Fyrstu skólabílarnir
„Síðastliðið haust keyptu tvö skólahverfi bíla til að flytja á skólabörn, og eru það fyrstu skólabílarnir. Hafa hinir framtakssömu forráðamenn þessara skólahverfa þar með stigið spor, sem markað getur tímamót í skóla- og félagsmálasögu sveitanna. Skólahverfi þessi eru Ölfusskólahverfi í Árnessýslu og Vatnsleysuströnd í Gullbringusýslu.
Hagar ágætlega til á Vatnsleysuströnd, þar sem sveitin er mjó og löng með einum aðalvegi og stutt af honum heim á hvern bæ. Þar er nú kennt á einum stað, en var á þremur áður og þó víða alllöng leið í skóla. Njóta nú öll börn þar jafnlangrar skólakennslu, en börn frá afskekktari bæjum voru mjög afskipt áður. — Aftur á móti hagar ekki sérlega vel til fyrir skólabíl í Ölfusinu vegna þess, hve sveitin er breið og vikótt. Þar var áður heimavistarskóli, og kostnaður við heimavistina minni en víða annars staðar vegna jarðhita, en hins vegar hagaði þar ekki vel til fyrir hana að því leyti, að skólinn er í allstóru þorpi, Hveragerði. Sækja nú öll börn skólann á hverjum degi, hvort sem þau búa í sveitinni eða þorpinu. Kennsluvikur á barn eru þriðjungi fleiri en áður, þótt skólinn starfi jafnmargar kennsluvikur.
Skólabíl Ölfusinga er ekið í ákvæðisvinnu, en á Vatnsleysuströnd ekur annar kennari skólans bílnum. Skólabíll ölfusinga er tuttugu og tveggja manna langferðabíll, upphitaður og í góðu lagi. Fer því vel um börnin á leiðinni, eins og vera ber. Á Vatnsleysuströnd er skólabíllinn minni, enda færri börn að flytja. Hann er þó ekki að öllu leyti heppilegur sem skólabíll. Ætluðu forráðamenn skólans að fá bíl með sérstakri yfirbyggingu, er hentaði vel þörfum sveitarinnar, en tókst það ekki í haust. Er því þar um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, og gert ráð fyrir hentugri bíl næsta vetur. í báðum skólahverfunum eru bílarnir dálítið notaðir til annarra félagslegra þarfa, og hefur það komið mörgum vel. Er mér og tjáð, að mikil ánægja sé með þessa nýbreytni í báðum skólahverfunum.
Engin fyrirmæli eða reglur eru til um ríkisstyrk til skólabíla, og er það eðlilegt, þar sem hér er um algera nýjung að ræða. En ekki eiga þeir, sem að henni standa, síður skilið styrk fyrir það, þótt þeir hafi lagt styrklausir út á nýja braut, sem getur orðið fjölfarin og til mikils sparnaðar á skólakostnaði. Ættu því þessi skólahverfi auk styrksins skilið nokkur forustulaun.
Fjárframlaga af hálfu ríkisins er þegar þörf og fyrirmæla um, hvernig greiðslum skuli haga, því að auk þessara skólahverfa, hafa skólanefndir í allmörgum skólahverfum mál þetta til athugunar, en bíða átekta um framkvæmdir þar til vitað er um þátttöku ríkisins og auðveldara verður um efni til byggingar nýrra skólahúsa, sem staðsett væru og miðuð við, að nemendur séu fluttir í bílum.“
Bjarni M. Jónsson.
Heimild:
-Menntamál, Skólabílar, Bjarni M. Jónsson, 17. árg. 1944, 3. tbl. bls. 64-66.