Hvítanes – skilti

Kjós

Tvö skilti eru við þjóðveginn ofan Hvítaness í Hvalfirði. Annað er um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni“ og hitt „Útsýni frá Hvítanesi„.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Á skiltinu um „Hernaðarumsvif í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni“ má lesa eftirfarandi texta: „Hvammsvík var miðstöð Bandaríkjaflota með skotfærageymslur herskipa og tómstundaheimili sjóliða. Í Hvammsey var tómstundaheimili fyrir sjómenn á kaupskipum. Þeir fengu ekki annað landgönguleyfi enda Hvalfjörður skipalægi en ekki viðkomuhöfn. Stjórnstöð á Hvammshöfða stýrði umferð skipa og úthlutaði legustöðum í firðinum. Skipalægi kaupskipa var utan við Hvammsvík.

Kjós

Hvammsvík á stríðsárunum.

Bækistöð Bandaríkjaflota, Falcon Camp, var í Hvammsvík (Falcon Landing). Bretar settu upp loftvarnabyssur og reistu skálahverfi í Hvammshólum sem Bandaríkjaher tók síðan við. Lengst til vinstri eru byssustæðin, þá íbúðarskálar og tómstundaheimili sjóliða, vöruskemmur og tómstundaheimili liðsforingja austast. Sunnan vegar stendur stjórnstöð skipalægisins á Hvammshól og skotfærageymslur flotans til hægri. Á Miðsandi og Litlasandi handan fjarðarins stóð stór eldsneytisbirgðastöð sem þjónaði skipum bandamanna og herliðinu á Íslandi.

Kjós

Hvítanes á stríðsárunum.

Hvítanes var bækistöð breska flotans. Á nesinu voru 250 byggingar; birgðageymslur, verkstæði, íbúðarskálar, spítali og annað til þjónustu við herskipaflotann, ásamt kvikmyndahúsi, verslun, veitingastofu og tómstundaheimili fyrir sjóliðana. Einnig verkstæði til viðhalds kafbátagirðingar og tundurduflalagnar sem vernduðu skipalægið. Viðgerðar- og birgðaskip lágu innan við Hvítanes og önnuðust viðhald herskipa ásmat öflugri flotkví. Gat þar oft að líta stærstu bryndreka veraldar sem vernduðu skipalestir fyrir orrustuskipum þýska flotans í Noregi.

Kjós

Vagn frá Hvítanesi.

Akvegir og lítil járnbraut með flutningavögnum lágu um nesið og þar var rafstöð og götulýsing, vatnsveita, fjarvarmaveita og fráveitulögn. Stálbryggja var gerð til að landa netum og búnaði kafbátagirðingarinnar við Hvalfjarðareyri sem þarfnaðist stöðugs viðhalds. Skip voru einnig afgreidd við bryggjuna en flutningabátar notuðu steinbryggju á vestanverðu nesinu.

Kjós

Hvítanes – skilti.

Hvalfjörður var mikilvæg flotabækistöð í síðari heimsstyrjöld. Kaupskip frá Bretlandi og Bandaríkjunum söfnuðust saman í Hvalfirði til siglingar í skipalestum um afar hættulega leið til rússneskra hafna. Þýskar könnunarflugvélar lögðu stöðugt leið sína með ströndum landsins en bandarískar orrustuflugvélar grönduðu fjórum þeirra í grennd við Hvalfjörð. Bandaenn náðu yfirhöndinni í baráttu við þýska kafbátaflotann á Atlantshafi 1943. Síðasta herliðið yfirgaf bækistöðvar sínar í stríðslok og var tundurduflagirðingu við Hálsnes eytt með sprengingu en kafbátagirðingu við Hvalfjarðareyri sökkt í fjörðinn.“

Á skiltinu „Útsýni frá Hvítanesi“ er eftirfarandi texti: „

1. Hvammsvík

Kjós

Hvammsvík – skipalægi.

