ætluð. Fáir þekktir kannaðir hraunhellar voru fyrrum, en við flest op þeirra má sjá litlar vörður í sama tilgangi. Þessar litlu vörður hafa í seinni tíð vísað mörgum hellarannssóknarmanninum á opin með áður ómældum árangri, s.s. með áður óþekktum fyrirhleðslum (Gjögur) og hlöðnum bælum (Gullbringuhellir).

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnsvarða í Hraunum.

Vatnsstæða- og brunnvörður voru hlaðnar til leiðbeiningar vegfarendum að slíkum mikilvægum stöðum. „Gvendarbrunna“ má finna víða. Við þá eru jafnan vörður. Ofan við Búðarvatnsstæðið neðan Markhelluhóls er forn mosagróin varða. Vatnsstæði voru gjarnan í seljum, enda forsenda þeirra í flestum tilvikum. Selin voru oftar en ekki á mörkum jarða, ekki síst til að undirstrika eignarhaldið. Grunur er um að varðan mosavaxna við Búðarvatnsstæðið hafi fyrrum verið landamerkjavarða, en mörkin síðar verið færð ofar í landið, að Markhelluhól.

Grenjavörður, tveir til þrír steinar, voru jafnan þrjár umhverfis greni, svo bera mætti kennsl á það. Víða við slíkar vörður eru hlaðin byrgi/skjól fyrir grenjaskyttur.

Gildruvörður voru ýmist hlaðnar til að benda á hlaðnar refagildrur eða þær voru sjálfar hlaðnar sem slíkar. Í mörgum vörðum, ef grannt er skoðað, má sjá fallhellu og ginningargapið innan hennar.
Hlaðnar refagildrur eiga sér sögu allt frá upphafi byggðar hér á landi. Þór Magnússon, fyrrum Þjóðminjavörður, hefur skrifað um nokkrar slíkar í Árbók Fornleifafélagsins. Á Reykjanesskaganum má finna 98 slíkar, fæstar opinberlega skráðar sem fornleifar.

Selatangar

Gatvarða á rekagötunni við Selatanga.

Leiðarmerkjavörður má enn sjá við endurbætta vegi og/eða vagnvegi fyrri tíma. Þær voru ýmist nefndar hálfnunarvörður, þ.e. voru miða vegu milli tveggja tiltekinna áfangastaða, eða voru reistar með jöfnu millibili, s.s. ca. eins eða tveggja kílómetra, til leiðbeiningar um vegarlengdir og nálganir.

Gat-, stráka- og stelpuvörður eru svo nefndar vegna sérstæðrar hleðslu, s.n. klofvörður; steinar er hvíla ofan á tveimur stoðum. Slíkar vörður má víða finna í stöku leiðavörðu, s.s. við Prestastíg. Klukkuvarðan á Mosfellsheiði, við Illaklifsleið, er enn eitt dæmið. Stundum hvarlar að manni, einkum eftir að vörðugerð við gamlar þjóðleiðir urðu að þegnskylduvinnu, að einhverjir einstaklingar hafi bæði viljað sýna mótþróa og jafnframt koma á framfæri nýsköpun við slíka verkefnavinnu. A.m.k. vekja þessar vörður sérstaka athygli enn í dag.

Prestsvarða

Prestsvarðan ofan Leiru.

Prests- og biskupavörður eru ýmist við fornar leiðir eða standa stakar, allt eftir tilefnum stöðugra eða einstakra ferða og sögulegra áfangastaða þeirra tíma kristinlegra boðbera um landið eða svæði. Presthólar eru og víða.
Þekktasta varðan var Biskupsvarða, sem stóð á klapparhól vestarlega á Hellisheiðinni. Hún var ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo skjól fengist fyrir öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld en 1830 var hlaðinn sæluhúskofi á sömu klöppinni og grjótið úr vörðunni notað í þá hleðslu. Kofinn, Hellukofinn, stendur enn.

Það væri hægt að skrifa langt mál um vörður og vörðubyggingar á Íslandi. Hér verður þó aðeins minnzt í örfáum orðum á vörðugerð á einum fjallvegi landsins, þeim sem einna næstur er okkur Reykvíkingum, þ.e. á Hellisheiði.

Hellisheiði

Hellisheiði – Hellukofinn.

Gamli Hellisheiðarvegurinn, úr Hellisskarði við Kolviðarhól austur á Kambabrún, er einmitt gott dæmi um vel varðaðan fjallveg. Á þeirri leið, svona um það bil miðja vega, var hin fræga Biskupsvarða, fornt og mikið mannvirki. Óvíst er með öllu hvenær hún var hlaðin, en hennar er getið í gögnum frá lárinu 1703, og staðið mun hún hafa eitthvað fram á 19. öld. Hún var full sex fet á hæð og krosshlaðin, þannig að skjól var undir henni af hvaða átt sem vindurinn blés og afdrep fyrir mann og fararskjóta, ef því var að skipta. Hins vegar eru vörðurnar og vörðubrotin, sem nú eru sjáanlegar á Hellisheiði miklu yngri, og er raunar enn til hréf, sem sýslumaðurinn í Árnessýslu ritaði hreppstjóra Ölfushrepps á sínum tíma um þessar vörðubyggingar. Það er dags. 25. sept. 1817 og eru því rétt 150 ár liðin síðan þessari samgöngubót var komið á.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Innihald sýslumannsbréfsins var í stuttu máli fyrirskipun um „að uppfæra svo margar vörður á allri Hellisheiði þaðan sem Kambar byrja og vestur á Hellisskarð, að milli þeirra séu ekki meir en hér um bil 80 til 100 faðmar, að hver varða sé í það minnsta 2 álnir á hæð og að þessu verki sé lokið innan áttunda october næstkomandi.
Til að uppfylla þessa svo nauðsynlegu vegaforbetrun tilsegist hreppstjórum í Ölvesi að tilhalda sveitar bændum að gjöra verkið innan ákveðins tíma. En tilstjórnar- og forgöngumenn fyrir að verkið gjörist með trú og dyggð skikkast hér með af mér bændurnir: Gísli á Reykjákoti, Þorvarður á Vötnum, Sæmundur á Auðsholti og Þórður á Núpum.“
Þegar þessi „vegaforbetrun’“ var uppfyllt á tilsettum tíma og vörðurnar hlaðnar, svo sem fyrir var lagt, urðu þær eitthvað um eða yfir hundrað talsins. Þær voru flestar hlaðnar úr hellugrjóti, sem nærtækt er þarna á heiðinni, og undirstaðan föst og traust. Enda eru margar þeirra ennþá uppistandandi eða lítt hrundar, en sumar hafa ekki staðizt forgengileik tímanna og fallið í valinn.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Eftir er þó að geta merkasta mannvirkisins á þessum fjallvegi, en það er hellukofinn, sem enn er hinn stæðilegasti. Hann er byggður við fertugustu og fimmtu vörðu að austan, á klöppinni þar sem Biskupsvarða stóð fyrrum. Hann mun hafa verið hlaðinn einhvern tíma milli 1830 og 1840. Þetta er mjög sérstæð bygging, borghlaðinn grjótkofi, dregst saman að ofan, unz hann lokast alveg af heljarmikilli hraunhellu. Hann er jafn á allar hliðar um 1,85 m og 2 m undir loft í mæninn. Í honum mun „hafa rúmazt 5-6 manns, ef samkomulag var bærilegt.
Eins og áður segir, stendur hellukofinn enn og mun eiga fáa eða enga sína líka meðal sæluhúsa á landi hér. Eystri dyrakampurinn er þó dálítið illa farinn og farinn að gefa sig og kann að þurfa einhverrar lagfæringar við áður en langt um líður.
Nú eru tímarnir mikið breyttir frá því þeir Árnesingarnir voru að tína hellublöðkurnar í vörðurnar á heiðinni og hlaða kofann við Biskupsvörðu. Vörðurnar hverfa ein af annarri og fráleitt stendur hellukofinn heldur að eilífu, ef ekkert er að gert.

Húsatóftir

Nónvarða ofan Húsatófta.

Átrúnaðarvörður voru reistar af gefnum tilefnum, s.s. í kjölfar „Tyrkjaránsins“ eða í kjölfar almannahættu, líkt og sagði af hinum þjóðsagnakenndu vörðum séra Eiríks á Vogsósum. Jafnan fylgdu slíkum vörðum þau áhríningsorð að meðan þær stæðu myndi íbúunum verða óhætt. Títublaðsvarðan ofan Járngerðastaða er ágætt dæmi um eina slíka. Sagan segir að meðan vörðunni þeirri verður viðhaldið muni ferðalöngum um Skipsstíg vel farnast. Því miður, líkt og um svo margar slíkar sagnir, hefur henni lítt verið sinnt á síðari tímum.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Um Eiríksvörðu á Svörtubjörgum í Selvogi segir þjóðsaga: „Einu sinni var Eiríkur staddur í búð í Hafnarfirði. Hann leit út um gluggann og mælti til kaupmannsins: „Já, já, heillin góð, það eru ekki góðir gestir komnir í Selvog núna,“ hleypur út síðan og á bak og ríður austur í Selvog.

Arnarfell

Arnarfell – Eiríksvarða.

Í Selvogi var það til tíðinda að tyrkneskt skip kom þar inn undir land, og kemur bátur að landi og lendir þar sem heitir Sigurðarhúsabót. Jón hét bóndi í Sigurðarhúsum (það er fyrir austan Strönd). Jón fór til fundar við hina útlendu. Þeir taka hann og afklæða, slógu hring um hann og otuðu að honum korðum sínum, en sköðuðu hann þó ekki.
Nú tekur að hvessa og fara Tyrkjar í bátinn og sleppa Jóni. Þeir róa út á Strandarsund; þar stanza þeir um nokkra stund. Þá hefur skipið slitið upp og drífur til hafs; bátsmenn róa síðan eftir skipinu og náðu því ekki meðan til sást. Jón fer í klæði sín og litast um. Hann sér Eirík prest vera að ganga um gólf í Strandarkirkjugarði. Jón fer þangað og heilsast þeir; segir Jón Eiríki hrakning sinn. Eiríkur mælti: „Þú áttir ekki að fara til þeirra heillin góð; þú áttir ekkert erindi til þeirra. En því drápu þeir þig ekki að þeir mundu það ekki fyrr en þeir komu út á sund; þá vildu sumir snúa aftur að drepa þig, og varð það þeim til sundurþykkju og dvalar. Um síðir réðu þeir af að halda áfram, en ekki er víst þeir nái skipinu aftur. Farðu nú heim heillin góð og farðu ekki oftar á fund óþekktra útlendra.“

Gíslavarða

Gíslavarða ofan Staðarhverfis.

