Eldfjöll og örnefni
„Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanesskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld.
Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12 til 15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildi(dyngjur), gígaraðir, gígahópa og sprengigíga til dæmis Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla eins og til dæmis Hvirfill og Kistufell. Sjálfur Reykjanesfjallgarðurinn er afar merkilegur því hann hvílir á sjálfu virka gosbeltinu sem partur af hinum mikla Atlandshafshrygg sem liggur þvert yfir Ísland. Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Það er ekki hægt að skoða þetta framhald af hinum stóra Atlandshafshrygg ofansjávar nema á Reykjanesskaganum. Hann er því einstakur en með duldar hættur. Eftirfarandi lýsingu má finna í bók Árna Óla, „Strönd og Vogar – úr sögu einnar sveitar í Landnámi Ingólfs Arnarssonar„, sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs gaf út árið 1961.
Á einum eldgígnum stendur nú vitinn. Það er keilumyndaður hóll, nokkuð hár og ofurlitlar grastór utan í hlíðunum á honum, og hefur hann verið nefndur Vala-hnúkur , [Sennilega er þarna rangt með örnefni farið, því í Öldinni okkar er birt meðfylgjandi mynd af Reykjanesvita í byggingu á svonefndu Bæjarfelli [Vatnsfelli] árið 1907] þó að engan veginn eigi hann hnúks-nafnið skilið.
Hann er upphár, eldgamall gjallhaugur og ekkert annað, og guð má vita, hvort hann fer ekki að gjósa undir vitanum; ég hefði að minnsta kosti ekki viljað treysta honum. Sunnan undir hólnum stendur bærinn, eða réttara sagt hús vitavarðarins, byggt á landssjóðs kostnað. Ofurlítill túnskækill er græddur upp í brekkunni kringum bæinn. Þá mega heita upptaldar grasnytjar þær, sem vitavörðurinn hefir. Suður og austur frá bænum er hraundyngja allmikil, sem nefnd er Skálarfell. Kvað vera skál ofan í hana miðja. Það er merkilegast við þessa dyngju, að hún rýkur öll, eins og kolabingur, sem kastað hefur verið ofan á glæður. Það eru hveragufur, sem alstaðar leggur út úr henni, hátt og lágt. Norðan undir henni eru hverirnir, sem nesið dregur nafn af. Vestan undir dyngjunni er gjá mikil, og gengur hún allt í sjó fram. Gjáveggurinn eystri er nokkuð hærri en hinn og báðir barmar mjög klofnir og sprungnir. Hveragufur leggur alstaðar upp um glufurnar.
Vestur af bænum eru leifar af gömlum gígum eða móbergshnúðum, sem sjórinn er nú að brjóta upp. Enginn veit, hve margir þeirra eru horfnir í brimið. Leifarnar af einum þessum hnúð standa fyrir framan fjöruborðið. Er það drangur mikill og heitir Karlinn. Aðrar leifar, og þær allra mestar, standa úti í reginhafi fram undan nesinu. Er það drangur hár og digur, sem nefnist Eldey. Þessi gígaröð nær langt út í hafið. Eitt hnúkbrotið frammi við sjóinn, sem nú stendur líklega tæpur helmingur eftir af, heitir Litli-Valahnúkur. Þar stóð vitinn áður, og mátti víst ekki seinna vera, að hann væri fluttur. Vitaturninn gamli var sprengdur sundur með púðurskotum, svo að ekki skyldi hann skyggja á nýja vitann, og liggja brotin úr honum þar uppi á hólnum. Á milli þessara hnúka, sem eru lausir í sér og eyðast fljótt, skellur brimið á hörðum hraunbrúnunum og vinnur þar seint á. Þeim er það að þakka, að ekki er útsynningurinn búinn að skola meira burtu af Reykjanesinu.“
Heimild:
-http://www.hsorka.is/HSProduction/Reykjanes/Frodleikur/EldfjollOrnefni.aspx