Íslenskir þjóðhættir – Jónas Jónasson
ÚRDRÁTTUR:
„Íslendingar hafa háð harða lífsbaráttu, þurft að sæta hungri og búið við kulda og raka, en notið landsins. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hafa þeir borið með sér þann lífsneista, sem hefur dugað til að gera þá að þjóð.“
Daglegt líf
1. Þegar til þess kemur, að fá yfirlit yfir það, hvernig fólk á Íslandi lifði hér fyrrum sólarhringinn yfir, verður þá réttast að byrja að morgninum, þegar fólk fór að örglast úr bólinu, og enda á því, að það sofnar á kvöldin.
2. Á 18. öld og langa lengi fram á hina 19. voru klukkur hvergi á sveitabæjum. Stundaglös voru til á sumum bæjum; svo er að sjá sem þau fari að flytjast almennt eftir 1760.
3. Venjulegur fótaferðartími var úr miðjum morgni, eða úr því að klukkan var 6, vor, sumar og haust. Fór húsbóndinn venjulega fyrst á fætur og svo hver af öðrum.
4. Sú var almenn regla, þegar maður kom út, að signa sig og gá til veðurs.
5. Eftir fótaferð fór svo hver til vinnu sinnar, kvenfólk í fjós og karlar til fjárgæslu á vetrum eða til annarra starfa.
6. Almennt var vinnuharka mikil, einkum um sláttinn, 16-18 stunda vinna að minnsta kosti á túnslættinum og enda allan sláttinn. Kvað svo rammt að því, að mönnum lá stundum við að dotta við að brýna ljáinn sinn.
7. Kvöldvökurnar í sveitunum voru einkennilegar á vetrum. Á meðan stóð á haustverkunum, sláturtíðinni og að flytja á völl, var sjaldan farið að vaka til stórmuna, en undir eins og því var lokið á vetrarnóttum, var sest við tóvinnu og haldið áfram af öllum mætti fram að jólum.
8. Ljósfæri manna voru heldur ófullkomin; lýsislampinn gamli, sem hefir verið til frá ómunatíð í öllum löndum og lagðist ekki niður fyrr en eftir 1870, að steinolíulampinn ruddi honum burt.
9. Ljósmetið er lýsi, eins og nafnið bendir til (af ljós). Best þótti sellýsi og þvínæst hákarlalýsi, en þorskalýsi lakast.
10. Kveikir voru gerðir úr fífu, snúnir saman og tvinnaðir.
11. Þá voru kertin. Þau voru oftast steypt úr tólg í strokk, sem kallað var. Stokkkertin voru þó ekki algeng. Kerti voru mest höfð, þegar mest var haft við, t.d. á jólunum og þegar betri gestir komu.
12. Til þess að hafa (ljóstýru) frammi við, í búri, eldhúsi og fjósi, var notuð panna eða kola, heldur lélegt ljósáhald.
13. Þegar átti að fara að kveikja á kvöldin þurfti að fara fram og opna eldinn. Þó er getið um eldfæri, var það tinna, eldstál og eldsvampur, en þau eldfæri voru mjög fátíð.
14. Þegar ljósið kom inn, settust allir upp, sem sofið höfðu í rökkrinu, óku sér og tóku svo til vinnu sinnar; karlmenn að kemba og prjóna og konur að spilla og prjóna.
15. Jafnan endaði vakan með því, að lesa húslesturinn.
16. Birtan í baðstofunum hefur verið heldur dauf, þegar lengra dró frá ljósinu. Þeir sem mikið fengust við að skrifa höfðu glæra glerkúlu fulla af vatni og hengdu hana hjá lampanum og létu geislavöndinn úr henni falla á blöðin.
17. Svefn var venjulega heldur lítill, bæði sumar og vetur, þar sem vinnufrekja var mikil.
18. Rúm voru venjulega heldur léleg hjá almenningi.
19. Oftast voru tveir saman í rúmi, og var ýmist að menn lágu þá uppi við (upp í arminn) eða tilfætis (andfætis). Mörg börn voru oft saman í rúmi.
20. Þegar menn háttuðu, stungu menn fötum sínum oftast undir koddann sinn eða hengdu þau á slána eða stagið yfir rúminu. Nærföt voru altént undir höfðinu. Sokkana mátti aldrei hafa undir koddanum, því þá misstu menn minnið og gátu ekki dáið, nema sokkar voru settir undir höfuðið. Ekki mátti klæða sig úr öllu í einu, skó og sokkum, af öðrum fætinum, því þá klæddi maður sig úr láninu (almenn trú). Sumir segja, að hægt sé að klæða sig í lánið aftur með sömu aðferð; alklæða annan fótinn og svo hinn á eftir.