Jón fór heim, en Eiríkur fer upp á Svörtubjörg og hleður þar vörðu og mælti svo fyrir að meðan sú varða stæði skyldu Tyrkjar aldrei gjöra grand í Selvogi. Þessi varða stendur enn á Svörtubjörgum og er hún hlaðin að mynd sem lambhúsgaflhlað og einhlaðin að ofanverðu úr óhentugu hleðslugrjóti; snýr flatvegur hennar eftir bjargabrúninni og er tæpt mjög. Hún er mosavaxin og lítur út fyrir að hafa staðið lengi og er þar þó vindasamt; enda hafa Tyrkjar aldrei komið í Selvog síðan.“

Um Gíslavörðu ofan við Stað í Grindavík segir: „Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða. Sú saga hefur jafnan fylgt vörðunni, sem af sumum er nefnd Tyrkjavarða, að henni megi ekki raska.“

Hóp

Hóp – efri innsiglingarvarðan.

Innsiglingavörður voru jafnan tvær eða fleirri í beinni sjónlínu ofan við innsiglingar í vör eða lendingar. Sums staðar voru þær á fleirri en einum stað, allt eftir stefnubreytingum innsiglingarinnar. Með hafnagerð í byrjun 20. aldar voru vörður ofan lendingar bæði hlaðnar stærri og hærri og höfðu á sér þríhyrnt gulmálað tréverk sem stefnumerki og/eða ljósmerki. Slíkar vörður voru t.d. ofan við Hóp og á Þórkötlustaðarnesi í Grindavík eru ágæt dæmi um stórar og stæðilegar innsiglingarvörður frá því um og eftir aldarmótin 1900.

Brennuvörður eru eldri og voru hlaðnar ofan við lendingar, flatar að ofan, einkum við lendingar skipa Konungsverslunarinnar eða lendingar erlendra kaupmanna. Ef bátur eða skip hafði ekki komið að landi áður en skyggja tók var tendraður eldur á vörðunni til að vísa sjófarendunum leiðina. Sambærilegt dæmi er um örnefnið „Brennuhóll“ við lendingar víða um land og hann þá notaður í sama tilgangi. Einn slíkur er ofan Básenda utan Stafness.

Gömlu Hafnir

Stelpuvarða ofan við Gömlu-Hafnir.

Svonefndar „gatvörður” hafa valdið sumum mönnum heilabrotum um langa tíð. Sjá má nokkrar slíkar á Reykjanesskaganum. Ein helsta kenningin hefur verið sú að þær eigi sér skírskotun til sambærilegra mannvirkja í Norður-Ameríku og hefðu því bæði verið hlaðnar af sama fólkinu beggja vegna Atlantshafsins og/eða gegnt sambærulegu hlutverki. Hvert fólkið var eða hvaða hlutverki þær áttu að hafa þjónað hefur hins vegar ekki verið útskýrt af neinu viti. Ofan við Merkines eru t.d. tvær gatvörður. Skammt frá þeim er gróin laut og við vesturbrún hennar eru gamlar rústir og varða með gati neðst er þar hjá. Þetta er kallað Strákur. Nokkuð langt ofar er lítil varða á klapparhorni, sem heitir Stelpa.“ Í örnefnalýsingu fyrir Merkines er einnig getið um vörðurnar: „Neðst í Merkineslágum er grjótvarða, hlaðin þannig, Varða ofan við gömlu Hafnir – Systur – að neðst eru tveir stólpar og svo einn upp úr. Þetta er mjög gömul varða og ágætlega hlaðin. Hún heitir Strákur. Nokkuð ofar er lítil varða á kletti, sem nefnd er Stelpa. Þarna eru allmargir smáhólar. Meðan þetta land var meira nytjað, hafa örugglega margir þeirra haft nöfn, sem nú eru glötuð.“

Prestastígur

Varða (prestur) við Prestastíg nálægt Presthól.

Við svonefndan Prestastíg (nýnefna) eru tvær gatvörður utan í efstu brúnum (Presthól) ofan Hundadals. Í örnefnalýsingu fyrir Hafnir segir m.a. um þessa leið (ekki er getið sérstaklega um vörðurnar): „Til norðurs er nokkuð stór grjót- og klapparhóll skammt upp frá gjánni. Varða við Presthól heitir Markhóll. Til norðvesturs er feikistór hóll upp af gjárbarminum og heitir hann Presthóll. Meðfram honum lá hestagata frá Kalmanstjörn og undir Haugum til Grindavíkur. Vegur þessi var varðaður og standa margar vel enn í dag.“
Á Mosfellsheiði eru tóftir sæluhúss vestan í Háamel. Í örnefnalýsingu fyrir Mosfellsheiði segir: „Sunnan undir Háamel var eitt sumar, eða tvö, fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarblóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sléttir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. „Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfell allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.“ Gatvarðan skammt vestar virðist ekki hafa verið í frásögu færandi. Reyndar eru vörður á þessari leið eitt allsherjar samansafn af öllum helstu vörðutegundum landsins.

Vatnsleysuheiði

Stök gatvarða á Vatnsleysuheiði.

Við Vestari rekagötuna milli Selatanga og Ísólfsskála er falleg gatvarða. Einnig á samhengisslausum stað í Strandarheiði ofan við Vatnsleysuströnd. Tvær gatvörður, annars vegar við hina fornu Hvalsnesleið og hina nýju Reykjanesbraut virðast vera æði nýlegar og vera dæmigerð sköpunarverk höfundanna. Þessar vörður, þótt nýlegar séu, gefa jafnframt góðar vísbendingar um tilurð þeirra, sem eldri eru, sem og Varða við Reykjanesbraut – nú horfin – annarra sambærilegra vestanhafs.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða.

Af framangreindum gatvörðum má draga tvenns konar ályktanir; annars vegar þá að einstaka áræðnum bónda hafi ofboðið ánauðin og ákveðið að tjá hug sinn til hennar. Í stað þess að hlaða hefðbundna forskrifaða vörðu hafi hann viljað vekja athygli á þurfalinginu. Dagsverkið hefur eflaust verið ca. tvær fullhlaðnar vörður og skýrir það vel gatvörðurnar tvær við Presthól. Afurðin hefur í framhaldinu án efa vakið mikið umtal á þeim tíma, enda vörðurnar ólíkar öllum öðrum hefðbundum við stíginn. Ef til væru stólræður prestsins frá þessum tíma mætti eflaust sjá viðbrögðin við afbrigðilegheitunum – með tilheyrandi bölvunum og bannfæringum. Í dag, þegar gengið er „Prestastíg“ (sem reyndar lá annars staðar um heiðina fyrrum) vekja þessar tvær vörður einna mesta athygli göngufólks og hafa því þjónað tilgangi sínum sem slíkar.

Merkines

Varða ofan Merkiness.

Svo gildir og jafnan um verk þeirra, sem hafa viljað tjá sig í seinni tíð á annan hátt en hefðbundinn. Líkt og þá hafa verkin verið talin „fáranleg“, en smám saman, með tímanum, fengið viðurkenningu í samræmi við gildi tjáningarinnar. Sömu lögmál eru algild, bæði í tíma og rúmi, um árþúsunda sögu mannskepnunnar – og þarf ekki Reykjanesskagann til.
Hins vegar má ætla, út frá sömu rökyggju, að einhverjir hafi viljað byggja vörðu á fjölförnum stað er ætlast var að vekti sérstaka athygli. Segja má að á öllum þeim stöðum, er það átti við, hefur það tekist með ágætum. Hughrifin ein hafa þó jafnan verið látin duga, en ekki verið talin ástæða til að fjalla sérstaklega um einstök mannvirki í markverðum textum – enda vörðurnar yfirleitt skammlífar. Þannig entist varðan við Reykjanesbrautina einungis í þrjú ár. Vörðurnar við „Prestastíg“ og ofanvert Merkines sem og við Rekagötuna frá Selatöngum og á Mosfellsheiði eru hins vegar u.þ.b. 100 ára. Ekki er vitað um aldur varðanna í Norður-Ameríku, en ætla má að tilefni að sköpun þeirra hafi verið af sömu tilfinningarrótum og hér á landi.

Jóhannesarvarða

Jóhannesarvarða.

Jóhannesarvarða er vestur undir Holtsgjá í Vogaholti, aðeins norðan við austur frá Brandsgjá en v-n-v Vogasels. Í raun er Jóhannesarvarða á milli Arahnjúkssels og Vogasels.
Þegar Sesselja Guðmundsdóttir ritaði bók sína „Örnefni og Gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (1995) getur hún um Jóhannesarvörðu eða Jónasarvörðu. Erfitt sé að hendar reiður á hvort nafnið er réttara. Sagnir hermi að þarna hafi orðið úti maður, en engin nánari deili virtust finnast á þeim sögum.
„Svo var ég svo heppin þegar ég var að skoða ættfræði Krýsuvíkur-Gvendar hér um árið í Þjóðskjalasafni að ég rakst á kirkjubókarheimild um greftrunina. Man bara hvað ég varð frá mér numin þegar ég fann, óvænt, skrif um lát og greftrun þessa manns. Því varðan hafði kallað fram spurningar. En og aftur kom í ljós að sögusagnir fara nærri sannleikanum þrátt fyrir aldir!“
Ólafsvarða er enn ein varðan í Vogaheiði. Hún er minningarvarða um nafngreindan mann er féll þar ofan í sprungu á aðfangadag árið 1900 – og varð úti.

Þingvallavegur

Varða við Gamla-Þingvallaveginn. Vegvísir skv. konungsbréfi.

