Strýthólahraun.

Gengið var að gömlu hliði, sem enn sést móta fyrir, á Hraunsgarði vestan við Hraun. Um hann lá Hraunsgatan vestur yfir í Þórkötlustaðahverfi og síðan áfram út á Þórkötlustaðanes, en Hraunsmenn nýttu Nesið fyrrum m.a. til útgerðar. Þeir réru t.a.m. þaðan fyrir tíma útgerðar Þórkötlustaðabænda og héldu því áfram eftir að byggt var í Nesinu.

Hraun

Hraun í Grindavík.

Enn má sjá hluta að gömlu hlöðnu görðunum á Hrauni, en fyrir þá fékk Jón bóndi Dannebrogsorðuna á sínum tíma. Norðan vegarins er hóll og á honum hleðsla; Hraunsdysin. Þar segja kunnugir að hafi verið dysjaður drengur er “Tyrkir” drápu er þeir stigu á land í Hrólfsvíkinni 1627. Sagan segir að strákur hafi reynt að komast undan á rauðri meri, eltur af tveimur tyrkjum. Merin hafi náð að sparka í og drepa annan þeirra, en hinn hefði náð stráksa af baki og vegið hann. Sumir hafa sagst hafa séð honum bregða fyrir á dysinni, einkum eftir að rökkva tekur.

Slok

Slok – Brennivínshóll.

Garðinum var fylgt til suðurs og var þá komið inn í Slokahraun vestan við túngarðinn. Í hrauninu eru margir og miklir þurrkgarðar. Haldið var á Sögunarhól þar sem bændur unnu rekavið og áfram yfir á “Brennivínshól”. (Við hann földu Grindjánar vínföng sín í þá gömlu daga. Fóru þeir þangað, einkum að kvöldlagi, til að fá að vera í friði með drykkjuna fyrir spúsum sínum, því ólíklegt var að þær leggðu í úfið hraunið til að leita þeirra). Eftir stutta leit fannst ein faska, rúmlega hálffull. Á henni var handunninn merkimiði er á stóð m.a.: Grindarvigsbrennevin – 1889 – með kongen´s fuldmagt – Einarsbutik – den enesete ene, upp á dönsku, enda Grindavík danskur bær á þeim tíma eins og aðrir bæir á landinu. Vínbragð var af innihaldinu. Hvort sem það var vegna innihaldsins eða einhvers annars, virtust sumir þátttakenda sjá hvíta vofu á Hraunsdysinni í fjarnorðri.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Gengið var áfram vestur yfir hraunið, í gegnum mikla þurrkgarða, sem þar eru, vent til hægri og stefnt að tóttum Hraunskots, innan garðs. Mikill hlaðinn garður umlykur Þórkötlustaðabæina að austan- og norðanverðu. Hann hefur staðið af sér öll veður, en jarðskjálftar hafa hrist úr honum af og til. Það hefur þó verið lagfært jafnóðum. Hluti garðsins sunnan Hraunkots er öðruvísi fallega hlaðinn og úr annars konar grjóti en afgangurinn. Grjótið hefur verið tekið úr eldra hrauni, sem hið yngra rann yfir, en það kemur þarna undan hraunkantinum á kafla.

Hraunkot

Hraunkot.

Tóttir og fallegar hleðslur eru í Hraunkoti. Heimtröðin er sérstaklega verkleg, sbr. meðfylgjandi mynd. Gengið var yfir á Klappartúnið og það síðan til vesturs, að tóttum gamla Klapparbæjarins. Þaðan var haldið suður austustu sjávargötuna af þremur í Þórkötlustaðahverfi, niður að Buðlungavör, litið á skiptivöllinn og síðan haldið upp að göngum Klapparbæjarins utan girðingar, fast við fjárhús Stakkavíkurmanna í Buðlungu. Göngin eru þarna nokkuð heilleg, en þau komu í ljós eftir eftir að gamalt bárujárnshús hafði verið fjarlægt frá þeim fyrir nokkru.

Þórkötlustaðir

Einland í Grindavík.

Gengið var upp að Einlandi, litið á gömlu tóttirnar norðan hússins og skyggnst yfir að tóttum Móa, sem eru þarna upp á túninu. Loks var litið á hugsanlega staðsetningu Þórkötlustaðabrunnarins undir veginum gegnt Valhöll áður en hús var tekið á Helga Andersen í Miðbæ og hans hustru. Hún bauð upp á útistandandi kaffi í veðurblíðunni á meðan Helgi sagði frá því er hann fékk því áorkað að öskudagurinn var gerður að frídegi öskukarla í Grindavík, líkt og sjómannadagurinn varð frídagur sjómanna.

Að kaffidrykkju lokinni var kíkt á Heródes, álagastein við Vesturbæ. Snyrt hafði verið umhverfis hann og því erfiðara en áður að berja rúnarletrið á austurhlið hans augum.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Gengið var upp að Þórkötludys á túninu austan við Hof, rifjuð upp þjóðsagan og tengsl fundin við fyrrum gegna tíð. Sagan segir að Þórkatla hafi mælst svo fyrir um að hún yrði dysjuð þar sem hún sæi yfir Bótina og jafnframt að engin skyldi farast á rétt siglu sundinu. Þarna sér vel yfir Þórkötlustaðabótina.
Staðnæmst var við staðsetningu gamla barnskólahússins við verbúðina, gengið framhjá hlöðnu réttinni og staðnæmst gegnt þeim stað er foreldrar Guðbergs Bergssonar, skáls, bjuggu fyrrum, Hjarðarholti. Húsið var síðar flutt vestur í Járngerðarstaðahverfi. Ofar er Auðsholt. Verbúðin var nefnd Bjarnarhöfn. Í suðausturhluta þess hús sem hefur verið tengt saman og kallast nú Bjarnarborg (verbúð HÞ). “Marel Guðmundsson byggði þar hús yfir fjölskyldu sína 1930.

Brautarholt

Brautarholt.

Eftir að hann dó úr berklum var húsið rifið af lánadrottni Marels (Einari kaupmanni í Garðhúsum). Síðar var sett þak á steyptan grunn hússins og gert að barnaskóla. Þar var hafður barnaskóli í Þórkötlustaðahverfi þar til nýr barnaskóli tók til starfa í Járngerðarstaðahverfi árið 1948. Brautarholt er norðan Hraðfrystihúss Þórkötlustaða. Húsið var byggt árið 1934. “Þetta hús byggðu hjónin Júlíus Daníelsson og Sigríður Þorleifsdóttir 1934 og bjuggu þar til 1956”. Húsið var byggt sem íbúðarhús en síðar var þar vog fyrir Hraðfrystihúsið.

Þórkötlustaðanes

Minjar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var suður götuna út á Þórkötlustaðanes, en á leiðinni var staðnæmst í Kóngum, hraunslengju, sem aðskilur austurhverfið frá gömlu útgerðaraðstöðuna ofan við gömlu bryggjuna skammt sunnar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – minjar á Kóngum.

(Þarna hefur lengi verið kjörlendi sandfuglsins. Mjög erfitt er að koma auga á hann. Til að finna hreiður hans er helst að leita spora eftir fuglinn. Eftir stutta leit fundust spor. Grafið var í sandinn og þá komu tvö gulleit egg í ljós – egg sandfuglsins. Þess var vel gætt að skilja við þau án þess að ummerki sæjust).
Þá var gengið um gamla útgerðarstaðinn ofan við bryggjuna í Þórkötlustaðanesi, litið á bæjarstæði Hafnar, Arnarhvols og Þórshamars, lifrabræðsluna, ískofana, salthúsin, sökklana undir beitningaskúrana, spilið, stýrikengina, staðsetningu gamla brunnsins og bryggjuna. Rifjuð var upp útgerðarsagan eins og hún kemur fyrir í lýsingu Péturs Guðjónssonar í nýjasta Sjómannablaði Grindavíkur.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Gengið var til suðurs austan Flæðitjarnarinnar. Þá var komið að manngerðum hól. Í honum er fornt fjárskjól og austan í honum er gömul tótt. Gerði liggur umhverfis skjólið. Sunnar eru hlaðin fjárhús og gerði. Enn sunnar er skrautgarður Þórshamarsfólksins, en allt í kring eru garðar og tóttir. Litið var inn í Þórshamar og sagan um Jóhann Pétursson, vitavörð, rifjuð upp, einkum er hann slasaðist við breytingar á húsinu, komst út við illan leik og lá þar vel á annan sólarhring í kulda og snjó áður en honum var bjargað. Enok og frú bjuggu áður í Þórshamri.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Gengið var til suðurs inn í Strýthólahraun. Í suðaustri mátti sjá Leiftrunarhól og Strýthóla austari og vestari í suðri. Í hrauninu eru þurrkgarðar og fiskbyrgi líkt og við Ísólfsskála og á Selatöngum. Ofar í Nesinu eru einnig margir þurrkgarðar.
Haldið var áfram eftir veginum, framhjá vitanum, sem byggður var skömmu eftir aldarmótin 1900, og rifjuð upp saga af ströndum og mannsköðum við Nesið. Skilti, uppsett af Slysavarnarfélaginu, eru þar við með helstu upplýsingum.
Gengið var framhjá vörðufæti Siggu og áfram út að Nesi, en þar stóð húsið Nes. Enn má sjá þar sjóbúð, bátarétt og fleiri mannvirki.

Sigga

Sigga.

Litið var á Goðatóttina við gömlu bæjar- og útihúsin á Hópi og skyggnst yfir túnið, en þar má sjá, ef vel er að gáð, jarðlæga tótt og bogadregna garða. Ofar á túninu, upp undir Sjónarhól, eru einnig tóttir, sem vert væri að rannsaka. Gamla leiðin á milli hverfa lá rétt ofan við Sjónarhól.
Gangan endaði við Íþróttahúsið þremur tímum frá upphafsreit.
Eða eins og bæjarstjórinn sagði dimmum rómi: “Það er gott að ganga um Grindavík”, og leit á lúinn hund sinn (sjá mynd).

Þórkötlustaðanes

Á Þórkötlustaðanesi.

Grindavík

Grinda­vík hlaut kaupstaðarrétt­indi 10. apríl 1974. Saga Grindavíkur sem byggðar er þó mun lengri.
Í Fornleifaskráningu í Grindavík – 3. áfanga, má lesa eftirfarandi yfirlit um “Þróun byggðar í Grindavík” í sögulegu samhengi. Taka þarf þó skráninguna með hæfilegum fyrirvara.

Grindavík

Grindavík – umdæmi.

“Grindavíkurhreppur liggur með suðurströnd Reykjaness frá Valahnúk að vestan, sem skilur land og reka Grindavíkur og Hafna, austur að Seljabót, en þar austan við tekur við Selvogshreppur (nú Ölfus). Að norðan eiga Grindavíkingar hreppamörk á móts við Hafnamenn, Njarðvíkinga, Garðahrepp og Vatnsleysustrandarhrepp.

Geldingadalir

Geldingadalir – eldgos.

Náttúrufar í hreppnum einkennist af þeim miklu eldsumbrotum sem þar hafa orðið á nútíma og sögulegum tíma og er stór hluti svæðisins óbyggilegur af þeim sökum. Víða meðfram ströndinni og á milli hraunbreiðanna eru þó fagurgrænir og búsældarlegir vellir þar sem byggð hefur staðið öldum saman. En það eru ekki aðeins eldsumbrot sem ógna landi og lífi á þessum slóðum. Landbrot sjávar hefur verið, og er, mjög mikið og færist strandlínan ört upp í landið. Auk þess hefur uppblástur verið mikið vandamál og hafa þannig áður gróin og nýtileg svæði orðið að örfoka melum.

Staðarberg

Staðarberg.

Hér verður fyrst gerð grein fyrir landnámi í Grindavíkurhreppi eins og því er lýst í Landnámabók, en á grunni þess og staðsetningu kirkna og kumla má oft setja fram tilgátur um hvaða jarðir byggðust fyrstar. Kuml eru auðsjáanlega vísbending um búsetu fyrir árið 1000, en kirkjur og bænhús eru yfirleitt talin vera reist skömmu eftir kristnitöku.

Hóp

Hóp – minjar gamla bæjarins, þ.á.m. hofstóft.

Nærtækasta skýringin á hinum mikla fjölda guðshúsa almennt er sú að þau hafi upphaflega verið reist við heimagrafreiti, sem voru líklega við hvern bæ líkt og kumlateigar í heiðni. Sé svo má nota bænhús eða kirkjur sem vísbendingu um að viðkomandi bær hafi verið kominn í byggð á fyrri hluta 11. aldar. Jarðir þar sem kirkjur eða bænhús hafa verið eru einnig að jafnaði stærri og dýrari en þær sem ekki höfð slíkum húsum á að skipa og getur því verið freistandi að álykta að hinar síðarnefndu séu seinna til komnar, eða hafi að minnsta kosti ekki verið orðnar sjálfstæð býli á fyrri hluta 11. aldar. Lögbýli á skráningarsvæðinu, átta talsins, eru ef talið er frá vestri til austurs: Staður, Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun, Ísólfsskáli og Krýsuvík.

Grindavík

Útsýni til sjávar frá Grindavík.

Samkvæmt Landnámabók voru landnámsmenn í Grindavíkurhreppi tveir. Annars vegar Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam land í Grindavík, og hins vegar Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Krýsuvík og Selvog. Molda-Gnúpur var sonur Hrólfs höggvanda sem bjó á bænum Moldatúni á Norðurmæri í Noregi, en bróðir hans Vémundr. Gnúpur fór til Íslands fyrir vígasakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjaár. Þar bjó hann þar til landið spilltist af jarðeldum og hann flúði vestur til Höfðabrekku. Vémundur Sigmundarsonar kleykis, sem þar átti land, meinaði honum hins vegar dvöl þar og flutti Gnúpur sig þá í Hrossagarð þar sem hann var um veturinn.

Núpshlíð

Núpshlíðarhorn.

Þegar hér er komið sögu ber Hauksbók og Sturlubók Landnámu ekki saman um örlög Molda-Gnúps eða sona hans. Samkvæmt Hauksbók féll Molda-Gnúpur ásamt tveimur sona sinna í Hrossagarði, en Björn sonur hans (og e.t.v. einnig Gnúpur) fór til Grindavíkur og staðfestist þar. Sturlubók segir hins vegar að vegna ófriðar og vígafars í Hrossagarði hafi þeir feðgar allir farið til Grindavíkur og numið þar land. Hvorug bókanna nefnir nöfn landnámsjarða í Grindavík og verður því ekki af Landnámu einni séð hvaða bæir byggðust þar fyrstir.

