Fornagata

Upphafið
Götur mynduðust hér á landi allt frá fyrstu fótatíð manna og búfénaðar. Enn í dag er stundum erfitt að greina á milli hvaða götur voru notaðar af Ganga við Straumhverjum, hvenær og í hvaða tilgangi.  Sumar götur, sem áður voru gengnar, eru nú horfnar, margar má enn greina og enn aðrar hafa verið endurheimtar. Á löngu tímabili hefur gróður náð að hylja slóðirnar, gróðureyðing náð að afmá þær, jarðvegur færst til, skriður og snjóflóð hlaupið yfir þær, ár og lækir breytt um farvegi, vatn runnið í þeim og breytt, eldgosaaska hulið og hraun runnið yfir þær á köflum. Þá hafa sumar leiðir lagst af vegna þess að tilgangur þeirra breyttist og aðrar orðið til af sama tilefni. Þá hafa gamlar leiðir færst til og verið farnar af mismikilli nákvæmni áður en þær voru varðaðar. Ókunnugir hafa eflaust fylgt þeim nokkuð vel og gætt að kennileitum á meðan kunnugir hafa getað stytt sér leiðir eða einfaldlega farið beint af augum ef veður leyfði og aðstæður voru hagstæðar.
Í lok 19. aldar var unnið óskipulega að lagningu vagnvega víðs vegar um landið, einkum nálægt þéttbýli, og í byrjun 20. aldar var megináherslan lögð á gerð bílvega af gefnu tilefni.

Leiðir

Fornagata

Fornagata í Selvogi.

Lengri aðalleiðirnar lágu milli bæja og byggðakjarna, verstöðva, verslunarmiðstöðva, þingstaða eða kirkna, hvort sem var með ströndum landsins, yfir fjallgarða, heiðar, ása og úfin eða slétt hraun. Leiðirnar voru mislangar, allt frá og til fjarlægustu landshluta eða bara út frá bæ í fjárskjólið og stekkinn. Segja má t.d. að allar leiðir hafi um tíma legið til og frá Þingvöllum.
Við þessar leiðir má víða finna misgamlar minjar, s.s. hlaðin skjól, sæluhús, bæli í hellum, vörður, bæði sem leiðarmerki og til minningar um fólk, sem varð úti á ferðum sínum. Ástæður þess gátu verið margvíslegar, bæði af eðlilegum ástæðum og óeðlilegum.

Fornagata

Fornagata.

Fatnaður var ekki eins góður og hann er í dag, hvort sem var til fóta og höfuðs. Veðurspár voru byggðar á öðrum kennimerkjum en nú tíðkast og ekki alltaf áreiðanlegar. Og þá var líka til fólk, líkt og í dag, sem taldi sig geta storkað veðuröflunum – stundum með uggvænlegum afleiðingum. Dæmi eru og um að fólki hafi verið úthýst frá bæjum í slæmum veðrum. Dauðsmannsvörðurnar eru margar við og hjá þessum götum, einkum á heiðum, en stundum slapp fólk lifandi þrátt fyrir miklar raunir, sbr. Prestsvörðuna ofan við Leiru.

Landið
Vörðuð leiðUm allt land má finna mikilvægar þjóðleiðir frá liðnum öldum. Sumum hefur verið haldið við af áhugasömu fólki eða ferðaþjónustuaðilum. Þá 
hafa verið búnar til nýjar gögnuleiðir um fallega náttúrustaði. Nokkrar slíkar má finna á Reykjanesskaganum. Hafa ber í huga að mikilvægustu leiðirnar hér áður fyrr eru ekki endilega vinsælustu gönguleiðirnar í dag. Sumar gönguleiðirnar eru nýlegar, s.s. Reykjavegurinn svonefndi milli Reykjaness og Nesjavalla. Á köflum liggur hann samhliða eða nálægt fornum götum.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur.

Greina má götur eftir fólk frá götum eftir búfénað, s.s. kindur. Þær leita gjarnan að tvennu; bithaga og skjóli. Kindagötur (fjárgötur) liggja því oft utan í hlíðum, hæðum og hólum eða í lægðum. Þar sem féð hefur unað hag sínum vel er jafnan vel gróið. Fólk hafði það að leiðarljósi að fara sem greiðfærustu leiðina og þá jafnan með það í huga að „halda hæð“. Ekki var farið upp og niður hæðir og dali að óþörfu. Spara þurfti orku og kraftar þurftu að endast um langan veg.
Ef vel er að gáð má víða sjá ryðgaðar skeifur og skeifubrot, leðurpjötlur eða bein. Ekkert af því má fjarlægja heldur láta kyrrt liggja.

Landnám Ingólfs
Greinileg ummerki eru á fjölmörgum götum eftir umferð fólks hér á landi frá upphafi landnáms, ekki síst í landnámi Ingólfs. Víða eru gömlu þjóðleiðirnar klappaðar í misharða hraunhelluna, s.s. sjá má á Sandakra- og Skógfellaveginum eða á Hellunni (Fornugötu) vestan Hlíðarvatns. Þar hefur yngra hraun runnið yfir eldra hraun, sem gatan er í.
HvalsnesvegurGatan er ágætt dæmi um hversu mikil umferð hefur verið hér allt frá fyrstu tíð, sem reyndar gæti þess vegna hafa verið eldri en norrænt landnám segir til um.
Á Reykjanesskaganum eru þessar gömlu leiðir miklu mun fleiri en fólk gerir sér grein fyrir. Sumar eru reyndar áfangaleiðir og tengjast öðrum eða greinast út frá þeim til ýmissa staða. Sjá t.d. skrif um Grindavíkurvegi HÉR og um Reykjavíkurvegi HÉR.

Tegundir
Reyna má að flokka leiðirnar miðað við notagildi. Þannig lágu þjóðleiðir milli byggðalaga.
SkógfellavegurMá þar nefna Alfaraleiðina (Almenningsleiðina) milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Keflavíkur). Hún sést að mestu enn þann dag í dag frá jaðri Brunans (Kapelluhrauns) til Innri-Njarðvíkur. Selvogsvegur (Suðurfararvegur) lá milli Hafnarfjarðar og Selvogs. Hann sést vel frá Lækjarbotnum í Hafnarfirði að Strönd í Selvogi. Þessar leiðir voru mikið farnar allt til þess tíma að vegir voru gerðir fyrir sjálfrennireiðina er kom hingað til lands í byrjun 20. aldar.
Verleiðir má sjá við verin, bæði á norðan- og sunnanverðum Reykjanesskaganum. Leiðirnar Ofan við Selatanga, verstöð, sem notuð var allt til byrjun 20. aldar (síðustu áratugi frá Ísólfsskála) eru t.a.m. þrjár, hvort sem var heim til bæja (Skála og Krýsuvíkur) eða inn á þjóðleiðirnar, sem sumar hverjar voru mikilvægar skreiðarleiðir.

Árnastígur

Árnastígur.

Byggðakjarnar á landssvæðinu, s.s. Grindavík, Garður, Hafnir og Vatnsleysuströndin voru t.d. mikilvægar verstöðvar fyrir bæði vermenn alls staðar frá á landinu og fiskflutninga, ekki síst til Skálholtsstóls, um aldir.

Leiðir á milli bæja eru jafn margar og bæirnir voru margir – og þeir voru miklu mun fleiri en fólk gerir sér í hugarlund. T.d. voru 28 bæir í Staðarhverfi, vestast Grindarvíkurhverfanna, fyrrum, en nú standa þeir þar sem tóftir, minnisvarðar um fólkið sem þar bjó, líf þess og atvinnuhætti. Frá Staðarhverfi lágu samskiptagötur til Hafna, Njarðvíkna og hinna byggðarkjarnanna í Grindavík. Þær sjást enn vel.
Selstígar lágu upp í selstöðurnar, sem voru fjölmargar í landnámi Ingólfs. Inn má t.a.m. sjá leifar af u.þ.b. 250 slíkum á landssvæðinu, ef vel er að gáð.

Horfin gata

Einungis örfáar hafa verið eyðilagðar af mönnum eða forgengst af skriðum.
Kirkjugötur voru mikilvægar menningarleiðir og varla er til sú sveit eða hérað að ekki var þar kirkjustígur eða -gata. Hvalsnesleiðin milli Ytri-Njarðvíkur og Hvalsness er ágætt dæmi um slíka götu, en hún var jafnframt notuð sem þjóðleið milli byggðakjarna og sem verslunarleið. Líklega er hluti leiðarinnar sá best varðveitti hér á landi því varnargirðing Varnarliðsins hefur umlukið hann síðustu áratugina. Reyndar er kominn tími til að opna hana á ný fyrir áhugasömu göngufólk því leiðin liggur um landssvæði, sem er utan varnargirðingar flugvallarsvæðisins.

Þróun

Skipsstígur

Skipsstígur – endurbættur skv. „nútíma“ hestsvagnskröfum.

Bæði hefur leiðarkerfið þróast frá fyrstu tíð og götur verið færðar til eða lagfærðar. Þegar ferðast var á fótum, hvort sem var eigin eða annarra (hestbaki) mótuðust göturnar af sjálfu sér. Á fjölfarnari leiðum var kastað úr hluta gatnanna og leiðarmerki reist. Um tíma varð það hluti af þegnskylduvinnu eða atvinnubótavinnu. Með tilkomu vagnsins fóru fram vegbætur á mikilvægustu leiðunum. Sjá má slíkar umbætur í Reiðskarði á Stapanum og á Skipsstíg ofan Grindavíkur, undir Lágafelli. Með tilkomu bílsins bæði mótuðust nýjar leiðir (yfir holt og mela) og eldri voru lagfærðar. Þegar t.d. leiðin milli Grindavíkur og Krýsuvíkur var gerð akfær (1932) varð hin forna þjóðleið yfir Ögmundarhraun (Ögmundarstígur) bæði breikkuð og lögð ofaníburði. Áður mátti sjá í henni djúpt far í klöppinni (sem reyndar er þar enn undir jarðveginum).
Varanlegri vegagerð kallaði á Varðakanthleðslur, ræsi og brúargerð (t.d. Hellisbrúin undir Ingólfsfjalli), en aðstæður og landslag látið ráða för. Í dag er gjarnan farið beint að augum, ekki yfir fjöll og hálsa, heldur í gegnum hvorutveggja. Af því má sjá hversu breytingin hefur orðið mikil á tiltölulega stuttum tíma. Og án efa á margt eftir að breytast mikið á næstu áratugum. Þá má ekki gleyma fótaleiðunum gömlu.

Varðveisla

Skipsstígur

Skipsstígur.

Mikilvægt er að varðveita þessar gömlu leiðir. Varðveislan felst ekki síst í notkuninni. Með því að ganga þessar götur haldast þær sýnilegar og líkur minnka á að þær falli í gleymsku. Helstu óvinir þessara tegundir minja eru sveitarstjórnarfólk, skipulagsaðilar og verktakar. Við nýtt hverfi í Sandgerði var t.d. ekkert tillit tekið til þess að Sandgerðisvegurinn gamli liggur um svæðið og enn mjög greinileg. Grindvíkingar ákváðu hins vegar að hafa göngustíg í gegnum Hópshverfið nýja þegar þeir skipulögðu svæðið og leyfðu Skógfellaleiðinni þannig að halda sér í bæinn. Dæmi eru um, t.d. í Reykjavík, að hús hafi verið byggð á gamlar þjóðleiðir, en fólki ekki orðið svefnsamt í þeim vegna mikillar umferðar fólks að næturlagi.

Gamlar götur njóta verndar skv. 3. gr. minjalaga (Lög um menningarminjar) 80/2012:

Fornminjar
SkógfellavegurFornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.
Forngripir eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem:
-búsetulandslag, skrúðgarðar og kirkjugarðar, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi leifum mannvirkja og öskuhauga, húsaleifar hvers kyns, svo sem leifar kirkna, bænhúsa, klaustra, þingstaða og búða, leifar af verbúðum, naustum og verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum,
-vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri,
-tún- og akurgerði, leifar rétta, áveitumannvirki og aðrar ræktunarminjar, svo og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita,

Þingvallavegur

Varða við gamla Þingvallaveginn – með vegvísi til norðurs.

-vegir og götur, leifar af stíflum, leifar af brúm og öðrum samgöngumannvirkjum, vöð, varir, leifar hafnarmannvirkja og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra,
-virki og skansar og leifar af öðrum varnarmannvirkjum,
-þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð,
-áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum,
-haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið,
-skipsflök eða hlutar þeirra.

Hættur
GangaVersti óvinur hinna gömlu leiða, auk þess fyrst er minnst á, er virðingarleysi núlifandi. Utanvegaakstur hefur víða spillt hluta leiðanna, nýrri vegir hafa af misgáningi verið lagðir yfir þær (t.d. hinn nýi Suðurstrandavegur um Siglubergsháls (sjá mynd), stórvirkum vinnutækjum hefur verið ekið eftir og yfir leiðirnar, rusli hefur verið hent á þær, námur settar þvert á leiðirnar og trjám plantað í þær. Með svolítilli hugsun mætti koma í veg fyrir þessa eyðileggingu, auk þess sem þeir aðilar, sem vernda eiga þessar fornu minjar, hluta af menningararfleifð okkar, mættu að taka hlutverk sig alvarlegar.

Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn – ræsi og varða. framundan.

Á Reykjanesskaganum býr yfir helmingur þjóðarinnar, auk þess sem langflestir útlendir ferðamenn, sem koma hingað til lands, fara um svæðið.  Landssvæðið býður upp á ótrúlega útivistarmöguleika, hvort sem er að ganga hinar gömlu leiðir, langar eða stuttar, skoða landmótun á flekaskilum, jarðmótunina frá upphafi með a.m.k. 15 hraun frá sögulegum tíma, ganga um hina fjölmörgu hraunhella, berja litskrúð hverasvæðanna augum, leita og skoða minjar er lýsa búsetu- og atvinnusögu landsins frá upphafi mannsins hér á landi eða bara virða fyrir sér alla þá ómótstæðilegu náttúru- og blómafegurð, sem boðið er upp á. Gjaldið er ekkert, en sú skylda hvílir á hverjum og einum að sýna landinu virðingu.

Reykjanes - fornar leiðir

Reykjanesskaginn vestanverður – fornar leiðir.

(Reyndar hefur reynsla síðustu ára sýnt að það sem er ókeypis virðist lítt áhugavert. Hlutirnir virðast því hafa þurft að kosta sitt til þess glæða áhugann. Svona er nú mannskepnan margslungin – og mótsagnakennd. Hún virðist taka hoppukastala sérsdagsins, ef hann er í boði, fram yfir hin raunverulegu menningarverðmæti hverdagsins og framtíðarinnar).
Þið hin hugsandi: Hvers vegna ekki að aka í 15 mín. og nýta 1-5 tíma til göngu í stað þess að aka í 1-5 klst og hafa síðan einungis tíma til að ganga í 15 mín. Og það á svo mikilvægum tímum aðhalds og ráðdeildar hér á landi.
Að sjálfsögðu er hér ekki um að ræða tæmandi fróðleik eða lýsingu á þessu viðfangsefni, einungs það sem fyrst kemur upp í hugann í stuttu spjalli. Áhugasömu fólki er boðið vel að njóta. 

Ögmundardys

Ögmundardys austast við Ögmundarstíg.

 

Sigurður Greipsson

Í Skinnfaxa 1931 segir Sigurður Greipsson frá „Vetraferð“ hans og félaga hans frá Biskupstungum til Reykjavíkur.
„Það hefði varla talizt frásagnarvert fyrir tveimur áratugum, að ungir, frískir menn færu gangandi austan úr Biskupstungum, um Mosfellsheiði til Reykjavikur, þótt um hávetur væri. Þá var það venja, að flestir karlmenn, sem gátu komizt að heiman um lengri tíma, færu til sjóróðra. Það var kallað að fara í verið.
Sigurður GreipssonÍ þessum verferðum hrepptu menn oft vond veður og þunga færð. Þeir urðu að bera þungar byrðar: nesti og fatnað. Að líkindum hefir þetta oft verið helzt til mikið álag fyrir lítt harðnaða unglinga, en það hefir kennt þeim að treysta að nokkuru á mátt sinn og megin og stælt vilja þeirra og harðfengi. Stundum leiddu þessi ferðalög til hörmuleguslu tíðinda. Það var mjög á annan veg að ferðast um landið þá en nú. Þegar sótt var suður um Mosfellsheiði, var fátt um kennileiti í hriðarveðrum. Nú er síminn ágætur vegvísir og hægt að kallast á millum Kárastaða og Laxness.
Eg fór aldrei þessar ferðir; eg var svo ungur þá, að eg taldist ekki hlutgengur. En það man eg, að mér þótti, sem litlum dreng, mikið um vermanninn, er hann var ferðbúinn. Mig minnir, að gamla fólkið teldi þann bezt búinn i verið, sem klæddist heima – unnum fötum, yzt sem innst. Eg trúði þessu þá, og eg trúi því enn, að íslenzku nærfötin séu bezt í hríðarveðrum á heiðum uppi. Það voru meðal annars minningarnar um vermanninn, sem bentu mér á leiðina, sem eg fór til Reykjavíkur í vetur. Það var og, að margir af félögum mínum höfðu ekki farið þessa leið fyr. Á þessum slóðum er margt að skoða og íhuga, þótt um vetur sé. Landslagið er að sjálfsögðu dauflegra, þegar það er sveipað hvítavoðum vetrar, en vegfarandinn getur þó, sér til lítillar tafar, lyft blæjuhorninu og skyggnzt inn í vorlendurnar.

Geysir

Frá Geysisskólanum.

[Þann] 15. febr. fórum við 23 saman frá Haukadal. Það voru nemendur mínir og kennari, Jón Kristgeirsson. Námsskeiðinu var lokið. Ferðinni var fyrst heitið að Laugarvatni. Það var glaða sólskin, er við lögðum af stað, en eftir stuttan tíma var komið versta veður, norðanrok og skafbylur. Þó héldum við áfram án tafar og náðum greiðlega að Laugarvatnsskóla.
Á Laugarvatni var okkur fagnað á bezta hátt. Kveldvakan leið fljótt við skemmtiföng Laugvetninga, ræðuhöld, söng og dans. Næsta dag urðum við hríðartepptir. Skemmtu menn sér þá við allskonar íþróttir, svo sem fimleika, sund og glímur. Sund er mjög iðkað á Laugarvatni. Þar er líka Þjálfi og Röskva í þeirri mennt, að ógleymdri prinsessunni. Svo eru tignarnöfn þeirra, sem fremst standa í sundinu við skólann.

Kárastaðir

Kárastaðir.

Í Laugarvatnsskóla dvelja í vetur 120 nemendur. Er þetta því stærsti lýðskóli Íslands. Húsakynni eru þar mikil og hin vönduðustu. Virðast nemendur njóta þar hinnar beztu aðbúðar í hvívetna. Flestir þeir, sem barizt hafa fyrir málum skólans, hafa gert það vegna öruggrar trúar á vaxandi kynslóð. Vonandi skilur æskan, að hér er mikið gert hennar vegna og endurgreiðir það með auknu manngildi.

Laugarvatn

Laugarvatn.

Þá var ákveðið að halda ferðinni áfram að Kárastöðum, um Gjábakkahraun og Þingvöll. Við lögðum af stað kl. 10 árdegis. Bjarni skólastjóri bauð öllum nemendum sínum að fylgja okkur á leið. „Út! út! í hreina fjallaloftið.“ Svo mælti hann. Við þessi orð varð ys og þys um allan skólann, því að nú átti að búa sig til ferðar. Bjarni skólastjóri er íþróttavinur og maður heill að hugsun og háttum. Nú stóð allur hópurinn ferðbúinn á skólahlaðinu.
Leiðin lá vestur Laugarvatnshálsa, sem nú voru þaktir harðfenni. Það markaði því hvergi spor. Ekkert fast skipulag var á fylkingunni og gengu tveir eða fleiri saman, eftir því sem verkast vildi.
Ánægjulegt var að horfa yfir hópinn, 150 manns, allt ungt fólk, konur og karlar. Það bar við, að ekki var ærslum stillt betur í hóf en svo, að mönnum var brugðið til glímu, ef þeir virtust liggja vel við bragði. Þegar kom upp á hálsana, var numið staðar og notið útsýnis, sem er hið tignarlegasta.
Litlu seinna kvöddum við Laugvetninga og árnuðu hvorir öðrum langra lífdaga. Hygg eg, að aldrei hafi farið stærri hópur ungra mann á þessa slóð um þetta leyti árs.
Þá vorum við að eins orðnir 16 í förinni; hinir félagarnir höfðu skilizt við okkur á Laugarvatni og héldu þaðan heim til sín.

Þingvellir

Þingvellir.

Ferðin gekk greiðlega til Þingvalla. Hittum við þar Guðm. Davíðsson. Er hann, sem kunnugt er, umsjónarmaður Þingvalla. Hjá honum dvöldum við um stund og þágum kaffi.
Guðmundur fylgdi okkur á leið og fræddi hann okkur um marga merkilega hluti, er snertu sögu Þingvalla. Hugurinn hvarflaði ósjálfrátt til liðins sumars:
„Nú er þrotin þyrping tjalda,
þögult og dapurt hraunið kalda.“
Veturinn hafði tjaldað sínu milda tjaldi. Almannagjá var sem tröllslegur kastali, en í gegnum snjóklamhrið og ísströnglana grisjaði í biksvartan hamravegginn. Efst á múrnum risu ótal varðlurnar og virtust risar standa í hverjum þeirra með kylfur eða önnur vopn í höndum. Okkur fannst tvísýnt um leiðina og horfðum við með ótta til þessara varðmanna. Við vorum þó að mestu öruggir, meðan Guðmundur var í förinni; hann virtist kunna skil á þeim flestum og vera kunningi þeirra. Við komumst klaklaust áfram, sjálfsagt fyrir góðar bænir Guðmundar, einnig virtust varðrisarnir líta með aumkvun til þessara þumalinga, sem veltust í snjónum fram hjá kastala þeirra.

Sigurjón Péturson

Sigurjón Pétursson.

Að Kárastöðum náðum við um kveldið. Gerðum við þar mikið ónæði, en það virtist ekki eftir talið, þvi að hjónin gerðu allt til þess að veita okkur sem hezta aðbúð.
Einar á Kárastöðum er einn hinna atorkusömustu bænda í Árnesþingi. Honum þótti gott að tala um íþróttir. Gat hann sagt sem Grettir: „Lagt hefi eg niður að rjá, en gaman þótti mér að því um skeið.“

Næsta dag var frekar dimmt til loftsins. Þó var ákveðið að fara suður yfir heiði til Reykjavíkur; eru það fullir 50 km., þegar farinn er Mosfellsdalur.
Þegar kom út að heiðinni gerði skafrenning. Færðin var fremur stirð, hraut snjóinn á kálfa. Fylgdum við símanum að mestu og stefndum til Mosfellsdals.
Eftir 6 klst. göngu komum við að Laxnesi; er það bær ofarlega í Mosfellsdal. Þaðan er Halldór skáld, sem allir kannast við. Í Laxnesi hvíldum við okkur nokkura stund og þágum góða hressingu.
Þá var næsti áfangi að Álafossi. Þangað eiga allir ungir menn erindi, þó að ekki væri nema til þess eins, að sjá húshóndann þar. Sigurjón hafði frétt af komu okkar. Hafði hann dregið íslenzka fánann á stöng.
Svo fagnar Sigurjón jafnan flokki ungra manna, sem koma í heimsókn til hans. Sigurjón virtist gjörla skilja hvað okkur myndi þarfast eftir svo langa göngu, sem við höfðum að baki. Bjó hann okkur því laug. Eftir að við komum úr lauginni, var okkur vísað til stofu; var þar íslenzkur matur framreiddur.
Hvatti Sigurjón okkur að taka rösklega til fæðunnar; gerðist þess þó sízt þörf. Að máltíð lokinni sýndi Sigurjón okkur ullverksmiðjuna, sem hann starfrækir. Var það okkur bæði til skemmtunar og fróðleiks. „Styðjið íslenzkan iðnað. “ Svo hefir Sigurjón auglýst. Margir lesa þetta sem hvert annað auglýsingaskrum. En vert er að taka það alvarlega. Fjötrar fjárkreppunnar eru nú sem óðast að læsast um þjóðina; þá mun öllum ljóst, að „hollt er heima hvat.“

Varmá

Sundaðstaðan í Varmá.