Árið 1776, þann 29. apríl, gaf Kristján VII út tilskipun/frumvarp, sem m.a. á finna eftirfarandi um vörður og vörðugerð: „Frumvarpið var nefnt „Tilskipun um vegina á Íslandi“. Í 14. gr. segir; „Á öllum þeim fjallvegum, sem ferðamenn eru vanir að fara á vetrardag. skal hlaða vörður, og skal einnig gjöra sæluhús, þar sem yfirvaldi þykir þörf á. Eiga vörðurnar að vera, þegar því verður við komið, svo nálægt hver annari, að tvær að minnsta kosti sjáist í einu, þegar þoka er yfir; skal þar að auki á hverri vörðu vera gjörður stallur eða annað merki á þeirri hlíð, sem snýr til norðurs, ferðamönnum til leiðbeiningar.“
Með tilskipuninni var þegnskylduvinna til vega- og vörðugerðar afnumin.“

Vörður eru merkilegar menningarminjar sem þarf að sýna virðingu.

Berserkjavarða

Berserkjavarða við Gamla Þingvallaveginn.

Garður

Á Reykjanesskaganum eru 128 letursteinar (áletranir á grjót) frá ýmsum tímum, allt frá því að fyrstu landnámsmennirnir settust þar að og síðar.

Básendar

Básendar – letursteinn.

Framangreindir steinar eru langflestir varðveittir á vettvangi undir berum himni, en auk þeirra er talsverður fjöldi letursteina í geymslum Þjóðminjasafnsins, sem fáum nýtast sem slíkir. Þeir hafa verið fjarlægðir af þeim stöðum er uppruni og tilgangur þeirra eiga rætur – slitnir úr samhengi sögunnar og rýrt gildi þeirra sem því nemur.

Áletranirnar á steinunum eru af ýmsu tagi en algengast er þó að finna ártöl og upphafsstafi, fangamörk eða nöfn. Stundum fylgja þeim einnig vísur eða aðrar stuttorðar upplýsingar, jafnvel myndlíkingar. Steinarnir eru fjölbreytilegir og má skipta þeim í nokkra flokka. Sumir tengjast höfnum og verslunarstöðum en aðrir hafa verið notaðir í tengslum við siglingar og fiskveiðar.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – letursteinn.

Einn flokkur letursteina eru ýmis konar minningarmörk og legsteinar. Þá hafa steinar verið áletraðir til að merkja mannvirki og leiðir og landamerkjasteinar og -áletranir eru algengir. Áletranir alþýðufólks eru af ýmsu tagi og meðal þeirra eru líka áletranir frá hermönnum sem hér voru á stríðsárunum og telja má til herminja. Loks eru sumir steinar alveg sér á báti.

Yfirleitt er letrið höggvið í steinana fremur en rist enda hafa þau sem þannig merktu klappir og grjót ætlað að skilja eftir eitthvað varanlegt. En tíminn á það til að eyða ummerkjum slíkra minja með aðstoð veðurs og vinda.

Elliðaárdalur

Elliðaárdalur – rún á letursteini.

Skoðaðir voru einkum letursteinar frá síðustu tæplega 500 árum þannig að ljóst er að þessi hefð nær langt aftur. Væntanlega hefur þetta tíðkast hér á landi í einhverju formi frá upphafi byggðar en eldri áletranir hafa, sem fyrr segir, veðrast af steinunum í tímans rás. Ártöl eru mjög oft gefin upp og virðist yfirleitt mega treysta þeim þannig að marga letursteina er auðvelt að tímasetja.
Letursteinarnir eru ýmist jarðfastir eða lausir og hafa flestir mikið minjagildi og sumir eru í hættu vegna ágangs náttúruafla. Öðrum hefur því miður verið bjargað á söfn í stað þess að varðveita þá við menningarstaðina þar sem saga þeirra á uppruna sinn.

Á Mbl.is 20. mars 2002 birtist eftirfarandi undir fyrirsögninni; „Leita að letusteinum„.

Þingvellir

Þingvellir – áletrun.

„FERLIR, ferða- og útivistarhópurinn, hefur að undanförnu verið að skoða og leita letursteina nálægt Keflavík og vill fá upplýsingar um fleiri. Ferlisfélagar segja að vitað sé um ýmsar áletranir og hægt að ganga að þeim vísum. Nefna þeir t.d. sálmavers sem er klappað á steinhellu við Prestsvörðuna (séra Sigurðar Sívertsen) ofan við Leiru, áletranir á steinum við Básenda, stafi sem klappaðir eru í bergið við Helguvík og á klöpp á Keflavíkurbjargi, ártal og stafi á klöpp í Másbúðarhólma, ártöl og stafi á klapparsteini ofan við Þórshöfn, stafi á hellu yfir fornmannagröf í Garði, rúnir á steini við Kistugerði og ártal á steini í Fuglavík sem og stafi sem eru á klöpp þar í fjörunni og ártal og stafi undir Stúlknavörðunni á Njarðvíkurheiði.

Kistugerði

Kistugerði – rúnir.

Þá eru allnokkur dæmi um svonefnda LM-steina (landamerkjasteina) sem og leturhellur, ýmist táknaðar með LM, L, M eða X.
Að sögn FERLIRs kemur fram að auk þessara áletrana séu til heimildir um letur á klöpp eða hellu yfir smalagröf innan við forna túnhliðið á Hólmi, leturstein á Draughól við Garð, en áletrunin á að vera tengd handtöku manna Kristjáns skrifara á Kirkjubóli, áletrun við eða á Dauðsmannsvörðu norðan Vegamótahóls (við Sandgerðisveginn forna) og ártal á steini í eða við Kolbeinsvörðuna á mörkum Voga og Njarðvíkur.

Stóra-Vatnsleysa

Stóra-Vatnsleysa – áletrun.

Áletranir á steinum eða klöppum geta verið minningarmörk, ártöl, ártöl sögulegra viðburðir, allt annað en grafskriftir í kirkjugörðum.
Þjóðminjasafnið hefur dregið til sín allnokkra steina með áletrunum þar sem þeir eru jafnan geymdir í hinum myrkustu dýflissum safnsins. Að sjálfsögðu ættu slíkir steinar að vistast á þeim stöðum, sem þeir áttu uppruna sinn í hinu sögulega samhengi eða hjá hlutaðeigandi svæðisbundnu byggða- eða minjasafni.

Másbúðir

Letursteinn í Másbúðarhólma.

Af þessum 128 þekktum letursteinum á Reykjanesskaganum, í mismunandi ásigkomulagi, er nauðsynlegt að viðhalda þeim ásamt því að varðveita vitneskjuna um sögu þeirra. Til þess að það sé hægt er nauðsynlegt að skrá staðsetningu, munnmæli og sögur þeirra sem þekkja til steinanna ásamt því að halda utan um og taka saman helstu heimildir um þá.

Þótt Flókaklöppin á Hvaleyrarholti sé skráð sem einn letursteinn er á honum sem og nálægum klöppum að finna fjölmargar áletranir, bæði upphafsstafi og táknmyndir, flestar sennilega eftir sjófarendur er heimsótt hafa Herjólfshöfn í Hafnarfirði í um aldir.

Flókaklöpp

Flókaklöpp á Hvaleyri.

Við Básenda, þann fyrrum verslunarstað, eru skráðir með leturstein, en í raun eru þar fjölmargir steinar með áletrunum sem og á klöppum, s.s. í Arnbjargarskeri. Sennilega eru þær flestar eftir sjófarendur er þar komu til hafnar.
Eldri áletranir, flestar í formi rúnarleturs má t.d. finna á leiði Flekku við Flekkuvík á Vatnsleysuströnd, við Kistugerði austan Rafnkelsstaða í garði og á hellu ofan við svonefnt Fornmannaleiði í sömu byggð.

Í Alinmálssteininn framan við Þingvallakirkju er klappaðar rákir er tákna átti löggilta mælieiningu þess tíma. Ofan við Þórshöfn við Ósa er klappað fangamerkið „HP“. Fangamarkið „HPD“ fannst klappað á stein í grunni Duus-húss í Keflavík, fangamerkið „HPS“ 1628 var klappað á stein í vörðu við gömlu götuna milli Þórshafnar og Básenda og fangamarkið „HPP“ var klappað í bergstálið ofan Helguvíkur í Keflavík.

Suðurnesjabær

Þórshöfn – letursteinn.

Telja má mjög líklegt að allar þessar áletranir tengist Hans Perer Duus kaupmanni og afkomendum hans, það síðastnefnda Hans Peter Petersen, sem síðar varð þekkur kaupmaður í Reykjavík undir nafninu Hans Petersen þar sem hann rak m.a. ljósmyndavöruverslun.

Áletranir fyrri tíðar fóru ekki á mis við það sem líkja má við „falsfréttir“ vorra tíma. Dæmi um slíkt er áletrun á svonefndri Markhellu ofan við Búðarvatnsstæðið. Í heimildum (landamerkjalýsingum) segir að landamerki Krýsuvíkur, Óttarsstaða og Hvassahrauns hafi verið í vörðu á hól við Búðarvatnsstæðið. Einhverra hluta vegna hefur einhver séð sig knúinn til að setja áletrunina „KRYS-ÓTTA-HVASSA“ á hellu hraunshóls í ca. 1.5 km fjarlægð frá mosagróinni landamerkjavörðunni til suðausturs, þ.e. inn í Krýsuvíkurland?

Fuglavík

Fuglavík – elsti ártalssteinninn á Reykjanesskagnum.

Elsti svonefndi ártalssteininn er við Fuglavík vestan Sandgerðis, 1581. Heimildir eru um hann frá enskum ferðamanni, en þá var steinninn í brunnbrún við bæinn. Þegar gamli bærinn var rifinn var steinninn settur í stétt og týndist. Hann fannst svo aftur eftir leit FERLIRsfélaga með góðri eftirfylgni húsfreyjunnar og er nú sýnilegur við hlið hennar. Annar letursteinn, 1627, er glataðist eftir að sjóbúð, sem hann hafði dvalið um stund sem hornsteinn í sjóbúð ofan Kálfatjarnarvarar á Vatnsleysuströnd, hvarf í öldurót fyrir allmörgum árum fannst síðar aftur þegar félagarnir höfðu ítrekað leitað hans í fjörunni.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – letursteinninn 1672.

Steinninn sá er nú í vegg við inngöngudyr endurhlaðinnar hlöðu, Skjöldu“, á Kálfatjörn.

Vísur má t.d. sjá á steinum á Skjónaleiði við Hlið í Garðahverfi í Garðabæ og við steinhlaðinn garð að Stóra-Knarrarnesi á Vatnsleysuströnd.

