Fornigarður í Selvogi – Bjarni F. Einarsson
Fornigarður í Selvogi er merkileg fornleif. Ýmsar ályktanir hafa verið dregnar um aldur mannvirkisins, sem lá frá Vogsósum við Hlíðarvatn að Nesi austast í Selvogi.
Bjarni F. Einarsson gerði rannsókn á Fornagarði sumarið 2003 og skrifaði skýrslu: „Fornleifar nr. 22 í Ölfusi, Árnessýslu. Skýrsla um fornleifarannsókn sumarið 2003„.
„Að beiðni Vegagerðarinnar tók Fornleifafræðistofan að sér að grafa snið í gegnum hinn svokallaða Fornagarð sem liggur í landi Vogsósa og Strandar í Ölfushreppi í Árnessýslu.
Fornigarður liggur frá Hlíðarvatni, rétt norður af bæjarstæði Vogsósa og til suðurs í átt að Strandarkirkju. Yfirleitt er talið að hann hafi síðan legið til austurs utan um byggðina í Selvoginum. Ekki er víst að hann hafi upphaflega legið svo, heldur sveigt til vesturs eða suðvesturs skammt norðan við Strandarkirkju.
Hinn fyrirhugaði Suðurstrandarvegur mun óhjákvæmilega rjúfa Fornagarð. Garðsins er trúlega getið miðaldaheimildum og því merkilegur. Árið 1927 voru allar „Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar“ friðlýstar í landi Vogsósa og Vindáss“.
Til að vegaframkvæmdir gætu gengið eftir var talið nauðsynlegt að rannsaka stuttan kafla á Fornagarði þar sem hinn fyrirhugaði vegur mun fara í gegn um hann. Markmiðið með þessari rannsókn var að reyna að grafast fyrir um aldur garðsins og að kanna byggingu hans frekar en hægt var að sjá af þeim hluta hans sem reis upp úr sandinum.
Almennt er talið að Fornagarðs sé fyrst getið í rekaskrá Strandarkirkju árið 1275. Þar segir m.a.: Sex vætter æ huertt land fyrer garde enn fiorar utan gardz og skal reida med slijku sem rekur: (Ísl. fornbréfasafn 1893:124).
Garðsins er ekki getið aftur fyrr en í bréfi séra Jóns Vestmanns [1769 – 1859] til hinnar konunglegu dönsku nefndar til varðveislu fornminja í Danmörku. Er bréfið ritað þann 25. júní 1818.
Í lýsingu Jóns segir svo um garðinn: Máské mætti telia Meniar-Fornaldar; Sýnishorn af þeim stóra Vórdslu Gardi, úr Hlídar-Vatni, alt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa Vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar/ sem óll skyldu þá hafa samfóst verid/ med læstu Hlídi ad Lógbýli hvóriu; – Eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og Austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd í Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Mann (Frásögur um fornaldarleifar 1983:228).
Næst er garðsins getið í Sýslu- og sóknarlýsingum árið 1840 og enn er það séra Jón Vestmann sem heldur á pennanum. Hljóðar lýsing hans svo: „Engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalla, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hvörju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þess vegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis. Þar um er þessi vísa:
Fegurðin um fram annað
einna var þó mest,
vart mun verða sannað,
víða hafi sést
öll vera tún í einum reit,
garði varin miklum mjög
um meiri part af sveit“. (Sýslu- og sóknarlýsingar 1979:226-27).
Í Örnefnaskrá Vogsósa, sem var tekin saman á sjöunda áratug síðustu aldar, virðist nafnið Fornigarður fyrst koma fram svo að vitað sé (Örnefnaskrá Vogsósa). Kannski festist nafnið á garðinn þegar menn uppgötvuðu að hugsanlega hafi verið átt við þennan garð í rekaskrá Strandarkirkju árið 1275. Áður virðast menn hafa kennt hann við Erlend Þorvarðsson lögmann á 16. öld eins og fram kemur hér að ofan. Margt mun vera kennt við þann mann og sumt þjóðsagnakennt. Sagt er í Örnefnaskrá að á garðinum sé hlið sem Gamlahlið heitir. Hafi það verið eitt af hliðum Fornagarðs að lögbýlunum sbr. lýsingar séra Jóns Vestmanns hér að ofan. Hlið þetta er líklega nokkuð langt norðan við hinn kannaða hluta garðsins og langt fyrir utan áhrifasvæði Suðurstrandarvegar. Það var ekki kannað hvort hlið þetta væri enn sýnilegt.
