Grindavíkurkaupstaður 20 ára – Höfuðbólið og hjáleigan – Jón Þ. Þór.
(Birtist í Árbók Suðurnesja 1994, VII. árangi).
Í almennum ritum um sögu Íslands á fyrri öldum eru þrír staðir nefndir öðrum oftar: Skálholt, Hólar og Þingvellir. Í sömu ritum er okkur tjáð, að biskupsstólarnir hafi verið mestu menningarsetur landsins og jafnframt auðugustu og valdamestu stofnanir á landi hér. Allt er það satt og rétt. Öll vitum við að völd fylgja auði, en jafnframt að auður verður ekki til af engu. Hann skapast því aðeins að menn, fyrirtæki eða stofnanir hafi tekjur, helst miklar og tryggjar tekjur umfram útgjöld í langan tíma. En hér er, að minni hyggju, brotalöm í frásögnum almennra rita um íslenska sögu. Í þeim er þess sjaldan getið hvaðan auður íslensku biskupsstólanna kom, hvernig hann varð til, hver voru tengsl stólanna við byggðir landsins, hver var þýðing einstakra staða og plássa fyrir valda- og menntasetrin. Í þessu stutta erindi verður rætt lítillega um tengsl Grindavíkur og Skálholts á öldum áður, ef það mætti verða til þess að varpa nokkru ljósi á þetta forvitnilega viðfangsefni.
Þegar Jarðabókin, sem tíðast er kennd við Árna Magnússon og Pál Vídalín, var saman tekin árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóttir, í eigu Skálholtsstóls. Húsatóttir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti. Þegar hér var komið tilsögu, hafði biskupsstóll staðið Skálholti í hálfa sjöundu öld og mikinn hluta þess tíma höfðu ítök og eignir stólsins í Grindavík verið að eflast og aukast. Í því viðfangi er athyglisvert, að elsta skjalfesta heimild, sem greinir frá ítökum og fjárhagslegum réttindum í Grindavík er rekaskrá Skálholtsstaðar frá 1270. Þar er kveðið á um skiptingu reka í Víkinni og er ljóst af skránni að Skálhyltingar hafa fengið umtalsverðan reka úr Grindavík – jafnt matreka sem viðreka – allt frá því snemma á 13. öld.
Þegar kom fram á 14. öld efldust og jukust ítök og eignir stólsins í Víkinni jafnt og þétt og á 15. öld bendir flest til þess að Grindavíkurjarðir hafi allar með tölu orðið kirkjueign. Að vísu er ekki vitað nákvæmlega hvenær þetta gerðist eða hvernig, og varla von, því á ofanverðri 17. öld vissu Skálhyltingar það ekki sjálfir. Eldsvoðar léku skjalasöfn Skálholtsbiskupa grátt fyrr á öldum og eyddust þá margar jarðabækur og skjöl, sem nú myndu veita ómetanlegar upplýsingar. En fleira kom til. Árið 1684 risu deilur vegna rekamála á Ísólfsskálafjörum. Af því tilefni ritaði Þórður biskup Þorláksson bréf, þar sem hann kvartaði undan því, að fátt væri um skjöl er greindu frá eignarhaldi Skálholtsdókmirkju á jörðum í Grindavík. Þar kenndi hann um eldsvoðunum og því að staðarskipið hefði farist á leið til Grindavíkur og með því jarða- og skjalabók, sú besta, er hann jafði heyrt getið um. Þarna átti biskup vafalaust við farmaskip Skálholtsstaðar, sem fórst við Þórkötlustaðanes árið 1602 og með því liðlega tuttugu manns.
