Bessastaðakirkja

Í Mbl.is 12. janúar 1997 er fjallað um „Moltke greifa á Bessastöðum„.

Molthes

Ehrenreich Christopher Ludvig Moltke greifi (1790–1864).

Nýjasta hefti danska tímaritsins Heraldisk Tidskrift er fróðleg grein, sem fjallar um skjaldarmerki aðalsættar, sem rekur kyn sitt til furstadæmisins Mecklenburg. Aðalsætt þessi kemur víða við sögu Þýskalands, Danmerkur og Íslands. Hér er um að ræða fjölda nafnkunnra manna, sem kenndu sig við Moltke, en höfðu í skjaldarmerki sínu þrjá fugla, af ætt orra. Svo sem fram kemur í grein Pouls Holtstein í tímaritinu sem til er vitnað, hefir Moltekættin tengst ýmsum öðrum aðalsættum og birtist með grein höfndar fjöldi tilbrigða við upprunalegt skjaldarmerki Moltkeættarinnar. Því hefir lítt verið haldið á loft, að einnig hér á landi hefir skjaldarmerki Moltkeættar lengi gnæft á sögufrægum stað, án þess að sérstök athygli væri á því vakin. Hér er átt við Bessastaði. Yfir dyrum Bessastaðakirkju er mótað skjaldarmerki E.C.L. Moltkes stiftamtmanns. Hann gegndi því embætti um fjögurra ára skeið. Hyggjum nánar að því síðar.

Margur ættarlaukur

Moltkes

Ættarsetur Molkets greifa.

Íslendingar hafa átt mikil og margvísleg samskipti við nafnkunna menn, sem teljast til Moltkeættar. Svo sem geta má nærri er þar margur ættarlaukur, en ekki feta gangvarar þeirra og gæðingar allir sömu braut. Knud Zimsen borgarstjóri, séra Bjarni Jónsson vígslubiskup og séra Friðrik Friðriksson í KFUM hefðu allir nefnt Joachim Moltke, hirðmeistara Friðriks prins síðar konungs, sem öðling á miklum ættarmeiði.

Einar Olgeirsson

Einar Olgeirssson.

Einar Olgeirsson foringi kommúnista hafði kynnst Kai Moltke, forystumanni danska kommúnistaflokksins. Einar segir um hann: „Kai Moltke var af hinni frægu og tignu Moltkeætt og var þess vegna kallaður rauði greifinn. Hann var afkastamikill rithöfundur.“ Við þessa lýsingu Einars má bæta því að skv. frásögn Kai Moltkes átti Stefán Pjetursson síðar þjóðskjalavörður fótum fjör að launa, er hann leitaði ásjár danska sendiráðsins og óskaði eftir því að vera fluttur heim frá Moskvu. Hann óttaðist ofsóknir réttlínumanna.

Þá deildu menn hart um það hverjir væru höfuðstoð borgarastéttarinnar. Seinna kom í ljós að þeir voru það allir með tölu.

Í frásögn Knuds Zimsens borgarstjóra kemur fram að Joachim Moltke greiðir götu margra fátækra stúdenta og veitir sumum þeirra fjárhagslega aðstoð.

Molkes

Skjaldarmerki Moltkers greifa.

„Moltke bjó í stórri höll. Hann hafði gaman af að safna til sín kristilega sinnuðum stúdentum, og einu sinni í mánuði hverjum mætti hjá honum stór hópur slíkra manna. Þegar þangað var komið, var haldin bænasamkoma, en að henni lokinni bauð hann öllum til matar. Moltke var vel menntaður og víðlesinn, og báru viðræðurnar í hinum stóra sal hans greinileg merki þess.“
Frásögn séra Bjarna Jónssonar af heimsókn í höll Moltkes er með sérstæðum blæ. Hún ber öll einkenni séra Bjarna, enda kann sá sem hlýðir að hlusta og segja frá. Matthías Johannessen ritstjóri skráir frásögn séra Bjarna: „Ég hef stundum verið spurður, hvað mér hafi komið mest á óvart fyrstu vikurnar í Kaupmannahöfn. Ég held það hafi verið höll Moltkes greifa í Breiðgötu. Olfert Richard sagði við mig, þegar ég hafði dvalist nokkurn tíma í Kaupmannahöfn: „Nú hef ég boð til greifa Moltke og við fylgjumst þangað að.“ Ég verð auðvitað undrandi, en þó fullur af tilhlökkun. Og hún breyttist í fögnuð, þegar ég gekk inn, því höll Moltkes greifa var fínasti staður, sem ég hafði séð á ævi minni, og langt hafin yfir allt annað. Hún var jafnvel ennþá fínni en torfbærinn heima í Mýrarholti. Greifanum kynntist ég síðar mjög vel í KFUM.“

Séra Bjarni Jónsson

Séra Bjarni Jónsson.

Naumast þarf að vekja athygli á því hve vel séra Bjarna tekst að varpa ljóma á æskuheimili sitt, lágreistan torfbæinn með skin frá steinolíuljósi á horni Vesturgötu og Bakkastígs.

Benedikt Gröndal hefir lýst Bessastaðakirkju í bók sinni Dægradvöl:

„Upp úr turninum er stöng úr járni og stór málmkúla neðan til á henni og var gyllt, á að giska tvær álnir að þvermæli; þar uppi yfir var gylltur veðurviti með nafni Kristjáns 7. (en turninn hlaut þó að hafa verið byggður eftir hans daga) en efst önnur kúla minni… Hvernig á þessu konungsnafni stendur, veit ég ekki, en ofarlega á turninum framanverðum var ferhyrnt skjaldarmerki úr steini, með þremur fuglum, og fjaðurbúskur upp úr höfði hvers þeirra, en þetta er einmitt skjaldarmerki Moltkes eða einhvers af þeirri ætt, en um þetta leyti var Moltke stiftamtmaður.

Bessastaðakirkja

Skjaldarmerki á turni Bessastaðakirkju?

Annars getur vel verið að turninn hafi verið byggður áður, eins og kirkjan, og hafi eitthvað verið gert við hann á þessum tíma, og hafi þá stiftamtmaðurinn tekið sér bessaleyfi til að setja þarna ættarmerki sitt (Moltke er nafn á einhverjum fugli, svörtum að lit, og er orðið líklega slafneskt eða vendiskt, því ættin er frá Mecklenburg eða Pommern). Það var í manna minnum, sem lifðu í mínu ungdæmi, að menn voru teknir frá róðrum í besta veðri (t.a.m. Bjarni í Sviðholti) til að róa með stiftamtmannsfólkið út um allan sjó til skemmtunar, og hafði þá viljað til, þegar þeir áttu að vaða með frúna út í skipið, að þeir duttu í sjóinn viljandi með hana, svo hætt var við þá sjóferð. Þetta var ein af kvöðunum í þá daga.“

Bjarni í Sviðholti, sá sem Benedikt Gröndal nefnir var Halldórsson. Hann var lögréttumaður. Um eitt skeið var hann ráðsmaður Bessastaðaskóla.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja og Bessastaðastofa fyrrum.

Bjarni var vel efnum búinn, talinn með ásjálegustu mönnum, segir Páll Eggert Ólason í æviskrám sínum. Vilji einhver vita deili á úrræðagóðum Álftnesingi, sem hafði ráð undir rifi hverju og kunni að koma sér undan kvöðum hefðarfólks, þá voru meðal afkomenda hans nafnkunnir lærdómsmenn og kraftajötnar.

Bjarni Jónsson (Johnsen)

Bjarni Jónsson rektor (Johnsen).

Bjarni Jónsson rektor Latínuskólans (Menntaskólans í Reykjavík) hét nafni afa síns, Bjarna í Sviðsholti. Móðir Bjarna rektors giftist síðar Birni Gunnlaugssyni yfirkennara. Hann var tengdafaðir Jens Sigurðssonar rektors. Og þá fer nú að styttast í Jóhannes og Jón Nordal. Af þessari ættarskrá má sjá að þeir bræður eru komnir af Bjarna í Sviðsholti, lögréttumanni, sem lét ekki kveðja sig frá verki um hábjargræðistímann til þess að sinna dyntum hefðarfólks.

Stiftamtmannsfrúin, sem vöknaði við sjóbaðið á Bessastöðum var systir Bardenfleths, sem var fulltrúi konungs við endurreisn Alþingis árið 1845. Faðir þeirra Bardenflethssystkina var flotaforingi, háttsettur og handgenginn við hirð Danakonunga. „Náðug frúin“ leit mjög stórt á sig.“ Eru um það margar sögur.

Moltke

Stríðsmerki Moltke-fjölskyldunnar.

Ludvig Moltke stiftamtmaður og kona hans eignuðust dóttur meðan þau dvöldust hér. Dóttir stiftamtmannshjónanna var vatni ausin að viðstöddu hefðarfólki íslenskrar embættistignar. Guðfeðgin telpunnar voru Magnús Stephensen konferensráð, Ísleifur Einarsson etasráð, Sigurður Thorgrímssen landfógeti, Ólafur Finsen sýslumaður og eiginkonur þeirra síðat nefndu, Mad. Thorgrimsen og Mad. Finsen.
Athöfnin fór fram í september 1820. Stúlkan hlaut þrjú nöfn. Hún var skírð Augusta, Vilhelmine, Thorveiga.

Kona Moltkes (gift 1819) var Reinholdine Frederikke Vilhelmine Bardenfleth (18. apríl 1800 – 14. ágúst 1890), systir Carls Emils Bardenfleth, sem síðar varð stiftamtmaður á Íslandi. Hún fluttist nýgift með manni sínum til Reykjavíkur. Á Íslandi fór orð af því að hún liti mjög stórt á sig. Þeim hjónum leist afar illa á þann bústað sem beið þeirra og fengu þau leyfi til að láta innrétta tugthúsið á Arnarhóli, sem þá stóð ónotað, sem embættisbústað og bjuggu þar. Var húsið eftir það stiftamtmanns- og síðar landshöfðingjabústaður og að lokum Stjórnarráðshús.

Bessastaðir
Moltke gekkst líka fyrir því 1820 að lögð var steinstétt eftir forarstíg sem kallaður var Tværgaden, frá Aðalstræti austur að læk, og skolpræsi meðfram henni. Þetta þótti mikið mannvirki og var stéttin kölluð Langafortóv. Þar er nú Austurstræti.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja 2023.

Stór málmkúla neðan til á henni [Bessastaðakirkju] og var gyllt, á að giska tvær álnir að þvermæli; þar uppi yfir var gylltur veðurviti með nafni Kristjáns 7. (en turninn hlaut þó að hafa verið byggður eftir hans daga) en efst önnur kúla minni . . . Hvernig á þessu konungsnafni stendur, veit ég ekki, en ofarlega á turninum framanverðum var ferhyrnt skjaldarmerki úr steini, með þremur fuglum, og fjaðurbúskur upp úr höfði hvers þeirra, en þetta er einmitt skjaldarmerki Moltkes eða einhvers af þeirri ætt, en um þetta leyti var Moltke stiftamtmaður. Annars getur vel verið að turninn hafi verið byggður áður, eins og kirkjan, og hafí eitthvað verið gert við hann á þessum tíma, og hafi þá stiftamtmaðurinn tekið sér bessaleyfí til að setja þarna ættarmerki sitt (Moltke er nafn á einhverjum fugli, svörtum að lit, og er orðið líklega slafneskt eða vendiskt, því ættin er frá Mecklenburg eða Pommern). Það var í manna minnum, sem lifðu í mínu ungdæmi, að menn voru teknir frá róðrum í besta veðri (t.a.m. Bjarni í Sviðholti) til að róa með stiftamtmannsfólkið út um allan sjó til skemmtunar, og hafði þá viljað til, þegar þeir áttu að vaða með frúna út í skipið, að þeir duttu í sjóinn viljandi með hana, svo hætt var við þá sjóferð. Þetta var ein af kvöðunum í þá daga.“

Heimildir:
-Mbl.is, 12. janúar 1997.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Ehrenreich_Christopher_Ludvig_Moltke
-https://timarit.is/page/1870397#page/n19/mode/2up

Bessastaðir

Bessastaðir 2000.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í Wikipedia segir eftirfarandi um P.E. Kristian Kålund, en hann skrifaði m.a. „Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877„. Þar fjallar hann um helstu sögustaði Íslands. Einn þeirra er Reykjavík.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund (1844-1919).

„Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.
Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna.
KaalundÞessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4. Kaalund fékk doktorsnafnbót 8. maí 1879 fyrir hluta þessa verks (kaflann um Norðlendingafjórðung).
Eftir að hann kom frá Íslandi, varð hann (1875) kennari við Metropolitanskólann í Kaupmannahöfn (aðjúnkt 1880), en lét af því starfi vorið 1883, þegar hann varð ritari Árnanefndar og bókavörður við Handritasafn Árna Magnússonar. Mikilvægasta verk hans þar, var heildarskrá um handritasafnið, sem kom út í tveimur bindum 1889–1894. Slíka skrá hafði sárlega vantað, og nokkrir gert atlögu að verkinu, m.a. Jón Sigurðsson forseti, en með verki Kaalunds varð safnið loks aðgengilegt fræðimönnum. Árið 1900 gaf hann út sambærilega skrá yfir forn íslensk og norsk handrit í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn og Háskólabókasafninu. Þar birti Kaalund ítarlega ritgerð um söfnun og varðveislu handritanna fornu.

Kålund

Kålund á efri árum.

Sem bókavörður við Árnasafn, og ritari í Samfund til udgivelse af gammel nordisk litteratur (frá stofnun þess 1879) og í Fornritanefnd Fornfræðafélagsins (eftir Konráð Gíslason 1891), hafði Kaalund mikil áhrif á útgáfustarfsemi á sviði íslenskra fornrita, og gaf sjálfur út nokkur rit. Mikilvægust er vönduð útgáfa hans á Sturlunga sögu 1906–1911. Útgáfa hans á Palæografisk Atlas, með fjölda sýnishorna af dönskum, norskum og íslenskum handritum, hafði mikla þýðingu fyrir rannsóknir á þróun skriftar á Norðurlöndum á fyrri öldum.
Á síðustu árum sínum fékkst Kaalund einkum við sögu Árnasafns, og gaf út heimildir um líf og starf stofnandans, Árna Magnússonar. Hefur hann eflaust ætlað að setja kórónuna á það verk með ítarlegri ævisögu Árna, en hann dó frá því verki.
Í Íslandsför sinni lærði Kristian Kaalund að tala íslensku, og bar síðan hlýjan hug til þjóðarinnar. Fékk hann brátt áhuga á sögu Íslands á síðari öldum, sem kom honum að gagni þegar hann skrifaði æviágrip fjölda Íslendinga í Dansk biografisk leksikon, 1887–1905, og greinar um Ísland i Nordisk konversations-leksikon, 3. útg.

Kaalund

Rit Kaalunds um Ísland.

Þegar Kristian Kaalund varð sjötugur, 1914, gaf Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn út afmælisrit honum til heiðurs, með æviágripi hans eftir Finn Jónsson og greinum sex íslenskra fræðimanna. Afmælisrit til dr. Phil. Kr. Kålunds, bókavarðar við Safn Árna Magnússonar, 19. ágúst 1914, Kaupmannahöfn.
Kristian Kaalund var ógiftur og barnlaus. Við fráfall hans, 1919, arfleiddi hann Hið íslenska fræðafélag að öllum eigum sínum.
Hann varð félagi í Vísindafélaginu í Kristjaníu 1899, í Vísindafélaginu danska (Videnskabernes Selskab) 1900 og Sænska vísindafélaginu (Kungliga vitterhets-, historie- og antikvitets akademien) 1910. Hann varð riddari af Dannebrog 1907. Hið íslenska bókmenntafélag kaus hann heiðursfélaga 1897.
KaalundKristian Kaalund ferðaðist um allt Ísland til þess að skoða og skrá þekkta sögustaði og sögusvið Íslendingasagna. Í bók sinni, Bidrag til en topografisk-historisk Beskrivelse af Island eða Íslenskir sögustaðir, lýsir Kaalund landslaginu og fornum minjum sem hann taldi að tengdust Íslendingasögum eða vörpuðu ljósi á þær. Einnig skráði hann sagnir og munnmæli sem tengdust rústum og fornum grafhaugum. Hann notaði margskonar heimildir og studdist t.d. við örnefni og staðbundnar hefðir auk eigin athugana á rústum sem hann skoðaði. Hann bar vettvangsathuganir sínar saman við upplýsingar sem hann fann í sóknarlýsingum og gögnum frá Konunglegu fornminjanefndinni í Danmörku auk margvíslegra annarra heimilda. Árið 1882 gaf Kaalund út ritgerðina eða “Icelandic Antiquities”, þar sem að hann skráði niður alla þekkta heiðna grafstaði. Hann efaðist um að það væri mikill fjöldi af heiðnum grafreitum vegna þess að fyrstu landnámsmennirnir komu til landsins á seinni hluta 9. aldar og svo var kristnin tekin upp árið 1000, samkvæmt Íslendingabók og Landnámabók .

Kålund

Bók Kålunds um „Íslenska sögustaði“.

Í leiðangri sínum leitaðist Kaalund við að fara á alla þá staði sem getið er í Íslendingasögunum (nokkur svæði urðu þó útundan), lýsa þeim rústum sem taldar voru tengjast sögunum og átta sig á staðháttum m.a. með tilliti til þess hvort leiðalýsingar sagnanna væru raunhæfar. Hann taldi að með því að skoða staðhættina mætti varpa ljósi á óskýr atriði í sögunum og jafnvel skera úr um hvaða textar væru upprunalegastir þar sem sögurnar voru varðveittar í mismunandi gerðum. En hann hafði líka áhuga á því að varpa almennu ljósi á söguöldina með því að skoða staðhætti og fornleifar og lagði því líka áherslu á að skoða ummerki um stofnanir þjóðveldisins, hof og þing. Hann athugaði marga slíka staði þó þeirra væri ekki endlilega getið í sögunum og lagði víða grunninn að frekari rannsóknum. Hann skráði t.d. um 60 staði þar sem hann taldi að hof hefðu verið í heiðni, m.a. á Hofstöðum í Mývatnssveit þar sem Daniel Bruun átti seinna eftir að gera mkikinn uppgröft og þar sem mikla rannsóknir fóru aftur fram 1991-2002.

Íslandskort

Íslandskort.

Kaalund kom einnig á marga af þeim stöðum sem taldir eru hafa verið þingstaðir á þjóðveldisöld og tókst á við þann vanda að reyna að skilgreina slíka staði útfrá minjum sem sáust á yfirborði. Á mörgum slíkum stöðum fann hann þyrpingar af ferhyrndum rústum, sem hann taldi vera búðir, og svo annaðhvort ferhyrndar eða hringlaga rústir sem hann taldi vera dómhringa. Á sumum þingstaðanna taldi hann einnig hafa verið þingbrekku. Mjög oft voru það örnefni eins og „þing“ eða „búð“ sem komu honum á sporið þar sem hann leitaði þingstaða.
Kaalund beitti hvergi uppgrefti við rannsóknir sínar en lýsingar hans og skilgreiningar á minjastöðum lögðu grundvöllinn að frekari rannsóknum á næstu áratugum. Hið Íslenzka fornleifafélag var stofnað 1879 og áttu rannsóknarmenn þess, Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur Jónsson frá Minna Núpi, eftir að heimsækja flesta þá staði sem Kaalund skráði, enduskoða sumar af túlkunum hans en þó oftar að bæta við ítarlegri lýsingum. Stórt hlutfall friðlýstra minjastaða í dag var fyrst lýst af Kristian Kaalund.“

Í ritinu um Íslenska Sögustaði (Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), skrifar P.E. Kristian Kålund m.a. um Sunnlendingafjórðung. Þar getur hann um „sögustaðinn“ Reykjavík, sem fyrr segir:

Gullbringusýsla – Reykjavík

Reykjavík

Reykjavík 1935.

Þetta landsvæði er mestur hluti þess flæmis, er Ingólfur nam, fyrsti og frægasti landnámsmaðurinn. Settist hann að í Reykjavík, en næsta umhverfi bæjar varð búland hans. Land það er Ingólfur á eftir að lokum, er eigi mjög stórt miðað við hið mikla flæmi er hann nam í upphafi, þ.e. milli Hraunsholtslækjar og Úlfarsár. Hraunsholtslækur rennur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog. Úlfarsá kemur úr Hafravatni, rennur til vesturs sunnan við Úlfarsfell, beygir síðan til vesturs vestan við Lambhaga og fellur í litla vík sem nefnist Blikastaðakró. Úlfarsá breytir síðan um nafn, nefnist Korpustaðaá eða Korpa, fyrst sennilega aðeins neðri hlutinn í grennd við Korpúlfsstaði. Í þessu landi Ingólfs eru þó Vífilsstaðir, land það er hann gaf Vífli leysingja sínum.

Reykjavík 1874

Reykjavík 1874.

