Eldey og Karl – tilurð

Karlsgígurinn

„Í ljósi þeirra gagna sem safnast hafa um Yngra-Stampagosið á Reykjanesi er mögulegt að gera grein fyrir framgangi þess í grófum dráttum: Gossprunga með stefnu suðvestur-norðaustur opnast á Reykjanesi. Upphaf gossins er við suðvesturströnd Reykjaness Karl-221eftir því sem best verður séð, en ekki er útilokað að gosið hafi í sjó fjær ströndinni um svipað leyti. Engin ummerki hafa þó fundist um slíkt. Gosið hefst í sjófylltri sigdæld sem legið hefur frá ströndinni inn til landsins og hleðst þar upp hverfjall, Vatnsfellsgígurinn.
Lokaþáttur gossins einkennist af strombólskri gosvirkni með gjallmyndun. Gjóskan frá gígnum berst nær algerlega til hafs. Skömmu síðar, sennilega nokkrum mánuðum, hefst gos að nýju, um 500 m undan núverandi ströndu, og hleðst þar upp annað hverfjall, Karlsgígurinn. Í lok gossins kemur upp hraun í austanverðum gígrimanum og rennur inn til lands. Gjóskan frá Karlsgígnum (R-7) berst að nokkru leyti inn til landsins, yfir allt Reykjanes, en að mestum hluta til hafs. í framhaldi af gjóskugosunum við ströndina hefst hraungos á landi og rennur hraun frá 4 km langri gígaröð. Mest hraunrennsli hefur verið til beggja enda gígaraðarinnar þar sem stærstu gígarnir eru. Hraunið rennur upp að Karlsgígnum og markar hraunjaðarinn við ströndina nú útlínur hans að hluta. Nokkur landauki hefur orðið af hrauninu en það rann í sjó fram á a.m.k. fjórum stöðum.
Eldey-221Í annálum, við árið 1210/11, er sagt að Sörli Kolsson hafi fundið „Eldeyjar hinar nýju en að hinar hafi horfið er áður stóðu“ (stílfærsla höfundar). Alls er óvíst hvort eða hvernig þessi frásögn tengist þeirri Eldey sem við sjáum í dag, en ekkert útilokar þó að hún sé frá þessum tíma.
Í heimildum er hvergi sagt berum orðum að hraun hafí runnið á Reykjanesi en helst er þó ýjað að þvi í frásögnum við árið 1210/11 (Storm 1888). í Oddaverjaannál er sagt: „Elldur wm Reykianes: Saurli fann Elldeyjar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufdu stadit.“ Af þessari klausu má skilja að gefið sé í skyn að eldur hafi verið uppi á Reykjanesi og þá væntanlega með hraunrennsli. Í öðrum frásögnum af gosum í sjó á 13. öld er ávallt talað um eldgos eða elda í sjó við eða fyrir Reykjanesi. Það bendir ótvírætt til goss í sjó.
Í Páls sögu biskups segir við árið 1211: „Jörðin skalf öll og pipraði af ótta; himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómur stóð yfir sýndist náliga allar höfutskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans „fráfalli“ (Biskupasögur I 1858). Þegar sagt er að himintunglin sýni á sér dauðatákn er vel hugsanlegt að þar sé vísað til móðu í lofti sem gjarnan er fylgifiskur hraungosa og að sól og tungl hafi af þeim sökum sýnst rauð.
Þó að Yngra-Stampagosið standist ekki samjöfnuð við Skaftárelda er ekki útilokað að nokkurt mistur eða móða hafi verið í lofti við gosstöðvarnar sem orsakað gat rauðan blæ á himintungl (sólu).“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 64. árg. 1994-1995, 3. tbl. bls. 225-227.

Eldey

Eldey.