Ás - letursteinn

Steinar kunna að lifna við og eiga það til að senda skilaboð úr fortíðinni þegar nánar er að gáð…

Auðveldast er að lesa letur á steinum að vetrarlagi, með því að nudda snjó í „sárin“…

Kálfatjörn

Ártal í steini á Kirkjubrú Kálfartjarnarkirkju – 1790.

Ferlir

Á Reykjanesskaga eru 653 hraunhellar og -skjól. Í mörgum þeirra eru mannvistarleifar frá fornri tíð, sem aldrei hafa verið skráðar.
Hraunhellir er skilgreindur sem „almyrkt holrúm í hrauni“.

Búri

Búri- hraunhellir í Leitarhrauni.

Hraunhellar geta verið hellar af náttúrulegum uppruna eins og hraunrásir (t.d. Búri), hellir í hraundrýlum (finnnst t.d. í Hnúkum ofan Selvogs, hraunbólur, sprunguhellar (sjá Hundraðmetrahellir í Helgadal), gervigígahellar og gígahellar líkt og Þríhnúkagígur í Bláfjöllum. „Hraunhellar geta einnig myndast við svokallaða troðhól, þá treðst kvikan úr eldfjalli undir heitt hraunyfirborðið sem þegar er farið að storkna og leitar niður í óstorknaðan hluta hraunsins. Við þetta lyftist yfirborð þess og getur þykknað mikið á afmörkuðum svæðum.“ Sjávarróf getur líka búið til hraunhella þegar hraunið er á sjávarsíðum, t.d. í Herdísarvíkurbergi og Krýsuvíkurbergi.

Leiðarendi

Leiðarendi.

Til þess að teljast vera hraunhellir er gjarnan við það miðað að holrýmið nái a.m.k. 20 metrum að lengd en annars talað um skúta eða hraunskúta. En í flestum tilfellum er talað um hraunrásir í þessum samhengi.

Aðallega finnast hraunrásir í helluhraunum þar sem efsta lag þunnfljótandi basaltkviku hefur storknað en bráðið hraunið haldið áfram að streyma í afmörkuðum farvegum undir yfirborðinu. „Rásirnar eru ýmist í gígveggjum eða í efri hluta hins nýrunnað hrauns sem þegar hefur storknað að hluta. Einnig geta slíkar rásir eða hraungöng myndast mun framar í helluhraunum.“

Sundhnúkagígaröðin

Eldgos á Sundhnúkagígaröðinni 16. júlí 2025.

Þegar eldgosið rénar sjatnar í þessum farvegum og eftir standa langir hellar. Stundum þó eru þeir ennþá hálffylltir af hrauni. Svo þarf líka hallinn í göngunum vera nægilegur, til að kvikan gætti runnið niður göngin eftir að ný hættir að berast.

Litadýrð í mörgum hraunhellum er til vegna efnasambanda sem leka úr veggjunum, sbr. hellirinn FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Margs konar myndir finnst í hraunhellum, þar á meðan dropasteina, dropsteina, kleprasteina, hraunfossar og -strá, stundum líka mannvistarleifar.

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaganum.

Efnið má flokkast í 3 hópa: 1) myndun í samhengi við rennsli hraunarinnar í hellinum, t.d. storkuborð; 2) myndun í samhengi við afgangsbráð sem lekur inn í hellinn, t.d. dropsteinar; 3) myndanir sem eru ekki úr hrauni eins og ísmyndanir, sandkastalar, dropasteinar (úr kálki) o.s.fv.

Mest áberandi eru dropsteinarnir og hraunstrá úr hraunbráð. Þeir myndast þegar hraun er hálf-storknuð og „svokölluð afgangsbráð er á hreyfingu í æðum inni í hrauninu og þrýstist út í holrúm í hrauninu og þar með inn um veggi og loft hellanna. Afgangsbráð sem lekur niður úr hellisloftinu myndar hraunstrá“ og spenar „en á gólfinu hlaða droparnir upp dropsteina.“ Dæmi um slíka hella á Íslandi eru Bálkahellir, Snorri, Búri, Raufarhólshellir og margir fleiri.

Bálkahellir

Bálkahellir.

Árið 1975 var fjallað um fjölda hraunhella á Skaganum í Tímanum þar sem nokkrir slíkir voru nefndir til sögunnar. Þess var jafnframt getið að „eflaust ættu fleiri sambærilegir eftir að finnast á næstu árum“. Sú varð raunin. Með tilkomu áhugafólks um hellana fundust allnokkrir áður óþekktir, en finnendur voru oftar en ekki uppteknir við að nefna þá í höfuðið á sjálfum sér, sbr. Stefánshellir. Hellarannsóknarfélag Íslands (HERFÍ) var stofnað, skipað hugsjónarfólki í fyrstu, en breyttist síðar í hóp sérvitringa.

Krúsvíkurhellir

Við op Krýsuvíkurhellis.

FERLIRsfélagar hafa á undanförnum áratugum fundið fjölda nýrra hella á Reykjanesskaga. Fram til 2010 upplýstu þeir HERFÍ um fundina, en eftir einstrengisleg stefna HERFÍS um lokun hella á svæðinu fyrir öðrum en félagsmönnum varð ofan á, hafa FERLIRsfélagar ekki upplýst félagsmenn um hellafundi. Þeir hafa haldið þeim út af fyrir sig. Í millitíðinni var stofnaður hópur áhugafólks um hellarannsóknir (ÍSHERF), sem er miklu mun áhugaverðari samstarfskostur til leitar og hellarannsókna.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Í allnokkrum hraunhellum á Reykjanesskagnum er að finna mannvistarleifar, sem fornleifafræðingar hafa virt af vettugi, sem fyrr getur. Án efa eiga fleiri slíkir eftir að finnast á svæðinu, enda má telja augljóst að fólk á því hafi nýtt sér hin náttúrulegu skilyrði á ýmsan máta við búsetu þess í gegnum árhundruðin.

Í framantöldum „hraunhellum“ á Reykjanesskaganum má til telja bæði einstakar hraundássemdir í allri sinni litadýrð sem og einstök fjárskjóls, sem nýtt hafa verið að forfeðrum og – mæðrum vorum um aldir, allt okkar tíma.Við þurfum að halda áfram leitinni að hinu óþekkta. Málið er að engri leit er lokið fyrr en henni er fyllilega lokið.

Fróðlegt hefur verið að fylgast með skrifum Minjastofnunar í ljósi þess sem nauðsynlega þarf að bregðast við í hinu sögulega samhengi…

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hraunhellir

Fjárskjóshraun

Fjárskjólshraun – fjárskjól.

 

Duushús

Um 248 gamlir vatnsbrunnar eru þekktir á Reykjanesskaganum. Brunnar og vatnsból voru mikilvæg enda var greiður aðgangur að vatni grunnforsenda þess hvar bæjum og seljum var valinn staður. Grundvallaskilyrði var greitt aðgengi að vatni, hvort sem var að ræða tjörn, á, læk, vatnsból, upppsprettu eða öruggt brunnstæði. Hér einungis fjallað um brunnana. Umfjöllun um nýtingu vatna, áa, lækja og vatnsstæða er annar kapítuli út af fyrir sig.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörninni.

Brunnar voru oft grjóthlaðnir, gjarnan hringlaga en stundum ferkantaðir og gátu verið nokkurra metra djúpir. Vatnsból s.s. við uppsprettulindir voru einnig gerð aðgengileg með hleðslum, ef þurfti.

Gamlir brunnar teljast til fornleifa. Samkvæmt skilgreiningu minjalaga þá eru fornleifar allar leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða manna verk eru á, og eru 100 ára eða eldri.

Í Þjóðháttaskrá Þjóðminjasafnsins er fjallað um neysluvatn og öflun þess. Þar er m.a. spurst fyrir um vatnsstæði, vatnsból, vatnsþrær, brunna, uppsprettur, lækningalindir og vatnsleiðslur:

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnurinn á lágfjöru.

„Öll mannavist í landinu er tengd öflun neysluvatns fyrir fólk og fénað. Landnámsmenn, sem reistu fyrst byggð hérlendis, hafa m.a. sælst til þess að rennandi vatn félli hjá bæjarstæðinu og til skamms tíma hefur það þótt góður kostur á sveitabýli að eiga góðan bæjarlæk rétt hjá bæjarveggnum. Allt hefur þetta breyst á þessari öld [20. öld], flest byggð ból eiga nú kost á streymandi lindarvatni eftir vatnsleiðslum um lengri eða skemmri veg. Þessi breyting hefur gerst á svo skömmum tíma í sögu þjóðarinnar að enn muna fjölmargir Íslendingar til þess að bera þurfti allt neysluvatn frá brunni eða bæjarlæk í hús.
Í dag þykir okkur nútímabúum sjálfsagt að þiggja rennandi vatn inn í híbýli okkar, en forfeður og -mæður þekktu ekki slíka dásemd, öðu nær.

Flankastaðir

Flankastaðir – byrgður brunnur.

Hvað felst í orðinu vatnsból? Er það eingöngu notað um þann stað sem neysluvatn heimilisins er tekið úr? Gilti þá einu hvort vatnið var sótt í læk, tjörn eða jafnvel brunn? Var ábýlisjörðum talið gott vatnsból til kosta í umræðu manna á milli? Var þá einnig talað um langan eða stuttan vatnsveg og miðað við það hve langan veg þurfti að sækja neysluvatn? Voru dæmi þess að sækja þyrfti neysluvatn á hestum um langan veg?
Hvað um bæjarlækinn? Var hlaðin þar sérstök vatnsþró? Var hlaðið þrep í farveginn til að mynda smáfoss (lækjarbuna) við vatnsbólið? Var sérstakur, flatur steinn við vatnsbólið, ætlaður til að klappa á þvott (þvottasteinn)?

Bæjarsker.

Bæjarsker – brunnur.

Var vegur lagaður með einhverjum hætti að vatnsbóli (stíflur, upphækkun)? Var vatnsbólið haft til þess að afvatna í saltfisk og e.t.v. kjöt? Voru dæmi þess að bæjarlæknum væri veitt gegnum hús, innanbæjar, eða að byggt væri hús eða skýli yfir vatnsbólið? Var neysluvatn sótt í tjörn nálægt bænum? Var einhver umbúnaður í sambandi við vatnstöku þar, t.d. hleðsla útí tjörnina eða grafin þró í tjarnarbotninn? Voru til upphlaðin vatnsból, án aðrennslis eða frárennslis ofanjarðar. Eru til sagnir eða munnmæli varðandi slík vatnsból, t.d. hvað varðar öryggi vatns til nota (að engum skyldi verða meint af vatninu ef vissum skilyrðum var fullnægt)?

