Hversdagshetjan – Ingi Gunnlaugsson
Eftirfarandi umfjöllun um „Hversdagshetjuna Inga Gunnlaugsson“ birtist í jólablaði Fjarðarfrétta 19. des. 2024:
„Hér með hefjast skrif um núlifandi Hafnfirðinga sem hafa sinnt mikilvægu samfélagslegu hlutverki á lífsleiðinni, en hafa hins vegar látið lítið fyrir sér fara. Ætlunin er að birta bæði umfjöllun og viðtöl við hlutaðeigendur í Fjarðarfréttum; fréttamiðli allra Hafnfirðinga.
Minningar lifandi fólks um fortíð þess og nútíð verða aldrei ofmetnar að verðleikum, þrátt fyrir að hafa gefið mikið af sér, en látið lítið fyrir sér fara í gegnum tíðina – stundum af einskærri hógværð. Lesendur eru hvattir til að skrifa um og senda inn málefnalegar greinar um framangreinda einstaklinga, sem þau telja að eigi lofið skilið.
Fyrstur verðskuldaðra í vonandi langri röð slíkra einstakra er Ingi Gunnlaugsson, tannlæknir. Hann hefur ekki talið það eftir sér að sinna mikilvægu samfélagslegu hlutverki án þess svo að hafa haft mörg orð um framlag sitt, en hefur samt sem áður frá ýmsu forvitnilegu að segja um ævi sína og störf.
Ingi Gunnlaugsson
Hafnfirðingurinn Ingi Gunnlaugsson fæddist vordaginn 19. maí árið 1954. Í dag er hann kvæntur Erlu Eyjólfsdóttur snyrtifræðingi og fyrrum flugreyju, f. 14.2.1958. Börn þeirra eru Helga Björt, Harpa Mjöll og Gunnlaugur Jón. Dæturnar tvær hafa fetað í fótspor föðursins, þ.e. lært til tannlækninga með dýrmæta leiðsögn hans að leiðarljósi, og sonurinn hefur lært til söngs og þykir sérstaklega vænlegur til afreka á því sviði. Gunnlaugur, nafni afa síns, er auk þess lögfræðingur hjá Útlendingastofnun.
Eftir að hafa búið með foreldrum sínum í bænum, m.a. við Hringbraut, Ölduslóð, Lindarhvamm og Klettahraun, búa Ingi og Erla í dag á efstu hæðum Klukkbergs með útsýni yfir neðanverðan Fjörðinn; Hamarinn og höfnina; gamla bæjarstæðið frá upphafi kaupstaðarins árið 1908 sem og landslagið allt frá tíð Hrafna-Flóka, þ.e. upphaf norræns landnáms hér á landi. Staðsetningin gefur ákjósanlega yfirsýn um sögusviðið í ljósi þess að Ingi er og hefur verið mikill áhugamaður um sögu, minjar og lífshætti fólks í gegnum tíðina sem og þróun byggðalagsins, auk þess sem honum er verulega umhugað um velferð alls almennings.
Ætt
Faðir Inga var Gunnlaugur Jón Ingason. Hann fæddist á Bergþórshvoli í Vestur-Landeyjum 20. mars 1924. Foreldrar Gunnlaugs voru hjónin Ingi Gunnlaugsson frá Kiðjabergi í Grímsnesi, f. 19.8.1894, d. 10.2. 1973, og Ingibjörg Jónsdóttir frá Álfhólum í Vestur-Landeyjum, f. 20.7.1887, d. 23.1. 1977. Gunnlaugur var næstelstur fjögurra systkina. Hann kvæntist 26.12.1952 Helgu Guðmundsdóttur, síðast ritara við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, f. 3.7. 1927, d. 6.1.1992. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Guðbjörnsson, skipstjóri frá Sveinsstöðum á Snæfellsnesi, og Guðrún Ásbjörnsdóttir frá Hellissandi. Þau fluttust til Hafnarfjarðar árið 1926 og var Helga næstyngst sex barna þeirra.
