Hraunhveli
Víða í apalhraunum Reykjanesskagans eru úfnir hraunhólar.
Í helluhraununum eru hraunhveli, jafnan þversprungin. Eitt myndrænasta hraunhvelið er við Reykjanesbraut nálægt Hvassahrauni með Snæfellsjökul í baksýn. Upp á hraunkollunum, hvort sem um er að ræða hraunhóla eða hraunhveli, er mosi, skófir en beiti,-kræki- og bláberjalyng inn á milli, jafnvel burnirót, tófugras og/eða burkni.
Hraunhvel myndast vegna þrýstingsáhrifa sem verða sökum mismunandi rennslishraða á milli hálfstorknaðs yfirborðs og hraunkviku undir. Hólar og hæðir í helluhraunum geta líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins, storkin kvikan sígur, jaðrarnir leita niður og til hliðanna og bergloftið klofnar.
Ein stærstu hraunhveli eru Krossstaparnir ofan við Lónakotssel, en einn sá tilkomumesti er Álfakirkjan í Geldingarhrauni. Annars eru þessi jarðfræðifyrirbæri mjög algeng, ekki síst í Almenningum þar sem þessar myndir voru teknar. Þeim fylgja oft grónar lautir, skútar og skjól.