Frá Álafossi fórum við seint um kveldið til Reykjavíkur; fórum við það í bifreiðum. Á leiðinni sáum við fólksbifreið á hliðinni utan við veginn. Er það ekki sjaldgæft, að sjá slíkt í grennd Reykjavíkur. Eru það oftast merki Bakkusar, sem þar eru reist. Markar þar fyrir stórum sporum megnustu ógæfu einstakra manna, sem leitt getur og til ófarsældar heillar þjóðar.

Hnitbjörg

Hnitbjörg á Skólavörðuholti.

Sigurjón var í för með okkur til Reykjavíkur. Þar kvöddum við hann og þökkuðum honum fyrir mikla risnu, er hann hafði sýnt.
Í Reykjavík dvaldi eg vikutíma með félögum mínum. Skoðuðum við helztu byggingar og söfn bæjarins. Þennan tíma hafði eg daglega leikfimi með nemöndum mínum.
Að síðustu bauð eg nokkrum kunningjum mínum að horfa á fimleika okkar. Bjóst eg við, að þeir mundu hafa af því skemmtun nokkra, og að þeir gerðu ekki hærri kröfur en efni stóðu til.
„Ármenningar “ voru mér hjálplegir með hús til æfinga, og kann eg þeim beztu þakkir fyrir, svo og öðrum þeim, er sýndu okkur hlýleika og góðar móttökur, útilegumönnunum frá Langjökli.“ – Sigurður Greipsson.

Heimild:
-Skinnfaxi, 4. tbl. 01.04.1931, Sigurður Greipsson, Vetraferð, bls. 73-78.

Sigurður Greipsson

Sigurður Greipsson – 22.08.1897-19.07.1985.

Embla

Í Emblu, 1. tbl. 01.01.1946, er „Ferðasaga Sigrúnar Gísladóttur frá Reykjavík í Selvog„:

Emla„Þegar ég var telpa austur á Eyrarbakka, heyrði ég oft sjómenn tala um, að þeir ætluðu áð skreppa út í Vog, það er Selvog, rétt eins og við börnin skruppum milli liúsa. Hafði ég því á tilfinningunni, að þetta væri afar auðvelt.
Svo fluttist ég til Reykjavíkur, og árin liðu, en aldrei komst ég í Selvoginn. Áætlun var gerð þangað á ári hverju, því að í Voginn vildi ég komast, þar sem hann var nú líka eina sveitin á Suðurlandi, sem ég hafði ekki komið í. Mig langaði líka að sjá Strandarkirkju, þetta Htla, einfalda guðshús, sem á orðið fúlgur fjár fyrir trú manna á kraft þess, og Vogsósa, þar sem séra Eiríkur hinn fjölkunnugi sat.
Því var það í júní 1940, að ég fekk tvær stallsystur mínar til að skreppa með mér austur í Vog. Við fórum úr Reykjavík um hádegi á laugardag með bíl að Kleifarvatni, gengum upp Lönguhlíð og tókum stefnu þaðan á Herdísarvík. En hvernig er annars Langahlíð, þegar upp er komið, fjallið, sem dregið er með langri, beinni línu og sker sig því svo sterklega úr öðrum fjöllum Reykjaness, sem öll eru eintómar strýtur og hnúkar með skörðum á milli, séð úr Reykjavík? Það var nógu gaman að kynnast því.

Kerlingarskarðsvegur

Efst í norðanverðum Lönguhlíðum.

Þegar brúninni, sem við sjáum úr Reykjavík, sleppir, taka við mosaþembur, síðan talsverður gróður og víða yndisfagrir valllendisbollar með háfjallablómgresi. Fórum við því ekki óðslega að neinu. Veður var hið bezta, logn og sólskin. En nú fundum við, að þetta fjall er ekki einstakt í sjón, heldur líka í raun. Gróðurinn fer minnkandi, og nú tekur við hraun og aftur hraun, sem virðist alveg ógengt; svo stórgert er það.

Lönguhlíðar

Lönguhlíðar – Kerlingagil.

Eitt einkennir þennan stað sem fjall, að þaðan sér aðeins upp í himininn, og er því ekki hægt að átta sig á nokkrum hlut nema eftir korti og áttavita eða klukkunni og sólinni. Sjóndeildarhringurinn er ekkert nema hraun og þústir, hver annarri líkar. Frá norðurbrún, sem heitir Langahlíð, lækkar landið til austurs og hækkar svo aftur, svo að það er eins og maður sé niðri í skál. Við gengum upp á hæstu hraunstrýtuna og lituðumst um. Sáum við þá, að hraunið er lægst í miðju. Tókum við nú stóran krók á hala okkar til að leita að útgöngudyrum úr þessu völundarhúsi.

Selvogsgata

Á Selvogsgötu við Litla-Kóngsfell.

Þegar við komum að þessari lægð, reyndist hún vera helluhraun, sem liggur, má segja, þvert yfir þessar ógöngur. Fréttum við síðar í Selvogi, að það er eina leiðin, sem fær er, þarna yfir. Þarna sáum við meira að segja slóða á hellunum á stöku stað eftir hesta, en þær eru nokkuð víða, þessar steinlögðu götur á Reykjanesfjallgarði. Þegar við komum að suðurbrún þessarar miklu hraunskálar, sáum við út á sjóinn, en fram undan hallar landinu, sem er hraunstraumur mikill, til suðurs. Er hraun það illt yfirferðar, — betra að vera vel skóaður í slíku gangfæri. Í þessum hraunstraumi sáum við einhvers konar dauf strik, sem reyndust vera gata. Var mikil hvíld að fylgja henni. Þessi gata, sem þarna liggur yfir hraunið, er sú elzta, sem við höfum séð á ferðum okkar.
EmblaÞessir gömlu götuslóðar tala sínu hljóða máli. Svipir horfinna kynslóða birtast og líða fram hjá. Sagan tekur á sig undarlega skýrar myndir. — Þarna hillir undir langa lest, langt niður frá. Þar er einhver stórbóndinn að fara með ullina, sem er þétt troðið í mislita hærupoka. — Niður hraunið að vestan kemur önnur. Á henni eru skreiðarbaggar svo stórir, að þá ber við loft. Eitthvað á nú að borða af þorskhausum á þessum bæ. — Þarna glittir í gyllta hnappa og skrautbúin reiðtygi. Danska valdið er að fara með fátækan bónda suður að Bessastöðum. Það á að dæma hann til fangelsisvistar á Brimarhólmi, af því að hann stal gamalli rollu til að seðja hungur barna sinna. — Sitthvað segja þessi gömlu spor. — Þarna kemur fólk á stangli — fótgangandi, hörmulega útleikið, með sár á fótum, þrútin augu og svartar tanngeiflur. Gömul kona er að þrotum komin; hún sezt við götuna og stynur mjög. — Þetta fólk er að koma frá eldunum, — Skaftáreldunum. Svona verka gömul spor kynslóðanna á vegfarandann, sem rekur þau.

Selvogsgata

Selvogsgata.

Nú vorum við komnar niður á Selvogsheiði og höfðum gras undir fótum. Var þá ekki beðið boðanna að tylla sér og taka upp malinn. — Nú gerðust fæturnir viljugir, og var nú gengið rösklega. Ekki sáum við samt Selvog. Þarna eru götur, krossgötur. Við völdum þá, sem stefnir á Herdísarvík, fylgdum henni, þangað til hún hvarf í stórgerðan móa. Allt í einu stóðum við fram á svimhárri brún. Fyrir neðan okkur lá sjórinn og strandlengjan. Við sáum niður í Herdísarvík og bæinn, þar sem stórskáldið okkar, Einar Benediktsson, kvaddi þetta líf. Selvogur blasti við með hinu stóra, fallega Hlíðarvatni. Svo langt, sem augað eygði til hægri og vinstri, sáum við svartar hamrabrúnir. Hvernig áttum við, vængjalausar, að komast þarna niður?

Hlíðarskarð

Hlíðarskarð.

Við komum auga á þráðbeint strik, sem náði milli fjalls og fjöru. Það gat hvorki verið gjá né gata; það hlaut að vera girðing, sem lögð var alla leið upp á fjallsbrún, annars gagnslaus sem vörn fyrir fé. Ákveðið var að reyna þar niðurgöngu, sem reyndist líka sú eina þar um slóðir. Þar hefur vatn brotið skarð í fjallið og myndað skriðu endur fyrir löngu. Er þar einstigi niður. Þar sem nú var orðið kvöldsett og áætlað var að komast að Nesi um kvöldið, gátum við ekki komið að Herdísarvík án þess að taka á okkur stóran krók, þar sem girðingin liggur langt fyrir austan víkina. Var því haldið áfram. Nú voru greiðar götur til bæja. Þarna er fallegur gróður, blóm og birki, móti sólu, í skjóli fjallsins, mikil hvíld fyrir augað frá hraununum, sem við höfðum gengið allan daginn.
Stakkavík er vestasti bær í Selvogi. Komum við þar og fengum mjólk. Var fóikið þar hlýlegt og gott. Hlíðarvatn liggur alveg að Stakkavík að vestan, og var nú freistandi að fá bát yfir vatnið, sem sparaði okkur 2—3 klst. göngu. Bóndinn átti trillubát, sem synir hans voru að tjarga þá um morguninn. Var hann því ekki vel þurr að innan, en velkominn okkur, ef við vildum þiggja hann í slíku ástandi, sem við og gerðum. En botnóttar urðum við býsna vel.

Vogsósar

Vogsósar.

Þá vorum við komnar að Vogsósum. Þar er ljómandi fallegt, — valllendisflatir, þegar túninu sleppir. Vatnið framan við bæinn rennur þar til sjávar gegnum ósinn, sem bærinn dregur nafn af.
Nú var miðnætti. Engin hreyfing sást á bænum. Sjálfsagt allir menn í fasta svefni. Svartbakur, ritur og kríur mynduðu hvítar breiður niðri á fjörunum. Endur syntu letilega með unga sína á vatninu, sem var purpuralitað frá endurskini sólarlagsins.

Vogsósar

Vogsósar.

Við gengum niður að sjónum. Það var fjara. Skerin, vafin sjávargróðri, náðu langt út í sjó og mynduðu spegilslétt lón á milli sín. Þar var æðarfuglinn og ú-aði hálfólundarlega yfir þessu ónæði svona um hánóttina. Þá dró það ekki úr fegurðinni, að máninn, sem var kominn nokkuð hátt á loft, speglaðist í lónunum. Allt var kyrrt. Náttúran tók á sig náðir. Í svona andrúmslofti gleymist stund og staður. Maður samlagast náttúrunni, leggst endilangur á sjávarbakkann og teygar að sér ilminn úr jörðinni og seltuna frá sjónum, nýtur þess að vera til. Við gengum í rólegheitum gegnum byggðina.

Selvogur

Selvogur – kvöld við Engilvík.

Að Nesi, sem er austasti bærinn, komum við á fimmta tímanum. Þar hugðumst við að fá leigða hesta hjá Guðmundi bónda upp að Hveragerði.
Urðum við nú að vekja upp, því að við þörfnuðumst hvíldar. Var okkur mjög vel tekið. Sofnuðum við fljótt og sváfum til kl. 9 um morguninn. Fórum við þá að fala hestana af Guðmundi, en það var ekki auðsótt mál, enda ástæða til. Þannig var ástatt, að sauðburður stóð yfir og því nýafstaðnar miklar smalamennskur, enda dreifðu ærnar sér um tún og hága með lömbin sín. Líka barst að mikill rekaviður vegna stríðsins, liestar því notaðir til liins ýtrasta við störfin. Samt var nú svo komið, að Guðmundur ætlaði að reiða okkur upp að Hrauni í Ölfusi.

Nes

Nes í Selvogi.

Á hlaðinu í Nesi voru kynstrin öll af rekaviði, sem staflað var upp í laupa. Hafði Guðmundur selt það allt til mæðiveikinefndar. Átti að senda bát eftir timbrinu í apríl-maí, en enginn hafði komið ennþá. Með þeim bát átti fólkið að fá nauðsynjar sínar úr kaupstaðnum. Var því víða orðið svo þröngt í búi, að til vandræða horfði. Skorti fólk marga hluti.

Nes

Nes árið 2000.

Húsmóðirin í Nesi átti eitthvað eftir af hrísgrjónum, svo að hún gat gefið okkur mjólkurgraut, svo og kjöt og slátur. Kaffikorn átti hún líka. Garðamatur var að þrotum kominn, því að það varð að ganga á hann, þegar mjölmatinn vantaði.
Fórum við stallsystur nú að skoða okkur um í Voginum, heimsóttum við einu manneskjuna, sem við þekktum þar, Margréti að nafni. Þótti henni hart að geta ekki gefið okkur kaffi, því að það var þrotið, og ekki þýddi að leita á náðir nágrannanna, því að alls staðar var sama sagan. Margrét var að elda sér kjötsúpu úr síðasta útákastinu, sem hún átti, og, sem meira var, síðasta kjötbitanum, svo að hún sagðist bara ekkert hafa að borða, þangað til báturinn kæmi með vörurnar. Ekki var að tala um að komast á sjóinn. Einn bátur sjófær, en engir menn til að róa, því að allur tíminn fór í að bjarga lömbunum.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Margrét fór með okkur út að Strandarkirkju og sýndi okkur hana. Er það ein snotrasta kirkja, sem ég hef komið í, mjög snyrtileg og vel við haldið. Einhver sérstök „stemning“ er í þessari kirkju. Ef til vill er það ímyndun vegna þjóðsögunnar um hana, og hversu vel hún verður við áheitum. Mikill og sterkur garður er nú hlaðinn henni til varnar, og virðist þess ekki vanþörf, því að satt að segja er það furðulegt, að hún skuli ekki fyrir löngu vera komin í sjóinn, svo nærri honum sem hún stendur.

Selvogur

Fornigarður í Selvogi.

Þessi varnargarður hefur líka varið landið frá eyðileggingu foksandsins, sem teygði sig inn eftir landinu og át upp gróðurinn, svo að þar, sem fyrir nokkrum árum sá ekki stingandi strá, eru nú gróðursælar valllendisflatir. Þegar við komum aftur heim að Nesi, færði Guðmundur okkur þau tíðindi, að hins langþráða báts væri nú loksins von upp úr hádegi þann sama dag. Var því alveg sjálfsagt að nota ferðina til Stokkseyrar, en þaðan var báturinn. Bæði var það fljótara og svo komumst við hjá því að níðast á veslings lúnu klárunum.
Eftir burtfarartíma bátsins frá Stokkseyri að dæma reiknaðist þeim í Selvogi svo til, að hann gæti farið þaðan um sex leytið e. h. þann dag. Með því móti átti okkur að heppnast að ná í síðustu áætlunarferð til Reykjavíkur.

Stokkseyri

Frá Stokkseyri.

Teitur Eyjólfsson, forstjóri Vinnuhælisins að Litla-Hrauni, hafði veg og vanda af þessari bátsferð. Þurftum við því að leita til hans með flutning á okkur. Teitur sló á glens, þegar við bárum upp bónorðið, sagðist hreínt ekki vita, hvernig það færi, þar sem við værum þrjár ungar stúlkur. Skipshöfnin væri nefnilega þrír ungir piltar. Formaðurinn væri reyndar talinn einn sá öruggasti á Stokkseyri, Ingimundur á Strönd. Hann sagðist ekki vita, nema þeir slepptu allri stjórn á bátnum og keyrðu í strand, ef þeir hefðu slíkan ágætis farm um borð! Ég hugsaði í símann: Það sér á, að síminn er ekki sjónvarp!

Stokkseyri

Frá Stokkseyri.

Tafir urðu svo miklar við útskipun í Voginum, að klukkan var orðin 2 um nóttina, þegar lagt var af stað þaðan. Við stúlkurnar áttum auðvitað „kojuvakt“. Við héldum eldinum við í „kabyssunni“, fengum okkur kaffi, sem var þar á könnunni, og létum fara vel um okkur.
Nú vorum við komin upp undir Stokkseyri. Var þá ekki orðið það hátt í, að við gætum flotið inn fyrir. Urðum við því að doka við. Settist þá öll „skipshöfnin“ að kaffidrykkju niðri í „lúkar“.
Var þar glatt á hjalla. Allt í einu tekur báturinn snarpan kipp. — Jú, við dinglum þar uppi á skeri. — Báturinn er kominn í strand! Það er yfirleitt ekki hlátursefni, þegar skip stranda á þessum slóð um, en í þetta sinn vakti það óskiptan hlátur skipshafnar og farþega vegna spár Teits forstjóra. Flóðið losaði um bátinn með hjálp vélarinnar, og allir björguðust vel í land. Til Reykjavíkur komumst við um hádegi á mánudag.“

Heimild:
-Embla, 1. tbl. 01.01.1946, Ferðasaga, Sigrún Gísladóttir, bls. 83-89.
Embla

Gálgaklettar

Í Melkorku árið 1954 birtist grein eftir Guðrúnu Sveinsdóttur undir fyrirsögninni „Gönguför um Gálgahraun„.

Melkorka„Á Álftanesi við Arnarnesvog er Gálgahraun. Fram við sjóinn, beint á móti BessastöÖum gnæfa Gálgaklettar. Við klettaræturnar þekur grasið gömul tóftarbrot. Í klettaskorum vex ljónslöpp, tófugras, burkni, þursaskegg o. fl. Efst uppi situr svartbakur, einn síns liðs, en annars er hér urmull fugla í sandbleytunni og smátjörnunum, sem útfirið hefur skilið eftir. Á milli grasigróinna sandlbala, vaða stelkar og sendlingar, en í þangbendunni, sem öldurnar hafa skolað langt upp á land, gösla rifnar og óhreinar rolluskjátur með lömbin sín. Smáfuglár þjóta á milli klettanna, sem endur fyrir löng báru uppi líkami ógæfusamra vesalinga, sem mannanna réttlæti dæmdi til lífláts á þessum stað. Við erum þrjár á ferð, frú Unnur Skúladóttir, Signý, bróðurdóttir hennar, 11 ára gömul, og sú er þetta ritar.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Við nemum staðar og fáum okkur sæti í brekkunni, að vestanverðu við stóra klettinn. Landslagið er sérkennilegt og víður sjóndeildarhringurinn. Hér er friðsælt, við njótum veðurblíðunnar og finnum hve staðurinn er laus við ömurleg áhrif þess, sem hér hefur áður gerzt. Hinzta hvíla hinna ógæfusömu, sem fengu ekki að bera beinin í kristinna manna reit, hefur áreiðanlega hlotið sína vígslu, sem hrakið hefur á brolt allt óhreint og helgað staðinn.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gömul frásögn hermir, að einu sinni sat lítil stúlka undir Gálgaklettum. Var hún þá, sem í leiðslu, hrifin upp í ljóshvolf vítt og undrafagurt. Að eyrum hennar bárust tónar, fegurri en mannlegt eyra má heyra og var sem bylgjur hinna fögru tóna bæru með sér blikandi litskrúð. Loftið var þrungið angan blóma og hreinleika ópilltrar náttúru. Svo sterk voru áhrifin af þessari óviðjafnanlegu fegurð, að hún minntist þess ekki, kvort hún hafði séð fólk á þessum stað, en samt fannst henni sem þarna hefði farið fram einhver helgiathöfn. Þegar hún kom aftur til sjálfrar sín, þar sem hún sat í brekkunni, flutti hún með sér þessa vísu:
Æðra ljós, sem lyftir sál
lífið að mér rétti.
Mig vermir eilíft andans bál
undir Gálgakletti.

Esja

Esjan.

Þarna sátum við og virtum fyrir okkur umhverfið fjær og nær. Regnskúrirnar í Esjunni færðust lengra í vesturátt, en Snæfellsnesið og jökullinn voru enn umvafin skærri birtu og bláma, og andspænis okkur litum við höfuðbólið Bessastaði.

Bessastaðir

Bessastaðir 2023.

„Sjáðu nú Signý min, þarna á Bessastöðum fæddist hann pabbi þinn,“ sagði Unnur, „og þar var hún Unnur frænka þín heimasæta,“ bætti ég við. „Finnst þér ekki einkennilegt að horfa héðan heim að þeim stað, sem geymir svo margar minningar æskuáranna, þar sem þú þekkir hvern krók og kima inni og hverja þúfu úti fyrir?“ spurði ég Unni.
„Jú víst er það einkennilegt, ég átti þar heima í 9 ár. Ég man það eins og það hefði skeð í gær, þegar ég kom fyrst að Bessastöðum.“

Sveppir

Bessastaðasveppir.

Náttúran og sólskinið var hið sama og á sólskinsdögum æskuáranna, þegar Unnur var heimasæta á Bessastöðum. Það hlaut að vera hið ákjósanlegasta tækifæri til að fá að skoða í myndabók minninganna hjá henni. Það bar margt á góma þennan dag, atburðir alda og ára, og eilífðarinnar, sem geymir allt í fórum sínum. Svo fáum við kannske einbverntíma seinna að skoða og skilja allt, sem okkur langar til. Þegar ég kom heim, fannst mér samt, að það mundi ekki skaða að rissa á blað til minnis frásögn Unnar þennan dag, og nú vill Melkorka skrá þessar minningar. Frú Unnur er elzt af börnum Skúla Thoroddsen alþingsmanns og konu hans frú Theodóru, sem er nýlega látin í hárri elli. Þau voru bæð þjóðkunn og ætt þeirra og uppruna er óþarft að rekja hér. Þau eignuðust 13 börn og var heimili þeirra jafnan umfangsmikið. Það kom sér því vel, að þar voru tvær atkvæðakonur að verki, húsfreyjan sjálf og Guðbjörg Jafetsdóttir. Guðbjörg var dóttir Jafets Einarssonar gullsmiðs í Reykjavík. Jafet var bróðir Ingibjargar konu Jóns Sigurðssonar forseta. Bessastaðir
Guðbjörg ólzt að meslu leyti upp í Reykjavík, en var um tíma í Njarðvíkum hjá Ingveldi systur sinni, konu Ásbjarnar Ólafssonar. Guðbjörg var mjög glæsileg kona og vel gefin til munns og handa.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir.