21. Það hefir lengi hljómað við í útlendum ferðabókum að sögum um Ísland, hvað Íslendingar væru óþrifnir, enda verður það ekki varið, að þeir hafi verið það um skör fram. Fornmenn voru hreinlátir mjög, og svo er oft getið um það í sögunum, að þeir voru að laugu. Fyrst og fremst stafaði óþrifnaðurinn af illum húsakynnum. Auðvitað var óloftið óskaplegt sumsstaðar í baðstofunum, og bar margt til þess; þær voru oftast lágar, kýr voru inni eða sauðkindur og svo var oft lýsi misjafnt. Svo barst fúaloftið, rakt og rotnað, fram úr göngunum, og þegar kalt var inni, rann allt út í slaga. Þegar mönnum fannst óloftið keyra úr hófi fram, var oft kveikt í eini eða næfrakolum, sem oft rekur af sjó og eru eiginlega viðarbörkur, til þess að bæta loftið.
22. Ekki var siður að þvo fatnað oftar en hjá var komist. Rúmföt, t.d. rekkjuvoðir, voru þvegin í hæsta lagi einu sinni eða tvisvar á ári. Skyrtur voru þvegnar hálfsmáðarlega.
23. En þó nokkuð væri nú ábótavant með þrifnað á húsum og fötum, var nærri lakast með þrifnaðinn á sjálfum sér. Komist hafði inn hjá þjóðinni að sóðaskapurinn og óþrifnaðurinn væri happadrjúgar til auðs og efna. “Saursæll maður er jafnan auðsæll”.
24. Veggjatítlan eða veggjaduðran spann í hverri þiljaðri baðstofu og boðaði mannslát árið í kring. Flær og lýs voru algengir gestir á flestum bæjum, og virðist svo sem sumir væru á því, að þær væru heldur til hollustu og heilsubótar, drægju illa vessa út úr líkamanum.
25. Málamatur á 18. öldinni var venjulegast hræringur úr grasagraut og súru skyri (og nýju á sumrum) með mjólk út á.
26. Yfir höfuð var fiskurinn, harðfiskurinn, aðalfæðan, og fádæmis ósköp, sem af honum eyddust á stórum heimilum.
27. Súrt slátur var og mikið til matar haft með þunnum mjólkurgrautum, þar sem fjárríkt var.
28. Ket var mikið haft til matar, þar sem fé var margt og ekki voru felliár, bæði hangið og vindþurrkað og saltað, þegar hægt var.
29. Höfðingjar og fyrirmenn landsins lifðu oft að útlendum siðum, en prestar og sýslumenn sömdu sig mest að háttum bænda, enda urðu þeir lengi að lifa við lík kjör.
30. Þegar í harðbakkana sló með fæðið, var farið að nota flest. Allir vita um fjallagrösin. Þau voru tekin snemma. Grösin voru mest höfð í grauta saman við skyr, og var ýmist að mjölfesta grautinn eða hafa í honum bankabygg – eða þá grösin tóm.
31. Af skepnum var allt notað, sem notað varð. Fiskar voru hafðir til matar, eins og enn gerist, og fátt annað, og hákarl og hákarlsstappa var ætíð í miklum metum og er enn í dag. bein öll og uggar, hausbein, roð og dálkar úr fiskum var sett í súr og notað til matar. Stundum var gerður bruðningur úr fiskbeinum, dálkum og uggum.
32. Fiskur var oftast boðaður nýr, en almennara var þó að lofa að slá í hann, og til voru dæmi, að menn hengdu hann í fjós til að ýlda hann. Hausar voru oftast etnir nýir og soðin lifur með. Kútmagar einnig fylltir með lifur og etnir nýir, annað hvort soðnir eða steiktir á glæðu. Hrognin voru hnoðuð upp í brauð með mjöli og gerðar úr soðkökur. Rauðmagar og hrognkelsi var boðað nýtt eða sigið og flutt sigið í heilum lestum upp í sveitir, þegar vel aflaðist. Oft voru þau þrá og óætileg. Selur og hvalur var etinn bæði nýr og saltaður, en spik og rengi var soðið, þar til lýsið var farið úr því, og svo súrsað. Oft rak mikið af sílum. Menn þvoðu þá af þeim sand og lepju og suðu í saltvatni.
33. Kjöt hirtum enn eftir föngum, einkum með því að salta það eða reykja. Magálar voru skornir af öllum skepnum, hleyptir (soðnir til álfs) og reyktir í eldhúsi.
34. Slátrið var allt hirt, blóðið blandað miklum mör og dálitlu af mjöli, ef það var til, eða skornum fjallagrösum. Lungu, lifur og hjarta var soðið og annað hvort etið nýtt eða súrsað með slátrinu.
