Hafnarfjörður – Kaldársel
Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir frá Kaldárseli:
Kaldársel
Kaldársel var við Kaldá og var selstaða frá prestsetrinu á Görðum og tilheyrði Garðakirkjulandi. Elsta heimildin um Kaldársel er í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703: „Selstöðu á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott.“10 Í ferðabók sinni sagði Sveinn Pálsson frá seli sem Markús Magnússon prófastur í görðum hafði 1791 og líklega er um Kaldársel að ræða: „Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðar bóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár.“
Í lok 19. aldar nýttu Hvaleyrarbændur Kaldársel sem selstöðu og leigðu þá selstöðuna af Garðakirkju. Árið 1842 keypti Jón Hjörtsson Hvaleyri og allar hjáleigur jarðarinnar. Jón og Þórunn Sigurðardóttir, kona hans, voru með selstöðu í Kaldárseli á þeim tíma sem þau bjuggu á Hvaleyri og höfðu þau sjálf umsjón með selinu og voru þar stóran hluta úr sumrinu. Selfarir lögðust niður í Kaldárseli eftir að Jón lést árið 1866.
Næst var getið Kaldársels árið 1867 og var þá heilsárs byggð þar. Þá bjó í Kaldárseli Jón Jónsson, kona hans og tvö börn. Líklegast bjó Jón í Kaldárseli í tvö ár og var hann skrifaður þurrabúðarmaður á meðan. Við brottför þeirra úr Kaldárseli lagðist búskapur þar niður í nokkur ár. Árið 1876 voru þrír skráðir til heimilis í Kaldárseli. Það var Þorsteinn Þorsteinsson bóndi,en hann var ókvæntur og barnlaus, með honum var ráðskona og tökubarn. Þorsteinn bjó í Kaldárseli í tíu ár og voru heimilismenn allt frá honum einum upp í sex. Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé en einnig hafði hann eitt til tvö hross. Fé hans hafði nokkra sérstöðu því það var nánast allt ferhyrnt, sem hafði einnig þann eiginleika að vera harðgert og þolið beitarfé.
Þorsteinn var í Kaldárseli fram til dauðadags 1866 og við andlát hans lauk fastri búsetu þar og voru þau mannvirki sem enn stóðu í Kaldárseli líklega eftir hann. Ólafur Þorvaldsson lýsti húsakostinum í Kaldárseli í bók sinni Áður en fífan fýkur: „Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.“
Danski fornleifafræðingurinn Daniel Bruun var á ferðinni um Kaldársel rétt fyrir aldamótin 1900 og lýsti hann rústunum: „Þar eru nokkrar tóttir bæði af bæjar- og útihúsum, og nokkur fjárskýli bæði opin og lokuð. Sérstaklega ber að geta þar um tvær fjárborgir […] einnig eru þar fjárréttir og loks fjárskjól í hellum í hrauninu. Hjá bæjarhúsunum er fjárhús og hésthús en ekkert fjós.“
Skömmu eftir andlát Þorsteins voru öll húsin í Kaldárseli rifin fyrir utan baðstofuna en hún stóð þar til um aldamótin 1900 og var notuð sem afdrep fyrir fjármenn Setbergsbænda sem ráku fé sitt á þessum slóðum og Krýsvíkinga sem áttu leið þar um á ferðum sínum til og frá Hafnarfirði. Haustleitarmenn Grindavíkurhrepps nýttu sér einnig baðstofuna sem og hinir fjölmörgu erlendu ferðamenn sem leið áttu til Krýsuvíkur. Um 1906 var aftur gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli og var það ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson, sem gerði þá tilraun. Hann byggði yfir gömlu baðstofutóftina og nýtti sem heyhlöðu og byggði þar fjárhús. Hann hafði lömbin á húsi en ærnar við hella norður af Kaldárseli. Tilraun Kristmundar entist þó einungis í einn vetur en löng ganga milli Hafnarfjarðar og Kaldársels, músétin lömb og að honum bauðst vist hjá bóndanum á Hvassahrauni þar sem hann gat tekið fé sitt með sér voru ástæður þess að búskapurinn entist ekki lengur en raun ber vitni. Kristmundur var síðasti bóndinn í Kaldárseli.