Húshólmi

Húshólmi – tóftir í Ögmundarhrauni.

Um landnám í Krýsuvík eru Sturlubók og Hauksbók sammála og segja: „Þórir haustmyrkr nam Selvág ok Krýsuvík, en Heggr son hans bjó at Vági.“ Af því má áætla að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Um tímasetningu landnáms í Grindavík og Krýsuvík er ekkert vitað með vissu. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó bent til þess að frásögn Landnámu af jarðeldum í Skaftafellssýslu eigi við rök að styðjast og hafi þeir líklega átt sér stað á 4. áratug 10. aldar. Sé það rétt, og sögurnar jafnframt taldar trúverðugar, má hafa það sem vísbendingu um tímasetningu landnáms í Grindavík. Segja má að Grindavík hafi horfið af kortinu á 13. og 14. öld. Ástæðan var ítrekuð eldgos. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.

Grindavík

Járngerðarstaðir – gömlu húsin færð í nútímann.

Hvenær Þórir haustmyrkur kom í Krýsuvík og Selvog er hins vegar ekki hægt að lesa úr frásögn Landnámu. Hvergi er heldur talað um hversu margir fylgdu þeim Þóri eða Molda-Gnúp að landnámum þeirra á Suðurströndinni. Staðsetning allra lögbýlanna í hreppnum er kunn, enda var búið á þeim öllum fram á 20. öld. Enn er búið á Járngerðarstöðum, Hópi, Þórkötlustöðum og Hrauni, þótt búskapur sé þar ekki mikill.

Staður

Staður 1960. Kirkjugarðurinn fjær.

Staður fór í eyði árið 1964, og hafa flestöll hús þar verið rifin og tún að miklu leyti sléttuð. Þar er þó enn kirkjugarður Grindvíkinga, þótt sóknarkirkja hafi ekki verið þar síðan 1909.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Á Húsatóptum hefur ekki verið búið síðan 1946 en þar er nú Golfvöllur Grindvíkinga og er heimatúnið því meira og minna rennislétt. Síðasta íbúðarhúsið á Tóptum, reist 1930, er nú klúbbshús golfklúbbsins en nýtt íbúðarhús hefur verið reist í túninu norðaustan þess. Þar er þó enginn búskapur. Ísólfsskáli og Krýsuvík fóru í eyði um eða eftir miðja 20. öld. Á Ísólfsskála stendur íbúðarhús frá 1929 enn ásamt tveimur sumarbústöðum. Að öðru leyti eru þar engin hús og túnin meira og minna sléttuð. Í Krýsuvík hafa hús verið rifin, nema kirkjan frá árinu 1857 sem enn stendur. Ólíkt hinum jörðunum hafa tún þar hins vegar ekki verið sléttuð nema að litlu leyti.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – gamli bærinn.

Tveir bæjanna hafa verið fluttir til svo vitað sé. Annars vegar Ísólfsskáli, en árið 1916 var bærinn fluttur, eftir að hafa verið í eyði í þrjú ár. Bærinn var byggður frá stofni um 150 m norðan við eldra bæjarstæði í túninu, en landbrot sjávar er mikið vandamál á þessum slóðum. Hins vegar Krýsuvík, en talið er að upprunalega hafi bærinn staðið þar mun sunnar, enda er nafngiftin einkennileg fyrir bæ sem stendur svo langt inn í landi. Austast í Ögmundarhrauni eru hólmar tveir í hrauninu og heitir sá eystri Húshólmi. Í honum eru rústir bæjar og kirkju og hafa þær verið nefndar Gamla-Krýsuvík. Munnmæli herma að þar hafi bærinn staðið áður en hraunið rann. Þótt ekkert sé vitað með vissu um það er víst að í hólmanum eru greinilegar tóftir sem benda til þess að þar hafi verið bær. Örnefnið Húshólmi kemur fyrst fyrir í trjáreikningi frá 1609.

Húshólmi

Húshólmi – tilgáta.

Í Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem lýsir ferðum þeirra árin 1752-57, segir ennfremur: “Eldflóðið féll í sjó niður og eyddi nokkrum bæjum á því svæði, sem nú heitir Ögmundarhraun. Meðal þeirra var kirkjustaður, sem Hólmastaður hét, og sjást þar enn minjar kirkjugarðsins og húsatóttanna.” Örnefnið „Hólmastaður“ er þó líklega til komið eftir að hraunið rann og má því ímynda sér að þar hafi bærinn í Krýsuvík áður verið. Haukur Jóhannesson jarðfræðingur gróf tvö snið í Húshólma, annað í gegnum torfgarð sem þar er og hitt í vegghleðslu fjárborgar nyrst í hólmanum. Bæði sniðin bentu til þess að mannvirkin hefðu verið reist áður en landnámslagið féll, eða fyrir árið 900. Hins vegar lá miðaldalagið upp að hleðslunum beggja vegna sem bendir til þess að verulega hafi verið fokið að þeim þegar það féll 1226/27.

Þórkötlusdys

Þórkötludys.

Ekki hefur fundist heillegt kuml á skráningarsvæðinu svo vitað sé, en kuml eru sjálfstæður vitnisburður um byggð fyrir 1000. Sögusagnir herma þó að Járngerðarleiði og Þórkötluleiði sé að finna í túnum samnefndra bæja. Brynjúlfur Jónsson lét grafa í leiði Járngerðar sumarið 1902 og reyndist það vera öskuhaugur.

Kerlingadalur

Dysjar Herdísar og Krýsu ofan Kerlingahvamms. Dys smalans fremst.

Í landi Krýsuvíkur eru auk þess heimildir um fjórar steindysjar og eru tvær þeirra friðlýstar síðan 1964. Þar eiga að vera dysjaðar fornkonur tvær, þær Krýs og Herdís, en bæir þeirra, Krýsuvík og Herdísarvík, drógu nafn af þeim. Kerlingarnar greindi á um landamerki og mættust á Deildarhálsi og vildi hvorug gefa eftir. Lauk svo með þeim að hvor drap aðra og voru þær síðan dysjaðar í svonefndum Kerlingadal austan við hálsinn. Auk þeirra mun þar vera dysjaður smali sem einnig féll í átökum kvennanna. Hin fjórða dys í Krýsuvíkurlandi er svokallað Ögmundarleiði. Mun þar vera dysjaður Ögmundur sá er Ögmundarhraun dregur nafn sitt af og myrtur var eftir að hafa rutt braut í gegnum hraunið. Ekki hefur verið grafið í dysjar þessar svo vitað sé. Að lokum herma sögusagnir að í Geldingadölum í Hraunslandi sé þúst þar sem Ísólfur á Skála sé grafinn, en hún hefur ekki verið rannsökuð.

Dágon

Dágon á Selatöngum – í fjöruborðinu. Nú horfinn.

Frá fornu fari og allt til ársins 1946, þegar hluti Krýsuvíkurlands var innlimaður í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar, náði Grindavíkurhreppur yfir tvær kirkjusóknir. Þetta voru Staðarsókn að vestan og Krýsuvíkursókn að austan. Staðarsókn, eða Grindavíkursókn eins og hún var einnig nefnd, teygði sig á milli Valahnúks að vestan að Selatöngum að austan. Miðuðust sóknarmörkin við klett í fjöruborðinu sem nefndur var Dágon, og náði Krýsuvíkursókn frá honum og austur að Seljabótarnefi.14 Allir bæirnir nema Krýsuvík, þ.e. Húsatóptir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli ásamt hjáleigum áttu kirkjusókn að Stað. Var því um langan kirkjuveg að fara, sérstaklega fyrir austustu bæina, Ísólfsskála og Hraun. Krýsuvík þjónaði heimilisfólki sínu og hjáleigum auk þeirra sem dvöldu í verstöðinni á Selastöngum.

Staður

Staður fyrrum.

Í dag er sóknarkirkja Grindvíkinga í Járngerðarstaðahverfi (Grindavíkurkaupstað), en kirkjugarður sóknarinnar er að Stað í Staðarhverfi, þar sem sóknarkirkja var til ársins 1909. Aðeins er ein önnur uppistandandi kirkja í hreppnum og er sú í Krýsuvík. Öruggar heimildir eru um kirkjur að Stað, á Hrauni og í Krýsuvík frá fornu fari, en hugsanlega hafa þær verið fleiri. Páll Jónsson biskup í Skálholti lét í sinni biskupstíð gera skrá yfir kirkjur í umdæmi Skálholtsstóls. Hann var biskup frá 1195 til 1211 og er skráin yfirleitt talin vera frá því um 1200. Kirknaskrá Páls greinir frá tveimur kirkjum í Grindavíkurhreppi. Annars vegar er sögð prestskyld kirkja að Stað í Grindavík og hins vegar í Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmi – kirkjutóft.

Eins og áður segir herma munnmæli að bærinn í Krýsuvík hafi í upphafi verið þar sem nú heitir Húshólmi í Ögmundarhrauni og telja menn að þar megi sjá bæði bæjartóftir og kirkjutóft. Ögmundarhraun er talið hafa runnið 1151 og ætti því sú kirkja sem nefnd er í kirknaskrá Páls að vera sú sem reist var eftir að bærinn var fluttur, en ekki sú í hólmanum. Það verður þó ekki fullyrt og telja sumir að svo sé einmitt ekki, heldur hafi kirkjan í Ögmundarhrauni verið í notkun í allt að fjórar aldir eftir að hraunið rann og þannig sé til komið nafnið „Hólmastaður“.18 Er sú tilgáta meðal annars reist á því að kirkjutóftin í Húshólma þykir mun heillegri en aðrar tóftir sem þar eru. Auk þess hefur kirkjan verið miðsvæðis, þ.e. á milli Krýsuvíkur og Selatanga. Að lokum er svo sú staðreynd að Krýsuvíkurprestakall var afnumið með hirðstjórabréfi árið 1563, fjórum öldum eftir að hraunið rann, vegna þess hve fámennt það var orðið. Guðshús fékk þó að standa þar áfram vegna þess heimilisfólks sem þó var þar.19 Ekkert af þessu eru óyggjandi rök fyrir því að meint kirkja í Húshólma hafi ekki lagst af um leið og byggðin þar.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Hin kirkjan sem nefnd var í kirknaskrá Páls Jónssonar var sú að Stað í Grindavík, en þar var sóknarkirkja Grindvíkinga frá fornu fari til ársins 1909. Gömul munnmæli herma hins vegar að kirkja hafi einnig verið á Skarfasetri vestast á Reykjanesi. Árni Magnússon greinir frá munnmælum þessum í Chorographica Islandica og segist hafa þau eftir Eyjólfi Jónssyni og öðrum gömlum Grindvíkingum. Samkvæmt þeim var Staður áður í miðri sveit og sóttu Grindvíkingar kirkju að Hrauni þar til nesið brann og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Sjö bæir áttu þá að hafa verið vestan Staðar: Rafnkelsstaðir, Mölvík, Sandvík, Háleyjar, Krossvík, Herkistaðir og kirkjustaðurinn Skarfasetur. Engar heimildir styðja þessa frásögn né hrekja, en margir jarðfræðingar munu þó telja ólíklegt að þetta svæði hafi nokkurn tíma verið gróið og byggilegt. Sem fyrr er þó ekkert hægt að fullyrða í þessum efnum. Mögulega hefur kirkjan á Skarfasetri verið einhverskonar útkirkja, en höfuðkirkja Grindvíkinga, þá sem síðar, verið að Stað. Að minnsta kosti á það við svo langt sem öruggar heimildir ná. Reykjaneseldar eru taldir hefjast eftir 1210 og standa með hléum til um 1240 og því hefði Skarfasetur samkvæmt munnmælunum átt að vera í byggð þegar kirknaskrá Páls biskups var tekin saman. Ef þar hefði verið kirkja með prestskyldu hefði það átt að koma fram í skránni.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.

Sóknarkirkja var að Stað til ársins 1909 er hún var aflögð og önnur kirkja vígð í Járngerðarstaðahverfi, þ.e. núverandi Grindavíkurkaupstað. Kirkjugarður Grindvíkinga er hins vegar enn að Stað og því hefur aldrei verið grafið við Grindavíkurkirkju. Bænhús og útkirkjur voru algeng á Íslandi og voru oft á öðrum til þriðja hverjum bæ, þótt heimildir séu ekki alltaf tiltækar um þau. Í bréfi um byggingu jarða Skálholtsstóls í Grindavík frá 1563 er boðið að breyta bænhúskúgildum á Hrauni, Þórkötlustöðum og Hópi í leigukúgildi og gæti það verið vísbending um bænhús á þessum stöðum. Engar aðrar heimildir minnast á bænhús á Þórkötlustöðum eða Hópi, en á Hrauni var sem áður segir.

Hraun

Hraun – forn signingafontur frá fv. kirkju nær.

Samkvæmt munnmælum, sem áður er greint frá, áttu Grindvíkingar að hafa sótt kirkju að Hrauni áður en Reykjaneseldar brunnu og kirkjan var flutt frá Skarfasetri að Stað. Þetta er fremur ólíklegt þar sem Hraunskirkju er ekki getið í kirknaskrá Páls Jónssonar biskups frá því um 1200. Hins vegar er enginn vafi á að kirkja var á Hrauni á miðöldum. Engar heimildir minnast á kirkju á Hrauni á 15. eða 16. öld, og er fyrstu beinu heimildina um hana að finna í Fitjaannál fyrir árið 1602. Þar segir: „Þá drukknuðu á stóra farmaskipi Skálholtsstaðar 24 manneskjur með einni stúlku, fyrir framan Þorkötlustaði í Grindavík … og voru þeir flestir jarðaðir í bænhúsinu í Grindavík á Hrauni.“ Skömmu síðar hefur kirkjan líklega verið aflögð, en í Chorographica Islandica, sem rituð var um 1700, segir Árni Magnússon kirkjuna aflagða fyrir um 100 árum. Í máldaga Staðarkirkju frá 1642 kemur auk þess fram að klukka í eigu hennar sé komin frá Hrauni. Að öðru leyti er lítið vitað með vissu um guðshús þetta. Líklega hefur það verið annaðhvort bænhús eða hálfkirkja, og þá vafalítið þjónað frá Stað. Við kirkjuna hefur verið kirkjugarður þar sem greftraðir hafa verið heimamenn og e.t.v. menn úr Þórkötlustaða- og Járngerðarstaðahverfum.