Reykjavík hét áður Reykjarvík, í Íslendingabók Raikjarvic. Vík nefnist staðurinn í Kjalnesinga sögu, sem er skáldsaga. Hér er einn merkasti staður landsins, það er óhætt að segja en þó einn af þeim sem sjaldnast er nefndur í fornum sögum.
Sennilega hefur ætt Ingólfs átt Reykjavík alllengi. Þorsteinn sonur Ingólfs var stofnandi Kjalarnesþings. Hans sonur var Þorkell máni, en Harðar saga Grímkelssonar segir að hann hafi búið þar. Hann lifði samkvæmt vitnisburði sgana svo hreinlega sem kristnir menn, er best eru siðaðir, og virðist helst hafa haft hugboð um kristnina. Síðan þegja allar heimildir um Reykjavík langan tíma. Árið 1616 fær Kristján IV jörðina ásamt kirkju í skiptum fyrir nokkrar aðrar jarðir. Var Reykjavík á allvænleg jörð. Magnús Ketilsson segir í Forordinger II, 265, að nokkurn hluta jarðarinnar virðist krúnan þó hafa átt síðan 1590 (sjá Finnur Jónsson Hist. eccl. III. 35), það ár flæmdi sem sé konunglegur befalingsmaður, Laurids Kruse, Orm Narfason frá nokkrum hluta jarðarinnar, Reykjavík, en við móður hans og þrjá bræður voru makaskiptin gerð árið 1616.

Ingólfsnaust

Ingólfsnaust.

Árið 1786 fékk Reykjavík kaupstaðaréttindi ásamt nokkrum öðrum verslunarstöðum, þegar verslun var gefin frjáls öllum dönskum þegnum.
Reistir höfðu verið veglegir bústaðir á landareignum umhverfis Reykjavík handa ýmsum hinna æðri embættismanna, en nú fluttust þeir smám saman til bæjarins, stiftamtmaðurinn þegar 1816, eftir að fangahúsinu hafði verið breytt í þeim tilgangi og samtímis fjölgaði íbúum bæjarins mjög hratt, miðað við aðstæður. Um aldmót voru íbúar Reykjavíkur 300, 1840 var íbúatalan um 900, 1870 var hún komin upp í 2000 og þessi aukning virðist ætla að halda áfram.

Reykjavík

Reykjavík 1876.

Nú er Reykjavík ekki svo lítilfjörlegur bær að sjá, húsin eru dreifð yfir tiltölulega stórt landsvæði, því þau eru ekki sambyggð, heldur standa stök og umhverfis þau er afgirtur blettur eða lítill garður; utan við bæinn sjálfan standa svo að segja á allar hliðar hópar af torfhúsum, svokallaðir bæir, en þetta eru bústaðir hinna mörgu fiskimanna. Húsin í bænum eru eru nær öll hin svokölluðu timburhús, þ.e. grindamúr og timburklædda að utan, en loft og skilrúm hið innra eru einnig úr tré. Þessi hús eru smekklega máluð og vel við haldið, geta þau verið snotur að sjá, þegar men hafa vanist timburklæðningunni.

Kaalund

Sturlungasaga – eitt handritanna sem Kaalund vann mikið með.

Samhliða stækkun bæjarins hefur fækkað arfsögnum um fornminjar. Í bréfi til Finns Magnússonar þegar 1821 kvartar presturinn t.d., sem þá var yfir því, að þar í sókn séu alls engar sögulegar minjar. E.Ó. (1041, bls.) skýrir frá, að enn megi sjá í Reykjavík tóftina (í sambandi við notkun orðsins „tóft“ er ef til vill ekki ónauðsynlegt að taka fram, að í þessu riti er það notað í íslenskri sérmerkingu; þýðir það sem sé veggur þaklaustar byggingar ásamt rýmingu innan þeirra, eða leifar húss, þar sem þakið er horfið) af skipsnausti Ingólfs, sem nefndist Ingólfsnaust, en um það veit nú enginn, ekki þekkist heldur nafnið Ingólfsbrunnur um vatnsbólið góða í Reykjavík, sem Skúli Magnússon minnist á í lýsingu sinni á Gullbringu- og Kjósarsýslu; miðað við legu legu hans og gæði vatnsins mætti ætla, að hann væri hinn sami og helsti brunnur bæjarins nú í hinni gömlu aðalgötu (Aðalstræti).“

Vatnspóstur

Vatnsberar í Reykjavík um aldamótin 1900.

  • -(Innskot; saga Reykjavíkur er ekki bara saga landnámsmanns, höfðingja og annarra stórbusa. Hún er ekki síður saga almúgans. Meðal þeirra var Sæfinnur Hannesson); Ingólfsbrunnur, milli húsanna Aðalstrætis 7 og 9, var eitt aðalvatnsból Reykjavíkur um langt skeið en þangað sóttu Víkurbæirnir og aðrir nálægir bæir vatn sitt. Brunnurinn hefur gengið undir ýmsum nöfnum eins og víkurpóstur, vatnspóstur og prentsmiðjupóstur. Heitið vatnspóstur kom til eftir að í hann var sett dæla og menn töluðu um að „pósta“ upp vatninu en nafnið prentsmiðjupóstur kom til eftir að Landsprentsmiðjan var flutt úr Viðey í næsta hús við brunninn. Notkun brunnsins lagðist af með lagningu vatnsveitunnar árið 1909. Talið er að um aldamótin 1900 hafi 34 brunnar verið í Reykjavík.
Sæfinnur

Sæfinnur Hannesson.

Með vaxandi þéttbýlismyndun varð til sérstök stétt fólks sem sá um að bera vatn í hús heldra fólks, svonefndir vatnsberar. Einn þessara vatnsbera var Sæfinnur Hannesson, betur þekkur sem Sæfinnur með sextán skó. Kemur nafngiftin til af því að það var siður Sæfinns að klæða sig í mörg lög af fötum og jafnvel mörg pör af skóm, sumir segja allt að átta pör! Eins og með aðra vatnsbera þá var litið niður á Sæfinn og sagt var að hópur krakka hafi gert sér það að leik að elta hann um bæinn og syngja þessa vísu:

Sæfinnur með sextán skó,
sækir vatn og ber heim mó.
Á ‘ann festir aldrei ló,
af því hann er gamalt hró.

Saga Sæfinns Hannessonar lýsir vel mannlegum harmleik og hversu stutt er á milli samfélagslegar viðurkenningar og útskúfunar. Sæfinnur var sagður hafa verið ósköp venjulegur unglingur, vel gefinn og myndarlegur. Hvað svo gerðist veit kannski enginn en sagan segir að stóra ástin í lífi hans hafi svikið hann í tryggðum með þeim afleiðingum að Sæfinnur beið hennar allt sitt líf og safnaði peningum til að undirbúa afturkomu hennar. Sæfinnur brotnaði endanlega þegar fleti hans og eigum var hent úr útihúsi við Glasgow-verslunina í nærliggjandi fjöru. Þetta gerðist 10. júlí 1890 en Sæfinnur lést árið 1896.

Ingólfsbrunnur

Ingólfsbrunnur.

„Reykjavík er, og ekki síst á Íslandi sjálfu, onlbogabarn náttúrunnar. Í nágrenni bæjarins er lítið um grösugt jafnlendi, sem er ímynd frjósemi og blómlegs landbúnaðar og íbúarnir telja fremsta skilyrðu fagurs landslags. Fyrir handan (þ.e. fyrir sunnan) tjörnina liggur mýrardrag þvert yfir nesið, en annars ber fyrir augu aðeins gróðurlausar hæðir þaktar stórgrýti og hnullungum, smáum og stórum, hin svonefndu „holt“ eða flöt malarflæði, sem nefnast „melar“, allt með moldarlit og ömurlegt útlits.
Til uppbótar fyrir óskemmtilegt útlit hið næsta, getur fjærsýnið aftur á móti verið miklu fallegra. Handan Kollafjarðar, innsta hluta Faxaflóa, sem er nokkurra mílna breiður, svífa sjónir til að festast þeim mun lengur við hinn hrífandi bogadregna fjallbálk, sem afmarkar útsýni til norðurs. Þar liggja eins og í boga þrjú fjöll, Esja, Skarðsheiði og Akrafjall og virðast mynda samfellda röð, enda þótt hin síðarnefndu séu aðskilin frá Esju með löngum og mjóum firði, Hvalfirði.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Kristian_Kaalund
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 1-15.
-https://afangar.com/atvinnusaga/ingolfsbrunnur/

Esja

Esja – örnefni: „Ein af fáum dásemdum Reykjavíkur“.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er margbrotið fjall norðaustan Grindavíkur, stærsti stapinn á svæðinu. Örnefni í Fagradalsfjalli má t.d. nefna Langhól, efstu bungu fjallsins í norðri. Auðveldasta uppgangan á hann er upp af Görninni í suðvestanverðu fjallinu. Þaðan er þægilegu aflíðandi gangur á hólinn.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

Fagurt útsýni er af Langhól yfir allt til höfuðborgarsvæðisins. Þá má nefna Geldingadal þar sem „dys“ Ísólfs er að finna. Stóri-hrútur er í austanverðu fjallinu, keilulagaður stapi, og Borgarfjall er í því sunnanverðu. Kastið vestan í Fagradalsfjalli er sögustaður flugvélaflaks úr Seinni Heimstyrjöldinni, líkt og Langihryggur autan í því sem og Langóllinn fyrrnefndi. Fagridalur, sem fjallið tekur nafn sitt af er undir því norðvestanverðu. Þar hvílir Dalsselið, selstaða frá Þórkötlustöðum. Skammt ofar og austar er mikilfenglegur, þverskorinn, gígur fjallsins í Kálffelli. Samnefnt fell er einnig skammt norðvestar.

Í Náttúrufræðingnum árið 2011 er fjallað um jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall í maí 2009.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Árið 2009 var rólegt á skjálftasviðinu. Mestu skjálftar ársins urðu í allsnarpri skjálftahrinu við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Forskjálftavirkni hófst um kl. 17 þann 29. maí, en meginskjálftinn, 4,7 stig, varð kl. 21:33 sama kvöld.

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Upptök hans voru við vestanvert Fagradalsfjall. Hann fannst víða um suðvestanvert landið, vestur í Búðardal og austur að Hvolsvelli og olli meira aðsegja grjóthruni í Esju, eins og nefnt er í kaflanum um skriðuföll. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið, sá stærsti kl. 13:35 daginn eftir með upptök við norðanvert fjallið. Hann var 4,3 stig og fannst einnig víða. Alls mældust um 2000 skjálftar í hrinunni sem gengin var um garð fyrir mánaðamótin.

Í Náttúrufræðingnum 1966 fjallar Guðmundur Kjartansson um „Stapakenninguna og Surtsey„. Fagradalsfjall er vestastur stapa landsins.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

Á þremur stórum svæðum Íslands er berggrunnurinn að mjög miklu leyti úr móbergi og allur myndaður af eldgosum seint á ísöld, einkum síðasta jökulskeiðinu. Þetta eru móbergssvæði Norðurlands, Miðsuðurlands og Suðvesturlands. Þau eru öll fjöllótt, og fjöllin, sem eru úr móbergi með mismiklu ívafi af bólstrabergi, eru tvenns konar að gerð: flest hryggir, en sum stapar.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli.

Svo er um þessa fjallgerð, stapana, sem aðrar „gerðir“, að hún bendir til sameiginlegs uppruna einstaklinganna, sem til hennar teljast. Uppruni stapanna hefur verið skýrður á þrjá allólíka vegu:

Fjallið eina

Fjallið eina – stapi.

1. Rofkenningin: Fjöllin hafa meitlazt fram við gröft vatna, jökla eða jafnvel sjávar úr víðáttumiklu hálendi, sem var h. u. b. jafnhátt og brúnir fjallanna eru nú.
2. Misgengis- eða höggunarkenningin: Fjöllin eru ris (horstar), þ.e. misgengnar jarðskorpuspildur, og fylgja misgengissprungurnar hlíðum þeirra allt í kring.
3. Upphleðslukenningin: Fjöllin hafa hlaðizt upp í eldgosum og fremur lítið breytzt síðan að stærð eða lögun.
Fyrstu áratugi þessarar aldar voru mjög skiptar skoðanir meðal jarðfræðinga um það, hver þessara kenninga ætti helzt við ummyndun íslenzku stapanna. — Þeir Þorvaldur Thoroddsen og Helgi Pjeturss létu þetta deilumál lítið til sín taka, enda var viðhorf þeirra fremur hlutlaust. Báðir lýsa stöpunum sem eldfjallarústum, þeir hafi hlaðizt upp í eldgosum, en síðan bæði haggazt og rofizt, svo að hin upphaflega eldfjallslögun er nú farin út um þúfur (Þorv. Thoroddsen 1906 og Helgi Pjeturss 1910).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Í Faxa árið 1984 er fjallað um fjöllin ofan Grindavíkur, þ.á.m. Fagradalsfjall.

Jón Jónsson, jarðfræðingur hefur varið mörgum árum til rannsókna á Reykjanesskaga. En furðu hljótt hefur þó verið um þær rannsóknir hans og lítt verið minnst á þær hér í Faxa.
1978 gaf Jón út fjölritað rit um rannsóknir sínar. Trúlega er það nú í fárra höndum. En mjög er æskilegt að hann gefi það síðar út á prenti, svo að flestir eigi aðgang að þeim upplýsingum, sem þar eru. Hér verða birtir örstuttir kaflar úr riti Jóns, sem fjalla um fjöllin á skaganum næst okkur: Þorbjarnarfell, Lágafell, Hagafell, Sýlingafell, Skógfellin, Fagradalsfjall og Keili.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn). Misgengi gengur í gegnum fellið.

Þorbjarnarfell (243 m) vekur athygli fyrst og fremst af því hvað það er mikið brotið og verður að því nánar vikið síðar. Fellið er úr bólstrabergi og móbergsþursa með bólstrum á víð og dreif, en lítið er um blágrýtisæðar í því það séð verður og hraun eru þar engin. Bergið í fellinu hefur ekki verið athugað nánar. Að norðaustan er það mjög ummyndað af jarðhita. Þorbjarnarfell hefur án efa myndast við gos undir ís meðan jöklar huldu landið. Vestur úr Þorbjarnarfelli gengur hæðarbunga, sem Lágafell heitir. Það er forn eldstöð, líklega frá því seint á síðasta jökulskeiði. Ennþá sér fyrir hrauni og nokkrum gígum kringum hann ásamt gjalli, en engin merki sjást til þess að jökull hafi gengið þar yfir.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Lágafell virðist vera yngra en Þorbjarnarfell. Norðaustur af Þorbjarnarfelli liggur Selás og tengir það við Hagafell og Svartsengisfell. Þessi fell eru að langmestu leyti úr bólstrabergi og kemur það sérstaklega vel fram í Gálgaklettum í Hagafelli, en þeir eru misgengi, sem brýtur fellið um þvert. Stór björg hafa losnað og hrapað ofan á hraunið. Er þar þægilegt að grannskoða bólstraberg.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan undir Gálgaklettum er svæðið þakið hraunum upp að Svartsengisfelli (206 m), sem svo er nefnt af Grindvíkingum, en á kortinu er það nefnt Sýlingafell og mun það hafa verið málvenja í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Hið neðra Svartsengisfell að mestu úr bólstrabergi og þursa en efst á því er gígur allstór eða raunar öllu heldur tveir samhangandi gígir og grágrýtishraun kringum þá.

Sýlingarfell

Sýlingarfell. Svartsengi t.h. og Þorbjörn t.v.

Fjallið er sennilega byggt sem stapi og mjög unglegt, hefur sennilega verið virkt seint á síðasta jökulskeiði. Vestan í fjallinu eru gosmyndanir, sem samanstanda af ösku og vikri, og hefur það efni verið unnið um árabil, og er svo enn. Sú myndun hverfur inn undir fellið sjálft. Misgengissprunga liggur um fellið þvert með stefnu norðaustur-suðvestur og ummyndun eftir jarðhita er þar mikil enda er virkur jarðhiti (háhiti) við rætur fjallsins. Ummyndunina má rekja um norðanverðan Selháls yfir í Þorbjarnarfell eins og áður var drepið á. Tengist þessi ummyndun jarðhitasvæðinu Svartsengi. (Bls. 31-32).

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Stóra-Skógfell (188m) er um 1,5 km austur af Svartsengisfelli. Það er algjörlega úr bólstrabergi. Litla-Skógfell er um 3 km austar og einnig það er úr bólstrabergi, en ólíkt er það berginu í Stóra-Skógfelli. (Bls. 32).

Fagradalsfjall

Flugvélaflak í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjall (385 m) er byggt upp sem stapi, hið neðra úr bólstrabergi, brotabergi og túffi, en með hettur úr grágrýti. Líta verður á f jallið sem dyngju og er gígurinn nyrst í fjallinu.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir 2020.

Fagradalsfjall hefur að mestu leyti byggst upp undir ís og virðist ekki ólíklegt að jökull hafi legið að því norðaustanverðu fram til þess að eldvirkni hætti. Mætti ætla að jökull hafi legið umhverfis það, þegar grágrýtishraun, sem þekja það, runnu, en þau eru frá áðurnefndum gíg komin og hafa runnið til suðurs og suðvesturs en ekki norðurs. Norðurendi fjallsins er úr móbergsbrotabergi allt frá toppgígnum og niður úr svo langt sem sér. Í gíg Fagradalsfjalls er ennþá grágrýtishraun. (Bls. 34-35).
Til skýringar fyrir þá sem ekki þekkja Fagradalsfjall, skal þess getið, að það er aflangt, ekki ólíkt hval í laginu, séð frá Keflavík. Er gígurinn í þeim hluta fjallsins sem fjær veit bænum. Skógfellin eru á vinstri hönd úti í hrauninu þegar ekið er til Grindvíkur.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin ofan Soga. Keilir fjær, Spákonuvatn t.h.

Keilir (379 m) er frægastur fjalla á Reykjanesskaga. Norðaustan við hann eru þrír hnúkar, sem nefndir eru Keilisbörn. Þeir eru úr lagaskiptu móbergstúffi og raunar er það sumsstaðar í Keili sjálfum að neðanverðu. Í þessu túffi má víða finna báruför, sem sýna að efni þetta hefur sest til í vatni. Útlit þeirra bendir til að um grunnt vatn hafi verið að ræða.

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Milli Keilis og Keilisbarna er hringlaga dalur. Víða má sjá að túfflögum hallar inn að þessum dal. Grágrýti er í toppum á Keili og sums staðar utan í honum virðist það koma fram og gæti það verið berggangur. Sennilega er þetta hraun í gosrás fjallsins því ekki er að efa að Keilir er eldstöð frá jökultíma.“

Sjá meira um jarðfræði Fagradalsfjalls HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, Náttúrfarsallnáll 2009, 3.-4. tbl. 2011, bls. 166.
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1966, Stapakenningin oog Surtsey, Guðmundur Kjartansson, bls. 2-4.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1984, Úr flæðamálinu, bls. 88.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Kålund

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Vesturháls

Vesturháls á Reykjanesskaga.

„Reykjanesskaginn hefur í raun og sannleika verið sem miðstöð hvers konar eldsumbrota, og þó að skaginn hafi þegar fyrir Íslands byggð verið sama útlits og eðlis sem nú, hafa þó jarðskjálfatr þráfaldlega skekið hann á sögulegum tíma, og hraunstraumar hafa runnið ofan á hina eldri frá næstum óteljandi gígum, sem opnast í fjallgörðum skagans, en þeir eru aðeins framhald af miklu meiri og víðlendari eldfjallabjálki sem liggur til landnorðurs inn í óbyggðir landsins. Slíkt hérað gat ekki verið mjög aðlaðandi fyrir fyrstu íbúana; „til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta“, segir Karli þræll Ingólfs, þegar húsbóndi hans að tilvísun öndvegissúlna nam alla Gullbringu – og Kjósarsýslu og nærliggjandi sveitir og settist að í Reykjavík, – og hvarf síðan á brott og ambátt með honum. –

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Í fornöld var landbúskapur eðlilegastur og hæfilegastur fyrir bónda, fiskveiði aftur móti í minna áliti, arðminni og einnig óvissari atvinnugrein. Fyrst eftir að ísland var komið undir yfirráð noskra konunga, hófst fiskverslun við útlönd, sem síðar varð svo mikilvæg (Maurer: Island 420-22, sbr. 412-14). Á fyrsta tímabili Íslandssögunnar var enn óþekkt þessi undirstaða framfærslu í fiskihéruðunum, sem gat í góðæri orðið til mikils framgangs efnuðum útgerðarbændum. Salan miðaðist þá við það sem landbændur keyptu; annars fiskuðu menn aðeins til eigin afnota, en hafa sennilega næstum alltaf stuðst svo og svo mikið við landbúnað. Einnig hefur það verið sjaldgæft að bændur færu sjálfir í verið niður við ströndina og tækju þar þátt í fiskveiðinni.

Selatangar

Selatangar – gömul verstöð á Reykjanesskaga.

Í þjóðveldislögunum, Grágás, er að vísu talað um „fiskiskála“ á nokkrum stöðum og að fólk dvelst þar um veturinn til fiskveiða, og einnig nefna nokkra af sögunum „vermenn“ (fólk sem dvelst um tíma í verstöðvum) og verstöðvar, þar sem margir komu saman, en ætla má að það hafi einkum verið lausamenn eða fólk frá fiskihéruðunum sjálfum, sem var að þessum störfum; má helst ætla það af athugunum á þessum málefnum eða þögn sagnanna um þau, en aftur á móti oftsinnis minnst á skreiðarkaup af útvegsbændum.

Skreið

Skreiðalest í Ögmundarhrauni.