Árið 1912 keypti Hafnarfjörður mikið land af Garðakirkju og var Kaldársel þar á meðal. Vatnsskortur var farinn að láta á sér bera í Hafnarfirði og því voru umbætur gerðar árið 1918.
Ákveðið var að flytja hluta vatnsmagns Kaldár í ofanjarðar tréstokk og sleppa því í suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkurinn var um 1.5km á lengd. Vatnið fann sér þaðan leiða neðanjarðar að Lækjarbotnum þar sem vatnsveita Hafnfirðinga var.
Skiluðu þessar umbætur nægjanlegum vatnsbirgðum til Hafnfirðinga. Árin 1949 – 1953 var ráðist í umbætur á vatnsleiðslunni frá Kaldá, gerð var neðanjarðarleiðsla sem náði frá Kaldá og alla leið til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt í Kaldárseli fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp. Árið 1925 byggðu félögin K.F.U.M. og K. bæði í Reykjavík og Hafnarfirði hús til sumardvalar barna.17 Börnin voru flest á aldrinum 8 – 10 ára. Í Vísi 28. júlí 1929 lýsti Sigurbjörn Á. Gíslason dagsferð í Kaldársel. Hann lýsti meðal annars húsakynnum K.F.U.M.: „Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt, þar eru 24 rúm, þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði.“
K.F.U.M. og K. er enn með starfsemi í Kaldárseli þótt húsið sé mikið breytt frá lýsingu Sigurbjörns.
Tóftir Kaldársels standa nú um tæplega 10m vestan við hús K.F.U.M. og K. og er heimreiðin að húsinu alveg upp við þær. Ekki má ráðast í nokkurskonar framkvæmdir sem hafa jarðrask í för með sér án leyfist Minjastofnunar Íslands og í raun ætti að fara með einstakri varúð við allar framkvæmdir við Kaldársel en minjarnar eru friðlýstar og eru þess vegna 100 metra friðhelgað svæði í kringum sig. Fleiri friðlýstar minjar eru á svæðinu, t.a.m. fjárborgarrústir sem liggja á hæð um 280m NVN við Kaldársel.
Hvaleyrarvatn
Töluvert af minjum voru skráðar við Hvaleyrarvatn og tengjast þær flestar seljabúskapi á svæðinu. Þar af er helst að nefna Hvaleyrarsel en það stóð þar sem nú er frekar hár grasivaxinn hóll við sunnanvert vatnið og tvístrast göngustígurinn sem liggur um vatnið og liggur sitthvorumegin við hólinn. Þar mótaði fyrir að minnsta kosti þrem tóftum. Miðju tóftin hefur verið aðal húsið í þyrpingunni og hin tvö mögulega verið búr og skemma.
Hvaleyri var líklega með selstöðu við Hvaleyrarvatn frá upphafi og er jörðin að öllum líkindum elsta bújörð Hafnarfjarðar og hafa fundist minjar frá því í kringum árið 900 á henni.