Gunnlaugur fluttist tveggja ára gamall ásamt foreldrum sínum að Vaðnesi í Grímsnesi. Eftir skyldunámið fór hann í Íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar í Haukadal. Um tvítugsaldur fluttist Gunnlaugur til Reykjavíkur, vann fyrst í byggingarvinnu hjá Haraldi Bjarnasyni og síðan stundaði hann akstur vörubifreiða og leigubifreiða. Hann var lögreglumaður í Reykjavík á árunum 1950–57, en fluttist þá til Hafnarfjarðar og bjó þar alla tíð síðan. Hann starfaði fyrst í lögreglunni þar, en stofnaði síðan og rak verslunina Hamarsbúð (Hólsbúð) að Hringbraut 13, sem var kjöt- og nýlenduvöruverslun þess tíma. Bjarni Blomsterberg keypti síðar verslunina og raka hana uns hann og endurskoðandi hans, Sigurbergur Sveinsson, hleyptu Fjarðarkaupum af stokkunum árið 1973.
Gunnlaugur stofnsetti byggingafyrirtæki árið 1964 og stóð m.a. fyrir byggingu allmargra fjölbýlishúsa í Hafnarfirði. Enn breytti Gunnlaugur um starfsvettvang árið 1981, er hann gerðist starfsmaður Alþingis og starfaði þar sem þingvörður allt til 70 ára aldurs.
Gunnlaugur tók mikinn þátt í íþróttum og keppti bæði í glímu og frjálsum íþróttum. Hann vann Skarphéðinsskjöldinn í glímu árin 1951-52 og fór ásamt glímumönnum í tvær sýningarferðir til Svíþjóðar, 1946 og 1949, þar sem sýnd var íslensk glíma.
Systkini
Gunnlaugur og Helga eignuðust sex börn, þ.á.m. umfjallaðan Inga. Systkini hans eru Guðmundur, arkitekt í Reykjavík, tvíburabróðir Inga, Gunnlaugur Helgi, dúklagningameistari í Hafnarfirði, Halldór, smiður og listamaður á Eyrarbakka, Þorsteinn, rekstrarverkfræðingur í Hafnarfirði og Guðrún Ingibjörg, hjúkrunarfræðingur í Hafnarfirði.
Faðirinn
Eftirfarandi lýsing Inga er til af föður hans: „Faðir okkar var um flest einstakur maður. Að honum stóðu í föðurætt embættismannastétt Thorarensenættar og sunnlenskra höfðingja en í móðurætt hin styrka Landeyjaætt, þar sem lundin líkist briminu við sandinn. Hann fæddist vorið 1924 í síðasta torfbænum sem stóð á bæjarhóli Njáls að Bergþórshvoli. Það fór vel á því að fæðingarstaður hans skyldi vera þar sem kappinn Skarphéðinn lét líf sitt, því á margan hátt líktist pabbi fornum kappa, allra manna vaskastur, glímukóngur á yngri árum og atorkusamur með eindæmum. Bundinn í hnakk móður sinnar fluttist hann ársgamall með foreldrunum, Inga og Ingibjörgu, vestur yfir stórfljót Suðurlands að Vaðnesi í Grímsnesi. Fjölskyldan var ekki fátæk en víst er að almennur skortur kreppuáranna mótaði pabba og hans sterka vilja til að standa sig og helst skara fram úr.
Ungur fylltist hann eldmóði ungmennafélaganna og fór í íþróttaskóla Sigurðar Greipssonar að Geysi í Haukadal. Þar gilti heragi og strangar æfingar meitluðu kjark og stæltu þor. Við tóku margir sigrar á frjálsíþrótta- og glímumótum og margir óttuðust glímukónginn unga úr Grímsnesinu sem þótti svo handsterkur að beltin skárust inn í lendar andstæðinganna. Traustir líkamsburðir komu sér líka vel þegar haldið var til Reykjavíkur með örfáar krónur í vasanum í stríðsbyrjun. Þar voru unnin þau verk er til féllu, handmokað á heilu vörubílana, steypuvinna og uppskipun um helgar, oft unnið átján tíma á sólarhring. Þannig var líka lífið á uppvaxtarárum okkar systkina, faðir okkar að vinna fyrir stóru heimili en móðir okkar heima til að styðja til náms og þerra tár. Af mörgum störfum sem hann vann kunni hann best við sig í umsvifamikilli byggingastarfsemi. Þar fékk atorkusemin útrás og mörg fjölbýlishús í Hafnarfirði eru til vitnis um það.