Af þessu leiðir, að líklegt er, að ástand í Gullbringusýslu hafi í fornöld verið með allt öðrum hætti en nú. Nú er sýsla þessi ein hin mannflesta í landinu; er þar að vísu mikil fátækt, en einnig allmargir efnamenn á íslenska vísu. Á hverjum vetri eða raunar allt árið að undateknum sumarmánuðunum þremur sækir þangað fjöldi fólks, því að næstum hver bóndi frá Skafafellssýslu til Skagafjarðar kemur annaðhvort sjálfur eða sendir vinnumann til fiskveiða eina eða fleiri „vertíðir“. Þangað koma menn þúsundum saman, og búa þeir í bæjunum í hinum mestu þrengslum eða í verbúðum sem til þess eru útbúnar, og við illar aðstæður menningar gæti þetta orðið tilefni hinna margvíslegustu atburða. Þetta hefði tæplega þekkst í fornöld, án þess að um það hefði verið talað í sögunum.

Selsvellir

Selstóftir á Selsvöllum, fyrrum selstöð Grindvíkinga.

Fyrir austan Reykjanes er byggðarlagið Grindavík á suðurströnd skagans (Harðar s. 15, Gunnl. s.61). Byggðin liggur einnig hér meðfram sjónum, og er landsvipur hinn sami og fyrr hefur verið lýst. Uppi í landinu er hrjóstugt hraun, en ofar eru ýmsar hæðir og smáfjöll, sum nokkuð grasi gróin, en flest aðeins mosavaxin, jafnvel ekki einu sinni það, svört og nakin. Hraunið getur með nokkrum hætti kallast framhald af Almenningum, en gróðurminna og yngra.

Mosi

Mosahraun á Reykjanesskaga.

Þessi eru einkenni landsins, allt út til strandar, allt heim að túnum bæjanna er ekki annað að sjá en sand, blásnar heiðar og svart brunnið hraun. Byggðarlagið skortir mjög beitiland, bæði kýr og sauðfé, bæði málnytu- og geldpening verður að reka þegar á vorin frá bæjunum og til sameiginlegra selja upp undir fjöllunum; vegna þess að þarna er ekki sameiginlegt beitarland (afréttur) verða menn þar enn – eins og nokkrum öðrum svipuðum stöðum á Íslandi – að láta lömbin ganga undir ánum kefld, þ.e. með tréprjón, bundinn með bandi sem er krosslagt yfir höfuðið, liggur sem kjaftamél í munninum, svo þau geti ekki sogið. Einnig verður að reka hestana langt burtu frá bænum í hvert skipti sem þeir hafa verið notaðir. Þar er og mikil vatnsskortur. Víðast verður að notast við hálfsalt vatn úr pollum nálægt ströndinni eða úr sprungum í hrauninu, þar sem sjór fellur út og inn við hvert flóð og fjöru.“

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 17-28.

Kålund

Íslandskort Kålunds.

Keilir

Það hefur varla farið framhjá nokkrum að öflug og stöðug jarðskjálftarhrina hefur gengið yfir sunnanverðan Reykjanesskagann að undanförnu (skrifað 5. mars 2021).

Í Fréttablaðinu 04.03.2021 mátti lesa eftirfarandi:
Gosspenna á Reykjanesskaga
Reykjanesskagi
Óróapúls og kvikuhlaup á Reykjanesskaganum í gær bentu til að von væri á eldgosi á svæðinu á næstu dögum. Jarðeðlisfræðingur sem Fréttablaðið ræddi við átti ekki von á því að næstu byggðir væru í hættu.

Grindavík

Grindavík.

Kaflaskil urðu í jarðskjálftahrinunni á Reykjanesskaga í gær þegar svo virtist sem von væri á eldgosi.
Óróapúls greindist á mælum um miðjan dag og var þyrla Landhelgisgæslunnar send af stað til að kanna hvort gos væri að hefjast.
Þegar Fréttablaðið fór í prentun var gos ekki hafið.
„Þetta sem við sáum í dag var greinilega kvikuhlaup, kvikan hljóp þarna upp eða til hliðar en virðist ekki hafa farið nálægt yfirborði og þá hafi hlutirnir róast aftur,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, um stöðu mála í gærkvöld.

Tumi Guðmundsson

Tumi Guðmundsson.

„Svo er bara spurningin hvert framhaldið verður, eftir því sem svona atburðarás dregst á langinn aukast líkurnar á að þetta endi á gosi. Það verður að koma í ljós,“ heldur Magnús Tumi áfram.
„Ef það kemur eldgos á Reykjanesskaga yrði það sögulegur atburður. Það hefur ekki komið gos á þessu svæði í 800 ár og það gæti komið hrinu af stað. Það skal samt ekki gleymast að hrinur geta staðið yfir í aldir og það voru áratugir milli gosa síðast.“
Fram kom á blaðamannafundi almannavarna að jarðskjálftavirknin væri milli Litla-Hrúts og Keilis. Þar gæti kvika verið að brjóta sér leið og færast nær yfirborðinu. Freysteinn Sigmundsson hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands sagði erfitt að spá fyrir um nákvæma tímasetningu eldgossins.

Víðir Reynisson

Víðir Reynisson.

Um leið tilkynnti Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að fyrstu tákn væru um að gosið yrði eftir þeim sviðsmyndum sem Veðurstofan var búin að teikna upp og að hraunstraumar ættu ekki eftir að ógna mannfólki.
„Ef þetta endar með eldgosi þá ætti þetta ekki að vera sprengigos heldur flæðigos með lítilli sprengivirkni. Þetta ætti fyrir vikið ekki að koma til með að ógna næstu byggðum þótt það sé skiljanlegt að fólk í næstu byggðum hafi áhyggjur. Það snertir marga að það sé eldgos á þessu svæði en miðað við fyrri gos á þessu svæði ættu byggðir ekki að vera í hættu þótt það sé aldrei fullvíst,“ sagði Magnús Tumi, aðspurður út í hættuna fyrir næstu byggðir.
„Það getur alveg gerst að það verði ekkert gos á næstunni. Í Kröflueldum voru sífellt blikur á lofti um að það færi að gjósa en það var ekki fyrr en eftir árabil sem fyrsta gosið var. Það er ekki hægt að færa það yfir á þetta en það sýnir að það getur heilmikið kvikuhlaup átt sér stað án þess að það gjósi upp,“ sagði Magnús Tumi.

Í mbl.is þann daginn sagði: „Stærsti skjálftinn í rúma tvo sólarhringa„.
ReykjanesskagiJarðskjálfti sem reið yfir klukkan 8.54 var 4,5 að stærð samkvæmt upplýsingum frá jarðvársviði Veðurstofu Íslands. Jarðskjálftinn er á svipuðum slóðum og fyrri skjálftar, við Fagradalsfjall.
Skjálftinn fannst víða á suðvesturhorni landsins líkt og aðrir skjálftar af þessari stærð á Reykjanesi. Órói hefur ekki byrjað aftur samhliða skjálftanum.
Þetta er stærsti skjálfti síðan 2. mars kl. 03.05 en sá var 4,6 að stærð.

Í mbls.is sama dag segir: „Nýlegar sprungur eru á svæðinu„.

Reykjanesskaginn

Vitleysan öll…

Nýlegar sprungur eru á svæðinu við Litla Hrút, Fagradalsfjall og Sandfell, aðallega suðvestan við Keili. Ekki er hægt að segja til um hvort þær mynduðust í gær eða eftir stóra jarðskjálftann sem varð í síðustu viku.
Náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segist ekki vita hversu stórar sprungurnar eru.

Í DV mátti einnig lesa eftirfarandi:
Reykjanesskagi

Grannt er fylgst með jarðhræringum á Reykjanesi á næturvakt Veðurstofunnar. Auk eins veðurfræðings eru tveir á skjálftavakt. Sólarhringsmönnun hefur verið á skjálftavaktinni frá því skjálftahrina hófst á Reykjanesi fyrir viku síðan.

Bjarki Kaldalóns Friis

Bjarki Kaldalóns Friis.

Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis náttúruvársérfræðings hefur staðan á Reykjanesi lítið breyst síðustu klukkustundir. „Það er áframhaldandi jarðskjálftavirkni á svæðinu suðvestur af Keili. Óróinn er enn til staðar og hefur ekki breyst mikið frá því í kvöld.“
Skjálfti 4,1 að stærð reið yfir um klukka 00:59 í nótt, sá stærsti síðastliðinn sólarhring en þó litlu stærri en annar sem var á fjórða tímanum í dag.
Nýjar gervihnattamyndir af skjálftasvæðinu bárust í nótt, en eftir á að vinna úr þeim. Þá eru myndirnar bornar saman við fyrri myndir til að sjá þenslu jarðskorpunnar og fá vísbendingar um kvikumagn auk þess sem landris sést á myndunum. Í fyrramálið ætti yfir­ferðinni að ljúka.

Hafa ekki undan að yfirfara skjálfta
Meðal helstu verkefna næturvaktarinnar hjá Veðurstofunni er að yfirfara handvirkt þá skjálfta sem ríða yfir, greina stærð og staðsetningu. Óvinnandi vegur er þó að fara yfir þá alla enda skipta skjálftarnir þúsundum á hverjum sólarhring um þessar mundir. Þegar blaðamaður náði tali af Bjarka skömmu fyrir klukkan tvö í nótt voru skjálftarnir orðnir 215 frá miðnætti.

Reykjanesskagi
„Við náum auðvitað ekki yfir þetta allt saman. En ef maður er mjög duglegur getur maður náð 100-200 skjálftum á dag,“ segir hann. Því til viðbótar þarf að senda út tilkynningar, taka við símtölum frá almenningi og auðvitað svara fjölmiðlamönnum. „Þegar það er eitthvað mikið að gerast þá hringir almenningur mikið og sendir inn fyrirspurnir, en núna þegar þessi atburður er búinn að vera í gangi í yfir viku þá eru þau ekki mikið að senda tilkynningar eða hringja inn lengur,“ segir Bjarki.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli. Fjallið er fjölbreytt, bæði að gerð og lögun.

Ef gos hefst er aðeins einn á formlegri bakvakt, en Bjarki segist þó viss um að starfsfólk muni hrúgast inn ef til þess kemur. Því mætti segja að allir væru á óformlegri bakvakt.

Þá fer enda mikið ferli af stað. Breyta þarf litakóða fyrir flug yfir á rautt, senda út fréttatilkynningar og skrifa á vefinn. „Þess vegna eru þau sem eru ekki á vakt löngu farin heim að hvíla sig þannig að þau verði tilbúin ef eitthvað gerist. Það verða vonandi einhverjir sem eru úthvíldir,“ segir Bjarki.

Í DV samdægurs segir; „Hvað er óróapúls?

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Flestir landsmenn heyrðu í fyrsta skipti í gær orðið „óróapúls“. Það koma víða fyrir í fréttum í eftirmiðdaginn og um kvöldið en flestir hafa líklega í besta falli óljósa hugmynd um hvað það þýðir. „Óróapúls mældist í gær kl. 14:20 og sást á flestum jarðskjálftamælum og er staðsettur suður af Keili, við Litla Hrút,“ segir í samantekt Veðurstofunnar um atburði gærdagsins.

Sigurlaug Hjaltadóttir

Sigurlaug Hjaltadóttir.

Óróapúls er mikill fjöldi lítilla jarðskjálfta sem verða með örstuttu millibili. „Það sem við teljum að gerst hafi í gær var að kvika var að þrengja sér leið í gegnum jarðskorpuna. Virknin sýnir þá hvar spenna er í jarðskorpunni. Þegar hún rýkur upp köllum við það púls. Þá verður fjöldi lítilla jarðskjálfta, jafnvel með fárra sekúndna millibili,“ segir Sigurlaug Hjaltadóttir, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við DV.

Eins og Sigurlaug segir er líkleg skýring á óróanum í gær sú að kvika hafi verið að þrengja sér leið inn í jarðskorpuna. En óróapúls getur átt sér aðrar skýringar: „Í öðrum kringumstæðum geta verið aðrar skýringar, til dæmis suða á jarðhitakerfi,“ segir Sigurlaug en tekur fram að það eigi alls ekki við um atburði gærdagsins. Þar er líklegasta skýringin sú að kvika hafi verið að þrengja sér leið í gegnum jarðskorpu og valdið fjölda lítilla skjálfta með örstuttu millibili.

Sem sagt, stutta skýringin á orðinu „óróapúls“ er: Fjöldi lítilla jarðskjálfta með örstuttu millibili.

Í RÚV er sagt að „Eldgos við Keili gæti komið af stað keðjuverkun
Reykjanesskagi
Eldgos við Keili gæti komið af stað kvikuinnskotum á öðrum sprungusveimum á Reykjanesskaganum að mati Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings. Reykjanesskaginn sé allur virkt svæði og eldvirkni á svæðinu tengist milli kerfa. Páll telur mögulegt að kvikuinnskot geti orðið í Reykjaneskerfinu, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöllum og Henglinum. Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

Gígaröð

Sundhnúkagígaröðin.

Páll sagði að undanfarið ár hafi orðið ítrekuð kvikuinnskot í þessum kerfum en þau hafi ekki valdið tjóni. Hinsvegar sé ekki hægt að útiloka að ef kæmi til eldgoss myndi það hafa í för með sér kvikuinnskot á öðrum stöðum á Reykjanesskaganum sem gæti opnað sprungur ofanjarðar án þess að eldgos yrði á þeim stað.
Slíkar sprungur gætu haft í för með sér tjón á ýmsum innviðum eins og vegum, rafmagnslínum, vatnsæðum og fjarskiptum.

„Þegar svona virkni tekur sig upp þá virðist vera að öll svæðin taki undir“ segir Páll og bætir við að eina svæðið sem ekki hafi tekið undir ennþá séu Brennisteinsfjöll en að það sé bara tímaspursmál hvenær virkni hefjst þar líka.
„Eitt af því sem getur valdið tjóni eru sprunguhreyfingar og það er nokkuð sem við getum ekki horft framhjá. Kannski er það það alvarlegasta sem getur gerst þarna“ segir Páll og bendir á að Krísuvíkurkerfið teygi anga sína alveg inn í úthverfi höfuðborgarsvæðisins og sprungur samhliða kvikuinnskotum geti farið í sér tjón á innviðum. Því sé Krísuvíkurkerfið undir alveg sérstöku eftirliti vísindamanna.
Aðspurður hvort hann hafi áhyggjur af því að þetta gerist segir Páll að litlir skjálftar síðdegis í gær hafi verið óþægilega nálægt Krísuvíkursvæðinu.

Í Vísi segir: „Áfram gert ráð fyrir að gos muni hefjast
Reykjanesskagi
Áfram er mikil skjálftavirkni á Reykjanesskaganum þó eitthvað hafi dregið úr óróapúlsi í nótt. Þó er enn gert ráð fyrir að eldgos muni hefjast, að sögn Kristínar Jónsdóttur náttúruvársérfræðings. Stór skjálfti reið yfir í morgun en hann er sá stærsti í rúma tvo sólarhringa.

Kristín Jónsdóttir

Kristín Jónsdóttir.

Um 2500 jarðskjálftar mældust í gær, og frá miðnætti eru þeir um 800 talsins. Í heildina hafa ríflega átján þúsund skjálftar síðan hrinan hófst fyrir um viku síðan. Órói og skjálftavirkni minnkaði aðeins um miðja nótt en jókst aftur um fimm leytið. Þá mældist skjálfti af stærðinni 4,5 um klukkan 8.54 í morgun við Fagradalsfjall en hann fannst vel á suðvesturhorni landsins.
„Staðan núna er sú að það hefur kannski aðeins dregið úr ákafanum í þessari skjálftahrinu en hún er samt enn þá í gangi. Og hún er dálítið hviðótt þannig að það koma svona mjög öflugar hviður, stundum með stærri skjálftum og svo koma svona smá hlé inn á milli,“ segir Kristín.

Í miðjum atburði akkúrat núna

Keilir t.h. og Fagradalsfjalll t.v.

„Núna er búið að vera frekar rólegt síðustu tvo klukkutímana en þegar við horfum aftur í tímann þá sjáum við að það eru klukkutímar, jafnvel tveir til þrír klukkutímar, á milli sem eru frekar rólegir en svo tekur þetta sig alltaf upp aftur. Þannig að við erum bara inni í miðjum atburði akkúrat núna,“ bætir hún við.

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Kristín segir að viðbúið sé að fleiri öflugir skjálftar verði. „Þessum umbrotum fylgja greinilega sterkir skjálftar eða sæmilega sterkir skjálftar og við verðum bara að vera í þeim gírnum að þetta geti haldið eitthvað áfram,“ segir Kristín og bætir við að helstu breytingarnar í nótt hafi verið að virknin hafi fært sig til suðvesturs en sé áfram bundin við Fagradalsfjall.
Þá sé enn búist við að eldgos muni hefjast. „Á meðan hrinan stendur enn yfir að þá verðum við að gera ráð fyrir þeim möguleika. Ég held að flestir jarðvísindamenn séu sammála þeirri túlkun að þessi jarðskjálftavirkni og óróahviða sem kemur í gær að hún sé líklega til marks um kvikuhreyfingar. Og kvikan er á ferð þarna á þessu svæði. Á meðan kvikan er á ferð þá er auðvitað hætt við því að hún komi ofar í jarðskorpuna og komi upp. Þannig að við erum með þá sviðsmynd enn þá á borðinu, já.“
Vonir stóðu til að niðurstöður úr gervihnattamyndatöku lægju fyrir um hádegisbil í dag. Það hefur hins vegar frestast og að sögn Kristínar verða niðurstöðurnar að líkindum klárar seint í kvöld eða á morgun.

Í mbl.is segir: „Líklega byrjun á gosskeiði fari að gjósa
Reykjanesskagi
„Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér:

Eldgos

Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3000-3500 árum, 1900-2400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir hana á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hólósen (nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfunum á 900-1100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.
Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprung­um sem geta orðið allt að 12 km langar.
Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.

Síðasta eldsumbrotaskeið stóð í um 450 ár
Reykjanesskagi
Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun.

Reykjanes

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Á 10. öld gaus síðan aftur í Brennisteinsfjallakerfinu og runnu þá m.a. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraun) í Þrengslum, Húsafellsbruni í Heiðmörk, Breiðdalshraun, Selvogshraun og Tvíbollahraun/​Hellnahraun.

Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun. Ögmundarhraun eyddi a.m.k. einu býli sem sjá má merki um í Óbrennishólmum.
ReykjaneseldarEftir um 20 ára hlé hefjast síðan Reykjaneseldar sem stóðu yfir á tímabilinu 1210-1240 og marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs. Allgóð vitneskja er fyrir hendi um framgang Reykjaneselda 1210-1240. Eldarnir hófust með gosi í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi (skammt norður af Valahnúk). Eftir þetta færist gosvirknin á land og rann þá Yngra-Stampahraun frá 4 km langri gígaröð, líklega árið 1211. Samkvæmt rituðum heimildum gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó í Reykjaneseldum. Gjóskulög má merkja frá Reykjaneseldum í Þingvallasveit og í Borgarfirði frá um 1226 og á Álftanesi frá um 1231. Um tuttugu árum eftir Yngra-Stampagosið hófst sprungugos í Svartsengiskerfinu og á tímabilinu 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Eftir það lýkur eldunum og hefur ekki orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan.

Reykjanesskagi„Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér:
Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3.000-3.500 árum, 1.900-2.400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir Magnús á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hóló­sen ([nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfun­um á 900-1.100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.

Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 kílómetra langar.
Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.

Í DV segir jarðfræðingur „atburðarásina á Reykjanesskaga koma stöðugt á óvart

Reykjanesskagi

Hraunflæðispá – ein af mörgum.

Eins og kunnugt er mældist óróapúls sunnan við Keili á miðvikudaginn en slíkt er fyrirboði eldgoss en enn er ekki byrjað að gjósa á svæðinu. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir að vísindamenn séu að reyna að átta sig á hvaða möguleikar eru í stöðunni og að þeir séu mjög margir.

Gígaröð

Gígaröð í Eldvörpum.

Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Páli að atburðarásin komi vísindamönnum á óvart daglega.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Enn er mikil virkni á svæðinu en hún hefur færst í suðvestur frá Keili. Hefur Morgunblaðið eftir Páli að ekki sé nein leið að spá um hvert framhaldið verður því sérfræðingar eigi fullt í fangi með að reyna að skilja hvað gerðist eftir að óróapúlsinn mældist á miðvikudaginn.

Á gervihnattarmyndum sem ná frá 25. febrúar til 3. mars sést kvikugangur á milli Fagradalsfjalls og Keilis en þær sýna ekki verulega aukningu í kvikuhreyfingum í óróanum á miðvikudaginn. „Það hefði enginn orðið hissa þótt breytingarnar hefðu verið talsverðar og eitthvað hægt að ráða í þær. Það hefur verið kvikuhlaup en mjög lítið,“ er haft eftir Páli.

Hraunfæðispá

Hraunflæðispá 2021: Hér kemur ný hraunflæðispá miðað við atburði næturinnar. Eldsuppkomunæmi reiknað kl 11 í morgun. Nú koma fram 4 möguleg svæði hvar eldur gæti komið upp. Smá punktur er í Móhálsadal, Fagradalsfjalls svæðið, við Sýlingafell og Hauksvörðugjá. Af þeim sökum koma hraun frá 4 svæðinu. Nú tökum við sérstaklega fram að möguleikar á því að það komi til eldgoss á öllum svæðum í einu eru engar.
Kortið sýnir mögulega hraunrennslis leiðir, ef litur er dökkur er líklegra að hraun fari þar um og að sama skapi ef litur er ljós eru mun minni líkur á að hraun fari þar um. Þar sem það er eru nánast engar líkur á að gjósi á öllum svæðum munu ávalt vera opnir vegir, eins og komið hefur áður fram hjá Þorvaldi. Þá er mikilvægt að hraun tekur tíma að renna og því ávalt viðrbragðstími.
Kortið er til að glöggva okkur á hvar hraun gætu runnið.

