Eyktarmark

Í bókinni “Gullöld Íslendinga – menning og lífshættir feðra vorra á söguöldinni” eftir Jón Jónsson Aðils er m.a. fjallað um eyktarmörk. Bókin er samansafn alþýðufyrirlestra með myndum.
Eyktarmörk frá seljunum á Baðsvöllum“Dægrinu skiptu forfeður vorir eftir áttum og sólargangi niður í eyktir, og voru eyktirnar 8 (sbr. áttirnar) í hverjum sólarhring og 3 stundir í hverri eykt. Í elztu tíð hafa menn að líkindum talið tímann eftir nóttum, en eigi eftir dögum, og vottar víða fyrir því í fornum ritum. Svo komst Ari fróði að orði, er hann telur mánuðina “þrítugnætta”, og algengt er í fornu máli að miða tímann við nóttina (“á tveggja tíma fresti”), “þriggja nátta gamall!” o.s.frv.). Á þetta að líkindum rót sína að rekja til hins forna tunglárs, er menn töldu eftir tungli og stjörnum, annars voru stundir dagsins taldar eftir aðstöðu sólar við hæðir, fjöll og gnýpur úti við sjóndeildarhringinn (dagsmörk), líkt og enn tíðkast víða til sveita, en eigi er slíkt stundatal fast eða nákvæmt. Aðalstundir dagsins voru þessara: Rismál  eða miðr morgunn (kl. 6 að morgni); dagmál (kl. 9 árd.); hádegi (kl. 12); miðmundi (kl. 1 1/2 síðd.); nón (kl. 3); miðr aftann (kl. 6); náttmál (kl. 9): miðnætti (kl. 12); síðari hluti nætur undir morgun var nefndur ótta (sbr. óttusöngur).”

Miðmundavarða á Miðmundahól við Þorbjarnastaði

Eyktarörnefni eru fjölmörg á Reykjanesskaganum. Varla er til sú örnefnalýsing þar sem þeirra er ekki getið. Í lýsingu fyrir Járngerðarstaði í Grindavík er t.d. getið um Hádegisgil og Miðmundagil í Þorbirni ofan við Baðsvelli. Skýringin á nöfnunum er sú að þau voru eyktarmörk frá seljunum norðan undir fellinu.
Þá er Miðmundahæð ofan við Þorbjarnastaði í Hraunum þekkt kennileiti. Svo virðist, af örnefnunum að dæma, sem meira hafi að öllu jöfnu verið haft um miðmunda en önnur eyktarmörk því örnefni því tengdu eru allmörg. Hádegishólar eru og til, en mun færri.

Heimild:
-Jón Jónsson Aðils, Gullöld Íslendinga – menning og lífshættir feðra vorra á söguöldinni, Reykjavík 1948, bls. 200, sbr. Skand. Verhältn. bl. 39-40.Eyktarmark