Hestaslóð – Breiðagerðisstekkur – fjárborg – smalaskjól – Litilstekkur (heimasel)

Litlistekkur

Gengið var upp frá Breiðagerði með það að markmiði að skoða „Breiðgerðisstekk“ sbr. fornleifaskráningu fyrir Voga, sem og Litlastekk ofar í heiðinni. FERLIRsfélagar hafa um stund dundað sér við að skoða áreiðanleika fyrrum fornleifaskráninga á Vatnsleysuströnd. Ljóst er að margar fornleifar á svæðinu hafa enn ekki verið skráðar og sumar hinna skráðu minja verða að teljast í besta falli hæpnar með hliðsjón af dregnum ályktunum. Mikilvægt er að allar fornleifar séu skráðar og að þær séu rétt skráðar.

Hestaslóðin

Hestalóðin – Almenningsvegur.

Ofan Vatnsleysustrandarvegar var fyrst komið að „Hestaslóðinni“, sem Sesselja nefnir í bók sinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins); „Ofan syðstu sumarbústaðina í Breiðagerði er nokkuð áberandi varða og fast neðan hennar komum við á Hestaslóðina sem svo var nefnd“.
„Varðan er um 440 m sunnan við bæ, á fremur lágu holti í hraunmóa sem er að hluta gróinn. Varðan er ferköntuð í grunninn, er um 1 m á kant. Hún er um 1,5 m á hæð og sjást 8 umför hleðslu í henni. Hún hefur líklega verið endurhlaðin að hluta. Líklegt er að varðan hafi vísað Almenningsveginn“, segir í fornleifaskráningunni. Sú ályktun virðist, af öllum ummerkjum við nána skoðnun,  vera rétt.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur.

Í „Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II“ frá árinu 2014 segir um framangreindan stekk: „Ofan Vatnsleysustrandarvegar er tóft, um 530 m sunnan við bæ. Tóftin stendur nokkuð hátt á grónum hól í hraunmóa. Tóftin virðist vera þrískipt og garðlag liggur frá henni til norðurs, líklega aðrekstrargarður. Tóftin er grjóthlaðin en gróin. Hún er um 10×6,5 m að stærð og snýr suðvestur-norðaustur. Með aðrekstrargarðinum er hún um 10×6,5 m að stærð. Hólf I er norðaustast í tóftinni. Það er um 1×3 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Op er inn í það úr norðvestri.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur – teikning.

Hólf II er samsíða hólfi I og skilur hæsti veggur tóftarinnar þessi tvö hólf að. Það er um 2×2,5 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Ógreinileg hleðsla er fyrir norðvesturenda þessa hólfs sem heldur áfram til norðurs og verður greinilegri. Óskýrt op er inn í hólf II, í norðurhorni þess. Hólf III er norðvestast í tóftinni. Í veggjum þess er einföld röð stórgrýtis. Það er um 2×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ekki sést skýrt op inn í það. Hólf II hallar lítillega til suðvesturs. Mesta hleðsluhæð tóftar er um 1 m og sjást 3 umför. Líklegt er að þessi tóft sé af stekk en til þess bendir helst fjarlægð frá bæ og gerð tóftarinnar.“

Breiðagerðisborg

Breiðagerðisborg – smalaskjól.

Á samliggjandi klapparholti eru jarðlægar hleðslur; mjög líklega leifar smalaskjóls. Lögun skjólsins sést þó enn, auk þess að það ber þess merki að hafa verið hlaðið af unglingi (smásteinahleðslan bendir til þess).

Augljóst er að framangreindur stekkur hafi verið hlaðinn upp úr eldri fjárborg. Neðstu lög hennar sjást allt umleikis. Líklega er verið að rugla þarna saman örnefnum þar sem segir í fornleifaskráningu fyrir Stærra-Knarrarnes um Borg; tóftir/stekk: „Upp af Vorkvíum er Krummahóll og var vörðubrot á honum.- Grasigróinn hóll, þýfður og svolítið toppmyndaður, er rétt suðaustan Krummahóls. Hann heitir Borg.

Breiðagerðisborg

Breiðagerðisstekkur/-fjárborg – uppdráttur ÓSÁ.