Hraun

Hraun.

Í Vilkinsmáldaga frá 1397 kveður á um kirkjutíundargreiðslur, legkaup og legsöngskaup Járngerðarstaðamanna, og ber Járngerðarstaðamönnum samkvæmt því að greiða legsöngskaup til Staðar en ekkert legkaup. Þetta gæti bent til þess að á Járngerðarstöðum hafi verið bænhús eða útkirkja, en um það eru engar frekari heimildir. Líklegra er hins vegar að þetta sé vísbending um að grafreitur Járngerðarstaðamanna, og þá væntanlega Þórkötlustaðamanna einnig, hafi verið á Hrauni en presturinn setið að Stað.

Staðarhverfi

Staðarhverfi. 

Í áðurnefndum Vilkinsmáldaga frá 1397 er eftirfarandi klausa: „Hún [kirkjan að Stað] á fjórðung úr Lónalandi, og skal sá hafa leigu af þeim sem kirkju varðveitir slíka sem settist við þann er þar býr.“ Þessi klausa hefur þótt torskilin þar sem jörð með þessu nafni hefur aldrei verið í Grindavík svo vitað sé. Í riti sínu Saga Grindavíkur. Frá landnámi til 1800 gerir Jón Þ. Þór ráð fyrir því að um misritun sé að ræða og í stað „Lónalands“ eigi þar að standa „Hraunsland“. Ennfremur leggur hann þann skilning í ofangreinda klausu að leiga af jarðarpartinum í Lónalandi skyldi renna til Staðar eftir því sem um semdist milli kirkjuhaldara á Lónalandi og ábúanda þar. Á þessum grunni telur hann hugsanlegt að kirkja á Hrauni sé risin 1397, þegar Vilkinsmáldagi er gerður. Hér er hins vegar um misskilning að ræða. Það sem átt er við með ofangreindri klausu er að leiga af eignarhlut Staðarkirkju í Lónalandi skyldi renna til kirkjunnar, þ.e. Staðarkirkju, eftir því sem um semdist við ábúanda á Lónalandi. Það er því auðséð að ekki má af þessu draga neinar ályktanir um kirkju á Hrauni.

Grindavík

Grindavík – Rafnkelsstaðir í Járngerðarstaðahverfi.

Örnefni, eins og t.d. bæjarnöfn, hafa mikið verið rannsökuð í gegnum tíðina og geta þau oft gefið einhverjar vísbendingar um aldur byggðar. Bæjarnöfn sem eru ósamsett náttúrunöfn eru yfirleitt talin til marks um elsta stig búsetu. Algengustu liðir í bæjarnöfnum í Landnámu eru fell, dalur, holt, nes vík, hóll, á og eyri, og flest þeirra ósamsett. Ósamsett náttúrunöfn í Grindavíkurhreppi eru tvö, Hraun og Hóp. Ein jörð, Krýsuvík, ber samsett náttúrunafn, og er í Landnámu sögð numin um leið og Selvogur, sem einnig er samsett náttúrunafn. Bæjarnöfn sem enda á –staðir eru yfirleitt talin tilheyra síðari stigum landnáms. Tvö lögbýli bera slík nöfn, Þórkötlustaðir og Járngerðarstaðir (og eyðijörðin Gestsstaðir í landi Krýsuvíkur), auk þess sem hugsanlega mætti telja Stað til þessa flokks.

Hóp

Hóp – tóftir gamla bæjarins.

Miðað við þessar vísbendingar einar mætti ætla að Hraun og Hóp hafi verið þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík. Sé hins vegar litið til áðurgreindra jarðfræðirannsókna á eldsumbrotum í Skaftafellssýslu, má e.t.v. samkvæmt þeim rekja landnám í Grindavík til 4. áratugar 10. aldar (en engan veginn er hægt að fullyrða um það). Það verður að teljast til síðari stiga landnáms, enda hafði Ari Þorgilsson, ritari Íslendingabókar, það eftir spökum mönnum „…at á sex tegum vetra yrði Ísland albyggt…“. Samkvæmt því væri eðlilegt að þær jarðir sem fyrstar byggðust í Grindavík hafi borið nöfn með endingunni –staðir. Auk þess má benda á að byggð í Grindavík skiptist í þrjú hverfi sem bera nafn af jörðunum Stað, Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum, þ.e. þeim jörðum sem samkvæmt nafnakenningunni teljast til síðari stiga landnáms. Í öllum hverfunum eru þó tvö lögbýli, Staður og Húsatóptir í Staðarhverfi, Járngerðarstaðir og Hóp í Járngerðarstaðahverfi og Þórkötlustaðir og Hraun í Þórkötlustaðahverfi.

Hraun

Hraun – Þórkötlustaðagata fremst.

Ef áðurnefnd kenning um náttúrunöfn ætti að standast í þessu tilviki og Hraun og Hóp væru þær jarðir sem fyrstar byggðust hefði verið eðlilegra að hverfin drægju nafn af þessum fyrstu lögbýlum, þ.e. „Hraunshverfi“ og „Hópshverfi“. En Jón Þ. Þór segir í Sögu Grindavíkur að líklega megi rekja hverfaskiptinguna allt aftur til landnámsaldar. Ef litið er á landfræðilega dreifingu jarðanna má einnig sjá að dreifing jarðanna Staðar, Járngerðarstaða og Þórkötlustaða er mun jafnari ( þ.e. fjarlægð á milli bæjanna er mjög svipuð) en Staðar, Hóps og Hrauns. Hafi landnámsmenn þá viljað skipta landinu bróðurlega á milli sín hefði því verið hyggilegra að velja fyrri kostinn. Þetta eru hins vegar aðeins getgátur einar og ekkert hægt að fullyrða um þessi efni. Standist þessar örnefnakenningar hins vegar má hugsa sér að landnám í Krýsuvík (og Selvogi) hafi orðið fyrr en í Grindavík.

Stóra-Gerði

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Dýrleiki jarða getur oft gefið vísbendingar um byggðaþróun þar sem ætla má að dýrustu jarðirnar hafi byggst fyrstar. Dýrleikinn var fasteignamat sem virðist hafa verið fastsett mjög snemma, a.m.k. þegar á 12. öld og má því hafa hann sem vísbendingu um misjöfn gæði jarðanna. Dýrleiki flestra jarðanna helst sá sami milli 1695 og 1847. Ísólfsskáli, Hraun og Hóp lækka hins vegar verulega í dýrleika á tímabilinu og er líklegt að landbrot sjávar og uppblástur lands séu helstu orsakir þess. Eins og sést er Staður sagður vera í konungseign árið 1847. Neðanmáls í Jarðatali Johnsens segir hins vegar: „Sýslumaður, og eins jb. [jarðabók] 1803, telur jörð þessa konúngs eign, en jb. 1760 og en prentaða stólsjarðabók, með hér greindum dýrleika og lsk., meðal stólsjarða. “Líklega hefur Stað þarna verið ruglað saman við Húsatóptir, sem voru í konungseign (til 1837) og er getið meðal seldra konungsjarða frá 1760 til ársloka 1846 í jarðatali Johnsens. Staðar er hins vegar ekki getið meðal seldra jarða Skálholtsstóls í fyrrgreindu jarðatali og ætti því réttilega að teljast eign Skálholtsstóls en ekki konungs árið 1847.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Í Grindavíkurhreppi var margbýlt á flestum jörðum, og hjáleigur og tómthús voru nokkuð mörg, enda ekki síður treyst á sjósókn en búskap í þessari sjávarsveit. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 eru byggðar hjáleigur 27 talsins. Í Jarðatali Johnsens 150 árum síðar eru þær 23. Búseta á hjáleigum og afbýlum fór þó mjög eftir árferði, spratt upp í góðærum en dróst saman þegar harðnaði í ári, og hefur því verið mjög breytileg í gegnum aldirnar.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Bygging hjáleiga og þurrabúða var að mestu hætt þegar kom fram á 20. öld, en í staðinn var tekið að reisa nýbýli, oft í landi eldri bújarða. Fiskneysla jókst til muna á 12. og 13. öld og sjávarútvegur fór að fá aukið vægi. Ástæða þess er m.a. kólnandi veðurfar, samdráttur í landbúnaði, vaxandi fólksfjöldi, aukin byggð við sjávarsíðuna og tilkoma föstunnar. Verstöðvar tóku þá að spretta upp í Grindavík sem annars staðar þar sem stutt var á miðin og ný stétt manna, búðsetufólk og þurrabúðarfólk, varð til. Það er ljóst að sjávarútvegur hefur leikið stórt hlutverk í Grindavíkurhreppi frá öndverðu og svæðið fljótlega orðið mikilvægt að því leyti. Landgæði eru ekki mikil í byggðarlaginu og hafa í gegnum aldirnar spillst mjög af eldsumbrotum, uppblæstri og ágangi sjávar. Það verður því að teljast einsýnt að í byggðarlaginu hafi menn þurft að reiða sig á sjósókn samhliða búskapnum þar sem landbúnaðurinn einn hafi ekki staðið undir viðurværi manna.

Seltangar

Selatangar – vestasta sjóbúðin.

Verstöðvar voru á tveimur stöðum í Grindavíkurhreppi, í Grindavík og á Selatöngum. Á Selatöngum var útver með nokkrum verbúðum en aldrei föst búseta. Frá Selatöngum var einkum útræði Krýsuvíkurmanna og var síðast róið þaðan 1884. Þar var aldrei stórt útver, en til er gömul þula sem telur 73 menn við róðra þar. Í Grindavík var dæmigert „blandað ver“, þar sem var í senn heimaver, útver og viðleguver.

Keflavík

Keflavík – rekaítak Krýsuvíkurkirkju.

Þegar á 13. öld áttu Viðeyjarklaustur og Skálholtsstaður rekaítök í Grindavík og þótt þess sé ekki getið sérstaklega er líklegt að þessir staðir hafi þá þegar haft skipstöðu þar. Að minnsta kosti varð Grindavík, ásamt Þorlákshöfn, aðalverstöð Skálholtsstóls, enda átti biskupsstóllinn þar allar jarðir nema Húsatóptir þegar komið er fram á 17. öld. Það var jafnan margt aðkomu vermanna í Grindavík en bátafjöldinn var löngum breytilegur eftir árferði. Sem dæmi reru 26 skip þaðan á vetrarvertíð árið 1703, en árið 1767 eru taldir þar 75 bátar. Um 1870 voru 12 skip gerð út frá Grindavík og um aldamótin 1900 voru þau 30. Sögu Grindavíkur sem árabátaverstöðvar lauk ekki fyrr en á þriðja áratug síðustu aldar.

Grindavík

Grindavík – Gerðavellir fremst. Forn verslunarstaður.

Grindavík var einnig verslunarstaður og komu þangað erlend kaupskip allt frá miðöldum fram á 18. öld. Lengi vel, eða fram á 14. öld, sóttu Grindvíkingar líklegast verslun til Eyrarbakka, en fyrst er getið um komu kauskips til Grindavíkur í lok þeirrar aldar. Með vaxandi skreiðarútflutningi varð vægi kauphafnarinnar í Grindavík meira og benda tiltækar heimildir til þess að umsvifin hafi verið orðin þó nokkur á 15. öld. Englendingar og Hansakaupmenn komu mjög við sögu Grindavíkur á 15. og 16. öld, eins og landsins alls. Fyrsta koma ensks skips hingað til lands, sem heimildir greina frá, var árið 1412, en siglingar Englendinga jukust svo á næstu árum. Umsvif þeirra urðu mest á suður- og vesturlandi og Grindavík varð ein helsta bækistöð þeirra ásamt Básendum, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði, Rifi og Flatey á Breiðafirði.

Virki

Virkið Jóhanns breiða ofan við Stórubót.

Aðsetur Englendinga í Grindavík mun hafa verið þar sem heitir „á Hellum“ í Járngerðarstaðahverfi, lítið eitt utan við aðalbyggðina þar. Þegar leið á 2. áratug 16. aldar fór að halla undan fæti hjá enskum kaupmönnum hér við land um leið og vegur Hansakaupmanna fór vaxandi. Um 1520 var svo komið að Englendingar höfðu hvergi fasta bækistöð nema í Grindavík og Vestmannaeyjum. Sögu þeirra í Grindavík lauk svo að fullu með „Grindavíkurstríðinu“ árið 1532 þegar Jóhann Breiði og menn hans voru drepnir í búðum sínum, og síðan dysjaðir þar sem síðan heitir Engelska lág. Eftir þetta komst útgerð í Grindavík að fullu í hendur heimamanna, konungs og kirkju, en Þjóðverjar tóku við versluninni og síðar þegnar Danakonungs. „Enska öldin“ í sögu Grindavíkur hefur því ekki staðið nema í um 14 ár, og samskipti þeirra við heimamenn því e.t.v. ekki verið gríðarleg.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Eftir brotthvarf Englendinga úr Íslandsversluninni færðust Þjóðverjar mjög í aukana og sátu þeir nánast einir að henni í um sjö áratuga skeið. Þessi útgerð og verslun Hansamanna hér við land var konungsvaldinu mikill þyrnir í augum enda stefndi það dönskum yfirráðum beinlínis í hættu. Samtímaheimildir greina ekki frá því hvort Hansakaupmenn stunduðu útgerð frá Grindavík, en það er þó ekki ólíklegt þar sem aðalbækistöðvar þeirra voru á Básendum og í Höfnum. Munnmæli herma að aðsetur þeirra í Víkinni hafi verið á Gerðavöllum í Járngerðarstaðahverfi. Eftir að svonefndur Skipadómur var dæmdur árið 1545 versnaði staða Þjóðverja hér við land til muna. Þeir héldu versluninni þó áfram út öldina en samkeppnin við Dani óx jafnt og þétt.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir – bæir og sögusvið “Tyrkjaránsins” – uppdráttur ÓSÁ.