35. Sviðin (hausar og fætur) voru oftast geymd lengi, þangað til að farið var vel að slá í þau. Þá voru sviðin soðin og etin að kvöldi.
36. Altítt var að sjóða kjöt niður í kæfu á haustin; var þá mörinn látinn fylgja kroppnum í kæfuna. Kæfan var höfð til viðbits og seld til sjávarins fyrir sjófang.
37. Þá voru aðalafnotin af búunum eða búsafurðirnar til sveitarinnar, mjólkin, enda var reynt að verja henni til matarnota á sem flestan hátt, sem auðið var. Undanrenningunni var rennt undan og höfð til útáláts á málum, annað hvort saman við nýmjólk eða flóuð. Rjóminn var strokkaður í strokk með bullu, oftast með handafli. Síðan var smjörið tekið og hnoðað úr því mestu áfirnar og gerð úr skaka (damla) Adrei var smjör saltað, fyrr en koma langt fram á 19. öld. Skyrgerð hefur að öllu farið eins fram í ómunatíð, en misjafnlega hefur skyr þótt gott hér á landi.
38. Sýra var höfð til margs, enda voru Íslendingar afargefnir fyrir súrmeti á fyrri tímum, og hefir það eðlilega stafað af matarhæfinu.
39. Flautir voru talsvert algengar á fyrr tímum. Áfum var hleypt með kæsi og síðan þeytt upp í þétta froðu með þyrli (flautaþyrli).
40. Ábrystir voru gerðar úr broddmjólk og þóttu kostamatur.
41. Af fornsögum vorum má sjá, að ostagerð var almenn um land allt, og þarf ekki að sanna það með dæmum.
42. Matarílát voru flest úr tré.
43. Nautnaveitingar voru fáar og fábreyttar. Kaffi fór fyrst að flytjast um eða rétt eftir 1760, en lítið mun það hafa verið notað lengi vel fyrst um sinn.
44. Tóbak var almemmt síðan á 17. öld, og mikið notað, bæði tuggið og reykt og tekið í nefið.
Aðalstörf manna til sveita
1. Það er eins og árið hafi byrjað með vorinu fyrir sveitamanninn; þá byrja vorverkin. Bjargræðistíminn er hér á landi frá vori til hausts og svo ómegðartími skepnanna, og mannanna að nokkru leyti, þaðan frá til vors. Með vorinu lifnar allt og glæðist. Vorið og vorgróðurinn hefir um allan aldur verið mesta gleði og yndi Íslendinga, og hvert fetið, sem fram þokaði í þá átt, mikils virði.
2. Eitt fyrsta vorverkið var túnvinnan eða vallarávinnslan. Hún byrjaði, þegar frost var svo horfið úr hlössum, að hægt væri að berja þau. Menn börðu mykjuna með klárum. Þetta er hið versta verk.
3. Taðkvörnin var gerð eftir ostakvörnini. Skarninn var borinn á tún með handafli.
4. Við sjóinn og á Suðurlandi þar sem karlmenn fóru flestir til sjóar, annaðist kvenfólk túnavinnuna á vorin, því að karlmenn komu ekki heim fyrr en eftir vertíð.
5. Samtíma túnvinnunni eða á eftir henni byrjaði sauðburðurinn, þetta í fjórðu viku sumars eða mánuð af sumri eftir atvikum.
6. Ullin var venjulega þvegin eftir rúninguna, úr gamalli keytu og vatni á eftir og þurrkuð síðan.
7. Fráfærurnar tóku svo við upp úr stekkjartímanum. Venjulega var fært frá viku eftir Jónsmessu, og áttu þá öll lömd að vera orðin mánaðargömul.
8. Á vorin var stungið út úr húsum, tekinn upp svörður, annast um æðarvarp, rifnar tóftir o.s.frv. Þetta var allt samhliða sauðburðinum.
9. Þá var eitt vorverkið að taka til við tóftirnar, rífa fyrirhleðslur þær, er gerðar höfðu verið haustið áður um heyið, breiða torfið, þurrka það og bunka, hlaði grjóti í vörður og bunka tóftatré (garðstaura).
10. Mjólkurærnar hafa lengi verið búsmali á Íslandi. Þegar eftir fráfærurnar voru ærnar nytkaðar kvöld og morgna, en hafðar í haga mála á milli. Nytjatíminn kvöld og morgna heitir mál og kallað að mjólka ærnar á málum.
11. Smalinn hafði það verk á hendi, að sjá um, að féð væri komið í kvíar á dagmálum og náttmálum, til þess að það yrði mjaltað, enda er sá tími enn í dag einatt kallaður mjaltir og verkið líka.
