Hraun – Hraunsheiði – götur – Litlaland
Ætlunin var að rekja gamla þjóðleið frá mótum Ölfusár (ferjustað við Hraun) yfir Hraunsheiði og áfram áleiðis að Litlalandi þar sem hún tengist Ólafsskarðsvegi. Að öllum líkindum tengist hún þjóðsögunni um Draugshelli, sem var áningarstaður ferðamanna á þessari leið fyrr á öldum, auk þess sem hún kemur við sögu lykla bryta í Skálholti.
Gatan er ekki merkt inn á kort. En þrátt fyrir sandfok á heiðinni mun gatan enn augljós, ef vel er að gáð.
Þjóðsagan er um Björn Jónsson í Haga. „Eitt sumar sem ofar ferðaðist Björn um lestatímann til skreiðarkaupa suður í Garð. Venjulegur áfangastaður ferðamann var þá eins og enn viðgengst á svokölluðum Rifjabrekkum millum Breiðabólstaðar og Litlalands í Ölvesi. Þótti mörgum illt þar að vera vegna draugs þess er oft gjörði ferðamönnum er á brekkunum lágu usla og ónáðir og hélt sig í helli þeim er síðan er við hann kenndur og kallaður Draugshellir. Reif hann og tætti sundur tjöld og fans fyrir sumum, en fældi hesta og jafnvel drap fyrir sumum. En ekki er þess getið að hann réðist á menn, en marga dreymdi þar illa í tjöldum sínum, en enginn var sá er vogaði að leggjast í hellirinn þótt tjaldlaus væri.
Björn var við annan mann; voru þeir tjaldlausir, taka nú af hestum og bera saman farangur nærri hellinum draugsins. Þetta var að áliðnum degi. Regn var mikið. Förunautur Björns spyr þá hvursu hann hugði þeim um umbúnað, kvað það eitt tiltækilegt að þeir gjörðu sér skýli í farangrinum til að sofa í. Björn kvað þá í hellinum mundu taka á sig náðir. Förunautur hans var þess allófús, en kvaðst þó hans forsjá hlíta mundu. „Bessaleyfi hér á híbýlum,“ segir Björn. Ganga þeri síðan í hellirinn, búast þar um, tóku að snæða og lögðust til svefns. Var nú allt kyrrt. Lagsmaður hans sofnar skjótt, Björn vakir og verður var við er draugsi kom inn og litast um eins og hann undrist dirfsku komumanna er leyfðu sér að taka á sig náðir í hans híbýlum leyfislaust, en var annars óvanur að mæta þar gestum. Draugurinn ræðst síðan að förunaut hans og ætlar að kyrkja hann.
Björn stóð þá upp, hratt draugnum frá og tók manninn í fang sér og bar hann út og lagði hann niður undir farangur þeirra, vakti hann því næst og bað hann gæta hesta þeirra, kvað drauginn hafa fælt þá í burtu, „en ég mun,“ segir hann, „fara að hitta betur húsbóndann fyrst hann gat ekki setið á sér við oss með eljarglettingar sínar.“
Björn fer að hitta aftur drauginn, spyr hann hvurnig á honum standi og því hann hafðist við hér við í helli þessum. Draugur svarar: „Sagt get ég þér sögu mína. Ég var ungur maður og þótti heldur ódæll. Ég átti heima austur í Fljótshlíð; var ég sendur suður í Njarðvíkur í skreiðarferð og sýktist á heimleiðinni og lagðist fyrir í helli þessum og dó á þriðja degi og fundu menn mig hér nokkru síðar. Var ég fluttur að Hjallakirkju og grafinn þar, en ég þoldi ekki í jörðu og gekk aftur og vitjaði hellis míns. Hefi ég síðan hér verið og gjört ferðamönnum ýmsar óspektir um átta ár.“
Björn spyr hvursu lengi hann ætli framvegis hér að verða. Draugur svarar: „Tuttugu ár og mun ég jafnan fara versnandi.“. „Fyrst þú fórst að gjöra mér glettingar skal ég vísa þér á bug héðan,“ segir Björn. „Hellir er í Hengilshömrum, þangað stefni ég þér. Skaltu þaðan aldrei út fara né nokkurn mein gjöra.“ Draugnum brá svo við að hann hljóp í skyndi út og tók á rás upp á fjall. Hefur síðan aldrei orðið vart við reimleik á Rifjabrekkum.“
Ólafsskarðsvegur er nefndur eftir samnefndum bryta í Skálholti. Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-
Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.
Um Lyklafell fjallar og þekkt þjóðsaga af sama meiði. Hún er um nefndan Ólaf bryta í Skálholti. Á að hafa soðið upp úr milli hans og ráðskonunnar á staðnum. Hún var ótúlegt skass og skaut honum svo skelk í bringu að hann lagði á blindan flótta og nam ekki staðar fyrr en við Lyklafell og kastaði þar búrlyklunum. Síðan hélt hann um Ólafsskarð upp úr Jósefsdal, Ólafsskarðveg, og heitir skarðið eftir honum. Steðjaði hann austur sýslur á Mælifellssand syðri. Þar kom hann að vatnsfalli, er hann ætlaði að stökkva yfir. Stökkið mistókst, hann féll í ána og drukknaði. Hún heitir síðan Brytalækir.