Samkvæmt nýrri hraunflæðispá vísindamanna við Háskóla Íslands er gert ráð fyrir fjórum svæðum þar sem gæti gosið. Þetta eru Fagradalssvæðið, Hauksvörðugjá, Móhálsadalur og Sýlingarfell sem er rétt norðan við Grindavík. Breytingin frá fyrri spám eru að skjálftavirknin hefur dreift úr sér og því eru fleiri svæði talin líkleg en áður.

Á mbl.is má lesa eftirfarandi: „Dvínandi jarðskjálftavirkni

Óróinn og virknin á skjálftasvæðinu á Reykjanesskaga hefur dvínað aðeins eftir að hafa færst í aukana á sjötta tímanum í morgun. Enn er talsverð skjálftavirkni á svæðinu en ekki eins mikil og um hálfþrjúleytið í gær.
Að sögn náttúruvársérfræðingsins kemur þetta í bylgjum. Þegar átt er við að óróinn og virknin hafi dvínað er átt við þéttleika skjálftanna. Þar af leiðandi er óróapúlsinn ekki eins áberandi og í gær.
Spurður hvaða þýðingu þetta hefur segir sérfræðingurinn ekkert hægt að lesa úr stöðunni eins og hún er núna. Hlutirnir verði að koma betur í ljós.

Ekki séð gervihnattarmyndir

Flogið var yfir svæðið í þyrlu í gær og teknar myndir, auk þess sem starfsfólk var á staðnum áður en óróapúlsinn myndaðist. Fara þarf betur yfir þær upplýsingar sem fengust.

Sudhnúkur

Sundhnúkur – loftmynd.

Spurður hvort starfsfólk Veðurstofunnar muni fara á svæðið í dag segir hann það fara eftir því hvernig hlutirnir þróast.
Gervihnattamyndir áttu einnig að berast núna í morgun sem eiga að hjálpa til við að meta stöðuna en náttúruvársérfræðingurinn hefur ekki séð þær enn þá.

Funda með Veðurstofunni
Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, segir að næstu skref verði að fá upplýsingar um hvernig nóttin var og funda svo með Veðurstofunni. Hann segir stöðuna óbreytta frá því sem var í gærkvöldi.

HÉR má sjá myndskeið gossögunnar í Geldingadölum fyrstu tíu dagana á fimm mínútum….

Reykjanesskagi

Jarðfræðikort.

Ergo
Þegar þetta er skrifað 4. mars 2021 skelfur jörðin enn á Reykjanesskaganum.
Málið er að allt framangreint virðist fljótt á litið vera hjóm eitt, þ.e.a. ályktanir svonefndra „sérfræðinga“ er hvorki byggja gögn sín á sögulegum staðreyndum né víðtækri þekkingu á landssvæði Reykjanesskagans.
FlekaskilÍ fyrsta lagi ganga skil Evrasíu- og Ameríkufleka jarðskorpunnar upp í gegnum Reykjanesið er liggja síðan austan með sunnanverðu landinu að miðsvæði þess þá er þau skera það í tvennt til norðausturs uns hlaup verða á skilununum til vesturs á leið þeirra áfram til norðurs.
Engin ummerki eru enn um að gosið hafi orðið á flekaskilunum sjálfum, a.m.k. ekki á landi. Stóru dyngjugosin fyrir meira en 5000 árum voru á kvikuþróm út frá flekaskilunum, flest til norðurs, s.s. Þráinsskjöldur, Hrútargjárdyngja, Stóra-Lambafell, Kistufell og Ölkelduháls. Möttulstrókurinn, sem nú er undir Vatnajökli, var í þá daga mun vestar og hefur eflaust ýtt undir kvikumyndun á þessum svæðum.

Eldvörp

Eldvörp – gígaröð.

Í öðru lagi hafa langflest gos á Reykjanesskaganum síðustu 5000 árin verið svonefnd sprungureinagos, þ.e. gosið hafa orðið á sprungum, mislöngum eftir aðstæðum. Sprungureinar þessar liggja langflestar til norðnorðausturs út frá flekaskilunum. Lengsta sprungureinagosið varð 1151 er Ögmundarhraun rann, en þá náði sprungan frá sunnanverðum Núpshlíðarhálsi að Helgafelli ofan Hafnarfjarðar. Af þessum gosum hafa jarðfræðingar dregið ályktanir að svonefndar kvikuþrær lægju þvert á flekaskilin í tilgreindum sveimum inn til landsins. Það segir hins vegar lítið um það hvort og hve mikla kviku er þar að finna í dag.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort. Hér má sjá flekaskilin (svart) og fyrrum kvikuhólfin (hvít).

Í þriðja lagi sýna jarðskjálftamælingar nánast einungis hreyfingar á flekaskilunum, sem verður að teljast eðlilegar þótt það kunni að þykja óþægilegt. Ef um aukna kvikumyndun væri að ræða undir niðri myndu skjálftamælar og gps-mælingar bæði sýna auka hreyfingu á jarðskorpunni út frá flekaskilunum sem og landris. Því hefur ekki verið til að heilsa. a.m.k. ekki hingað til.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

Í fjórða lagi má líta á landfræðilegar aðstæður á svæðinu í kringum Keili, Fagradalsfjall og nágrenni. Þegar Þráinsskjöldur gaus fyrir u.þ.b. 9000 árum rann hraun bæði til austurs og norðvesturs, myndaði t.d. Vatnsleysuströndina og heiðina upp af henni. Þá má ætla að frá dyngjunni hafi legið jafnlæg hraunbreiða niður að ströndinni. Nú má hins vegar sjá á landssvæðinu miklar gjár og misgengi upp á tugi metra. Slík landmótun hefur ekki gengið þegjandi og hljóðlaust fyrir sig í gegnum árþúsundin, en þó án nýrrar uppstreymiskvikumyndunar, að einum stað undanskildum, þ.e. í smáum „Eldvörpum“ ofan Knarrarnessels. Hraungosin í Kálffelli, í Rauðhólsröðinni ofan Skógfella og Sundhnúkagígaröðin eru seinna til kominn, líkt og Eldvörp og Stamparnir.

Kvikuhólf

Kvikuhólf og kvikuþró.

Í fimmta lagi virðast jarðfræðingar fyrrum, sem unnu frábært skráningarstarf á hraunaupptökum og -rennsi, hafa dregið þá ályktun að gígaraðirnar séu enn tákn um virkar kvikuþrær undir niðri. Reyndar er fátt, sem bendir til þess, umfram það sem jarðarþróin stóra getur annars eðlilega boðið upp á. Hún er og verður reyndar óútreiknanleg svo lengi sem Jörðin mun verða til.
Í sjötta lagi hafa Grindvíkingar löngum þurft að upplifa skjálftahrinur líkar þessum. Á tólftu öld var nánast ólíft á svæðinu. Á þrettándu öld flúðu íbúarnir og byggðin lagðist í eyði um langt skeið. Í lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. hrundu bæir í jarðskjálftum, s.s. á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík. Núlifandi Grindvíkingar munu að vísu ekki þau tímabil, en óþægindatímabil voru þau samt, þeim er þá lifðu.

Kvikuþró

Kvikuþró.

Í sjöunda lagi mættu fjölmiðlar vera meira vakandi; ekki bara endurtaka og mata almenning á upplýsingum frá „sérfæðingunum“, heldur gera sínar eigin athuganir. Hversu margt fjölmiðlafólk skyldi hafa gengið um svæðið, lesið landið og ályktað tilurð þess út frá landfræðilegum aðstæðum í gegnum tíðina? Nánast hver einasti nútíma fjölmiðlaumfjallandi virðist nú vera orðinn sérfræðingur í landsháttum svæðisins á örskömmum tíma.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin.

Í áttunda lagi finnst mér sorglegt hversu margt fjölmiðlafólk kann ekki að stafsetja örnefnið „Krýsuvík“ – sjá HÉR.
Í nýjunda lagi á bæði „sérfræðingar“ og fjölmiðlafólk það til að rugla saman örnefnum; skjálftarsvæðið við Fagradalsfjall er ekki á Reykjanesi. Reykjanes er syðsti hluti Reykjanesskagans, þar sem m.a. Reykjanesvitinn trjónar nú. Reykjanesskaginn er landssvæðið allt, landnám Ingólfs fyrrum er hann nam á milli „Brynjudals og Ölfusárósa“. Alltaf betra þegar fjölmiðlafólk gerir sér annt um að geta réttra heimilda – ekki síst út frá sögulegu samhengi.

Fjallasýn

Útsýni að Keili og nágrenni frá höfðuborgarsvæðinu – örnefni.

Las í gær áhyggjur íbúa á Völlunum í Hafnarfirði í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla af væntanlegu gosi. Hann virtist hræddur og krafðist skýringa af hálfu lögregluyfirvalda. Náði að útskýra fyrir honum að hann þyrfti ekkert að óttast, ef spár „sérfræðinganna“ gengi eftir; millum væntanlegs eldgoss suðvestan Keilis væru a.m.k. þrjú hraun frá 12. og 13. öld er myndu hindra hraunstraum í átt til hans. Hann gæti því bara setið rólegur á sínum svölum og notið dásemdanna, ef af yrðu.

Rykjaneskaginn

Krútt.

Með fullri virðingu fyrir svonefndum „jarðvársérfræðingum“, sem virðast vera nokkurs konar „veðurfréttamenn“ hversdagsins, er á stundum svolítið erfitt að hlusta á glaðklakkanlegar útskýringar þeirra, að því að virðist, án nokkurs rökstuðnings m.t.t., eins og að framan sagði; sögulegra og landfræðilegra aðstæðna. Undantekningin er þó söguleg umfjöllun mbl.is.
Sakna gömlu góðu jarðfræðinganna; Jóns Jónssonar og Kristjáns Sæmundssonar, sem kenndu mér svo margt. Hólósenheilkennið virðist hafa truflað margan nútímajarðfræðinginn.

Ef svo ólíklega vildi til að eldgos birtist ofan jarðar í framhaldinu á þessu tilgreinda landssvæði yrði það bara kærkomin sjón. Flest fólk upplifir slíka ásýnd ekki nema einu sinni á ævinni…

Hér má sjá það nýjasta á Vísir.is (6. mars):
Gætum séð fram á virknitímabil sem spannar árhundruð.

Keilir

Yfirlit yfir væntanlegt jarðgosasvæði milli Keilis og Fagradalsfjalls.

Enn er full ástæða til að hafa gætur á vegna jarðhræringanna á Reykjanesi að sögn jarðeðlisfræðings. Skjálftavirkni sé enn mikil þrátt fyrir að fólk finn ef til vill minna fyrir skjálftum eins og staðan er núna. Það kunni að vera að framundan sé ákveðið virknitímabil á Reykjanesskaganum sem gæti spannað nokkur hundruð ára tímabil.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

„Það er áframhaldandi skjálftavirkni þó að fólk finni kannski ekki jarðskjálftana þannig að þeir eru minni heldur en þeir hafa verið. En þeir eru mjög tíðir og GPS-mælar sem ég vinn helst með sýna að það er áframhaldandi þensla á svæðinu,“ segir Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, í samtali við fréttastofu.

Halldór sérhæfir sig einkum í jarðskorpuhreyfingum. „Sumir kalla okkur krumpufólkið. Við erum að skoða hvernig jarðskorpan beyglast og reyna að túlka þannig hvað er að gerast ofan í jarðskorpunni,“ segir Halldór.

Hærri líkur ekki það sama og háar líkur
Þá segir hann heilmargt hafa komið á óvart hvað varðar þær jarðhræringar sem nú standa yfir. „Það er búið að vera magnað að fylgjast með þessu núna síðastliðna rúma viku og bara til dæmis það að við séum að sjá kviku á ferð þarna er eitthvað sem að mörg okkar hafi kannski ekki alveg órað fyrir. Það er langt síðan að það hefur gosið akkúrat á þessum slóðum þótt að þar hafi gosið mörgum sinnum áður. En þetta er kannski ekki það fyrsta sem fólk átti von á. Það er spennandi fyrir jarðvísindaáhugafólk að fylgjast með þessu,“ segir Halldór.

Hvernig metur þú líkurnar á eldgosi akkúrat núna?

„Það er mjög erfitt að segja til um einhverjar líkur. En á meðan við sjáum að einhver kvika er að flæða inn í kerfið, sem við sjáum núna, það er að flæða inn nokkuð magn af kviku á hverjum degi, og á meðan að það er í gangi þá eru alltaf hærri líkur á eldgosi. En það þýðir ekki endilega að það séu háar líkur,“ segir Halldór. „Það þarf bara að fylgjast vel með öllum tiltækum ráðum.“

Kvikugangurinn á hreyfingu

Eldgos

Tölvugerð skjámynd í Kastljósi RÚV um það sem landsmenn kynnu að vænta.

Hann segir útlit fyrir að þessi kvikugangurinn hafi færst aðeins til suðvesturs fyrir nokkrum dögum og hann haldi áfram að þenjast út. „Þannig það er full ástæða til að hafa fullar gætur á öllu,“ segir Halldór.

Er ekki ástæða til að ætla að þetta sé að verða búið?

„Nei það held ég ekki og ekki vísbendingar um það. Þannig að eins og ég segi, það er stöðug skjálftavirkni í gangi, þeir eru bara það litlir að fólk finnur fæsta þeirra,“ svarar Halldór.

Eldgos
„Jarðskjálftavirknin færist aðeins til, þannig milli 25. febrúar og fram til 3. mars þá var mest af virkninni á milli Fagradalsfjalls og Keilis en svo 3. mars var heilmikil jarðskjálftavirkni og þá er kvikan að brjóta sér leið lengra í raun og veru inn í Fagradalsfjall, eða undir það, og er að fara kannski kílómetra, einn eða tvo þar undir eða eitthvað svoleiðis, og það hefur líka svolítil áhrif á jarðskjálftavirknina. Þannig að þegar svona berggangar, eða kvikugangar troðast út þá breyta þeir líka spennu á mismunandi misgengjum og á miklu stærra svæði heldur en akkúrat þar sem þessi gangur er að þenjast út,“ útskýrir Halldór.

Kvikugangur

Gjávella eða kvikugangur.

Það orsaki kannski að einhverju leiti þá jarðskjálftavirkni sem hefur verið nær Grindavík. „Það er alla veganna ein helsta skýringin sem við erum með þessa dagana. Kvikugangurinn virðist ekki vera á neinni ferð þangað beinlínis, það er frekar að stefnan sé núna meira suðlæg heldur en að hann sé að ferðast til suðvesturs. Þannig að það er ekkert sem að styður að það séu einhverjar kvikufærslur þarna nærri bænum,“ segir Halldór.

En eru enn jafn miklar líkur á að það verði stór skjálfti líkt og talað var um fyrir helgi. Er viðbúið að skjálfti upp á 6 eða meira kunni að ríða yfir á svæðinu?

Kvikugangur

Kvikugangur.

„Það eru heilmiklar breytingar á landinu og aflögun á landinu um einhverja sentímetra eða tugi sentímetra og þetta hefur áhrif á þessi jarðskjálftamisgengi sem geta jafnvel verið þó nokkuð í burtu. Þannig að það lítur út fyrir að það hafi kannski heldur minnkað líkur á jarðskjálfta í Brenniseinsfjöllum, þessi tegund af hreyfingu hefur tilhneigingu til að ýta aðeins saman misgengjunum þar þannig að þau festast frekar. En það eru í sjálfu sér ekki miklar breytingar þannig að sú hætta er alltaf enn fyrir hendi svona í bakgrunninum en það er síður líklegt,“ svarar Halldór.

Gætum séð fram á virknitímabil sem spannar árhundruð?
Hann segir að ekki sé hægt að segja til um hversu lengi þetta muni halda áfram eða hvenær þessu muni ljúka. Ekki sjái fyrir endann á virkninni ennþá.

Grindavík

Grindavík.

„Við höfum kannski verið í tiltölulega rólegu tímabili síðustu áratugina og síðustu árhundruðin en það er náttúrlega ekki útilokað að það hafi verið viðlíka hrinur áður en að góðar mælingar voru til. En svo getur líka verið að við séum að fara inn í ákveðið virknitímabil á Reykjanesskaganum og það getur þá spannað tímabil sem við myndum mæla þá í einhverjum hundruðum ára, með einhverjum smá gosi hér og hvar, stundum stærri og stundum minni og stundum jarðskjálftar og fleira. En þetta er nú allt í stóra samhenginu þá er þetta nú kannski frekar smátt í sniði yfirleitt, alla veganna sýnir jarðsagan okkur það,“ segir Halldór.

Heimildir:
-https://frettabladid.overcastcdn.com/documents/210304_ny.pdf
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/staersti_skjalftinn_i_ruma_tvo_solarhringa/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/nylegar_sprungur_eru_a_svaedinu/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/allir_a_tanum_a_vedurstofunni/
-https://www.dv.is/frettir/2021/3/4/ord-gaerdagsins-hvad-er-oroapuls/
-https://www.ruv.is/frett/2021/03/03/eldgos-vid-keili-gaeti-komid-af-stad-kedjuverkun
-https://www.visir.is/g/20212080792d/afram-gert-rad-fyrir-ad-gos-muni-hefjast
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/liklega_byrjun_a_gosskeidi_fari_ad_gjosa/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2021/03/04/liklega_byrjun_a_gosskeidi_fari_ad_gjosa/
-https://www.dv.is/frettir/2021/3/5/pall-segir-atburdarasina-reykjanesskaga-koma-stodugt-ovart/
-https://www.visir.is/g/20212081717d/gaetum-sed-fram-a-virknitimabil-sem-spannar-arhundrud

Goshrina

Goshrina – sem spáð var á milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Kjós

Í Degi, Íslendingaþáttum, árið 1998, er fjallað um „Morðóðan og ófróman bónda á Frossá í Kjós“.

Morðóður og ófrómur bóndi á Frossá

Reynivallaháls

Kjós.

Axlar-Björn er einn frægasti morðingi Íslandssögunnar. Öxl í Breiðuvík á Snæfellsnesi var í alfaraleið og urðu ferðamenn fegnir að fá gistingu í bænum. Björn réði þeim þá bana og rændi þeim verðmætum sem þeir höfðu meðferðis.

Fossá

Fossárrétt hin nýrri við Fossá.

Sagt er að 19 manns hafi verið vegnir í rúmum Axlarbónda, sem tekinn var, dæmdur og höggvinn fyrir ódæði sín. En Axlar-Björn var ekki sá eini sem lagðist á ferðamenn með þessum hætti. Magnús Sighvatsson, sem bjó á Fossá í Kjós á árabilinu 1729-1770, var sterklega grunaður um að myrða og ræna ferðamenn sem leið áttu um hlöð hans.
Örnefnið Dauðsmannsbrekka á Reynivallahálsi í Kjós dregur nafn sitt af þeim atburði að þar hafi maður verið myrtur og sögn er til um að þar hafi Magnús á Fossá átt hlut að máli. Magnús var ættaður af þessum slóðum. Faðir hans Sighvatur Halldórsson var frá Meðalfelli, en móðir hans Kristín Erlingsdóttir frá Esjubergi á Kjalarnesi. Var Magnús fæddur á Hurðarbaki í Kjós árið 1704.

Morð í Dauðsmannsbrekku

Kjós

Kjós – Dauðsmannsbrekka of Fossá.

Magnús Sighvatsson var forn í skapi og talinn fjölkunnugur. Hann var illa þokkaður meðal nábúa sinna og þorðu fáir á hann að leita. Honum er svo lýst, að hann hafi verið mikill og sterkur og illur viðureignar ef því var að skipta. Þessa lýsingu á Magnúsi skráði Jósafat ættfræðingur Jónasson, en hann ritaði eftir sögnum á Hvalfjarðarströnd. Hann var vel efnum búinn og héldu sumir að auður hans væri miður vel fenginn.

Gíslagata

Gíslagata upp frá Fossá.

Sagt er að maður nokkur norðlenskur hafi verið sendur suður í Reykjavík, sumir segja suður að Bessastöðum á Álftanesi, og hafði hann allmikla peninga meðferðis. Maður þessi gisti á Fossá hjá Magnúsi á suðurleið og er ekki annars getið en að allvel hafi farið á með þeim meðan heimafólk vissi til. Snemma morguns lagði ferðamaður af stað eins og leið lá yfir hálsinn suður af Fossá, en er hann var skammt kominn verður hann þess var, að tveir menn veita honum eftirför. Þekkir hann þar Magnús bónda á Fossá og Eyjólf son hans. Man hann þá eftir að hafa heyrt ýmsar misjafnar sögur af Magnúsi og kemur í hug að hér muni ekki allt með felldu.

Kjós

Kjós – Reynivallaháls.

Leitar hann nú undan suður á hálsinn, en þeir á eftir og létta eigi fyrr en þeir ná honum í brekku einni þar í hálsinum, skammt frá veginum er liggur niður frá Fossá suður að Reynivöllum. Taka þeir feðgar þegar til hans og biðja hann að afhanda sér peninga þá er hann hafði meðferðis. Norðlendingurinn tekur því fjarri og réðust þeir feðgar þá þegar á hann, og var viðureigna þeirra bæði hörð og löng, því Norðlendingurinn hafði krafta í kögglum.

Reynivallasel

Reynivallasel ofan Fossár.