12. Ef smalanum hafði tekist svo vel fjárgeymslan, að engin ærin missti máls fram að Þorláksmessu á sumar (20. júlí), átti hann að eiga nytina úr bestu kúnni þann dag og skemmta sér við með útreiðum. Varð honum á að missa á frá sér, var hann látinn éta skömmina, þ.e. fékk engan skammt þann daginn.
13. Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem þröngt var um haga heim um sig, og þurfti ekki til, að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess að nálega 16 vikur voru af sumri. Selin voru í byggð til dala eða svo langt frá bæjum, að náðist til betri og kjarnmeiri haga en heima fyrir var að fá. Þangað var farið með allan ásauð og stundum kýrnar. Í selum var jafan einn kvenmaður, sematseljan, og ef fé var mjög margt, hafði hún með sér eina eða tvær unglingsstúlkur. Svo var smali, sem fylgdi fénu úr kvíunum og var yfir því nótt og dag.
14. Selin voru venjulega þrjú hús; mjólkurhús og selbaðstofa og eldhús til hliðar eða frálaust. Oft var og selið í beitarhúsum, ef þau voru langt frá bæjum. Kvíar voru og til að mjalta í ærnar og kofi handa kúm, ef þær voru hafðar í selinu.
15. Svo er að sjá, að selfarir hafi mjög verið farnar að leggjast niður, þegar kom fram á 18. öldina og eymd og ódugnaður landsmanna var kominn á hæsta stig. Gaf þá konungur út lagaboð 24. febr. 1754 að skipa öllum bændum að hafa í seli, að minnsta kosti átta vikna tíma, frá því er átt vikur væru af sumri til tvímánaðar.
16. Selfara er víða getið í fornsögum vorum og lögum.
17. Grasaferðin var farin milli fráfæra og sláttar.
18. Annað vorverk var það, sem mikið var að gert, þar sem nokkurn skóg var að hafa eða fjalldrapa, sem er í stærra lagi. Það var kolagerðin. Allir þurftu kola með á hverjum bæ til að dengja og smíða ljáinn. Skógurinn var höggvinn og hrísið rifið á haustin eða veturna; svo var það afkvistað og afkvistið haft til eldiviðar; leggirnir voru síðan kurlaðir í 3-4 þuml, langa búta. Síðan var gerð kolagröf, 1-2 faðmar að þvermáli og um 2 áln. djúp og kurlinu raðað í hana, og var hið stærsta haft neðst. Svo var slegið eldi í botninn og látið brenna, þangað til góður eldur var kominn í alla hrúguna. Þá var snöggtyrft yfir og mokað mold yfir, svo hvergi kæmi loft að; síðan var opnað eftir þrá eða fjóra daga og kolin tekin upp.
19. Kolagerðin hefir orðið skógum og hríslandi á Íslandi til hins mesta tjóns. Allt var höggvið, ungt og gamalt, og þar sem skógar voru ekki, var hrísið rifið miskunnarlaust; jarðvegurinn rótaðist allur upp, og svo blés allt upp ofan í grjót.
20. Þá voru rekaviðarferðir tíðar á vorin og unnið úr viðnum.
21. Kaupstaðaferðirnar voru um þetta leyti, svo að ekki vantaði það, að nóg væri að gera. Aðalvörur landsmanna voru fiskur og lýsi til sjávarins, en prjónlesi, ull og sauðir til sveitanna. En mél, kornamaður, járn og timbur voru hinar helstu vörur, sem bændur tóku út aftur. Þá var og tekið út tóbak og brennivín.
22. Slátturinn byrjar misjafnlega snemma, eftir því hvað vel vorar og snemma sprettur.
23. Til sláttarins þurfti amboð, bæði orf, ljái og hrífur.
24. Merkustu og atvæðamestu haustverkin eru göngurnar. Síðasta vorverkið er að reka lömbin til afréttar, fyrsta haustverkið að heimta þau aftur.
25. Að réttunum loknum var slátrað. Allt af skepnunni var notað.
26. Hvannrótaferðir heyrðu til haustverka. Þá fóru menn síðari hluta september til þess að grafa upp rætur og höfðu menn til þess verkfæri er nefnist rótargrefill.
27. Eitt af mikilvægustu haustverkunum var meltakið. Melurinn, er eins og kunnugt er, kornberandi axjurt, en vex í roksandi.
28. Síðan var kornið malað. Mjölið var haft í grauta og kökur, glóð- eða ristbakaðar.
29. Þegar haustönnum var lokið þá var tekið til við vetrarvinnuna. Mest kemur fjárhirðingin til sögunnar. Víða á Suðurlandi voru ekki hús yfir féð, aðeins lélegar fjárborgir og hellar. Sauði höfðu menn víða.
