Hraun
Hraun á Íslandi taka yfir 120 fermílur. Þau eru einkum um miðbik landsins, en hvorki á Austfjörðum né Vestfjörðum. Hraun eru öll fram komin við eldgos; af sumum hafa menn sögur, hvenær þau mynduðust, en flest hafa brunnið fyrir landnámstíð. Flest eru gróðurlítil eða gróðurlaus. Þau er myndast hafa síðan land byggðist eru flest enn þá graslaus, en aðeins hulin mosa hér og hvar, en sum hinna eru á einstaka stað grasi vaxin, þó óvíðast sé það svo, að það sé til gagns og nytsemdar fyrir landsbúa.
Hraunin eru ýmisleg að lögun og ásigkomulagi, eftir því, hvernig þau hafa myndast. Sumstaðar eru þau slétt, með rákum og öldum eftir rennslið, þar sem hallinn hefir verið lítill, en sumstaðar, þar sem óslétt hefir verið eða brattlendi, eru þau ófær yfirferðar, því að þar er hraunspildum, gjalli, ösku og stórgrýti hrúgað svo saman, að það er engu líkara öðru en því, að stórsjór í hafróti og roki hefði allt í einu orðið að steini.
Efsta skánin á hrauni kólnar og storknar fyrst af loftkuldanum, en neðar rennur áfram miklu lengur brætt hraun. Þegar nú eldgosinu slotar, verður hraunskánin efsta oft á huldu og fellur sumstaðar niður, en sumstaðar myndast ýmislegir hellar og holur, en hér og hvar rifnar hraunið, er það kólnar og dregst saman, og verða þar stórar sprungur og gjár. Hraun eru eigi nein sérstök steintegund, heldur samanbrædd hella af ýmsum steinum og bergtegundum.
Reykjaneshraunin eru samanhangandi hraunfláki, er nær norðan frá Langjökli út á Reykjanestá. Það eru ótal smá og stór hraun í stórum spildum og kvíslum, og hafa komið frá ýmsum eldfjöllum, flest fyrir landnámstíð. Í þeim eru víða stórar sprungur og gjár, hverar og laugar. Merkasta hraun á þeim hraunfláka er Þingvallahraun.
Á sögulegum tíma hafa runnið a.m.k. 25 hraun á Reykjanesskaganum. Sjá má hvar þau hafa runnið yfir eldri hraun á afmörkuðum svæðum, fært ströndina utar, runnið niður í eldri sprungur, fyllt fyrrum lægðir, dali og eldri jarðmyndanir, hlaðið upp skjól o.s.frv. Og landmótunin mun halda áfram – og hugsanlega breytast á næstu árþúsundum.
Storknun tekur mjög mislangan tíma eftir ytri aðstæðum: Gjóska (eldfjallaaska, gjall og vikur) kólnar á fáeinum sekúndum, ekki síst ef gosið verður í vatni eða undir jökli. Hraun verða að „hörðum steini“ á skömmum tíma þótt glóðin geti varað í 10 ár inni í hrauninu, eins og gerðist í Eldfellshrauninu í Vestmannaeyjum þar sem varminn í hrauninu var nýttur til húshitunar í áratug. Kvika sem er djúpt niðri í jörðinni tekur aldir að storkna. Stundum rennur nýtt hraun yfir jarðhitasvæði og nær þá undirliggjandi hitinn fljótlega upp úr nýmynduninni.
Hraun er bráðið berg eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar. Bergkvika er seigfljótandi efni í iðrum reikistjarna, sem safnast fyrir í kvikuhólfum. Þar getur hún kristallast og myndað innskot eða borist til yfirborðs í eldgosi og storknað sem gosberg. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 – 1200°C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun.
Basísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum.
Kísill er frumefni með efnatáknið Si og er númer fjórtán í lotukerfinu. Fjórgildur málmungur, kísill er ekki jafn hvarfgjarn og efnafræðileg hliðstæða þess, kolefni. Kísill er annað algengasta frumefnið í jarðskorpunni sem að samanstendur af 25,7% kísil ef mælt er eftir þyngd. Það finnst í leir, feldspati, kvars og sandi, þá aðallega í formi kísiltvíoxíðs (þekkt einnig sem kísl) eða sílikata (efnasambönd sem að innihalda kísil, súrefni og málma). Kísill er aðaluppistaða glers, sements, postulíns, flestra hálfleiðara, og silíkona (plastefni).
Hraun eru orðið að „hörðum steini“ löngu áður en það er fullstorkið. Reynslan er sú að hörð skorpa myndast á glóandi hrauni eftir fáeinar sekúndur og fljótlega er hægt að ganga á hrauninu á góðum skóm vegna þess hve slæmur varmaleiðari (eða góður einangrari) berg er. Varminn frá 1200 stiga heitri kviku streymir sem sagt hægt út gegnum storknuðu skorpuna. Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg.
Fasta bergið er samsett úr kristölluðum steindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg.
Dyngja er breitt, aflíðandi og keilulaga eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi á hringlaga gosopi. Dyngjugos eru svo kölluð flæðigos þar sem hraunið er þunnfljótandi og flæðir langar leiðir. Eldvirkni í dyngjum getur varað mörg ár eða áratugi.
Á Íslandi setja dyngjur mikinn svip á landslagið. Einna þekktastar eru Skjaldbreiður og Trölladyngja, hvor um sig um 600 metrar á hæð frá rótum. Aðrar eru flatari og ógreinilegri í landslaginu, s.s. Kjalhraun hjá Hveravöllum og Lyngdalsheiði. Stærsta fjall sólkerfisins, Ólympusfjall á Mars, er dyngja.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.
Helluhraun (e. Pahoehoe; úr Hawai’isku) er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Í helluhraunum má oft sjá, auk hraunsléttunar, sprungna kolla. Þeir myndast þegar yfirborðsstorkið hraun rennur frá eftir að kvikan rann yfir hóla og hæðir eða sprungur myndast á sléttum afmörkuðumhraunflekum. Eftir standa svonefnd hraunhveli. Andstætt fyrirbæri eru urðarásar þar sem afmörkuð hraunsvæði brotna niður í kvosir, líklega vegna þess að undir voru hraunrásir eða -hvelfingar. Víða má sjá svipað fyrirbæri sem hraunbolla eða jarðföll.
Við mikið hraunrennsli getur myndast hraungöng yfir og undir yfirborðinu. Ef slík hraungöng tæmast myndast hellar og traðir sem standa eftir. Dæmi um slíka hella eru Surtshellir og Raufarhólshellir.
Apalhraun (e. Aa, úr havaiísku) er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Dæmi um apalhraun eru sum hraunin sem liggja yfir Suðurnesin. Oft getur verið um blandgos að ræða, þ.e. hraunin verða í fyrstu þunnfljótandi helluhraun, en breytast í úfin apalhraun þegar frá dregur upptökunum og kvikan kólnar.
Heimildir m.a.:
-wikipedia.org