Á milli tvítugs og þrítugs kemur hún á heimili séra Guðmundar á Breiðabólsstað og Katrínar konu hans. Theodóru dóttur þeirra, sem er 9 árum yngri en Guðbjörg, þykir mikill fengur að því að fá á heimilið Reykjavíkurstúlkuna, sem les og talar reiprennandi dönsku, og ber með sér nýjan og hressandi andblæ frá umheiminum. Árið 1884 giftist Theodóra, 21 árs að aldri, og fer þá Guðbjörg á undan til Ísafjarðar, til þess að setja heimilið á laggirnar. Ætlað er, að hún verð ungu hjónunum til aðstoðar fyrst í stað, en þegar von er á fyrsta barninu, finnst öllum nauðsynlegt að hún hafi hönd í bagga með fæðingu þess og fyrstu skrefum. Þegar þar að kemur er Guðbjörg orðin nátengd heimilinu, og með hverju barni verða böndin sterkari. Guðbjörg lézt á heimili Katrínar Thoroddsen læknis árið 1944, 90 ára að aldri.

Bessastaðakirkja

Bessastaðakirkja.

Vorið 1899 fór Guðbjörg fóstra okkar suður á Álftanes með bræður mína tvo, Þorvald og Skúla, sem þá voru 7 og 9 ára. Fenginn var ráðsmaður, áður bóndi, frá Ísafjarðardjúpi, Gunnar Sigurðsson að nafni, og tvær vinnukonur. Svo var hafinn búskapur á Bessastöðum. Þar var fyrir blindur maður, sem Ólafur hét, virðist hann hafa fylgt staðnum. Ólafur var skýr og greindur maður og afburða vel að sér í fornum fræðum. Síðan var fenginn fjósamaður, Guðmundur að nafni, ættaður sunnan með sjó, og svo drengur til snúninga. Auk þess fólk af bæjunum í kring, til aðstoðar þegar þörf gerðist.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Um haustið bættumst við Guðmundur bróðir minn í hópinn. „Thyra“ gamla lá fyrir landi og bátur flutti okkur upp að Fischersbryggju. Þar var saman komið múgur og margmenni og mest áberandi í þeim hóp voru skólapiltarnir með fínu húfurnar sínar. Guðbjörg var þar komin til þess að taka á móti okkur og hún fór með okkur, fyrst til fröken Kristínar Thorlacius, sem lengi var hjá Jóni Árnasyni þjóðsagnaritara, en Katrín kona hans var ömmusystir okkar.
Seinna kom Katrín Magnússon, kona Guðmundar prófessors, til sögunnar, en hún var dóttir Skúla Sívertsen í Hrappsey, sem var ömmubróðir okkar. Katrín fór út með okkur til þess að skoða bæinn. Benti hún okkur á allt hið markverðasta og okkur þótti, sem von var, mikið til koma. Einhvern næstu daga var svo gengið suður Mela, suður í Skerjafjörð og þaðan róið úr Þormóðsstaðavör beint í Skansinn inn tjörnina. Nú vorum við komin heim að Bessastöðum. Ég sá, að þar var ákaflega fallegt, en ég saknaði fjallanna. Heima á Ísafirði voru þau svo nálægt okkur, en hérna voru þau óralangt í burtu.

Bessastaðir

Bessastaðir – Esjan að baki.

Ég reyndi að hugga mig við Esjuna og Jökulinn. Eitt sinn í svartasta skammdeginu, um jólaleytið, kom ég út og sá sólina. Ég hafði aldrei áður séð sólina um þetta leyti árs, ég stóð hugfangin, eins og kraftaverk hefði gerzt fyrir augum mínum, mér lá við gráti. Þá fann ég það fyrst, að ég gat sætt mig við að sakna fjallanna minna.
Að Grími Thomsen látnum hafði lítið verið hirt um húsið. Það var að mestu í sama horfi þegar við komum þangað. Mér fannst mikið til um, hversu veglegt anddyrið var, stofurnar stórar, hátt til lofts, þykkir veggir og djúpar gluggakisturnar. Uppi á loftinu var þó enn merkilegra. Þar voru 4 herbergi, 2 sitt í hvorum enda, en geimur þar á milli. Þetta var áður svefnloft skólapilta og enn mátti sjá hvar verið höfðu lokrekkjur þeirra.

Bessastaðastofa

Bessastaðastofa 1928.

Guðbjörg svaf með okkur börnin í svokölluðu Amtmannssonalofti, í austurenda hússins, en úr gluggunum blöstu við Gálgaklettar, þess vegna urðu þeir mér fljótt að umhugsunarefni. Á kvöldin þegar ég fór upp að hátta, hugsaði ég oft um hverjir hefðu sofið þarna í lokrekkjunum á loftinu og ég lék mér að því að skipa þeim hverjum á sinn stað. Það voru afar mínir, bæði Jón Thoroddsen og séra Guðmundur á Kvennabrekku, og svo Jónas Hallgrímsson og fleiri Fjölnismenn og fjöldinn allur af öðrum þjóðkunnum mönnum. Þrátt fyrir alla þessa heiðursmenn, fann ég oft til myrkfælni á loftinu, en sú tilfinning fékk byr í báða vængi, því að margir töldu sig sjá og heyra sitt af hverju, sem ekki þoldi dagsins ljós né hæfði heilbrigðu lífi. Einna helzt var það Ólafur gamli, sem varð var við ýmislegt „óhreint“ á sveimi kringum staðinn og alltaf áskildi hann sér að ganga síðastur frá bakdyrunum á kvöldin. Þar hrækti hann, fussaði og sveiaði, svo að ekkert óhreint kæmist inn.

Laugavegur

Laugavegur 32.

Um haustið var ráðinn til okkar heimiliskennari. Björn Jensson yfirkennari hafði verið beðinn að útvega gáfaðan og duglegan pilt til þeirra starfa. Fyrir valinu varð Björn Líndal, sem síðar varð lögfræðingur og alþingismaður.

Björn Líndal

Björn Líndal (1876-1931).

Hann kenndi okkur tvo næstu vetur, en las auk þess sjálfur undir 5. og 6. bekk. Smiðir úr Reykjavík voru fengnir til þess að vinna að nauðsynlegum umbótum og breytingum. Sveinn Jónsson, stofnandi Völundar, sá um smíðina. Þá var byggður kvistur, þvert í gegnum húsið að sunnan og norðanverðu, kirkjan var dubbuð upp að utan og innan, en allt var það gert í samræmi við það sem áður hafði verið. Á þessum árum, 1899—1901, var hafin smíði á húsi, sem ætlað var undir prentsmiðju Þjóðviljans, sem þá hafði verið gefinn út á Ísafirði. Það hús stóð niður við Bessastaðatjörn, á sjávarbakkanum. Seinna var það flutt til Reykjavíkur og stendur nú innarlega við Laugaveginn nr. 32.
Sumarið 1900 kom móðir mín snöggva ferð með systur mínar, Katrínu og Kristínu. Þær urðu eftir hjá okkur, svo þá vorum við orðin 6 systkinin á Bessastöðum. Foreldrar mínir voru enn einn vetur á ísafirði, en fluttu svo alfarin þaðan til okkar með yngstu systkinin, sem þá voru Jón, Ragnhildur og Bolli, sem þá var 7 vikna. Það var vorið 1901.

Jón Baldvinsson

Jón Baldvinsson (1882-1938).

Að vestan komu tveir prentarar. Var annar þeirra Jón Baldvinsson, sem síðar varð kunnur stjórnmálamaður, en hinn var Einar Sigurðsson frá Seli. Auk þeirra var einn lærlingur. Uppi á prentsmiðjuloftinu, sem oft var kallað Glymjandi, varð nokkurskonar latínuskóli. Þar lásu, auk bræðra minna, Jakob Smári og Sigurður Sigurðsson, síðar sýslumaður Skagfirðinga. Heimiliskennari var öll þau ár sem við vorum á Bessastöðum, og var það alltaf einhver duglegur latínuskólapiltur.
Þegar í upphafi var gestkvæmt og glaðværð mikil á Bessastaðaheimilinu, en eins og nærri má geta dró ekki úr því við komu foreldra minna. Hvorugt voru þau hneigð fyrir búsýslu, en þá hlið önnuðust þau enn sem fyrr Guðbjörg fóstra okkar og Gunnar Sigurðsson, auk fjölda vinnuhjúa.
Faðir minn var stopull við heimilið. Hann rak enn um nokkurt árabil verzlun á Ísafirði og um þingtímann dvaldizt hann að mestu í Reykjavík. Ritstjóri Þjóðviljans var hann frá 1887 til æviloka.

Bessastaðastofa

Móttaka forseta Íslands í Bessastaðastofu.

Heima á Bessastöðum sat hann löngum inni á skrifstofu sinni og oft sat móðir mín þar hjá honum. Sjaldan held ég að hann hafi látið blaðagrein eða annað af því tagi frá sér fara, svo að hún hafi ekki fylgzt með gangi málanna. Foreldrar mínir voru að mörgu leyti kynlegar andstæður að eðlisfari, en áttu þó svo óvenju vel saman, líklega fyrst og fremst vegna þess, að hugur þeirra stefndi að sama marki, að tímanlegri farsæld og menningarþroska í landinu, sem einungis gat dafnað hjá þjóð, sem var frjáls og óháð erlendu valdi. Á stjórnmálasviðinu var faðir minn einbeittur og gat verið harður í horn að taka, en í daglegu lífi voru þau bæði mannvinir, sem máttu ekkert aumt sjá. Þá var hans megin hlýjan og mildin, en hennar eðli var að ganga rösklega að verki með að rétta hjálparhönd, enda hafði hún þar frjálsar hendur.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Hér er eitt lítið dæmi um hjálpsemi hennar: Móðir mín var eitt sinn stödd niður við höfnina. Þar var skip að fara í strandferð og stóð þar veikluleg og illa klædd kona með börn sín og farangur. Einhvernveginn fær móðir mín vitneskju um, að það eigi að flytja konu þessa sveitarflutningi. Það var kalt í veðri, og móðir mín gerir sér lítið fyrir, tekur af sér hlýja og góða sjalið sitt og vefur utan um konuna. Svo kom hún heim með mun lélegri flík, sem hún hafði fengið í næstu búð handa sjálfri sér.
Á Bessastöðum voru menn árrisulir. Þar var unnið af kappi að hverju sem var, búsýslu, heimilisstörfum, lestri, ritstörfum, prentiðn o. s. frv. Þó að mamma tæki ekki mikinn þátt í búsýslunni, hafði hún nóg að gera við að sinna gestum, innlendum og erlendum, og við að vaka yfir velferð barnanna og heimilisins á ýmsa vegu, en þegar pabbi kvaddi hana til aðstoðar og samfylgdar við sig, þá yfirgaf hún allt annað á augabragði og fylgdi honum hvert sem vera skyldi.

Bessastaðir

Glatt á hjalla í Bessastaðastofu 2023.

Eins og nærri má geta var oft glatt á hjalla þar sem var saman komið svo margt fólk í blóma aldurs síns, og alltaf bættist við álitlegur hópur gesta og gangandi. Stundum var slegið upp dansi í forstofunni, en annars skemmtu menn sér við tafl og spil. Sérstaklega var teflt mylla, refskák og kotra. Síðast en ekki sízt var til skemmtunar allskonar fróðleikur, sögur, söngur, ljóðalestur og kveðist á og látið fjúka í kviðlingum, því að bæði voru menn heima fyrir, sem gátu látið til sín taka í þeim efnum og margir þeirra gesta, sem að garði komu, voru heldur ekki í neinum vandræðum með að koma saman vísu, eins og t. d. Þorsteinn Erlingsson, Lárus Sigurjónsson, Jónas Guðlaugsson, Jóhann Gunnar og Guðmundur Kamban og margir fleiri, þótt eigi hafi þeir allir orðið þjóðkunnir á því sviði.

Þorsteinn Erlingse

Þorsteinn Erlingsson ((1858-1914) .

Af þeim mönnum, sem þegar hafa verið nefndir, má sjá að þessi staður hefur á ýmsum tímum haft að geyma marga af mætustu mönnum þjóðarinnar. Geta menn því gert sér í hugarlund, að það eru ljúfar minningar, að hafa átt sín beztu æskuár í hópi nokkurra þeirra og á þessum merka stað.
Frásögn þessi var rituð í ágústmánuði árið 1951. Birt með leyfi frú Unnar Skúladóttur.“

Hafa ber í huga að þrátt fyrir Bessastaðadekur til handa útvöldum með einskisvirðu skrauti hafa miklu mun fleiri og merkilegri landmenn og -konur lagt hönd á plóg ávöxtunar til framfara landsins er aldrei hafa hvorki náð eyrum né augum „elítunnar“ vegna eigin hógværðar. Allt þetta gleymda fólk eru „menn og konur“ að meiri og ber að virða með sæmilegri hætti en með prjáli Bessastaðaeilítunnar…

Heimild:
-Melkorka, 10. árg., 2. tbl. 1954, Guðrún Sveinsdóttir, Gönguför í Gálgakletta, bls. 39-43.

Bessastðir

Bessastaðir.

Tjörvaskjól

Í „Svæðisskráningu fyrir Hafnarfjörð 1989“ og í „Örnefnalýsingu fyrir Straum; Gísli Sigurðsson“ er getið um „Tjörvagerði“ og „Tjörvaskjól„.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

„Vestur frá þýskubúð og sunnan undir klöpp eru „Tjörvagerði“ og „Tjörvaskjól“…. hvort tveggja er hlaðið af Guðmundi Tjörva bónda í Straumi og Þýskubúð.“

Straumur

Fjárskjól við Tjörvagerði.

Skjólið er skammt (20m) vestur af gerðinu og rétt sunnan við hleðslu undir girðingu (landamerki Óttarsstaða og Straums“. Í hrauni þar sem langar klappir reynast skeifulaga skjól með opið til suð vesturs.“ „Skjólveggur hlaðinn þvert fyrir og hellisskúta. Veggur hæstur…

„Vestur frá Þýzkubúð er sunnan undir hárri klöpp Tjörvagerði. Þar er Tjörvabyrgi og Tjörvaskjól, hvort tveggja hlaðið af Guðmundi Tjörva bónda í Straumi og Þýzkubúð“.

Svæðið umleikis Straum og nágrenni er fyllilega gönguferðarinnar virði…

Heimild:
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð.
-Örnefnalýsing fyrir Straum, Gísli Sigurðsson.

Tjörvagerði

Tjörvagerði.

Búrfell

Í Listinni að lifa árið 2007 er grein eftir Sigurð Björnsson; „Gengið um Garðabæ„.

„Garðabær er hluti af Álftaneshreppi hinum forna, sem fyrst var skipt árið 1878 í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Síðar var Hafnarfjörður skilinn frá Garðahreppi og fékk kaupstaðarréttindi árið 1908. Þessi sveitarfélög heita nú Garðabær, Hafharfjarðarkaupstaður og Sveitarfélagið Álftanes.

Garðabær

Umhverfi og ásýnd Garðabæjar mótast að verulegu leyti af hrauninu, sem brann fyrir um það bil 7200 árum og rúmlega 3000 árum eftir að síðasta jökulskeiði lauk. Hraun þetta rann frá eldvarpinu Búrfelli, sem er suðvestan Heiðmerkur, 7,2 km í suðaustur frá Garðatorgi og 2,5 km norðaustur frá Helgafelli, sem er móbergsfjall myndað í eldgosi undir jökli á síðustu ísöld. Búrfellshraunið heitir ýmsum nöfnum eftir því hvar menn eru staddir hverju sinni, svo sem Smyrlabúðarhraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Garðahraun og Gálgahraun. Hluti Búrfellshrauns rann einnig vestar og heitir þar ýmsum nöfnum, sem ekki verða rakin hér, nema hvað Hafnarfjarðarhraunið er hluti þess.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Hér er því hvorki skortur á hraunum né örnefnum. Tómas Guðmundsson skáld komst snilldarlega að orði þegar hann sagði í kvæði sínu, Fjallganga: „Landslag yrði lítils virði, ef það héti ekki neitt.“
Mér er ætlað að rekja hér örnefni og greina frá kennileitum í Garðabæ frá fjöru og fram til fjalla. í bókinni Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar eftir Guðlaug Rúnar Guðmundsson er örnefnaskrá á 78 blaðsíðum svo ljóst má vera, að hér verður aðeins stiklað á stóru í stuttri grein. í þeirri bók geta þeir, sem áhuga hafa, aflað sér nánari fróðleiks um Garðabæ og örnefni þar.

Skógtjörn

Við Skógtjörn.

Mörk Garðabæjar og Álftaness liggja um tvær tjarnir, Lambhúsatjörn og Skógtjörn. Eiðin, sem áður skildu þessar tjarnir frá sjó, eru nú horfin í hafið, þannig að þær eru raunar báðar orðnar að vogum. Afrennsli frá Skógtjörn var til suðurs um Oddakotsós við miðbik tjarnarinnar og lágu hreppamörkin um ósinn. Vestan óssins var Hliðsnesið í Bessastaðahreppi með samnefndum bæ, og lá nesið til suðurs frá Álftanesinu. Hafið rauf eiðið norðan bæjarins og stóð hann þá á eyju, erfiðara varð um aðföng og róa þurfti með börnin á báti til þess að þau kæmust í Bjarnastaðaskóla.

Hliðsnes

Hliðsnes – loftmynd 2023.

Fyrstu jarðýturnar í eigu Íslendinga komu til landsins 1942 og eina þeirra, e.t.v. þá fyrstu, áttu bræðurnir Eyþór og Gunnar Stefánssynir frá Eyvindarstöðum á Álftanesi. Þeir voru fengnir með ýtuna til þess ýta upp í gamla ósinn og koma Hliðsnesinu í vegasamband inn í Garðahrepp. Bæjamörkin liggja hins vegar óbreytt, þar sem áður var ósinn suður úr Skógtjörninni. Hér er land allt hægt og sígandi að hverfa í hafið eins og sjá má af því, að bæði á botnum tjarnanna og úti fyrir ströndinni suður af Garðaholti og umhverfis Álftanes eru víða myndarlegir móhleifar, en mór myndast af gróðurleifum í mýrum inni á landi en aldrei í söltu vatni, enda engar gróðurlendur þar.

Álftanes

Álftanes – herforningaráðskort 1903. Hér sjást landamerkimum Skógtjörnina.

Á báðum þessum tjörnum er fjölskrúðugt fuglalíf, einkum vor og haust, þegar norðlægir farfuglar hafa þar viðkomu og er margæsin þar áberandi. Á eiðinu milli Lambhúsatjarnar og Skógtjarnar, hægra megin við veginn þegar ekið er út á Álftanes, er lágur hóll með tóftarbroti. Þarna stóð bærinn Selskarð. Sunnan við Selskarð og austur af Skógtjörninni, vestan Álftanesvegar, heitir Álamýri. Suð-austur frá Skógtjörn rís Garðaholtið. Vestan í holtinu standa Garðar, höfuðból og kirkjustaður frá fornu fari. Garðakirkja var aflögð árið 1914 og um miðja öldina var svo komið að aðeins stóðu eftir grjótveggirnir opnir fyrir veðri og vindum, gluggalausir og þaklausir. Til tals kom að brjóta veggina niður og nota í hafnargarð við Hafnarfjarðarhöfn.
GarðakirkjaÞví menningarslysi var þó forðað, sem betur fer, fyrir atbeina nokkurra góðra manna og þó einkum vegna atorku kvennanna í nýstofnuðu Kvenfélagi Garðahrepps, og fórnfúsra starfa þeirra. Þær endurreistu Garðakirkju og var hún vígð af séra Sigurbirni Einarssyni biskupi hinn 20. mars 1966.
Sunnan og vestan í Garðaholtinu er Garðahverfið. Þarna voru 25 býli og þurrabúðir árið 1868. Mörg þessi býli standa þar enn.
Nyrst i Garðahverfinu, niður undir Skógtjörn, eru Hausastaðir. Þar er minnisvarði um einn fyrsta vísi að reglulegu skólahaldi fyrir börn og unglinga hér á landi.

Hausastaðir

Hausastaðir – minnismerki.

Þessi skóli var starfræktur á vegum Thorkillisjóðsins árin 1791-1812, en sjóður sá varð til samkvæmt ákvæði í arfleiðslubréfi Jóns Þorkelssonar fyrrum skólameistara í Skálholti og átti hann að standa straum af skólahaldi fyrir fátækustu og mest þurfandi börn í Kjalarnesþingi.
Skammt suðaustur frá Garðakirkju stendur félagsheimilið Garðaholt, sem upphaflega var reist árin 1908-11 sem skóli og þinghús hreppsins. Aukið hefur verið við húsið nokkrum sinnum og hefur það í mörg ár þjónað sem samkomuhús bæjarins. Kvenfélagið sér um rekstur Garðaholts. Örskammt til vesturs frá Garðaholti, neðan við veginn til Hafnarfjarðar, stendir býlið Krókur, sem Garðabær á nú og rekur þar byggðasafn. Fyrri eigendur gáfu bænum húsin ásamt öllu innbúi.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Efst á Garðaholtinu er fagur og mikill skógarreitur. Holtið var áður autt, grýtt og gróðurvana, því þarna næða norðanvindar. Árið 1955 fékk Sigurður Þorkelsson, skipasmiður, þarna land á leigu, girti það og hóf uppgræðslu og trjáplöntun. Hann byggði sér bústað ásamt konu sinni, Kristínu Gestsdóttur, sem nú er nýlátin. Þennan stað gerðu þau að þeim unaðsreit, sem þar er orðinn, og nefndu hann Grænagarð. Á Garðaholti er hringsjá, sem Rótarýklúbburinn í Görðum lét gera. Sigurður Björnsson, verkfræðingur, sá er ritar þessa grein, mældi á holtinu og hannaði hringsjána. Hún sýnir fjallahringinn, hæðir fjallanna og fjarlægðir frá Garðaholtinu. Á skífunni er sólúr.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Nyrst í Garðahrauni, skammt frá Lambhúsatjörn, er hraungúll, sem klofnað hefur og myndar tvo kletta eða þrjá. Klettana notaði Bessastaðavaldið sem aftökustað þeirra ógæfumanna, sem þeir töldu dauðaseka að þeirra tíma reglum og lagabókstaf.

Gálgahraun

Í Gálgahrauni.

Klettarnir nefndust Gálgaklettar eða Gálgaklofningar og hraunið Gálgahraun. Austan Gálgahrauns er Arnarnesvogur. Nyrsta spýja Garðahraunsins skagar í mjóum tanga út milli Arnarnesvogar og Lambhúsatjarnar og heitir þar Eskines.
Suður frá Arnarnesvogi rís Hraunsholtið og austan þess rennur Hraunsholtslækur til sjávar. Hann á upptök sín í Vífilsstaðavatni og nefnist efri hluti hans Vífilsstaðalækur. Lækurinn rennur með hraunjaðrinum sunnan við Flatahverfið. Úti í hrauninu er stakur hóll er nefnist Hádegishóll, eyktamark frá bænum Hraunsholti, og er á bæjamörkum Garðabæjar og Hafnarfjarðar.

