Grindavík á 18. öld

Jóhanna

Sagnfræðinemar við Háskóla Íslands fluttu stutt erindi um rannsóknir sínar á sögu Grindavíkur á 18. öld í Flagghúsinu (2009). Um var að ræða málstofu Landseta Skálholtsstóls um fólk og atvinnu í Grindavík á síðari hluta 18. aldar. Flutningur hvers erindis tók um 10-15 mínútur.

Sérstaða landbúnaðar í Grindavíkurhreppi á 18. öld
SelsvellirJón Torfi Arason sagði allar jarðir á þessum tíma hafa verið eign Skálholtsstóls, nema Húsatóftir, sem var konungsjörð. Árið 1703 voru 9 lögbýli í Grindavíkurhreppi, en jarðir stórlega úr sér gengnar og fokið yfir þær sandi eins og getið er um í heimildum þess tíma. Sérstaða Grindavíkurjarðanna hafi aðallega verið fólgin í tvennu; annars vegar fjörubeitinni og hins vegar selstöðubyggðinni. Í hinu fyrrnefnda hafi aðallega falist þang og beit fyrir skepnur, aðallega fé, og söl og murukjarni til manneldis. Við Faxaflóa sunnanverðan og ef til vill víðar er hann [::murukjarni] oft nefndur einu nafni ,,kjarni„, dæmi: „Fyrir Hópslandi [ […]] er nógur kjarni (::þáng, sem menn gefa kúum, og mjólka þær þar eftir (heimild: Jarðabókin 1703).“
FjörubeitUm hið síðarnefnda (selstöðu-byggðin) eru til litlar litlar heimildir en skilið eftir sig miklar mannvistarleifar. Um sel Grindvíkinga fjallaði Ómar Smári Ármannsson, nemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, m.a. skrifað BA-ritgerð. Ljóst er að 6 af 9 lögbýlum í Grindavíkurhreppi höfðu í seli 1703. Allt fé bændanna mun hafa verið haft í seli og auk þess stundum annar búpeningur.
Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem undirbúin var 1743-’57, gefur til kynna að þeir félagar hafi verið á ferð um Grindavíkurhrepp 1755. Fannst þeim lítið til koma varðandi beit, telja sandinn jafnvel valda sandsótt og harðbýlt hafi þarna verið þá. [Sandsótt mun einnig nefnd sandvelta, en svo nefndist það ef hross urðu veik af því að bíta á sendinni jörð, bíta fjöruarfa eða eta hey í sandi.] Fannst þeim félögum harðbýlt á Grindavíkurjörðunum, gras lítið, en til nytja þang og þari.
Myndir af selsminjunum hafi m.a. vakið áhuga hans á Grindavíkursvæðinu, auk sjósóknar og fleira. Minjarnar væru áþreifanlegur vitnisburður um þennan mikilvæga þátt búsetuminjanna í arfleifð Grindvíkinga. Eins og fram kom er fátt um heimildir. Þó má sjá í riti Eggerts og Bjarna merki þess í orðum aðþeir hafi komið við á Selsvöllum undir Selsvallahálsi þar sem Grindvíkingar hafi haft í seli. Ekkert er hins vegar minnst á vinnu í seli eða annað um verklagið því tengdu.
Trjáreki hafi verið talinn til tekna, en hann hafi jafnan verið eigandans eign, sem var Skálholtsstóll. Kú hafi verið á sérhverri hjáleigu, en fátt var um hesta í umdæminu á þesu tímabili.

Kjör hjábúðarmanna í Grindavík á síðari hluta 18. aldar
MárMár Kristjónsson reyndi að áætla fjölda hjábúðarmanna á þessum tíma og hver staða og kjör þeirra hefðu verið. Til marks um hjáleigurnar mátti geta þess að frá Járngerðarstöðum hefðu verið 9 hjáleigur. Á öllum tímabulum var að meðaltali fleira fólks á hverju lögbýli en á hverri hjáleigu. Við fyrstu sýn virðist mega rekja það til fjölda vinnumanna frekar en til barnafjölda. Vinnuskylda hvíldi á hjáleigubændum, auk annarra kvaða margs konar, s.s. mannslán (róðrarkvöð), dagsláttukvöð og hríshestalánskvöð svo eitthvað sé nefnt.  

