Helgadalur – Katlagil

Helgadalur

Gengið var um Helgadal og upp í Katlagil í norðvestanverðu Grímannsfelli. Ætlunin var að skoða minjar sem eiga að vera þar upp í gilinu.
HelgadalurKatlagil er suðaustan í Dalnum. Katlagilslækur rennur niður gilið. Hann lét lítið yfir sér að þessu sinni, en af ummerkjum ofar í gilinu að dæma má telja líklegt að hann geti vaxið verulega í leysingum. Gilið neðanvert er ófært gangandi fólki, en auðvelt er að fylgja brúnunum beggja vegna til að komast upp eftir því. Ofar eru sléttur og leiðin greið. Flatafell er norðan við gilið og Kolhóll að sunnan. Austan er Stórhóll á Grimmansfelli.
Tilefnið að þessu sinni var þó einungis að skoða gilið neðanvert því þar á norðanverðum bakkanum áttu að vera rétt og lambabyrgi.
Réttin er enn á sínum stað, trektlaga og fallega hlaðinn utan í brekku. Sunnan við hana er hlaðið lítið gerði. Í fyrstu mætti ætla að þarna hafi verið stekkur, en líklegt má telja að réttin hafi einnig verið notuð sem slík, eins algengt var fyrrum. Réttin hefur jafnan verið nefnd Helgadalsrétt.
Skammt ofar (suðaustar) og hærra á norðurbakkanum er grói byrgi, sem nefnt hefur verið lambabyrgi. Erfitt er að greina útlínur þess, en líklega hefur það verið ferkantað.
Þjóðminjasafnið hefur skráð fornleifar í Mosfellsbæ. Í aðalskipulagi Mosfellsbæjar má sjá að um 604 fornleifar séu þekktar eða heimildir eru um.
Helgadalur Helstu fornleifar hafa verið merktar inn á þemakort aðalskipulagsins en allar fornleifarnar eru skráðar inn í skráningarkerfið „Sarp” hjá Þjóðminjasafni Íslands. „Þær fornleifar sem unnt hefur verið að staðsetja hafa einnig verið merktar inn á hnitsetta loftmynd af Mosfellsbæ sem varðveitt er hjá tæknideild Mosfellsbæjar. Við skipulagningu svæða og undirbúning framkvæmda skal tekið mið af fornleifaskráningu samkvæmt þessum gögnum. Athuga ber að ekki er víst að fornleifar séu horfnar þótt þær sjáist ekki á yfirborði.“
Í aðalskipulaginu er þess jafnframt getið að „um skógræktarsvæði gildir að öðru leyti eftirfarandi: a. Skógræktaráætlanir skulu vera í samræmi við skipulagsáætlanir og taka mið af þeim verndarákvæðum sem þar eru sett fram, s.s. vegna hverfisverndar, svæða á náttúruminjaskrá, friðlýstra svæða skv. náttúruverndarlögum og friðlýstra fornminja skv. þjóðminjalögum. b. Taka skal tillit til þekktra fornminja. Skógrækt skal ekki fara nær friðlýstum fornminjum og öðrum merkum minjum en 20 m.“
Skólasel Laugarnesskóla, Katlagil, er í Helgudal í Mosfellsbæ. Á vef skólans má sjá að þangað fari nemendur skólans og kennarar í dagsferðir að hausti og á vorin. Árlega gróðursetja nemendur um 500 – 1000 trjáplöntur þar. Auk þess tengjast allar ferðir í Katlagil kennslu í umhverfismennt í skólanum.
Sögu „selsins“ er getið á vefnum. „Jón Sigurðsson, þáverandi skólastjóri, mun strax á öðru ári skólans 1936 – 37 hafa hreyft við þeirri hugmynd að koma upp skólaseli í nágrenni bæjarins fyrir börn og kennara við Laugarnesskóla.
Ekki verður séð að nokkuð hafi gerst í málinu fyrr en 1943. Þá var efnt til merkjasölu í skólanum og komu inn um 7000 krónur. Með þeirri upphæð var stofnaður Selsjóður Laugarnesskóla.
Helgadalur Skólahverfi Laugarnesskóla var afar víðlent á þessum árum. Það náði frá Höfðatúni að vestan og allt að Korúlfsstöðum og Lögbergi að austan. Af þessum sökum þurfti mikinn akstur skólabarna og sérstakan skólabíl. Sú hugmynd kom upp í Kennarafélagi Laugarnesskóla að það tæki að sér skólaaksturinn og hagnaður af þessu framtaki færi til þess að kaupa land og byggja skólasel.