Að vísu leiddi Sigurður Skúlason líkur að því að Hvaleyrarsel hafi verið við Kaldá og nafnið breyst í Kaldársel20 en það er að öllum líkindum ekki rétt enda er Kaldársel innan afréttar Garðakirkjulands og var Hvaleyrarvatn mun nær bújörð Hvaleyrar. Seljabúskapur í Hvaleyrarseli lagðist niður í kringum 1870 og segir sagan að það hafi gerst eftir að selstúlkan fannst látin við vatnið og talið var að nykur (2662-111) hafði orðið henni að bana: „Selstöðu átti Hvaleyri við Hvaleyrarvatn og þar höfðu bændurnir haft í seli frá fornu fari. Sér enn tættur seljanna við sunnanvert vatnið. Þau hjón Jón og Þórunn héldu uppteknum hætti Hvaleyrarbænda og höfðu í seli á sumrum við Hvaleyrarvatn. Höfðu þau þar jafnan selstúlku og smala. Annaðist selstúlkan mjaltir á málum og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau og þjónustubrögð. En smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selafurða. Nú bar svo til kvöld nokkurt, að er smalinn kemur heim á stöðul, lætur selstúlkan ekki sjá sig. Smalinn kvíar því ánum einn. Gengur síðan heim í sel að skyggnast eftir stúlkunni og finnur hana hvergi. Gengur því heiman frá seli og niður að vatni og vestur með því. Ekki hafði hann lengi gengið, er hann finnur stúlkuna rétt við vatnsbakkann heldur illa útlítandi. Var hún rifin á hol, eins og eftir óargadýr og traðk mikið var þar í kring eftir hringmyndaða hófa stóra.
Þóttist smalinn vita hvað valdið hafði dauða selstúlkunnar, því sögur hafði hann heyrt að nykur væri í Hvaleyrarvatni og væri annað árið þar og hitt í Urriðakotsvatni. Smalinn varð felmtrisleginn og tók á rás heim til bæjar á Hvaleyri. Var brugðist við skjótt og lík selstúlkunnar sótt og það jarðsett að Görðum. Uppfrá þessu lögðust niður selfarir við Hvaleyrarvatn. En oft mátti sjá grábleikan hest á beit í Seljahrauninu eftir þetta. Þau urðu endalok nykursins að hann fraus í hel frostaveturinn mikla 1918.“
Jón og Þórunn, sem nefnd voru í sögunni, bjuggu á Hvaleyri frá 1864-1868.
Um 200 metrum austan við Hvaleyrarsel á grasivöxnum bakka í skógarjaðrinum má sjá móta fyrir ógreinilegum tóftum Ássels og rúmlega 450 metrum norð-austan við þær inn á milli trjánna við göngustíg er að finna tóftir Jófríðarstaðasels. Eftir að Hvaleyri hætti seljabúskap við Hvaleyrarvatn skiptu Ás og Jófríðarstaðir með sér landinu við vatnið.
Undirhlíðar
Minna var um minjar við Undirhlíðar, enda svæðið að mestu úfið hraun og langt frá byggð. Þó er töluvert um leiðir og stíga á svæðinu. Tvennar þjóðleiðir liggja sitthvorumegin við hlíðarnar, þ.e. Undirhlíðavegur við norðurhliðina og Dalaleið við suðurhlíðina, báðar ganga þær frá Krýsuvík að Kaldárseli. Undirhlíðarvegur var sá vegur sem var mest farinn þegar farið var með hesta til eða frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur. Frá Kaldárseli „[…] lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melagötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. […]“
Dalaleiðin var sjaldnar farin, þá helst að vetri til, en var samt stysta og beinasta leiðin. Hún var þó talin sú hægasta og gat verið hættuleg: „Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesta að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en vetrarsólhvörf. […] Á þessari leið gátu ísar verið ótryggðir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið.
Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, – en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 – 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. […] Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið – Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krísuvík missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.
Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. […] En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndast þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin. Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2-4m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hesta nái niðri, ef ofan í lenda.“
Í sprunginni hæð, sem nefnist Gvendarselshæð, sem gengur í norðaustur út frá Undirhlíðum í átt að Helgafelli er að finna leifar Gvendarsels en þar var haft í seli á 19. öld. Sagt var að þar hafi verið svo þykkur rjómi á trogum að haldið hafi uppi vænni silfurskeið.26 Þar eru leifar fjögurra mannvirka, þrír stekkir og ein tóft sem var túlkuð sem búr. Ekkert íveruhús fannst á staðnum en selið er, eins og áður segir, í og við sprungur í hlíðinni og getur vel verið að þær hafi verið nýttar og þá mögulega einungis tjaldað yfir eða í þeim.