LögbýliMannfjöldi í Grindavíkurhreppi á árunum 1712 – ´62 voru 254- 242 manns, þ.e. fór heldur fækkandi. Árið 1789 voru þeir 194 og árið 1790 samtals 163. Grindvíkingum fækkaði því nokkuð á þessum árum. Á lögbýlum og hjáleigum voru gjarnan foreldrarnir með 1-3 börn að jafnaði, auk vinnufólks. Kjarnafjölskyldan var ríkjandi fyrirkomulag. Árið 1703 var hlutfall lögbýla 72.2% og hjáleigubænda 14.4%. Vinnufólk og aðrir voru því um 13.4%. Af hinum síðastnefndu voru 4.2% hjáleigubændur án grasnytjar og 9.2% vour húsfólk. Þurrabúðarfólk var gjarnan undir landeigandann sett, þ.e. Skálholtsstól. Tengdist það oft aðkomufólki á vertíðum, en um 400 slíkir einstaklingar komu til Grindavíkur frá öðrum landshlutum til tímabundinna starfa á þessum tíma.
ÞurrabúðLandsskuld var nokkurs konar ársleiga. Bændur greiddu landsskuld til eiganda jarðar. Hjáleigumenn greiddu landsskuld til bónda. Þegar getið er um „leigukúgildi“ er átt við skylduleigu á kú. Á hverri hjáleigu og hverju löggbýli fylgdu „leiguskilmálar“. Leigan fólst í kvöðum sem inna þurfti að hendi, landsskuld sem þurti að greiða og leigukúgildum. Mælikvarðinn var „landaurakerfið“, þ.e. kúgildið var samsvarandi 6 ám og 6 ær samsvöruðu 40 vættum. Aðrir leiguskilmálar voru að yfirleitt var leigt til eins árs í senn og mismunandi var hvaða hlunnindi fylgdu. Helstu hlunnindin á þessum tima var „viður til húsbóta“, reki og söl. Bág kjör hjáleigubænda í Grindavík birtast m.a. í bréfi til Landsnefndar (1770-1771) og umkvörtunum hjáleigubænda á þeim tíma. Segja má í stuttu máli að kjör hjáleigubænda hafi verið kröpp og að þeir hafi þurft að vinna mikið. Á þeim tíma var u.þ.b. bil annar hver maður í Grindavíkurhreppi hjáleigubóndi.