Vegna vinnu við umhverfismat Suðurstrandarvegar var vegastæðið kannað með tilliti til fornleifa. Fyrsta könnun átt sér stað þann 11. september 2000. Garðinum er lýst svohljóðandi í Fornleifaskrá (Fornleifaskrá Íslands): „Garðurinn var aðallega skoðaður þar sem hann er í hættu vegna vegagerðarinnar. Hann virðist þó nær samfelldur, nema við sinn hvoran endann þar sem hann hefur máðst svolítið“. 13/6 2001
Við vettvangsathugun þann 12/6 voru enn fleiri garðar skoðaðir á svæðinu og þeir teiknaðir inn á loftmynd hjá Vegagerðinni. Garðarnir virðast fyrst og fremst liggja við S – hluta þess svæðis sem Fornigarður afmarkar en þó norður af Víghól. Allir eru þeir mjög svipaðir og sumir mjög orpnir sandi.
Breidd þeirra er meiri en gefin er upp í lýsingu hér að ofan, eða 3 – 4 m (sandur) og hæðin getur verið rúmur einn metri (Fornleifaskrá).
Fornigarður, og allar aðrar fornleifar í landi Vogsósa, Strandar og Vindáss, voru friðlýstar árið 1927 (Fornleifaskrá 1990:78).
Landið sem Fornigarður liggur um er að mestu leyti örblásið, sandorpið og lítt gróið land. Víða sér í bera hraunhelluna. Í kring um Vogsósa og Strandarkirkju eru þó grónir blettir og lúpínu hefur verið sáð innan landgræðslugirðingar sem þarna er. Ekki virðast nein rofabörð vera eftir sem sýnt gætu fyrra yfirborð eða hve mikið land hefur blásið burt á svæðinu. Slíkt má þó sjá nokkuð austar, eða austan við malarveginn að hverfinu í Selvoginum.
Sandurinn sem þarna liggur kemur trúlega aðallega frá ósum Ölfusár, enda má rekja þetta sandorpna og blásna land alla leið þangað. Þessi sandblástur hefur sennilega snemma orðið að vandamáli fyrir bændur í Vogsósum og byggðinni þar hjá…
Nokkrir garðar af ýmsum gerðum hafa verið rannsakaðir hér á landi. Túngarðar, sem finna mátti við nær hvert býli áður fyrr, enda tekið fram í Jónsbók að „hver maður skal löggarð gera um töðuvöll sinn“ (Sigurður Þórarinsson 1982:5), eru sennilega algengastir garða og allmargir þeirra hafa verið rannsakaðir.
Í hinum fornu lögum Grágás og Jónsbók er t.d. að finna ákvæði um breidd og hæð löggarða og hvenær vinna við þá skyldi fara fram. Skyldu þeir vera fimm fet á þykkt niður við rót en þrjú fet efst. Hæð þeirra skyldi taka í öxl. Yfirfært í metra gerir þetta 1,25 – 1,50 m að neðan og 0,75 – 0,90 að ofan og ca. 1,5 – 1,6 m á hæð (Kristmundur Bjarnason 1979:34). Breidd Fornagarðs uppfyllir ekki þessi ákvæði hinna fornu laga. Hins vegar fer hann mjókkandi eftir því sem ofar dregur í samræmi við lögin fornu.
Árið 1776 kom þúfnatilskipunin svokallaða (Sami 1978). Í henni var kveðið á um að girða skyldi öll tún torf- eða grjótgarði, verði því við komið. Hver bóndi átti að hlaða árlega sex faðma í grjótgarði eða átta í torfgarði, fyrir sig sjálfan og hvern verkfærann mann á bænum. Garðarnir áttu að vera tvær álnir (0,98 – 1,14 m) á hæð og tvær og hálf alin (1,23 – 1,43 m) á breidd eða þykkt að neðanverðu, að minnsta kosti. Fornigarður uppfyllir ekki heldur þessi ákvæði hvað breiddina varðar.
Tilgáta um Fornagarð
Þegar loftmynd er skoðuð af svæðinu kemur vel í ljós hvernig Fornigarður skiptir sér skammt NNV af Strandarkirkju. Sá hluti hans sem liggur til SA, í átt að byggðinni í Selvogi, er greinilega miklu veigaminni og sennilega yngri en aðalgarðurinn. Það er tilgáta mín að hinn eiginlegi Fornigarður, eða hvað hann gat hafa heitið í upphafi, hafi legið í boga frá Hlíðarvatni að ströndinni og sá hluti sem beygir til SV þar sem garðurinn skiptir sér, sé hluti af þessum upprunalega garði.
Sagnir um að Fornigarður hafi legið utan um alla byggðina í Selvogi eru mögulega ungar og til komnar löngu eftir að upprunalegi garðurinn var gleymdur og Vogsósar fluttir á núverandi stað. Í fyrsta lagi er bogadreginn garðurinn líkur þeim túngörðum sem við þekkjum frá fyrstu öldum byggðar í landinu. Þannig voru túngarðarnir utan um landnámsbýlin, ef þeir voru til staðar yfirleitt. Síðar breyttust þeir í lögun og færðust gjarnan nær býlunum.