30. Brundhrúta átti að taka fyrir allraheilagramessu, en svo var þeim oftast hleypt saman við ærnar í vikunni fyrir jólin og allt látið ganga saman þangað til brundtíðin var á enda.
31. Hirðing kúa var vandaminni, því þær stóðu alltaf inni, enda lenti hún mest á kvenfólkinu.
32. Hirðing hesta var lítil, þeir voru látnir berja gaddinn, meðan til vannst og oftast lengur, og deyja drottni sínum, ef ekki vildir betur blása.
33. Annað aðal-vetrarstarfið var ullarvinnan innanbæjar.
34. Þá voru margir, sem fengust við smíðar á vetrum og allskonar hagleik. Spónasmiðir voru til í hverri sveit, og gerðu sumir þeirra spæni úr kýr- og nautshornum, falleg með afbrigðum.
35. Þá var skinnverkun eitt af verkum karlamanna. Gærur voru rakaðar á haustin og unnin á vetrum. Skinnin voru höfð til skóklæða eins og þau komu fyrir.
Veðurfarið
1. Það má telja svo, að hér á landi sé hagur manna bæði til lands og sjávar að mestu undir tíðarfarinu kominn; aðalatvinnan bæði á sjó og landi, sveitabúskapurinn og fiskveiðarnar, er allt undir því komið, að grasviðri sé, svo að tún og engjar spretti, og þurrkar svo góðir, að nýting á heyi verði bærileg um sláttinn, og gæftir séu svo til sjávarins, að menn geti náð fiskinum, þegar hann fer að ganga á miðinn.
2. Það er því engin furða, þó að landsmönnum væri ekki saman um veðurfarið og reyndu að spá mörgu og leita líkinda um, hvernig það mundi verða.
3. Ef stórviðri er á nýársdag, boðar það mikla storma.
4. Eftir veðri á Knútsdag (7. jan.) á að viðra eftir vertíð á vorin.
5. Góðir veðurdagar fyrst og síðast í janúarmánuði þóttu gömlum mönnum góð vetrarmerki.
6. Sólskin á Vincentiumessu (22. jan.) boðar gott ár.
7. Eftir Pálsmessu, 25. jan., viðrar í aprílmánuði.
8. Þorrinn byrjar venjulega um 20. jan., og trúðu menn því, að ef hann væri stilltur og frostasamur, mundi vel vora.
9. Ef sólksin var á kyndilmessu (2. febr.) bjuggust menn við snjóum.
10. Sólbráðir fyrir þriðja fimmtudag í góu borgast aftur. Sólrík langafastan í febrúar boðar oft sólskin á föstunni.
11. Votur einmánuður (20. mars) boðar gott vor.
12. Dimmviðri á föstudaginn langa boðar gott grasár.
13. Sólríkir páskar boða töðubrest.
14. Gott veður á sumardaginn fyrsta boðargott sumar.
15. Á höfuðdegi (29. ágúst) bregður vanalega veðráttu.
16. Gott haust boðar harðan vetur.
17. Fagurt sólskin og heiðviðri á jóladag boðar gott ár.
18. Vortíðin fer eftir jólaföstunni með veðurfar.
19. Mikil berjaspretta er fyrir vondum vetri.
20. Sú trú hefir verið sumsstaðar, og er enda enn, að sama tíðarfar komi alltaf tuttugasta hvert ár. Hafi maður því tuttuga ára gamla dagbók, getur maður vitað um veður á hverjum degi fyrirfram.
21. Kvöldroðin bætir, morgunroðinn vætir, er gömul trú.
22. Þegar ær míga mikið í kvíunum, þótti það boða úrhelli. Ef fé hristir sig í þurru veðri veit það á rigningu. Ef fé stangast mikið, veit það á hvassviðri.
23. Gestaspjót kattarins boðaði gestakomu.
24. Ef rjúpan leitar niður í byggð mátti búast við hinu versta.
25. Ef tittlingar hópa sig heim að bæjum og tísta veit það á stórhríðamerki.
26. Álftir vita oft veður í rassinn á sér.
27. Þegar lóan syngur óspart má vænta góðs.
28. Ef hrafn flýgur að sumri yfir teiginn, þar sem menn slá, og þegir, boðar það þurrk, ef hann krunkar, boðar það óþerri.
29. Frostrósir á gluggum segja til um tíðarfar. Ef þær snúa upp, veit það á gott, en snúi þær niður, veit það á illt.
30. Þegar regnbogi sést, boðar hann votviðri.
31. Hagur og vinnubrögð manna bæði til sjávar og sveita eru svo mikið undir tíðarfarinu, að eðlilegt var, að menn gæfu gætur að öllum tíðar- og veðurboðum.