Síðan var líka hin hliðin á pabba sem kom æ betur í ljós á síðari árum. Fyrir innan hina hrjúfu skel var hlýr og blíðlyndur persónuleiki sem gat meira að segja verið býsna viðkvæmur á stundum, elskaði allt sem íslenskt var og talaði ætíð um fósturjörðina sem besta land í heimi. „Ísland er landið!“ var honum tamt á tungu og vísar þá bæði til fegurðar ljóðsins og landsins. Hann var ótrúlegur ljóðamaður, kunni flest bestu kvæði Einars Ben. utan að og hreifst mjög af framsýni og kjarki skáldsins.
„Reistu í verki viljans merki, vilji er allt sem þarf“ voru einkunnarorð föður okkar og lífssýn meitluð í eina setningu. Hugljúf kvæði Tómasar runnu fram úr munni hans á góðum stundum flutt af innlifun, ætíð utan bókar. Raunar sást hann sjaldan opna bók og aldrei til þess að læra ljóð, hann sagðist muna þetta allt frá gamalli tíð.
Allir fjölskylduvinir sjá hann í anda flytja Stjána bláa, öll átján erindin án þess að hika eða syngja Hagavagninn með glampa í augum, blik þess sem elskar lífið og kann svo sannarlega að njóta þess.
Móðir okkar Helga varð honum harmdauði fyrir tíu árum, er hún lést úr krabbameini. Nú hefur sami skaðvaldur tekið hann, góðan föður, tengdaföður og elskulegan afa. Við sitjum hnípin eftir og söknum samvistanna og þess að hann skyldi ekki fá að teyga lífsbikarinn til botns, njóta fallegu íbúðarinnar lengur og ferðast eins og hugurinn stóð til. Það var honum mikið áfall að greinast með illkynja sjúkdóm síðastliðið vor en hann barðist til þrautar, gaf aldrei upp alla von og stóð eins og hetja uns síðasta glíman varð ekki unnin. Nýlega stofnaði hann af stórhug minningarsjóð um eiginkonu sína, við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, með verulegri upphæð og sýnir það vel rausnarskap hans.“
Móðirin
Helga Guðmundsdóttir fæddist 3. júlí 1927 í Hafnarfirði. Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Guðbjörnsson skipstjóri frá Sveinsstöðum, Snæfells- nesi og Guðrún Ásbjömsdóttir frá Hellissandi. Þaðan fluttust þau til Hafnarfjarðar árið 1926. Helga var sjö ára, þegar hún missti föður sinn. Hann drukknaði, aðeins 39 ára.
Fór hún fljótlega eftir fermingu út á vinnumarkað. Stundaði hún m.a. verslunar- og skrifstofustörf, fyrst í versluninni Garðarshólma, en lengst í Kaupfélagi Hafnfírðinga við Strandgötu og var þar m.a. deildarstjóri um árabil.
Helga var við nám í Húsmæðraskóla Akureyrar 1946-47 og náði bestum árangri í prófum við skólann þann vetur.
Þegar aðstæður heima fyrir leyfðu, fór Helga að vinna utan heimilis. Um tíma vann hún við aðhlynningu á Reykjalundi. Síðar var hún í rúm 10 ár við afgreiðslustörf hjá Rafveitu Hafnarfjarðar. Haustið 1986 hóf Helga störf á skrifstofu Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og var til vors 1991. Þeim störfum sinnti hún af einstakri skyldurækni og vildi þar allra vanda leysa. En hún var þar líka eins og húsmóðir á stóra heimili, dáð og virt af kennurum og nemendum.