Wegenerstöpull

Wegenerstöpull – Wegenerstöpull er annar tveggja steinstöpla (svipaður stólpi var reistur í Öskjuhlíð) sem reistur var af Alfred Wegener, þýskum vísindamanni, hér á landi vafalaust til viðmiðunar til að sýna fram á landrekskenninguna sína. Stöpulinn reisti Wegener í aprílmánuði árið 1930. Árið 2000 voru settar plötur með söguágripi á stöpulinn. Stöpullinn er ferkantaður, steyptur og rúmlega 3 m hár. Flatarmál er 1 x 1 m. Hann stendur við gangstétt efst á götunni Hegranes við gatnamót Arnarnes og Hegranes.

Austan við Arnarnesvog er Arnarnesið. Þar sem nú skerast göturnar Arnarnes og Hegranes, stendur „Wegenersúlan“, einn þeirra mælingastöpla, sem þýski visindamaðurinn Alfred Wegener lét steypa vorið 1930 í þeim rilgangi að mæla gliðnun landsins og sanna þar með landrekskenningu sína um rek meginlandanna á jarðarkringlunni. Honum auðnaðist ekki að færa sönnur á þá kenningu, hann varð úti á Grænlandsjökli það sama ár. Kenning Wegeners hefur nú fyrir löngu verið sannreynd með þeim nákvæmu mælingaaðferðum, sem nú eru tiltækar. Flekamót liggja um jarðeldabelti Íslands og Austur- og Vesturland gliðna í sundur til jafnaðar um 2 sentímetra á ári hverju.

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ.

Upp frá Arnarnesvogi og ofan Hafnarfjarðarvegar var byggður fyrsti þéttbýliskjarninn í Garðahreppi og nefnist hverfið Silfurtún. Í suðvestur frá Silfurtúninu rís Hofsstaðahæðin með bænum Hofsstöðum. í Hofsstaðalandi, norður af bænum, er nú risin Vídalínskirkja og safnaðarheimilið Kirkjuhvoll. Örskammt austur af kirkjunni og bænum og við hliðina á nýjum Tónlistarskóla Garðabæjar hafa verið grafnar upp minjar um forna byggð, sem talin er vera frá landnámsöld. Þar hafa bæjaryfirvöld látið gera minjagarð og er allur frágangur til fyrirmyndar og bæði skemmtilegt og stórfróðlegt að kynna sér þá sögu, er þar býr að baki. Suður frá Hofsstöðum stóð býlið Hagakot. Bærinn stóð þar sem nú er Tjarnarflöt 10. Gatan dregur nafn sitt af seftjörn, sem fyrrum var í ofanverðu túninu.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – Gunnhildur.

Drjúgan spöl fyrir austan er sagt að Vífill, leysingi Ingólfs Arnarsonar, hafi reist bæ sinn og nefndi Vífilsstaði. Á Vífilsstöðum var reist berklahæli árið 1910. Nokkru austar er svo Vífilsstaðavatnið, en sunnan við vatnið eru Dýjakrókar með uppsprettulindum. Þar er nú vatnsból Garðabæjar og Álftaness, en í vændum er að það verði aflagt innan skamms. Umhverfis vatnið liggur fjölfarinn göngustígur. Frá Vífilsstaðavatni rennur Vífilsstaðalækur, sem fyrr segir, og um mýri suður af Vífilsstöðum, sem nefnist Vatnsmýri. Austur frá Vífilsstöðum og norður af vatninu er hæð, sem nefnist Skyggnir. Smalaholtið rís norðaustan vatnsins, en sunnan þess er Vífilsstaðahlíð og nefndist hún áður Svínahlíð.

Arnarnes

Arnarnes (MWL).

Inn frá Arnarnesi gengur Arnarnesholt og þar fyrir austan er Nónhæð, nú innan bæjarmarka Kópavogs, en eftir að Garðabær og Kópavogur sömdu um breytt bæjamörk hinn 18. maí 1983 skiptir Arnarnesvegurinn nýi löndum inn eftir holtunum innan við Bæjarbraut. Sunnan holtsins rennur Arnarneslækur. Hann á upptök sín í Vetrarmýri, norðan Vífilsstaða, þar sem nú er golfvöllurinn, og rann þaðan norðan Dýjakróka í Stórakrók og niður í Arnarnesvog. Dýjakrókar voru á því svæði þar sem nú er iðnaðarhverfið við Iðnbúð.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

Norðan Vetrarmýrar rís Hnoðraholt og dregur nafn sitt af Hnoðranum á norðurbrún holtsins, sem er brattur hóll með dritþúfu. Um Hnoðrann lá fyrrum markalínan milli Vífilsstaða í Garðahreppi og Hvammkots í Seltjarnarneshreppi, en Hvammkot nefndist síðar Fífuhvammur.

Smalaholt

Smalaholt – lágmynd.

Austur af Hnoðraholti er Leirdalur, sem fyrrum virðist að mestu hafa verið í eigu Vífilsstaða en hefur í áranna rás fallið til Fífuhvamms. Suður af Leirdal rís Smalaholtið, sem fyrr er nefnt. Suðaustur frá Smalaholti eru Kjóavellir. Þar er nú hesthúsabyggð.
Sunnan Kjóavalla og suðaustanvert við Vífilsstaðavatn rís Sandahlíðin, hæst hæða á þessum slóðum, 160 m yfir sjávarmáli. Þar uppi er fagurt útsýni til allra átta og blasa þar suðurfjöllin við göngumönnum. Norðan undir Sandahlíðinni er útivistar- og leikjavæði Skógræktarfélags Garðabæjar.

Grunnuvötn

Tóftir við Grunnuvötn.

Lægðin milli Sandahlíðar og Vífilsstaðahlíðar nefnist Grunnuvatnaskarð, en í suðaustur eru Grunnuvötn, tvær tjarnir, sem nú þorna upp á sumrum. Austan við Grunnuvötn rís hæð eða hóll, sem nefnist Arnarbæli, hefur einnig verið nefndur Arnarstapi og Arnarsetur. Á Arnarbæli eru landamörk milli Garðabæjar og Kópavogs og liggja þaðan suður í Húsfell. Suðvestan Grunnuvatna er hæð uppi á Vífilsstaðahlíðinni er nefnist Selás. Suðvestan undir Selási stóð Vífilsstaðasel. Þegar haldið er til suðurs frá Selási göngum við yfir Víkurholt, en þau eru tvö, og komum að Hjöllum. Hjallarnir er misgengisstallur, sem er allt að 60 m hár þar sem hann er hæstur sunnan undir Vífilsstaðahlíð.

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Sprungan við rætur Hjallanna er nærri 5 km á lengd. Berggrunnurinn er grágrýti og hinn sami bæði uppi á Hjöllunum og á landinu, sem sigið hefur sunnan þeirra. Á Hjallabrún, sunnan við Víkurholt, lét Skógræktarfélag Reykjavíkur árið 1967 gera hringsjá, þar sem skoða má fjallahringinn. Næst eru Húsfell, Búrfell, Valahnúkar og Helgafell. Fjær blasa við Hengillinn, Vífilsfell, Bláfjöll, Þríhnúkar, Stóribolli eða Bollinn, Tvíbollar, og Syðstubollar. Vestan við Stórabolla er Kerlingarskarð en milli Tvíbolla og Syðstubolla er Grindarskarð, um það liggur Selvogsgata. Þar fyrir vestan komu Langahlíð, Hellutindar, Fjallið eina, Grænadyngja, Trölladyngja og Keilir.

Grásteinn

Grásteinn í Urriðakotshrauni.

Nú höldum við að nýju norður á móts við norðurenda Vífilsstaðahlíðar, er nefnist Hlíðarhorn. Uppi á Hlíðarhorni stendur varða, sem kallast Gunnhildur. Sjúklingar á Vífilsstöðum, þeir sem voru sæmilega rólfærir, gengu gjarnan upp að Gunnhildi, var haft til marks um heilsufar þeirra, að kæmust þeir þangað upp án þess að spýta blóði, þá væru þeir á batavegi og gætu jafnvel farið heim.

Gunnhildur

Gunnhildur.

Vestur frá Hlíðarhorni rís Urriðakotsholt og vestan undir því er Urriðakotsvatn, vestan þess eru svo Setbergshamar og Setbergsholt. Um þau holt liggja nú bæjamörk Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Áður fyrr var Setbergshverfið í Garðabæ.
Sunnan við Urriðakotsvatn heitir Dýjamýri og sunnan hennar rís Flóðahjalli og syðsti og hæsti hluti þeirrar hæðar nefnist Klif. Sunnan við Klifið kemur svo önnur Sandahlíð, því þær eru tvær með sama nafni á þessum slóðum. Sunnan Urriðakotsholts og norð-austan Flóðahjalla eru Urriðakotsdalir, þar og allt suður undir Sandahlíð hefur regla Oddfellowa búið sér glæsilegan golfvöll. Sunnan þess golfvallar eru þrjár hæðir, sem nefhast Tjarnholt. Sunnan Tjarnholta hefst Reykjanesfólkvangur og þar þekur Smyrlabúðarhraun stórt svæði og nær suður að Smyrlabúð, sem er hæð á Hjallabrún, rúman kílómeter vestan Búrfells.

Heiðmörk

Heiðmörk – tóft.

Suðvestan í Vífilsstaðahlíð hefur vaxið upp gróskumikill skógur sem er hluti Heiðmerkur. Í fyrstu var land Heiðmerkur aðeins innan Reykjavíkur. Sunnudaginn 25. júní 1950 var Heiðmörk opnuð almenningi við hátíðlega athöfn. Hinn 17. október 1957 jók Skógræktarfélag Reykjavíkur við upphaflegt svæði með samningi við stjórn ríkisspítalanna, sem leigði félaginu verulegt land frá Vífilsstöðum, m.a. Vífilsstaðahlíðina. Þessi hluti Heiðmerkur er innan Garðabæjar og 10. maí 1997 keypti bærinn það land af ríkinu.

Maríhellar

Maríuhellar.

Þarna er vinsælt útivistarsvæði og gönguleiðir í skjóli í norðannæðingi. Norður á móts við Hlíðarhorn er ekið inn í Heiðmörkina og liggur vegurinn um hraunið allt suður undir Hjalla. Þegar ekið er inn, þar sem áður var hlið á Heiðmerkurgirðingu, og upp á hraunkambinn verða Maríuhellar á vinstri hönd, rétt við veginn. Þetta voru fjárhellar frá Vífilsstöðum og Urriðakoti. Vestast í Maríuhellum er þröngur gangur niður í manngengan helli, sem liggur langt til norðurs undir Vífilsstaðahrauninu. Gegnt Maríuhellum, sunnan við veginn, er myndarlegur hraunhóll, Dyngjuhóll eða Hádegishóll, eyktamark frá Vífilsstöðum. Vestan undir miðri Vífilsstaðahlíðinni er bílastæði og grillaðstaða og í hlíðinni þar fyrir ofan er trjásýnireitur Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem fróðlegt er að skoða. Göngustígur liggur frá Maríuhellum suður eftir hrauntungunni. Á móts við Tjarnholtin komum við að Selgjá, sem er grunn en nokkuð breið hrauntröð mynduð í Búrfellsgosinu. Nyrst í gjánni vestanverðri er Selgjárhellir. Upp við barma Selgjár hafa menn fundið margar vallgrónar seljarústir. Jarðabók 1703 greinir frá selstöðu þarna og virðast átta kóngsjarðir á Álftanesi hafa haft þar í seli. Þegar komið er suður á Hjallabrún sést, að

Selgjá

Selgjá – uppdráttur ÓSÁ.

Selgjá er í beinu framhaldi af Búrfellsgjá, og eru þær því í raun sama hrauntröðin. Búrfellsgjá er mjög áhugaverð hrauntröð frá Búrfellsgíg og er vel þess virði að ganga eftir henni suður í Búrfell og að skoða sköpunarverk náttúrunnar í leiðinni. Samfelldur hraunstraumur hefur runnið eftir gjánum báðum.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Hér blasir við að þessi stórleikur náttúrunnar, myndun Hjallanna og landsigið sunnan þeirra, hefur orðið eftir að eldar brunnu í Búrfelli fyrir rúmlega 7000 árum. Sprungan, sem liggur yfir hraunið í misgengisstallinum milli Selgjár og Búrfellsgjár, heitir Hrafnagjá. Niðri á flötinni í Búrfellsgjá, sunnan Hrafhagjár, er Gjárrétt. Hér var lögskilarétt fram til 1920 en réttin var notuð eitthvað lengur. Gjárrétt var friðlýst árið 1964. Við hamravegginn norðan réttarinnar er Vatnsgjá, þar eru nokkur þrep niður í ágætt vatnsból. Nær miðja vegu milli Gjárréttar og Búrfells heita Garðaflatir. Kringlóttagjá er hrauntjarnarstæði sunnan við Búrfell, sem myndast hefur seint í Búrfellsgosinu. Góðan spöl suðvestur af Kringlóttugjá eru Mygludalir. Við sérstök veðurskilyrði myndast þarna eitthvað, sem líkist mygluskán, kynnu að vera kísilþörungar.

Mygludalir

Mygludalir. Valahnúkar fjær.

Suður af Húsfelli er sameiginlegt umráðasvæði Garðabæjar og Álftaness. Það nefndist fyrrum „Almenningsskógur Álptaneshrepps.“ Mörk Almenningsskógarins liggja frá Húsfelli suður á Hæstaholt á Dauðadölum og kallast markapunkturinn nú á seinni tímum Markraki. Af Markraka liggja mörkin til vesturs sunnanvert við Leirdalshöfða í Markrakagil í Undirhlíðum eða Melrakkaskarð. Þetta eru jafnframt austur- og suðurmörk Hafnarfjarðarkaupstaðar. Eins og nafnið „Almenningsskógur“ ber með sér var gróðurfar hér fyrrum allt annað en nú. Þarna óx gróskumikill skógur því sagnir herma, að úr honum hafi árlega verið fluttir hestburðir af trjám og hrísi til eldiviðar á Bessastöðum. í Leirdal milli Leirdalshöfða og Lönguhlíðar hefur Skógræktarfélag Garðabæjar hafið uppgræðslu og trjárækt.

Þríhnúkar

Þríhnúkar – þverskurður.

Austur- og suðurmörk Almenningsskógar Álftaneshrepps liggja af Húsfelli upp í Þríhnúka. Austasti hnúkurinn kallast Strompur og er innan stjórnsýslumarka Kópavogs. Hann er sérstætt náttúruundur. Hnúkurinn er hár og brattur klepragígur og í toppnum er brekka niður að gígopi um 10 m að þvermáli.

Þríhnúkagígur

Í Þríhnúkagíg.

Við lok gossins hefur bráðið hraunið runnið brott og við það myndast um 110 m djúpur hellir með lóðréttum veggjum. Þarna ber að fara með mikilli gát því hrasi maður í brekkunni ofan við gígopið og falli niður í hellinn þarf ekki að spyrja að leikslokum. Jón heitinn Jónsson, jarðfræðingur, nefndi hellinn Svartholið. Frá Þríhnúkum liggja mörk Almenningsskógarins í Bláfjallahorn, þ.e. suðurenda Bláfjalla, þaðan vestur í Litla-Kóngsfell, sem er, eins og segir í markalýsingu Krýsuvíkurlands 1890, „lág, mosavaxin eldborg umhverfis djúpan gíg á hægri hönd við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum.“ Stórkonugjá er norðaustan við Kóngsfell. [Hér fer höfundur villu vegar því nefnt „Kóngsfell“ er hægra megin við gamla Kerlingarskarðsveginn úr Selvogi, ofan skarðsins, en það er ekki „Stóra-Kóngsfell“, eins og ætla mætti af lýsingunni. Það er miklu mun norðaustar og fjarri „gömlu götunni“. „Litla-Kóngsfell“ er gígur, hægra megin við „gömlu götuna“ á Grindaskarðsleiðinni frá Selvogi, allnokkru sunnar en „Kóngsfellið“. Þá er „Konungsfellið“, öðru nafni „Stóribolli“, efst í Grindarskörðum. Um þau lág Selvogsgatan, öðru nafni Grindaskarðavegur, fyrrum.]

Litla-Kóngsfell

Litla-Kóngsfell – Selvogsgatan.

Hér upphefst nokkur vandi. Markalýsingum fyrri tíma til vesturs frá Litla-Kóngsfelli ber ekki saman og deila menn um eignamörk. Landamerkjadómur frá 1971 og Hæstaréttardómur um sýslumörk frá 1996 eru misvísandi. Hér stangast hvað á annars horn. Óbyggðanefnd tók ekki, í úrskurði sínum hinn 31. maí 2006, afstöðu til ágreinings um staðarmörk sveitarfélaga og þar með ekki til þessa vanda. Bráðnauðsynlegt er að fá botn í málin, rugling þennan leiðréttan, og að ágreiningi verði rutt úr vegi. Læt ég svo lokið frekari bollaleggingum í bili.“  – Sigurður Björnsson, verkfræðingur.

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.

Heimild:
-Listin að lifa, 2. tbl. 01.06.2007, Gengið um Garðabæ, Sigurður Björnsson, bls. 44-47.

Kóngsfell

Kóngsfell.

Lesbók Morgunblaðsins

Í Lesbók Morgunblaðsins 1966 skrifar Björn Þorsteinsson; „Blaðað í örnefnaskrá„.

Björn Þorsteinsson

Björn Þorsteinsson.

„Örnefni geyma mikinn fróðleik um land og þjóð, og dálítil örefnafræði er handhæg hjálpargrein við sögukennslu. Allir Íslendingar þekkja talsvert af örnefnum, ef vel er að gáð, og sú þekking getur komið nemendum að margs konar liði við nám sitt, ef kennaranum tekst að fá þá til þess að hagnýta sér hana; hæfileg örnefnafræði getur jafnvel leitt einstaklinga til sjálfstæðra athuguna, ef rétt er að farið. Engin aðgengileg rit eru til um örnefni á íslenzka tungu og fáar ritgerðir. Þeirri, sem hér fer á eftir, er ætlað að bæta örlítið úr skák. Hún geymir lítil vísindi, en er einkum ætluð til að vekja athygli kennara á viðfangsefni, sem er hugtækara en flesta grunar.

Hvalfjörður

Það eru töfrar og myndaugði örnefnanna, sem orka einkum á skáldið, því að staðina hefur það aldrei séð. Saga og ævintýr hafa skráð landið, sem við byggjum, markorðum í gervi örnefna, og kynslóðirnar hafa oft stytt sér stundir við það að svara þeim. Þau eru vörður við veg okkar um landið og birta okkur brot úr sögunni, ef við gefum þeim gaum. Þau greina frá uppruna landnámsmanna, trú og siðum, sem hér hafa tíðkazt, atvinnuháttum og verkmenningu. Þau eru brotasilfur úr atburðasögum og opinbera ýmist skáldsýnir nafngefenda eða gremju þeirra, háð eða gleði. Dynskógar, Fjallið eina, Heiðin há, Helgrindur, Ljósufjöll — eru meðal þeirra örnefna, sem hressa hugann, gefa umhverfinu aukið gildi.

Þyrill

Þyrill.

Innarlega við Hvalfjörð hefst Þyrill með háu, klofnu blágrýtisenni og þyrlar vindum við fjarðarbotn. Hann horfir sem egypzkur sfinx yfir Geirshólm og Geirstanga, Harðarhæð, Helguhól, Kötlugróf og Önundarhól, en er sjálfur markaður Helguskor (Helguskarð í Harðar sögu) og Indriðastíg. Þessi örnefni og mörg önnur í nágrenninu kröfðust sögu, og Harðar saga Grímkelssonar varð til, spunnin úr þráðum fornra nafngifta, farandsagna, hugmyndaflugs og virkilegra atburða. Hólmurinn mun draga nafn af lögun sinni, er geirlaga, og hefur söguhetjan sennilega hlotið nafn af hólminum.

Geirshólmi

Geirshólmi.

Árið 1238 berjast þeir Sturla Sighvatsson og Gissur Þorvaldsson um yfirráð á Íslandi. Um hásumarskeið sendi Sturla nær flesta fylgdarmenn sína til Hvalfjarðar, og fóru þeir út í Geirshólma, drógu þar að föng og öfluðu heldur með harðindum til. Gissur treystist ekki að reka ræningjana úr vígi þeirra í firðinum. Síðar um sumarið bar fundum þeirra saman á Örlygsstöðum í Skagafirði. Þar felldi Gissur Sturlu og marga aðra Sturlunga. Tiltektir Sturlu í Geirshólma hafa eflaust orkað á höfund Harðar sögu, er hann lýsir framferði Hólmverja. Sagan sýnir glöggt, hvernig örnefni hafa stuðlað að því, að sagnir geymdust og sögur urðu til.

Þjóðerni og örnefni

Flekkudalur

Flekkudalur.

Landnáma hermir, að Ingólfur landnámsmaður hafi komið frá Dalsfirði í Noregi. Þótt við ættum enga Landnámabók, þá væri auðvelt að grafast fyrir um uppruna frumbyggja hins forna Kjalarnessþings. Í Dalsfirði í Noregi getur að finna bæi, sem bera nöfnin Kleppsvík, Eiðisvík og Flekkudalur. Þá eru einnig á þeim slóðum Vestur-Noregs staðir, sem bera nöfnin: Akurey, Engey, Esjuberg, Gullbringa, Hengill, Kaldá, Kjós, Kléberg, Kollafjörður, Skeggjastaðir, Tröllafoss, Viðey og Vífilsstaðir. Það er auðvitað ekki einber tilviljun, að öll þessi örnefni og fjöldi annarra eru vel þekkt bæði í landnámi Ingólfs og fjörðum í Noregi.
Sogn heita bæir í Kjós og Ölfusi, en þeir, sem reistu þá í árdaga, hafa eflaust verið frá Sogni í Noregi. Fólk frá Gaulum hefur reist Gaulverjabæ, frá Vors Vorsabæina, en þrír bæir eru með því nafni í Árnesþingi og einn í Rangárþingi. Í Noregi finnast flest íslenzk árheiti, m.a. eru tvær Rangár norður í Naumdælafylki, en þaðan á Ketill hængur að hafa komið og nam Rangárvellina. Nafnið mun merkja þverá, þ.e. vatnsfall, er fellur í annað fljót.

Kaldá

Kaldá.

Ekki komu allir landnámsmenn frá Noregi, eins og kunnugt er. Allmargir þeirra höfðu talsverð kynni af öðrum þjóðum, einkum brezkum, áður en þeir héldu til Íslands, og með þeim var allmargt af írsku og skozku þjónustufólki og þrælum. Norrænir menn setjast að á skozku eyjunum á 9. öld, einkum síðari hluta aldarinnar, og útrýma að talsverðu leyti því fólki, sem fyrir var.

Kirkjuból

Tóftir Kirkjubóls á Suðurnesjum.

Þeir voru nafnglaðir mjög og skírðu hóla, læki, vötn og víkur og önnur kennileiti eftir fornum fyrirmyndum heima í Skandinavíu. Þannig er allur meginþorri örnefna á Hjaltlandi (um 99%) og Orkneyjum af norrænni rót, en hafa mörg gengizt mjög í munni: Kirkabister, Kirkjubólstaður; Stoura Clett, Stóri klettur; Kirkwall, Kirkjuvogur; Aithness, Eiðsnes o.s.frv. Norrænar nafngiftir ná um Suðureyjar og Katanes á Skotlandi (Caithness) og víkingabyggðir Englands, en gætir því minna sem sunnar dregur og norrænt landnám varð fámennara í hlutfalli við fólk það, sem fyrir var í landinu. Þá eru ýmsar skemmtilegar samsvaranir milli staðanafna á Íslandi og Suðureyjum.

