Handritasýning í Þjóðmenningarhúsi

Handrit

Hin áhugaverða handritasýning „Handritin“ er í fjórum rýmum á fyrstu hæð Þjóðmenningarhússins við Hverfisgötu.

HandritasýningFyrst eru sýnishorn af myndristum frá Norðurlöndum og Bretlandseyjum (myndinar segja sömu goð- og hetjusögur og lesa má um í Snorra Eddu og eddukvæðum) lýst munnlegri geymd (aðstæður við lifandi flutning sagna og kvæða), kristni og upphafi ritunar (Biblían, bókin og trúin), skáldum á borð við Egil Skallagrímsson (sagt frá Agli og lífi Eddufræða á síðari öldum, með ríkulegu myndefni úr svokallaðri Melsteðs Eddu) og pólitískum og veraldlegum ritum (ættfræði, Landnáma og lagaritun). Tölva er þarna með efni um goðsögur Eddanna, skýrðar viðtökur og pólitískt hlutverk fornsagna á 18. og 19. öld (á Norðurlöndum, í Þýskalandi, á Englandi, í Norður-Ameríku og á Íslandi), upplýsingar um Árna Magnússon (m.a. sagt frá komu fyrstu handritanna frá Danmörku ) og sýnd skjákvikmynd um ævi hans og störf.
Í öðru rými eru sýndar konungsgersemar undir plasthjálmi (um er að ræða rökkvað rými með helstu gersemum í Árnasafni. Í öndvegi er skipað Konungsbók eddukvæða og Flateyjarbók, en þessar tvær bækur voru fyrstu handritin, sem Danir skiluðu Íslendingum. Við hlið þeirra eru Konunsbók Snorra Eddu, lögbækurnar Staðarhólsbók Grágásar og Jónsbók og ekki síst Stjórn, hin fagra biblíuþýðing).

HandritasýningÍ þriðja rýmu er kynnt skrift og bókagerð (skriftarastofa þar sem sýnd eru vinnubrögð við gerð handrita á miðöldum. Tæki og tól til bókagerðar, allt frá verkfærum til skinna, sýnishorn íslenskra rithanda ásamt fornum myndlýsingum af bókagerð og skinnaverkum. Fyrir miðju er opin tölva með vefsíðu Árnastofnunar með ítarlegri fræðslu um sama efni). Í fjórða rými eru sýnd handrit Íslendingasagna og Íslendingabók, varin undir plasthálmi (Handrit af ýmsu tagi sem leiða vel í ljós fjölbreytni Árnasafns, meðal annars merkasta handrit Íslendingasagna, Möðruvallabók, og tvö önnur handrit Egilssögu. Einnig er hér handrit Íslendingabókar og Landnámu, galdrabók og saga heilagrar Margrétar, auk myndskreytts pappírshandrits Snorra Eddu og Eddukvæða, Melsteðs Eddu, sem á sér merkilega sögu).
Í svo umfangsmiklu efni og handritin eru verður aldrei hægt að gera því ítarleg skil, einungis gefa upplýsta, en takmarkaða, mynd af því.

HnadritasýningÞegar komið er inn á sýningagólfið er gengið á mynd í gólfinu, skorna í dúkinn. Fljótlega kemur í ljós að það er hægt að fá upplýsingar um það sem fyrir augu ber á veggspjöldum, misjafnlega stórum, en að öllu jafna læsilegum. Sum spjöldin eru það neðalega að innkoman krefst svolítillar leikfimi, sem reyndar ætti bara að vera flestum holl. Samkvæmt einu spjaldanna er myndin á gólfinu eftirmynd frá 11. öld á steini í Ramsundborg í Svíþjóð og segir frá atviki í sögu Sigurðar Fáfnisbana. Á veggjum við innganginn eru myndir af erlendum ristum ásamt upplýsingaspjöldum (Ein myndin er af myndsteini frá 11. öld í kirkjugarði á Upplandi vestur af Uppsölum í Svíþjóð. Önnur er af myndsteini frá austurströnd Englands, Lindisfarne (793), en það ártal er talið marka upphaf víkingatímabilsins er vikingar réðust á klaustrið. Þriðja myndin er rúnarista frá Timans í Roma á Gotlandi. Hún er frá seinni hluta 11. aldar og tengist goðafræði líkt og hinar). Á einu skiltanna innan við innganginn stendur eftirfarandi: „Fyrir daga ritunar er sögðu menn sögur af goðum og hetjum og ræktu trú sína án þess að styðjast við bækur. Efni af þessu tagi var fyrst skráð með myndum, sem hafa dregið fram aðalatriði hverrar sögu í hugum sagnamanna og áheyrenda þeirra”. Hér er kveðið á um forsögu og aðdraganda handritagerðar, sem verður að teljast nokkuð góð byrjun.