Skepnurnar
1. Íslendingar hafa um allan aldur verið landbúnaðarþjóð, og má því geta nærri, að skepnurnar, einkum búféð, hafi haft mikla þýðingu í lífi þeirra og lifnaðarháttum.
2. Hestahald hefur ætíð verið mikið á Íslandi, og má sjá það fornsögum vorum víða, að menn lögðu mikla rækt við þá. Sögur fara af því, að íslenskir hestar hafi fyrrum verið öllu stærri en þeir gerast nú á dögum. Hestafjöldi hefur alla tíð verið mikill hér á landi, bæði að fornu og nýju. Hestar voru tamdir til ýmissa nota. Má þar nefna vatnahestana, en þeir voru sérstaklega góðir til að vaða stór straumvötn.
3. Kýr eru þær skepnur, sem Íslendingar hafa lengst og best lifað á, enda hefir þeim verið ætlað fóður fremur öðrum skepnum frá alda öðli.
4. Margt gagn má hafa af kúnum fleira en mjólkina, og er það kjötið og húðir.
5. Eitt er það, sem kýrnar hafa fram yfir aðrar skepnur, en þær geta talað einu sinni á ári, en ekki ber mönnum saman um, hvenær það er; en annað hvort er það á nýásnótt, þrettándanótt eða Jónsmessunótt.
6. Sauðfé gekk sjálfala í skógum, meðan þeir voru óhöggnir.
7. Fengitími ána var venjulega um og úr jólum
8. Þegar kom til sauðburðarins að vorinu um eða eftir hjúadaginn, þurfti að hafa gát á fénu. Krummi hafði það til, að vera svo nærgöngull við ærnar að höggva augun úr lömbunum, á meðan þau voru í burðarliðnum eða ekki komin á fót eða á spenann.
9. Þegar kom fram yfir fardagana, var farið að stía. Til þess var byggður stekkur einhvers staðar úti í haganum, einskonar rétt, hæfilega stór fyrir ærnar á heimilinu. Innst í rétt þesari var hlaðinn af dálítill hluti með dyrum inní. Þessi afkimi hét lambakró.
10. Stekjartíminn var einhver skemmtilegasti tími vorsins og jafnvel alls ársins, þegar vel voraði og ærnar voru í góðu lagi.
11. Eftir Jónsmessuna komu svo fráfærurnar, þá var það einn góðan veðurdag, að ærnar voru reknar heim af stekknum og ekki hleypt til lambanna framar, heldur voru þær mjólkaðar fyrst í kvíunum og reknar síðan í haga og setið yfir þeim. Lömbunum var svo hleypt út úr krónni með morgninum, eins og vant var, og gripu þau þá heldur en ekki í tómt. Hófst þá jarmur mikill og raunalegur, og hefir síðan verið haft að orðtaki, að hvíldarlaus suða og hávaði væri eins og jarmur við stekki.
12. Algeng venja var fyrrum, þar sem fé var fátt, að kefla lömbin og láta þau svo fylgja mæðrunum við kvíarnar yfir sumarið.
13. Ærnar voru mjaltaðar í kvíum, mjóum og löngum réttum, kvölds og morgna. Sumir höfðu og færikvíar. Smalinn sá um að skila ánum í kvíar.
14. Geitfé hefur lítið verð haft á síðari öldum.
15. Hundar voru nauðsynlegir smalanum. Tóku þeir allt það erfiðasta af smalanum. Hundar voru skyggnir og sjá fylgjur manna og aðrar vofur. Hundskinn er til margra hluta nytsamlegt, t.d. eru vettlingar úr hundskinni óvenju hlýir.
16. Kettir hafa flust út hingað til lands þegar á landnámsöld, enda munu þeir þá þegar hafa verið hafðir til músveiða, auk annars. Til forna virðist jafnvel, að kettir hafi verið aldir skinnsins vegna, því kattbelgir eru verslunarvara og hátt metnir.
17. Hæns hafa verið fá til sveita á síðari öldum, þangað til hún hefir mjög aukist á síðustu áratugum. Til hefir hún verið til forna, svo sem sjá má á Hænsa-Þóris sögu.
18. Skoffínið er sagt, að komi úr hanaeggi, og er þá í fuglsmynd.
19. Aðrir alifuglar hafa ekki verið hér á landi á síðari öldum.
20. Önnur dýr voru villidyr, s.s. mýs, rottur og tóa.