Hekla

Hekla.

Hermann Pálsson, sem er Íslendinga kunnugastur um eyjarnar, segir þar þrjú fjöll með heitinu Hekla. Hvorki munu þau búin hökli úr ís né öðru, sem til klæða má líkja, og verður þar með vafasöm sú forna skýring, að nafnið Hekla sömu merkingar og kápa. Um Steinunni gömlu, frændkonu Ingólfs landnámsmanns, segir, að hún galt honum „heklu flekkótta, enska“, fyrir Rosmhvalanes allt utan Hvassahrauns, og munu það ódýrust jarðakaup á Íslandi.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreindar skálatóftir á hól.

Það er ekki nýtt af nálinni, að Reykvíkingar afli sér stássklæða af Bretlandi, og enn fást þar heklur góðar. Fjallsnafnið Hekla mun sennilega dregið af útliti fjallsins, eins og algengt er um fjallanöfn (Skjaldbreiður, Hlöðufell, Tindafjöll o.s.frv.). Af sömu rót og orðið Hekla eru orð eins og hak og hækill, og hefur Hermann tjáð mér, að tindar eða hök hreyki sér á hinum suðureysku Heklum, og hefur slíkur tindur trjónað á Heklu að fornu, en fjaUið breytzt að útliti í hverju gosi. Og það kennir fleiri „íslenzkra“ fjallagrasa á Suðureyjum. Í Ljóðhúsum (Lewis) eru m.a. Grænafjall og Esjufjall, og þaðan er skammt í Kjósina eins og í landnámi Ingólfs. Þá er þar Laxá og Vatnslausa, en ókunnugt er mér um Vatnsleysuströndina þar um slóðir.

Leirvogur

Leirvogur (MWL).

„Flestar víkur og vogar bera norræn heiti: Breiðvik, Mjóvík, Miðvík, Sandvík, Leirvogur, Þaravogur o.s.frv.“ (Hermann). Þá heita hinar smærri eyjar norrænum nöfnum: Papey, Bjarnarey, Grímsey, Hvalsey, Vaðlaey, Örfirisey, og fleiri norræn og „íslenzk“ örnefni telur Hermann Pálsson á Suðureyjum í bókinni Söngvar frá Suðureyjum, sem Norðri gaf út 1955. Samsvörun staðanafna í Ljóðhúsum og Kjósarsýslu mun þannig til komin, að landnámsmenn komu hingað þaðan að sunnan, eins og Landnáma greinir, og fluttu örnefnin með sér, en upphaflega eru þau ættuð frá Noregi. Helgi bjólan, sonur Ketils flatnefs Suðureyjajarls, nam land að Hofi á Kjalarnesi, en Örlygur gamli, fóstursonur Patreks helga, biskups í Suðureyjum, reisti fyrstur bú að Esjubergi. Þá nam Svartkell af Katanesi (Caithness) á Skotlandi Kjósina utanverða og bjó á Kiðafelli og síðar Eyri, en Katanes er handan fjarðar, og Kalman hinn suðureyski dvaldist um skeið við Hvalfjörð á leið sinni að Kalmanstungu. Hér eins og víðar styðja örnefnin frásagnir Landnámu af upphafi Íslandsbyggðar.

Esjan og œttir fjalla

Esja

Esja – örnefni.

Flestir Íslendingar þekkja Esjuna, öldung reykvísks fjallahrings. Hún er hlaðin meira en til hálfs úr blýgrýtishraunlögum frá fyrra hluta tertíera tímans eða a.m.k. 50 milljón ára gömlum. Efst í fjallinu eru svonefnd gráu lög úr ljósara blágrýti en önnur berglög í hlíðum þess, en undir þeim eru jökulurðir. Helgi Péturss taldi lög þessi til orðin á jökultíma, en verið getur, að þau séu nokkru eldri.

Þingvellir

Misgengi á Þingvöllum.

Einhvern tíma á tertíaröld gerðust þau undur, að Ísland rifnaði um þvert frá norðri og norðaustri til suðurs, gríðarlegar sprungur grófust í blágrýtisberggrunn landsins, og miðbik þess seig um hundruð og þúsundir metra ofan í jörðina. Mikil sprunga les sig norður eftir botni Atlantshafs, en hér gekk hún á land og umturnaði meistaraverkum skaparans. Hin hrapandi fold reyndi að bæta sér upp niðurlæginguna með eldgosum og hamagangi og tókst það viða, sigdalurinn um miðbik landsins fylltist gosefnum, varð jafnvel meira en barmafullur, en hér syðra og norður í Bárðardal hafði eldgangurinn ekki við. Mosfellsheiðin gerði talsverða tilraun til þess að hækka landið, og frá henni mun nokkur hluti Reykjavíkurgrágrýtisins runninn, en hvorki hún né Mosfellið, sem einnig er fornt eldfjall, en miklu yngra, gátu hreykt sér svo að dygði. Esjan stóð eftir á sprungubarmi og vesturhlíðar Bárðardals norður í Þingeyjarsýslu.

Esja

Esjan.

Örnefnið Esja er allsérkennilegt og rauninni engrar merkingar í íslenzku máli. „Það er aðeins nafn“, eins og Englendingar segja, þegar þeir eru inntir eftir merkingu fornra örnefna í landi sínu. Slík torskilin örnefni hafa Íslendingar löngum talið ættuð sunnan af Írlandi. Þau hafa rumskað við ímyndunarafli manna, orðið markorð, sem kröfðust andsvars, jafnvel heillar sögu.

Kistufell

Kistufell.

Í þjóðtrúnni hefur nafnið Esja orðið að heiti á auðugri ekkju, sem kemur sunnan af Írlandi og lendir skipi sínu í Leiruvogi ásamt þeim Andríði og Kolla. Landnáma greinir m.a. frá því, að Örlygur gamli nam land að Esjubergi. Sú saga hefur verið of kunn, til þess að fram hjá henni yrði gengið og unnt væri að gera Esju að landnámskonu. Þjóðsagan tók því það ráð að losa Örlyg við lítt kunna afkomendur sina og láta hann á gamalsaldri gefa Esju upp land og bú. Þannig komst hún að Esjubergi. Andríður ruddi braut gegnum skógana og bjó að Brautarholti, en Andríðsey liggur fyrir landi, og þar á Andríður að vera heygður. Sonur hans var Búi, sá er Esja fóstraði, en fjall fyrir ofan bæinn á Esjubergi heitir Búi. Kolli hóf búskap í Kollafirði, Þormóður í Þormóðsdal, Eilífur í Eilífsdal, Korpúlfur á Korpúlfsstöðum o.s.frv. Þarna var fenginn kveikurinn í Kjalnesinga sögu. Vinnukonur sínar sóttu Kjalnesingar fornu þó ekki út í Þerney, því að þeir vissu betur en mörg okkar um uppruna nafnsins. Það er dregið af fornu heiti á fugli þeim, sem við nefnum kríu, en hét áður þerna á íslenzku og ber nafnið „terne“ á dönsku enn í dag. Kjalnesinga saga er ofin úr þráðum örnefna og farandsagna fólki til skemmtunar og á lítið skylt við sagnfræði. Sama er að segja um Harðar sögu og Hólmverja og Bárðar sögu Snæfellsáss.

Esja

Esja.

Nafnið Andríður er ókunnugt annars staðar en í örnefninu Andríðsey, þekkist hvorki í Noregi né á Íslandi, svo að mér sé kunnugt. Það merkir andstæðingur, sá sem er manni andsnúinn, fer gegn manni. Verið getur, að þræll eða leysingi hafi hlotið eyjuna sér til framdráttar.

Kollafjarðargrjót

Kollafjarðargrjót.

Nafn Kollafjarðar er erfiðara viðfangs. Fyrri liður virðist ef. et. eða fl. af mannsnafninu Kolli eða ef. ft. af Kolur. Nöfn þessi merkja sköllóttur og kollóttur og voru m.a. notuð um krúnurakaða munka á miðöldum. Þetta virðast hafa verið allalgeng mannanöfn bæði í Noregi og hér á landi á víkingaöld og getur oft í bæjanöfnum. Austan hafsins þekkjast: Kollaland, Kollaruð, Kollastaðir, Kollasetr o. s. frv., en hér heima koma nöfnin m.a. fram í bæjarheitunum: Kollabær, Kollabúðir, Kollagata og Kollsá.

Kollafjörður

Kollafjörður (MWL).

Það verður því að teljast líklegt, að firðir, sem svo heita, séu annað hvort kenndir við menn, sem hétu Kollur eða Kolli, eða nafnið sé aðflutt frá Noregi eða skozku eyjunum. Það getur varla verið dregið af nafnorðinu kolla, sem notað er um margskonar kvendýr, sbr. æðarkolla, söðulkolla, af því að þá ætti nafn fjarðanna að vera Kollnafjörður eða Kollufjörður, en kollu-örnefni eru mörg hér á landi: Kolludalur, Kollugil, Kolluhóll o.s.frv.
Korpúlfsstaðir, einnig nefndir Kortólfsstaðir, eiga að vera kenndir við einhvern Korpúlf. Korpur er hrafnsheiti, og kemur það nafn fram í heimildum á 13. öld. Korpúlfur merkir því hrafn-úlfur, en það nafn kemur vitanlega hvorki fram hér né í Noregi nema í bæjarnafninu í Mosfellssveitinni. Ýmsar gerðir af nafninu birtast í heimildum, en sjálfsagt mun sú upphaflegust, sem birtist í Kjalnesingasögu. Korpúlfsstaðir voru meðaljörð, 20 hundruð að fornu riti, og sennilega til hennar stofnað á 10. öld.

Esja

Andríðsey

Andríðsey.

Þegar leita skal hér skýringar á torræðum örnefnum, þá er ráðlegast að svipast um í nágrannalöndunum austan hafsins, fornum heimkynnum landnámsmannanna. Sá hefur löngum verið siður útflytjenda að hafa á braut með sér örnefnaskrár fornra átthaga og nefna kennileiti í nýbyggðum, eftir því sem þeir áttu að venjast áður.

Esja

Esja.

Þannig fóru Engilsaxar að, er þeir fluttust til Englands frá Norður-Þýzkalandi endur fyrir löngu, Englendingar, er þeir námu Norður-Ameríku og Ástralíu, norrænir víkingar, er þeir námu Ísland, Íslendingar, er þeir námu Grænland og Ísendingabyggðir Kanada eða fluttust úr sveitum í kaupstaði, svo að dæmi séu nefnd. Þótt við Íslendingar eigum allglöggar ritaðar heimildir um uppruna þjóðarinnar, þá er okkur ómaksins vert að leita víðar fanga til sögu okkar.
Nálæg Balestrand í Sogni, frægum ferðamannastað, er lítill fjörður er nefnist Esefjord. Þar upp af stendur fjallið Esefjell og Esebotten (Seterhytte, forn selstaða), en bærinn Ese stendur þar einnig við fjörðinn. Svo segir Árni G. Eylands, sem er Íslendinga kunnugastur í Noregi, að í daglegu tali nefnist sú jörð Ese-gardene, af því að fornar bújarðir í Noregi skiptist nú yfirleitt í mörg býli.

Kjalarnes

Útialtari við Esjuberg – minnismerki um hina fyrstu kirkju á Íslandi.

Fleiri Esju-nöfn má finna í Noregi og á hinu forna norræna menningarsvæði. Þannig stendur bærinn Esjuberg á vesturströnd landsins, en esjuberg er norskt nafn á tálgusteini, ljósu klébergi. Þessi bergtegund var notuð að fornu til margra hluta, m.a. voru gerðar úr henni grýtur og ausur, og einnig notuð í afl í smiðjum.

Esja

Esja.

Á sænsku er til orðið assja, þ.e. smiðja, afl, — í málýzkum verður það eisa, á norsku esja, sem er sama orðið og eisa, er merkir kulnandi glóð á íslenzku. — Í Nedenesamti í Noregi stendur bærinn Hesnes neðra og efra, (Bygh 8, Fjærre Herred, bls. 1199). Talið er, að þar sé um Esjunes að ræða, sem um getur í Fornmannasögum 8, IX, 17 og 505, en í nágrenni bæjanna eru tálgusteinsnámur (klæbersten). Það mun því fullvíst, að nafnið Esja sé norskrar ættar eins og gríðarmörg önnur örnefni hér á landi. Þannig mun fjallið við Esjufjörðinn norska hafa upphaflega borið nafnið Esja, eins og bæjarnafnið ber með sér, en síðar hefur fjalli verið bætt aftan við örnefninu til lítiUar prýði. Þar með er ekki sagt, að formóður Esjunnar okkar sé að leita í Sogni í Noregi; hún getur allt eins staðið á skozku eyjunum, eins og áður segir.

Kléberg

Kléberg úr Esjunni.

Það er þó líklegt, að Esjunni kippi á einhvern hátt í kyn til forfeðra sinna austan hafsins, en ættfræði fjalla hefur aldrei verið stunduð hér á landi. Íslendingar hafa löngum hamazt við að rekja ættartölur manna, hrossa, nauta og sauða, en hundar og fjöll hafa setið á hakanum hjá íslenzkum ættfræðingum af lítt skiljanlegum ástæðum.

Snældusnúður

Snældusnúður úr Esju.

Fjöll eru auðvitað misjafnlega ættgöfug og ættmörg. Einna sterkust eða fjölfjölluðust fjallaætt hér á landi er Búrfell, Búrfellsættin, sem síðar verður vikið að. Það er eins konar Reykjahlíðavætt meðal fjalla vorra, en hún mun sunnlenzk að uppruna. Esjan er hins vegar einstaklingur, sem á sér enga frændur hérlenda mér vitanlega nema uppi á VatnajöklL Þar eru Esjufjöll, en aldur þeirrar nafngiftar er mér ókunnur. Esjutjarnar hjá Þrándarstöðum undir Jökli er getið í Víglundarsögu, sem telst frá 14. öld. Nú nefnist hún Æsutjörn, en Æsuberg er suður á Reykjanes. Ekki er mér kunnugt um kléberg eða tálgutein á þeim slóðum.
Esjan og Esjufjöllin munu sennlega draga nafn af ljósu litartrafi, sem minnt hefur nafngefendur á hið ljósa esjuberg handan Atlantshafsins.

Átrúnaður

Hof

Hof á Kjalarnesi – túnakort 1916.

Hof og helgistaðir: Um allt land er fjöldi örnefna, sem minnir á fornan og nýjan átrúnað. Við upphaf landsbyggðar kenndu menn staði við Krist og Þór, kirkjur og hof. Allir kannast við bæi, sem heita Hof, Hofstaðir, Hoffell, Hofgarðar, Hofteigur, en hér þekkjast 44 bæir með slíkum nöfnum. Talið er að þar hafi staðið heiðin musteri að fornu, en erfitt hefur reynzt að finna þeim fullyrðingum stað með fornleifagreftri. Engar óumdeilanlegar hofrústir hafa fundizt enn sem komið er á hinu norræna menningarsvæði nema helzt í Uppsölum í Svíþjóð. Þar greina fornar heimildir, að verið hafi mikill helgi- og blótstaður í heiðnum sið, og hafa menn þótzt finna þar minjar um fornt musteri. Mjög hefur þá greint á um það, hvernig hofið hefur litið út og hve stórt það hefur verið. Síðastliðið vor kom út doktorsritgerð í Danmörku:

Önnur grein

Hof

Hof í Öræfum.

Hörg, Hof, Kirke — eftir Olaf Olsen fornleifafræðing. Engar örugga heimildir finnast fyrir því, að ásatrúarmenn hafi nokkurs staðar reist guðum sínum stórhýsi. Þeir blótuðu þá úti, færðu þeim fórnir í helgum lundum eða á öðrum blótstöðum, hörgum, og hafa eflaust stundum reist þar býli fyrir guðamyndir og áhöld, sem lutu að dýrkun goðanna. Örnefnið hörgur gefur til kynna, að þar hafi verið helgistaður í heiðni. Þannig munu örnefnin Hörghóll, Hörgsdalur, Hörgshlíð, Hörgaeyri, Hörgsland oð Hörgsholt — vitna um forna blótstaði, og er hugsanlegt, að þar hafi sums staðar verið skýli eða smáhýsi tengd heiðindómi, en minjar um slíkt hús töldu menn sig finna í Hörgsdal í Mývatnssveit. Hof-nöfnin gefa einnig til kynna, að þar hafi verið fornir helgistaðir, menn fært guðunum fórnir á ákveðnum árstímum og jafnframt slegið upp blótveizlum eftir helgi samkomur.

Hofsstaðir

Hofsstaðir í Garðabæ.

Þannig munu ýmsir höfðingjar hafa reist sér allmikla veizluskála, og teljast rústir skálans á Hofstöðum við Mývatn öruggastar minjar slíkrar byggingar. Þessir skálar hafa ekki verið musteri í sjálfu sér, heldur bæjarhús, sem notuð voru m.a. til helgihalds. í einni gerð Landnámu segir, að „Hof í Vatnsdal og Hof á Kjalarnesi hafa hér á landi stærst verið, einkum stórt hundrað fóta á lengd; það syðra var 60 fóta breitt. Kór eða goðastúka var hjá hverju hofi; þar voru í goðin.“

Jólavallagarður

Jólavallagarður við Skálholt.

Nú er vant að segja, hve forn þessi vísdómur er, en víst mun hann ekki hafa staðið í frumgerðum Landnámu, heldur vera síðar til kominn. Það mun allöruggt, að engin hús hafi verið reist 60 feta breið að fornu; svo miklar voru ekki einu sinni dómkirkjurnar á Hólum og í Skálholti. Allt um það hafa a.m.k. margir Hof-bæir veríð helgistaðír að fornu; þar hafa menn blótað goðin, en ekkert sjáanlegt samband virðist hafa verið milli goðadýrkunar og þingaskipanarinnar. Vorþingstaðir liggja yfirleitt víðsfjarri „hofgörðum“, og standa goðanna í samfélaginu breyttist lítið við kristnitökuna.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – blótsteinn.

Ari fróði segir þó, að Grímur geitskór hafi lagt til hof það fé, sem honum var greitt fyrir starf sitt að stofnun alþingis á Þingvelli; hann virðist m.ö.o. gera ráð fyrir, að þá hafi einhverri heildarskipan verið komið á goðadýrkunina, hofin hafa verið stofnanir a.m.k. á síðasta skeiði heiðninnar.
Hér er um meira vandamál að ræða en marga hefur gunað. Hjalli utan í Vörðufelli heitir Hofin. Þar á hof að hafa staðið að fornu. Í Efra-Langholti í Ytrihrepp nefnist partur í túni á Hofum, og stóðu þar fjárhús. Einungis rækilegur fornminjagröftur getur greitt úr vandamálinu. Hof virðist að fornu einkum hafa merkt búgarð, og er sú merking enn drottnandi í þýzku, sbr. Bauernhof. Á „Hofgörðum“ voru víða helgistaðir. Af þeim sökum mun heitið hafa komizt inn í þýðingar rita sem heiti á heiðnu musteri, en þar með er ekki sagt, að ásatrúarmenn hafi reist guðum sínum slíkar byggingar.

Goð- og Grímsnöfn

Grímshóll

Grímshóll framundan.

Í einstökum goðum var Þór tignaður almennast hér á landi, enda eru allmargir staðir við hann kenndir. Margir hafa gist Þórsmörk á síðustu árum, Þórshöfn er norður á Langanesi og önnur á Miðnesi suður, Þórsnes er á Snæfellsnesi og tangi á Viðey við Reykjavík heitir svo, og margir aðrir staðir eru kenndir við þennan ástsæla guð. Njörður átti Njarðvíkur við Vogastapa og Borgarfjörð eystra, Baldri var helgaður Baldursheimur víð Mývatn og í Eyjafirði og Freysnes er á Héraði austur. Óðinsnafnið er óþekkt í íslenzkum örnefnum, en Óðinn naut mikillar virðingar í Danmörku og átti þar m. a. borgina Óðinsvé (Odense). Hér bar guðinn ýmis heiti, og er hugsanlegt, að einhver þeirra séu bundin í örnefnum.

Grímshóll

Á Grímshól.

Við Mosfellsdal er Grímarsfell eða Grímsféll, – en Grímshóll heitir hæsta bunga Vogastapa. Gríms-örnefni eru gríðarlega mörg hér á landi: Grímseyjar eru tvær, Grímsár margar, Grímsvötn Grímsnes, Grímstunga o.s.frv. Ýmsum þessum örnefnum eru tengdar sagnir um menn, sem báru nafnið Grímur, en önnur eiga sér enga slíka nafnfesti.

Eiríksjökull

Eiríksjökull 2008.

Einar, Eiríkur og Sigurður voru engu fátíðari nöfn en Grímur, en þeirra verður þó lítt vart í örnefnum, nema nokkrir staðir eru kenndir við Eirík rauða, og Eiríksjökull mun ekki ýkja fornt örnefni á jökli þeim, sem Grettis saga nefnir Balljökul. Gríms-nöfnin vekja því nokkrar grunsemdir. Það er ótrúlegt, að menn að nafni Grímur hafi verið svo umfram þá, sem báru önnur algeng nöfn, að af þeim sökum skarti nafn þeirra margfalt oftar á landabréfum. Grímur var ekki einungis mannsnafn, heldur einnig Óðinsheiti“ og að auki dverga, orma, hafra, og þess eru nokkur dæmi í fornsögum, að Grímur er dulnefni. Í norskri þjóðtrú er til vættur, sem nefnist grím (með löngu íi), oftast fossegrim, en er þó til sem fjalla-vættur (Harðangur). Í Danmörku var til vatnavættur, limgrim, og landvættur sem kallaðist kirkegrim. Þess verður einnig vart í íslenzkum þjóðsögum, að vættur heiti Grímur“ (Bjarni Einarsson: Munnmælasögur 17. aldar, cxlviii). Svo sagði Þorsteinn galdraprestur á Setbergi við Hafnarfjörð á 17. öld, að tveir menn gengu eitt sinn til sauða sinna, en heyrðu þá sagt ógnarlegri röddu; „Þektu, Grímur, fjallásana í skyndi“. Eljagrímur er heiti á éljagangi, snjóhryssingsveðri og gefur sennilega til kynna, að Grímur hafi ekki verið nein hollvættur í þjónustu veðurguðanna.

Grímannsfell

Grímannsfell.

Það er lenzka í Mosfellssveit að nefna fellið Grímansfell eða jafnvel Grimmansfell. Í sóknarlýsingum 19. aldar er nafnið jafnan ritað Grímansfell, en þar er Úlfarsfell einnig nefnt Ulfmansfell. Hins vegar stendur skýrum stöfum í Jarðabók Arna Magnússonar frá 1704, að Mosfell eigi selstöðu „undir Grímarsfelli“. Það skiptir minna máli, að Seltirningar segja í sömu bók, að Nes við Seltjörn eigi selstöðu undir Grímafelli. Grímar er fágætt nafn að fornu.

Skúlatún

Skúlatún og Skúlatúnshraun. Helgafell fjær.