Verslun í Grindavík á síðari hluta 18. aldar
BjörnBjörn Rúnar Guðmundsson lagði út frá því hvaða áhrif fjárkláðinn hafi haft fyrir Grindavík, mætti sjá hans merki í versluninni? Eins og menn rekur minni til (og heimildir kveða á um) má rekja upphaf fjárkláðans að elliðavatni fyrir ofan Reykjavík árið 1761. Um tveimur árum síðar (1763) mun sýkin hafa breiðst til Grindavíkur. Annar mikilvægur áhrifavaldur á verslunarsöguna er hörfun Hörmungarfélagsins 1759 og upphaf konungsverslunar-innar 1760 til 1763.
Hugmyndin var að bera saman viðskipti Grindvíkinga við konungsverslunina fyrri á þessum árum. Kenningin væri sú að viðskiptin hafi dregist saman vegna fjárkláðans og að Grindvíkingar, sem og aðrir Íslendingar, hafi dregið saman seglin í viðskiptum við kaupmenn á þessum harðindaárum.
En hvað keyptu Grindvíkingar árin 1761 og 1673? Þegar bornar voru saman verslunarskýrslur sem finnast frá nokkrum völdum bæjum í Grindavík og viðskipti frá 4 bæjum; Járngerðarstöðum, Hópi, Vallarhúsi og Hústóftum, mátti sjá að heildarviðskipti hækkuðu frá árunum 1761-1763, skuldir lækkuðu og meira var eitt í brennivín og tóbak. Þrátt fyrir það var ekki jafn afgerandi munur á skuldum og heildarviðskiptum.
LeifarSegja má að fjárkláðinn, líkt og víðast annars staðar, hafi ekki haft svo mikil áhrif í Grindavík því fiskurinn var aðal undirstaðan í efnahag Grindvíkinga. Grindvíkingar höfðu fátt annað að velja en að leyfa sér munað þrátt fyrir sauðfjársýki. [Kannski að sandurinn og harðbýlið hafi stuðlað að minni áherslu á sauðfjárhaldið á þessum tíma og því hafi áhrif kreppu á því sviði haft minni áhrif en ella].
JóhannaAfgerandi breyting var meiri verslun með brennivín, þ.e. bændur þurftu, eða vildu, í auknum mæli taka það út hjá kaupmanni. Á þeim tíma voru 5 fiskar lagðir til jafns við 1 pott af brennivíni. Í verlsunarskrám má sjá að sumir lögbýlisbændur tóku hálft þriðja hundrað fiska út með þeim hætti. Má telja það vel í látið. Hugsanlega má rekja það til brúðkaupa eða stórafmæla á þeim bæjunum, en líklegra er þó að Gindavíkurbændur hafi annað hvort ekki átt aðra útektarmöguleika hjá kaupmanni eða honum og þeim hafi bara hugnast þau viðskiptin svona vel og þau tekið mið af velmeguninni.
Kaupmenn á þessum tíma voru ekki mjög velviljaðir háleigubændum eða höfðu lítið úrval þeim til handa. Dæmi er um að hjáleigubóndi einn hafi þurft spýtu á ljáinn. Gat hann einungis fengið of stutta spýtu, sem bóndi gat ekki notað. Hafa ber í huga að spýta á ljá var eitt að nauðþurftaráhöflum þess tíma.

Upphaf matjurtaræktar í Grindavík
ÞátttakendurJóhanna Þ. Guðmundsdóttir rakti matjurtaræktun Grindvíkinga á síðari hluta 18. aldar. Lagði hún út af áhuga og eftirfylgju séra Ara Guðlaugssonar frá Stað, sem var mikill áhugamaður um slíkt á árunum eftir 1770. Hann skrifaði m.a. um kálgarðsræktun árið 1777. En upphafið mætti rekja til átaks danskra stjórnvalda á þessum tíma. Átakið var liður í stærra verefni stjórnvalda sem var einskonar allsherjaráætlun um viðreisn atvinnuvegnna á Íslandi. Skriður komst síðan á matjurtarækt í Grindavík með dugnaði séra Ara á Stað.
Árið 1776 voru í Staðarsókn 43 heimili með 21 garð eða u.þ.b. helmingur heimilanna (sóknin náði þá yfir meginhluta Grindarvíkurhrepps). Segja má að það megi fyrst og fremst þakka áhuga og eftirfylgju prestins. Hvatti hann aðra bændur til að rífa, sá og rækta m.a. kartöflur, næpur og kál og lagði þeim auk þess hönd til verksins. Uppskeran varð hins vegar rýr og görðunum fækkaði. Til marks um það var engin garður í rækt árið 1799. Ástæðan mun m.a. hafa verið slæm veðrátta, ónýtt fræ til bænda, erfitt var að nálgast það og lélegrar verkunnáttu, auk þess sem eldgos og harðindi fylgdu í kjölfarið á þeim tíma.
Kartöflu- og kálrækt á Íslandi varð svo ekki algeng fyrr en á árunum 1807-1814, á tímum Napóleonstyrjaldanna, þegar skortur varð á innfluttri mjölvöru og öðrum nauðsynjum í landinu [hljómar kunnuglega m.v. ástandið í dag (2009)].

Ýmsar áhugaverðar spurningar voru lagðar fyrir flytjendur og var þeim svarað af öryggi. Framsögufólk á hrós skilið fyrir markvissa framsetningu og hófleg efnistök.

Grindavík

Grindavík.