Er svo skýrt frá að Magnús hafi látið Eyjólf son sinn ganga aftan að manninum og hafi Eyjólfur lagt hnífi milli herða honum, meðan Magnús glímdi við hann að framan.
Er það haft eftir manni er Guðmundur hét og bjó á Hálsi í Kjós, og reið þar skammt frá þeim suður yfir hálsinn þennan sama dag, og að hann hafi séð viðureign þeirra, en treystist ekki til að hjálpa þeim ókunna manni, þótt hann sæi dauða hans þegar vísan. Er jafnvel sagt að Norðlendingurinn hafi kallað til Guðmundar og beðið hann hjálpar, en Guðmundur sá það síðast til, að þeir feðgar höfðu kominn manninum á hné og mæddi hann þá mjög blóðrás, svo að vörn hans var á þrotum. Þeir feðgar veittu honum þá þegar tilræði með hnífnum.

Sönnunargögn skorti

Kjós
En það er af Guðmundi að segja að hann tók svo nærri sér að geta ekki bjargað manninum, að hann lagðist þegar í rúmið þegar hann kom heim og varð hann aldrei síðan samur og áður á meðan hann lifði. Einkum sótti á hann sinnisveiki og ætluðu menn að orsökin var að hann skyldi hlaupast frá þegar voðaverkið var framið.

Gíslagata

Dys við Gíslagötu.

Þegar sama dag og morðið var framið var mannsins leitað og fannst hann eftir tilvísun Guðmundar í brekku þeirri, er síðan er kölluð Dauðsmannsbrekka.
Aldrei sannaðist þetta verk til fulls upp á Magnús, enda er sagt að ekki hafi verið gerður að því neinn reki. Guðmundur vildi og mjög lítið um þetta tala og aldrei gat hann þess í votta viðurvist, og er sagt að bæði hann og aðrir nábúar hans, er líka höfðu grun um hver valdið hafi, hafi dulið það mest fyrir ótta sakir, því þeir vissu að Magnús var bæði fjölkunnugur og í öllu hinn versti viðureignar.
Guðmundur sá er hér er fjallað um var Þórðarson. Hann var fæddur 1725 og dó 1798. Hann bjó á Neðra-Hálsi og þótti merkisbóndi. Hann var faðir Lofts hreppstjóra á Hálsi og Þorsteins stúdents í Laxnesi í Mosfellssveit. Fjölmenn ætt er komin frá Guðmundi.

Prestur marinn til dauða

Kjós

Kjós – Svínaskarð.

Margar eru fleiri sagnirnar um Magnús á Fossá og þótti hann jafnan hinn mesti misindismaður og menn þóttust vissir um að hann hefði oftar orðið ferðamönnum að fjörtjóni.
Einar Torfason var prestur á Reynivöllum 1747 -1758. Hann dó snögglega í Svínaskarði er hann reið á eftir lest sinni og sonur hans fór með yfir skarðið nokkru fyrr. Fannst Einar þar fallinn af hestinum og marinn til dauða, með annan fótinn fastan í ístaðinum. Hugðu flestir að dauða hans hafi borið að af manna völdum og var Magnús á Fossá grunaður um verknaðinn, því menn þóttust áður vita að óvild var á milli þeirra, en hvað þeim hafi orðið að sundurþykkju er ekki frá greint.

Féll á eigin bragði

Kjós

Á Reynivallahálsi.

Þess er getið að maður nokkur var sendur úr Borgarfirði suður til Reykjavíkur og var erindi hans að sækja peninga til einhvers í Reykjavík. Það var um vetur og var hjarn yfir allt. Maður þessi gisti á Fossá hjá Magnúsi bónda og var honum vel tekið, svo að hann þóttist hvergi á leið sinni hafa fengið jafngóðar viðtektir og var Magnús honum þó ókunnur með öllu.

Kirkjustígur

Á Kirkjustíg milli Reynivalla og Fossár.

Að morgni er Borgfirðingurinn fer af stað fylgir Magnús honum á veg og verður þeim allhjaldrjúgt, og kemur þar niður tal þeirra, að Magnús spyr ferðamann um erindi hans til Reykjavíkur. Borgfirðingurinn grunaði ekki að brögð væru í tafli og segir honum allt hið ljósasta um erindi sín. Áður en þeir kveðjast býður Magnús honum að koma við hjá sér á bakaleið og segir sér forvitni á fréttum að sunnan. Heitir hinn þessu og heldur síðan sína leið.
Ekki er sagt af ferðum hans fyrr en hann hefur lokið erindum sínum og fer hann þá sömu leið til baka og gistir á bæ einum í Mosfellssveit. Bóndi spyr hann hvort hann hafi komið að Fossá til Magnúsar og segir Borgfirðingurinn honum allt um samtal þeirra, því að hann var kunnugur bónda. Bóndi varð hljóður við og ráðleggur sendimanni að fara aðra leið, þar sem Magnús verði hans ekki var og segir honum að ef Magnús nái fundi hans, muni tvísýnt um hvort hann komist heill á leiðarenda.

Kjós

Kjós – Fossá og Reynivallaháls.

Borgfirðingurinn féllst á ráð hans og fer þó yfir Reynivallaháls, en nokkuð frá almannavegi, eða að minnssta kosti annan veg en hann hafði áður farið og ætlar ekki að koma við á Fossá. Magnús fær grun af þessari ætlun hans og hefur spurn af för hans og situr fyrir honum, þar sem honum þótti líklegast að leið hans mundi liggja og þar hittast þeir á Reynivallahálsi.

Kirkjustígur

Varða við Kirkjustíg.

Magnús spyr sendimann þegar, hvers vegna hann hafi ætlað að forðast bæ sinn. En hinn segist hafa álitið þessa leið beinni, enda hafi hann verið búinn að vera lengur á ferðinni en hann hafi búist við. Hafi hann og frétt að Magnús væri ekki heima. Magnús gefur þessu engan gaum og ræðst þegar á manninn og segist ekki munu láta hann fara án þess að hafa gefið honum ráðningu fyrir að hafa brugðið loforði sínu og skuli hann ekki gera það fleirum. Hinn tekur sterklega á móti og kveðst vilja fara ferða sinna óhindraður af Magnúsi, þar sem hann hafi ekkert til saka unnið. Glíma þeir ekki lengi áður en þar kennir aflsmunar, svo að Magnús varð að bíða lægri hlut í viðskiptum þeirra, og gekk hinn svo frá Magnúsi, að hann komst nauðulega heim til sín, lagðist og dó skömmu síðar. Hörmuðu hann fár er hann þekktu.
Ýmsar sögur eru um að Magnús hafi gengið aftur og gert skráveifur og að illa hafi hann legið kyrr í kirkjugarðinum á Reynivöllum. En [þær] draugasögur verða ekki tíundaðar hér.

Illmennska í arf

Kjós

Kjós.

Magnús á Fossá var enn á lífi 1772 en dáinn er hann fyrir 1780. Kona hans hét Þuríður Magnúsdóttir og var hún enn á lífi 1780. Þau áttu mörg börn en mestar sögur fara af Eyjólfi syni þeirra, sem var líkur föður sínum í flestu, gáfaður og vel að sér sem hann, en hið mesta illmenni og ekki frómur.

Kirkjustígur

Kirkjustígur ofan Fossár.

Eyjólfur bjó á Fossá fyrstu búskaparár sín eftir lát föður síns. Þá grunaði menn að hann væri valdur að hvarfi nokkurra kinda sem hurfu frá einum eða fleiri nágrönnum hans. Hann frétti að gera ætti þjófaleit á bænum. Lét hann hið stolna fé þá í gryfju eina dimma er var undir baðstofugólfi á Fossá, og var ekki hægt að sjá það nema taka upp gólffjalirnar. Til þess að ekki heyrðist jarmur kindanna, tók hann það ráð að skera úr þeim tungurnar. Má af því marka innræti hans og hefur honum þar svipað til föður síns. Þó að hið stolna fé fyndist ekki að þessu sinni hjá Eyjólfi, höfðu menn þó stöðugt grun á honum, enda komst síðar upp, að grunurinn var ekki ástæðulaus og er sagt að Eyjólfur hafi verið dæmdur fyrir sauðaþjófnað.

Heimild:
-Dagur – Íslendingaþættir; Morðóður og ófrómur bóndi á Frossá, 29.08.1998, bls. 1-2.

Gíslagata

Dys í Dauðsmannsbrekku á Reynivallahálsi.

Grænadyngja

Árni Óla skrifaði um „Heiðina og Eldfjöllin“ umleikis Keili í bók sinni „Strönd og Vogar“.

Ströbnd og Vogar

Strönd og Vogar – Árna Óla.

„Vatnsleysuströnd hefir ekki af mörgum fjöllum að státa, en þau eru þeim mun merkilegri. Þar er Keilir og þar er Vesturháls eða Trölladyngjur, einhverjar merkustu eldstöðvar hér á landi.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur, sem manna mest hefir rannsakað Reykjanesskaga, taldi að hann mundi vera yngsti skagi á Íslandi og skapaður af eldgosum. Hann telur skagann því mjög grimilegan til fróðleiks fyrir eldfjallafræðinga. Hér sé svo að segja allar gerðir eldfjalla, gíga og yngri eldmyndana, sem finnist á Íslandi. Móbergsfjöllin hafi jafnvel myndazt við eldgos. Og Þorvaldur Thoroddsen sagði um eldgígana hjá vestanverðum Núpshlíðarhálsi, að þær gosstöðvar væri mjög merkilegar, því að þær sýni augljóslega hvernig eldgos verða, og hvergi sjáist neitt þessu líkt á Íslandi, og þótt víðar væri leitað.
Það eru tveir brattir og langir hálsar, sem liggja samhliða um miðjan Reykjanesskaga, og sem eru einu nafni nefndir Móhálsar.

Trölladyngja

Trölladyngja.

En til aðgreiningar voru þeir kallaðir Austurháls og Vesturháls. Nú er Austurhálsinn alltaf kallaður Sveifluháls, og sunnan að honum er Kleifarvatn og Krýsuvík.

Vesturháls

Vesturháls.

Vesturhálsinn er eins og ey í ólgandi hraunhafi, en hefir það til síns ágætis, að hann er grösugur og víða em þar tjarnir og lækir, en slíkt er mjög fátítt á Reykjanesskaga. Hann mun upprunalega hafa verið kallaður einu nafni Trölladyngjur, en nú heitir hann ýmsum nöfnum. Nyrzt á honum em tvö mikil fjöll, Trölladyngja (375 m) og Grænadyngja (393 m). Trölladyngja er hvass tindur og blasir við í suðri frá Reykjavík. í kyrru veðri má þar oft sjá reyki mikla, enda er þar mikill jarðhiti, hverir margir og gufur upp úr hrauninu. Grænadyngja er aftur á móti kollótt og er auðvelt að ganga á hana. Þaðan er mjög vítt útsýni. Sér vestur á Eldey og austur til Kálfstinda, en Reykjanesskaginn blasir allur við og má glögglega greina upptök hinna ýmsu hraunelfa og hvemig þær hafa ruðzt hver ofan á aðra.

Sog

Í Sogum.

Fyrir sunnan Dyngjurnar er skarð í hálsinn og heitir Sog, og er þar 400—500 feta djúpt gil. Þar fyrir sunnan hækkar svo hálsinn aftur og kallast þar Grænavatnseggjar, hvass fjallshryggur. Þar fyrir sunnan heitir svo Selsvallafjall og Núpshlíðarháls og nær hann vestur í Ögmundarhraun.

Vesturháls

Vesturháls og Austurháls með hraunin á millum.

Flest hraunin á Reykjanesskaga hafa runnið fyrir landnámstíð. Þó geta annálar þess nokkrum sinnum, að eldur hafi verið uppi í Trölladyngjum, svo sem 1151, 1188, 1340, 1360, 1389—90 og 1510. Um gosið 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að þá „spjó Trölladyngja úr sér allt til hafs við sjávarsveit þá, er kölluð er Selvogur“. Margir hafa dregið í efa, að þetta geti verið rétt, því að hraun úr Trölladyngju hafi ekki getað runnið niður í Selvog, þar sem há fjöll sé á milli. Þessir menn hafa rígbundið sig við ömefnin Trölladyngju og Selvog, eins og þau em nú notuð, en gá ekki að því, að þau vom yfirgripsmeiri forðum.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Þá var allur Vesturháls nefndur Trölladyngja, en „í Selvogi“ mun hafa verið kölluð öll ströndin þaðan og vestur að Selatöngum. Þetta var upphaflega eitt landnám. Þórir haustmyrkur nam þetta svæði allt, setti Hegg son sinn niður í Vogi (sem nú kallast Selvogur), en bjó sjálfur í Krýsuvík. Bær hans mun hafa staðið þar sem nú heitir Húshólmi niðri undir Hælsvík.

Húshólmi

Húshólmi – hin gamla Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Þennan bæ tók Ögmundarhraun af þegar það rann fram, og í óbrennishólmanum Húshólma má enn sjá veggi og bæjarrústir koma fram undan hrauninu. Er það full sönnun þess, að hraunið hafi runnið eftir landnámstíð og tekið þama af bæ, sem oft er nefndur „gamla Krýsuvík“. Í hólmanum er á einum stað nefndur Kirkjuflötur og bendir til þess að þarna hafi verið kirkja. Þar er og glöggur garður um 900 fet á lengd. Eftir þetta hraunflóð halda menn að bærinn hafi verið fluttur upp til fjallanna, þar sem hann stóð síðan og kallaðist Krýsuvík.

Ögmundarhraun er komið úr nær 100 eldgígum hjá suðurendanum á Núpshlíðarhálsi. Bæði Jónas Hallgrímsson og Þorvaldur Thoroddsen hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að hraun þetta hafi runnið 1340. Er því hér um að ræða sama hraunið sem Gísli biskup Oddsson segir að „runnið hafi til hafs við sjávarsveit þá, er kallast Selvogur“. Verður þá allt auðskilið. Selvogsnafnið hefir náð yfir alla ströndina í landnámi Þóris haustmyrkurs.

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Margir staðir hér á landi eru kenndir við tröll, og svo var einnig í Noregi. Má því vera að sum nöfnin hafi landnámsmenn flutt með sér hingað. Um uppruna nafnsins Trölladyngja vita menn ekkert, má vera að mönnum hafi þótt „dyngjan“ svo ferleg, að hún hæfði tröllum einum. Vera má og, að menn, sem aldrei höfðu séð eldgos fyrr en þeir komu hingað, hafi haldið að á eldstöðvunum byggi einhverjar vættir og fest trú á hin reykspúandi fjöll.
Landnáma getur þess um Hafurbjörn Molda-Gnúpsson (þeir námu Grindavík), að hann dreymdi að bergbúi kæmi að honum og byði að gera félag við hann, og þá Björn það. Bergbúar geta verið með ýmsum hætti. Sumir bergbúar vora landvættir.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun og nágrenni.

Það er dálítið einkennilegt, að Landnáma getur hvergi landvætta nema á Reykjanesskaga, og segir: „Það sá ófresk kona, að landvættir fylgdu Hafurbirni þá er hann fór til þings, en Þorsteini og Þórði bræðrum hans til veiða og fiski.“ Því má vera, að Hafurbjörn hafi talið, að bergbúi sá, er hann gerði félag við, hafi verið landvættur og átt heima í Trölladyngju.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Íslands.

Snorri Sturluson segir frá því í Heimskringlu, að Haraldur Gormsson Danakonungur þóttist þurfa að hefna sín á Íslendingum vegna þess að þeir höfðu orkt um hann níðvísu á nef hvert. Sendi kóngur til Íslands fjölkunnugan mann í hvalslíki til njósna. En hann komst hvergi á land fyrir landvættum. Þegar hann ætlaði seinast að ganga á land á Víkarsskeiði, þá „kom í mót honum bergrisi og hafði járnstaf í hendi, og bar höfuðið hærra en fjöllin, og margir aðrir jötnar með honum“. Þetta voru landvættir. Bergbúinn mikli, sem fyrir þeim var, skyldi þó aldrei vera sá, sem Trölladyngja er við kennd, Hafurbjörn bónda dreymdi, og nú er í skjaldarmerki Íslands?
Vatnsleysubændur hafa nýlega gert akfæran veg að Trölladyngju og er hann um 10 km. Er þá fyrst komið á Höskuldarvelli, en það er einhver stærsti óbrennishólminn á Reykjanesskaga. Er þar vítt graslendi, sem nær frá Trölladyngju langt út í Afstapahraun, eða er þó öllu heldur tunga milli þess og Dyngjuhrauns.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Líklegt má telja, að menn fari að venja komur sínar á þessar slóðir úr því að vegur er þangað kominn. Hér er að sjá stórbrotið og einkennilegt landslag. Óvíða eða hvergi munu vera jafnmargir eldgígar á jafn-takmörkuðu svæði og hér er, og þó mikill gróður. En til þess að skoða sig um, verða menn að ferðast fótgangandi, og er það engum ofætlun, sérstaklega ef þeir hafa nægan tíma, og góða tjaldstaði má finna hér á fallegum stöðum. Menn ætti því að dveljast hér nokkra daga og skoða „öræfadýrð Íslands í miðri byggð“, því að það er fyrirhafnarminna heldur en að þeytast inn á hálendið.

Trölladyngja

Trölladyngja – herforingjaráðskort.

Hér skal aðeins drepið á hvaða leiðir er heppilegt að fara. Er þá bezt að fara fyrst umhverfis Dyngjunnar.
Norður úr Trölladyngju gengur rani og úr honum hafa mestu gosin komið. Vestan í honum er röð af stórkostlegum gígum og eru tveir þeir syðstu langstærstir. Minni gígarnir eru sumir eins og glerjaðir innan og með ávölum brúnum. Aðrir em eins og steyptir geymar eða stórkeröld úr jámi. Menn ætti að fara mjög varlega hjá gígum þessum og ganga ekki tæpt út á brúnir þeirra, því að limlestingar eða bani er búið hverjum þeim, sem í þá fellur.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.
Hörðuvellir heita austan við Dyngjurnar. Þaðan liggur götuslóði gamall suðurfyrir þær og að Sogi og má svo fara niður með því.

Sog

Sogin og Grænadyngja.

Hjá Sogi hefir áður verið mikill jarðhiti og er þar allt sundur soðið af hveragufum og móbergið orðið að marglitum leirtegundum. Sunnan við Sog, uppi á fjallinu, er rauður leirhver með mörgum opum. Þar fyrir sunnan er Grænavatn. Sunnan við það eru um 100 eldgígar uppi á hálsinum. Eru þeir í mörgum röðum og sumir geysistórir. Við neðri rönd vatnsins er sá stærsti. Umhverfis þessa gíga eru fjöldamargir smærri gígar með ýmsu móti. I hlíðinni hjá Sogi eru eldgígarnir óteljandi.
Skemmtileg og greiðfær leið er frá Sogi suður með hálsinum. Er þar fyrst Oddafell á hægri hönd, en síðan kemur Driffell. Sunnan við það, úti í hrauninu, er Hverinn eini, sem hefir fært sig úr stað oftar en um sinn.

Selsvellir

Selsvellir.

Þar fyrir sunnan er komið á Selsvelli. Þar var áður selstaða frá Hrauni og Stað í Grindavík. Selsvöllum hefir dr. Bjarni Sæmundsson lýst svo: „Einn fallegasti staðurinn á Suðurkjálkanum, og einn sá er verðast er að sjá þar, eru Selsvellir, vestan undir algrænni hlíðinni á Selsvallafjalli, sem er miðhlutinn af Vesturhálsinum.

Selsvellir

Selsvellir – seltóftir fremst.

Selsvellir ná milli hrauns og hlíðar 2 km, rennisléttir og vel grösugir. Tveir lækir úr hlíðinni renna yfir vellina og hverfa svo í hraunið. Er þarna mjög kvöldfagurt í góðu veðri, iðjagræn hlíðin á aðra hönd, en opið útsýni til Hraunsels, Vatnsfells, Keilis, Driffells o. fl.“ Þorvaldur Thoroddsen var líka hrifinn af Selsvöllum, er hann kom þangað og gisti þar í tjaldi. Hann sagði, að þar væri fríðara land og byggilegra heldur en víða þar sem mikil byggð er, nógar slægjur á völlunum og ágæt beit í hálsinum. Hann hélt, að þar mundu vel geta staðið 2—3 bæir.
Fyrir sunnan Selsvelli em svonefnd Þrengsli. Um þau liggja landamerki Vatnsleysustrandarhrepps í Núpshlíð fremst. Á hlíðinni upp af Selsvöllum er gríðarstór eldgígur, um 3000 fet að ummáli. Niðri í honum em aðrir smærri gígar, og margir einkennilegir smágígar eru utan í hálsbrúninni. Fyrir sunnan Selsvelli eru stórir gígar í hrauninu fyrir neðan hálsinn, en inn með hlíðinni að austan em gígar þeir, sem Ögmundarhraun kom úr.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Sé nú haldið inn með hlíðinni að austan, liggur leiðin um Stóra-Hamradal og Litla-Hamradal. Enn innar er komið að bæjarrústum. Voru þar fyrrum tveir bæir, kot eitt, er Bali hét og komið er í eyði fyrir löngu, og Vigdísarvellir.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Þarna var áður sel frá Krýsuvík, en bæirnir voru byggðir sem hjáleigur þaðan um 1830. Í miklum jarðskjálfta í lok janúarmánaðar 1905 hrundu öll hús eða stórskemmdust á Vigdísarvöllmn, og fór bærinn þá í eyði. Þarna er enn mikið og slétt tún, en komið í mosa. Eggert Ólafsson segir í Ferðabók sinni, að Núpshlíð sé mjög rómuð fyrir það, hve margt fagurra jurta vaxi þar. Getur hann um nokkrar tegundir, þar á meðal jarðarber.
Norðan við Vigdísarvelli skagar háls fram í hraunið og heitir Vigdísarháls. Innan við hann er graslendi, sem heitir Krókamýri, og innan við hana skagar fram annar háls, sem heitir Traðarfjöll. Þar fyrir norðan er graslendi, sem heitir Lækjarvellir. Þar er dálítil tjörn og rennur úr henni lækur í Djúpavatn. En úr Djúpavatni rennur lækur niður Sog, og sé honum fylgt, er aftur komið á Höskuldarvelli og þar með er hringferðinni um Vesturháls lokið.