Vegna mannkosta og hæfileika var oft leitað til Helgu um forustustörf á vettvangi félagsmála. Hún var t.d. formaður Bandalags kvenna í Hafnarfirði 1981-83, formaður Kvenfélags Fríkirkjusafnaðarins 1985-89, starfaði innan kvennadeildar Slysavarnarfélagsins Hraunprýði í Hafnarfirði og sat þar í stjórn um árabil, var lengi í stjórn sjálfstæðiskvennafélagsins Vorboðanum, þar af formaður 1973-76, og í fyrstu stjórn Kvenfélagsins Sunnu. Hún var varabæjarfulltrúi 1966-70 og þá m.a. í barnaverndarnefnd og formaður leikvallanefndar. Síðar var hún um árabil í fegrunamefnd.
Á yngri árum tók Helga þátt í starfi Hauka og var m.a. í kvennaflokki félagsins sem urðu Íslandsmeistarar í útihandknattleik sumarið 1946.
Guðmundur Gunnlaugsson, sonur Helgu, minntist móður sinnar í minningargrein í Mbl. 17. jan. 1992: „Oft er talað um mikilvægi fjölskyldunnar í hraða nútímans en oft vill verða lítill tími fyrir hin andlegu gildi er við enn á spretti eftir hinum veraldlegu lífsgæðum.
Gjarnan vildi ég að sem flestir gætu notið þeirrar gæsku sem við systkinin urðum aðnjótandi í uppvextinum. Að eiga góða mömmu heima, þegar komið var úr skóla, sem tók á móti ungunum sínum með rjúkandi kakói og smurðu brauði. Áhugasöm um allt sem að náminu laut, jafnt að kenna okkur margföldun, skólaljóðin eða skilja vindafarið í Andesfjöllum. Þegar minnst er á ljóð get ég ómögulega sleppt áhuga hennar á að gera okkur að skólaskáldum í 11 ára bekk og minnist ég ýmissa hugljúfra ljóða okkar tvíburanna, jafnvel sálma, sem birtust í skólablaðinu og vöktu væntingar kennara um nýjan Tómas og endurfæddan Jónas. Stuðningur mömmu var ómetanlegur á námsbrautinni og hvatning til háskólanáms“.
Viðhorf í heiðri höfð
Ingi hefur jafnan haft í heiðri aðdáunarverð viðhorf forfeðra sinna og mæðra. Þau hafa markað að mörgu leiti viðhorf hans í gegnum tíðina, m.a. ósérhlífðina jafnt sem vonina um bjartari framtíð öllum til handa, a.m.k. þeirra er til þess hafa unnið.
Átta ára og níu ára gamall var hann sendur í sveit að sumarlagi til nafna hans að Kiðabergi þar sem hundurinn Helvíti tók á móti honum á bæjarhlaðinu í von um aumkun. Af eðlislægri hegðun hundsins var margt hægt að læra.
Sex sumurin þar eftirleiðis dvaldi hann sumarlangt í sveit að Sigluvík á Suðurlandi hjá ættingjum sínum þar sem hann lærði nánast allt annað er var síðar mótandi á lífsleiðinni.
Tannlækningar
Ingi lærði til tannlækninga og stundaði í framhaldinu iðju sína í Keflavík um nokkurt skeið þar sem hann varð vinsæll til verka, en flutti starfsemina síðar til uppvaxtarbæjarins. Eftirsókn gömlu viðskiptavinanna fylgdu honum þangað, auk þess sem fjölmargir bæjarbúar kunnu fljótt að meta þjónustuna. Í dag, kominn á lögformlegan eftirlaunaaldur, annast Ingi viðskiptavini sína, hvort sem þeir koma frá Suðurnesjum eða Hafnarfirði, af jafn mikilli alúð og af sama eldmóði og fyrrum.