Í Hvammsvík fæddist Loftur Guðmundsson (1892-1952) ljósmyndari. Hann gerði fyrstu íslensku talmyndina, Milli fjalls og fjöru, sem var m.a. tekin upp í Kjós á 5. áratug 20. aldar. Myndin var frumsýnd árið 1949.

2. Saurbær

Kirkjustaður og prestsetur, kunnast af dvöl sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar (1614-1674), en hann var prestur og orti Passíusálmana. Hallgrímskirkja í Saurbæ er helguð minningu séra Hallgríms.

3. Ferstikla

Kjós

Útsýni yfir Hvalfjörð frá Hvítanesi.

Landnámsjörð. Fjórir af fimm tindum Botnssúla sjást þaðan og er talið að nafnið sé dregið af því. Þar dvaldi séra Hallgrímur Pétursson síðustu æviárin og andaðist þar.

4. Miðsandur

Hvalfjörður

Hvalfjörður – herstöðin á Miðsandi.

Bandaríkjamenn reistu olíubirgðastöð í landi Miðsands og Litlasands í síðari heimsstyrjöld. Á Miðsandi var jafnframt birgðastöð vegna skipaviðgerða. Stöðin var starfrækt áratugum saman í þágu varnarliðsins ásamt hvalstöð sem hóf rekstur árið 1948 og var árið 2009 aftur í rekstri eftir 20 ára hlé. Þarna er enn braggahverfi frá því í heimsstyrjöldinni síðari.

5. Geirshólmi

Kjós

Geirshólmi í Hvalfirði.

Kletthólmi sem segir í harðar sögu Grímkelssonar að ránsmannahópur undir forystu Harðar Grímkelssonar hafi dvalist um skeið. Byggðamenn hafi síðan ginnt Hólmverja í land með loforðum um sættir en svikið þá og fellt þá alla.
[Allir, sem í land komu að ráðum byggðamanna, voru felldir. En það voru allir er trúðu loforðum þeirra.]

6. Þyrill

Þyrill

Þyrill í Hvalfirði.

Sérkennilegt hömrum girt basaltfjall, 399 m. Þar finnast margar tegundir sjaldgæfra geislasteina. Í fjallið er klauf, Helguskarð, sem sagan segir að helga Jarlsdóttir hafi klifið upp með syni sína á flóttanum eftir víg Hólmverja þegar hún hafi synt með þá til lands úr Geirshólma. Undir fjallinu er samnefndur bær er kemur við harðar sögu. Í Þyrilsklifi er unnið líparít til sementsgerðar.

7. Botnsá

Botnsá

Botnsá.

Í Botnsá er fossinn Glymur, um 200 m, hæsti foss landsins. Þar eru vinsælar gönguleiðir. Við Botnsá eru sýslumörk Gullbringu- og Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu.

Á Hvítanesi má enn sjá mannvirki breska flotans frá umsvifum hans í Hvalfirðinum í seinni heimsstyrjöldinni. Umsvif hersins voru mikil í Hvalfirði og höfðu í för með sér mikla röskun á lífi fólks í nágrenninu. Sumir fengu vinnu hjá hernum. Innan við Hvítanes eru leifar af tröppum sem gerðar voru þegar Winston Churchill kom til landsins árið 1941. Mannvirki hersins voru rifin að loknu hernámi.“

Hvítanes

Hvítanes – leifar hernaðarmannvirkjanna.

Reyndar voru ekki öll mannvirki hersins rifin, þau voru flest fjarlægð til þjóðþrifa og notuð til útihúsa, fjósa, geymsla, verkstæða og jafnvel mannabústaða víðs vegar um land. Eftir stóðu hlaðin hús, sem síðan hafa ýmist verið rifin með stórvirkum vinnuvélum eða verið látin drabbast niður þar sem tímans tönn hefur náð að jafna þau við jörðu.

Kjós

Hvítanes – skilti.