Sá trúnaður, að menn dæju í fjöll eða hóla, hefir verið all almennur hér að fornu. Hyammverjar trúðu, að þeir dæju í Krosshóla hjá Hvammi, frændur Sel-Þóris í Þórisbjörg og víðar í rituðum heimildum eru sagnir um slíkan átrúnað. Hér á landi eru að minnsta kosti átta Helgafell. Kunnust eru Helgafellin á Snæfellsnesi, við Mosfellsdal, suðaustur af Hafnarfirði og í Vestmannaeyjum. Sennilega eru þau öll tengd hinum forna átrúnaði sem um getur í Eyrbyggju. Það er því líklegt að Ingólfur og ætt hans hafi ætlað sér bústað í Helgafelli undan Lönguhlíðum eftir dauðann.
Örnefni benda eindregið til þess, að
menn hafi verið vel heiðnir að fornu um Innnesin, eins og vera ber. Þar eru tvö heilög fell, Þórsnes, Hof og Hofstaðir en auk þess Tröllafoss og undarlega margir staðir kenndir við menn, eins og Grímarsfell, Úlfarsfell, Vífilsfell og fjöldi bæja og annarra staða. Það verður að teljast líklegt, að þeir Úlfar og Vífill hafi haft svipaðan átrúnað og Sel-Þórisniðjar og Hvammverjar forðum. Fjöll og fell, sem að fornu hlutu mannsnöfn eða voru kennd við einstaka menn, munu flest hafa verið tengd einhverri helgi í heiðnum sið: Ásmundarnúpur, Geirólfsgnúpur, Jörundarfell, Spákonufell og Þorbjörn.
Helgi bjóla á Hofi á Kjalarnesi kom frá Suðureyjum, en Vilbaldur Dufþaksson af Írlandi nam Búland í Skaftafellssýslu, og hét einn sonur hans Bjólan, en það telst sama og írska nafnið Beólán. Sennilega er of langsótt að tengja bæjarnafnið írskri nafngift.

Þvottahellir

Þvottahellir í Botnsdal.

Víða eru Ullar-nöfn hér á landi, en sum þeirra munu eflaust dregin af ull. Það eru einkum staðir við ár, þar sem ull hefur verið þvegin og breidd til þerris eftir þvott. Þannig eru Ullarbrekkur hjá Varmá í Mosfellssveit og Ullarhóll hjá Neðra-Hálsi í Kjós.

Búahellir

Búahellir?

Búi heitir fellið, sem gengur út úr Esjunni upp af Esjubergi. Búi er samstofna við orðið bóndi og búandi. Mér er ókunnugt um þetta orð sem örnefni annars staðar nema í samsetningu: Bústaðir er bær í Reykjavík og Vopnafirði og Einbúi er algengt nafn á einstökum hólum. — Í Noregi bera margir bæir nafnið Buen, en þar er það yfirleitt talið merkja búð, samanber verbúð og búðseta. Í miðaldaheimildum er nokkrum sinnum getið manna, sem bera á Norðurlöndum nafnið Búi, en aldrei hefur það verið algengt mannsnafn.
Það mun sæmilega öruggt, að Búi Andríðsson, sem um getur í Kjalnesingasögu, sé þjóðsagnapersóna eins og ástmær hans, Fríður Dofradóttir úr Dofrafjöllum í Noregi. Það er líklegt, að fjallið Búi sé kennt við vætti, — verndarvættur þeirra á Esjubergi hafi búið í fjallinu. Dísa- og landvættatrú Íslendinga að fornu þarfnast nánari rannsókna en unnar hafa verið hingað til. Slík rannsókn gæti leitt í ljós, hvort telja beri Búa til landvætta. — Þess ber að gæta, að orðið landbúi er einnig til að fornu í merkingunni búandi og leiguliði.“

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 39. tbl. 06.11.1966, Björn Þorsteinsson, Blaðað í örnefnaskrá, bls. 4 og 12-13.
-Lesbók Morgunblaðsins, 40. tbl. 13.11.1966, Björn Þorsteinsson, Blaðað í örnefnaskrá, bls. 4 og 13.

Esja

Esjan.

Þorvaldur Thoroddesn

Í „Landfræðisögu Íslands“  er fjallað um „Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun þess og rannsóknir, fyrr og síðar“; Höfndurinn  er Þorvaldur Thoroddsen. Í ritinu eru m.a. skýrðar „Frásagnir  fyrrum um landnám Íslands„.

Sagnir um Thule

Þorvaldur Thoroddsen

Rit Þorvaldar.

Ekki eru neinar líkur til þess, að mannabyggð hafi verið á Íslandi, fyrr en Írar komu hingað á 8. öld; ekki hafa hér fundizt nein mannvirki eða menjar frá eldri tunum. Um allt meginland Evrópu og Ameríku hafa fundizt leifar eptir steinaldaþjóðir á mjög lágu menningarstigi, og rannsóknir vísindanna benda til þess að villi þjóðir hafi búið í Norðurálfunni þegar á ísöldinni eða jafnvel áður. Ísland hefir eflaust verið orðið frálaust frá öðrum löndum, löngu fyrr en Norðurálfan byggðist af mennskum mönnum, og þjóðflokkar þeir, sem lifað hafa á steinöldinni og löngu seinna, voru eigi svo langt komnir að þeir hefðu skip, sem gæti þolað stórsjói í úthöfum; smábátar illa gerðir komust að eins fram með ströndum og hættu sér ekki út ár úmsjó; jafnvel Fönikíumenn þorðu ekki lengi fram eptir að sigla svo langt á haf út, að þeir misstu sjónar á landinu. Kartverjar, Grikkir og Rómverjar áttu seinna mikil hafskip og fóru langar sjóferðir; en starfsvið þeirra lá miklu sunnar, og var því ekki undarlegt, þó þeir ekki þekktu jafn fjarlægt land eins og Ísland er, en Norðurlandabúar hafa á þeim dögum eigi verið orðnir þeir sjógarpar, sem þeir seinna urðu.

Thule

Thule og vestur Evrópa – fornt kort.

Mikið hefir verið ritað og rætt um það, hvort fornþjóðirnar suðrænu hafi þekkt Ísland eða ekki; en allar rannsóknir fræðimanna virðast benda til þess, að hvorki Grikkir né Rómverjar hafi þekkt Ísland; að minnsta kosti er engin söguleg vissa fyrir því. Sumir hafa haldið, að nafnið Thule, sem svo opt kemur fyrir í fornum bókum, eigi við Ísland, en það er mjög ólíklegt, að svo sé; allur þorri rómverskra rithöfunda hefir alls ekki vitað með vissu, hvað þeir sjálfir meintu með þessu nafni, en hafa nefnt svo ýms lönd, sem voru þeim ókunn langt í norðri.

Þorvaldur Thoroddsen

Ritsafn Þorvaldar.

Ég ætla þó hér að fara nokkrum orðum um þetta efni, af því svo margir hafa fengizt við það, og margir hafa haldið þeirri skoðun fram, jafnvel fram á vora daga, að Thule væri Ísland.
Hinn gríski landfræðingur Strabó getur í landafræði sinni um Thule, en tekir það þó óvíst, hvar það land sé og hvernig því sé háttað. (Strabó fæddist í Amaseia við Pontus um 63 árum f. Kr., fór til Rómaborgar árið 29 f, Kr., og dó þar gamall, líklega á dögum Tiberíusar keisara.) Strabó ber annan mann fyrir öllu því, sem hann segir um Thule; þessi maður var Pyþeas frá Massilíu; hann var uppi á dögum Alexanders hins mikla. Massilía var grísk borg á Frakklandsströndu, þar sem nú heitir Marseille; það var mikil borg og auðug og rak verzlun víða um strendur Miðjarðarhafsins.

Thule

Thule.

Fönikíumenn og Kartverjar stofnuðu snemma á öldum nýlendur hér og hvar fram með Miðjarðarhafinu og áttu verzlun við þarlendar þjóðir; fóru þeir verzlunarferðir með ströndum fram langt norður eptir; þeir sóttu silfur til Spánar, tin til Bretlands og raf norðan úr Eystrasalti. Raf notuðu þeir til skrauts, en tin var í þá daga mjög nauðsynlegur málmur, því það var notað í eirblending, sem menn gerðu úr vopn og verkfæri. Fönikíumenn leyndu landafundum sínum, og því vita hinir elztu fræðimenn Grikkja því nær ekkert um lönd og höf fyrir vestan og norðan Njörvasund; Heródót nefnir að eins Tineyjar, Kassiterides; svo óljós er hin fyrsta hugmynd um Bretland.

Thule

Thule.

Grikkir fóru snemma að keppa við Kartverja og leita norður með ströndum, og hafa líklega komizt allt norður í Eystrasalt; gamlir grískir peningar (frá 5. og 6. öld f. Kr.) hafa fundizt þar sumstaðar í jörðu, og bendir það á mjög fornar samgöngur milli landanna. Massilía byggðist 600 árum fyrir Krists burð, og varð snemma forkólfur grískrar verzlunar og nýlendustofnana þar vestra; þaðan byggðust nýlendur með ströndum Frakklands og Spánar. Í Massilíu blómgvuðust listir og vísindi langt fram eptir öldum, að því er rómverskir rithöfundar segja.

Thule

Thule?

Lítið vita menn um norðurferðir Fönikíumanna og Grikkja, því í þá daga var leturgjörð fátíð, enda eru mörg af hinum eldri ritum fyrir löngu týnd. Pyþeas sá, sem fyrr var getið, fór langferðir norður til Bretlauds, til Thule og með ströndum Evrópu til Raf-landsins, sem líklega hefir verið við Eystrasalt; Pyþeas hefir líklega verið á ferðum einhvern tíma á árunum 330—20; hann ritaði bækur um ferðir sínar og athuganir, en þær eru nú týndar. (Brotum úr ritum Pyþeasar hefir verið safnað saman, og þau gefin út í einni heild af Arwedson í Uppsölum 1824 og Schniekel í Merseburg 1848.)

Thule

Thule – fornt kort.

Fornir landfræðingar tóku ýmsa kafla úr ritura Pyþeasar í sínar bækur; það eru því allt sundurlausar smágrein[a]r, sem nú eru til, flestar umsnúnar og afvega færðar, og ekki gott að geta í eyðurnar.
Strabó og aðrir landfræðingar til forna lögðu ekki mikinn trúnað á ferðasögur Pyþeasar, en þó hæla þeir honum fyrir kunnáttu í mælingarfræði og stjörnulist. Pyþeas hefir verið mikill vísindamaður, eptir því sem þá gerðist. Það sést á ritbrotum þeim, sem eptir Pyþeas liggja, að hann hefir í mörgu skarað fram úr samtíðarmönnum sínum; hann ákvað stöðu himinspólsins, mældi sólarhæð með sólspjaldi og ákvað með því breiddarstig Massilíuborgar furðu vel og nákvæmlega. Pyþeas var hinn fyrsti, sem sýndi fram á, að flóð og fjara kæmu af áhrifum tunglsins; hann getur líka um flóðhæðina við Bretlandsstrendur, en gerir hana ofmikla; Grikkjum hefir þótt undarlegt, að sjá hinn mikla mismun á flóði og fjöru í úthafinu, af því þeir voru ekki vanir slíku í Miðjarðarhafinu.

Thule

Fornt heimskort.

Af köflunum úr ritum Pyþeasar, sem eru í landafræði Strabós, sést vel, að Pyþeas hefir haft vitneskju um norðlægari lönd en Grikkir almennt þekktu í þá daga, en ekki er allskostar gott að vita, hvernig hin upprunalega ferðasaga Pyþeasar hefir verið. Strabó hefir að ölum líkindum ekki sjálfur þekkt rit Pyþeasar, en fer eptir frásögn Polybíusar sagnaritara, svo að margt getur verið aflögu fært á svo langri leið, þegar hver segir frá með sínum eigin orðum. Ég set hér hið helzta, er Strabó segir um Thule, því rit hans er heimildarrit fyrir ótal eldri og yngri höfunda. Helztu kaflarnir eru þetta: »Pyþeas segir, að Thule sé sex daga sigling frá Bretlandi til norðurs, nálægt hinu frosna hafi«. (Strabonis Geographiica. Ed. C. Miiller et F. Dúbner. Parisiis 1853. 4to lib. I. c. 4. § 2.)

Thule

Thule fyrrum.

»Pyþeas kveðst hafa farið gangandi um allt Bretland, og segir hann, að ummál þessarar eyjar sé meira en 40 þúsund skeiðrúm: bætir hann auk þess við um Thule
og þá staði, að þar sé hvorki jörð né haf né lopt út af fyrir sig, en sambland af þessu öllu, líkt hafslunga; segir hann, að jörð, haf og allt sveimi í þessu eins og í lausu lopti, og það sé eins og fjötur, til þess að halda öllu saman; þar sé hvorki hægt að fara yfir gangandi né á skipi og segist hann sjálfur hafa séð, að það væri líkt lunga; en hitt segir hann eptir því, sem hann hefir heyrt.
Þetta segir Pyþeas, og bætir því við, að hann hafi þaðan farið aptur um strönd Európu frá Gades allt til Tanais.
Polybius segir, að einmitt það sé ótrúlegt, hvernig einstakur maður og fátækur skyldi geta farið svo mikla fjarlægð á sjó og landi«. (8. st, lib. II. c. 4, § 1-2.)

Thule

Ímynd Thule.

Þessa undarlegu frásögu hafa menn átt bágt með að skilja, og hafa haft alls konar getgátur um það, hvernig ætti að skilja orðið hafslunga í þessu sambandi; sumir hafa haldið, að Pyþeas hafi séð sjóinn fullan af marglyttum eðu öðrum líkum kvikindum, af því að orðið hefir þess konar merking hjá ýmsum fornum höfundum; sumir ætla, að hann hafi séð sjóinn vera að frjósa (S. Nilsson: Nagra Commentarier till Pytheas’ fragmenter om Thule. (Physiographiska Síillskapets tidskrift. Lund 1837—38 L, hls. 44—53).

Thule

Thule- forn kort.

Til forna höfðu menn langt niður eptir öldum mjög undarlegar hugmyndir um hið nyrzta haf á endimörkum jarðar og kölluðu það mare pigrum, m. concretuui, m. congelatum, m. coagu- latum o. fl., sbr. K. MiiUenhof: Deutsche Altertumskunde. Berlin 1870, L, bls. 410—426.) o. s. frv. Líklegast er hér verið að tala um einhvern hugsaðan óskapnað náttúrunnar, sem menn til forna ætluðu að væri á endimörkum jarðarinnar, þar sem allar höfuðskepnur rugluðust saman. Seinna segir Strabó enn frá Thule hér um bil á þessa leið: «Pyþeas frá Massilíu segir, að það sé yzt í heiminum, sem er í kringum Thule, sem er nyrzt af hinum brezku löndum; þar er sumarhvarfbaugur hinn sami og heimsskautsbaugur; hjá öðrum fæ eg ekki að vita, hvort Thule er ey, eða hvort allt þangað er byggilegt, þar sem sumarhvarfbaugur verður heimskautsbaugur; en eg ætla að norðurtakmörk hinnar byggðu jarðar séu miklu sunnar; þeir sem nú rannsaka, geta ekki til nefnt neitt hinu megin við Ierne (Írlind), sem liggur nærri Bretlandi til norðurs, og segja, að þar séu alvilltir menn, er búa illa sökum kulda; þar held eg því, að eigi að setja takmörkin«. (Strabó, 2, bók, 5. kap. § 8.)

Thule

Thule.

»Miklu óglöggari er frásögnin um Thule — sökum fjarlægðarinnar, því menn segja hún sé nyrzt af öllum löndum, sem nefnd eru; að Pyþeas hafi sagt það ósatt, er hann hefir sagt um Thule og aðra staði þar, er auðséð á því, að hann segir flest ósatt um þá staði, sem kunnugir eru, svo það er bert, eins og á undan er sagt, að hann hefir skrökvað meira um það, sem fjarlægara er; en hvað snertir stjörnufræði og tölvísi, þá mætti álíta, að honum eigi hafi farizt óheppilega, þar sem hann segir, að »þeir, sem nálægt kuldabeltinu búa, hafi sumpart alls enga ræktaða ávexti né alidýr, sumpart líði þeir skort á þessu, en að þeir lifi á hirse-korni og öðru kálmeti, ávöxtum og rótum; þar fæst korn og hunang og úr því gjöra þeir drykk, en kornið þreskja þeir í stórum húsum, þegar þeir hafa fært kornöxin þangað, með því að þeir hafa ekki bjarta sólskinsdaga, því láfagarðar verða þeim ónýtir sökum sólarleysis og rigninga«. (Strabó, 4. bók, 5. kap. § 5.)

Thule

Thule – forn kort.

Á þessari lýsingu er það auðséð, að ekki er átt við Ísland heldur, eru það einhver norðlæg lönd, en þó sunnar en Ísland, enda tekur Pyþeas það sjálfur fram að Thule sé ein af hinum brezku eyjum, og mundi hann varla hafa sagt það um jafn fjalægt land eins og Ísland er. Hirse-kornið, sem nefnt er, hefir líklega verið hafrar, og hunang notuðu bæði Keltar og Germanir mjög snemma til mjaðargerðar. Pyþeas hefir tekið eptir því, hvernig alidýr og ræktaðir ávextir hverfa, eptir því sem nær dregur kuldabeltinu. Öll lýsingin á einkarvel við. norðurhluta Skotlands og eyjarnar þar norður af; kornyrkja hefir þar allt af verið örðug viðfangs, þar eru sól- skinsdagar fáir, sífelld þoka og rigning og hráslagalegt loptslag.

Thule

Ímynd Thules fyrrum,

Grískir landfræðingar höfðu framan af sára litla þekkingu um norðurlönd; þekkingin jókst fyrst að nokkrum mun eptir að Rómaríki var orðið voldugt og víðlent. Fyrir daga Pyþeasar vissu grískir rithöfundar svo að segja ekkert um vestur- og norðurströnd Evrópu, og þó hafði þá mjög margt verið ritað um landafræði og sögu landanna við Miðjarðarhafið.

Thule

Thule og Skandinavia – fornt kort.

Herodót og aðrir af hinum elztu rithöfundum vissu eins og fyrr var getið ekkert um löndin fyrir utan og norðan Njörvasund, nema að þaðan kæmi tin og raf, og Aristoteles og samtíða menn hans austur á Grikklandi voru litlu fróðari. Eptir ferðir Pyþeasar er það auðséð á mörgum fornritum, að þekkingin er orðin töluvert meiri; nú þekkja menn Bretland og Írland og vita nokkurn veginn, hvernig legu og lögun þeirra landa er varið; menn vita nú, að jörðin er byggileg miklu lengra til norðurs en menn áður héldu, þekkja ýms sérstök nöfn á þjóðum, löndum og höfum, og vita hvaðan rafið kom. Af þessu sést, að ferð Pyþeasar hefir verið til mikilla framfara og þýðingarmikil í þekkingarsögu mannanna. Hinn mikli stjörnuspekingur og hindfræðingur Claiidius Ptolemœus, sem var uppi á miðri 2. öld eptir Kristsburð, nefnir Thule, og segir, að hún sé fyrir norðan Orkneyjar, og að þar sé lengstur dagur 20 stundir; Ptolemæus ákveður legu landanna með breiddar- og lengdarstigum, hann segir, að nyrzti hluti Thule sé á 63° 15′, miðhlutinn á 63°, syðsti hlutinn á 62° 40′.

Thule

Thule og Skandinavia – fornt kort.

Pomponíus Mela talar einnig um Thule; hann ritar hér um bil á þessa leið: (Pomponii Melae de situ orbis, libri III. Lipsiæ 1831. lib. 3., cap. 6. Pomponius Mela var uppi um miðja 1. öld e. Kr.; hann var ættaður frá Spáni og ritaði landafræði sína á dögum Claudíusar keisara eða á dögum Caligúlu; menn vita fátt um æfi hans.) »Thule er beint á móti ströndum Belca, og er hún fræg í grískum og latneskum kvæðum; þar eru næturnar stuttar, af því sólin kemur upp til þess að síga fjarri til viðar, en á vetrum eru þær dimmar eins og annarstaðar; á sumrum eru þær bjartar, af því sólin á þeim tíma kemur hærra á lopt, og þó hún eigi sjáist sjálf, þá upplýsir hún þó hið næsta með nálægum ljóma. Um sólstöður eru engar nætur, af því þá verður sólin augljósari og sýnir eigi að eins birtu sína, heldur og líka mestan hluta af sjálfri sér«. Á öðrum stað segir Mela, að Skyþar heiti einu nafni Belcar; sýnir þetta, að hann hugsar sér Thule mjög austarlega, enda var það skoðun manna í þá daga, að norðurhluti Európu tæki fljótt að dragast til austurs og að Svartahaf og Kaspiskahaf vœri flóar, er stæðu í sambandi við norðurhafið; fornir landfræðingar láta því opt Thule og önnur norðurlönd vera mjög austarlega.

Thule

Ímynd Thule.

Þessu næst kemur Plinius til sögunnar. Hann getur víða um Thule í náttúrusögu sinni; hann ber Pyþeas fyrir því, að þar sé dagurinn 6 mánaða langur og nóttin sé jafn löng, og að frá Bretlandi sé sex daga sigling norður til Thule. (C. Plini seeiindi naturalis historia, rec. J. Sillig. Hamburgi et Gothæ 1851. Vol. I., 2. bók, 74. kap., bls. 177.)

Thule

Skandinavia – forn kort.

Á öðrum stað segir Pliniiis, að Thule sé nyrzt af öllu sem um sé talað; þar sé um sólstöður engin nótt, þegar sól er í krabbamerki; en enginn dagur um vetrarsólstöður (S. st.. bls. 320.), hann getur þess og (S. st., vol. I., 4. bók, IG. kap., bls. 320-21.) að ýmsir rithöfundar nefni aðrar norrænar eyjar t. d. Scandia, Dumna, Bergos og Nerigon (Þessi nöfn eru mjög efasöm og mismunandi í handritunum; í sumum góðum handritum er Vergos fyrir Bergos og fyrir Nerigon er sumstaðar Verigon, sumstaðar Berricen.), sem sé stærst af öllum; frá Nerigon segir hann sé siglt til Thule og að eins dags sigling sé frá Thule til hins frosna hafs, sem sumir kalli »mare Croniura«.

Thule

Thule – fornt kort.

Á 3. öld ritar Solinus um Thule og fer mest eptir því, sem Plinius segir; Soliiius segir, að Thule sé yzt af hinum brezku eyjum; þar sé nærri engin nótt um sumarsólstöður, en mjög stuttur dagur um vetrarsólhvörf; hann segir og, að frá Orkneyjum sé 5 daga og 5 nátta sigling til Thule; þar sé mikið af ávöxtum, og þeir sem þar búi lifi á vorin innan um fénaðinn á grasi, en seinna á mjólk; til vetranna safni þeir saman trjáávöxtum; hann segir og, að hinum megin við Thule sé frosið haf (»Sed Thj’le larga et diutina pomona copiosa est. Qui illic habitant, principio veris inter pecudes pabulis vivunt, deinde lacte. In hiemem compercunt arborum fructus. Utuntur feminis vulgo, certum matrimonium nulli. Ultra Thylen pigrum et concretum mare«. C. Julii Solini Polyhistor. Biponti 1794, 8vo, cap. 22. Cajus Julius Solinus lifði á 3. öld; hann ritaibi »collectanea rerum memorabilium; sú bók var stytt og dregin saman á 6. öld og síðan kölluð Polyhistor. Rit Solinusar er a mestu leyti samsnap úr öðrum rithöfundum, einkum Pliníusi. Mommsen hefir gefið út Solinus í Berlíu 1864, með athugasemdum.) Solinus var átrúnaðargoð lærðra manna á miðöldunum og flestir rit- höfundar á þeim tímum taka frásögnina um Thule úr riti hans; líklega hafa ekki menn eins almennt þekkt hina eldri rithöfunda.

