Fornar reiðleiðir – Halldór H. halldórsson
Halldór H. Halldórsson skrifaði um „Fornar reiðleiðir“ á vefinn lhhestar.is“
„Hvenær er reiðleið skilgreind sem forn reiðleið, ég hef velt þessu nokkuð fyrir mér, en ekki komist að neinni áþreifanlegri niðurstöðu. En líklegt þætti mér að miða við komu bílsins til landsins, akvegir almennt lagðir um landið og bíllinn orðin almenningseign.
Fornar reiðleiðir og þjóðleiðir eru sem sagt þær leiðir sem voru almennt farnar á milli staða og landshluta fótgangandi eða ríðandi fyrir tilkomu bílsins sem almenningsfarartækis.
Hvaða lög eða hefðir ná yfir þessar leiðir til almennra nota í dag, oft liggja þessar leiðir um eignarlönd manna. Þá er oft um að ræða þéttbýlisbúa, eða aðra sem hafa eignast þau lönd þar sem þessar leiðir liggja um. Fyrir kemur að girt er fyrir þær og ekki hirt um að setja hlið á girðinguna þar sem viðkomandi leið liggur um, sá sem ferðast eftir þessum leiðum lendir þá í ógöngum. Hvað segja lögin um þetta?
Lög um náttúruvernd 1999 nr. 44 22. mars, þar segir:
23. gr. Óheimilt er að setja niður girðingu á vatns-, ár eða sjávarbakka þannig að hindri umferð gangandi manna. Þegar girða á yfir forna þjóðleið eða skipulagðan göngu-, hjólreiða- eða reiðstíg skal sá sem girðir hafa hlið á girðingunni eða göngustíga.
Vegalög 2007 nr. 80 29. mars, styðja þetta ákæði í þeim segir (tóku gildi 1. janúar 2008):
53. gr. Girðingar og hlið yfir vegi.
Enginn má gera girðingu yfir veg með hliði á veginum án leyfis Vegagerðarinnar nema um einkaveg sé að ræða. Sama bann gildir þar sem mælt og markað hefur verið fyrir vegi enda hafi Vegagerðin tilkynnt jarðarábúanda hvar mælt hefur verið.
55. gr. Vegir sem ekki tilheyra vegflokki.
Nú liggur vegur, stígur eða götutroðningur yfir land manns og telst eigi til neins vegflokks samkvæmt lögum þessum og er landeiganda þá heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum en eigi má hann læsa hliðinu né með öðru móti hindra umferð um þann veg nema sveitarstjórn leyfi. Ákvörðun sveitarstjórnar skv.1. mgr. má leggja undir úrskurð ráðherra.
Vitnum í viðtal við Sigurð Líndal lagaprófessor sem birtist í Eiðfaxa 2003 þar sem hann vitnar í Jónsbók frá árinu 1281, landsleigubálk 24. Þar segir að mönnum sé heimilt að ríða um annara manna land og almenning og æja þar. Þessi túlkun Jónsbókar er svo staðfest í náttúruverndarlögum þar sem í þriðja kafla laganna er nánar fjallað um einstök atriði og takmarkanir þessa almannaréttar, einkum í 12. – 16. grein þeirra.
Meginreglan er sem sé sú að mönnum er heimil för um landið, þar á meðal um eignarlönd og heimil dvöl á landi í lögmætum tilgangi. Ekki er þörf á að fá sérstakt leyfi til að fara um óræktað land og heimilt er að hafa lausa hesta með í för. Ferðamenn, þ.m.t. hestaferðamenn, skulu sýna landeiganda eða rétthafa lands fulla tillitssemi einkum er varðar búpening, hlunnindi eða ræktun. Á eignarlöndum má að fengnu leyfi slá upp aðhaldi eða næturhólfi, enda valdi hrossin ekki landspjöllum. Á hálendinu er heimilt að æja á ógrónu landi og hafa skal fóður í næturstað. Þegar farið er um náttúruverndarsvæði ber mönnum að hafa samráð við landverði og fylgja leiðbeiningum þeirra.
Landeigandi getur unnið eignarhefð á tilfæringum bundnum við fornar þjóðleiðir og þeir sem hafa farið um slíkar þjóðleiðir geta unnið afnotahefð og þannig helgað sér rétt til umferðar. Þar kæmi til 20 ára hefðartími, hugsanlega 40 ára, ef slíkur réttur teldist til ósýnilegra ítaka.
Mikilvægasta heimildin fyrir hefðbundnum og fornum reiðleiðum eru dönsku herforingjaráðskortin (atlaskortin ) frá fyrsta áratug síðustu aldar. Hafi leiðum á þeim ekki verið mótmælt í orði eða verki, má líta svo á að þær séu verndaðar af hefðarrétti, en undantekningar geta þó verið á því. Ef einhver vill véfengja reiðleiðirnar á herforingjaráðskortunum, sem kortlagðar voru í góðri trú, þá hvílir á honum sönnunarbyrði um að hún sé ekki hefðbundin þjóðleið, ekki á þeim sem vilja fara þessa leið ríðandi eða gangandi.
Hér meðfylgjandi má sjá tvær myndir, annars vegar frá Langastíg í Þingvallaþjóðgarði, þar hefur verið borið í stíginn og honum viðhaldið sem reið- og göngustíg af Þingvallanefnd. Hins vegar er mynd frá vígslu nýs reiðvegar inn með Vífilsstaðahlíð 2004. Um Vífilsstaðahlíð liggur gömul þjóðleið sem liðar sig áfram um Búrfellsgjá á Selvogsgötu. Hestamenn notuðu þessa leið fram eftir síðustu öld, en fyrir 1990 var henni breytt í göngustíg og hestamönnum bannaður aðgangur. Það var ekki fyrr en 2004 sem tókst, eftir harða baráttu, að fá reiðveg samþykktan á skipulag á þessu svæði. Þar er nú einn besti reiðvegur á höfuðborgarsvæðinu í óviðjafnanlegu umhverfi.“
Hafa ber í huga að allt tal um „fornar reiðleiðir“ fyrir hestamenn í gegnum aldirnar eru ofmetnar. Leiðirnar voru jafnt fyrir þá sem og gangandi fólk.
Samantekt,
Halldór H. Halldórsson – www.lhhestar.is › Fornar_reidleidir