Þegar inn í sýningarsalinn er komið þarf að ganga undir boga. Á boganuHandritasýningm eru rúnastafir. Íslendingar, og jafnvel margir aðrir sýningargestir, eru hjátrúafullir minnugir kritum í þjóðtrú og kæra sig ekki um að ganga undir hvað sem er, sbr. stiga. Hvergi var að sjá fyrir hvað þessar rúnaristur stæðu. Upplýsingarnar gætu þó leynst þarna einhvers staðar. Þær gætu hvort sem er verið bölbæn eða heillaóskir. Gestum finnst alltaf viðkunnanlegra að vita undir hvað þeir eru að gangast – svona til gamans.
Innan við bogann er sagt frá sagnaskemmtun á íslenskum heimilum, forsögu víkinga og íslenskra skálda við hirðir konunga sem og dróttkvæðunum við upphaf víkingatímabilsins. „Frá fyrstu tíð eru til heimildir um þann sið að skemmta með sögum á Íslandi, ýmist munnlegum eða lesnum úr bókum. Á miðöldum var lesið upphátt úr handritum og tíðkaðist það áfram þótt bækur væru prentaðar og bókaeign yrði almennari. Á 18. öld var það enn helsta dægradvöl manna á kvöldvökum að lesa fornsögur og kveða rímur og hélst sá siður fram á 20. öld”.

HandritasýningSýndar eru stórar myndir úr Íslensku Hómilíubókinni, ritaðri um 1200, og Helgastaðabók, sem rituð var um 1400. Fram kemur að „á miðöldum skrifuðu Íslendingar veraldlegar sögur um bændur og höfðingja frá fyrstu öld Íslandsbyggðar. Einnig sögur af víkingum og konungum sem gerast í þeim löndum sem norrænir menn fóru til á víkingaöld. Með sagnaritun sinni varðveittu Íslendingar þá landafræðiþekkingu, sem áður var miðluð með munnlegum sögum kynntust bæði eigin landi og fjarlægum heimsálfum í gegnum sögur. Menningarlegt landnám við norðanvert Atlantshaf fór þannig fram með því að láta sögur gerast í landslaginu”. Þessar sögulegu upprifjanir í nálægð mynda af fornum handritum hjálpar safngestum betur að skilja uppruna þeirra og mikilvægi.
Á vegg er landakort. Á kortið eru skráðar hinar ýmsu sögur og handrit eftir landshlutauppruna þeirra. Athygli vekur að engin slík eru á Reykjanesskaganum og það þrátt fyrir að “hinn fyrsti landnámsmaður” settist þar að og bjó þar það sem eftir var (a.m.k. skv. skráðum heimildum).
Kynntar voru “nútímabókmenntir”, þ.e. myndablöð og vinsælar sögur þar sem efnið er m.a. sótt í goðafræðina og víkingatímann. Má þar nefna sögur Tolkiens um Hobbit og meistaraverk Wagners. Seinni tíma kort og spil tengt innihaldi handritanna eru og til sýnis.