21. Tóugildur voru að hverfa og gleymast að fullu um miðja 18. öld og voru þær aldrei teknar upp aftur, en þeim er lýst á þessa leið: Gildran var hlaðin úr hellum og agnbiti festur innst í henni. En hann var fastur í þræði, er gekk að hellublaði, sem var yfir dyrunum og hélt því uppi. Þegar tóa kippti í bitann, losaðist um hellublaðið, líkt og um fjöl á fjalaketti, og hljóp hún þá niður fyrir dyrnar.
22. Refar eiga mörg nöfn á íslensku; almennt nafn er melrakki, dýr, tóa, tæfa; þula er og til með 10 nöfnum hennar.
23. Fálkinn er í raun bróðir rjúpunnar, en ásækir hana þó og drepur til matar sér, en þegar hann kemur inn að hjartanu, þekkir hann hana og vælir þá raunalega.
24. Valurinn, sem flestir eru farnir að kalla fálka nú á dögum, var veiddur hér allmikið á fyrri öldum, einkum á 16.-18. öld, til að senda út.
25. Lóan er spáfugl meðal Íslendinga, því bæði eru öll vorharðindi búin, þegar hann fer að hneggja á vorin, þó að það bregðist nú stundum.
26. Máriatlan er spáfugl að því leyti, að þegar hún er komin, eru einhvers staðar skip komin að landi, því hún er þeim alltaf samferða.
27. Álftir eru merkisfuglar og hafa lengi verið í miklum metum.
28. Þá hefir bjargfuglinn ekki verið Íselndingum ónýtur, þar sem fuglabjörgin eru á landi hér; hafa oft heilar sveitir lifað á því, sem þar hefir veiðst á vorin, bæði fugl og egg.
29. Lundinn hefur verið veiddur með stöngum um langa tíð.
30. Æðarfuglinn hefur nýst bæði vegna eggja og dúns.
31. Þegar súlan kemur að landi, telja Sunnlendingar það góðan vorboða um afla, einkum síldarafla.
32. Um geirfuglinn höfðu menn þá trúa, aðhann væri blindur, þegar hann væri á landi. Hann gat ekki flogið og gengu menn því að honum á skerjum og á landi og tóku hann með höndum eða rotuðu. Síðasti geirfuglinn var drepinn við Eldey 1844.
33. Um lúsina var sagt ef hún yfirgæfi manninn væri hann feigur.
Hátíðir og merkisdagar
1. Það var almemm tíska víða hér um land að halda eitthvað upp á jólaföstuinnganginn, og var þá brugið út af mat.
2. Gömul venja var að slátra kind rétt fyrir jólin, til að hafa nýtt ket á hátíðinni; kind þessi var kölluð jólaærin.
3. Jólin hafa verið og eru enn einhver dýrlegasta hátíðin á árinu. Einna merkilegastir eru jólasveinarnir. Fram að 1770 var þríheilagt á öllum stórhátíðum, en þá var það numið úr lögum. Þegar fjórheilagt varð, ef aðfangadaginn eða fjórða bar upp á sunnudag, hétu það brandajól. Síðan heita brandajól, ef þríheilagt verður, en brandajól hin stóru nefndu menn þá hina fornu fjórhelgi, og eins jafnvel ef Þorláksmessuna bar upp á sunnudag.
4. Fram að 1744 var messaðá jólanóttina. var þá ein manneskja heima því huldufólkið sótti í það, að koma heim á bæina og halda þar dansa sína og veislur, og stundum komu líka tröllin til þess að ná í þann, sem heima var.
5. Nýársnóttin og nýárið var ekki síður merkilegur tími.
6. Sólarkaffi var sums staðargefið er fyrst sér í sól eftir skammdegið.
7. Föstudagurinn fyrsti í þorra, miðsvetrardagurinn, var talsverður uppáhalds- og tyllidagur víða um land – stundum nefndur bóndadagur.
8. Á skírdag var vant að skammta rauðseyddan, hnausþykkan, mjólkugraut að morgninum.
9. Á föstudaginn langa var sumsstaðar siður að borða ekkert fyrr en eftir miðaftan.
10. Á páskadagsmorguninn var etinn páskagrautur.
Skemmtanir
1. Til skemmtana eru taldar gestakomur og ferðalög, sem og aðrar samkomur.
2. Hjúadagurinn eða krossmessan var haldinn hér á landi 3. maí eftir fornri venju til 1900, en úr því breyttist það við tímatalsbreytinguna víðast um land og færðist niður til 14. maí.
3. Fardagar heita 4 dagar og hefjast, þegar 6 vikur eru af sumri.
4. Jónsmessa (24. júní) var lengi mikill merkisdagur á landi hér og haldin heilög, þangað til hún var numin úr helgidagatölu, með konungsbréfi 26. okt. 1770.