Lónakot

Lónakot – brunnur á Brunnhæð.

Brunnar voru víða, einkum í seinni tíð, einkum þar sem ekki var völ á neysluvatni nema með því að grafa brunn. Einstakir menn, öðrum fremur, unnu víða að brunntöku og hleðslu brunna og hlutu jafnvel viðurnefni af því. Var bæjarbrunnurinn innanbæjar, t.d. í fjósi? Var ranghali eða gangur til brunns innanbæjar og byggt sérstakt hús þar yfir brunninn? Var e.t.v. sérstakt brunnhús utanbæjar? Lýsið brunntöku og brunnhleðslu ef tök eru á. Var sprengiefni notað við brunntöku þar sem hraun eða klettar voru til hindrunar? Voru brunnar yfirleitt hringhlaðnir? Hvað með hleðsluefnið.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn – 14 m djúpur.

Hvað vita menn dæmi til þess að brunnar hafi verið grafnir djúpt niður? Hvernig var umbúnaði yfir brunnopum (yfirgerslu með hlemmi og brunnvindu t.d.) háttað? Vita menn dæmi þess að brunnar hafi jafnan verið opnir vegna gamalla ummæla? Fylgdi sérstök vatnsfata brunni (vatnsponta)? Voru dæmi þess að silungur (eða silungar) væri hafður í brunni (brunnsilungur) til að útrýma þar brunnklukku t.d.? Voru vatnsleiðslur síðar tengdar við gamla brunna? Voru brunnar hreinsaðir að jafnaði einu sinni á ári (eða oftar)? Eru gamlir brunnar e.t.v. enn í notkun? Hvað nefndist járnborið vatn í brunni (járnláarvatn t.d.)? Er orðið brunnur (brunnar) einnig notað um uppsprettur vatns, t.d. í örnefnum? Þekkja menn sagnir, orðtök eða kveðskap um brunna?

Arnarfell

Arnarfell – yfirborðsbrunnur.

Regnvatn gegndi þýðingamiklu hlutverki og var safnað víða. Með tilkomu rennuhúsa urðu tök á því að safna regnvatni í tunnur eða vatnsgeyma. Þetta varð á tímabili þýðingamikill þáttur í vatnsöflun margra sveitaheimila og sumra þéttbýlisstaða.
Hvernig voru vatnsgeymar og söfnunarílát regnvatns, hreinsun þeirra og annað, er efnið varðar. Sá þetta allri neysluvatnsþörf heimila borgið á vissu tímabili?
Vatn á vetrardegi gat verið miklum erfiðleikum bundin. Vatn þvarr í langvarandi frostum, eigi síður en í þurrkum, og vatnsból lögðust undir ís. Hvernig var unnin var bót á þeim vanda, m.a. með því að vaka læki og tjarnir fyrir búfénað. Var sérstakt áhald til þeirra nota (vakarbroddur t.d.)? Voru dæmi þess að snjór væri bræddur til vatnsöflunar, t.d. í fjósi?

Aðalstræti 1836

Aðalstræti 1836. Þangað sótti fólk vatn í Ingólfsbrunn.

Vatnsburður frá vatnsbóli til bæjar var eitt af húsverkunum. Hafði viss heimilismaður einkum það starf að bera vatn í bæ eða fjós? Kunna menn af eigin raun eða eftir annarra sögn að segja frá fólki sem vann fyrir sér með því að bera vatn í hús frá vatnspósti eða vatnsbóli? Hvernig voru áhöld sem notuð voru við vatnsburð og hver voru nöfn þeirra (vatnsfötur, vatnsgrindur, og o.s.frv.). Voru vatnsker eða vatnstunnur til að hella í vatninu innanbæjar svo jafnan væri þar tiltækur nægilegu vatnsforði?

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.

Lækningalindir hafa verið víða hér á landi, margar að sögn tengdar vígslum Guðmundar góða. Hér er leitað eftir fróðleik um lækningalindir, nöfnum þeirra, notum og sögnum tengdum þeim. Þekkjast nöfn eins og Gvendarlind eða Maríulækur í nánd bæja eða byggða? Var einkum sótt vatn í þessar lindir handa veiku fólki? Voru dæmi þess að þangað væri sótt neysluvatn til drykkjar og matarsuðu en vatn til annarra nota (t.d. þvotta) sótt í annað vatnsból?

Var sama á hvaða tíma sólarhrings vatn var sótt í lækningalindir? Eru til sagnir um það að lækningalindir hafi verið saurgaðar með einhverjum hætti þannig að þær misstu kraft sinn? Hvenær var hætt að sækja vatn í lækningalindir þar sem þeirra var annars völ? Er trú á lækningalindir e.t.v. enn fyrir hendi?

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – vatnsleiðsla eftir að vatni hafði verið hleypt úr Kaldárbotnum yfir Sléttuhlíð er rann síðan undir Gráhelluhraunið og kom upp í Botnunum. Góð tilraun, en dugði skammt fyrir sívaxandi bæjarfélag, Hafnarfjörð.

Vissa varúð þurfti að hafa við öflun vatns á víðavangi, einkum er menn lögðust niður við vatn úti á víðavangi til að svala þorsta sínum (að signa yfir vatnið eða drekka gegnum dúk eða síu einhverskonar)? Var e.t.v. algengasta aðferðin sú að drekka úr lófa sínum?
Vatnsleiðslur með sjálfrennandi vatni eða tengdar dælum eða vatnshrútum koma til sögunnar undir lok 19. aldar og þó einkum á þessari öld. Í fyrstu var um stein- og tréstokka að ræða. Einstakar sveitir hafa lagt samveitur vatns um langar leiðir nú í seinni tíð. Þessar framkvæmdir hafa létt miklu oki af fólki og eru þýðingamikill þáttur í framför aldarinnar. Um þetta er völ margra heimilda en annað liggur engan veginn ljóst fyrir og þá allra helst um það hverjir fyrst hófust handa við að leiða vatn í bæjarhús og útihús í einstökum sveitum eða byggðum. Höfðu einstakir menn forgöngu um það, öðrum fremur, að leggja vatnsleiðslur til heimila og fóru til þeirra starfa bæ frá bæ?“

Garður

Króksbrunnur – fylltu með grjóti.

Af þessum umleitunum má sjá að vatnsöflun og -neysla hefur þótt áhugaverð fornsöguleg arfleifð – og þarf engan að undra því hér hefur verið um að ræða einn af grundvallarþáttum afkomunnar frá upphafi lífs alls staðar á jörðinni – allt til þessa dags.

Brunnar voru jafnan fylltir með grjóti eftir sjálfrennani vatn tíðkaðist í sérhvern bæ. Það var gert til að minnka slysahættu. Þó má enn síða sjá djúphlaðna brunna, sem oftast hafa verið byrgðir. Brunnarnir við Flekkuvík, Norðurkot á Ströndinni og á Stað við Grindavík eru ágæt dæmi um slíka, en síðastnefndi brunnurinn, sem nú hefur verið hreinsaður og endurhlaðinn hið efra, er 14 m djúpur.

Gufuskálar

Lindarbrunnur við Gufuskála.

Fallegir hlaðnir lindarbrunnar eru og enn til, s.s. á Gufunesi við Leiru og Garðalind neðan Garða á Garðaholti í Garðabæ. Þá eru til séstakar útfærslur af brunnum, t.d. brunnurinn neðan Reykjanesvita, sem sérstaklega var hlaðinn úr „betunssteinum“ upp á dönsku. Brunnurinn er í raun grafinn og hlaðinn sem brunnhús. Þá er niðurgrafni brunnurinn við Merkines allmerkilegur því hann er grafinn og hlaðinn líkt og Írskibrunnur við Gufuskála á Snæfellsnesi. Við Nes í Selvogi var brunnurinn niðurgrafinn í brunnhúsi.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

A.m.k. 6 nafngreindir Gvendarbrunnar er á Skaganum, s.s. við Alfaraleiðina milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns, í Vogum, í Heiðmörk Reykjavíkurmergin, við Esjuberg á Kalarnesi, í Arnarneshæð í Garðabæ og við Kröggólfsstaði í Ölfusi. Nokkrir aðrir brunnar og lindir hafa verið eignaðar Guðmundi biskupi góða, en heimildir þar að lítandi standast ekki í tíma, líkt sem og svo margt er sagt var í þjóðsögunum um Eirík galdraprest á Vogsósum. Má þar nefna t.d. lindina Sælubunu í Strandardal.

Hraun

Hraun – Gamli brunnur.

Brunnarnir í Brunntjörnunum við Straum og Þorbjarnarstaði í fyrrum Garðahverfi eru svolítið sérstakir. Þeir eru hlaðnir með brúm úti tjarnirnar, nákvæmlega á þeim stöðum þar sem ferskt vatn leysti undan hraununum þegar sjórinn féll út. Grindavíkurbæirnir að Hrauni, Þórkötlustöðum, Járngerðarstöðum og Stað stóðu lágt og því átti saltvatn greiðan aðgang í brunnana. Almælt var því er Grindvíkingar komu á bæi annars staðar og þáðu kaffi báður þeir jafnan um svolítið salt í það til bragðbætis.

Nokkrir gamlir brunnar, s.s. Reykjavíkurbrunninum við Aðalstræti í Reykjavík, og Keflavíkurbrunninum í Reykjanesbæ, hafa verið virtir að verðleikum og gert hærra undir höfði en öðrum, enda sannsögulega sögulegir í báðum tilvikum.

Keflavík

Keflavík – brunnur.

Staðarberg

FERLIR hefur skráð 98 grjóthlaðnar refagildrur á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs. Flestar eru þessar gildrur fornar og eiga í grunninn rætur að rekja til þess fólks er fyrst byggði landið.

Húshólmi

Húshólmi – refaskyttuskjól.

Gildrurnar lögðust að mestu af eftir að byssan kom til sögunnar. Upp frá því voru hlaðin skjól fyrir refaskyttur víðs vegar í hraunum, holtum og hæðum, svonefnd skotbyrgi. Ummerki þeirra má sjá víða enn í dag. Oft var um að ræða fáfarnar hleðslur til skjóls í nágrenni við greni, en einnig lögðu menn á sig að hlaða vegleg byrgi því oftar en ekki lágu grenjaskyttur úti á grenjum svo dögum skipti.