HandritasýningInnihaldinu í öðru herbergi hefur verið lýst, þ.e. handrit Konungsbókar Eddukvæða (elsta og merkasta safni eddukvæða og frægast allra íslenskra bóka), Skarðsbók Jónsbókar (gerð 1280 – kennd við Jón lögmann Einarsson), Staðarhóls-bók Grágásar (lögbók íslenska þjóðveldisins), Stjórn (safn þýðinga úr Gamla testamentinu), Konungs-bók Snorra Eddu (rituð snemma á 14. öld) og Flateyjarbók (stærsta íslenska skinnbókin, rituð á miðöldum).
Eðlilegt myrkur ríkir umhverfis handritin og eykur það á áhrifamátt þeirra. Engum gæti dottið í hug að káfa á plashjálminum, sem umlykur handritin. Upplýsingaskiltin við þau gefa góða upplýsingar um gripina, en sagnfræðilegir úrdrættir væru þarna vel þegnir því ekki er víst að allir sýningargestir viti í raun um efnisinnihald handritanna. Það að þau skuli vera jafn merkileg og þau eru, ætti að gefa tilefni til a.m.k. örstutts úrdráttar á því sem sýnt er.
Gripir og upplýsingar í þriðja rými gefa ágæta mynd af efni, gerð og textum handrita og bóka. Til sýnis eru áhöld, fjaðurpennar, blek, litir og litasteinar, lýst hversu langan tíma gat tekið að rita eitt handrit og hvernig það reyndi á skrifarana. Meðferð og verkun skinna er gerð góð skil og nýta má aðgengilegar lesmöppur til að fræðast nánar um einstök efnisatriði. Þetta rými brýtur ágætlega upp sýningu handritanna millum þess.

HnadritasýningÍ fjórða rýminu má t.d. berja Margrétarsögu augum, lítið galdrakver, Íslendingabók Ara fróða (handritið var skrifað af Jóni Erlendssyni frá Villingarholti 1651), Hauksbók Landnámu (handritið var skrifað af Hauki Erlendssyni 1302-1310), Kálfalækjarbók Njáls sögu, Melstaða Eddu (skrifuð af Jakobi Sigurðssyni á 18. öld), Ketilsbók Egilssögu (skrifuð af Katli Jörundssyni í Hvammi á 17. öld, Möðruvallabók (Safnrit Íslendingasagna ) og Þetubrot Egilssögu (elsta handrit sögunnar, sennilega frá 13. öld, eignað Snorra Sturlusyni).
Þetta rými er í rauninu framhald af rými tvö. Má því umsögn þess og gilda um það.
“Hvernig er tekið á gripafræði handrita?” Svar við því er að nokkru komið fram; vel að mörgu leyti, en sagnfæðilegri fylling væri vel þegin. Sagan er útskýrð með almennum hætti og sýnd tiltekin handrit og aðrir gripir henni til stuðnings. Skýringartextar eru og handritunum til stuðnings, en þegar um einstök handrit er að ræða mætti koma innihaldsúrdráttur af því sem fyrir augu ber. Safngestir sá snjáð handrit og máðar bækur, skinnsíður og blaðsíður, letur og myndir, en þeir geta ekki lesið innihaldið – það sem þetta allt snýst um – forn texti og lýsing á formfögru efni, gert af fólki við upphaf ritunar hér á landi og við aðstæður, sem sýningargestir gætu varla ímyndað sér hverjar voru. Enda ekki mikið gert af því að lýsa aðstæðum skrifaranna á sýningunni. Eflaust hafa fræðimenn og ólærðir mismunandi þörf á skýringum. Og eflaust þurfa skýringarnar að vera mismunandi, allt eftir því hver á í hlut. Ljóst er að aldrei verður hægt að setja upp sýningu sem þessa svo öllum líki. Rétt er að þakka aðstandendum fyrir það sem þó hefur verið gert því þarna hefur verið um að ræða mikla undirbúningsvinnu. Og hin fornu handrit þjóðarinnar hefur sennilega aldrei verið aðgengilegri almenningi og einmitt nú – þar sem þau eru á “Handritasýningunni” í Þjóðmenningarhúsinu, þar sem aðgangur er m.a.s. ókeypis á miðvikudögum.
Gripir og myndir eru í flestum tilvikum ágætlega stutt með skýringartextum og textaspjöldum. Gripirnir, einkum handritin, eru áhrifamiklir til sýninga, ekki síst þegar svo vel er lýst tilurð þeirra, hinni miklu vinnu sem var samfara rituninni og ávinningnum af gerð þeirra. Síðari söfnun og endurheimt handritanna er önnur saga, en ekki síður mikilvæg fyrir heimildargildi innihaldsins og stuðning við menningu hinnar miklu söguþjóðar.