Thule

Ímynd Thules.

Á dögum Claudíusar keisara (41 — 54 e. Kr.) fengu Rómverjar fótfestu á Bretlandi, en áttu þar í sífelldum ófriði um mörg ár, uns Julius Agricola (d. 94) tókst að friða landið, sefa uppreisnir, og sigra Breta og Skota í mörgum orustum. Um þá daga fengu suðurþjóðirnar miklu meiri og betri vitneskju um Bretland og löndin þar í kring, þó ekki sje mikið af því fært í letur. Tacitiis, hinn frægi sagnaritari, var tengdasonur Agricolu og hefir ritað æfisögu hans. Tacitus segir ýmislegt frá Bretlandi. Meðal annars segir hann, að þá hafi fyrst rómverskur floti siglt í kring um Bretland og hafi menn þá fyrst séð, að land þetta var eyja.

Kort

Kort af Norður Atlantshafi frá 17. öld.

Tacitus segir enn fremur, að Rómverjar hafi þá fundið Orkneyjar (Líklega voru þó Orkneyjar áður kunnar; Pomponius Mela lýsir þeim þannig (III., G): »Triginta sunt Orcades angustis inter se ductæ spatiis«. Eusebíus (264 e. Kr.) og Orosíus (415 e. Kr.), segja, að) Rómverjar haíi unnið Orkneyjar á dögum Claudíusar keisara) og lagt þær undir sig, og að þeir hafi séð Thule í fjarska, en snjór og vetur gekk þá í garð; segir Tacitus, að sjórinn þar sje þungur og mjög örðugt að róa, og að vindarnir þar geti því varla reist neina báru. Þessi Thule, sem Tacitus talar um, getur ekki verið annað en Hjaltland. Hugmyndin um þungt og þétt, letilegt myrkrahaf í norðrinu kemur fram hvað eptir annað hjá fornum rithöfundum; kalla þeir haf þetta ýmsum nöfnum, og segja um það ýmsar bábyljur. Lýsing Tacitusar á sjóferðinni er annars ekkert ólíkleg; það var von þó Rómverjum þætti þungt að róa norður undir Hjaltlandi; það veit hver, sem þar hefir farið, hve þungt vestanfallið er þar í sjónum og hve örðug úthafskvikan opt getur verið jafnvel fyrir gufuskip.

Kort

Kort af Norður Atlantshafi frá 1744.

Það er auðsjeð á því, sem vér hér að framan höfum tilfært úr ýmsum höfundum, að þeir vita ekkert um Thule annað en það, sem Pyþeas hefir sagt og hefir hver tekið frásögn hans eptir öðrum, langt niður eptir öldum; Tacitus er hinn eini, sem byggir frásögn sína á öðrum grundvelli. Fjölda margir aðrir fornir rithöfundar nefna Thule bæði í óbundinni ræðu og í kvæðum; Thule er hjá þeim ekkert annað en hin norðlægustu endimörk jarðarinnar, eða eitthvað ókunnugt, fjarlægt töfraland, yzt úti í hafsauga. Hér á ekki við að telja upp alla þessa rithöfunda; ég hefi hér aðeins sett hinar eldri og merkari frásagnir um Thule, til þess menn geti sjeð, hvað það er, sem lærðir menn eru að deila um, þar sem um Thule er að ræða.

Thule

Prins Valinat á Thule.

Þegar fram líða stundir, verða frásagnirnar um Thule enn þá ruglingslegri. Af hinum seinni fornhöfundum segir Prokopius einna mest frá Thule; hann segir að Thule sé tíu sinnum stærri en Bretland og liggi miklu norðar; hann segir og margt skringilegt frá íbúum þar og siðum þeirra; hann segir, að þar búi 13 þjóðir og séu helztar þeirra Skithifinoi og Gauthoi; lýsing hans sýnist helzt eiga við Noreg eða Skandinavíu alla. (De bello Gothico, lib. 11., kap. 15.) Prokopius var nafnfrægur sagnaritari á 6. öld og hefir ritað um styrjaldirnar við Vandali, Grotha o.fl.; hann var ættaður frá Cesarea“ í Palestína.

Hinn fyrsti, sem segir, að Thule sé Ísland, er hinn írski munkur Diculius, sem ritaði landafræðisbók sína um 825, og hafði hann hjá írskum klerkum fengið vitneskju um stórt eyland í norðri, sem eptir lýsingu hans auðsjáanlega er Ísland.

Thule

Thule?

Dicuilus kallar eyju þessa Thule, af því hann hefir haft fyrir sjer frásagnir Solinusar og annara fornra höfunda. Frá því Ísland byggðist, er það algengt fram eptir öldum, að það er kallað Thule, þó einstöku menn telji Thule annarstaðar, eins og t. d. Henricus Huntendunensis, sem segir, að Thule sé yzt af Orkneyjum. (Heniicus Huntenduuensis var fæddur í lok 11. aldar og lif?>i fram j’íir miílja 12. öld; hann telur eyjar kring um Bretland og segir- svo: »Habet autem a septentrione, unde oceano iníinito patet, Orcades insulas novem, de quarum ultima Thule dictum est« : »tibi serviat ultima Thule«. Momxmenta historica Britannica 1848, foL, I, bls. 691.)

Íslandskort

Hluti af Íslandskorti Guðbrands Þorlákssonar, biskups, 1590.

Eptir að Ísland byggðist af Norðmönnum, trúðu Íslendingar sjálfir, að Ísland væri land það, sem fornir höfundar kalla Thule; þess vegna stendur í byrjuninni á Landnámu: »Í aldafarsbók þeirri, er Beda prestr heilagr gerði, er getið eylands þess, er Tíli heitir, ok á bókum er sagt, at liggi VI dægra sigling í norðr frá Bretlandi; þar sagði hann eigi koma dag á vetr, ok eigi nótt á sumur, þá er dagr er sem lengstr. Til þess ætla vitrir menn þat haft, at ísland sé Tili kallat, at þat er víða á landinu, er sól skín um nætr, þá er dagr er sem lengstr, en þat er víða um daga, er sól sér eigi, þá er nótt er sem lengst. En Beda prestr andaðist deexxxv árum eptir holdgan dróttins vors, at því er ritat er, ok meir en hundraði ára fyrr en Ísland byggðist af Noregi«. Höfundurinn að þessum kafla Landnámu hefir líklega ekki þekkt neinn annan höfund, er ritar um Thule, heldur en Beda prest, en Beda prestur tekur orðrétta kafla úr Solinusi og Pliniusi. Hinir seinni grísk-rómversku rithöfundar og elztu landfræðingar miðaldanna, eins og t. d. Dionysips Perigetes, Orosius, Isidorus Hispalensis, Priscianus, Gregorius Turonensis o.fl. taka orðrétt kaflana um Thule úr fornritunum og bæta engu nýju við; þó Thule sé mjög víða nefnd, er þó lítið eða ekkert að græða á því, sem um hana hefir verið ritað á miðöldunum.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Adam frá Bremen, sem var uppi á elleftu öld, talar um Thule og lýsir henni líkt og Solinus, en ber þó Beda prest fyrir frásögninni. Adam þessi þekkti töluvert til Íslands, sem síðar mun verða frásagt, og hann bætir því við: »þessi ey Thule er nú kölluð Ísland«; svo gerir nú hver höfundur fram af öðrum, að kalla Ísland Thule, og er óþarfi að nafngreina þá, enda eru þeir mjög margir.
Það er auðséð að lærðir menn hafa fegins hendi gripið Ísland, þegar það var orðið kunnugt, til þess að geta smellt á það Thule-nafninu, sem þeir voru í vandræðum með, og fram eptir öllu eru nú frásagnir hinna fornu höfunda lítið rannsakaðar; fæstum dettur í hug að efast um að Ísland sé Thule. Arngrímur Jónsson lærði verður einna fyrstur til að sanna, að lýsingar hinna fornu höfunda á Thule eigi ekki við Ísland; í riti sínu »Crymogœa« 1610 segir hann að Thule geti ekki verið Ísland, enda hafi þar engin stöðug byggð verið fyrr en 874. Nokkru seinna reis Pontamis, danskur sagnaritari, upp á móti Arngrími, tekur hann í bók sína marga kafla úr fornum höfundum og reynir með því að sanna, að ekkert annað land en Ísland geti verið Thule; leggur hann einkum áherslu á staðinn hjá Pliniusi, þar sem hann nefnir Nerigon; hann heldur því einnig fram að Ísland muni hafa verið byggt áður en Norðmenn settust hér að 874 og ber fyrir sig bréf og páfabullur eldri, sem nefna Ísland, en þær eru eflaust falsaðar. (Sbr. íslenzkt fornbréfasafn I., bls. 14—18.)

Íslandskort

Íslandskort 1547.

Þá reis Arngrímur upp aptur öndverður á móti, skoðaði nákvæmlega heimildarit Pontanusar og tætti sundur sannanir hans og færði með miklum lærdómi ljós rök fyrir því, að Thule gæti ekki verið Ísland. (Arngrímur Jónsson : Speciinen Islandiæ bistoricum et magna ex parte chorograpbicum. Amstelodami 1643. 4to, bls. 89—171.) Nokkru seinna kom þó fram annar Íslendingur, sem var á máli Pontanusar og ritaði allangt um þetta efni; það var Þórður Þorláksson, sem seinna varð biskup í Skálholti (f. 1697); telur hann fyrst upp marga höfunda, sem nefna Ísland og segja að það sé Thule og svo þá sem á móti hafa mælt; því næst heldur hann því sjálfur fastlega fram, að Ísland sé Thule eptir breiddarstigum þeim, sem fornir höfundar nefna, eptir fjarlægðinni frá Bretlandi og eptir dagslengdinni.- (Theodorus Thorlacius: Dissertatio cborograpbico-bistorica de Islandia. Editio tertia. „Wittebergæ 1690. 4to, Tbesis I. § 8—18. (1. útg. 1666).

Íslandskort

Íslandskort 1566.

Seinna hafa enn ýmsir haldið því fram, að Ísland væri Thule og það jafnvel fram á vora daga t. d. Bessel og Burton, (W.Bessel: Pyþeas von Massilia. Göttingen 185S. R. Burton: Ultima Tbule or a Summer in Iceland. London 1875, Vol. I. sbr. Vivien de St. Maiiin. Histoire de la géograpbie. Paris 1873.) en það má heita fullsannað, að svo er ekki. Karl Milllenhoff heldur, að Thule hafi verið ein af Hjaltlandseyjum og eru ýmsir aðrir á hans máli (K. Mulleuhoff: Deutsche Altertumskunde. Berlin 1870, I. Ziegler: Eeise des Pytheas. Dresden 1861.), aptur á móti ætlar Keyser, Sv. Nilsson og Brenner, að Thule sé Noregur eða Skandínavia; (Keyser: Norges Historie. Kristiania 1866, I., bls. 3B. S. Nilsson: Skandinaviska Nordens Urinvånare. 2. Upl., II. Broncealdereu. Stockholm 1862—64. Oscar Brenner: Nord- und Mittel-Evropa in den Schriften der Alten. Múnchen 1877. bls, 29—34, 91 —101. G. M. Redslob: Thule. Leipzig 1855.).
Malte Brun hélt að Thule væri Jótland (Thy), Rudbeck að Thule væri Svíþjóð o.s.frv. Af seinni mönnum hefir Mullenhoff ritað einna mest og bezt um Pyþeas og um þekkingu fornþjóðanna á norðurhluta Európu; ritgjörðir og bækur vísindamanna um þetta mál skipta hundruðum. Þó nú mörg af ritum þessum hafi mjög aukið þekkingu manna á sögu rannsóknanna og landfræðinnar, þá er það þó enn með öllu óvíst, hvaða land það var, sem Pyþeas kallaði Thule, enda má oss Íslendingum standa á sama, úr því, það er ekki hægt að finna fullnægjandi líkur fyrir því að Thule sé sama og Ísland. Aðalfjöldi fornra höfunda kallar það allt Thule, sem er ókunugt í norðri; seinna héldu Rómverjar að Hjaltland eða einhver af Orkneyjum væri Thule, og á 6. og 7. öld hafa sumir rithöfundar sett þetta nafn á Noreg eða Skandínavíu.
Líklega geta menn aldrei ráðið gátuna um ferðir Pyþeasar til Thule, af því frumritin eru glötuð og ritbrotin, sem til eru hjá öðrum höfundum, eru eflaust umsnúin og aflöguð.

Fornar sagnir um Ísland áður en það fannst.

Kringlumýri

Kringlumýri ofan Krýsuvíkur – með elstu mannvistarleifum á Íslandi.

Fornar sagnir um Ísland áður en það fannst hjá ýmsum miðaldahöfundum er getið um Ísland og það sett í samband við viðburði, er gerzt hafa löngu áður en landið fannst; sést það berlega, að slíkt eru skröksagnir eða ýkjur seinni manna, og sanna þær alls ekki neitt samband við landið á þeim tíma, sem tilfærður er.

Arthúr

Arthúr konungur (Britanica).

Arthúr konungur, höfðingi Sílúra á Bretlandi, er nafnfræg hetja í gömlum riddarasögum og rímum; þó hafa margir efazt um, hvort hann hefir nokkurn tíma verið til; hann á að hafa dáið úr sárum árið 542 e.Kr. Í gömlum enskum bókum er opt talað um orrustur hans og sigurvinninga; þar er sagt að hann hafi lagt undir sig Norðurlönd og eyjar margar, og er þar talið Ísland og Grænland. Galfried af Monmouth segir fyrstur nokkuð til muna um Arthúr konung og samkvæmar ritum hans eru frásagnirnar í Bretasögum. Þegar Arthúr konungr hafði barið á Söxu

m og lagt undir sig England og Skotland, er mælt hann hafi farið herferð til Írlands, og síðan lagt undir sig Orkneyjar og Hjaltland og Suðureyjar, og síðan Danmörk, Noreg, Færeyjar og Gotland, og lagði svo skatt á öll þessi lönd. Síðan lagði Arthúr undir sig Frakkland, og líkaði Rómverjum það stórilla og sögðu honum stríð á hendur; bauð hann út miklu liði og voru með honum margir kappar og konungar úr skattlöndum hans; meðal þeirra er talinn »Malvasíus Tíle-konungr (þat heitir nú Ísland)«.

Arthúr

Arthúr – úr sögu Bretlands.

Einn af konungum þeim, sem komu á eptir Arthúr, Malgó að nafni, »lagði undir sig allt Bretland ok Skotland, Írland, Ísland, Orkneyjar, Danmörk ok Gotland, ok voru þessi lönd öll honum skattgild, en karlmenn þýddust hann en eigi konur ok því varð guð honum reiðr«. (Bretasögur í Annaler for nordisk Oldkyndighed 1849. bls. 94, 104, 126.). Það sér hver maður, að frásagnir þessar eru eintómar ýkjur, tilbúnar löngu eptir þann tíma, sem um er rætt, og verður því ekkert á þeira byggt. Þess er og getið í gömlum bókum, að Kentigern biskup í Glasgow, sem var uppi á 6. öld, hafi sent kristniboða til Orkneyja, Noregs og Íslands; en þetta er jafn ótrúlegt eins og fleira, sem sagt er um þenna biskup. Sögurnar um Sunnifu hina helgu, að hún hafi farið frá Íslandi til Noregs til þess að boða þar kristni á 4. öld, hafa einnig víð jafnlítið að styðjast. (K. Maurer : Die Bekehrung des n

Sunnefa

Stytta af heilagri Sunnefu frá ca. 1520 (nú í Bergensafninu).

orwegischen Stammes zum Christentliume. Miinchen 1855. I, bls. 8—9.) Í fjölda mörgum fornkvæðum og rímum er getið um Ísland og Íslendinga, án þess að nokkur fótur sé fyrir því, og eru slíkt ekki annað en skáldaykjur, enda tóku rímnaskáldin fram á vora daga það ekki nærri sér, þó landaskipunin væri eigi sem réttust, í »Rosmers«-kvœði er t. d. sagt frá því, að Íslands konungur byggir skip; Rosmer stígur í haf ok lætur alla konungsmenn sökkva til botns og drukkna nema Alvar konungsson; hann kemst af og í hús risans til Hellelille. Hann er þar í 8 ár; þá er Hellelille með barni hans. (Svend Griindtvig: Danmarks gamle Folkeviser. II, hls. 72-88.) Í öðru kvæði er sagt frá því að Burmand risi fréttir, að Íslands konungr eigi fagra dóttur og biður hennar sér til handa og vill hafa hálft ríkið í heimamund; Gloríant dóttir konungs er lofuð Karli keisara og vill ekki þýðast risann og biður Olgeir danska að hjálpa sér; hann fer á móti Burmand risa og leggur hann að velli. (S. st. I, bls. 391—96. Þar er víðar getið um Ísland, t. d. I. Us. 160, 369, 380, o.s.frv.) í færeysku fornkvæði er Friðfróði látinn sigla til Íslands, og þorir þá Íslands konungur ekki annað en bjóða honum skatt til friðar sér o.s.frv. Margs konar aðrar ýkjur um Ísland má finna hér og hvar í gömlum útlendum riddarasögum, rímum og kvæðum, og yrði hér oflangt að eltast við slíkt; þó Ísland sé sumstaðar í þess konar sögum sett í samband við viðburði, sem gerðust löngu áður en landið fannst, þá er það þó þýðingarlaust; því kvæðin og sögurnar eru löngu seinna til orðnar.

Landnám

Landnámskort.

Nokkur ágreiningur um fund Íslands hefir fyrrum orðið meðal fræðimanna út úr nokkrura gömlum páfabréfum. Þegar erkibiskupsstóll var stofnaður í Hamborg 835, þá er Ísland nefnt í páfabréfinu og hafi sumir af því viljað ráða, að Ísland hafi verið albyggt og kristið, áður en Norðmenn námu þar land; en hér liggur í augum uppi, að eitthvað hlýtur að vera ranghermt, því landið er nefnt því nafni, er það síðar fékk (Ísland); það er því víst engum efa bundið, að nöfnunum Ísland og Grænland hefir síðar verið skotið inn í páfabréfið, og öll líkindi til, að Brimabiskupar hafi gert það, eptir að Ísland varð kristið, til þess að geta talið þetta land sem önnur norræn lönd undir biskupsstólinn. Halda sumir Aðalbert erkibiskup (1043—1072), er vígði Ísleif Gissurarson til biskups, hafi skotið nöfnunum inn í bréfið og ef til vill í 4 önnur brjef, sem seinna voru útgefin. Seinna spunnust ýmsar sagnir út af þessu, og í munkaritum og kvæðum er Anskar hinum helga talið það til gildis, að hann hafi kristnað öll Xorðurlönd og þar með líka Ísland og Grænland. (Íslenzkt fornbréfasafn I, bls. 1 —44. i?. Burton: Ultima Thale I, bls. 79-87.)

Arngrímur lærði

Arngrímur lærði (1568-1648).

Pontanus studdist við þessi páfabréf í ritdeilu sinni móti Arngrími lærða, en Arngrímur áleit, að bréfin mundu vera fölsuð, og á sama máli hafa flestir hinir merkari fræðimenn verið, t.d. K. Maurer, Finnur biskup Jónsson (Historia ecclesiastica Islandiæ I, bls. 219—20. A“, Maurer: Bekehrung etc. I, bls. 23—24.) og Jón Sigurðsson. Sumir hafa haldið, að nöfnin í frumritinu hafi mislesizt og ritararnir hafi aflagað önnur nöfn og gert úr þeim Ísland og Grænland. (I. R. Forster: Gescliiclite der Entdeckungen und Schifffahrten im Norden. Frankfurt an der Oder 1784, bls. 109—110.)
Hinn alkunni stjórnmálagarpur Gladstone hefir allmikið fengizt við fornfræði og í ritum um Homer hefir hann komizt að þeirri skoplegu niðurstöðu, að Ísland sé eyjan Ogygia, þar sem Oddyssevs dvaldi hjá Kalypso. (Sbr. Ólafur Davíðsson: Ísland og Íslendingar. Tímarit bókmf. 1887, bls. 107.)

Írar finna Ísland

Fornagata

Lestargata.

Eins og kunnugt er, voru hér Írar þegar Norðmenn komu fyrst til landsins. Ari fróði segir í Íslendingabók (íslendingabók, 1. kap. ísl. sögur I, bls. 4.) »þá voru her menn cristnir, þeir es Norþmenn calla Papa, en þeir fóro síþan á braut, af því at þeir vildo eigi vesa her viþ heiþna menn, oc léto eptir bæer irscar oc bjöllor oc bagla; af því mátti scilja, at þeir voru menn írscir«. Landnáma bætir vi5 um bjöllurnar og baglana, (Landnáma, proL, bls. 24. Fornmannasögur I, bls. 233, XI bls. 410. Theodorici Monacbi historia de antiquitate regum norwagiensium, cap. III. Monumenta bistorica Norvegiæ, udgivne ved G. Storm. Kristiania 18b0, bls. 8—9.) »þat fanst í Papey austr ok í Papýli, (Papýli vita menn eigi með vissu, hvar hefir verið, Dr. Kálund heldur, að héraðið Síða bafi borið það nafn (Hist.-topogr. Beskrivelse af Island II, bls. 276 og 314); aðrir halda, ab Papýli hali verið í Suðursveit (Oddsens Landaskipunarfræði II. 1822, bls 304. Safn til sögu Íslands II, bls. 451 og 475.) er ok þess getit í bókum enskum, at í þann tíma var farit milli landanna«.

Hellir-kross

Krossmark í Seljalandshelli.

Síðar segir um Kirkjubæ á Síðu (Ldn. IV. 11). »Þar höfðu áðr setit Papar, oc eigi máttu þar heiðnir menn búa«. Írar þeir er hinir fyrstu landnámsmenn kölluðu Papa, hafa eflaust verið klerkar eða munkar frá Írlandi, er höfðu leitað í einveru norður í höfum. Það sést líka á riti Dicuils munks, sem skrifað er 825, að Írar hafa fyrstir fundið Ísland. Dicuilus segir í riti sínu fyrst frá Thule og talar um hvað Solinus hafi sagt um þetta land og bætir því næst við: »Nú eru þrír tigir ára síðan, að klerkar, sem dvalið höfðu á þessari eyju frá því í byrjun febrúarmáuaðar til byrjunar ágústmánaðar, sögðu mér, að um sumarsólstöður og um næstu daga undan og eptir þá hyrfi sólin, er hún gengur til viðar eins og bak við dálítinn hól, svo að engin dimma varð um sjálfa þessa stuttu stund, hvað sem menn vilja gjöra t.d. tína lýsnar úr skyrtunni, þá má gjöra það eins og sól væri á lopti; ef þeir hefðu komið upp á há fjöll þar á eynni, mundi sólin líklega aldrei hafa horfið þeim. Mitt um þessa stuttu stund er miðnætti á jörðunni miðri, það er því ætlun mín, að sólin sjáist aptur á móti um skemmsta tíma í Thule um vetrarsólstöður eða nokkrum dögum undan og eptir, en þá er miðdegi á miðri jörðunni.

