Dvergasteinar
Jón Jónsson skrifaði grein í Náttúrufræðinginn 1990 er hann nefndi „Dvergasteinar„. Þar fjallar hann m.a. um sérstæða myndun grágrýtisbjarga er víða má sjá í fjörum á Reykjanesskaga, t.d. utan við Óttarsstaði, og jafnvel sums staðar innar í landinu, s.s. ofan við Bæjarsker.
„INNGANGUR
Kveikjan að þessu greinarkorni er samtal við nágranna minn Einar Vilhjálmsson og síðar grein eftir hann, sem birt var á sínum tíma í Þjóðviljanum ásamt mynd, sem birtist með leyfi Einars. Sjaldgæft mun það að bær taki nafn af einum steini, en svo virðist þó vera um kirkjustaðinn forna, Dvergastein í Seyðisfirði.
ÞJÓÐSÖGNIN
Sögn hermir að kirkja hafi forðum verið sunnan fjarðar nálægt Sörlastöðum, en verið flutt þaðan norður yfir að Dvergasteini, þar sem hún var svo öldum saman. Skammt þar frá er steinninn. Sögnin hermir ennfremur, að í honum búi dvergar, en þeir voru taldir afburða smiðir og því eru slíkir menn sagðir dverghagir. Dvergar þessir voru, svo hermir sagan, góðir og vel kristnir, vildu ekki una kirkjuleysinu né heldur nábýli við þá af sínum kynstofni, sem héldu fast við sína fornu trú, og því var það að til þeirra sást er þeir komu siglandi sínum steini norður yfir fjörð, lenda honum og setja upp ekki fjarri kirkjunni, þar sem hann stendur enn í dag. (Eftir grein Einars Vilhjálmssonar og Þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar (1982)).
DVERGASTEINAR
Steina með fleti sem veðrast hafa á þennan hátt er víða að finna og fyrirbærið vel þekkt (sjá Glossary of Geology 1980). Slíkar myndanir koma fyrir víðs vegar allt frá ströndum Íslands og háfjöllum til saltvatna Afríku. Sjálfur veitti ég þessu athygli á grágrýtishellum á fjörukambi í Blikalónsey á Sléttu, líklega 1956, en síðar víða. Á sunnanverðum Reykjanesskaga, frá Staðarmölum að Háleyjarbungu, grúir af þessu bæði í föstu bergi og á lausum steinum. Myndun þessa mun ég framvegis nefna dvergasteina, hvort sem aðrir kunna að fylgja eftir í því eða ekki. Sérheiti á þessu er hvort sem er mér ekki kunnugt. Þessi veðrun verður þar sem salt vatn smýgur inn í fínar holur í frauðkenndu bergi svo sem t.d. grágrýti. Þar kristallast saltið út og sprengir um leið út frá sér. Þéttari lög í berginu, oftast mjög óregluleg, taka ekki til sín vatn og standa því eftir sem hryggir. Sama hlutverki sem saltið gegnir vatnið þar sem það nær að frjósa. Af þessu er eðlilegt að dvergasteinar séu meira áberandi við sjávarsíðuna, þar sem seltan er ávallt fyrir hendi árið um kring, en frostverkan að jafnaði ekki nema nokkurn hluta árs.“
Holótt grjót við sjávarströnd getur einnig upphaflega átt rætur sínar að rekja til innilokaðra gasgufubóla í berginu eða saltveðrunar.
Jón Jónsson, Náttúrufræðingurinn, 60. árg. 1990, bls. 161-162.