Flest rök hníga að því að Skálholtsstóll hafi eignast Grindavíkurjarðir á 15. öld, nánar tiltekið á tímabilinu frá því Vilkinsmáldagi var settur árið 1397 og þar til Magnús biskup Eyjólfsson setti Staðarkirkju í Grindavík nýjan máldaga 1477. Á þessu skeiði voru mikil umbrot og átök í íslensku samfélagi. Á 14. öld varð bylting í atvinnuháttum og utanríkisverlsun landsmanna, er sjávarafurðir urðu verðmætasta útflutningaafurðin og sjávarútvegur arðsamasta atvinnugreinin. Á sama tíma hófu Englendingar stórfelldar fiskveiðar hér við land og á öndverðri 15. öld olli Plágan mikla stórfelldri röskun á mannfjölda og búsetu í landinu. Þessum atburðum verða ekki gerð nánari skil hér, en afleiðing þeirra varð sú, að byggðin færðist nær sjávarsíðunni en áður hafði verið, eftirspurn eftir sjávarjörðum jókst og þær hækkuðu í verði. Sama máli gegndi um sjávarafurðir, einkum skreið. Hefur dr. Þorkell Jóhannesson reiknað út, að skreiðarverð hafi hækkað um samtals 141 prósent á tímabilinu frá 1350 og fram til 1550. Tilkostnaður við útveginn fór vitaskuld hækkandi á sama tíma, en þó hvergi nærri jafn mikið. Við þessar aðstæður var eðlilegt að fjársterkir og valdamiklir aðilar í samfélaginu renndu hýru auga til góðra sjávarjarða, eins og þeirra í Grindavík, og svo mikið er víst, að um miðja 16. öld voru allar jarðir í Víkinni komnar í kirkjueign og hélst svo framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar.
En hvaða arð hafði biskupsstóllinn af þessum jörðum, hvern þátt áttu þær í viðhaldi stólsins og stofnana hans? Þessum spurningum verður að sönnu ekki svarað af þeirri nákvæmni að við getum áttað okkur á arði stólsins af jörðunum frá einu ári til annars, en tiltækar heimildir gefa þó nokkra mynd af gangi mála.
Bygging stóljarðanna fór þannig fram að biskup byggði þær bændum, sem þar með urðu landsetar dómkirkjunnar. Þeir greiddu ákveðið afgjald af jörðunum á ári hverju. Það var nefnt landskuld og fór eftir mati jarðarainnar. Við vitum ekki með fullri vissu hver landskuldin var á 15. og 16. öld, er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns var saman tekin árið 1703 var landskuld af jörðum í Grindavík samtals 17 hundruð og 40 álnir. Þessar upplýsingar segja nútímamönnum kannski ekki mikið, en greiðsla landskuldar fór fram í verkuðum fiski, harðfiski, og voru 240 fiskar, svonefndir gildingar, í hverju hundraði. Gildingur vó að jafnaði fjórar merkur, þ.e. eitt kíló, og voru þannig 240 kíló í hverju hundraði, en í hverri alin voru tvö kíló. Landskuld af jörðum Skálholtsstóls í Grindavík árið 1703 nam þannig 4.140 kílóum af fullþurrkuðum harðfiski og vilji fólk reikna það magn til peningaverðs á okkar dögum nægir að skreppa út í búð og athuga hvað harðfiskurinn kostar. Á þessum tíma, þ.e. um aldamótin 1700, var almennt reiknað með því að fullverkaður fiskur vægi um fjórðung af þyngd fisks upp úr sjó. Það þýðir að bændur í Grindavík hafi þurft að afla um það bil hálfa sautjándu smálest af fiski til þess eins að hafa upp í landskuldina.
En landskuldin var aðeins hluti af tekjum Skálholtsstóls af jörðunum í Grindavík. Stóllinn hafði umtalsverða útgerð á eigin vegum í Víkinni. Sú útgerð var vitaskuld mismikil frá einu ári til annars og arður af henni réðst af aflabrögum og árferði. Mest var stólsútgerðin í biskupstíð Brynjólfs Sveinssonar á 17. öld og má nefna sem dæmi um afraksturinn að árið 1674 fluttu faramenn biskups alls 15.357 fiska, þ.e. gildinga, af afla stólsskipanna frá Grindavík, auk lýsis og landskuldafisks. Þetta ár var afraksturinn af stólsútgerðinni þannig um 15 smálestir af fulþurrkuðum fiski, sem samsvarar 60 smálestum upp úr sjó. Gefur það nokkra hugmynd um umsvifin og við þetta bættist lýsi, reki og fleiri sjávar- og fjörunytjar.