Eftir að hafa fylgst með um stund, sitjandi lesandi í annars áhugaverðum glansritunum, s.s. Heima er best, Vikunni eða Nútíma vísindi, í sófa á tannlæknabiðstofunni og hlustað á viðbrögð móttökuritarans, Erlu, varð mikilvægi hins rótgróna tannlæknis aldrei augljósara. Í nánast sérhverju símtali fólust beiðnir um skjóta aðstoð vegna stöðugrar tannpínu, brotinnar tannar, óþægilegs seiðings o.s.frv. Jafnan var brugðist við með; „eigum tíma eftir þrjá mánuði, en get reynt að setja þig á biðlista ef eitthvað losnar?“
Innar frá heyrðust þá viðbrögðin frá meðvituðum sívinnandi tannækninum: „Þarna er greinilega þörf á skjótum viðbrögðum? Komdu viðkomandi inn í hádeginu á morgun – stytti bara matartímann minn“, eða; „bjóddu henni að koma á laugardagsmorguninn á milli kl. 09 og 12. Við reddum þessu. Það getur engin verið með tannpínu í þrjá mánuði“.
Ingi hefur reynst Hafnfirðingum sem og öðrum einstaklega fórnfús í gegnum tíðina. Fáir Hafnfirðingar eru honum ósérhlífnari.
Eftir að hafa setið, sem fyrr sagði, á setustofunni og flett um stund áhugaverðri bók um Sögu bílsins eftir Örn Sigurðsson, heyrðist Ingi vera að ræða stuttlega við sjúkling sinn, sem í framhaldinu af stólsdvölinni var að venju boðið enn innar upp á stutt einkaspjall yfir sparkaffibolla (þ.e. viðskiptavinurinn þarf að taka með sér skolpappamálið við stólinn að lokinni viðgerð og fær að launum í það nokkra væna kaffidropa).
Að spjallinu loknu kom tannlæknirinn fram á setustofuna, bauð góðan daginn, leit yfir fámennið og sagði: „Nú, það er þá göngugarpurinn. Hvað get ég gert fyrir þig?“
Áður en lagst var í stólinn varð mér forvitni á að vita hvað hefði hrjáð síðasta viðskiptavininn því hann hefði virst svo ánægður þegar hann fór.
Eftir að hafa lagst í stólinn útskýrði hann: „Þessi kom til mín eftir að hafa fengið þá greiningu að draga þyrfti úr honum allar tennurnar. Ég hef hins vegar verið að vinna með honum undanfarnar vikur, jafnvel daglega, að bæta um betur. Nú eru allar tennurnar hans loksins orðnar broshæfar. Það versta við tannskemmdir, auk sykursátsins, eru reykingarnar. Allir þeir illa förnu sjúklingar, sem látið hafa að slíkum meinbugum, hefur gjarnan farnast betur í framhaldinu“.
Ég hef mætt hjá Inga í árlega skoðun. „Þetta lítur bara vel út“, voru fyrstu viðbrögðin við síðustu skoðun. Við nánari skoðun kom hins vegar annað í ljós. „Við þurfum að að setja krónu á einn neðanverðan hliðarjaxlinn. Skrái þig í tíma snemma í fyrramálið“. Fyrramálið var á laugardegi.
Mætti á tilskyldum tíma. Mundi eftir að hafa þurft á yngri árum í tvígang að fara til læknis vegna tannpínu. Eini læknirinn til þeirra þarfa var þá Eiríkur, læknir, á Austurgötunni. Í bæði skiptin ákvað hann að draga skemmdu tennurnar úr gómnum. Eiríkur hafði auk þess dregið allar tennurnar úr móður minni fyrir fertugt. Hún fékk reyndar mótaðan góm í þeirra stað, vistaðan í vatnsglasi að næturlagi. Viðgerðir skemmdra tanna þekktust varla fyrrum, þótt skammt sé um liðið.
Liggjandi í stólnum með annars vinalegan tannlækninn, haldandi á ógnandi tannbornum í annarri hendi og með uppsogið í hinni, getur slík ásýnd eða hlustun sjaldnast talist eftirsóknarverð.
Eftir að hafa haldið saman krumlunum meðan flóknar boranir og slípanir voru unnar umleikis ofanverða tönnina, skammvin blæðing stöðvuð, skipuleg tannmótun farið fram sem aðlögun mögulegrar uppsetningar bráðbirgðakrónu að markmiði o. fl., var einni slíkri til bráðabrigða skellt yfir jaxlinn.