Húshellir

Í Húshelli.

Í hraununum á Reykjanesskaga má finna óteljandi fylgsni, enda hafa útilegumenn hafzt þar við. Glöggvastar sagnir eru af þremur útilegumönnum, sem settust að í helli hjá Selsvöllum 1703. Hét einn Jón Þórðarson úr Eystrihrepp, annar Jón Þorkelsson úr Landeyjum og sá þriðji unglingspiltur, er Gísli hét Oddsson. Höfðu þeir verið á flækingi áður – og stálu víða á bæjum, seinast í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd. Bóndinn á Ísólfsskála varð þeirra var, og fluttust þeir þá í annan helli norðar, skammt frá Hvernum eina. (Þess má geta hér, að Hverinn eini þýðir hverinn frábæri). Hellir þessi er í hrauninu milli Selsvalla og Sogs. Meðan þeir voru þarna stálu þeir nokkrum sauðum, og rændu svo ferðamann, Bárð Gunnarsson úr Flóanum. Þarna var þá alfaraleið. Eftir þetta söfnuðu bændur á Vatnsleysuströnd liði, handtóku útilegumennina og fluttu þá til Bessastaða. Þaðan voru þeir svo fluttir til Alþingis á Þingvöllum og dæmdir. Jónarnir voru báðir hengdir hinn 13. júlí, en Gísla var hlíft vegna æsku, en þó fékk hann þá húðstrýkingu, er næst gekk lífi hans.“

Heimild:
-Strönd og Vogar – Heiðin og Eldfjöllin, Árni Óla, Reykjavík 1961, bls. 246-253.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir og Bali – uppdráttur ÓSÁ.

Keilir

Sesselja Guðmundsdóttir skrifar um Keili og nágrenni í bók hennar um „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Rétt er að rifja upp að gefnum ástæðum, nú þegar það allt virðist vera að fara á hvolf, a.m.k. skv. umfjöllun fjölmiðla að undanförnu, þrátt fyrir aðrar slíkar þar í gegnum aldirnar. Starfsfólk Veðurstofunnar virðist hafa fengið ný tæki, sem það hefur límt augu sín við – teljandi skjálfta út og suður, án þess að við hin séum nokkurs nærri hvers er að vænta…
Svæðið, sem um er fjallað, geymir ekki einungis dýrmætar jarðminjar frá fyrri jarðsögutímabilum, heldur og miklar menningarminjar, sem flestum „talningarvísindamönnunum“ hversdagsins virðast vera með öllu ómeðvitaðar…

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

„Frá Vestra-Lambafelli höldum við yfir svolítið hraunhaft og komum að Eldborg eða Katli en síðara nafnið er að finna í heimild frá Hvassahrauni. Eldborgin var fallega lagaður gígur um 20 m hár með djúpa og gróna gígskál. Borgin var á náttúruminjaskrá en er þar ekki lengur. Mikið efni hefur verið tekið úr gígnum allt frá því vegur var lagður þarna upp eftir og fram til dagsins í dag. Framkvæmdir við tilraunaborholur á svæðinu hafa tekið sinn toll úr Eldborg og er borgin nú sorglegt merki um aðför að náttúrugersemum. Jarðhiti er í og við borgina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: „Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svœði og sennilega hið síðasta. Það er yngra en Afstapahraun …“ (Jarðfrœðikort af Reykjanesskaga, bls. 170). Hraunið er frá sögulegum tíma eins og fyrr segir.
Eldborgarhraun sem þekur tæplega fimm ferkílómetra rann upp að Lambafellum og síðan áfram norður og niður úr. Hraunið liggur m.a. að Mosum, Snókafelli og Sóleyjakrika (sjá síðar). Sumir kalla fyrrnefnt hraun Lambafellshraun en líklega er réttara að kenna það við Eldborgina sem það kom úr.
Trölladyngja (375 m) heitir vestari hnúkurinn og Grænadyngja (402 m) heitir sá eystri. Í fjallinu hefur fundist silfurberg.

Sesselja Guðmundsdóttir

Sesselja Guðmundsdóttir.

Milli Dyngna er skarð sem skipt er þversum aflágum hálsi og heitir hann líklega Söðull. Örnefnið Folaldadalir eða Folaldadalur hefur heyrst og þá notað um skarðið sjálft en þetta örnefni er einnig á Austurhálsinum. Þarna gæti verið um staðarugling að ræða eða þá hitt að sama örnefnið sé til á báðum hálsunum. Góð uppganga er um grasi grónar brekkur á báða hnúkana úr skarðinu.

Þegar upp er komið sjáum við vítt yfir, sérstaklega þó af Grænudyngju sem ber nafnið með sóma enda hnúkurinn grasi gróinn til efstu hjalla.

Út úr Grænudyngju til norðausturs gengur Dyngjuháls eða Dyngjurani og utan í honum er fjöldi gíga sem sent hafa hraunstrauma langt niður í Almenning.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Jónsbrennur heitir hitasvæðið suður og vestur af Eldborg og þar sjáum við töluverða gufu á nokkru svæði. Ekki er vitað frá hvaða manni nafnið er komið. Menjar um gamla tilraunaborholu frá Orkustofnun má sjá ofan Jónsbrenna, fast við norðurrætur Trölladyngju.

Grænadyngja

Grænadyngja. Trölladyngja t.v. Sogin framar.

Næst förum við yfir Höskuldarvelli en það eru stórir vellir fast við vesturrætur Trölladyngju. Vellirnir eru rúmlega kílómetri að lengd en tæpur á breidd. Þeir urðu til við leirframburð Sogalækjar sem kemur úr hitasvæðinu Sogum (sjá síðar) og rennur norður um vellina.

Spákonuvatn

Spákonuvatn – Keilir fjær.

Ekki er vitað við hvaða mann vellirnir eru kenndir en líklega er þetta ævagamalt örnefni.
Sóleyjakriki heitir nyrsti endi vallanna þar sem graslendið teygir sig inn á milli hraunveggjanna langleiðina norður að Snókafelli (147 m). Fellið er landamerkjapunktur Vatnsleysu og Hvassahrauns. Samkvæmt orðabók merkir snókur fjallstindur eða klettastrýta og einnig rani eða tota. Fellið er umkringt hrauni á alla vegu en auðveldast er að komast að því um fjárgötu frá botni Sóleyjakrika. Eldborgarhraun liggur að krikanum að austanverðu en Afstapahraun að honum vestanverðum. Fast vestan við krikann liggur Höskuldarvallavegur sem fyrr er nefndur. Sogalækur hverfur niður í hraunið í Sóleyjakrika og þornar reyndar oftast upp á sumrin á miðjum Höskuldarvöllum.

Sóleyjarkriki

Sóleyjarkriki. Höskuldarvellir nær.

Á seinni hluta 18. aldar var rúmlega 20 hreindýrum sleppt lausum á Reykjanesfjallgarðinn og eftir miðja 19. öldina hafa þau líklega skipt hundruðum og dreifðust um fjöllin allt austur í Olfus. Vesturslóðir hreindýranna voru við og ofan Keilis og á árunum milli 1860-70 sáust, líklega á Höskuldarvöllum, um 35 dýr.

Hreindýr

Hreindýrshorn við Hjartartröð ofan Hafnarfjarðar.

Um aldamótin, eða þegar loks voru sett á lög um algjöra friðun, voru hreindýrin hér í fjöllunum útdauð og þá líklega vegna ofveiði enda veidd án takmarkana eða eftirlits í 33 ár.
Við vesturjaðar Höskuldarvalla er Oddafell sem Þorvaldur Thoroddsen kallar Fjallið eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega er um nafnarugling að ræða hjá Þorvaldi því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur. Oddafell er lágt (210 m) en um þriggja kílómetra langt og í austurhlíðum þess, nokkuð sunnarlega, er jarðhiti.

Höskuldarvellir

Höskuldarvellir.

Næst skoðum við tóftirnar af Oddafellsseli sem var frá Minni-Vatnsleysu en það liggur í vesturrótum fellsins skammt fyrir sunnan Höskuldarvallastíg (sjá síðar) þar sem hann beygir út í apalhraunið til vesturs. Þar sjást tvær-þrjár tóftir og einnig kvíahleðslur í hraunjaðrinum rétt sunnan við selið.
Keilir (378 m) er einkennisfjall Reykjanesskagans og fyrrum víðfrægt mið af sjó. Eftirfarandi vísa um Keili er eftir Jón Helgason frá Litlabæ í Vatnsleysustrandarhreppi.

Keilir fríður kennast skal,
knappt þó skrýði runnur,
fagran prýðir fjallasal
fyrr og síðar kunnur.
Þekkti ég siðinn þann afsjón
þekkan liði drengja
Keilir við um flyðrufrón
fiskimiðin tengja.
Sæfarendur reyna rétt
rata’ að lending heilir;
til að benda’ á takmark sett
tryggur stendur Keilir.

Keilir

Keilir. Rauðhólar nær.

Í lýsingu Kálfatjarnarsóknar frá árinu 1840 eftir séra Pétur Jónsson segir að sjófarendur kalli Keili Sykurtopp. Þetta er líklega samlíking við keilulöguð sykurstykki sem menn kölluðu sykurtoppa og voru á markaðnum áður en strásykur kom til sögunnar. Til gamans má geta þess að fjallið sem krýnir innsiglinguna í Rio de Janeiro í Brasilíu heitir Sykurtoppur en það fjall líkist ekki beint „Sykurtoppnum“ okkar. Einnig er til jökulfjall nálægt Syðri-Straumfirði á Grænlandi sem heitir Sykurtoppur.

Keilir

Keilir – séður frá Sogum.

Keilir varð til við gos undir jökli og strýtumynduð lögunin kemur til af gígtappa í honum miðjum sem ver hann veðrun. Fjallið er tiltölulega auðvelt uppgöngu og við pjökkum upp öxlina að austanverðu þar sem þúsundir fóta hafa markað leiðina. Nokkuð ofarlega í Keili er smá torfæra með klungri en stutt þaðan á toppinn. Á hverju ári koma nokkur hundruð manns á Keilistopp og pára nöfn sín í gestabók sem þar er. Það er víðsýnt af Keili og útsýn tilkomumikil til allra átta. Keilir, Höskuldarvellirnir og næsta nágrenni þessara örnefna eru á náttúruminjaskrá.

Oddafellsel

Oddafellssel.

Norðvestan undir Keili eru þrír móbergsstabbar og heitir sá nyrsti Hrafnafell (142 m) og er fellið nefnt í gömlum landamerkjalýsingum. Fellið dregur nafn af hrafnslaupi sem þar var og enn sjást merki um. Stabbarnir hafa verið kallaðir Keilisbörn og virðist það örnefni vera að festast í sessi. Það nafn var ekki notað af heimamönnum fyrrum.
Þorvaldur Thoroddsen notar örnefnið Keilisbörn yfir sömu hnúka í lýsingu sinni og það er einnig á landakorti frá árinu 1910. Á korti Fandmælinga Islands frá árinu 1989 heitir öxl Keilis Hrafnafell sem er jafnrangt. Skilyrðislaust ættu þau örnefni sem eigendur landsins notuðu og fmnast í gömlum landamerkjalýsingum alltaf að vera gildust á kort.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Í sandhólunum vestur af Keili eru þrjú tófugreni sem kölluð eru Keilisgrenin.
Við austanvert Hrafnafell komu saman a.m.k. tveir stígar frá byggð. Þórustaðastígur er annar þeirra og liggur sá frá Kálfatjarnarhverfi upp heiðina yfir Vesturháls og allt til Vigdísarvalla. Hinn lá upp frá Kúagerði vestan við Afstapahraunið og upp undir Keili, við hann sjást vörðubrot á stöku stað.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Rauðhólsselsstígur lá frá Vatnsleysubæjum og í fyrstu útgáfu þessarar bókar er það nafin sett á götuna upp með Afstapahraunsjaðrinum frá Kúagerði en það er líklega rangt. Trúlega hefur selstígurinn legið beint frá bæ upp í selið eins og aðrar slíkir í hreppnum, ekki er vel ljóst hvar hann lá en þó hafa fundist ummerki um hann, t.d. fyrir neðan Kolhóla. Fólk frá Minni-Vatnsleysu sem nýtti selstöðu við Oddafell hefur líklega einnig notað Rauðhólsselstíginn upp undir það sel en haldið síðan áfram um nú nafnlausa götu upp heiðina og yfir í Oddafellssel. Leiðin upp frá Kúagerði virðist koma inn á Þórustaðastíginn á milli Grindavíkurgjár og Stóra-Kolhóls (Kolhóls) en þar hafa nýlega fundist einhver gatnamót.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur.

Á korti frá 1936 sést Þórustaðastígur og gatan frá Kúagerði koma saman nokkru norðan Keilis sem stenst miðað við gatnamótin fyrrnefndu. Það er augljóst að töluverð umferð manna hefur verið fyrrum á þessum slóðum, vermenn, fólk á leið til og frá verslunarstöðum, t.d. Straumsvík og Vatnsleysu, fólk að sækja eldivið, fara til og frá seljum o.fl. Af heiðinni yfir hraunið að Oddafelli heitir svo Höskuldarvallastígur eða Oddafellsstígur og var sá notaður fyrrum af selfólki úr Sogaseli (sjá hér á eftir) og Oddafellsseli.
Nú á tímum er hluti hins upprunalega Höskuldarvallastígs genginn af fólki sem fer á Keili. Til þess að finna upphaf núverandi slóða við Oddafell göngum við spölkorn suður með vesturhlíð fellsins þangað til við komum á stíginn sem er mjög greinilegur þar sem hann liggur yfir 7-800 m breitt Höskuldarvallahraun en það liggur milli Oddafells og heiðarinnar austan Keilis.

Björn Gunnlaugsson

Uppdráttur Björns Gunnlaugssonar.

Á seinni tímum hefur gatan færst sunnar í heiðina og liggur nú að uppgöngunni á fjallið. Gamla selgatan er ekki sjáanleg lengur þarna á háheiðinni en þegar komið er spöl inn í hraunið greinist hún fljótlega út úr núverandi Höskuldarvallastíg og stefnir á selstæðið undir Oddafelli.

Breiðagerðisstígur

Breiðagerðisstígur.

Á uppdrættinum frá árinu 1831 eftir Björn Gunnlaugsson er merkt gata frá Breiðagerði og upp heiðina. Sú gata er sett inn á kortið sunnan Keilis að Driffelli og svo áfram sömu leið og Þórustaðastígur. Í fyrstu taldi ég að Björn hefði merkt Þórustaðastíginn rangt inn á kortið (þ.e. sett hann sunnan við Keili) en nú hefur komið í ljós nokkuð glögg vörðuröð, en óljós gata, þarna niður heiðina sunnan og vestan Keilis í átt að Knarrarnesseli. Leiðin er sérkennilega vörðuð með „lykilvörðum“ á áberandi stöðum með löngu millibili en á milli þeirra litlar „þrísteinavörður“. Sumstaðar þar sem „lykilvörðurnar“ eru sjást eins konar hlið á götunni, þ.e. lítil varða andspænis þeirri stóru og nokkrir metrar í millum. Gatan endar að því er virðist við Knarrarnessel þannig að þeir sem notuðu götuna hafa svo haldið áfram selstíginn en sá er óvarðaður að mestu.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Á síðustu öld fóru bændur úr Brunnastaða-, Ásláksstaða- og Knarrarneshverfi með hrossastóðið til beitar í Fjallið þessa leið en þeir sem innar bjuggu á Ströndinni notuðu Þórustaðastíg. Þessi gata sem og Þórustaðastígur hafa ólíklega verið þjóðleiðir fyrrum heldur eingöngu notaðar af hreppsfólki.

Keilir

Litli-Hrútur; eldgos 2023. Keilir t.v.

Nokkurn spöl suðvestur af Keili, u.þ.b. tvo km, er lítil útgáfa af Keili sem heitir Nyrðri-Keilisbróðir og er annar Keilisbræðra. Þessi „bróðir“ er nefndur í landamerkjabréfum Knarrarness og Breiðagerðis frá árinu 1886.
Heimamenn hafa einnig notað nafnið Litli-Hrútur yfir þennan hnúk, þó sérstaklega í seinni tíð. Grindvíkingar nota örnefnið Litli-Keilir þannig að hnúkurinn ber í raun þrjú nöfn. Yngra fólk hér í hrepp er einnig farið að nota nafnið Litli-Keilir enda er hnúkurinn nefndur svo á mörgum kortum Landmælinga Íslands og gætir þar greinilega áhrifa frá Grindvíkingum. Fyrir neðan Nyrðri-Keilisbróður er Hjálmarsgreni í Hábrúnum en það eru hæstu hjallar gömlu hraundyngjunnar Þráinsskjaldar sem við förum um á eftir.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Nú færum við okkur upp fyrir Oddafell og Höskuldarvelli. Milli Trölladyngju og vallanna lá jeppaslóði fyrrum sem nú er orðinn fólksbílafær með rilkomu rannsóknaborana sem gerðar hafa verið sunnan Höskuldarvalla og við Sogalækinn uppi í hálsinum.

Sog

Sogadalur – Keilir framundan.

Vegurinn liggur upp gjallbrekku sem heitir Sogamelar. Þarna hafa orðið töluverð spjöll og breytingar á annars fallegu landi síðustu árin vegna tilraunanna.
Við höldum upp brekkuna og fylgjum Sogalæknum spöl inn í dalverpi sem heitir Sogaselsdalur eða Sogadalur. Þarna á vinstri hönd er stór gamall gígur sem heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur og snýr hann opi til suðurs. Gígurinn er girtur skeifulaga hamrabeltum og mynda veggirnir því gott aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Margar kofatóftir eru innst í gígnum og kví undir vestari hamraveggnum.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Frá Sogaseli förum við í Sogin, djúp gil sem greina Dyngjurnar frá fjöllunum sunnan til og liggja þau þvert um hálsinn. Á leiðinni sjáum við lítinn leirhver nokkuð hátt uppi í grasbrekku handan við Sogalækinn, skammt fyrir ofan efra borplanið. Fyrir neðan brekkuna eru nokkrir djúpir smágígar.

Sogin

Sogadalur – borplan.

Sogin eru 150-200 m djúp litrík leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Frá Sogum er auðveld uppganga á Grænudyngju. Göngufólk ætti að forðast í lengstu lög að ganga í leirnum þarna því hann hleðst undir grófmunstraða skósólana eins og steypa.
Á hálsinum suður og vestur af Sogum er Spákonuvatn og í misgengi rétt vestur afþví er minna vatn og til eru heimildir um Spákonuvötn og þá Stóra-Spákonuvatn og Litla-Spákonuvatn. Heimild er einnig til um Spákonudali og er þá átt við lægðirnar sem vötnin eru í. Þorvaldur Th. nefnir ekki Spákonuvatn en segir umrætt vatn heita Grænavatn og lýsir ítarlega gígafjöldanum sem liggur niður af vatninu til vesturs. Á landakorti frá árinu 1910 er það sama uppi á teningnum.

Grænavatn

Grænavatn.

Grænavatn, sem er stærra er Spákonuvatn, er til þarna á miðjum Vesturhálsi suður af Spákonuvatni og var fyrst sett inn á kort Landmælinga Íslands árið 1936. Vatnið er líklega í Krýsuvíkurlandi og því ekki talið með örnefnum í hrepps landinu. Stangveiðifélag Hafnarfjarðar hefur gert tilraunir með fiskirækt í Grænavatni.
Suður afSpákonuvatni förum við um móbergshryggi og stapa og hæst ber hvassa tinda sem heita Grænavatnseggjar (332 m). Eggjarnar eru nefndar í landamerkjalýsingu Þórustaða frá 1886.

Ofan og sunnan við Grænavatnseggjar er svo Grænavatn sem fyrr er nefnt.
Af Grænavatnseggjum höldum við svo niður á jafnsléttu aftur og að syðri enda Oddafells en spöl suður af honum er Hverinn eini sem nú er nánast útdauður.

Grænavatnseggjar

FERLIRsfélagar í Grænavatnseggjum.

Hverinn var sá stærsti á Reykjanesskaga fyrir aldamótin síðustu og árið 1888 þegar Þorvaldur Th. ferðaðist um svæðið segir hann hverskálina um 14 fet í þvermál: „… það er sjóðandi leirhver … Í góðu veðri sést gufustrókurinn úrþessum hver langt í burtu, t.d. glögglega frá Reykjavík.“

(Ferðabók I, bls. 181). Upp úr aldamótunum fór hvernum að hraka og árið 1930 var hann aðeins volg tjörn (frásögn heimamanns). Nú er þarna stórt hverahrúðurssvæði með smá dæld í miðið en aðeins til hliðar við það er lítið brennisteinsgufuauga í holu milli steina og á nokkrum stöðum umhverfis stíga daufir strókar til lofts.