Tekjurnar vor þannig miklar og tilkostnaðurinn við að afla þeirra fremur lítill. Biskupsstóllinn átti að sönnu vergögn í Grindavík, báta, verbúðir o.fl., en landsetar, þ.e. bændurnir, urðu að lána menn til skipsáróðurs á stólsskipunum, auk þess sem þeim bar að annast verkun á fiski stólsins.
En nú kynni einhver að spyrja: Hvaða þýðingu hafði sjávaraflinn úr Grindavík fyrir biskupsstólinn? Þessari spurningu verður best svarað með því að líta á fiskþörf Skálhyltinga og er þá einvörðngu miðað við neyslu þar heima á staðnum.
Af varðveittum heimildum er svo að sjá sem árleg fiskþörf í Skálholti hafi verið 10-11 smálestir. Á árunum 1547-1563 fluttust þangað liðlega 10 smálestir af skerið á ári að meðaltali, minnst 8 en mest 13 smálestir á einu ári. Á fyrri helmingi 18. aldar virðist fiskneyslan hafa verið lítið eitt minni, en á árabilinu 1730-1743 var flutt heim til staðarins hálf níunda smálest á ári að meðaltali. Er athyglisvert, að á þessum árum hefur landskuldarfiskurinn úr Grindavík numið nálægt helmingi af árlegri harðfiskþörf Skálhyltinga og segir það nokkra sögu um þýðingu jarðanna í Víkinni fyrir rekstur biskupsstólsins.
Í Skálholti var jafan fjölmenni, um og yfir eitt hundrað manns þegar allt er talið, og fiskur var meginuppistaðan í fæði vinnufólks og skólapilta. Má í því viðfangi minna á, að á fáfiskisárunum 1685-1704 gerðist það oftar en einu sinni, að illa horfði um skólahald í Skálholti sökum fiskileysis, og eitt árið, 1698, varð að fella niður skóla í marsmánuði og senda pilta heim vegna þess að ekki var til nægur fiskur. Sést mikilvægi harðfisksins í mataræði heima í biskupssterinu ef til vill best af því að á síðari hluta 18. aldar fékk hver skólapiltur harðfisk í tvö mál á rúmhelgum dögum, eða einn gilding yfir daginn. Piltarnir voru að vísu mismargir frá einu ári til annars, en yfirleitt um 30 þegar skóli var fullskipaður.
Árið 1770 voru skólapiltar 33, og voru þá skammtaðir 33 fiskar alla rúmhelga daga í þær 35 vikur, sem skóli stóð. Það voru 5-6 smálestir yfir skólatímann og lætur nærri að landskuldarfiskurinn úr Grindavík hafi dugað skólapiltum yfir veturinn. Um þetta leyti fengur skólapiltar 1/5 hluta úr fiski í morgunverð á sunnudögum og öðrum bæna- og helgidögum, og urðu það 363 fiskar á 35 vikum. Í Skálholti var jafnan að störfum sérstakur barsmíðamaður og hafði hann það hlutverk að berja harðfisk. Hann barði 32-360 fiska á viku hverri, og á tímabilinu 29. janúar til 26. febrúar 1723 barði hann t.d. 1670 fiska.
Auk alls þess fisks, sem fluttist frá Grindavík til Skálholts var vitaskuld mikið af afla stólsins í Víkinni flutt í kaupstað og selt utan. Fyrir andvirði þess fisks keyptu biskupar ýmsar nauðsynjar, en þótt fiskurinn hafi verið verðmætasta afurðin sem biskupsstóllinn fékk af jarðeignum sínum í Grindavík má ekki gleyma öðru, t.d. viðrekanum, sem notaður var í húsagerð og viðhald heima í Skálholti.
Jarðirnar í Grindavík voru vitaskuld aðeins brot af öllum jarðeignum Skálholtsstóls. Hér verður þess ekki freistað að meta hve mikill hluti af tekjum stólsins á ári hverju kom úr Grindavík, enda skortir nauðsynleg gögn til að það megi gera af skynsamlegu viti. Engum getur þó dulist, að Grindavík var um aldir ein af styrkustu stoðunum undir auðlegð Skálholtsstóls og þeirri menningariðju, sem þar var stunduð.