Sýningin með hliðsjón af „Handritin heima. Af sýningu og bók.“
Til hliðsjónar við verkefnasmíðina var gefin upp greinin „Handritin heima. Af sýningu og bók.“ Saga 42:2 (2003), bls. 211-222 (Saga, tímarit Sögufélagsins 42:2 2003, ritstjórar Hrefna Róbergsdóttir og Páll Björnsson, Sögufélag Reykjavíkur, bls. 211-222).
Grein Más fjallar um þessa sýningu, “Handritin”, í Þjóðmenningarhúsinu. Í henni kemur fram að sýningin var opnuð þar 5. október árið 2002. Sviðsmyndir ehf annaðist uppsetningu, en auk þess er getið um höfunda sýningarinnar, Gísla Sigurðsson og Steinþór Sigurðsson, og sýningarnefndina, sem skipuð var sex aðilum öðrum, en Gísli átti hugmyndina á sínum tíma.
Höfundur fjallar í upphafi almennt um handrit, útlit, hönnun, skreytingar, skrift og texta og bendir m.a. á að „óþarflega oft er hann talinn mikilvægastur og handrit þá einungis metin sem vitnisburður um texta” (Saga 42:2, bls. 212.). Honum finnst sýningarbókin “hin álitlegasta, líkt og sýningin, sem hún fylgir”. En þótt bókin og sýningin sé “lofsvert framtak” eru hvorutveggja “ ekki gallalaus”.

HnadritasýningHöfundi finnst Handritasýningin og efnistök sýningarbókarinnar of “slétt og felld”, of hefðbundin. Hann vill fá að „sjá saumförin og vita af því sem ekkert er vitað um ennþá. Hvers vegna er texti handrita misgóður? Hvers vegna er efnasamsetning á íslensku bleki óþekkt?” Undirritaður hefur ekki skoðað sýningarbókina og getur því hvorki lagt mat á efnisinnihald hennar né efnistök höfunda. Það er líka ljóst að slík bók hefði ekki verið lesinn í anddyrinu áður en haldið var inn á sýninguna. Hún hlýtur því alltaf að verða metin eftir á, með hliðsjón af sýningunni, nema gesturinn geri sér aðra ferð á hana að lestri loknum. Bókin, sem slík, gæti þó staðið ein sér sem og fræðsluefni hennar og því orðið efni í annað verkefni. Óvíst er hvort hinir tilteknu gripir á sýningunni geti fyllt nánar út í það, sem fram kemur í bókinni, eða bætt upp það sem þar vantar m.v. lýsingu Más.
Höfundur getur þess að „strangt til tekið eru á sýningunni “Handritin” sárafá handrit, sem þar að auki segja afar takmarkaða sögu um íslensk handrit á miðöldum, hvað þá á síðari öldum. Ef til vill réðu öryggissjónarmið þessu…”. Innkoman á sýninguna sé þó “áhrifamikil”, sýningahönnuðir sýna „hugkvæmni við notkun á ljósprentuðum útgáfumhandrita til að koma að gagnegum fróðleik um ritmenningu miðalda”og efnistök eru í „góðu samræmi við áherslu í bókinni” þótt tengja hefði mátt betur „viðtökur og pólitískt hlutverk fornsagna á 18. og 19. öld”.

Handritasýning

Skarðsbók – Tyrkjaránið.