Í Sunnudagsblaði Þjóðviljans árið 1944, er „Refagildru á Látrum“ lýst. Hún segir meira en nokkuð annað um hvernig veiðitæknin var frá upphafi vega:

Refagildrur

Refagildrur – yfirlit FERLIRs 2010.

„Líklega hafa flest ykkar haldið að verið væri að ljúga að ykkur þegar þið lásuð á forsíðunni að myndin þar væri af refagildru! Þegar ég kom fyrst að Látrum og Ásgeir vitavörður sýndi mannvirki þetta, sem er eigi fjarri Bjargtöngum, varð mér fyrst á að efast um að skýring hans væri rétt. Enda þótt Ásgeir virðist í hópi þeirra manna sem aldrei ljúga vísvitandi gat skýring hans verið röng, en hann talaði um það sem gamla og sjálfsagða vitneskju og staðreynd, að þannig hefðu refagildrur verið áður fyrrum. Á sl. sumri mun hann hafa stungið því að mér að lýsing á slíkum gildrum væri í Atla. Atli er raunar okkar fyrsta búnaðarfræði. sem sr. Björn Halldórsson skrifaði 1777, einmitt í þessu byggðarlagi — í Sauðlauksdal. og var bókin prentuð í Hrappsey 1780. Og því fór ég að blaða í Atla, sem er skrifaður í formi góðra ráða gamals bónda til manns sem vill byrja búskap. Þar stendur m.a.:
„ . . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana uppá brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni vil ég segja þér hana. Hún er þessi:

1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.

2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.

Ísólfsskáli

Refagildra í Skollahrauni austan Ísólfsskála.

3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.

Selatangar

Selatangar – refagildra, ein af þremur.

5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo uppúr þessu opi, yfir áminnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og því skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.

Refagildra

Refagildra – ÓSÁ.

6) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.

7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar – og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrlegu grjótholti.“

Refagildra

Refagildra á Staðarbergi.

Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar, heldur gömul raunhæf vitneskja.
Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu, en sé svo væri gaman að vita það.“

Hraun

Krosshlaðinn refgildra ofan Hrauns.

Þegar framangreint var skrifað árið 1944 var talið að a.m.k. þrjár hlaðnar refagildrur væru til hér á landi. Á Reykjanesskaganum einum eru þessar 98 steinhlöðnu refagildrur af ýmsum toga, allt frá óálitlegum steinhrúgum, vandlega hlöðnum mannvirkjum eða í líki  myndarlegra varða. Margar þeirra eru nálægt forðabúrum, s.s. fiskibyrgjum og -geymslum, skammt frá þekktum grenjum eða við kunnar leiðir skolla millum heiða og strandar. Í fornleifaskráningum eru hleðslur þessar ýmist skráðar „óþekktar“ eða jafnvel „vörðuleifar“ – og flestar því enn óskráðar sem slíkar.

Borgarkot

Refagildra ofan Borgarkots.

Af ummerkjum að dæma er svo að sjá að sá eða þeir er síðast vitjuðu gildranna og þurftu að rjúfa þakhelluna hafi ekki haft fyrir að lagfæra þær, en við nána skoðun má ljóslega sjá um hvers konar mannvirki var um að ræða.
Ef Bretar hefðu ekki eyðilagt refagildruna á Gildruholti ofan við Hafravatn á stríðsárunum og innrásaherir verktaka hefðu ekki eyðilagt krossrefagildruna ofan Sandleynis við Hraun í Grindavik við gerð varnargarðanna ofan við bæinn, algerlega að óþörfu, teldust refagildrurnar nú hafa verið eitthundrað talsins á Reykjanesskaganum!

Heimild:
-Sunnudagsblað Þjóðviljans, 5. tbl. 16.02.1944, Refagildran á Látrum, bls. 53.

Refagildra

Refagildra – umfjöllun í Reykjavíkurpóstinum 1847; Fréttir, bls. 27-28.

Langihryggur

Leifar flugvéla frá stríðsárunum má sjá á 33 slysstöðum á Reykjanesskaganum, utan flugvalla. Bæði rákust flugvélarnar á fjöll og brotlentu vegna bilana eða voru skotnar niður. Síðastnefnda hópnum tilheyra leifar tveggja þýskra flugvéla sem hingað hafði verið flogið frá Noregi. Aðrar vélar tilheyrðu bandamönnum.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – flugslys.

Í raun eru slysstaðirnir minjastaðir um þá er létust á vettvangi. Þess vegna ber að virða þá sem slíka.
Á öllum stöðunum má enn sjá ummerki, mismikil, rúmlega 80 árum eftir að atburðirnir gerðust. Af ljósmyndum, sem teknar voru á slysavettvangi, má yfirleitt sjá mikið brak, sem bæði vindur og vatn hefur síðan fært úr stað. Heillegir hlutir voru margir fjarlægðir skömmu eftir óhöppin, en mest hefur þó verið fjarlægt af ferðalöngum sem komið hafa og skoðað staðina á umliðnum árum. Ferðalangarnir hafa gjarnan tekið með sér hluti af staðnum til minningar um komu þeirra sjálfra á vettvang. Þeir hlutir hafa síðar smáms saman farið forgörðum enda til lítils yndis og engum til gagns í heimahúsum þar sem þeir hafa ekki verið í neinum tengslum eða samhengi við atvikin hverju sinni.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Leifar flugvélanna á vettvangi eru einu vísu staðfestingarnar hvar atburðurnir áttu sér stað. Þegar sérhver einn af hverjum 10 ferðalöngum taka með sér einn hlut er ljóst að ummerkin verða fljót að hverfa, eins og raunin hefur verið á. Horfnar leifar verða þeim sem á eftir koma hvorki til vitundar um staðsetninguna né staðfesting á því sem þar gerðist. Dæmi eru um að óheill hafi fylgt þeim, sem fjarlægt hafa hluti af vettvangi slysa.
Vettvangurinn – og allt sem á honum á að vera – er í rauninni, líkt og áður sagði, minningarummerki, bæði um atburðinn og þá sem þar annað hvort létu lífið eða, í sumum tilvikum björguðust. Það er því mikilvægt að fólk er þangað kemur láti alltaf allt þar óhreyft sem fyrr.

Bláfjöll

Gamla Grána – Brak á slysstað 1960.

Tvö stórtækari dæmi má nefna hér um hluti, sem fjarlægðir hafa verið af vettvangi flugslysa. Annað er hreyfill úr Bresku Gránu sem nauðlenti í Bláfjöllum 1945 og hitt er hreyfill úr Hudson-vél sem fórst í Kistufelli sama ár. Báða þessa hreyfla sótti Arngrímur Jónsson, flugstjóri, og félagar hans á slysavettvang og færðu að flugskýli á Tungubökkum í Mosfellssveit. Þar hafa hreyflarnir legið utan dyra undanfarin ár – engum til gagns.
Í slysaskráningaskýrslu hernámsliðsins hér á landi kemur m.a. fram að þann 6. febrúar 1945 hafi Avro Anson flugvél frá Konunglega breska flughernum hrapað eða nauðlent á svæðinu á milli Vífilsfells og Bolla.

Lönguhlíð

Brak við Kerlingagil.

Flugvélin var á leið frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði. Þrír voru í áhöfninni. Einn slasaðist alvarlega, en tveir minna. Þeir komust fótgangandi niður hlíðarnar, yfir þykkmosavaxið og úfið Rjúpnadalahraunið og alla leið að Rjúpnahæð, þar sem þeir gátu tilkynnt óhappið. Lýsing: „Stjörnuhreyfill sést vel á vettvangi sem og aðrar leifar, s.s. hluti hjólastells, gluggarammi, vélarhlutar o.fl. Nokkuð af þunnum spýtum voru á vettvangi og sást vel hvernig tréverkið hafði verið fest við járnhluta, en eins og kunnugt er var grind vélarinnar úr tré og klæðning að hluta úr striga.“ Ekki var síðar að sjá vélarhluta með merkjum eða númerum. Arngrímur og félagar tóku hinn stjörnuhreyfilinn og færðu, því miður, á fyrrnefndan stað.

Kastið

Kastið – gripur, sem hirtur var úr flugvélaflakinu.

Dæmi um ófarnað ferðalangs sem fjarlægði hlut af vettvangi má nefna sögu manns er heimsótti Kastið utan í Fagradalsfjalli þar sem skoðuð var flugvél sú er Andrews yfirhershöfðingi Evrópuherafla Bandaríkjamanna í Seinni heimstyrjöldinni. Um var að ræða mesta flugslys hér á landi á þeim tíma. Í einni ferðinni þangað vildi Ferðalangurinn ólmur taka með sér bráðinn álbút til minningar um þennan sögufræga atburð. Reynt var telja hann frá því þar sem bölvun hvíldi á hverjum þeim er það reyndi. Hann þráaðist við og ákvað að taka með sér hlut úr flugvélabrakinu. Á bakleiðinni uppgötvaðist að hann hafði týnt gleraugunum sínum, farsímanum og krítarkortinu, hlutum sem hvað mikilvægastir eru nútímamanninum. Hann ákvað að fara til baka og skila hlutnum, en gripirnir eru enn ófundnir. Ef hann ætlar að endurheimta þá þarf hann væntanlega að fara á Vörðufell í Selvogi og hlaða þar vörðu. Skv. þjóðsögunni á hann þá að endurheimta gripina – en það er nú önnur saga.
Framangreind dæmi vekja upp þá hugsun hvort ekki eigi að ríkja friðhelgi á vettvangi flugslysa hér á landi. Sú hlið, sem snýr að þessum málum, er og hefur verið í hálfgerðu lamasessi, a.m.k. hingað til…

Huldur

Brak úr flugvélinni í Huldum á Sveifluhálsi.

Minnisstæðir eru tveir atburðir er tengjast erlendum afkomendum þeirra er fórust í flugslysunum. Annars vegar var um að ræða fólk er vildi leita uppi torfinnanlegan slysstað í Núpshlíðarhálsi og hins vegar afkomendur þeirra er létust í flugslysinu í Sveifluhálsi oafn Ytri-Stapa.
Gat leiðbeint báðum hópunum á slysstaðina, en þá var þar fátt að sjá, en ummerki þó. Í síðarnefnda tilvikinu tók frumkvöðull hópsins fram hnapp, sem verið hafði á einkennisbúningi forvera hans, rétti mér hann og sagði: „This is the only remains we have of him“.
Við grófum hnappinn saman í jörð slysstaðarins – til minningar um þann og þá er þar fórst með félögum sínum – fyrir 82 árum…

Kastið

Á slysavettvangi í Kastinu.