Á fundi sem haldinn var í Kennarafélaginu 2. des 1944 var rætt um kaup á 24 sæta bíl fyrir félagið. Kosin var þriggja manna nefnd til að annast kaup á bíl sem menn höfðu augastað á, útvegun lánsfjár er Kennarafélagið ábyrgðist og sjá um rekstur bílsins á næsta ári. Ráðinn var vagnstjóri og honum veitt leyfi til að gerast meðeigandi bílsins gegn ákveðnu gjaldi, 5000 krónum.
Nefndin gekk frá kaupum á bílnum og var hann tekinn í notkun stuttu síðar sem skólabíll. Nokkrir kennarar við skólann lánuðu fé til viðbótar við það sem til var í Selsjóði. Rekstur bílsins gekk ágætlega svo að í árslok 1946 var hann að fullu greiddur.
Á fundi í Kennarafélaginu 13. maí 1946 var kosin 7 manna nefnd til að svipast um og velja stað fyrir væntanlegt sel. Leið svo fram til árins 1949, þ.s. leitin bar ekki árangur. Þá fékk stjórn Kennarafélagsins tilboð frá Hauki Jónssyni frá Helgadal í Mosfellssveit um kaup á hluta úr þeirri jörð. Stjórn félagsins brá strax við, skoðaði landdið og sýndist það mjög ákjósanlegt. Það var um 10 dagsláttu tún, allt rennislétt og mikið ræktanlegt land að auki. Lélegur sumarbústaður fylgdi.
Esja Stjórn félagsins bauð öllum félagsmönnum, sem hún náði í, til ferðar upp að Helgadal til að skoða landið. Eftir þá ferð var svo haldinn fundur í félaginu 3. júlí 1949. Þar bar stjórnin fram eftirfarandi tillögu: „Fundur í Kennarafélagi Laugarnesskóla samþykkir að ganga að ganga að tilboði Hauks Jónssonar um kaup á hlut úr jörðinni í Helgadal í Mosfellssveit. Fundurinn felur stjórn félagsins að ganga frá kaupunum.“ Tillagan var samþykkt einróma. Næstu daga var gengið frá kaupunum og 8. ágúst sama ár fór lokagreiðsla fram. Kaupverð landsins var 45 þúsund krónur og að viðbættum öðrum kostnaði varð það alls 45.629 krónur.
Sumarið 1955 hófust byggingaframkvæmdir við skólaselið. Bjarni Jónsson kennari teiknaði húsið. Framkvæmdir gengu hægar en vonast var til. Tvennt tafði einkum verkið. Fyrst að gröftur fyrir söklum var mikill því jarðvegur var lausari en ráð var fyrir gert og hitt að tíðarfar var mjög úrfellasamt.
Verkamenn bjuggu í tjöldum og tveimur sumarbústöðum er voru þarna í túnjaðrinum. En þó að vistin væri stundum nokkuð hráslagaleg vegna rigninganna undu menn glaðir við starfið og létu oft fjúka í kviðlingum.
Næsta sumar var húsið múrað að innan og fleira smávegis gert. Sumarið 1957 var Magnús Einarsson kennari ráðinn til vinnu við húsið. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni í rishæðinni um sumarið og voru það fyrstu íbúar Selsins. Lokafrágangur hússins fór svo fram 1958 og 20. september var húsið vígt.“
Nú er þarna mikill og víðfeðmur skógur umleikis, sem nær allt að Katlagilslæk. Umhverfið hefur greinilega verið gert með natni möguleika námsferða í huga. Glóbrystingur söng sitt fagra stef og rjúpan taldi sig örugga í jaðri skógarins.
Tekið hefur verið að nokkru tillit til framangreindra ákvæða um 20 metra „nálgunarbann“ á skóg í nágrenni fornleifa því trén eru ekki alveg ofan í réttinni, en þau eru hins vegar komin fast að lambabyrginu.
Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Aðalskipulag Mosfellsbæjar 2002-2024.
-http://nepal.vefurinn.is/Nepal_Skrar/Skra_0000558.PDF
-http://www.skolatorg.is/kerfi/laugarnesskoli

Katlagil