Með opnu bréfi Kristjáns konungs IV, dagsettu þann 20. apríl 1602, var borgurum í Kaupmannahöfn, Málmeyjum og Helsingjaeyri veittur einkaréttur á allri Íslandsverslun. Lét konungur skipta kauphöfnum hér á landi á milli borganna þriggja og kom Grindavíkurhöfn í hlut Kaupmannahafnar. Hvar í Víkinni verslunin hefur verið er ekki vitað með vissu, en heimildir um Tyrkjaránið árið 1627 herma að danska kaupskipið hafi þá legið á Járngerðarstaðasundi. Hefur verslunin líklega haft bækistöðvar sínar þar til ársins 1639 þegar kaupmenn hættu að sigla til Grindavíkur vegna slæmrar hafnaraðstöðu þar. Urðu Grindvíkingar þá að sækja alla sína verslun að Básendum eða Eyrarbakka.

Húsatóftir

Húsatóftir.

Verslun í Grindavík hófst að nýju 1665 eftir að Skálholtsbiskup hafði hvatt til þess í bréfi. Að þessu sinni fór hún hins vegar ekki fram í Járngerðarstaðahverfi heldur voru verslunarbúðir reistar í Arfadalsvík í Staðarhverfi. Þangað sigldu kaupmenn til ársins 1745 að skyndilega var hætt að sigla þangað og báru kaupmenn fyrir sig að hafnaraðstaðan hefði spillst af sandi. Verslunin lagðist þó ekki af með öllu því nokkurskonar útibúi var haldið úti í Arfadal, þar sem undirkaupmaður frá Básendum sá um móttöku og afhendingu varnings. Grindvíkingar önnuðust sjálfir allan flutning á milli Grindavíkur og Básenda en þáðu kaup fyrir.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Með konungstilskipun og lögum sem gefin voru út 13. júní 1787 var tekin upp svokölluð fríhöndlun á Íslandi, þ.e. öllum þegnum Danakonungs var frjálst að versla á Íslandi. Með lögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og landinu skipt í kaupsvið. Innan kaupsviðanna voru nokkrar úthafnir þar sem sjálfstæðir kaupmenn störfuðu. Með þessu lenti Grindavík, ásamt öðrum höfnum á Suðurnesjum, innan kaupsviðs Reykjavíkur. Eignir konungs á Búðasandi í Arfadal voru boðnar upp en kaupandinn, Árni Jónsson undirkaupmaður á Eyrarbakka, reyndist ekki farsæll í starfi og var versluninni brátt lokað. Næstu öldina urðu Grindvíkingar því að sækja verslun til Keflavíkur.

Hóp

Hóp í Grindavík – uppdráttur ÓSÁ.

Af dreifingu byggðar í Grindavíkurhreppi má greina þrjá byggðarkjarna eða „hverfi“, Staðarhverfi vestast, þá Járngerðarstaðahverfi og loks Þórkötlustaðahverfi. Raunar mætti með nokkrum rökum tala um Krýsuvík og hjáleigur hennar sem hið fjórða hverfi, en byggð þar er skýrt afmörkuð frá annarri byggð í hreppnum. Í heimildum frá 19. öld kemur einnig fram að Grindvíkingar litu margir hverjir á Krýsuvík sem „hverfi“ töluðu gjarnan um Krýsuvíkurhverfi. Ekkert er vitað með vissu um upphaf hverfanna en þó er líklegt að þau hafi tekið að myndast þegar á landnámsöld. Sé frásögn Sturlubókar Landnámu tekin fram yfir Hauksbók, og gert ráð fyrir að allir fjórir synir Molda-Gnúps hafi numið land í Grindavík, má telja hugsanlegt að þeir hafi byggt bæina Stað, Járngerðarstaði og Þórkötlustaði, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það. Þá má einnig ætla að einhverjir úr fylgdarliði þeirra hafi fengið land til búskapar á Húsatóptum og Hrauni. Þessar jarðir auk Hóps hafa svo orðið að lögbýlum sem hjáleigur eða önnur afbýli byggðust útfrá og þannig hafa hverfin smám saman orðið til.

Þórkötlustaðanes

Örnefni ofan bryggjunnar í Þórkötlustaðanesi – uppdráttur ÓSÁ.

Sú staðreynd að sjósókn hefur löngum verið stunduð jafnhliða landbúnaði á svæðinu hefur án efa einnig ráðið nokkru um tilurð og viðhald hverfanna. Um aldamótin 1800 var byggð í Grindavík með sama sniði og þá hafði verið um aldir. Fjölmennast var í hverfunum þremur og Járngerðarstaðahverfi þeirra stærst og þéttbýlast með 59 íbúa. Alla 19. öldina hélt byggðin í Járngerðarstaðahverfi áfram að vaxa og styrkjast og við upphaf 20. aldar var þar orðið til þorp, við og umhverfis Hópið.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1963.

Margt hefur valdið því að þéttbýlisþróunin varð á þennan veg. Járngerðarstaðahverfi lá miðsvæðis í sveitinni og leiðin þangað frá öðrum vaxandi þéttbýliskjörnum á Reykjanesi og við Faxaflóa var bæði skemmri og greiðari en t.d. að Þórkötlustöðum. Auk þess voru skilyrði til lendingar og útróðra betri í Járngerðarstaðahverfi en á Þórkötlustöðum. Síðast en ekki síst tók fyrsta verslun svæðisins til starfa í Járngerðarstaðahverfi um aldamótin 1900, þ.e. sú fyrsta frá því verslun í Grindavík lagðist af í lok 18. aldar eins og áður greinir. Þessi þéttbýliskjarni, einkum vestan megin Hópsins, í Járngerðarstaðahverfi, varð þungamiðja Grindavíkurkauptúns sem síðan hlaut kaupstaðarréttindi árið 1947.”

Heimild:
-Fornleifaskráning í Grindavík – 3. áfangi, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2004.

Grindavík

Grindavík, Járngerðarstaðahverfi, 1958.

Skógfellavegur

Gengið var inn trönusvæðið austan Grindavíkurvegar.

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Í stað þess að fylgja veginum til austurs um svæðið var gengið beint áfram yfir úfið Skógfellahraunið til austurs. Það er erfitt yfirferðar og í rauninni leggjabrjótur, enda var gengið fram á löngu dauðan stakan legg lengst inni í hrauninu, sem einhver hafði misst þarna á leið sinni þar um. Svipast var um eftir öðrum beinum, en engin fundust. Það verður því að draga þá ályktun að viðkomandi hafi komist yfir það á a.m.k. öðrum fætinum. Loks var komið að fínum slóða til suðurs inn í hraunið. Honum var fylgt í átt að Litla-Skógfelli. Miðsvæðis við slóðann er stórbrotið hraun utan í kjarrivöxnum brekkum. Í því eru margir bollar og smáop, en hvergi rásir eða hellar, einungis smáskútar. Vottaði fyrir hleðslu á einum stað.

Skógfellavegur

Skógfellavegur.

Þegar komið var upp á vestari öxlina á Litla-Skógfelli sást vel tilgangur slóðans – leitin að malarnámu. Rótað hafði verið upp á öxlinni og greinilega verið að kanna hvort Litla-Skógfell væri vænlegt til malartekju. (Þess skal getið til að taka af allan vafa að Litla-Skógfell er í óskiptu landi Þórkötlustaðahverfis og ekki er vitað til þess að eigendur þess hafi samþykkt malartekju þarna, hvað þá slóðagerðina, sem einnig er á þess landi).
Haldið var áfram til suðurs að Skógfellastígnum, sem liggur þarna á milli Skógfellanna á sléttu helluhrauni. Stígurinn er klappaður í helluna (sbr. mynd) á löngum kafla. Blankalogn og glaðvær lóukórssöngur í kvöldkyrrðinni við sólarspil. Slóðinn liggur áfram til suðurs inn í hraunið, í átt að Kastinu.

Skógfellavegur

Skógfellavegur – varða.

Gengið var til vesturs um helluhraunið og þá komið aftur að hraunbrún Skógfellshrauns. Kanturinn með hlíðinni er vel gróinn og liggur stígur á milli hennar og hraunsins. Til vesturs mátti sjá slétt mosahraun og virtist þar vel greiðfært yfir hraunið. Ekki sást móta fyrir stíg, en þykkur mosi er þarna yfir. Ef taka ætti mið af svæðinu ofan við hlíðina og hugsanlegu framhaldi af leið vestur yfir hraunið þá væri hún einhvers staðar þarna, en hún væri þá beint framhald af Sandakraveginum til suðvesturs.
Ákveðið var að ganga slóðann til baka. Nyrst við hann er borhola.
Gangan tók 3 klst. Veður var frábært – logn, stilla og sól.

Skógfellavegur

Varða við Skógfellastíg. Litla Skógfell framundan.

Urriðakotsfjarhellir

Árið 2007 fjalla Árni Hjartarson og Ingibjörg Kaldal um Verndargildi jarðminja í Urriðakotssdölum [Urriðavatnsdölum].
Hér á eftir er getið um það helsta í skýrslunni, sem unnin var fyrir Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowreglunnar. Umfjöllun um hella er að mestu sleppt, enda villugjörn.

Stutt yfirlit um jarðfræði svæðisins.

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Hæðirnar beggja megin við Urriðakotshraun eru úr síðkvarterum grágrýtishraunlögum (Helgi Torfason et al. 1993). Norðan til í Urriðaholti og Vífilstaðahlíð er svonefnt Reykjavíkurgrágrýti sem myndar undirstöður undir miklum hluta höfuðborgarsvæðisins allt utan frá Engey og Viðey og suður um Álftanes og Hafnarfjörð. Ofan á það leggst Breiðholtsgrágrýtið. Báðar þessar myndanir eru beltótt dyngjuhraun, fremur ferskt, með misþykkum hallalitlum flæðieiningum (hraunbeltum) úr þéttu bergi með þunnum kargalögum í milli. Holufylling er lítil en þó er brúnleitur leir víða í sprungum og glufum. Lögin eru um 100–200 þús ára gömul, komin frá ýmsum eldstöðvum en upptök þeirra flestra eru óþekkt. Neðsti hluti þeirra ber víða vott um hraða vatnskælingu og hafa grágrýtishraunin því líklega runnið í sjó.

Hjallar

Hjallamisgengi.

Berggrunnurinn er nokkuð sprunginn og misgenginn en ekki er að sjá að sprungurnar gangi út í hraunið á svæðinu sem hér er til umfjöllunar. Það er ekki fyrr en syðst í Selgjá að komið er í yngri höggun, þ.e. sem hefur verið virk eftir að Búrfellshraunið rann (Jón Jónsson 1965, Guðmundur Kjartansson 1973). Þar ganga Hjallamisgengið svokallaða og nokkur minni misgengi því tengt austan aðalmisgengisins þvert yfir hraunið. Jón Jónsson telur Hjallamisgengið vera alls um 12 m í hrauninu en utan þess er það allt að 65 m. Af því má ráða að höggun hefur verið virk þar löngu áður en hraunið rann og hún hefur haldið áfram eftir að það rann. Í hrauninu eru misgengisbrúnir allar mjög skarpar en í grágrýtisholtunum eru þær máðar af ísaldarjöklinum.

Búrfellshraun

Kort af rennsli Búrfellshrauns.

Víðast hvar þekja laus jarðlög berggrunninn en þó má sjá berar klappir eins og t.d. milli Grunnavatna, í Víkurholti og í Hádegisholti. Jökulruðningur hylur víða holt og hæðir en annar staðar er hann þunnur og ósamfelldur. Í holtunum vestan Urriðakotshrauns er varla hægt að tala um jökulruðning heldur er þar mest um veðraðan berggrunn. Grettistök, sem ísaldarjökullinn hefur rifið laus og flutt til, sjást þó víða og eru sum þeirra allvegleg (mynd 2). Af jökulkembum og jökulrákuðum klöppum má sjá að síðasta skrið jökulsins á svæðinu var til norðvesturs frá Bláfjallasvæðinu út á Faxaflóa. Ummerki hæstu sjávarstöðu í ísaldarlokin eru í um 35 m hæð yfir sjó sunnan Urriðavatns en í um 40 m y.s. við Vífilsstaðavatn (fara hækkandi til norðausturs á þessu svæði) (Skúli Víkingsson o.fl. 1995, Hreggviður Norðdahl og Halldór G. Pétursson 2005). Sjór hefur því að öllum líkindum náð inn í skarðið milli Urriðaholts og Vífilsstaðahlíðar þegar hæst stóð í ísaldarlokin.

Urriðakot

Urriðakot – túnakort frá 1908.

Hraunstraumurinn sem rann frá Búrfelli í sjó fram nefnist einu nafni Búrfellshraun en hefur fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Sá hluti sem þessi skýrsla fjallar um nefnist Urriðakotshraun. Samkvæmt örnefnaskrám nær það frá Vífilsstaðahrauni og inn að Selgjá. 2.3.1 Aldur hraunsins
Búrfellshraun er með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu. Það kom frá Búrfelli, sem er stakur gígur á hinu mikla sprungu- og misgengjasvæði sem teygir sig allt sunnan frá Krýsuvík, um Heiðmörk og norður fyrir Rauðavatn.

Bali

Balavarða og Balaklettar.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur lét gera aldursgreiningar af því og birti í grein í Náttúrufræðingnum. Ein er af birkilurki ofan á hrauninu við Balaklett í Hafnarfirði, annað af fjörumó rétt undir hrauninu við Balaklett og það þriðja er úr neðstu jurtaleifum í sniði við Balaklett. Aldur hraunsins ætti að vera lítið eitt yngri en aldur fjörumósins, en aldursgreining á honum gaf 7240 ±130 14C ár. Þegar umreiknað er yfir í raunaldur (Stuvier og Reimer 1993) fæst að fjörumórinn er um 8100. Hraunið sjálft er lítið eitt yngra eða rétt um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f.Kr.

Upptök.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Gígurinn, Búrfell, er það eldvarp sem næst er byggð á höfuðborgarsvæðinu. Hann er af þeirri gerð sem nefnist eldborg, en eldborgir einkennast af því að gosið hefur átt sér stað á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir slíkir hliðargígar eru hjá Búrfelli, það stendur eitt og stakt, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum. Bergið í Búrfellshrauni er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Ólivínhnyðlingar finnast víða í hrauninu. Um þetta sem og fleira svipar hrauninu til dyngjuhrauna.

Kaldá

Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.