Sunnan við Undirhlíðar liggur Skúlatúnshraun, nefnt eftir um 1.3 hektara grashól sem stendur upp úr hrauninu. Árið 1902 heyrði Brynjúlfur Jónsson sagnir af Skúlatúni og taldi víst að þar væri búið að draga saman nafnið Skúlastaðatún. Brynjúlfur var búinn að vera að leita að bæjarstæði Skúlastaða en Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, á að hafa numið land á milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt og á að hafa búið á Skúlastöðum. Fannst Brynjólfi líklegt að Skúlastaðir hafi staðið þarna og að nafnið Skúlatún hafi komið til eftir að hraun flæddi yfir bæinn og landareignina alla. Hann kom til Skúlatúns árið 1907: „[…]Ekkert sést af hinu forna yfirborði láglendisins, nema toppurinn á hæsta hólnum; hann stendur upp úr hraunbreiðunni hérumbil miðri. Það er Skúlatún. Eigi er hann raunar toppmyndaður, heldur flöt bunga nokkuð aflöng frá norðvestri til landsuðurs og er lengd hans nál. 110 fðm., en breidd nál. 60 faðm. Hæstur er hann í landsuður-endann og er þar bratt ofan. Næsthæsti staður á honum er norðvestantil. Suður þaðan er og bunga á honum. Á öllum þessum þrem stöðum er einennilegt stórþýfi, ólíkt því þýfi sem að öðru leyti er á öllum hólnum, er fremur má kalla smátt. Gæti ég trúað, að stórþýfið á þessum þrem stöðum væri myndað úr byggingarleyfum; en fullyrða skal það ekki. Og engan vott mannverka gat eg séð þar neinstaðar. En yfirum vesturhorn hólsins var að sjá sem götutroðninga, er virtust ærið gamlir og höfðu ekkert framhald í hrauninu, hvorugu megin. Sunnanmegin voru þeir dreifðari og óglöggvari, en norðanmeginn þéttari og glöggvari. Hygg eg að þar hafi verið heimreið til bæjar, og mun hann hulinn hrauni norðvesta-undir hólnum. Hefir hann ef til vill staðið á lægra framhaldi af þessum hól, sem upphaflega hefir víst verið talsvert hár. Þó hefir túnið náð yfir hann allan. Því eigi gat eg betur séð, en að hann bæri merki gamallar ræktar. Alstaðar á honum er moldin mjög svartleit og þvöl, og víðasthvar vóx töðugresi milli þúfnanna, loðnara en í vor var á útjörð annarstaðar. Þar á móti var í þúfnakollunum meiri og minni grámosi, og hér og hvar utanmeð var krækiberjalyng farið að færa sig upp eftir hólnum.
Auðvitað eru nú þetta svo veikar líkur, að þær dyljast fyrir manni í fljótu bragði. En samt eru þær nógar fyrir mig til þess, að eg er ekki í efa um, að hér gefir verið bær og tún. Og þá virðist nafnið Skúlatún, gefa nægilega bendingu um, að þessi bær hafi einmitt verið Skúlastaðir.“
Brynjúlfur vissi þó ekki að Skúlatúnshraun rann um 900 árum áður en talið er að land var numið og auk þess er staðsetninging ósennileg, ef Ásbjörn á að hafa numið land á Álftanesi öllu væri mun líklegra að bærinn hafi staðið við sjó og þar sem vatnsból væri gott. Engin ummerki um mannvistarleifar fundust við vettvangsathugun. Staðsetning Skúlastaða er þá enn óþekkt en ein kenningin er að landnámsbærinn hafi staðið þar sem seinna byggðust Garðar eða Bessastaðir.
FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.
Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021 – Kaldársel. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-IX-Kalda%CC%81rsel-og-na%CC%81grenni.pdf