Eldborg undir Trölladyngju

Eldborg

Í „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ skrifar Sesselja Guðmundsdóttir m.a. um Eldborgina undir Trölladyngju og næsta nágrenni.

Eldborg

Jarðhiti við Eldborg.

„Jarðhiti er í suðurenda Vestra-Lambafells í brekku sem snýr til vesturs. Í fellinu nyrst er djúp og mikilfengleg gjá, Lambafellsgjá, sem gaman er að skoða. Gjáin gengur inn í mitt fellið og er mjög þröng neðst, eða 1—3 m á breidd, en víkkar þegar ofar dregur, lengd sprungunnar er um 150 m og hærra veggstálið er 20-25 m hátt. Það er skemmtilegur „álfabragur“ á því að geta gengið inn í fjall og síðan upp úr því. Í fellinu er bólstrabrotaberg og í gjárveggjunum sést hver „koddinn“ við annan. Örnefnið Lambafellsklofi hefur einnig heyrst og þá er átt við gjána og ein heimild nefnir fellið sjálft Klofningsfell.

Jarðhiti

Jarðhiti í Lambafelli.

Með hlíðum Lambafella liggur Mosastígur (Rauðamelsstígur) . Fyrrum var farið meðfram Núpshlíðarhálsi eða yfir hann allt eftir því hvort fólk var á leið til Krýsuvíkur, á Vigdísarvelli, Selatanga eða til Grindavíkur og var leiðin þarna um kölluð Hálsagötur. Dr. Bjarni Sæmundsson lýsir þessum götum í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1936 og segir hann Grindvíkinga nota orðasambandið „aðfara inn í Fjall“ þegar þeir fóru göturnar vestan hálsins.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju í dag.

Frá Vestra-Lambafelli höldum við yfir svolítið hraunhaft og komum að Eldborg eða Katli en síðara nafnið er að finna í heimild frá Hvassahrauni. Eldborgin var fallega lagaður gígur um 20 m hár með djúpa og gróna gígskál. Borgin var á náttúruminjaskrá en er þar ekki lengur. Mikið efni hefur verið tekið úr gígnum allt frá því vegur var lagður þarna upp eftir og fram til dagsins í dag.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Framkvæmdir við tilraunaborholur á svæðinu hafa tekið sinn toll úr Eldborg og er borgin nú sorglegt merki um aðför að náttúrugersemum. Jarðhiti er í og við borgina. Jón Jónsson jarðfræðingur segir í einni ritsmíð sinni: „Gosið í Eldborg er án efa með þeim síðustu á þessu svœði og sennilega hið síðasta. Það er yngra en Afstapahraun …“. Hraunið er frá sögulegum tíma eins og fyrr segir.

Eldborgarhraun sem þekur tæplega fimm ferkílómetra rann upp að Lambafellum og síðan áfram norður og niður úr. Hraunið liggur m.a. að Mosum, Snókafelli og Sóleyjakrika. Sumir kalla fyrrnefnt hraun Lambafellshraun en líklega er réttara að kenna það við Eldborgina sem það kom úr.
Jónsbrennur heitir hitasvæðið suður og vestur af Eldborg og þar sjáum við töluverða gufu á nokkru svæði. Ekki er vitað frá hvaða manni nafnið er komið. Menjar um gamla tilraunaborholu frá Orkustofnun má sjá ofan Jónsbrenna, fast við norðurrætur Trölladyngju.“

Í bókinni „Icelandi pictures“ eftir Frederik W.W. Howell frá árinu 1893 má sjá teiknaða mynd af Eldborginni.

Eldborg

Teikning Frederik W.W. Howells af Eldborginni 1893.

Árni Óla segir í bók sinni „Strönd og Vogar“ eftirfarandi um Eldborgina undir Dyngjum:
„Norðan við Trölladyngju er stór, gamall og rauður eldgígur, sem nefnist Eldborg. Hann er um 70 fet á hæð. Milli hans og fjallsins er mikill jarðhiti og koma vatnsgufur þar víða upp, allt inn að Höskuldarvöllum og út að Sogi. Fara má norðan við fjöllin og austur fyrir þau. Blasir þá við fell skammt norðaustur í hrauninu. Kallast það Mávahlíðar. Þar eru einnig stórkostlegar gosstöðvar. Rétt fyrir neðan efsta toppinn á þeim (237 m) er stór gígur, allur sundur tættur af eldsumbrotum. Héðan hafa runnið mikil hraun, og sum eftir landnámstíð.“

Eldborg

Jarðhitinn við Eldborg.

Vatnsgufusvæðið umleikis Eldborgina er mismundandi greinanlegt. Það sést best þegar kólnar í veðri. Norðan hennar eru hleðslur, sem einhverjir hafa hlaðið til gufubaðsnota um tíma.

Heimildir:
-Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja Guðmundsdóttir, bls. 123-126.
-Strönd og Vogar, Eldfjöllin, Árni Óla, bls. 250.
-Icelandi pictures, Frederik W.W. Howell, London 1893, bls. 141

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja. Lambafell fjær.