Í upphafi gossins rann hraunið til vesturs í átt að Kaldárseli því misgengisstallar vörnuðu því leið skemmstu leið í átt til strandar. Guðmundur Kjartansson nefnir að hugsanlegt sé að hluti þess hafi runnið í sjó við Straumsvík en sé nú hulinn yngri hraunum. Nýlegar boranir við skoplhreinsistöð austur af álverinu leiða í ljós að svo er. Þar kemur hraunið fram neðst í borholunni SVK-02. Þar er yfirborð hraunsins á 15,5 m dýpi, sem er 8 m undir sjávarmáli. Seinna í gosinu, þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig, komst það yfir misgengisþröskuld við Kaldá og gat þá runnið niður með Ásfjalli og til Hafnarfjarðar. Þegar enn lengra leið á gosið komst hraunið yfir misgengisstalla við Smyrlabúð og flæddi eftir það niður með Vífilsstaðahlíð og til sjávar í Arnarnesvogi. Sjór stóð lægra í heimshöfunum þá en hann gerir nú svo ystu tungur hraunsins teygja sig út fyrir ströndina.

Búrfellshraun

Búrfellshraun.

Stærð Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð. Flatarmál hraunsins á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og hafa t.d. þakið alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 26 km2 að flatarmáli. Jón Jónsson (1978) álítur meðalþykkt hraunsins vera um 20Stærð Búrfellshraun er miðlungshraun að stærð. Flatarmál hraunsins á yfirborði er rúmlega 16 km2. Ekki er gott að átta sig á hversu stórt hraunið hefur verið í upphafi því yngri hraunstraumar hafa runnið yfir það og hafa t.d. þakið alla álmuna sem teygði sig til sjávar við Straumsvík. Hér er reiknað með því að þriðjungur hraunsins sé hulinn og það sé því 26 km2 að flatarmáli. Jón m og byggir það á borholugögnum frá Hafnarfirði og Garðabæ. Rúmmál hraunsins er því um 0,5 km3.

Hrauntraðir

Kringlóttagjá

Í Kringlóttugjá.

Miklar hrauntraðir mynduðust í Búrfellshrauni meðan á gosinu stóð við það að hrauná rann út úr gígnum í lengri tíma og myndaði eins konar farveg. Elsta tröðin liggur niður hjá Kaldárseli og hefur myndast meðan aðalhraunið rann niður hjá Ásfjalli til Hafnarfjarðar. Hún nefnist Lambagjá. Búrfellsgjá og Selgjá eru yngri hrauntraðir, en þær eru í hraunstraumnum sem rann niður með Vífilsstaðahlíð. Yngst er svonefnd Kringlóttagjá en hún er sunnan við Búrfellsgíg og hefur orðið til í lokahrinum gossins.

Búrfell

Búrfellsgjá.

Búrfellsgjá á sér fáa sína líka á landinu. Næst gígnum, þar sem halli er mikill er gjáin þröng (20-30 m) og með bröttum veggjum (hin eiginlega Búrfellsgjá) en er niður á jafnsléttu kemur verður hrauntröðin lægri og víðari. Þar sem Hjallamisgengið sker hraunið eru gjár og stallar, þar er Hrafnagjá, við hana skiptir hrauntröðin um nafn og heitir Selgjá þar utan við. Búrfellsgjá og Selgjá eru yfir 200 m breiðar þar sem þær eru breiðastar. Vegna síðari tíma höggunar og landsigs í grennd við Búrfell liggur Selgjá nú ofar í landi en Búrfellsgjá. Veggir gjánna eru víða 5–10 m háir og sums staðar þverhníptir og slútandi þannig að víða eru skjól og skútar sem þóttu fyrrum ágætt afdrep fyrir sauðfé í vondum veðrum. Við utanverða Selgja eru veggirnir þó lægri. Undir gjárveggjunum eru einnig fjöldi gamalla seljarústa og minja um forna búskaparhætti.

Hraunhellar.

Þorsteinshellir

Fjárskjól við Selgjá (Þorsteinshellir).

Neðan við Selgjá hefur hrauná runnið áfram á yfirborði, en einnig í rásum undir storknuðu yfirborði hraunsins (sjá kafla 4.3). Þar eru fjölmargir skútar og hraunhellar. Samkvæmt skilgreiningu er talað um hraunhelli ef hann er >20 m langur og manngengur, en annars er talað um skúta (Björn Hróarsson 1990). Önnur skilgreining sem stundum er notuð af hellarannsóknamönnum er sú að hraunhellir sé “samheiti allra holrúma í hraunum þar sem myrkur ríkir” (Björn Hróarsson 2006).

Þekktir hraunhellar í Búrfellshrauni (Björn Hróarsson 2006):

Nafn Lengd – m. aths.
Kaldárselshellar Nokkrar hraunbólur, fjárskjól
Hreiðrið 60
Ketshellir 30 Í Smyrlabúðarhrauni
Kershellir/Hvatshellir 50 Í Smyrlabúðarhrauni
Setbergsselshellir 15
Þorsteinshellir (Sauðahellirinn syðri)
Selgjárhellir (Skátahellir syðri) 237
Skátahellir nyrðri Skúti
Vífilsstaðahellir 22 Maríuhellar
Urriðakotshellir 22 Maríuhellar
Draugahellir 80 Maríuhellar
Jónshellir (Jónshellar) 79
Hraunsholtshellir (Arneshellir) Skúti

Niðurstöður.

Maríuhellar

Í Maríuhellum.

Urriðakotshraun er merkileg náttúrusmíð eins og segja má um öll hraun á Íslandi og fágætt landslagsform þegar litið er til jarðarinnar í heild. Það er hins vegar ekki hægt að segja að það sé ósnortið í dag og verður að skoðast í því samhengi. Um hraunið liggja akvegir, göngustígar, reiðvegir og raflínur og auk þess var umtalsverð efnistaka um tíma í Bruna skammt sunnan við Dyngjuhól. Þar hefur nú verið útbúið útivistarsvæði. Einnig hefur töluvert verið gróðursett af trjám á kafla í hrauninu. Mest af þessum framkvæmdum eru snyrtilega gerðar og falla víðast hvar vel að hrauninu en helst má setja út á reiðveginn, en dæmi eru um að rutt hafi verið úr hraunkollum við lagningu hans. Slík sár eru ákaflega ljót og áferð hraunsins þar spillt. Hraunið í heild er skemmtilegt útivistarsvæði og býr yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum. Hinar jarðfræðilegu minjar eru, eins og rakið hefur verið hér að framan, hraunsvigður, hrauntraðir, fallegir hólar og hryggir, sprungur og gjár og ekki síst hraunhellar. Þetta þarf allt að vernda.

Heimild:
-Árni Hjartarson Ingibjörg Kaldal – Urriðavöllur; Verndargildi jarðminja í Urriðakotsdölum. Unnið fyrir Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowreglunnar, ÍSOR – febrúar 2007.

Urriðakotsdalir

Land Oddfellow í Urriðakotsdölum.

Krýsuvíkurkirkja

Íslensku biskuparnir áttu árlega að fara um biskupsdæmi sín og koma í hvern hrepp, svo að menn næðu fundi þeirra, vígja kirkjur, ferma börn og veita mönnum skriftagöngur. Þetta nefndist að vísitera.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1811.

Prófastar virðast hafa átt að fara einu sinni á ári um sóknir í umdæmi sínu. Breytingar urðu á þessu við siðaskipti með kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537 og síðar með kirkjuskipun Kristjáns IV árið 1607, Norsku lögum Kristjáns V árið 1687 og erindisbréfi biskupa árið 1746.
Bækur þær, sem í er skráð það, sem fram fer við visitasíu, nefnast visitasíubækur. Þar er fyrst og fremst lýst eignum kirkna, föstum og lausum, og ítökum, eignarbréfum, kirkjuhúsi, skrúða og innanstokksmunum og fylgifé með áorðnum breytingum frá síðustu visitasíu, tekjum og gjöldum, kunnáttu og framferði prests og safnaðar og samkomulagi þeirra. Elstu, íslensku biskupsvisitasíubækurnar eru frá fyrri hluta 17. aldar. Fyrirrennarar þeirra voru máldagabækur, þar sem skráðar voru eignir kirkna og ítök.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789.

Prófastar urðu umboðsmenn (þ.e. aðstoðarmenn) biskupa með kirkjuskipun Kristjáns III árið 1537. Þeir áttu að vísitera hverja kirkju í umdæmi sínu árlega, athuga reikninga kirkna, skýra barnalærdóm, veita náðarmeðul, kanna kunnáttu og hegðun sóknarfólks, athuga kirkjur og kirkjugarða og kynna sér launamál presta.
Væntanlega hafa prófastar tekið biskupa sér til fyrirmyndar með færslu visitasíubóka. Elsta prófastsvisitasíubókin er „Héraðsbók“ Halldórs Jónssonar í Reykholti fyrir árin 1663-1699. Sú bók er allt í senn: Bréfa-, visitasíu- og máldagabók. Sömu atriði eru tekin til meðferðar í visitasíubókum biskupa og prófasta.

Krýsuvík

Krýsuvík 1789. Norðurkot er neðst t.v.

Máldagi er skjal, þar sem skráðar eru eignir kirkju og ýmis réttindi og tekjustofnar sem hún á að njóta. „Máldagi“ hefur einnig merkinguna „samningur“, og e.t.v. var máldagi kirkju upphaflega samningur um eignaskipti milli kirkjubóndans og kirkjunnar. Orðið máldagi var einkum notað í kaþólskri tíð.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Vísitasía biskups.

Umsjónarmönnum kirkna var skylt að láta skrá máldaga viðkomandi kirkju og halda honum við. Biskupar höfðu eftirlit með því að það væri gert. Einnig átti að lesa máldagann upp einu sinni á ári við fjölmenna messu. Elsti máldagi sem varðveittur er í frumriti er Reykjaholtsmáldagi, um eignir Reykholtskirkju í Borgarfirði. Elsti hluti hans er frá því um 1180. Hugsanlegt er að rithönd Snorra Sturlusonar sé á hluta máldagans.

Íslensku kirkjumáldagarnir eiga sér enga hliðstæðu í Norður-Evrópu, og veita mjög mikilvæga yfirsýn um eignir og búnað íslenskra kirkna frá því á 12. öld og fram yfir siðaskipti.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Vísitasía.

Árið 1789, 24. júlí, var gefin út tilskipun um ráðstafanir til viðurhalds á eignum kirkna og prestakalla á Íslandi og því, sem þeim fylgir. Þar var próföstum boðið að taka út kirkjur, prestssetur og kirkjujarðir, þegar prestar dæju eða færu frá brauðunum eða þess gerðist þörf eins og ævagömul venja væri til á Íslandi. Úttektargerðirnar skyldu ritaðar í kirkjubókina (þ.e. kirkjustólinn) og lýst nákvæmlega ásigkomulagi hvers hlutar og getið breytinga frá síðustu úttekt svo og álags. Þessi tilskipun gildir enn (2017) í flestum atriðum. Ákvæðið um kirkjubækur er t.d. þar með.
Þegar kemur fram yfir 1900, fór mjög að draga úr færslu kirkjustóla. Virðast menn oft láta sér nægja að færa visitasíur og skoðunargerðir kirkna inn í visitasíubækur biskupa og prófasta, og hvað varðar kirknareikninga, hafa lögin um innheimtu og meðferð á kirknafé nr. 20/1890, 22. maí, líklega haft þau áhrif, að margir hættu að skrá reikningana í kirkjustóla en í staðinn á laus blöð eða eyðublöð, því að lögin gera ráð fyrir endurskoðun reikninganna af hlutaðeigandi presti eða safnaðarfulltrúa og síðan prófasti.

Krýsuvíkurkirkja – altaristafla?

Altaristafla

Altaristafla í kirkju fyrrum.

Krýsuvíkurkirkja var byggð árið 1857 og endurbyggð og endurvígð árið 1964.
FERLIR sendi Þjóðskjalasafni Íslands eftirfarandi fyrirspurn: “Kemur eitthvað fram í gögnum safnsins um altaristöflu í Krýsuvíkurkirkju. Í ferðabók Englendings frá því á ofanverðri 19. öld segir að í kirkjunni sé „altaristafla, bogadregin að ofan“.
Þjóðminjasafnið kannast ekki við að altaristafla hafi verið til í kirkjunni. Krýsuvíkursókn var á þessum tíma ýmist færð til Selvogs eða að Stað í Grindavík. Einhverjir kirkjugripir gætu hafa færst á milli kirknanna á þesum tímamótum, líkt og kirkjugripir frá Staðarkirkju að Grindavíkurkirkju 1907 og voru flestir þeirra þá geymdir á lofti nýju kirkjunnar.
Þórarinn Snorrason, nú látinn, sýndi okkur forna dýrgripi Selvogskirkju (Strandarkirkju) á sínum tíma, en þar var þá enga aðra altaristöflu en þá er nú prýðir kirkjuna að finna.
Líklegt má telja að altaristafla hafi prýtt Krýsuvíkurkirkju á 19. öld, allt til upphafs þeirrar 20. og þá verið talin henni til eignar.”

Krýsuvík

Krýsuvík – bæir fyrrum.

Svar: “Þjóðskalasafnsins var afrit af tveimur Vísatasíum biskups, annað frá 1875 og hitt frá 1911”. Ekkert kemur fram um altaristöflu í þessum “tasíum”, en þær eru þó fróðlegar fyrir margt:

Vístasíubók Íslands-biskupsdæmis 1868-1898; Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Visitasíubók 1911.