„Þú verður bara að bíða í fimm daga, reyndar líklega í eina tólf því tannsmiðurin þurfti að fara til Majorka. Ég hringi þegar að kemur“.
Allt framangreint gekk eftir; fékk varanlegu krónuna á tönnina eftir nákvæmlega tíu daga, auk þess sem mér var bæði í framhaldinu boðið kaffi í sparibollann og spjall. Spjallið snérist að mestu, líkt og áður, um líf fólksins okkar fyrrum, viðhorf þess, afstöðuna, aðbúnað og lífsskilyrðin, ekki síst með hliðsjón af því sem nú stendur fólki til boða.
Fátt um mig að segja
Þegar Ingi var spurður hvort hann hefði ekki áhuga á að um hann, sem einstakling, yrði fjallað í Fjarðarfréttum var svarið: „Ekki hafa fyrir því, kæri vinur – það er fátt um mig að segja.“
Ingi Gunnlaugsson er í dag með reynslumestu tannlæknum landsins. Það er fátt sem hann hefur ekki getað galdrað fram til betrumbóta fyrir það sem úrskeiðis hefur farið þegar tennur skjólstæðinga hans eru annars vegar. Hann hefur auk þess bæði verið sanngjarn í vinnuverðlagningu og reynst einstaklega mikill mannvinur, endurumleikis sem honum er fátt óviðkomandi þegar kemur að sögu, menningu og lífsviðurværi fólks, hvort sem um er að ræða fortíð, nútíð eða framtíð. Hann er víðlesin á eldri bókmenntir, hefur fylgst vel með brauðstriti fólksins okkar í gegnum aldirnar og er umhugað um velferð almennings í þágu lands og þjóðar, auk þess sem hann er bæði hagyrðingur góður og kíminn á mannleg samskipti líðandi stundar. Hefur greinilega erft þær gáfur frá forfeðrum og -mæðrum.
Aðspurður um yrkingar hans vildi hann lítið gera úr afrekum á þeim sviðum, en vísaði á eftirfarandi vísu orta af syni sínum, nafna afa yrkjandans, um hann sjötugan. Ingi telur að vísan sú kunni að lýsa innihaldi lífsskeiðs hans vel:
Heil þér sjötugum, Ingi Gunnlaugson!
Fjölskyldu minnar höfð-INGI
og systkina sinna for-INGI
ef lesið væri um hann í bækli-INGI
væri þar lýst dýrl-INGI
jafnvel eilífðar tán-INGi.
Þá er hann alls konar aum-INGi
og ekki til nokkurs let-INGi
síður er hann svo heimsk-INGi
lýsa honum mætti sem fræði-INGI
er þreytist á Merrcedis jeppl-INGI
og treystandi væri fyrir Alþ-INGI.
Ákveður þó oft í hálfkær-INGI
skiptir um skoðun í flýt-Ingi
leysir það pirring úr læð-INGI
frá sér betri helm-INGI
er veldur þá yfirleitt skæt-INGi
og einstaka sinnum flutn-INGI.
En sáttir við óþarfa pirr-INGI
er kann algerum rugl-INGI
sem endar með sorglegum klofn-INGI
nást þó ætíð sem samn-INGI
virðingu, vinsemd og fíl-INGI
því hvort annað þið fenguð að vinn-INGI.
Í dag föður míns lofs-Ingi
sem hans einkasonur og erfi-INGI
að mér, þínum uppáhalds grísl-INGI
þú heimsins ert besti gaml-INGI.
Framangreind lýsing hefur nú verið ritfest í reyklitað glerið í fordyri biðstofu tannlæknisins – eins af okkar Hafnfirðinganna hógværustu og ágætustu núlifandi yndis-Inga.“
GLEÐILG JÓL góðir Hafnfirðingar.
-Ómar Smári Ármannsson
Heimild:
-https://www.fjardarfrettir.is/frettir/mannlif/hversdagshetjan-ingi-gunnlaugsson