Munnmæli herma, eins og fram kom hér að framan, að upphaflega hafi Vogsósar staðið þar sem nú heitir Baðstofuhella austan við ósa Óssins. Ef rétt er, getur Fornigarður vel hafa verið byggður utan um hinn upprunalega túngarð Vogsósa (sem var hugsanlega úr torfi og því algerlega horfinn). Garðurinn er þó nokkuð langt frá og umfangsmikill miðað við þá túngarða sem við þekkjum í dag.
Ef við hins vegar gefum okkur að garðurinn hafi verið sandvarnargarður utan um gömlu tún Vogsósa, getur þetta komið heim og saman. Túnin lifðu bæinn og geta hafa verið nýtt löngu eftir að hann hafði veri fluttur. Það má ímynda sér að þegar sandáblástur var orðinn að vandamáli, líklega einhvern tímann upp úr 1100 AD skv. sniði, hafi túngarðurinn verið færður frá bæjarstæðinu svo hann mætti þjóna bæði sem túngarður og sandvarnargarður.
Eftir að Vogsósar höfðu verið fluttir, ef svo var, missti garðurinn upphaflegt hlutverk sitt og prjónað var við hann á kafla og hann tengdur þeim túngörðum sem voru utanum byggðina í Selvogi svo verja mætti bæði hana og gömlu túnin í kringum Baðstofuhelluna ágangi sandsins.
Það var þó ekki sandurinn sem herjaði verst á svæðið við Baðstofuhelluna, það var sjórinn.
Þar er nú aðeins ber klöppin eftir og engin ummerki um að þar hafi staðið fornbýli. Landbrotið er gríðarlegt á þessum stað og erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig það hefur litið út við upphaf byggðar í landinu. Vitað er að allmargar eyjar hafi fyrrum verið í Ósnum, en eru nú flestar horfnar; geta þó kunnugir bent á, hvar þær hafa verið. Nöfn eyjanna voru Sandey, Grjótey, Húsey, Hrútey og Fagurey (Örnefnaskrá Vogsósa). Brýtur þar land enn.
Niðurstaða Bjarna
Fornigarður er byggður einhvern tímann eftir 1104 AD. Um það leyti verður sandfok all áberandi á svæðinu og hlýtur það að hafa skapað ákveðin vandamál fyrir bændur þar. Til að verja tún frá þessum vágesti hefur mikill garður verið hlaðinn utan um tún Vogsósa þar sem hann stóð fyrst, eða þar sem nú heitir Baðstofuhella.
Nafnið Fornigarður er ekki ýkja gamalt og alls óvíst hvort garðurinn hafi haft nokkurt nafn í byrjun. Smám saman missir garðurinn þýðingu sína, kannski vegna þess að menn gáfust upp á vonlausri baráttunni við sandinn. Þó hefur honum verið haldið við með miklu minni tilkostnaði en áður. Grjóti hefur verið hrúgað upp eftir þörfum, en ekki vandað mikið til verksins enda ekki þörf á því.
Rannsóknin leiddi í ljós að garðurinn er að mestu leyti heill þar sem hann var skoðaður undir sandinum, þó eitthvað kunni að vanta upp á efsta hluta hans. Þannig má ganga út frá því sem vísu að garðurinn sé jafn vel á sig kominn annarsstaðar þar sem eins háttar til og á rannsóknarstaðnum, með nokkrum undantekningum. Suðurhluti hans er trúlega mest laskaður og hugsanlega mætti rekja garðinn eitthvað lengra í átt að sjónum.“
Bryndís G. Róbertsdóttir rannsakaði og skrifaði skýrslu um „Aldur Fornagarðs í landi Strandar og Vogsósa í Selvogi út frá gjóskulögum“ árið 2004:
„Að beiðni Fornleifafræðistofunnar, fyrir hönd Vegagerðarinnar, tók höfundur að sér að aldursgreina Fornagarð í Selvogi út frá þekktum gjóskulögum.
Ekki hafa farið fram kerfisbundnar rannsóknir á gjóskulögum í Selvogi eða nágrenni.
Í þessari greinargerð verður því að raða saman bútum úr rannsóknum margra jarðfræðinga til að átta sig á hvaða gjóskulög er líklegt að finna í Selvogi.
Gjóskulög sem vænta má að finnist í Selvogi eiga flest upptök sín á eystra gosbeltinu og hefur eldstöðin Katla í Mýrdalsjökli verið þar virkust. Einnig má búast við gjósku úr eldgosum sem orðið hafa í sjó skammt undan Reykjanesi, en eldstöðvarnar eru á vestasta hluta Reykjanes-Langjökuls gosbeltisins.
Gjóskurannsóknir á eystra gosbeltinu eiga sér langa sögu, eða allt frá því Sigurður Þórarinsson hóf gjóskurannsóknir hér á landi á fjórða áratug síðustu aldar. Rannsóknir hans beindust í upphafi að gjósku úr Heklu.