“Ár 1875, 4. dag júnímánaðar vísiteraði biskupinn yfir Íslandi Dr. P. Pjetursson kirkju og söfnuð að Krýsuvík. Hún á alla Herdísarvík, 1x mælira lands á þórkötlustöðum, hálfan hvalreka í Hraunsnesi, milli Rangárgjögurs og marks við Besstaðinga, og enga grasnautn með, 3 hluti hvals, en Viðeyjingafjórðung, en frá Mígandigróf til Kirkjufjöru eiga staðir í Skálholti og Krýsuvík helming hvals og viðar og alla grasnautn og allan reka á Kirkjufjöru og þaðan frá og til marks við Herdísarvík hálfan hval og viðreka og alla grasnautn, en í Herdísarvík á staðurinn í Skálholti helming viða við Krýsuvík; þriðjun hvalreka eiga báðir staðir saman til marks við Strandamenn, en fjórðung hvala við Strandamenn til Vogs; hálfan tóftung hvals á Krýsuvík í Strandarhluta.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Húsið sjálft er úr timbri í 5 stafgólfum með tvöfaldri súð, 4 bitum og 2 sexrú’na gluggum á hverri hlið og 1 4 rúðna glugga á vesturstafni. Í framkirkjunni eru 5 bekkir hvoru megin og 1 sæti að auk að sunnanverðu; í kórnum eru hálffóðraðir bekkir allt í kring. Altari lítilfjörlegt með óskrálæstri hurð. Af ornamentis á kirkjan silfurkaleik með gylltri platínu úr silfri og coporadúk? bilaðan úr rósasilki. Í skrúða á kirkjan 1 rikkilín og hörkul úr rósadamanski fóðraðan, 2 altarisklæði, hvar af annað er með silkikögri á einn veg; kirkjan á tvo ljósstjaka úr tinu frá 17. öld.

Krýsuvík

Krýsuvík 1887.

Enn eru þeir sömu gallar á húsinu, sem seinustu prófastsvísitasíur tilgreina; porzionsreikningur? er heldur ekki aflagður fyrir þetta faradagaár né hin seinustu síðan 1871, enda virðist ekki fjárhald kirkjunnar hafa verið falið í hendur nokkrum eigenda hennar, sem eru fleiri en einn, nema hvað prófasturinn í seinustu vísitasíu hefur talið það eðlilegt, að kirkjubóndinn, Sjr. Jón Odsson hefði það á hendi, eins og hann hérmeð af mér er skipaður til eftirlieðis að vera fjárhaldsmaður kirkjunnar, að innkalla allar tekjur hennar, endurbæta húsið svo það verði sómasamlegt guðshús og gjöra reglulegan reikning fyrir tekjum og útgjöldum kirkjunnar eftirleiðis og að svo miklu leyti auðið er fyrir hin síðustu ár, og tekst hann þetta starf á hendur, og lofar að ræða bót á göllum kirkjunnar þetta ár, en gallar þessir, sem eins og áður er sagt eru taldir í seinustu prófastsvísitasíu, eru einkum þeir að ytri súð þarf að leggja á suðurhlið kirkjunnar og smíða nýjar gráður.
Kirkjugarðurinn þarf endurbóta við.”

Þrjú börn mættu til yfirheyrslu.
aelum ut supra

Undir skrifa þrettán einstaklingar, s.s. P. Pjetursson, Jón Oddsson, Vigfús Guðnason, Jón Jónsson, Guðmundur Vigfússon, Steingrímur Steingrímsson, Lárus Halldórsson, Björn Björnsson og Einar Einarsson.

Vístasíubók Íslands-biskupsdæmis 1900-1912; Krýsuvík

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

“Ár 1911 hinn 21. sept. var biskup Þórh. Bjarnarson staddur Krýsuvík í Kjalarnesþingi. var hann þangað kominn til að hafa eigin sjón af kirkjunni,hafði bæði prófastur í skýrslum lýst afar bágbornu ástandi hennar og sóknarpresturinn hafði við komu sína til Reykjavíkur 20. þ.m. lýst kirkjuna alófæra til messugjörðar.
Biskup var að öllu sammála síðustu vísitasíu prófasts 20. júlí 1910, sem hjer umfærist til athugunar:
“Húsið er byggt 1857 úr timbri, á því hefir í upphafi verið ósmekkleg mannasmíð, gerðin ókirkjuleg, veggir mjög lágir, ekki fullar 3 álnir, undir bita, sem er um þvera kirkjuna framanverða, og á þeim afþiljað geymsluloftm gluggar afleitir og aðeins 4 á húsinu og veita ekki nægilega birtu nema vel sje bjart í lofti. Turnlaus hefur hún verið frá upphafi, og ekkert merki þess á henni að utan að hún sje kirkja. Járnvarin er hún öll að utan. Að innri gerð hefir hún aldrei sómt sér vel sem guðsþjónustuhús, en er svo úr sér gengin hið innra að hún getur ekki talist sæmilegt hús til safnaðarguðsþjónustu nema verulega sje fáguð og umbætt, enda ber á fúa á innviðum(sperra lá gjörfúinn af fúa) á suðurhliðinni og altari og grátur í versta ástandi og vegna súgs og kulda er hún alls óhæfileg til þeirrar notkunar að vetrarlagi. Prófastur hyggst að bera undir álit biskups og leita íhlutunar hans um hver ráð verði höfð til þess að bæta úr þessum vandræðum.

Krýsuvík

Krýsuvík 1943.

Muni kirkjunnar segir ábúandi sína og verið hafi – hvorki viðbætst nje reitt burtu fallið. Sem stendur eru aðeins tvö heimili í sókninni, og á báðum til saman að jafnaði nær 30 manns. Kirkjugarður þarf umbóta. 7 voru atkvæðisbærir við nýlega afstaðna pretskosningu.”
Biskup álítur að gera verði gangskör að því við eigendur kirkjunnar sem eru erendis að endurreisa hana hið fyrsta. Um viðgerð getur eigi verið að ræða. Verður prestur í bráð að flytja predrikanir sínar í heimahúsum í Krýsuvíkursókn.
Lýst var því yfir af viðstöddum sóknarnefndaroddvita að það sje eindregin vilji hins fámenna safnaðar að kirkja haldist í Krýsuvík enda ómissandi eftir landslegu.
Kirkjugarður er illa varinn og ætlar sóknarnefnd úr að bæta.
Kirkjugjöld hafa eigi verið innheimt nokkur hins síðustu ár en munu að mestu leyti vera fyrir hendi til endurbyggingar hennar.”
Skrúði kirkjunnar allgóður en nokkuð forn. Tveir altarisstjakar með ártalinu 1650.

Sjá meira um Krýsuvíkurkirkju HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Þórh. Bjarnason

Heimildir:
-https://ordabelgur.skjalasafn.is/kb/visitasiubaekur/
-https://is.wikipedia.org/wiki/M%C3%A1ldagi
-Krýsuvíkurkirkja – biskupsvísitasía 1875
-Krýsuvíkurkirkja – biskupsvísitasía 1911

 

 

 

Garðaholt

Tveir “stríðskampar” voru í Garðaholti á stríðsárunum, báðir í sunnanverðu holtinu, austan núverandi samkomuhúss (Garðaholts). Á báðum stöðunum má enn sjá leifar mikilla minja frá þessum tíma.

Garðaholt Camp Gardar voru sunnan móta Garðavegar og Garðholtsvegar á austanverðu Garðaholti. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir undirfylki (Company) úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í marsmánuði árið eftir tóku liðsmenn 11 Durham Light Infantry Regiment við og því næst 1 Tyneside Scottish Regiment í október sama ár. Í desember 1941 tók undirfylki C og flokkur úr 10th Infantry Regiment Bandaríkjahers við búðunum og dvaldi þar fram í júlí 1943 er hersveitin hélt af landi brott. Að jafnaði höfðu um 170 Bandarískir hermenn aðsetur í búðunum.

Garðar

Leifar í Camp Tilloi á Garðaholti.

Camp Tilloi var við Garðaholtsveg á austanverðu Garðaholti á móts við Grænagarð. Loftvarnabyssuvígi á Garðaholti þar sem húsið Grænigarður stendur í skógræktarlundi. Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir stórskotaliðsflokk (Section) úr 4 Heavy Anti Aircraft Battery sem hafði tvær 3,7 þumlunga loftvarnabyssur á Garðaholti ofan við veginn og þar sem nú stendur húsið Grænigarður í skógræktarlundi á holtinu. Herflokkurinn fluttist í nýtt loftvarnabyssuvígi á Laugarnesholti í Reykjavík í júlí 1941. Þá tók við samskonar flokkur á Garðaholti úr 203 Heavy Anti Aircraft Battery en sú liðsveit hafði einnig byssuvígi við Breiðabólsstað á Álftanesi og á Kópavogshálsi.

Garðaholt

Leifar í Camp Tilloi á Garðaholti.

Bandaríska stórskotaliðssveitin 494 Coast Artillery Battalion (AA) tók við í ágúst 1942 til október 1943 en þá tók Battery D, 748th Anti Aircraft Gun Battalion (áður 25th (Separate) Coast Artillery Battalion) við. Starfrækslu loftvarnarbyssanna í Camp Brighton við Breiðabólsstað var þá hætt en sveitin starfrækti loftvarnabyssuvígið á Garðaholti þar til í febrúar 1944 þegar sveitin flutti til Keflavíkurflugvallar. Um 140 – 170 bandarískir hermenn höfðu jafnan aðsetur í Camp Tilloi.

Garðaholt

Garðaholt – herkampar.

Samtals voru í Gardar og Tilloi-búðunum 36 braggar og 9 hús af öðrum gerðum þegar báðar höfðu verið yfirgefnar.

Heimildir:
-Herbúðir bandamanna í Hafnarfirði og nágrenni í síðari heimsstyrjöld. Samantekt eftir Friðþór Eydal, 1. ágúst 2011
-Skjöl bandaríska og breska hersins og Sölunefndar setuliðseigna í þjóðskjalasöfnum Bretlands, Bandríkjanna og Íslands.

Garðaholt

Garðaholt – herkampar; skilti.

Lónakot

Kornelíus Jónsson (1915) úrsmiður og gullsmiður í Reykjavík byggði fjárhús fyrir ofan Lónakot um 1960 þegar hann keypti hluta Lónakots jarðarinnar af Sæmundi Þórðarsyni kaupmanni. Sæmundur keypt jörðina 1939 af Guðlaugi Engilbert Sveinssyni (1883-1955). Guðlaugur sem ætíð var nefndur Laugi Lóna, flutti þá búferlum frá kotinu inn í Hafnarfjörð.
lonakot-245Guðlaugur tók við Lónakoti árið 1902, en þá hafði jörðin verið í eyði í tvö ár eftir að Hallgrímur Grímsson og seinni kona hans Rannveig Ólafsdóttir fluttu þaðan ásamt fjórum börnum sínum. Fimmta barnið höfðu þau misst úr skarlatsótt aldamótaárið 1900. Þeim var gert ókleift að búa í Lónakoti eftir að bæjarhúsin voru brennd í kjölfar farsóttarinnar sem kom upp á bænum. Þegar Guðlaugur tók við jörðinni hófst hann handa með að byggja nýjan bæ á Bæjarhólnum. Hann bjó í Lónakoti ásamt sambýliskonu sinni Guðríði Jónsdóttur og þeim fæddist dóttirin Jónína Björg 1904. Þegar Guðlaugur og Guðríður fluttu frá Lónakoti á þriðja áratug 20. aldar eins og svo margir aðrir Hraunamenn, héldu þau áfram að nýta jörðina fyrir búfénað sinn. Þau bjuggu þá í litlu bakhúsi við Krosseyrarveg.

Lónakot

Lónakot – yrðlingabyrgi.

Þegar einir 30 metrar eru eftir að Suðurgarði Lónakots, tvíhlaðið túngerði sem er að mestu fallið, er sprunga á vinstri hönd sem búið er að fylla af grjóti. Þetta er Yrðlingabyrgið sem Hallgrímur Grímsson útbjó til að ala upp tófuyrðlinga nokkru fyrir aldamótin 1900, væntanlega í þeim tilgangi að slátra þeim og selja skinnin. Hallgrímur var bóndi í Lónakoti frá 1888 til 1900, en stundaði einnig róðra frá Suðurnesjum, m.a. frá bænum Kalmannstjörn í Höfnum.

Rétt innan suðurhliðsins, austanvert við götuna er þúfnakargi og lítil fjárhústóft með hlöðnum einföldum garði umhverfis, Kotagarði. Þetta svæði nefnist Kofinn eða Dys í Koti og rétt austar er fjárgerði sem kallast Kotagerði.
lonakot-246Þarna mun gamli Lónakotsbærinn hafa staðið áður en Landlæknir lét brenna kotið eftir að skarlatssótt kom upp. Tveimur árum síðar voru bæjarhúsin byggð upp á Bæjarhólnum, sprungnum hól í miðju túni við Norðurtjörn.
Austur af Bæjarhólnum er Vökhóll, einnig nefndur Krumfótur og Sönghóll. Efst á honum er Vökhólsþúfa eða Sönghólsþúfa. Sunnan hólsins var syðra túngarðshliðið og frá því lá Lónakotsgatan syðri í áttina að Brunntjörn vestan Straums og suður á Alfaraleið. Nyrðra túnhliðið var norðan hólsins, milli hans og Norðurfjárhúsanna, en tóftir þeirra standa enn á sjávarbakkanum. Þar austur með sjónum lá Lónakotsgatan nyrðri að Óttarsstöðum, einnig nefnd Sjávargatan.

lonakot-247Fyrir ströndu eru Lónakotsfjörur og út frá Norðurfjárhúsum eru sléttar hraunklappir sem nefnast Lónakotsnef. Þar vestur af er Gráasker, sem áður var grasi gróið og þurfti að vakta fé sem þangað sótti svo það flæddi ekki í skerinu.
Til austurs frá Lónakotsnefi liggur Gjögur allt austur að Sönduvík eða Sandavík og Söndu, sem er sendinn kafli innan við lábarið stórgrýti sem sjórinn hefur slípað af mikilli einurð. Söndugrjót nefnist þessi stórgrýtti sjávarkampur og innan hans er Söndutjörn.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Innan við Söndugrjótið er Markhóll, krosssprunginn hóll með Markhólsþúfu. Markaklettur stendur fram í fjörunni þar sem mörkin milli Lónakots og Óttarsstaða eru. Þessi klettur er að mestu horfinn í grjótið. Línan liggur síðan í gegnum Markhólinn sem áður er nefndur, um austasta hluta Lónakotsvatnagarða rétt vestan Vatnagarðafjárskjóls og þaðan suður í Sjónarhól sem er áberandi sprunginn hraunhóll sem sést víða að. Þaðan er línan í kletta austan Lónakostssels og í Mið-Krossstapa.

Með sjávarbakkanum frá Norðurfjárhúsum til vesturs var mikill tvíhlaðinn grjótgarður nefndur Norðurtúngarður eða Sjóvarnargarður. Miklar skemmdir urðu á honum í stórflóði og áhlaupi veturinn 1958.