Í frásögn Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi segir að einni sinni hafi lyklakippa Skálholtsstaðar týnst, og fannst hún hvergi. Varð að smíða aðra lykla. Leið síðan fram, þangað til 12 ár voru liðin og lyklatapið farið að gleymast, þá fundust lyklarnir í Lyklafelli hjá Fóelluvötnum. Kom þá upp hið sama, að ráðsmaður (eða bryti) staðarins hafði haft lyklana á sér, er hann reið í Reykjavíkurkaupstað, og hafði týnt þeim í fellinu, er hann áði.
Fleiri sagnir eru af tilurð nafngiftar Lyklafells. Hér verður nefnd ein til viðbótar. Sagan greinir frá því, að einhverju sinni áttu hungraðir förumenn leið um þennan veg að næturlagi og gengu þá fram á tjaldbúðir Skálholtsmanna, sem voru þar á ferð með marga hesta og mikinn farangur. Höfðu þeir valið sér þarna náttstað. Förumennirnir sáu, að bunga var á einni tjaldsúðinni og hugðu þeir að þar fyrir innan væri sekkur fullur af mat.
Ákváðu þeir að ná honum. Tók einn þeirra upp hníf, og skar á tjaldið, þar sem bungan var. En um leið og hnífsblaðið skar á dúkinn, kvað við hátt og skerandi öskur innan úr tjaldinu. Í stað þess að stinga í matarsekkinn, var hnífnum stungið í sitjandann á ráðsmanni Skálholtsstóls, sem svaf þar fyrir innan. Í fátinu og írafárinu sem varð nú í tjaldbúðunum við þetta óhappaverk, týndist lyklakippa ráðsmannsins og fannst ekki fyrr en löngu síðar. Þannig skýra sagnir nafnið á Lyklafellinu.
Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a. um þetta svæði: „Norðvestur frá Stekkatúni er varða sem heitir Beinteinsvarða. Stendur hún við götuna þar sem skiptast leiðir, upp á eystri Hlíðarbæina, og syðri gatan, á ytri Hlíðarbæi. Á klöppina sem Beinteinsvarða stendur á er klappað M. Norðaustur frá Beinteinsvörðu er hólaþyrping sem heitir Miðþúfur, eða í eintölu Miðþúfa. Fyrir framan Sandamót er áberandi varða suðvestur frá bænum, hún heitir Nónvarða.“
Örnefnalýsing fyrir Litlaland: „Niðri á Sandi, niður undir Leirum, er varða í mörkum Litlalands, Breiðabólsstaðar og Þorlákshafnar. Hún heitir Varða í Hálfförum. Um 50 m austan við Þorlákshafnarveg, álíka sunnarlega á Sandinum og nýnefnd varða, er lágur klapparhóll, sem Guðmundur Jónsson frá Læk, lengi vinnumaður í Þorlákshöfn og Vindheimum, síðar bóndi í Þorlákshöfn segir að heiti Hálffarahóll .“
Örnefnalýsing Vindheima og Breiðabólsstaðar: „Vestan-suðvestan við Dagmálahæð er önnur klöpp, lægri og minni. Hún heitir Litla-Dagmála-hæð. Á milli Dagmálahæðanna er gata, engjavegur frá Austur-Hlíðarbæjunum í Naut-eyrar, og að Hrauni.
Suðvestur frá Dagmálahæð er lægð sem heitir Siggulág. Suðvestan við hana eru Þrívörður, og í norður frá Þrívörðum er Stekkjartún, ekki langt fyrir sunnan þjóðveginn, suður frá Langamóa. Í vestur frá Stekkjartúni eru enn klappir skammt fyrir sunnan þjóðveg. Þeir heita Klapparhólar. Vestastur þeirra er stakur hóll, kross-sprunginn. Hann heitir Hádegishóll.
Fyrir austan Grænuflöt og Harðavöll liggur gata beinustu leið til Þorlákshafnar. Heitir hún Hafnarvegur. Vestan við götuna, rétt fyrir sunnan þjóðveginn er Músarhóll, lítill hóll með hundaþúfu á kolli, ofan við Sandamótin. Niðri á Sandi, ofan við Leirur, er varða sem heitir Hálffaravarða eða Varða í Hálfförum.“
Ólafsskarðsvegur er merktur til suðurs austan Geitafells og suður með vestanverðu Búrfelli. Þessi gamla gata liggur hins vegar til suðausturs austan Geitafells og niður heiðina vestan Litlalandsels (nokkru austan Búrfells) og sameinast framangreindri götu yfir Hraunsheiði að Ölfusá. Gatan er áberandi frá Litlalandi að Hrauni (með stefnu á „Vörðu í Hálfförum“), en hverfur í túninu ofan við bæinn. Á austari kafla götunnar hefur vagnvegur verið lagður ofan í gömlu reiðleiðina.
Skammt austan við Þorlákshafnarveg eru gatnamót vegar (Engjavegarins) að Breiðabólastað (Vindheimum), við svonefnda Beinsteinsvörðu. Skammt norðar er mest áberandi varðan í heiðinni, Nónvarðan. Gatnamótin eru á tveimur stöðum með skömmu millibili, en gatan sameinast á móts við núverandi þjóðveg að Þorlákshöfn. Mjög auðvelt er að fylgja götunni. Efst á Hraunsheiði er fallin varða við götuna, sem hefur verið kennileiti ef farið hefur verið frá Breiðabólsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimild m.a.:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar, III. bindi, bls. 592-593.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976.
-Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi.
-Herforningjaráðskort frá 1909.