Höfundur byrjaði á því að skoða þversnið sem búið var að grafa í gegnum garðinn. Þar sem illa gekk að finna gjóskulög í sniðinu, fór höfundur að leita að betra sniði. Í botni skurðarins sem grafinn var í gegnum Fornagarð hafi orðið eftir stór hraunhella, sem var neðst úr garðinum og óhreyfð. Höfundur gróf niður með henni að vestanverðu og kom þar niður í fok og undir því góðan jarðveg, þar sem fundust mörg og vel varðveitt gjóskulög. Þó að rannsóknin snerist eingöngu um gjóskulög frá sögulegum tíma, ákvað höfundur að mæla allt sniðið.
Botn Fornagarðs er hraungrýti úr Selvogsheiðarhrauni. Fok er undir garðinum. Jón Jónsson (1978) sem ortlagt hefur öll hraun á Reykjanesskaga telur að hraunin undir Fornagarði séu komin frá dyngju sem kennd er við Selvogsheiði. Auk gígs efst á Selvogsheiðinni, eru 3 aðrir gígir á dyngjunni; Strandarhæð, Vörðufell og nafnlaus gígur suður af Svörtubjörgum. Við þunnsneiðaskoðun reyndist ekki unnt að greina mun á hraunum frá þessum fjórum gígum, svo litið er á þessi hraun sem sömu myndunina. Jón Jónsson (1978) telur að Selvogsheiðarhraunin séu væntanlega frá því snemma á nútíma, þegar sjávarstaða hafi verið lægri en nú. Það má sjá af því að yfirborði hraunanna hallar tiltölulega jafnt út í sjó, litlir sem engir sjávarhamrar eru með sjó fram og hvergi hefur fundist vottur af bólstrabergsmyndun meðfram ströndinni.
Niðurstaða Bryndísar
Frá neðri brún Fornagarðs og niður að gjóskulaginu Hekla 1104 eru 20,8 cm af foksandi, jarðvegsblönduðu foki og jarðvegi neðst.
-Fornigarður er örugglega mun yngri en gjóskulagið Hekla 1104. Jarðvegur á milli Heklu-1104 og foksins er 0,55 cm. Ef miðað er við sömu jarðvegsþykknun á ári og frá Landnámlaginu 870 að Heklu 1104, hefur jarðvegurinn myndast á 13 árum. Miðaldalagið, sem talið er myndað í eldgosi í sjó skammt undan Reykjanesi árið 1226, finnst ekki undir garðinum, né í sýni neðst úr foki.
-Uppblástur í nágrenni Fornagarðs hefur hafist fyrir 1226, hugsanlega um 1120. Erfitt, eða nánast ógjörningur, er að meta hve hratt fokefni hlaðast upp. Hér er sett fram einföld nálgun og gert ráð fyrir að upphleðsluhraði fokefna sé sá sami og jarðvegs. Árleg þykknun foks undir Fornagarði er sú sama og árleg jarðvegsþykknun frá Landnámslagi 870 að Heklu 1104.
-Fornigarður er hlaðinn um 1595. Árleg þykknun foks frá Heklu 1104 og upp að núverandi yfirborði beggja vegna garðsins er sú sama.
-Fornigarður er hlaðinn á árabilinu 1405-1445. Ef að nálgunin hér að ofan er raunhæf, þá er Fornigarður hlaðinn á tímabilinu 1400-1600. Í frásögn frá 1818, sem skráð var af Jóni Vestmann, presti að Hlíð í Selvogi, er lýsing á stórum vörslugarði sem liggur frá Hlíðarvatni allt fram að Strönd. Garðinn eignar hann Erlendi Þorvarðssyni, lögmanni frá 1520-1554, sem bjó lengi á efri árum að Strönd í Selvogi og dó þar 1576 (Frásögur um fornaldarleifar 1817-1823).
-Þessi frásögn um að Fornigarður hafi verið hlaðinn á 16. öld getur staðist miðað við þá nálgun sem höfundur hefur gert hér að ofan á þykknun foks undir og til hliðar við garðinn. Varpað er fram þeirri hugmynd að Fornigarður hafi til viðbótar við það að vera vörslugarður, einnig verið sandvarnargarður. Fokið gæti þá hafa átt uppruna sinn í fjörunni framan við Hlíðarvatn og við ósa útfalls Hlíðarvatns.“
Heimildir:
-Fornleifar nr. 22 í Ölfusi, Árnessýslu. Bjarni Einarsson 2004; Skýrsla um fornleifarannsókn sumarið 2003.
-Aldur Fornagarðs í landi Strandar og Vogsósa í Selvogi út frá gjóskulögum, Bryndís G. Róbertsdóttir, 2004.