Eiríksvegur

Þorvaldur Örn Árnason skrifaði árið 2024 um „Náttúru- og söguperluna Vatnsleysuströnd„.

Þorvaldur Örn Árnason

Þorvaldur Örn Árnason.

Þeir sem hafa uppgötvað Vatnsleysuströnd vita að hún er perla, bæði hvað náttúru og sögu varðar. Svo er hún aðeins um 20 km frá hvort heldur höfuðborgarsvæðinu eða Keflavíkurflugvelli. Þar eru gömul tún, tjarnir og falleg fjara, ýmist með svörtum klettum, hvítum skeljasandi eða brúnu þangi, og mikið fuglalíf allt árið um kring.

Í þúsund ár var róið til fiskjar úr hverri vör og stutt að sækja. Vegna góðrar bjargar var þéttbýlt á Ströndinni á þess tíma mælikvarða. Lengi vel bjuggu þar fleiri en t.d. í Reykjavík eða Keflavík. Því er þar gríðarmikið af leifum fornra mannvirkja sem unnið er að skráningu á. Þegar gengið er eða hjólað með ströndinni er saga við hvert fótmál og fuglakvak í eyrum. Blómaskeiðið var 19. öldin þegar bændur höfðu sjálfir eignast jarðirnar og fiskaðist oft vel. Þá reis þarna einn elsti barnaskóli landsins sem enn starfar og byggð var vegleg kirkja á Kálfatjörn sem enn þjónar byggðinni.

Kálfatjarnarkirkja

Kálfatjarnarkirkja.

Undir aldamótin 1900 brást fiskurinn með ströndinni og svo lagðist árabátaútgerð af. Þá fækkaði mikið á Vatnsleysuströnd og enn búa þar fáir. Við tók vélbátaútgerð og var höfnin byggð í Vogum og myndaðist þéttbýlið þar. Nú búa rúmlega 1000 manns í Vogum en innan við hundrað á Vatnsleysuströnd.

Í aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga (sem áður hét Vatnsleysustrandarhreppur) er mörkuð stefna um þróun byggðar 2008 – 2028, m.a. á Vatnsleysuströnd. Ströndin skal áfram hafa á sér yfirbragð dreifbýlis en þéttast þó.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Með sjónum skal vera óbyggt belti sem allir geta notið. Heimilt er að byggja 3 ný hús á hverri jörð til viðbótar þeim sem fyrir eru, ef fyrir liggur deiliskipulag, og skulu þau vera í samræmi við þá byggð sem fyrir er. Um árabil var erfitt að fá leyfi til húsbygginga á Vatnsleysuströnd en er nú auðsótt innan ramma skipulags. Nú geta fleiri sest að í þessu fagra, sögulega umhverfi, byggt ný hús eða gert upp þau eldri eins og sumir hafa þegar gert. Þarna eru tækifæri fyrir aukinn tómstundabúskap, svo sem hesta, kindur og hænsni. Þarna er kominn vísir að gistiþjónustu sem á örugglega framtíð fyrir sér og kunna erlendir gestir vel að meta þetta umhverfi.

Vatnsleysuströnd

Á Vatnsleysuströnd. Sveinn Björnsson, forseti, í heimsókn.

Með þéttari byggð verður auðsóttara að fá lagða hitaveitu og vatnsveitu um alla ströndina. Innan fárra ára mun hjólreiðaleiðin milli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og höfuðborgarsvæðisins liggja um Voga og Vatnsleysuströnd sem mun veita nýju blóði í byggðina og ferðaþjónustu þar.

Á Vatnsleysuströnd er Brunnastaðahverfið lítill þéttbýliskjarni og í Breiðagerði sumarhúsahverfi sem munu þróast áfram og þéttast sem slík. Heimilt er að byggja sérstaka golfbyggð að erlendri fyrirmynd í námunda við golfvöllinn á Kálfatjörn.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Bakki og Litlibær fjær.

Á að mestu óbyggðu svæði við Keilisnes og Flekkuvík er á skipulagi stór iðnaðarlóð og góð hafnarskilyrði frá náttúrunnar hendi.

Á Vatnsleysuströnd eru 3 stór matvælafyrirtæki: hænsnabú með eggjaframleiðslu, svínabú og bleikjueldi.

Brunnastðahverfi

Í Brunnastðahverfi – Suðurkot t.v. og Efri-Brunnastaðatir t.h.

Það verður því mikið til að eggjum og beikoni á Ströndinni og bleikjan frá Vatnsleysu smakkast ákaflega vel.

Vatnsleysuströnd er strönd tækifæranna. Prófaðu næst þegar þú ekur Reykjanesbrautina að taka smá lykkju á leið þína og aka Vatnsleysuströnd. Það lengir leiðina örlítið en er vel þess virði, ekki síst að kvöldlagi um þetta leyti árs þegar sólin er að setjast á Snæfellsjökul.“

-Þorvaldur Örn Árnason, íbúi í Sveitarfélaginu Vogum.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Landakot

Landakot er jörð í Vatnsleysustrandarhreppi. Á jörðinni leynast í dag tóftir tveggja annarra býla; Landa og Götu.

LandakotÍ „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrslu I“ frá árinu 2011 segir m.a. um Landakot:
„1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 3 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26. Guðmundur [Björgvin] Jónsson segir þetta býli hafa verið höfuðból Vatnsleysustrandarhrepps á árunum 1830-1930.
Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi.
Niður við sjó var býlið Lönd. Ö-Landakot GS, 2.
Landakot1793: Hálflenda, jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 139-140. „Túnin fordjarfast stórum af sandi og sjáfargángi allareiðu til þriðjúngs. Engjar eru öngvar.“ JÁM III, 140.
1919: Tún 4,7 teigar, garðar 1620m2.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: „Einnig byggði hann [Guðmundur Brandsson bóndi í Landakoti] nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.“

Landakot

Landakot 2020.

„Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunnir,“ segir í örnefnaskrá. Heimildum ber ekki saman um byggingarár núverandi íbúðarhúss; í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir að steinhúsið hafi verið byggð um 1921-22. Húsið sem byggt var á árunum 1883-4 er það hús sem sýnt er á túnakorti frá 1919 en samtengt því var annað hús sem stóð fast austan við það og er mynd af báðum húsum í bókinni Mannlíf og mannvirki. Bærinn er í miðju túni sem nýtt er til beitar. Í túninu eru klappir sem eru að mestu grónir hólar.

Landakot

Landakot 2022.

Ekki er eiginlegur bæjarhóll sýnilegur í Landakoti. Núverandi íbúðarhús og áfast fjós eru fast austan við húsið sem byggt var 1883-4 og hafa líklega raskað bæjarhólnum en óvíst er hversu umfangsmikill hann var ef hann hefur náð að myndast. Kjallari, um 1 m djúpur, er undir húsinu.
Enn sjást leifar af húsgrunni gamla hússins frá 1883-4 en hann er um 4×8 m að stærð, þar hann sem sést, og er múr eða sementslím í hleðslum sem eru um 0,5 m á hæð. Steyptar tröppur eru upp á grunninn á vesturhlið en grunnurinn snýr norður-suður. Í framhaldi af húsgrunninum til suðurs eru hleðslur úr kálgarði sem sýndur er á túnakorti frá 1919.

„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS.

Landakot

Gata.

„Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt,“ segir í örnefnaskrá. Í bók Guðmundar Jónssonar, Mannlíf og mannvirki, segir: „Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi […] mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamót.“ Gata er um 115 m norðaustan við bæ. Býlið er í hæðóttu túni. Tvískipt tóft og kálgarður tilheyra býlinu.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Lönd, eyðihjáleiga, hefur í eyði legið í fjegur ár. … Grasnautnina brúkar nú heimabóndinn og þykist ei missa mega að skaðlausu.“

Landakot

Gata.

„Neðan við Landakotsbæinn eru tættur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd,“ segir í örnefnaskrá GS. “ Óvíst er hvar býli þetta hefur verið en það kann að hafa verið í horni því sem keypt var úr landi Auðna, í norðvesturhorni jarðarinnar, um 115 m norðvestan við bæ. Ekki er ljóst hvenær sú landspilda var keypt úr landi Auðna en það hefur verið áður en landamerkjalýsing var gerð fyrir jarðirnar 1886. Líklegast hefur býlið Lönd verið í túni í norðvesturhorni jarðarinnar niður við sjó. Ekki sjást önnur ummerki um býlið Lönd á þessum stað. Mögulega eru minjarnar sem skráðar eru þar reistar á rústum býlisins en ekki er hægt að slá neinu föstu um það nema með ítarlegri rannsókn.

Landakot

Gata.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti.

Landakot

Landakot – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1928 kvæntist Guðni Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot með yfirlögðu túnakorti frá 1919.

Brunnurinn, sem notaður var, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt.

Landakot

Landakot – túnakort 1919.

Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru. Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Gísli Sigurðsson skráði örnefni í Landakoti:

Landakot

Landakot – túngarður.

„Landakot stóð í Landakotstúni, og var það umgirt görðum þeim, sem nefndir verða í sambandi við landamerki milli Landakots og jarðanna Auðna að sunnan og Þórukots að innan. Ekki mun hafa verið tvíbýli í Landakoti, en vitað er um tvö býli eða þurrabúðir í túninu. Neðan við Landakotsbæinn eru tætur eftir býlið Götu og niður við sjó var býlið Lönd“.