Svolítil lægð er milli Borgar og Krummhóls,“ segir í örnefnaskrá. „Rétt sunnan og ofan við vegamót Gamlavegar og Strandarvegar í Breiðagerði er Krummhóll með uppmjórri vörðu á og í framhaldi og upp af honum kemur svo Borg en það er langt holt nokkuð gróið og þar gæti hafa verið fjárborg fyrrum.“
Síðan er fjallað um beitahús og stekkjartóft, en ekki minnst á „borg“. Þessi lýsing á aftur á móti við um minjar í Sauðholtum ofan Minna-Knarrarness, en ekki nefnds stekks ofan Breiðagerðis. Hins vegar er augljóst, sem fyrr sagði, að stekkurinn sá á uppruna sinn í eldri fjárborg á tilteknum stað; „um 530 metrum sunnan við bæ“.

Breiðagerði

Breiðagerði – heiðargerði.

Ofar í heiðinni var gengið fram á fornt gerði utan í klapparhól. Hleðslurnar voru orðnar nær jarðlægar, en þó sást vel móta fyrir þeim. Þarna gæti hafa verið rúningsrétt fyrrum. Tóft þessi hefur ekki verið fornleifaskráð.

Miðsvegar í heiðinni er Litlistekkur. Í forleifaskráningu fyrir Breiðagerði segir: „Þar var í Heiðinni Litlistekkur og Breiðagerðisskjólgarður,“ segir í örnefnaskrá. „Fyrir ofan og austan Borg er stekkur sem heitir Litlistekkur,“ segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Litlistekkur er um 1,1 km suðaustan við bæ. Stekkurinn er norðaustan undir allháum, grónum hraunhól, ofarlega í heiðinni. Dálítill grösugur kragi er umhverfis stekkinn og hólinn.
Svo virðist sem tvö byggingarstig séu í Litlastekk. Tvískipt grjóthlaðin stekkjartóft, B, virðist vera hlaðin inn í eldri gróna tóft, A, sem er um 9×6 m að stærð og snýr SSA-NNV. Í SSA-enda eldri tóftarinnar er eitt nokkuð skýrt en gróið hólf sem er um 1×1,5 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Ekki sést op á því. Tóft B er hlaðin inn í aðalrými tóftar A. Inngangur í tóft A virðist vera í norðurhorni. Mesta hæð veggja er um 1 m í SSA-enda.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Tóft B er um 5×4,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Inngangur er á norðvesturgafli. Hólf I er um 2×3 m að innanmáli og snýr eins og tóft. Hólf II er um 1×3 m að innanmáli og er samsíða hólfi I. Opið er á milli hólfa í norðvesturenda tóftarinnar. Mesta hleðsluhæð er um 1 m og mest sjást 3 umför hleðslu.“

Litlistekkur ber ekki nafn með réttu. Þarna er greinilega um seinni tíma heimasel að ræða frá Breiðagerði. Vel er gróið í kringum stekkinn, einkum suðurhlutann. Þar virðist hafa verið búr tengt utanverðum stekknum. Stekkurinn sá er síst minni en þekkist í nærliggjandi stekkjum í heiðinni. Umfang og stærð stekkjanna markaðist jafnan af fjölda fjár frá einstökum bæjum á hverjum tíma.

Litlistekkur

Litlistekkur.

Þegar staðið er á ofanverðum hólnum er stekkurinn liggur norðlægt undir kallast staðsetningin greinilega á við stekkinn skammt vestar í Knarrarneslandi. Þar er líklegt að hafi einnig verið heimasel um tíma. Þarna á millum er hlaðinn varða á klapparhól, skammt ofar; landamerki jarðanna millum Digruvörðu ofan bæjar og vörðunnar á Knarrarnesklapparholti.

Báðir stekkirnir gefa sterklega til kynna að um heimasel hafi verið að ræða. Stekkirnir og aðliggjandi tóftir báru þess glögg merki að um slíkar minjar hafi verið um að ræða, væntanlega eftir að aflokinni selstöðunum í Breiðagerðis- og Knarrarnesseli ofar í heiðinni síðla á 19. öld.

Breiðagerðisstekkur

Breiðagerðisstekkur/-fjárborg.

Með breyttum búskaparháttum, tilkomu þéttbýlismyndunar og fækkun fólks í sveitum færðust selstöðurnar nær bæjunum. Í lok stekkjartímans, sem hafði tíðkast allt frá landnámi, færðust stekkirnir nær alfarið um stund að útjaðri heimajarðanna. Við tók afréttatímabilið, er enn þekkist. Allt þetta er reyndar saga út af fyrir sig, sem vel hefur áður verið tíunduð hér á vefsíðunni.

Mikilvægt er að gaumgæta búsetuminjar vorar í hinu sögulega samhengi – og ekki síður að kunna að staðsetja þær í því samhengi.

Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 1 mín.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, 2007.

Minna-Knarranes

Heimasel Minna-Knarrarness í Sauðholtum.