Garðskagavitar
Gamli garðskagaviti var byggður árið 1897 í umsjá dönsku vitamálastofnunarinnar og hannaður af starfsmönnum hennar.
Vitinn er steinsteyptur, ferstrendur kónískur turn, 11,4 m að hæð. Ljóshúsið var úr járnsteypu, sömu gerðar og ljóshús Gróttuvita, en það ljóshús er nú Súgandiseyjarviti við Stykkishólm. Eins og sjá má hefur það verið fjarlægt af vitanum. Varðklefi úr timbri var byggður utan á vitann en steinsteypta viðbyggingin sem enn stendur var reist í hennar stað.
Ljósgjafi vitans var steinolíulampi en einföld katadíoptrísk snúningslinsa var notuð til að magna ljósið. Lóðagangsverk var notað til að snúa linsunni.
Notkun vitans var hætt haustið 1944 þegar yngri Garðskagavitinn var tekinn í notkun. Vitinn er nú friðaður.
Hinn nýi reisulegi Garðskagaviti, sem hannaður er af Axel Sveinssyni verkfræðingi, var byggður árið 1944 til að koma í stað eldri Garðskagavita sem þótti of lágur og einnig í hættu vegna landbrots. Hinn sívali kóníski steinsteyputurn er 28,6 m að hæð með ljóshúsi sem er ensk smíð. Vitinn var húðaður með ljósu kvarsi í upphafi en var kústaður með hvítu viðgerðar- og þéttiefni árið 1986.
Í fyrstu voru notuð ljóstækin úr eldri Garðskagavitanum en árið 1946 var vitinn rafvæddur. Árið 1960 var skipt um linsu og í stað linsunnar frá 1897 var sett fjórföld snúiningslinsa.
Garðskagi var einn þeirra vitastaða þar sem vitavörður hafði fasta búsetu og stóð svo fram til 1979. Vitavarðarhús stendur enn, byggt 1933 eftir teikningum Einars Erlendssonar arkitekts. Byggðasafn Gerðahrepps er starfrækt í útihúsum þeim sem tilheyrðu búi vitavarðarins.