Thor Heyerdahl

Pappírusbátur Thors Hayerdahls er hann reyndi að sýna fram á sjóferðir milli landa á Norður Atlantshafi löngu fyrir tíma víkingaskipanna.

Þeim hefir skjátlazt, er skrifað hafa, að sjór væri frosinn kringum eyna og að einlægur dagur án nætur væri frá vor- jafndægrum til haustjafndægra og aptur á móti samanhangandi nótt frá haustjafndægrum til vorjafndægra, því klerkar þessir komu þangað sjóleið um þann tíma, þegar mikill kuldi er vanur að vera og dvöldu þar, og voru, þá ávallt dagar og nætur á víxl nema um sólstöðurnar, en þegar þeir sigldu þaðan norður á við eina dagleið, hittu þeir frosinn sjó«. (Dicvilus. Liber de mensura orbis terræ. Berolini 1870, bls. 41—43.) Því næst segir Dicuilus frá eyjaklasa, sem liggur tveggja daga sigling fyrir norðan Bretland og eru það líklega Færeyjar.

Færeyjar

Færeyjar – hellir.

Eyjar þessar eru allar litlar segir hann, og þröng sund á milli, og hafa þar búið í nærri hundrað ár einsetumenn frá Skotlandi, en þeir hafa orðið að flýja fyrir norskum víkingum, (Hammershaimb segir, að í í fjöllunum við Hvalbö séu margir hellar og gjótur; þar duldust Færeyingar á fyrri tímum fyrir árásum víkinga, og hengdu svart vaðmál fyrir hellismunnana ; þar eru líka sagnir um, að frumbyggjar Færeyja hafi dulizt í hellum þessum, þegar Norðmenn námu þar land, og dáið þar út. Antíqvarísk Tidskrift 1846-48, bls, 261.) segir hann að þar sé ótölulegur grúi af sauðfé og alls konar sjófuglum. Af frásögn Dicuils er það auðséð að einsetumenn írskir hafa fundið Ísland líklega einhvern tíma á 8. öld, úr því Dicuilus hefir talað við klerka, sem þar höfðu verið um árið 795. Á Írlandi og Skotlandi hefir ekki verið friðsamt í þá daga þegar víkingahóparnir austan um haf alltaf voru að gera strandhögg, brenndu borgir og þorp, kirkjur og klaustur, drápu fólkið og rændu fénu; guðhræddir einsetumenn urðu að leita lengra og lengra burtu til þess að geta verið í friði.

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma – minjar um forna búsetu.

Í latnesku riti um sögu Noregs, sem ritað hefir verið á Orkneyjum á miðri 13. öld, er þess getið, að þar hafi búið Piktar og Papar, er Norðmenn námu þar land; um Papana segir höfundurinn meðal annars: »Papar voru þeir kallaðir af því þeir klæddust hvítum klæðum eins og klerkar. -Þess vegna eru allir klerkar á tevtonska tungu kallaðir Papar. Ennþá heitir ein eyja Papey eptir þeim«. (Breve Crouicon Norvegiæ. Symbolæ ad historiam antiquio- rem rerum Norvegicarum. Ed. P. A. Munch. Christiania, 1850, bls. 6 og 88).

Papey vestri

Papa-Westrey á Orknkeyjum.

Allmörg örnefni á Orkneyjum og Hjaltlandseyjum benda á Papana. Í Orkneyjum eru tvær Papeyjar, Papey meiri og Papey minni (Papa-Westray og Papa Stronsay) og á tveim stöðum heitir þar Papýli, á Hrossey (Mainland) og á Rögnvaldsey (South Ronaldsay). Við Hjaltland eru líka tvær Papeyjar, Stóra Papey (Papa Stour) og Litla Papey (Papa Little) o.s.frv. (P. A. Munch: Geograíiske Oplysninger om Orknöerne (Annaler for nordisk Oldkjrndighed 1852, bls. 51-58).) Af þessu sézt, að klerkar frá Írlandi mjög snemma hafa sest að á eyjum þessura og má svo rekja feril þeirra um Suðureyjar, Orkneyjar, Hjaltland, Færeyjar og alla leið til Íslands.

Papar

Papi á Stronsay.

Hinir fyrstu íbúar, sem menn hafa sögur af á Orkneyjum, voru Piktar, og tóku þeir snemma við kristni, sagt er að Cormac hafi boðað þar kristni á 5. öld. Piktar héldu Orkneyjum fram á níundu öld, (Nennius: Historia Britonum, cap. 5. (Monumenta historica Britanuica 1848 I, bls. 56). Nennius segir, að Piktar hafi lagt undir sig Orkneyjar í fyrndinni og búi þar enn. Nennius lifði fram yfir miðja 9. öld.) en þá urðu bæði lærðir og leikir að stökkva úr landi fyrir ofríki hinna norrænu víkinga. Munkaflokkar frá Írlandi settust víða að á eyjum og útskerjum við strendur Skotlands á 8. og 9. öld, og finnast mjög víða merki eptir þá; (Á Orkneyjum eru mörg merki um hina eldri kristni og klerka þessa, sbr, Joseph Anderson: Introduction to The Orkneyinga Saga. Edinburgh 1878, bls. 11-21. Þar hafa meðal annars fundizt sjerstaklega lagaðar bjöllur, eins og þær, sem voru notaðar í hinni elztu kristni; eru þær líklega eptir Papana og ef til vill líkar bjöllum þeim sem fornmenn fundu hjer á landi. Mynd af þess konar bjöllu, er hjá Anderson á s. st., bls. 14.

Björllur

Bjöllur í papakirkju í Orkneyjum.

Þessir elztu keltnesku klerkar og einsetumenn hafa snemma verið kallaðir Culdees (guðsmenn) af keltnesku orðunum cule = socius, de = dei; var nafn það brúkað um keltneska munka, hvort þeir voru í klaustrum eða einsetumenn. Worsaae talar um menjar eptir Pikta á Orkneyium og Hjaltlandsevjum; þar eru kastalarústir (pictish towers) o.m.fl. Minder om de danske og Nordmændene í England, Skotland og Írland,bls. 230.) seinna settust þeir að á eyðieyjum og lifðu einsetumannalífi, fjarri róstum og ofríki víkinganna, sem þá fóru að koma í stórhópum að austan, einkum eptir það, að Haraldur hárfagri fór að brjóta undir sig Noreg.

Keltar

Minjar Kelta á Orkneyjum.

Hinir fornu Keltar á Írlandi og Skotlandi voru yfir höfuð að tala mjög gefnir fyrir sjóferðir og allt af á sífelldu flakki; það eru jafnvel nokkrar líkur til þess, að þeir hafi fundið Vesturheim fyrr en allir aðrir Norðurálfumenn, þó það sé með öllu ósannað enn. (Í Vita S. Galli II, 47 (Pertz: Monum. German. historica II, bls. 30) er sagt um þessa flakkaranáttúru Kelta frá Skotlandi og Írlandi: »Nuper quoque de natione Scotorum. quibus consuetudo peregrinandi iam paene in naturam conversa est, quidam advenientesí o.s.frv., sbr. Alexander v. Humbolclt: Kritische Untersuchungen iiber die historische Entwickelung der geographischen Kenntnisse von der neuen Welt. Berlin 1852. III, bls. 197.) sem fornmenn fundu hjer á landi. Mynd af þess konar bjöllu, er hjá Anderson á s. st., bls. 14. Þessir elztu keltnesku klerkar og einsetumenn hafa snemma verið kallaðir Culdees (gubsmenn) af keltnesku orðunum cule = socius, de = dei; var nafn það brúkab um keltneska munka, hvort þeir voru í klaustrum eða einsetu- menn. Worsaae talar um menjar eptir Pikta á Orkneyium og Hjaltlandsevjum; þar eru kastalarústir (pictish towers) o. m. fl. Minder om de danske og Nordmændene í England, Skotland og Írland, bls. 230.)”

Heimild:
-Landfræðisaga Íslands – Hugmyndir manna um Ísland, náttúrskoðun þess og rannsóknir, fyrr og síðar – Þorvaldur Thoroddsen, Ísafoldarprentsmiðja 1892-96, bls. 1-20.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Íslandskort 1906.

Botnssúlur

Í Dagblaðinu Vísi 14.05.2002 segir PÁÁ frá „Brölti um Botnssúlur„.
Botnssúlur„Botnssúlur eru einn besti útsýnisstaður meðal fjalla í klukkustundarfjarlægð frá Reykjavík. Þær eru í rauninni fjallaklasi sem býr yfir ýmsum leyndarmálum líkt oq hinir fögru dalir við rætur þeirra.
Þótt haustið sé í rauninni gengið í garð er engin ástæða til þess að láta það stöðva sig frá því að ganga á fjöll. Haustið er nefnilega besti tíminn til þess að stunda fjallgöngur því á svölum og lognkyrrum haustdögum er loftið svo tært að útsýni af fjallatindum verður aldrei betra.
Rétt í nágrenni Reykjavíkur, nánar tiltekið fyrir botni Hvalfjarðar, gnæfa Botnssúlur sem eru meðal tignarlegustu og fallegustu fjalla landsins og auk þess þannig staðsettar að af þeim er geysimikil útsýn.
Botnssúlur eru í rauninni fjallaklasi sem teygir efstu tinda sína upp undir 1100 metra yfir sjó. Hæsta súlan er Syðstasúla sem nær 1096 metra hæð yfir sjó.
Algengt er að ganga á hana og er þá oftast farið frá Svartagili við Þingvelli og gengið vestan Súlnagils sem leið liggur upp á fjallið. Syðstasúla er allbrött og mörgum vex í augum að ganga á hana.
Botnssúlur standa í raun fyrir botni tveggja dala sem skerast inn úr Hvalfirði og er Botnsdalur nyrðri en Brynjudalur syðri. Milli dalanna er lágur háls sem nefnist Hrísháls. Úr Botnsdal er auðvelt að finna varðaða leið sem liggur úr Botnsdal, upp á Hrísháls og þaðan sunnan Botnssúlna allt til Þingvalla. Þetta er hin forna Leggjabrjótsleið sem forðum er talin hafa verið alfaraleið manna sem riðu til þings á Þingvöllum. Á miðöldum komu kaupskip að landi í Maríuhöfn í Kjós og þaðan er greið leið inn með Hvalfirði, inn Brynjudal og um Leggjabrjót til Þingvalla.
BotnssúlurLaugardaginn fyrir réttri viku lá leið blaðamanns DV á þessar slóðir og var ákveðið að leggja á Botnssúlur úr Brynjudal.
Brynjudalur er einkar fallegur og sérstaka athygli vekja hinir tignarlegu Þrándarstaðafossar sem fljótlega verða á vegi ferðamanns. Við fremsta bæ í dalnlun sem heitir Hrísakot er gott að skilja bílinn eftir og arka sem leið liggur upp á hinn lága Hrísháls. Rétt fyrir framan skógræktargirðinguna við Hrísakot fellur Laugalækur niður hlíðina og þar mun vera 33 gráðu heit jarðlaug sem okkur tókst samt ekki að finna.
Þegar upp á Hrísháls er komið verður hin forna Leggjabrjótsleið fyrir og gott að fylgja henni upp á brúnirnar. Leið okkar var heitið á Miðsúlu og því stefndum við sem leið lá upp eftir Sandhrygg sem gengur fram úr fjallinu. Þetta er greið leið og aflíðandi halli og engar torfærur á leiðinni, jafn bratti nær alla leið á tindinn og sést marka fyrir slóð á hryggnum þegar ofar dregur.
BotnssúlurAf tindi Miðsúlu, sem er reyndar kölluð Botnssúlur á sumum kortum er geysilega víðsýnt. Í norðri má þekkja Baulu í Borgarfirði, Tröllakirkju á Holtavörðuheiði og nær kúrir Hvalvatnið undir Hvalfellinu sem ris fyrir botni Botnsdals. Eiríksjökull, Þórisjökull og Fanntófell blöstu við böðuð í haustsólinni og í austri þekktum við Skjaldbreið, Hlöðufell, Jarlhettur, Kerlingarfjöll, Heklu, Tindfjöll, Mýrdalsjökul, Eyjafjallajökul og hinn hornótta Loðmund á Landmannaafrétti.
Í suðri lá landið eins og kort fyrir fótum okkar og úr Þingvallavatni gátum við rakið silfurþræði Sogsins allt til sjávar en við hafsbrún stóðu Vestmannaeyjar í réttri röð. Þetta var dásamlegt og aldrei bragðast kakó og ostasamloka betur en þegar maður er búinn að rogast með hitabrúsann upp um 1000 metra eða svo.
Af tindinum er sæmilega greiðfært inn eggjar fjallsins og niður á lágan röðul fyrir botni Súlnadals sem skerst inn á milli Syðstusúlu og Miðsúlu. Þar innst í dalnum er lítill fjallakofi sem er í eigu íslenska alpaklúbbsins og heitir Bratti. Þetta er vistlegur staður og þar er gott að sitja á veröndinni og fá sér kakó og lesa undarlegar færslur í gestabók skálans um týnd skíði, vond veður og menn sem verja jólunum þarna fjarri heimsins glaumi.
BotnssúlurÞað er hæg leið niður dalinn og ágætt að koma inn á hina fornu Leggjabrjótsleið aftur við Sandvatn og fylgja henni aftur niður Hrísháls og á upphafspunkt ferðalagsins. Það er líka hægt að fara sjónhending niður mjög brattar grasbrekkur meðfram Þórisgili og virða fyrir sér stórkostlega fallega fossa sem þar leynast fjarri alfaraleið. Bæði í Þórisgili og í Þrengslum í Brynjudalsá er háir og fallegir fossar sem samt hafa ekki nafn nema þá kannski í munni örfárra heimamanna.
Á leið okkar gegnum kjarrið á Hríshálsi og eins í dalbotninum sjálfum fundum við talsvert magn af gríðarstórum aðalbláberjum, krækiberjum og bláberjum sem voru komin að fótum fram vegna aldurs en ekki enn skemmd til vansa af frosti.
Það er um klukkutíma akstur frá Reykjavík inn í Brynjudal og frá bílastæði við skógræktargirðinguna eru tæpir sjö kílómetrar á topp Botnssúlna í beina loftlínu.
Þetta er leiðangur sem tekur fullfrískt fólk sennilega 6-8 tíma og er gott dagsverk þegar máttarvöldin bjóða gott veður.“ -PÁÁ

Botnssúlur
Í Jörð 1941 fjallar Þorsteinn Jópsepsson um Botnssúlur.
„Það var eina bjarta vornótt, að ég reikaði um Þingvallahraun. Dimmt var i lofti og þoka hvíldi á fjöllum. Á grasinu glitruðu daggarperlur, likt og tár á hvörmum saklauss barns. Það voru gleðitár og glit þeirra var dásamlega tært, þegar stráin bar i dökka mold eða dimmar gárur úfins hrauns. Sterk frjóangan vaknandi jarðargróðurs barst að vitum mér, en yfir landinu ríkti friður og draumræn kyrrð.

Botnssúlur

Botnssúlur.

Skógarþröstur flögraði undan fótum mér og settist á feyskinn kvist. Þar söng hann um sinn út í vorið og nóttina. Á bak við heyrði ég dimman bassaóð Öxarárfoss, þegar áin féll fram af bergbrúninni og niður í dimma og djúpa Almannagjá.
Þessa nótt sá ég í norðurátt sýn, sem ég hefi ekki gleymt.
Ég sá drifhvíta þokubólstra byltast fram með undirhliðum Botnssúlna, en dimmbláar eggjar þeirra og brotna tinda gnæfa upp úr. Sjaldan hafa fjöll hrifið mig meir, og mér fannst þá sem hæð þeirra væri ógurleg og ögrandi. En ég var ungur þá, og mér óx allt í augum, — allt, sem ég gat ekki þreifað á og handsamað í sömu andrá.
Eftir nóttina i Þingvallahrauni dreymdi mig í vöku um Botnssúlur. Þær voru huliðsheimur, sem reis dularfullur upp úr þokuhafi á vornóttum. Þrá mín beindist að því, að storka máttarvöldunum, sem vöfðu Botnssúlur í hvítt lin og huldu þær í roktættum bólstrum. Ég hét því þá, að klifa bratta tinda þeirra og horfa i einmana hamingju yfir sólvafið bólstrandi þokuhaf fyrir neðan mig. Botnssúlur urðu mér að takmarki.
Mörgum árum seinna gekk ég á Botnssúlur; gekk á þær á fögrum vordegi, þegar þoka huldi hrjúfar urðir undirhlíðanna, en tindarnir stóðu upp úr eins og forðum, vornóttina björtu í Þingvallahrauni.

Botnssúlur

Botnssúlur.

Ég veit ekki, hvort ég hefi lifað fegurri fjallgöngu né hamingjusamari dag.
Þegar ég stóð frammi á brúninni og horfði á brotnar eggjar, hvassa tinda og þverhnípta bjargveggi gnæfa upp ur hvítgráum þokumekki, sem liðaðist áfram, byltist og rannaðist fyrir fótum mér, fannst mér þessi fegurð vera fullkomin.
Hún var fullkomin fyrir þá sök, að draumur minn hafði laszt. Fyrir augum mínum blasti við glæsileiki, eins og eg hafði hugsað mér hann stórfengilegastan og mikilúðgastan.“

Heimild:
-Dagblaðið Vísir, 210 tbl. 14.05.2002, Brölt um Botnssúlur, PÁÁ, bls. 36-37.
-Jörð, 2. tbl. 17.06.1941, Þorsteinn Jópsepsson, Botnssúlur, bls. 260-261.
-Fálkinn. 36. tbl. 07.09.1935, bls. 1.
-Tíminn Sunnudagsblað. 32. tbl. 22.08.1965, bls. 753.

Botnssúlur

Botnssúlur og nágrenni.

Rjúpa

Brennisteinsfjöll voru þann 24. apríl 2020 friðlýst gagnvart orkuvinnslu á grundvelli 53. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd og sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013. Verndarsvæðið er 123.131 km² að stærð.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Í mbl.is 25.4.2020 segir: „Brennisteinsfjöll friðlýst„.
„Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag á Degi umhverfisins, friðlýsingu háhitasvæðis Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Guðmundur

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Tekið er fram að verndarsvæðið sé 123 ferkílómetrar að stærð og liggi í 400-500 metra hæð milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Um sé að ræða stærsta óbyggða víðerni sem eftir sé í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem finna megi ósnortnar gosminjar og minjar um brennisteinsnám, en einnig kjarri vaxið svæði við Herdísarvík.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Drottning.

„Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla er að finna skýrt afmarkaða gos- og sprungurein en einnig dyngjur og er Kistufell þeirra mest. Brennisteinsnám var stundað á svæðinu í nokkur ár milli 1876 og 1883 og sjást ummerki þess enn í hrauninu. Með friðlýsingunni er háhitasvæði Brennisteinsfjalla verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmaafli. Friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu,“ segir í tilkynningunni.
Bent er á að friðlýsing háhitasvæðis Brennisteinsfjalla gegn orkuvinnslu sé hluti af friðlýsingaátaki sem umhverfis- og auðlindaráðherra ýtti úr vör árið 2018.
„Teymi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar vinnur að friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar, svæða á náttúruverndaráætlunum og svæða sem hafa verið undir álagi ferðamanna, auk annarra friðlýsinga.“

Í Fréttablaðinu 25. apríl 2020 segir:

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Háhitasvæði Brennisteinsfjalla friðlýst á degi umhverfisins
„Háhitasvæði Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga var í dag friðlýst af umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, á sérstökum „degi umhverfisins“. Svæðið er það sjöunda sem ráðherrann friðlýsir.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsnáma í Brennisteinsfjölllum.

Friðlýsingin er í samræmi við ákvörðun Alþingis um rammaáætlun frá árinu 2013 en rétt er að taka fram að friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu. Verndarsvæðið er 123 ferkílómetrar og liggur á milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Svæðið er stærsta óbyggða víðerni sem eftir er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og má þar finna gosminjar og minjar um brennisteinsnám sem þar var stundað í nokkur ár milli 1876 og 1883.
Umhverfis- og auðlindaráðherra fór af stað með friðlýsingarátak árið 2018 og er þetta sjöunda svæðið sem hann friðlýsir síðan. „Mér er bæði ljúft og skylt að friðlýsa Brennisteinsfjallasvæðið gegn orkuvinnslu á degi umhverfisins,“ segir ráðherrann.
„Við þessa friðlýsingu verður mér sérstaklega hugsað til þeirra forréttinda fyrir íbúa og gesti höfuðborgarsvæðisins að eiga ennþá óbyggð víðerni í nágrenni svæðisins. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum er á þessum víðernum. Í þessu felast ómæld verðmæti og þeim fylgir ábyrgð sem við rísum undir í dag með þessari friðlýsingu,“ segir Guðmundur loks.“

AUGLÝSING um verndarsvæði á Reykjanesskaga – háhiti Brennisteinsfjallasvæðis í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – verndarsvæðið.

1. gr.
Um friðlýsinguna.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið, á grundvelli verndarflokks þingsályktunar nr. 13/141 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, frá 14. janúar 2013, að friðlýsa háhitasvæði Brennisteinsfjalla: 68 Brennisteinsfjöll í Grindavíkurbæ, Hafnarfjarðarkaupstað og Sveitarfélaginu Ölfusi gagnvart orkuvinnslu á grundvelli 53. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Verndarsvæðið er 123 km² að stærð.

Ferlir

Í FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

2. gr.
Markmið friðlýsingarinnar.
Tilgangur og markmið friðlýsingarinnar er að vernda háhitasvæði Brennisteinsfjalla: 68 Brennisteinsfjöll gegn orkuvinnslu, sbr. 1. gr.

3. gr.
Mörk verndarsvæðisins.
Mörk verndarsvæðisins eru sýnd á korti og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka I, sem birtur er með auglýsingu þessari.
Afmörkun jarðhita er dregin eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og yfir gíga og nýlega eldvirkni í nálægu landslagi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

4. gr.
Mannvirkjagerð og orkurannsóknir.
Orkuvinnsla varmaafls með uppsett varmaafl 50 MW eða meira innan marka svæðisins er óheimil. Ekki er heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu á verndarsvæðinu vegna virkjunar jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Að fengnu samþykki Umhverfisstofnunar og að undangenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að stunda yfirborðsrannsóknir á verndarsvæðinu.

5. gr.
Viðurlög.
Brot gegn friðlýsingu þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 90. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námumannahús.

6. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. apríl 2020.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Heimildir:
-https://www.ust.is/nattura/fridlysingar/fridlyst-svaedi-a-rammaaaetlun/brennisteinsfjoll-rammaaaetlun/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/04/25/brennisteinsfjoll_fridlyst/
-https://www.frettabladid.is/frettir/hahitasvaedi-brennisteinsfjalla-fridlyst-degi-umhverfisins/
-https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?recordID=b2f53425-a55c-4918-a2bc-5e99284b1cdd

Vörðufellsborgir

Vörðufellsborgir.