Lónakot

Lónakot – fjaran.

Þótt reynt hafi verið að halda honum við eftir það hefur sjórinn haldið áfram af seiglu sinni og nú er garðurinn að mestu horfinn og Norðurtúnið hefur spillst verulega af sjávargangi. Sunnan Norðurtjarnar er Suðurtúnið en vestan hennar Seltúnið. Þar eru tóftir fjárhúss Sæmundar Þórðarsonar, en þakið fauk af húsinu stuttu eftir að hann hætti að nýta það og nú er þar tóftin ein eftir.
Frá Norðurtúngarðshliði til vesturs lá Sjávargatan sem enn markar fyrir. Þessi gata var gerð vagnfær um 1920 til að hægt væri að sækja rekavið sem töluvert var af á þessum slóðum. Enn er hægt að sjá hvar gatan hefur verið hlaðin og rudd en hún er ekki vagnfær lengur því mikið stórgrýti þekur svæðið að stórum hluta.

nypuskjol-245

Lónakotsvör, sumarvörin var vestan túngarðsins, en hún var með öllu ófær í illviðrum og á vetrum. Nokkru vestar er Brimþúfa uppi á kletti en í fjörunni er Mávahella, þar sem Mávar og Skarfar viðra sig gjarnan þegar svo ber undir.
Þó nokkru vestar er strýtulagaður hraunhóll sem nefnist Nípa. Suðaustan Nípu er einskonar jarðfall með skúta sem snýr til suður. Þar var í eina tíð hlaðið fyrir og reft yfir því sauðfé var haldið til beitar á vetrum á þessum slóðum. Enn er hægt að sjá hleðslurnar og fúna rafta sem eru löngu fallnir, þar sem áður var fjárskjólið Nípuskjól. Nær sjávarbakkanum er Nípurétt, nátthaginn þar sem smalinn bældi fé sitt að næturlagi.
Þegar komið er framhjá Nípu blasa við klettar upp af ströndinni með grösugum bölum sem umkringdir eru hlöðnum túngörðum. Þar eru einnig hlaðnar réttir sem klettarnir bera nafn af því þeir kallast Réttarklettar. Sauðfé sækir mjög í fjörubeit á þessum slóðum þegar það er látið ganga sjálfala í hrauninu á vetrum.
Dulatjarnir-245Nokkru vestar er áberandi klettar sem nefnast Dulaklettar og umhverfis þá eru grastór og tjarnir sem kallast Dulatjarnir. Þar gætir flóðs og fjöru og þorna tjarnirnar þegar lágsjávað er. Duli er gamalt fiskimið í Lónakotsdjúpi sem Seltirningar notuðu gjarnan og þar þótti mjög fiskisælt. Miðið er Keilir um Dula, sem þýðir að menn tóku mið af strýtulöguðum kletti og þúfu á öðrum kletti ofan við hann í fjallið Keili.
Nokkru vestan við Dulakletta eru Selasteinar og þegar komið er steinsnar vestar er Markaklettur á innanverðu Hraunsnesi, sem gengur hér í sjó fram. Þar eru mörkin milli Lónakots og Hvassahrauns, sömuleiðis sveitafélagamörk milli Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Áður fyrr var varða á Markaklöpp og sjást enn merki um hana. Frá henni er stefnan í Markaklett sem er sprunginn klettur, þaðan í Skógarhól og síðan í Stóra-Grænhól suður um Grænhólsker í Hólbrunnsvörðu, þaðan í Skorásvörðu og suður í Mið-Krossstapa.

Hvassahraun-245

Þegar komið er framhjá Markakletti tekur Hvassahraunsland við. Hér skerst vik inn í landið sem nefnist Hvassahraunsbót og er á milli tveggja nesja, Hraunsness að austan og Stekkjarness að vestan. Utar er Vatnsleysuvík sem nær milli Hvassahrauns og  Stóru-Vatnsleysu. Sjávargatan liggur ofan fjörunnar um Látur sem þykir merkilegt náttúrufyrirbæri og er friðað samkvæmt Náttúruminjaskrá. Gatan liggur ofan sjávarbakkans í áttina að Stekkjarnesi. Þegar þangað er komið er stekkurinn austan og neðan Stekkjarhóls sem er myndarlegur sprunginn hóll sem skartar áberandi fuglaþúfu, eins og svo margir hraunklettar á þessum slóðum. Stekkurinn er að mestu fallinn því löngu hætt að nota hann og viðhald ekkert. Lábarið sjávargrjót hefur hlaðist upp og er komið allnærri stekknum þar sem landbrot er töluvert á þessum stað.

Lónakot

Lónakot – fjárhús.

Hægt er að fylgja annarri leið sem liggur ofar í landinu en Sjávargatan, í áttina að Hvassahraunsbæjunum. Það var fjórbýlt í Hvassahrauni á 19. öld þegar hægt var að lifa að því að láta búsmalann ganga sjálfala um hagana árið um kring og drýgja tekjurnar með sjósókn. Bæirnir voru Hvassahraun I og II, auk kotanna Hvassahraunskots og Sönghóls.

Hvassahraun

Hvasssahraun – Bæjarvík.

Frá Stekkjarnesi blasir Bæjarvíkin við og vestan hennar er Fagravík. Enn standa bæjarhúsin í Hvassahrauni, en þar eru einnig þó nokkuð mörg sumarhús sem byggð voru um miðja 20. öldina og eitt heilsárshús sem byggt var í lok 20. aldar. Síðast var búskapur í Hvassahrauni um 1960, en í seinni tíð hafa frístundabændur haft sauðfé sitt í gömlu fjárhúsunum. Kornelíus í Lónakoti er nú eigandi Hvassahraunstúnsins en aðrir jarðapartar skiptast á margar hendur.

Lónakot

Lónakot – fjárhús.

Gengið er í áttina að Hvassahraunsbænum og snúið til baka þegar komið er að steinhlöðnum Norðutúngarði. Þar er gömlu Alfaraleiðinni fylgt að hluta til þar til hún sveigir til suðurs, þá er haldið beint af augum til austurs og í áttina að Lónakotsfjárhúsum og gömlu Vetrarleiðinni fylgt. Leiðin var vörðuð áður en Suðurnesjavegurinn var lagður uppúr aldmótunum 1900, en þegar hann var orðinn akfær voru vörðurnar á gömlu leiðinni felldar.

Hvassahraun

Hvassahraun – vörin.

Það getur því verið erfiðleikum bundið að rata þessa leið, sem er að mestu gróin upp. Ratvísum ferðalöngum ætti samt ekki að verða skotaskuld úr því að feta þessa fornu slóð og fylgja henni. Þegar komið er nokkurn spöl sést steypt Landmælingamerki rísa við sjóndeildarhring efst á Grænhól. – Jónatan Garðarsson.

Heimildir:
-Örnefnaskrá Lónakots, Gísli Sigurðsson, Ari Gíslason.
-Horfinn heimur – Árið 1900 í nærmynd, Þórunn Valdimarsdóttir.

Lónakot

Lónakotsbærinn undir það síðasta.

Lónakotssel

Gengið var upp í Lónakotssel frá Óttarsstaðaborginni, yfir Alfaraleið, selstaðan skoðuð og síðan haldið áfram upp í Mið-Krossstapa og Hraun-Krossstapa. Litið var á grenin, sem þar eru sem og grenin undir Skógarnefi. Síðan var haldið til norðurs að Tóhólum. Kíkt var í Tóhólaskúta áður en haldið var yfir í Óttarsstaðarsel og áfram til norðurs, skáhallt niður Almenning.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Ekki verður hjá því komist að taka eftir Alfaraleiðinni þegar gengið er yfir hana. Hún er bæði breið á þessum kafla ofan við Smalaskálahæð og vel greinileg þar sem hún liðast um hraunið frá austri til vesturs – eða öfugt. Gatan er gömul þjóðleið milli Innnesja og Suðurnesja. Gatan er víða vel mörkuð í hraunhelluna eftir aldalanga notkun, en hún lagðist af þegar vélknúin farartæki tóku við hlutverki hestanna. Gatan er nú sjáanleg frá hraunbrúninni austan við Kapelluhraunið austan kapellunar, en auk þess má sjá spotta af henni við kapelluna. Lægðin austan við Smalaskálahæð nefnast Draugadalir. Síðan liðast hún að Taglhæð um Sprengilendi í áttina að Hvassahrauni. Þar skiptir leiðin um nafn og nefnist eftir það Almenningsvegur. Hann liggur um Kúagerði og Vatnsleysuströnd að Vogum. Við Vogastapa tekur Stapagatan við, en svo nefnist þjóðleiðin milli Voga og Njarðvíkur.
Þegar Lónakotsselsstígurinn er rakinn upp í gegnum hraunið, áleiðis að selinu, má víða sjá fallnar gamlar vörður er fyrrum leiddi fólk leiðina.

Lónakotssel

Lónakotssel.

Lónakotssel er norðan undir Skorás, þversprunginni klapparhæð. Á ásnum er varða, sem heitir Skorásvarða, en hennar er getið í gömlum markalýsingum. Varðan sést víða að í Almenningum.
Lónakotsselshæðabyrgi er einnig þekkt undir nafninu Skorásbyrgi, því það er norðan við samnefnda hæð. Byrgið tilheyrði Lónakotsseli og gagnaðist sumur sem vetur því Lónakotsærnar voru jafnan á útigangi og smali látinn fylgja fénu árið um kring. Í jarðfallinu, sem byrgið er í, má jafnframt sjá hleðslur stekks eða réttar. Austan við Skorðásin er falleg kví.
Hleðslur eru um og við Krossstapagrenin norðvestan við Mið-Krossstapa – ofan selsins.

Lónakotssel

Lónakotssel – fjárskjól.

Meðan staldrað var við grenin heyrðist tófa gagga í norðvestri. Sest var niður, merki gefið um þögn og hún staðsett. Sást vel hvar dýrið rak af og til upp trýnið utan í steini á gróinni hæð ekki alllangt frá. Tófan var greinilega forvitin um ferðir tvífætlinganna. Vindur var af vestri. Einn þátttakendanna læddist með lægð austan við grenin og stefni hljóðlega til norðurs, í hvarfi frá tófunni. Hún var því alveg grunlaus, greyið, þegar hún leit skömmu síðar framan í mannveru, sem birtist skyndilega til hliðar við hana á hólnum.

Tófa

Tófa.

Mórauð tófan, hvítskeggjótt og brúneygð, stóð kyrr eitt augnarblik. Hún virtist hugsa margt og um allt í einu. Tófan átti greinilega ekki von á að maðurinn gæti verið svona mikill refur. Hún tók þá ákvörðun að henda sér í áttina frá ógnvaldinum, sletta skottinu upp í lofti og láta sig hverfa inn í nærliggjandi hraunsprungu. Þetta var látið nægja að þessu sinni. Best hefði verið ef tófan hefði sýnt yfirvegun og verið um kyrrt svo hægt hefði verið að spyrja hana almæltra tíðinda – á tófumáli að sjálfsögðu, en svona eru nú dýrin nú til dags – varkár og hrædd. Þau virðast ekki lengur hafa hæfileika til að greina mannamun, enda kannski ekkert skrýtið, því maðurinn veit sjálfur ekki hvernig hann á að haga sér gagnvart dýrunum og náttúrunni.

Lónakot

Lónakot – Skorásvarða.

Fyrir ofan Skorás taka við slétt mosa- og hraunsvæði allt upp að Krossstöpum. Krossstaparnir eru tveir sérkennilegir og klofnir klettastapar hvor upp af örðum með stuttu millibili. Um neðri og stærri stapann endilangan liggur gömul saufjárveikigirðing. Neðri stapinn, Mið-Krossstapi er sagður hornmark jarðanna Lónakots, Hvassahrauns og Óttarsstaða í landamerkjabréfum, en í rauninni er enginn Mið-Krossstapi sjáanlegur því staparnir eru aðeins tveir að því er virðist.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Þó telja sumir að Álfakirkjan, neðar og norðar í hrauninu, geti verið svonefndur Neðsti-Krossstapi.
Eftir að hafa skoðað Skógarnefsgrenin neðan við háhraunbrúnina nyrst í nefninu var haldið til austurs yfir tiltölulega nýlega hraunlænu. Svo virðist sem hún hafi komið úr smágíg neðan við Skógarnefið og gefið af sér litla spýju til norðurs. Hún er tiltölulega mjó. Þegar komið var í vesturjarðar Tóhólanna var gengið að Tóhólaskúta, en síðan niður í Óttarsstaðasel.

Lónakotssel

Rjúpa við Lónakotssel.

Óvenjumikið var af rjúpu á leiðinni, en auk þess skógarþröstur, maríuerla, sólskríkja, spói og þúfutittlingur.
Við skoðun í kringum selstóftina mátti sjá minna vatnsstæði í lítilli hraungjótu undir bakka skammt sunnan hennar, en meginvatnsstæðið er austan selsins.

Selsstígnum var loks fylgt niður að línuvegi og stefnan síðan tekin á Óttarsstaðaborgina þar sem hringnum var lokað. Á leiðinni varð fyrir hundur hraunkarlsins, en eins og flestum er kunnugt á sérhvert hraun sér a.m.k. einn hraunkarl, ímynd þess úr neðra er fylgjast vildi með hvað er að gerast ofanjarðar.
Frábært veður.

Lónakotssel

Tóftir Lónakotssels undir Skorási.

Gömlu-Hafnir

Brynjúlfur Jónsson skrifar í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1903 um “Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“:

Gömlu-Hafnir - uppdráttur ÓSÁ.

Gömlu Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

“Kirkjuhöfn er góðum kipp fyrir sunnan Kalmanstjörn. En þar mitt á milli, eða því nær, er hóll sá er Stekkjarhóll heitir, því þar hefir í seinni tíð verið stekkur frá Kalmanstjörn. Þar er rústabunga mikil, og hefir óefað verið bær. Liggur þaðan óslitinn garður, líklega túngarður, alla leið út að Kirkjuhöfn. Þvert frá þeim garði liggja þrír þvergarðar til sjávarkambs, með þeim millibilum að svara mundi kýrfóðurvelli eða meira.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fjárborg.