Hverinn eini

Hverinn eini – brennisteinn.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna segir: „Hver þessi er kringlóttur og allstór, 7 álnir [1 alin = ca 57 cm] /þvermál og 4 álna djúpur, en nafnið ber aðeins einn hver, hinn stærsti af allmörgum heitum hverum og uppgönguaugum, sem liggja þar í þyrpingu … Hverinn eini ber nafn af því, að hann liggur einn út af fyrir sig.“ Og einnig: „Eitthvert fegursta bergið, sem jarðeldurinn á Suðurlandi hefir eftir sig látið, er lagskiptur, bráðinn sandsteinn. Það af honum, sem við fundum hjá Hvernum eina, er dálítið sérkennilegt tilbrigði.“ Menn segja einnig að „eini“ þýði sá frábæri eða einstaki.

Sagnir eru til um Útilegumannahelli nálægt Hvernum eina og í Vallaannál frá árinu 1703 segir: „… á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu; þar tóku þeir sér hœli undir skúta nokkrum, … Leizt þeim þá eigi að vera þar lengur, og fóru norður aptur með fjallinu í helli þann, er skammt er frá hverinum Eini. Voru þar síðan 3 vikur, og tóku 3 sauði þar í hálsunum, ræntu einnig ferðamann, …“.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eins og sést er hverinn þarna nefndur Einir en það nafn sést ekki í öðrum heimildum og gæti verið misritun. Töluverð leit hefur verið gerð að hellinum en án árangurs. Samkvæmt munnmælum er hann lítill og ómerkilegur og sagt er að yfir opið hafi verið lögð hella til þess að forða fé frá því að lenda ofan í honum.

Driffell

Driffell.

Vestur af syðri enda Oddafells er fell úti í hrauninu sem heitir Driffell (254 m). Í fellinu finnst silfurberg og holufyllingar eru þar nokkuð áberandi. Við Driffell að austan og norðan liggur Þórustaðastígur en um hann var féð rekið úr fjallinu á haustin og eins var hestastóð rekið vor og haust um sama veg eins og komið hefur fram. Eins og fyrr segir liggur stígurinn frá Ströndinni upp alla heiðina, fram hjá Hrafnafelli, Keili og Driffelli og síðan upp og yfir hálsinn að Vigdísarvöllum. Þegar farið er um Þórustaðastíg á þessum slóðum þarf aðeins að fara yfir einn apalhrauntaum og liggur sá við Driffell að sunnanverðu.
Melhóll heitir hóll við Þórustaðastíg og stendur hann fast við hraunjaðarinn sem snýr að Keili. Hóllinn er mitt á milli Driffells og Keilis og á gömlum fjallskilaseðlum var mönnum gert að hittast á Melhól og þar var leitum síðan skipt. Nálægt Melhól eru tvö greni, annað er Driffellsgreni en hitt Melhólsgreni.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Nafnið Driffell er sérkennilegt og gæti verið komið af nafnorðinu drif, (snjódrífa, fjúk) eða þá af sögninni að drífa eitthvað áfram, reka eitthvað áfram og gæti þá átt við fjárrekstur enda auðveldast að koma fénu yfir úfið hraunið með því að fara Þórustaðastíginn um Driffellsmóana. Á þessum slóðum er stígurinn einnig kallaður Driffellsstígur og hraunið umhverfis fellið Driffellshraun.

Selsvellir

Á Selsvöllum. Moshóll og Keilir fjær.

Við fylgjum stígnum frá Driffelli og yfir að Moshól sem er stór, reglulegur og skeifumyndaður gígur við norðurenda Selsvalla. Mosakápan á austurhlíð hólsins er mjög illa farin eftir hjólför „náttúruníðinga“ sem hafa fundið hjá sér þörf fyrir að aka sem lengst upp í hlíðina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir að gosið úr Moshóli hafi líklega verið það síðasta í hrinunni sem myndaði Afstapahraun. Aðeins sunnar er annar svipaður gígur en þó minni. Örnefnið Moshóll er nýtt af nálinni.
Næst komum við að fallegasta gróðursvæðinu á öllum Reykjanesskaganum en það eru Selsvellirnir sem liggja meðfram endilöngu Selsvallafjalli (338 m) að vestanverðu. Fjallið greinist frá Grænavatnseggjum af smá dalverpi eða gili en um það liggur Þórustaðastígurinn upp á fjallið. Vellirnir eru um 2 kílómetrar að lengd en aðeins rúmlega 0,2 á breidd.

Moshóll

Moshóll norðan Selsvalla.

Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík og í sóknarlýsingu séra Geirs á Stað frá árinu 1840 er sagt að allir bæir í sókninni nema Hraun hafi þar í seli. Jafnframt segir um sel Staðar í Grindavík: „Stendur selið í Strandarmannalandi, eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki.“

Selsvellir

Selsvellir – Selsvallalækur. Moshóll fjær.

Kúalágar heitir lítið dalverpi sem gengur út úr nyrsta hluta Selsvalla að ofanverðu. Á milli Kúalága og Sogalækjar er aragrúi gíga bæði stórra og smárra og þar tala Grindvíkingar um Bergsháls en það er malarhryggur sem gengur út úr Vesturhálsi neðan Grænavatnseggja. Örnefnin í þessum hluta Vatnsleysustrandarhrepps eru að mestu leyti komin frá Grindvíkingum sem eðlilegt er því þarna störfuðu þeir sumarlangt, líklega um aldir. Tveir lækir, Selsvallalækir, renna um vellina en hverfa svo niður í hraunjaðarinn sem afmarkar þá til vesturs. Sá nyrðri kemur úr gili fast sunnan Kúalága en sá syðri rennur fram drjúgum sunnar og nálægt Selsvallaseli. Seltóftirnar kúra í suðvesturhorni vallanna fast við hraunkantinn og þar virðast hafa verið þrjár kofaþyrpingar, líklega frá jafnmörgum bæjum og tvær nokkuð stórar kvíar nálægt þeim. Úti í hrauninu sjálfu fast við fyrrnefndar tóftir er ein kofatóft til og lítil kví á smá grasbletti.

Selsvellir

Á Selsvöllum – seltóft.

Í bréfi frá séra Geir Bachmann á Stað í Grindavík til biskups árið 1844 kemur fram að sumarið áður hafi sjö búendur úr Grindavíkurhreppi í seli á völlunum og að þar hafi þá verið um 500 fjár og 30 nautgripir. Út frá selstæðinu liggur selstígur til Grindavíkur í átt að Hraunsels-Vatnsfelli. Á milli selsins og fellsins sjást djúp hófför í klöppum sem segja okkur að um stíginn hefur verið mikil umferð fyrrum og að hann hafi m.a. verið hluti svonefndra Hálsagatna sem Bjarni Sæmundsson nefnir í skrifum.
Jeppaslóðin liggur með fjallinu og Ijót hjólförin marka endilanga gróðurvinina og þó sérstaklega þar sem lækirnir renna fram. Upp við fjallshlíðina, fast norðan við syðri lækinn, eru eldgamlar tóftir svo grónar að ekki sér í stein og eru þrjár þeirra ofan við vegarslóðann en líklega tvær neðan hans.

Driffell

Driffell.

Fyrir sunnan Selsvelli taka svo Þrengslin við en þau draga nafnið af því að þar er þrengst á milli hrauns og hlíðar. Líklega ná Þrengslin yfir nokkuð langt svæði til suðurs. Í sóknarlýsingunni frá árinu 1840 sem nefnd er hér á undan eru hreppamörkin sögð um Þrengsli og í Framfell (356 m).

Framfell

Framfell. Trölladyngja framundan.

Fellið var kallað Vesturfell af ábúendum Vigdísarvalla en sá bær var austan við Vesturhálsinn. Sóknarlýsingin er eina heimildin um þessi nöfn og e.t.v. væri einhver til með að deila um staðsetningu Framfellsins því annað ámóta fell er þarna rétt austar og innar á hálsinum (285 m). Ef kort og loftmyndir eru skoðaðar með sóknarlýsinguna að leiðarljósi sést þó glöggt að lýsingin á við vestara og fremra fellið, þ.e.a.s. það sem er nær Grindavík. Frá Vigdísarvöllum sést Vesturfell í stefnu 290 gráður eða rétt norðan við hávestur en hinn hnúkurinn sést ekki frá bæjarstæðinu. Á Framfelli er varða.
Nú höldum við eftir fjárgötum vestur með mörkum yfir nokkuð slétta hraunfláka sem heita Skolahraun en flákarnir draga líklega nafn sitt afskollitnum sem á þeim er.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni – kort.

Hraunsels-Vatnsfell (261 m) eða Hraunsvatnsfell verður næst á vegi okkar en um það liggja hreppamörkin samkvæmt elstu heimildum. Í toppi fellsins er stór gígur. Nokkur háls gengur út úr fellinu til norðurs og í honum er lítill gígur með vatni og dregur fellið líklega nafn sitt af því.

Hraunsels-Vatnsfell

Vatnsstæði í Hraunssels-Vatnsfelli.

Við gíginn var stór varða sem Ísólfur bóndi á Ísólfsskála við Grindavík hlóð en hún var hrunin að hluta árið 2005. Annað svipað vatnsstæði er þarna skammt frá. Í elstu heimildum er nafn fellsins Hraunsels-Vatnsfell en Hraunssel var í Þrengslum sunnan landamarkanna.
Frá Hraunsels-Vatnsfelli höldum við að Syðri-Keilisbróður (310 m) sem er þá hinn Keilisbróðirinn og eftir elstu heimildum að dæma er þessi bróðir einnig í hreppslandinu. Eins og nyrðri bróðirinn (sem nefndur var í tengslum við Keili) ber þessi hnúkur fleiri nöfn en eitt og hér í hrepp hefur hann einnig verið kallaður Stóri-Hrútur en af Grindvíkingum Litli-Hrútur.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Frá Syðri-Keilisbróður göngum við upp á gljúpu mosahraunbunguna Þráinsskjöld (240 m) sem nefnd er í kaflanum Heiðar og hraun. Í toppi Þráinsskjaldar eru nokkrir stórir, djúpir, grasi grónir gígar. Sá stærsti er um 200 m á lengd og tæpir 100 m á breidd og heitir Guðbjargarlág en Grindvíkingar kalla hann Guðrúnarlág.

Fagradals-Vatnsfell

Vatnsból í Fagradals-Vatnsfelli.

Nú hallar undan af Þráinsskildi í átt að Hagafelli (270 m) eða Fagradals-Hagafelli og útsýnið er ótrúlega vítt til þriggja átta. Landamörk hreppsins eru í elstu heimildum sögð í nyrðri rætur fellsins en nýrri heimildir segja þær í Vatnskatla, það eru litlir gígar með vatni í á nyrðri brún Vatnsfells (248 m) eða Fagradals-Vatnsfells. Hér í hreppi voru fell þessi aðeins kölluð Hagafell og Vatnsfell en Grindvíkingar þurftu að aðgreina þau frá öðrum fellum í sínu landi með sömu nöfnum og því skeyttu þeir Fagradals- framan við. Á kortum Landmælinga Íslands gætir áhrifa Grindvíkinga mun meira en heimamanna hvað snertir örnefnin á eða við markalínuna á þessum slóðum.
Fellin tvö, Hagafell og Vatnsfell, eru „samvaxin“ og tengjast Fagradalsfjalli (391 m) til suðvesturs. Hraunstraumur úr Þráinsskildi hefur runnið á milli Fagradalsfjalls og Vatnsfells.

Selsvellir

Selsstígurinn að Selsvöllum.

Hrafnabjörg eða Hrafnaklettar heita klettar sem skaga út úr austurhluta Fagradalsfjalls fyrir ofan Vatnsfell og þeir eru áberandi séðir frá Vogum og Strönd. Þeir voru fiskimið í svokallaðri Gullkistu undir Vogastapa en veiðislóðin var nefnd svo vegna mikillar fiskigengdar fyrr á öldum.

Keilir

Keilir og nágrenni.

Áður en við endum ferðina er sjálfsagt að koma við í Dalsseli í Fagradal en dalurinn liggur í krika við nyrðri rætur Fagradalsfjalls og dregur fjallið nafn sitt af honum. Það gæti verið að Fagridalur og þá einnig hluti fjallsins haft tilheyrt hreppnum fyrir margt löngu og þess vegna fá þessi örnefni að fljóta með í lýsingunni. Í Jarðabók 1703 segir um selstöðu Stóru-Voga: «…aðra vill hún eigna sjer þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðastaðarmenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu.“

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

Fagridalur má muna sinn fiífil fegurri því nú er hann lítið annað en moldarflög og stendur að engu leyti undir nafni. Nokkuð djúpur lækjarfarvegur liggur úr fjallinu og niður í „dalinn“ sem er flatlendi með allháum hraun- og gjallkanti við nyrðri brún. Seltóftirnar eru fast við lækjarfarveginn að sunnan, nálægt rótum fjallsins, og þar sjást tvær-þrjár kofatóftir. Líklega hefur verið mjög gott selstæði þarna meðan dalurinn var grösugur og vatn í farveginum. Fagridalur er á náttúruminjaskrá.

Keilir

Keilir – kort.

Rauðgil heitir gil í fjallinu sunnan Fagradals og er kallað svo vegna rauðamels sem þar er. Gilið er sagt á hreppamörkum í markalýsingu Jóns Daníelssonar bónda í Stóru-Vogum.
Hér lýkur ferð okkar um hreppslandið. Við getum líklega verið sammála um það að svæðið sem við fórum um síðast er það fjölbreytilegasta og fallegasta sem til er í Vatnsleysustrandarhreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.“

Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007, bls 123-143.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Ósabotnar

Í Faxa 1984 fjallar Jón Thorarenssen um „Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi„.

„Árbók Ferðafélags Íslands 1984 er helguð Reykjanesskaganum vestan Selvogsgötu og mun þá átt við Selvogsgötu í Hafnarfirði.
ÓsabotnarÁður fyrr höfðu Selvogsbúar mikil verslunarviðskipti í Hafnarfirði og munu hafa komið af Selvogsheiði niður á þessa Hafnarfjarðargötu er þeir fóru í kaupstað og ber hún síðan nafn þeirra.
Öll er Árbók þessi hin vandaðasta að efni og útliti og hin forvitnilegasta fyrir okkur Suðurnesjamenn. Höfundar eru fjórir, þeir séra Gísli Brynjólfsson, vel þekktur hér á Suðurnesjum, hann skrifar um byggðir Suðurnesja. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifar kaflann „Um heiðar og hraun“. Hann er mjög kunnur jarðfræði Skagans hefur lengi stundað þar rannsóknir. Þá skrifa náttúrufræðingarnir Hörður Kristinsson og Arnþór Garðarsson í ritið. Hörður um gróðurskilyrði en Arnþór um björgin og fuglalíf, sem er fjölskrúðugra hér en víðast hvar annarsstaðar á landinu. Ég hvet Suðurnesjabúa til að eignast og lesa þessa ágætu Árbók.

Leiran

Leiran – uppdráttur ÓSÁ.

Við sem búum norðanverðu á Skaganum erum flestir kunnugir þeim miklu athöfnum og jarðarbótum sem Hestamannafélagið Máni hefur unnið að. Iðgræn tún hylja nú stór landssvæði, sem áður voru fokmelar vegna hrjúfra handa er þar höfðu um gengið. Svipað má segja um Leiruna þar sem Golfklúbbur Suðurnesja hefur gert stórvirki í fegrun og ræktun lands sem bændur höfðu yfirgefið þar sem aðal afkomuleið Leirubúa, fiskveiðar, var brostin en landkostir rýrir.
Ég vona að séra Gísli Brynjólfsson bregðist ekki illa við þó að ég taki hér upp eftir honum þar sem frásögn hans um Leiru hefst.
Leiran„Miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála liggur við sjávarsíðuna Leiran, sem er eitthvert það besta fiskiver, með því að þar má sækja sjó á báðar hendur“ segir í sóknarlýsingu 1839. En nú mun langt síðan nokkurri fleytu hefur verið róið til fiskjar úr Leirunni enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn nú hina síðari áratugi. En fyrst nokkur orð um byggðaþróun í Leirunni samanborið við næsta nágrennið, Keflavík. Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík.
Árið 1880 voru nákvæmlega jafnmargir íbúar í Keflavík og Leiru eða 154. Nú búa 2 menn í Leirunni en í Keflavík eru íbúar 6747.“
Þessi stutta tilvitnun í Árbókina sýnir okkur glöggt hve sveiflurnar í tilverunni eru hraðar. Það sem var brúnn melur í gær getur verið iðgrænt engi á morgun og sjórinn sem var fullur af lífsbjörg á báðar hendur fyrir fáum árum er sem dauðahaf í dag. Allt er þetta athöfnun okkar mannanna að þakka eða kenna. Hugsum því fyrir morgundeginum.“ – J.T.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726.

„Skúli Magnússon, landfógeti, segir í sýslulýsingu sinni um Básenda: „Verzlunarhöfnin Básendar er í Stafneslandi. Þar er höfn 2 skipum á milli lands og skerjagarðsins, en þó hættuleg, einkum í véstanstormum, þegar hásjávað er.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Nokkur skip hafa farist þar, einkum fyrrum, enda var ekki siglt á þessa höfn um hríð. Höfnin er því eigi örugg, nema um hásumar og með því að nota járnhringa þá, sem reknir hafa verið bæði í kletta í skerjagarðinum, og í jarðfasta fjöruklettana. Eru þeir festir með blýi, svo að hægt sé að binda skipin í þá. í innra skipalæginu eru 4 járnhringar og 3 í hinu ytra. Í fyrrnefndu skipalægi er dýpið 2 1/2 faðmur um fjöru, en 4 1/2 faður í hinu síðarnefnda. Þarna hækkar og lækkar í sjónum um 9 fet, þegar stórstreymt er. Innsiglingin er hættuleg, og verður að gefa nánar gætur að siglingamerkjunum á landi. Kringum hinar lágu klappir, sem verzlunarhúsin standa á, er allt þakið svörtum sandi, og eru aðstæður því illar til fiskverkunar“.

Þórshöfn

Þórshöfn – loftmynd.

Nokkru sunnar er Þórshöfn. Þar er hin forna höfn verzlunarskipa á síðari hluta 19. aldar. Samkvæmt lýsingu Skúla fógeta, er leiðin 170 faðmar inn, en breidd 51 faðmur, ef skip rista 6 fet. Þessi höfn var notuð er Hansakaupmenn og Þjóðverjar ráku verzlun hér, en árið 1601 var síðasta verzlunarár brim væri, því að skerjagarður að þeirra þar.

Þórshöfn

Þórshöfn.

Flest gátu 5 skonnortur legið þar í einu, allar bundnar. Þarna í Þórshöfn gerðist sá atburður á árunum 1890-1895, að útvegsbændur á Suðurnesjum komu þar saman til þess að ræða fiskverð. Segja má að hér hafi verið eins konar upphaf íslenzkrar kjarabaráttu sjómanna um fiskverð. Þarna var mættur Ketill dbrm. í Kotvogi með sonum sínum og Salómon Björnsson frá Kirkjuvogi, Einar Sveinbjörnsson í Sandgerði, Jón Sveinbjörnsson frá Húsatóftum, Magnús Bergmann í Fuglavík, og úr Grindavík Sæmundur Jónsson og Tómas Guðmundsson.
Rétt austan við Þórshöfn er Hvalvík og Hvalvíkurhólmi þar ytra. Nokkru austar og innar er komið að hinum gamalkunna og merka stað Bárðarvör (sjá Útnesjamenn), sem áður var stundum kölluð Prestatorfa, þegar Hvalsnessprestar þjónuðu Kirkjuvogssókn, en Hvalsnes var lagt niður sem prestsetur árið 1811.

Einbúi

Einbúi.

Fram til þess tíma var Bárðarvör ferjustaður Hvalsnesspresta yfir Ósana í Kirkjuvogsvör, og þessa leið notaði síra Hallgrímur Pétursson stöðugt á árunum 1644-1651, þegar hann þjónaði Kirkjuvogskirkju frá Hvalsnesi. Eftir það var Bárðarvör kölluð Grímsvör um tíma, en það nafn hvarf fljótt og frá síðustu aldamótum er óhætt að segja, að vörin hafi aldrei verið kölluð annað en Bárðarvör. Bárðarvör er smá vík, er skerst inn norðan við Einbúa, sem er hár hringmyndaður grashóll, og sést víða að, bæði á landi og af sjó, og er því mikið kennimerki sjósóknarmanna.
Fyrir utan Bárðarvör er Hestaklettur (sjá Útnesjamenn), stór og mikil klettaborg. Við austurhorn Hestakletts var ætíð farið, þegar ferjað var yfir Ósa. Á austurhorni Hestakletta sitja ætíð dílaskarfar og blaka vængjum til að þurrka sig.

Vörðuhólmi

Einbúi og Vörðuhólmi.

Nokkuð austur af Hestakletti er Selsker, hættulegt sker. Það er alltaf talið hættulegt að fara nærri því. Þar drukknaði síra Árni Hallvarðsson og sjö manns með honum 31 . marz 1748.
Einbúi er eins konar löng eyja frá norðri til suðurs og umflotin sjó, en á f jörum má víða vaða yfir rásina, sem umlykur hann, en strax með aðfalli er það ekki hægt.

Vörðuhólmi

Varða á Vörðuhólma.