Höfundi finnst, að öðrum sýningarhlutum ólöstuðum, langmest fylling vera í sýningarhlutanum um bókagerðina, sem kemur reyndar ekki á óvart. Þó er „látið eins og samkomulag ríki um alla hluti, sem aftur verður til þess að gera fræðin minna spennandi í augum almennings en þau eru í raun og veru. Framtíðarsýnin virðist heldur engin vera”. Mestum vonbrigðum veldur samt meðferðin á handritunum sjálfum” . Þar á greinarhöfundur við að þar sem sex frægustu handritin eru „lýsa dauf ljós úr lofti herbergis”, og langt er á milli þeirra. Í síðar herberginu er „Möðruvallabók lokuð og illa upplýst svo hún nýtur sín engan veginn” . Þá bendir hann á að handrit séu ekki “tákn” heldur “hlutir”. Þau „vísa fyrst og fremst veginn til þekkingar á menningu og sögu okkar ágæta lands” .
Undirritaður er ekki sammála Má um skort á “framtíðarsýninni”. Sennilega hafa hönnuðir sýningarinnar einungis ætlað að takmarka við það sem var, en láta aðra um það sem verður.
Undirritaður er ekki heldur sammála Má um að með því að hafa handritin undir plasthjálmum séu þau “nánast kviksett” Auðvitað getur verið erfitt fyrir lærðan fræðimann að þurfa að horfa upp á uppsprettu fræðigreinarinnar svo nærri, en samt ósnertanlega, þar sem hún er undir skotheldum plasthjálmi. Ef fyrir því er góðar og gildar ástæður. Hér áður fyrr hefði einhver viljað nálgast gott handrit með það fyrir augum að nýta það til húðar með húslestri, gera úr því snið, nota til umbúða eða jafnvel í viðskiptum. Í dag er hættan mest á því að einhverjir með miður góðar hugsanir reyni að valda á því skemmdum. Þess vegna geta þau ekki verið eins aðgengileg og æskilegt hefði verið.
Í lok greinarinnar bendir höfundur hins vegar á mikilvægi breyttra áherslna á næstu sýningum og að „nálgast verður handritin ekki einungis sem táknmyndir heldur líka sem fornminjar, sem hægt er að taka á” . Þar er undirritaður honum hjartanlega sammála, ekki síst fyrir hönd fræðimanna.