Liggur beint við að ætla, að sitt býli hafi fyrrum verið á hverri þessari spildu og bæirnir staðið við sjóinn. En hann hefir brotið landið, og er þar nú kamburinn, sem bæirnir hafa staðið. Alt land er hér sandrokið hraun. Þó er grashóll þar, sem bærinn Kirkjuhöfn stóð, og er gróið yfir bæjarrústina, svo hún sést ógjörla. Sunnan undir hólnum er sérstök grjótrúst, sem ætla má að sé kirkjutóftin. Suður þaðan er dálítil sandvik með malarkambi. Bak við kambinn hefir verið mýrardæl, sem nú er leirflag. Í henni sést brunnurinn. Utanvert við vík þessa er höfnin, sem bærinn Kirkjuhöfn er kenndur við. Það er lón fyrir innan skerjaröð. Þar er þrautalending í öllum suðlægum áttum.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir.

Sandhöfn, stóra og litla, heita tvær graxivaxnar hæðir, sem eru hvor hjá annari suðvestur frá höfninni. I þeim hæðum voru bæir, sem nú eru eyddir af sandfoki. Stóra Sandhöfn er austar, og lagðist hún fyr í eyði. Er svo langt síðan, að Á. M. jarðab. getur hennar ekki. En Kirkjuhöfn og Litlu-Sandhöfn telur hún sem eyðijarðir.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; Eyrarhöfn.

Seinna var gjör bær á Hafnareyri. Það er skamt út frá Litlu-Sandhöfn. En hann hélzt skamma stund við. Er sá maður nefndur Ormur Þórarinsson, sem þar bjó síðast. Allir þessir bæir hafa verið fyrir innan Hafnaberg.”
Brandur Guðmundsson, hreppsstjóri segir: “Heyrt hef eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi allar verið 60 hndr. að dýrleika og Kirkjuhöfn þeirra fyrst lagzt í eyði um 1660), að kirkja hafi þar staðið, eptir að jörðin lagðist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan (Hákon Vilhjálmsson dó 1821) því nefnd Ingigerður sál. vissi að eins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð þar í kirkjugarð og eru þó síðan full 100 ár. Það er nokkurnveginn víst, að Litla Sandhöfn lagðist seinast í eyði; sagt er mér, að ekkja hafi átt, hún verið 8 hndr., gefin af henni Viðeyjarklaustri og hún með því móti síðar orðið kongseign (Gróa Hafliðadóltir kona Brands var mesta yfirsetukona og merkiskona (f 1855)).”
 

Gömlu Hafnir

Systur.

“Nokkru fyrir sunnan Kalmanstjörn eru við sjóinn rústir allmiklar og garðar. Eru það sandorpnar leifar af fornri byggð. Þar hét Kirkjuhöfn. Á þessum stað hafa fundizt leifar af kirkjugarði og gömul mannabein.
Fleiri bæir hafa verið þarna, svo sem Sandhöfn og Eyri. Á Eyri bjó um miðja 17. öld maður sá, er Grímur hét. Það var einhverju sinni meðan Hallgrímur Pétursson var prestur á Hvalsnesi, að Grímur bóndi á Eyri kom þar á sunnudegi og hlýddi messu í Hvalsneskirkju. Gekk hann út um messuna að gæta reiðskjóta síns, sem var hryssa. Hafði hún losnað, en Grími varð skapbrátt, lamdi merina harkalega og batt síðan rammlega aftur með reipi. Munu þær aðfarir hafa verið ófagrar. Gerðist þetta i sömu andrá og Hallgrímur blessaði yfir söfnuðinn. Sá hann gjörla allt atferli Gríms, því að viðureign hans við merina fór fram gegnt opnum kyrkjudyrum. Um það kvað prestur eftir messuna:
Hann Grímur á Eyri
gerir sem fleiri,
að gengur hann út,
merina keyrir,
með reipum svo reyrir
og rekur á hnút.”

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – Uppdráttur ÓSÁ.

Magnús Grímsson skrifaði um “Fornminjar um Reykjanessskaga”. Þar segir hann m.a. um Kirkjuhöfn og nágrenni: “Snertukorn suður frá Kalmanstjörn gengur vík en breið inn í landið. Hún nær suður allt að Hafnarbergi. Í þessari vík sér rústir af 3 fornbæjum niður við sjóinn.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir;  bæjarhóll.

Heitir sá nyrzti þeirra Stóra-Sandhöfn, þá Kirkjuhöfn og syðst Litla-Sandhöfn. Af þessum 3 bæjum er án efa héraðsnafnið, Hafnir dregið. En yzt í víkinni, þar sem Hafnarberg byrjar, hefir staðið bær, sem hét á Eyri; hann var lengst þeirra byggður, og er þar nú helzt grasi vaxið nokkuð í rústunum. Hinir 3 fyrrnefndu bæir hafa allir staðið á Hólum, og er þar ei alveg upp blásið enn, sem rústirnar eru. Merkilegasta rústin er Kirkjuhöfn. Þar hefir verið mikil bær og hús mörg. Kirkja hefir þar verið skammt frá bænum, og er rúst hennar auðþekkjanleg,  en mjög hrunin og ei svo glögg, að mæld verði. Sama er að segja um kirkjugarðinn. Fram við sjóinn eru þar og rústir allstórar, sem á að hafa verið eftir kaupstað og þess konar. Það er skammt frá því, sem vörin á að hafa verið. Ekki sést nú glögglega hvort vör þessi hefir verið rudd eða ekki, en líklegt er hún hafi þar verið, sem sagt er.

Gömlu-Hafnir

Vörslugarður í Gömlu-Höfnum.

Ýmsar eru hér fleiri rústir en þessar , en þær eru svo af sér gegnar, að eigi verða þær mældar. Sama er að segja um Sandhafnirnar báðar; þó líta þær ekki út fyrir að hafa verið eins stórbæjarlegar og í Kirkjuhöfn. Bæjarrústirnar í Kirkjuhöfn væri vel vert að grafa upp líkt og í Vogi, sem ég áður gat um, en það er mikið verk.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir; fiskbyrgi.

Fyrir ofan alla þessa bæi hefir legið garður eigi allítill, og sér rústa hans á mörgum stöðum. Hann nær frá Stóru-Sandhöfn suður að Eyri eða Eyrarbæ. Upp undan Kirkjuhöfn er í hrauninu hóll, kallaður Bæli, og er mælt að þar hafi staðið samnefndur bæ; þar sér enn til nokkurra rústa.
Þegar kemur suður fyrir Hafnarberg, gengur enn vík allbreið inn í landið; hún deilist í 2 víkur misstórar af hraunbelti, er þar gengur fram í hana að sjó. Nyrðri hluti víkurinnar heitir Stóra-Sandvík, en hin Litla-Sandvík. Norðanvert við Stóru-Sandvík, fram við sjó , er kalla Skjótastaðir, og  er mælt að þar hafi fyrrum verið bær samnefndu, en engin sjást þar nú vegsummerki, því hraunið hefir runnið þar yfir, ef nokkuð hefir verið.”
Sjá Myndir.

-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 18. árg. 1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 43
-Blanda, 2. bindi 1921-1923, Lýsing á Höfnum eptir Brand hreppstjóra Guðmundsson í Kirkjuvogi, bls. 54
-Faxi, 24. árg. 1964, bls. 169
-Magnús Grímsson. Fornminjar um Reykjanessskaga, bls. 259-2

Gömlu-Hafnir

Fiskbyrgi við Gömlu-Hafnir.

 

Staðhverfingabók

Í bókinni “Mannlífi mikilla sæva – Staðhverfingabók“,  er m.a. lýst hungurástandi því sem ríkti í Grindavík og á Suðurnesjum um miðja 18. öld – á tímum einokunarverslunar Dana.

Tyrkjabyrgi

Eitt byrgjanna.

Ekki verður, í ljósi þess, hjá því komist að skoða tilvist “Tyrkjabyrgjanna” svonefndu í Sundvörðuhrauni neðan Eldvarpa, en þau virðast fyrst og fremst hafa verið byggð sem fiskbyrgi – og þá mögulegar vistgeymslur til að bregðast við ríkjandi tímabundnu ástandi. Ekki er vitað um aldur þeirra, en hafa ber í huga að fyrr á öldum voru allflestir Grindvíkingar leiguliðar og þurftu því á stundum nauðráð til bjargar. Byrgin gleymdust, en voru uppgötvuð sem minjar í lok 19. aldar. Ekki er ólíklegt að ætla að Grindvíkingar á árabátum Skálholtsstóls hafi stungið undan einum og einum fiski, borið hann upp í hraunið og hlaðið þar byrgi sem geymslur með það fyrir augum að geta sótt hann þangað síðar þegar hungur svarf að fjölskyldunni. Síðar, með breyttum breytanda, urðu byrgin óþörf og gleymdust, enda úr alfaraleið. Byrgin bera öll einkenni fiskibyrgjanna í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, í Slokahrauni vestan Hrauns, við Nótarhól austan Ísólfsskála og á Selatöngum.

Einokunin
“Með tilskipun 20. apríl 1602 gaf konungur þegnum sínum einkaleyfi til verslunar á Íslandi. Með því hófst Einokunarverslun Dana hér á landi, sem stóð í 185 ár. Versluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingaeyrar. Kom Grindavík, ásamt Keflavík og fjórum öðrum höfnum, í hlut höfuðstaðarins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur – ÓSÁ.

Þótt Danir ættu að taka við versluninni að fullu árið 1602 var svo ekki í raun. Til þess skorti bæði kapítal, skipakost og mannafla. Hlutu þeir því að semja um það við Þjóðverja að annast verslunina að svo miklu leyti, sem þeir ekki komust yfir hana sjálfir. Stóð svo a.m.k. 2 fyrstu áratugi einokunar. Á þessum tíma átti Skálholtsstóll nánast allar jarðir í Grindavík og nágrenni.

Aðeins tvær ýsur

Húsatóptir

Minjar konungsverslunarinnar við Húsatóptir.

Hér skal brugðið upp einni mynda, sem lýsir nokkuð vel ástandinu og afkomunni í Grindavík þegar harðindin, aflaleysið og verslunaráþjánin fylktu liði gegn þessari örbjarga þjóð með þeim afleiðingum, að á árunum 1756 og ’57 dóu 2500 manns í Skálholtumdæmi.
Árið 1756 voru búsettir í Grindavík 28 fjölskyldur eða 196 manns, segir í umfjöllun Guðmundar sýslumanns Brynjólfssonar þann 12. febrúar, um ástandið á Suðurnesjum; “sem ei hafa annað af að lifa en litla mjólk vel flestir en sumir aldeilis ekkert nema það hjá öðrum skrármegandi betla. Hér fyrir utan er heill hóp margt sjófólk í þessa sveit komið matarlítið, sem ei verður matur lánaður, svo fyrir því bíður ei annað en vísast aftur til baka heim í sveitir, hvað þessa hreppa innbyggjurum, sem sjálfu því, er hin mesta skaða von. Og orsakast þessi bágindi mest af fiskleysi og stórri óveðurháttu, sem lengi hefur viðhaldist og enn nú yfir dynur.

Húsatóftir

Húsatóftir – Kóngshús.

Því er vor þénustusamleg begjæring til hr. sýslumannsins, að hann láti þess hrepps innbyggjara fá hjálp og styrk til lífs uppihalds í soddan nauðsynjum frá Básendabúðum ei síður en aðra utan districtsmenn þar eð vér byggjum Grindarvíkurhafna matvöru fyrirliggjandi í nefndum búðum og þykjumst því eiga þar frekara tilkall en þeir, hvað ef ekki nægir, óskum vér í undirgefni að hann komi hingað hið snarasta og opni hér kaupmannshúsin til frekari hjálpar þeim nauðlítandi, sem ómögulega geta sótt mjöl eður brauð til Bátsenda, því vér meinum hér fyrirliggja um eða yfir 10 tunnur matar.”
Átta dögum síðar – þ. 19. febrúar er sýslumaður kominn til Járngerðarstaða; “Kemur þar allt hið sama fram og hér að framan er lýst. Í sveitina hafa aðeins fengist 14 tunnur matar frá Bátsendum. Hins vegar telja þeir sig vita “nokkurn mat fyrirliggja í Companiniens handelshúsum hér í Grindavík”. Það sé því lífsnauðsyn, að þau sömu séu af sýslumanninum, sem næsta yfirvaldi með fyrstu hentugleikum, opnuð nauðlíðandi fólki í sveit þessari til lífsbjargar svo ei af hungri út af deyi eða ófært verði sér næringar leita á sjónum, hvar af sjófólksins heimavísan hangir, oss og því til óbætanlegs skaða”.

Húsatóptir

Kort Kristófers Klog frá 1751 af verslunarstaðnum á Húsatóftum og Stað.

Aðspurði sýslumaðurinn samankomna þingmenn hvort þeir vissu engin önnur ráð, meðöl eður útvegi þessu nauðlíðandi fólki til lífsbjargar en Companiens handels húsa opnan í Grindavík, hvar til einlæglega og sameiginlega svaraða var: NEI”.
“Svo og undirréttast sannferðulega, að næstliðinn dag hafi nær alskipa róið í sveit þessari, og allan dag í temmilegum makindum úti verið, djúpt og grunnt að leita. Hafi þó einasta tvær ýsur á land komið en varla orðið vart við aðra drætti. Sanni þessa best, hve algjört fiskleysið sé.”

Ein tunna bygg, en brennivín nóg

Húsatóftir

Húsatóftir – leifar konungsverslunarinnar.

En hvort sem Grindavíkurverslunin hefur verið opnuð á þessari vertíð og eitthvað hefur verið gert til að seðja sárasta hungur útróðrarmanna eða ekki, þá er svo mikið víst, að vorið fyrir var þar ekki um auðugan garð að gresja, hvað matvöruna snerti, aðeins tvær tunnur af skonroki og ein af af bygggrjónum. Hins vegar voru vínbirgðirnar 878 pottar af kornbrennivíni, 92 pottar af öðru víni, 4 tunnur af öli og 68 pottar af mjöð.”

Sjá meira um “Tyrkjabyrgin” HÉR og HÉR.

Heimild:
-Mannlíf mikilla sæva – Staðhverfingabók, séra Gísli Brynjólfsson, Bókaútgáfan Örn og Örlygur 1975-, bls. 107-113.

Húsatóftir

Minjar dönsku einokunarverslunarinnar á Húsatóftum.