Suðurendinn heitir Vörðuhólmi. Við suðurenda hans fellur sjór með útfallinu frá þessari löngu eyju, en skammt frá er Runkhólmi, svo þrengslin verða mikil með útfirinu í þessum þrönga ósi, og beljandinn ofsalegur, en stórsteinar, strýtumyndaðir, hér og þar í botninum, svo að þetta ér stórhættulegur staður fyrir báta. Einu sinni fór ég niður þennan ós, einn á tveggja manna fari. Ég var að grafa sandmaðk og mig langaði að fara niður beljandann. Ég hef líklega verið 16 ára, sterkur og liðugur þá, og mér fannst ég geta allt. Þar hallaði niður í ósinn eins og brekku. Ég lagði í ósinn, en straumkastið tók strax af mér ráðin og fyrir Guðs mildi slapp ég lifandi, en ég skammaðist mín mikið fyrir þetta tiltæki. Það er fyrst nú að ég segi frá þessu, sem gerðist fyrir 65 árum.
Fyrir utan Runkhólma er svokallaður Síðutangi, þá Skotbakki. Að Síðutanga og Skotbakka bárust hlutir eða partar úr hinu fræga strandi „James Town“. (Við Einbúa og Skotbakka var ágætur maðkasandur).
Fyrir austan Skotbakka er svo Gamli Kirkjuvogur, sem hét fyrrum Vogur á Rosmhvalanesi, vegna þess, að öll ströndin frá Stafnesi, inn með öllum Ósum að Hunangshellu er á Rosmhvalanesi. Það sýnir bezt breytta landskosti í tímanna rás, að Espólín segir frá því í 2. deild Árbókarinnar, að árið 1467 hafi Björn Þorleifsson, hirðstjóri, selt Eyjólfi Arnfinnssyni nokkrum Voga á Rosmhvalanesi fyrir 5 jarðir á Vestfjörðum.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

Í jarðabók Árna Magnússonar segir að 1703 hafi Gamli Kirkjuvogur legið í auðn lengur en 120 ár, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. Af þessum orðum Árna Magnússonar, að bæjarstæðið hafi verið í Kirkjuvogslandi má ætla, að landamerkin milli Stafness og Kirkjuvogs hafi ekki verið um Djúpavog, heldur um Bárðarvör, eða Runkhólmaós, þó kannski heldur, eftir því sem gamalt fólk í Höfnum og fóstri minn, Ketill, töluðu um.
Fyrir innan Gamla Kirkjuvog kemur svo Djúpivogur, þar næst Beinanes, þá Seljavogur, þá Stóra-Selhella, þá Stóru-Selhelluvogur, þá Litla-Selhella, þá Litlu-Selhelluvogur, þá Brunnvogsklettar, þá Steinbogi og svo loks hin fræga varða Hunangshella, sem nú er hálf hrunin og brot af vörðunni eftir.

Ósabotnar

Ósabotnar – kort.

Hér endar Rosmhvalanes, því að Hunangshella var og er landssvæðavarða. Lína sem hugsaðist dregin frá Hunangshellu í Háaleitsþúfu (var norðaustast á Keflavíkurflugvelli, en er horfin nú), og frá Háaleitisþúfu í Duusgróf í Keflavík. Allt fyrir norðvestan þessa hnu er Rosmhvalanes. Það er stór hluti Reykjanesskagans.

Hunangshella

Hunangshella.

Hunangshella dregur nafn sitt af sögu, sem prentuð er hjá Jóni Arnasyni, þjóðsagnasafnara, (1. b., bls. 613). Það var skrímsli grimmt, hættulegt og skotharðast allra dýra. Maður einn tók sig til og bar hunang á helluna, því óvætturin var sólgin í það. Maðurinn lá svo í leyni þar hjá. Óvætturinn kom og tók að sleikja hunangið af hellunni. Þá skaut maðurinn skrímslið með vígðum silfurhnöppum. Það hreif. Síðan heitir staðurinn Hunangshella. Hjá Hunangshellu endar Rosmhvalanes, eins og áður er sagt.
Hjá Hunangshellu enda Ósabotnar. Hunangshella er merkur staður. Varðan þar í hellunni er í ólagi. Ég skora á útivistarmenn eða einhver félagasamtök, eða Lionsmenn á Suðurnesjum, að reisa þessa gömlu vörðu við á björtum og blíðum sumardegi. Það er ræktarsemi við gamla tímann og virðing fyrir hinum gömlu landamerkjum Suðurnesjamanna, sem eru milli Rosmhvalaness og Reykjanes skagans. Ennþá eiga Suðumesin gott fólk, hraust og afkastasamt til að gera þetta.

Hunangshella

Varða á Hunangshellu.

Þegar farið er frá Hunangshellu suður koma næst Þríhólar þá Leirdalur og Leirdalshólmi, þá Stekkir, Stekkjarnes og Stekkjarneshólmar, þá Hellisvik, innan við Hellishæð (hjá Hellisviki beið Oddur V. Gíslason eftir því að Anna Vilhjálmsdóttir kæmi til sín á vökunni 30. des. 1870). Þá kemur Torfdalsvík síðan Torfdalur, þar á tanganum er hin ævaforna sundvarða sveitarinnar. Þá kemur Maðkasandur, Maðksandsklöpp, þá Bótin, Langaklöpp, Svartiklettur, síðan Þvottaklettar, sem eru austan við Kirkjuvogsvör. Nú er þar ekkert skip og engin mannaferð.

Hafnir

Hafnir – spil við Kirkjuvogsvör.

Kirkjuvogsvör má muna sinn fífil fegri, þegar um og yfir 100 ungra manna réru úr vörinni á hverjum róðrardegi á vertíðum. Upp af Kirkjuvogsvör voru tvö naust, austurnaust, sem voru víð og stór og rúmuðu marga teinæringa, og svo vesturnaust, sem rúmuðu í mesta lagi þrjá teinæringa. Bæði voru þessi naust vel varin fyrir sjógangi, veðrum og vindum. Fyrir vestan og utan Kirkjuvogsvör er Kirkjuskerið, stórt sker og hátt, sem er aðalskjólið fyrir Kirkjuvogsvör og hlífir henni í briminu. Þar utar, en fast við Kirkjusker, er Flatasker, sem hlífir sömuleiðis. Með aðfalli fór strax að koma lá í Kirkjuvogsvör, þegar Flatasker var komið í kaf. Kirkjuvogssund er langt. Sundið er tekið þegar Bælið er um Junkaragerði, en Keilir um Svartaklett. Þegar komið er inn fyrir Flataskersenda og Einbúa og Kiðaberg úti á Stafnesheiði ber saman, þá er vinkilsnúið inn í vörina.

Hafnir

Við Kotvog.

Ingigerður Tómasdóttir, húsfreyja í Kotvogi, d. 1804, sagði, að full sáta af heyi hefði fengist síðast af Kirkjuskerinu og grastónni þar, sem síðast var á kollinum á skerinu. Sömuleiðis hefði í þá tíð varla verið klyfjafært milli Þvottakletta og heimatúnsins. Nú er þar stórt og breitt svæði. Sýnir þetta hver ósköp landið hefur eyðst á liðnum tímum.
Vestan við Kirkjuvogsvörina eru Þvottavötnin, bergvatnsuppspretta úr lágri klöpp. Þar var ætíð skolaður þvottur og þvegin ull. Þá kemur sker fyrir vestan, sem heitir Fúsi, sem við krakkarnir veiddum við varaseiði. Músasund heitir sundið á milli Kirkjuskersins og lands. í sundinu er smá sker, sem heitir Árarbrjótur, smá tangi á móts við Kotvog. Hola nefnist lendingin fyrir neðan Kotvogsbæinn. Þá kemur Skellisnoppa vestar, sker sem brim skellur mikið á, en í mínu ungdæmi kallað Skellir, hitt nafnið mun eldra. Við Skelli er bundin smá frásögn, er nú skal greina: Árið 1912, seint í maí, var sem oftar háskólaborgari einn gestur í Kotvogi nokkrar nætur. Dýrafræði og grasafræði voru eftirlætisgreinar hans. Hann eyddi dögum sínum seint og snemma í fjörunni.

Kotvogur

Kotvogur.

Dag einn, er var orðið nokkuð hásjávað, sá hann steypireiði mikla koma á mikilli ferð að sunnan og þræða rétt utan við ystu sker. Kom hún rétt af Skelli, vinkilbeygði þar og tók stefnu norður og djúpt út af Stafnestöngum, og svo var ferðin mikil á skepnunni, að hún var brátt horfin úr augsýn norður í Nesdjúpið svokallaða. Þennan dag var hányrðingur, ládeyða og hreinviðri. Nú hafa þessi dýr verið svo ofsótt, að þau þræða ekki við ystu sker Íslands lengur.

Merkines

Sjávarhús við Merkines.

Sunnan við Skelli og lengra úti eru Hásteinar, sérstæðir klettar, sem ekki sjást nema um stærstu fjörur. Þar hafa skip oft farist, og árið 1872 varð þar skipsskaði og manntjón frá Kirkjuvogi í tíð Þórunnar Brynjólfsdóttur, er átti skipið og gerði það út (sjá Rauðskinnu, Guðmundur í Réttarhúsum, stórmerk frásögn). Sunnar í fjörunni, Snoppa, stór klöpp ofarlega í fjörunni, með djúpa sprungu eftir endilöngu í áttina til hafs. Fyrir neðan Snoppu er brúðhjónasæti álfanna í klettahrygg þar. Sunnar eru svo Haugsendafjörur þar var þangskurður ágætur og var ég þar oft í þangfjörum á unglingsárum mínum. Þar er Markasker og Haugsendavarðan aðeins sunnar uppi á kampinum. Hún er sundmerki fyrir Merkines, og þegar hana ber við Bræður, klofinn hól þar efra, þá er farið inn Merkinessund.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Við höldum stöðugt áfram suður með ströndinni. Þá koma næst Merkinesklettar, Skiptivík, Dilkar, hár hóll og annar minni fyrir innan Junkaragerði, þá Junkaragerðisklettar, klakkar norðan við Kalmanstjarnarsund þá Hólmi, Draugar, Stekkjarvikið (sbr. Marínu), Kirkjuhafnarvikið, Kirkjuhöfn, Sandhöfn, Sandhafnarlending, Kópa, Eyrarvík og Eyrarbær, þar sér fyrir bæjarrústum, nálægt sjávarbakkanum og grasi gróið umhverfis.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; vörslugarður.

Þar er mjög fallegt. Lendingin beint niður af bænum, örstutt nokkrir metrar. Stutt hefur verið að sækja fisk þaðan, meðan hann var nógur við landið, og hægt hefur verið að kalla heim að bænum, þegar veður voru góð. Eyri eða Hafnareyri, eins og sóknarpresturinn á Hvalsnesi kallaði bæinn, var síðasti byggður bær fyrir sunnan Kalmanstjörn, á Eyrartanganum rétt við norðurendann á Hafnabergi. Bærinn fór í eyði árið 1776.
Til gamans set ég hér húsvitjun sóknarprestsins á Hvalnesi 1773, sem er á þessa leið: Hafnareyri 1773: Ormur Þórarinsson, húsbóndi, 46 ára., Gunnvör Árnadóttir, húsfreyja, 49 ára., Katrín Hjaltadóttir, 20 ára., Magnús Hjaltason, 10 ára., Bartólomeus Jónsson, lausamaður, 61 árs.
Út af Eyraroddanum er röst, Eyrarröst, og stórt sker, Eyrarsker, rétt sunnan við tangann. Ég spurði Bjarna Guðnason, sem var í Kotvogi og formaður í 50 ár, hvar hann hefði fengið verstan sjó á allri formannstíð sinni. Hann svaraði: i ,Það var í Eyrarröstinni, þó var ég þá með teinæring“. Þetta var um Eyrarbæinn, en nú held ég áfram örnefnaröðinni.

Hafnaberg

Hafnaberg.

Næst fyrir sunnan norðurenda Hafnabergs kemur svo skerið Murtungur (Guðmundur Salórnonsson, fræðimaður, bóndi og meðhjálpari Kirkjuvogskirkju um í áraraðir, kallar sker þetta Murling. Þetta getur verið réttara, því að hann var talinn fróður og minnugur, og eftir hann er afbragðs ritgerð í 3. bindi Rauðskinnu).

Hafnarberg

Hafnarberg.

Þá kemur Klaufln, sprungnir klettar, þá Hafhaberg. Berg þetta er um hálfa viku sjávar á lengd og rúmir 20 faðmar þar sem hæst er, en ógengt. Í berginu er stór geigvænlegur hellir, sem heitir Dimma. Þá kemur Stráksrif (Bjarghóll þar upp af), þá Boðinn, Lendingarmelar, Rekavík, Skjótastaðir (eyðijörð), Stóra-Sandvík, Litla-Sandvík, Mölvík, Kistuberg, Þyrslingasteinar, Kinnarberg, þá Önglabrjótanef. Út af þessu nefi er norðurstrengur Reykjanesrasta rinnar, sem talin er sterkari en suðurstrengurinn, þá Karlinn, klettur hrikalegur í sjó fram. Einu sinni í sumarblíðu og logni var ég á háti, er fór milli Karlsins og lands.

Valahnúkur

Valahnúkur.

Þá er næst Kerlingarbás, Kirkjuvogsbás, Valahnjúkur (þar sem fyrsti vitinn var), Valahnjúksmöl, Skarfasetur, þar út af þessu nefi er suðurstrengur Reykjanesrastarinnar, og er hann talinn minni en norðurstrengurinn, eins og áður Segir. Rétt fyrir austan Skarfasetur er Blásíðubas.
Þar með endar þessi örnefnakeðja, sem fylgt hefur verið eftir minni og bestu vitund.“ – Lokadagur 11. maí 1984 – Jón Thorarensen.

Heimild:
-Faxi, 6. tbl 01.07.1984, Jón Thorarenssen, Örnefni með ströndinni frá Básendum suður um Ósabotna og Hafnir og allt suður að Skarfasetri á Reykjanesi, bls. 207-211.
Faxi

Grímshóll

Í „Huldufólkssögum – úrvali úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar“ segir m.a. af Grímshól.

Grímshóll

Grímshóll

Á Grímshól.

Það hefir lengi verið siður í Rangárvallasýslu, að menn hafa farið þaðan til sjóróðra eitthvað suður. En einu sinni bar svo við, að unglingsmaður nokkur, Grímur að nafni, ætlaði suður í Leiru til sjóróðra. Grímur var fyrirvinna hjá móður sinni, en faðir hana var dáinn.

Stapinn

Upplýsingaskilti austan við Stapann.

Grímur fór nú með öðrum Rangvellingum suður, en er þeir koma suður undir Vogastapa, bar svo við, sem oft má verða, að reiðgjörð slitnaði á hesti Gríms, svo að hann varð að staldra við til að bæta gjörðina. Grímur var aftastur í lestinni, og tóku því samferðamenn hans ekki eftir því, að hann stóð við; hjeldu þeir þá áfram og bar leiti á milli. En er Grímur var einn orðinn, kom að honum maður. Sá maður falar Grím til að róa hjá sjer um vertíðina, en Grímur skorast undan og kvaðst vera ráðinn hjá manni í Leirunni, og segir honum, hver sá sje. Spyr Grímur manninn, hvar hann eigi heima, en hann sagði, að bærinn væri þar skamt frá þeim. Leggur hann þá fast mjög að Grími, og segir að aflabrögð hans rauni eigi verða minni hjá sjer en Leirumanninum, sem hann sje ráðinn hjá. Og hvernig sem þeim hafa nú farist orð á milli, þá fór Grímur með hinum ókunna manni.

Stapinn

Tóftir undir Vogastapa.

Komu þeir brátt að snotrum bæ, vel bygðum. Maðurinn spurði Grím, hvað hann ætlaði að gera við hestinn. Grímur kvaðst hafa ætlað að senda hann heim aftur, þótt hann helst hefði viljað hafa hann þar hjá sjer til lokanna, til þess að geta flutt eitthvað á honum með sjer heim til móður sinnar. Maðurinn segist þá skulu sjá eitthvað fyrir hestinum, og tók við honum; en Grímur vissi ekki um hann framar að sinni.

Stapi

Tóftir Brekku og Hólmabúðar undir Stapa.

Nú byrjar vertíðin, og róa þeir Grímur tveir á báti, og hlóðu í hvert skifti. En er að landi kom, var Grími sagt að ganga heim og hvíla sig, og vissi hann því aldrei hvað um fiskinn varð, eða hvað mikið þeir höfðu fengið í hlut, enda grenslaðist hann eftir hvorugu.
Undi hann sjer mjög vel, og fannst honum tíminn stuttur, og ekki vissi hann heldur, hvað á hann leið. Ekki lagði hann mat á borð með sjer. Einhvern dag, er þeir eru á sjó, bóndi og Grímur, spyr bóndi hann, hvort hanu viti, hvað nú sje liðið á vertíðina, eða hvað mikið þeir sjeu búnir að fiska. Grímur neitti því.

Stapi

Stapabúð undir Stapa.

Þá segir bóndi honum, að lokadagurinn sje á morgun, og ef við fáum eins og vant er í dag á bátinn okkar, þá höfum við fengið tíu hundruð til hlutar; en sá, sem þú varst ráðinn hjá, hefir fengið hálft fjórða hundrað. Spyr hann þá Grím, hvort hann vilji ekki vera kyrr hjá sjer, eða hvort hann þurfi nauðsynlega að fara heim um lokin.
Grímur segist mega til að fara heim. En er þeir höfðu fengið á bátinn, halda þeir að landi; og daginn eftir býst Grímur til heimferðar. Bóndi spyr Grím, hvað hann vilji helst hafa á hestinum austur, og segist Grímur ætla að flytja kvistinn og höfuðin.

Stapagata

Gengin Stapagatan um Reiðskarð.

Bóndi spyr, hvort móðir hans þarfi ekki korns. Grímur segist ekki geta hugsað til að hafa það með sjer í það skifti. Bóndi segir, að á lestunum skuli hann koma með 10 hesta með reiðingi, og geti hann þá hvort sem hann heldar vilji, fengið á þá hjá sjer, eða lagt fiskinn inn hjá öðrum. En er Grímur ætlaði á stað, fær bóndi honum tilbúna bagga á tvo hesta, og voru annað kornbaggar, en annað fiskabaggar, og segir hann skuli eigi þá. Grímur segist ekki geta flutt nema aðra baggana. Bóndi segist skulu ljá honum hest og fær honum brúnan hest.

Stapinn

Leifar Kerlingarbúðar undir Stapa.

Grímur tók og sinn hest, og var hann svellspikaður. Fer nú Grímur á stað, og hittir samferðamenn sína; þeir voru þá á heimleið líka, Þeir spurðu, hvar hann hefði verið um veturinn, en hann sagði þeim óglögt frá öllu. Þegar heim kom, sagði hann móður sinni alt sem farið hafði. Líður svo fram á lestir; þá býst Grímur heiman með tíu reiðingshesta í lest. Margir voru þeir saman, Rangvellingar. En er suður eftir kemur, dregst Grímur aftur úr, og missa þeir hans, svo þeir vissu ekki, hvert hann fór, samferðamennirnir. Halda þeir svo leiðar sinnar. Kemur nú Grímur til formanns síns; tók hann vel móti honum, og ljet hann fá nauðsynjar allar, er hann þurfti, og miklu meira en hann hafði ætlað. En er Grímur var albúinn til burtfarar, spyr bóndi, hvort hann þurfi eigi peninga við.

Stapinn

Stapinn – flugmynd.

Grímur segir, að svo sje, en hann muni vera búinn að fá fyrir hlutinn  sinn, og því hafi hann ekki nefnt það. Bóndi fær honum þá 40 spesíur. Bóndi spyr Grím, hvort hann hafi sagt nokkurum, hvar hann hafi verið. Engum, nema móður minni einni, segir Grímur. »Jæja, segir bóndi, »jeg vissi það, að þú hafðir sagt frá því; þess vegna hefir það komist á loft. En nú eru þorskhöfuðin þín«, segir bóndi. »Þau verðurðu að sækja seinna«. Grímur játti því. Skilja þeir síðan með kærleikum.

Stapi

Stapagata og Grímshóll fjær.

Fer Grímur heim, og undruðust menn mjög afla hans. Seinna fór hann skreiðarferð og sótti þorskhöfuðin; bar ekki til tíðinda í þeirri ferð, nema að bóndi falar Grím til að róa hjá sjer aðra vertíðina til, og var Grímur fús á það. Segir ekki af því meir, nema aflabrögð og aðgerðir fóru að öllu eins og fyr. Þessu fór fram nokkurar vertíðir. En einu sinni spyr formaður Gríms hann að, hvort hann mundi ekki vilja fara til sín, þegar móðir hans væri önduð, og eiga dóttur sína. Grímur þekti stúlkuna og fjell hún vel í geð, svo hann þá þegar boð bónda. Líða nú enn nokkur ár, þangað til móðir Gríms deyr. Sjá þá nábúarnir, að ferðasnið er á Grími. Bjóst hann nú hið skjótasta til burtferðar og selur alt það, sem hann gat ekki með sjer flutt. Heldur hann nú suður, en enginn vissi upp á víst, hvert hann fór, nema hvað samferðamenn hans komust næst, að hann mundi hafa farið að hól þeim, sem er á Vogastapa fyrir ofan Reiðskarð. Hóll þessi er æði-stór með vörðu á, og er hann kallaður Grímshóll síðan.
Aldrei varð neitt vart við Grím eftir þetta, hvorki á Raugárvöllum nje í veiðistöðunum syðra.

Heimildir:
-Huldufólkssögur – úrval úr þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar, Ísafoldarprentsmiðja 1920, bls. 86-89.

Stapinn

Fjárskjól í Vogastapa.