Í „Mannlífi og mannvirki á Vatnsleysuströnd“ eftir Guðmund Björgvin Jónsson árið 1987 segir um landakot:
„Landakot var eitt af höfuðbólum Vatnsleysustrandarhrepps í heila öld, allt frá 1830 til 1930. Þar bjó Guðmundur Brandsson, f. í Kirkjuvogi í Höfnum 21. okt 1814, sonur Brands Guðmundssonar hreppsstjóra þar. Kona Guðmundar Brandssonar var Margrét Egilsdóttir frá Móakoti.
Guðmudur GuðmundssonGuðmundur, sonur Guðmundar í Landakoti, var sómi sinnar sveitar og hjá honum sat ráðdeild og hagsýni í fyrirrúmi. Hann rak útgerð, þótt lírið færi hann sjálfur á sjó. Landakotsbóndi var söngmaður mikill og fyrsti organisti í Kálfatjarnarkirkju eftir að þar kom orgel árið 1876, og hafði Guðmundur það starf í um 40 ár. Hann sá um smíði þeirrar kirkju er nú stendur að Kálfatjörn. Einnig byggði hann nýtt íbúðarhús í Landakoti um 1883-4 á líkum tíma og aðrir hér í hreppi byggðu úr James-Town strandinu í Höfnum.

Guðmundur lést árið 1920 og var Landakot selt árið 1921 Sveini Pálssyni og konu hans, Önnu Guðmundsdóttur. Hann byrjaði á því að rífa Landakotshúsið og byggja nýtt steinhús, það sem stendur í dag. Smiður var Geir, bróðir Sveins, byggingameistari í Reykjavík. Sveinn hafði aðeins kúabúskap. Hvað sem því réði, þá seldi Sveinn hús og jörð og flutti aftur til Reykjavíkur árið 1927. Þá voru „kreppuárin“ farin að gera vart við sig og þrengja að bændum og hefur Sveinn ekki þótt fýsilegt að halda áfram búskap.

LandakotKaupandi af Sveini var Guðni Einarsson og kona hans, Guðfinna Loftsdóttir. Þegar Guðni kom að Landakoti hafði Guðfinna látist. Hann tók fljótlega viðs tjórn kirkjukórs Kálfatjarnarkirkju og var oranisti þar uns sonur hans, Jón, tók við. Guðni lést 1970.
Við Landakoti tók Jón, sonur Guðna, og kona hans Jóhanna Bára Jóhannesdóttir.

Gata var tómthús milli Landakots og Þórustaða í Landakotslandi. Um 1882 bjuggu í Götu hjónin Jón Teitsson og kona hans, Vilborg. Eftir veru Jóns og Vilborgar í Götu, komu þangað Sigurður Þorláksson, f. 1849, og kona hans, Þuríður Þorbergsdóttir, f. 1855. Ekki er mér kunnugt um fleira fólk í Götu og mun bærinn hafa aflagst nokkru eftir aldamótin.“

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Mannlíf og mannvirki á Vatnsleysuströnd, Guðmundur Björgvin Jónsson 1987.
-Margrét Guðnadóttir Eyjólfur Guðnason, Rofabæ 29, Reykjavík.

Landakot

Landakot – tóftir Götu.

Víti

Gengið var af gamla Herdísarvíkurveginum þar sem hann byrjar í Krýsuvík neðan Vegghamars. Gamli vegurinn liggur áfram upp Deildarháls ofan Stóru-Eldborgar og þaðan niður í Kerlingardal og áfram um hraunið til Herísarvíkur. Hér var hins vegar vent af leið miðsvæðis millum Krýsuvíkurbæjanna og Stóru-Eldborgar og haldið áleiðis upp í Kálfadali ofan við Vegghamar.

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Ætlunin var m.a. að skoða Víti, hinn mikla hraunfoss, og tökustaðinn þar sem leikin íslensk stuttmynd, „Tunglið, tunglið, taktu mig“, var filmuð við upphaf kvikmyndagerðar hér á landi (1954), haldið yfir ofanverða Vegghamra og um Kálfadali, berja hin fagra hraunfoss Víti augum, ganga með Geithöfða, skoða nýendurheimta hveri við suðurenda Kleifarvatns, ganga með Hvammi og Hvammholti austan Hverahlíðar við fjöruborð Kleifarvatns alla leið að tóftum hins þjóðsagnakennda Kaldrana suðvestan við vatnið. Þar eru friðlýstar fornminjar.

Breiðivegur

Breiðivegur, gamli Krýsuvíkurvegurinn að Herdísarvík.

Enn sést móta fyrir gamla veginum (Breiðavegi) ofan við mýrarnar austan Arnarfells. Hann liggur mun nær hlíðum Geitahlíðar en nýi þjóðvegurinn, en sést vel frá honum. Elsta þjóðleiðin er enn austar, í brúnunum, neðan við Vegghamra og upp Deildarháls milli Stóru-Eldborgar og Geitahlíðar. Þar liggur hann niður Kerlingardal og áfram yfir hraunið til Herdísarvíkur. Í Kerlingadal deildu þær Herdís og Krýsa með tilheyrandi afleiðingum fyrir bæði þær báðar sem og aðra. Eldborgin skartaði sínu fegursta.
Vegghamrarnir eru klettabelti vestan Geitahlíðar. Þeir eru hluti af grágrýtishálsi er aðskilur Kálfadali frá umhverfinu sunnan þeirra og suðvesturhlíðum Geitahlíðar.

Víti

Móbergsmyndanir vestan Vítis.

Þegar komið var upp fyrir hálsinn blasti við stórbrotið móbergslandslag og varla stingandi strá. Það var ekki að ástæðulausu sem þeir fyrstu geimfarar er stigu síðar fæti á tunglið komu hingað til æfinga fyrir þá ferð. Landslagið er ekki ólíkt því sem ætla megi að gerðist á þeim fjarlæga hnetti. Skútar og litlir hellar eru inn í móbergsklöppina, sem vindur, vatn, frost og veður hafa mótað í gegnum tíðina. Þarna, inni undir geysifallegu, og varla jarðnesku, móbergsgili, var ein af fyrst leiknu íslenslu kvikmyndunum tekin, Tunglið, tunglið taktu mig. Kvikmyndatökumaðurinn var Ásgeir Long.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Handan við hæðina tóku Kálfadalir við. Þeir eru tveir, en þó innangengt á milli þeirra um tiltölulega mjótt skarð. Botn syðri dalsins hefur nær fyllst af hrauni úr gígum austan og ofan við hlíð hans. Sennilega er hraunið frá svipuðum tíma og hraunið úr Stóru-Eldborg. Tilkomumikill hraunfoss rann þá niður hlíðina, Kálfadalahlíðar, og storknaði, líkt og hraunið. Falleg náttúrusmíð. Hraunfoss þessi, sem er mjög áberandi á svæðinu, hefur gengið undir nafninu Víti, sennilega vegna upprunans.

Víti

Víti í Kálfadölum og nágrenni.

Fylgt var vesturbrún dalsins til norðurs og gengið inn í nyrðri dalinn. Við enda hans er Gullbringa, tiltölulega lítið fjall, sem sumir segja að sýslan hafi verið nefnd eftir. Aðrir segja Gullbringurnar vera hlíðarnar austan við fjallið. Enn aðrir segja nafn sýslunnar vera dregið af Gullbringunum ofan Mosfellsheiðar.

Hvað sem því leið var ákveðið að ganga upp eftir fallegu gili á vestanverðum dalnum, yfir austurfjöll Kleifarvatns og vestur með sunnanverðu vatninu, skoða hveri er komu í ljós er sjatnaði í vatninu eftir jarðskjálftana árið 2000 og nýta auða ströndina til göngunnar.

Kálfadalir

Við Kálfadali – móbergsmyndanir.

Stefnan var tekin upp úr Kálfadölum um skarðið og síðan haldið niður hart hjanið áleiðis að Geithöfða. Sunnan hans var beygt með vatninu, hverirnir skoðaðir og haldið út á ísilagt vatnið með Hvammholti. Lambatangi skagar út í vestanvert vatnið. Hann átti eftir að koma við sögu síðar í ferðinni.
Þegar komið var að tóftum Kaldrana suðvestan við Kleifarvatn var rifjuð upp sagan af þeim Herdísi og Krýsu. Þegar þær deildu um landamerki sín neðan við Eldborgina lagði Krýs það á Herdísi að allur ætur silungur skyldi hverfa úr veiðitjörn hennar, en verða aftur full af loðsilungi, sumir segja öfugugga.

Dysjar

Dysjar Krýsu, Herdísar og smalans neðst.

En Herdís lagði það aftur á Krýs að allur silungur í veiðivötnum hennar skyldi verða að hornsílum. Enn lagði Krýs það á Herdísarvík að þaðan skyldi týnast tvær eða þrjár skipshafnir. Herdís mælti aftur það um fyrir Krýsuvík að starengið þar skyldi smásökkva á hverjum 20 árum, en koma upp á jafnlöngum tíma. Eftir þessi ummæli sprungu þær báðar þar sem þær stóðu og eru þær dysjaðar báðar til vinstri handar við götuna En af ummælum þeirra er það að segja að í veiðivötnum Krýsuvíkur hefur enginn silungur fengizt svo menn viti nokkurn tíma síðan, en fullt er þar af hornsílum, og í Herdísarvíkurtjörn hefur ekki heldur orðið silungs var; en loðsilungar ætla menn þar hafi verið.

Um Kleifarvatn gengu þó ennþá fleiri sögur um. Árið 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

Kálfadalir

Gengið í Víti.

Árið 1750 þorði fólk eigi að veiða í Kleifarvatni þótt það væri fullt af fiski í uppivöðum vegna orms eða slöngu sem væri svört að lit og kæmi iðulega upp og léki sér í vatninu. Hún var að stærð við meðalhval, 30-40 metra löng.
Maður nokkur kvaðst oft, bæði einn og með öðrum, hafa séð hana og aðgætt vel því hún hefði oft verið uppi tvær mínútur. Hann bætti því líka við að menn og konur sem voru að vinnu við vatnið í stilltu veðri og sólbjörtu 1749 í ágústmánuði hefði allt séð þennan orm miklu betur en nokkrir aðrir áður þegar hann skaut sér upp úr vatninu og skreið upp á mjóan tanga (Lambatanga) eða nes og lá þar hér um bil tvo tíma uns hann fór aftur í vatnið. Fólkið þorði eigi að honum en flýði eigi heldur af því hann lá kyrr. Þó gat það eigi lýst hversu hann hreyfði sig frá og í vatnið, dróst saman og rétti úr sér á mis.
Frá Kaldrana er ágætt útsýni yfir sögusviðið.
Frábært veður. Birtan var ævintýraleg. Það var engu líkara en gengið væri í gegnum ævintýri, slík var birtan sem og landslagið í ferðinni.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-http://bokasafn.rnb.is/default.asp?cat_id=261

Víti

Víti í Kálfadölum.