Grákolla – Arngrímshellir – þjóðsaga

Gvendarhellir

 Arngrímur hefir maður heitið Bjarnason, Arngrímssonar hins lærða. Skólagenginn var hann, staðarráðsmaður í Skálholti og síðast lögréttumaður. Hann bjó í Krýsivík frá 1717 til dánardægurs, 9. ágúst 1724.
Arngrímur frá Læk í Krýsuvík hafði fyrir aldamótin 1700 fé sitt í helli í Klofningum í Krýsuvíkurhrauni.

Arngrímshellir

Arngrímshellir.

„Vestanundir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug. Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. — Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. — Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.

Arngrimshellir-231

Í Arngrímshelli (Gvendarhellir).

Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áðurnefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og alþiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús. Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn. Hlóð af honum með þvervegg, bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Í Blöndu VI 187 segir um þennan sama helli að Guðmundur nokkur hafi gætt á vetrum fjár síns við helli einn í Klofningahrauni, Gvendarhelli, og hélt því mjög til beitar. Framan við hellinn byggði hann skemmu með opi á miðju og sést hún enn þá. Rétt inn af skemmunni afgirti hann skáp úr hellinum og geymdi þar lömbin, ef illt var veður og þörf var á að gefa þeim. Þar hafði hann og rúm sitt, er hann hlóð upp úr grjóti og þakti svo með gæruskinnum, er hann lá á. Út frá hellinum var veðursæld mikil og hagar fyrir sauðfé svo góðir að aldrei brugðust. Guðmundur var þarna um 1830.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Hellirinn hefur fengið að vera nokkurn veginn í friði. Í honum má enn sjá hleðslur fyrir munna, tóft við meginopið, flórað gólfið að hluta, hlaðna stíu og fyrirhleðslur. Stígur liggur frá hellinum vestur yfir hraunið, áleiðis til Krýsuvíkur. Neðar er greið leið niður í Keflavík (Kirkjubás), en þangað sóttu Krýsvíkingar löngum rekavið.

Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 43. árg., 1930-1931, bls. 76
-Blanda VI 187

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).