Sýningin með hliðsjón af Ezio Ornato – „Lofræðu um handritamergð.”
„Hvernig í ósköpunum fór fólk að þessu? Hvaðan kom tæknin, hvernig þróaðist hún og hver var árangurinn? Hefð er fyrir því hérlendis að spyrja ekki þessara einföldu spurninga. Þá sjaldan að hugað er að útliti og lögun handrita er það til að afla vísbendinga um texta og sögur”. Þessu til staðfestingar er vitnað til ummæla Árna Magnússonar í upphafi 18. aldar. Í bók Ezio Ornato eru „þrjár langar ritgerðir sem allar byggja á þeirri forsendu að spennandi sé að athuga handrit svo þúsundum skiptir, að mestu óháð innihaldi, fegurð og gæðum, með öðrum orðum sem menningarlega og sögulega afurð”. Um 20 ára rannsóknir hans snerust fyrst og fremst um frönsk og ítölsk handrit. Á sýningunni “Handritin”, eru handritin fyrst og fremst notuð til sjónrænna áhrifa, en minni áhersla lögð á sagnfræðilegar útlistanir, svo sem fyrr er getið.
Á einum stað í sýningunni kemur fram hversu marga kálfa hafi þurft í skinnin í Flateyjarbók, eða 113 kálfskinn. Að öðru leyti svarar Handritasýningin ekki þessum spurningum, enda má segja að hún sé byggð á þeirri hefð, sem getið er um, að spyrja ekki slíkra spurninga. Útlit og lögun handritanna kemur vel fram á sýningunni, en hvergi er upplýst hvers vegna hvorutveggja er með þeim hætti er raun ber vitni. Sennilega er lögun meginhluta handritanna skv. erlendum fyrirmyndum er höfðu þróast um alllangan tíma. Sérhvert handrit var sérstakt og hafði því eðlilega sín einkenni. Það ætti að geta sagt fræðimönnum allnokkuð við rannsóknir þeirra sem og einstakra aðskildra síðna. Segja má að bæði útlit og hlutfallsleg lögun handrita og síðar bóka hafi þegar náð þeirri fullkomnun, sem fólk nýtur enn þann dag í dag, þótt í minna broti sé nú að jafnaði.
Ekki er vitað til þess að íslensk skinnhandrit hafi verið aldursgreind með þeirri tækni, sem nú er til staðar til slíkra nota, en vel væri til þess vinnandi. Þarna hefur nær eingöngu verið byggt á hinum sagnfræðilegu upplýsingum um uppruna þeirra. „Útlitseinkenni handrita hafa og ekki verið gaumgæfð með skipulegum hætti hér á landi…. Eigindlegar athuganir á handritum sem gripum eða minjum eru sárafár, hvað þá sem heild eða mengi.” (Ezio Ornato, bls. 10). Skrifað hefur verið um efnafræðilegar athuganir á fáeinum skinnbréfum (Rannver Hannesson, óbirt lokaritgerð frá 1995) og skoðuð litadýrð skreytinga í miðaldahandritum (Selma Jónsdóttir “Gömul krossfestingamynd.” Skírnir 139 (1965), bls. 134-147 og Guðbjörg Kristjánsdóttir, “Íslenskt saltarablað í Svíþjóð.” Skírnir 157 (1983), bls. 60-67).
„Annað er ekki til um handritagerð og ámeðan svo er halda fræðimenn og háskólanemar örugglega áfram að líta aðeins á eitt handrit í einu vegna textans og fleiri en eitt aðeins ef sami texti er á báðum eða sama rithönd. Útlitsleg einkenni verða áfram einungis áhugaverð af handrit er sérlega stórt, til dæmis Flateyjarbók, eða einkennilega lítið, s.s. nokkur handrit Margrétarsögu”. Vakin er athygli á að sérstaða einstaka handrits sem og samanburður handrita hefur ekki verið gefinn gaumur sem skyldi. „Textinn einn er í augsýn. Þessi nálgun kann að byggja á þeirri forsendu að um leið og við sjáum handrit vitum við að þetta er handrit, nefnilega bók á skinni með blaðsíðum og myndum og letri. Við gerum okkur gins vegar ekki umsvifalaust grein fyrir því hver textinn er og þess vegna er spurt eftir honum eða löngun vaknar til að gefa hana út. Handritið gleymist. Þýðanda þykir nóg um og bendir á að ástandið sé „svo slæmt”. Hér er um ákveðna fullyrðingu að ræða og því var full ástæða til að skoða Handritasýninguna með hliðsjón af henni. Hafa bar þó í huga að sýningin sem slík getur ekki svarað fyrir fullyrðinguna, en hún ætti þó gefa einhverja vísbendingu um að hún væri ekki að öllu leyti sönn. Ekki var að sjá að gerð hafi verið tilraun til þess. Að vísu “gleymist” handritið ekki, en tilrauna og starfa við rannsóknir á því er hvergi getið.
Í “Lofræða um handrit” er þess getið að Jónsbókarbrot séu 53 talsins, Njálubrotin eru tíu og jafnmörg úr Egils sögu. Það kemur ekki skýrlega fram á sýningunni, en þó má ljóst telja að hver “bók” hafi verið til í fleiru en einu handriti, sumar allnokkrum. Fróðlegt væri að fá yfirlit um hvenær þær voru endurritaðar eftir að frumútgáfunni sleppti. Það yfirlit gæti gefið góða mynd af virkni og áhuga þjóðarinnar á lesefninu sem og hugsanlega mynd af breyttum þjóðfélagsháttum.
Erlendis hafa farið fram rannsóknir á samanburði handrita, bæði til að bera saman fleiri en eitt handrit og komast að niðurstöðum um verklag við handritagerð sem slíka. Dæmi eru nefnd til sögunnar. Hér á landi er viðfangsefnið, gerð handrita, nokkuð afmarkað, bæði í tíma og hvað varðar staðsetningu, og því kjörið viðfangefni til rannsókna með hliðsjón af því. Handritasýningin kveður lítið á um rannsóknir á íslenskum handritum. Með þeim væri e.t.v. mögulegt að „tengja miðaldahandrit við félagsleg og efnahagslegt umhverfi þeirra” á þeim tíma er þau voru gerð.

Hér að framan er að nokkru byggt á tilfinningu og mati undirritaðs við skoðun á sýningunni “Handritin” í Þjóðmenningarhúsinu, inngangi og samantekt þýðanda, Más Jónssonar, í bókinni “Lofræða með handritamergð” og grein hans “Handritin heima – Af sýningu og bók“. “Handritasýningin” var að nokkru metin m.t.t. gripafræði handrita. Í skrifum þessum hefur verið reynt að brúa bil beggja; leggja út frá huga og hjarta, en jafnframt vitna í skráðar og “samþykktar” heimildir “viðurkenndra” fræðimanna.
Sýningin „Handritin“ er lofsvert framtak og á í rauninni viðurkenningu skilið. Á henni gefst fólki kostur á að skoða þann merka menningararf landsmanna, sem handritin óneitanlegu eru.

ÓSÁ.

Þjóðmenningarhúsið

Þjóðmenningarhúsið.