5. Þorláksmessa á sumar (20. júlí) í minningu þess, að heilagur dómur Þorláks biskups var tekinn úr jörðu árið 1198.
6. Ungir menn áttu að heilsa einmánuði, en stúlkur hörpu.
7. Sumardagurinn fyrsti var lengi mesta hátíð á lendi hér, næst jólunum.
8. Almennustu útreiðarnar voru kirkjuferðir á helgum.
9. Þjóðlegar skemmtanir í stórum stíl eða almennar samkomur voru fátíðar hér á landi. Samkomur þær, sem tíðkuðust í fornöld, knattleikar og hestavíg, hurfu alveg úr sögunni með tímanum, enda þótt hestavígin virðist hafa haldist við nokkuð lengi fram eftir, eða að minnsta kosti nokkuð lengur en knattleikirnir, því að algeng voru þau fram um miðja 13. öld.
10. Aðalskemmtunun var fólgin í alls konar margbreytilegum leikjum, sem dans og söngur var samfara.
11. Mest munu vikivakar hafa tíðkast um jólaleytið og nýársleytið og um föstuinnganginn. Vikivakarnir lifðu í fullu fjöri fram á 18. öld, en þá fór að dofna yfir þeim.
12. Jólaveislur voru víða að fornu, eins og sjá má af sögunum, en svo munu þær hafa horfið með öllu úr sögunni eftir Sturlungatíð.
13. Glímufundir og glímusamkomur voru og afar fátíðar, og tíðkuðust glímur helst í landlegum við sjóinn í verinu.
14. Skemmtanir voru og viðhafðar í brúðkaupsveislum.
15. Erfidrykkur voru ekki samkomur í eiginlegum skilningi, en það voru afmæli hins vegar.
16. Lítið var um skemmtanir á daginn; þá voru karlmenn við útiverk og gegningar, konur við frammiverk og vinnukonur sátu við tóvinnu sína. Aðalskemmtunin var sú að spjalla saman, segja sögur í rökkrinu, kveða vísur og rímur og skanderast.
17. Þegar búið var að kveikja og fólkið var sest við vinnu sína, var algengt að lesa sögur eða kveða rímur á kvöldin, að minsta kosti á fleiri bæjum. Eftir 1880 var mjög farið að dofna yfir sögulestrinum, og er hann núú víðast að hverfa. Rímnakveðskapurinn hvarf enn fyrri, og á Jónas Hallgrímsson sinn þátt í því, þó að talsvert væri orð af rímum eftir hans dag.
18. Einkennilegar voru svonefndar orlofsferðir. Þær áttu að vea nokkurs konar kynnisferðir og voru það stundum að vísu, en oft voru þær ekkert annað en bláberar sníkjuferðir.
19. Förumennska og flækingur hefir lengi legið hér í landi, ogmá þegar sjá þess full dæmi í Njálu og fleiri fornsögum vorum, að nóg var til af þeim lýð, og kom sjaldan fram til góðs. Fyrst er að telja förumenn, svo alþýðuvísindamenn og sum af skáldum, vanmetagripir og bláberir beiningamenn. Allra verstir var fólk, sem ekki nennti að vinna, en hafði heilsu til, og gerði sér það að atvinnu og gróðafyritæki að sníkja og fara um héruð.
Lífsatriðin
1. Mannsævin er ekki löng, segir gamall málsháttur, en samt nógu löng til þess, ef allt skeikar að sköpuðu, að margt kann á dagana að drífa, eitt fyrir sumum og annað fyrir hinum.
2. Fæðingin er venjulegast talið gleðiefni. Barnsfylgjuna átti að brenna, enda var það alsiða. Sú trú var fyrrum, að fylgjan væri heilög og henni fylgdi hluti af sálu barnsins, sem ekki fæddist fyrr en með henni. Móðurinni var fært á sæng, sem kallað er, þ.e. henni var fært ket, brauð, smér, magáll, sperðill og allskonar handhægur matur, sem nöfnum tjáir að nefna, allt soðið og tilbúið.
3. Skírnin fór löngum fram í kirkju. Þegar börnin voru skírð, oftast á fyrsta sólarhringnum, voru þau ætíð skírð við rúmstokk móðurinnar. Stundum vitjaði hennar, eða annarra, nafns. Verst þótti huldufólkið. Það var endalaust um það, að ná í börn mennskra manna og láta örvasa karla og kerlingar aftur í þeirra stað.
4. Uppfræðingin var mikilvæg því Íslendingar hafa haft orð á sér fyrir það um langan aldur að vera gefnir fyrir nám og fróðleik. Og því til sönnunar þarf ekki annað að leita en allra þeirra bókmenntaleifa, sem finnast eftir þá frá 12., 13. og 14. öld. Undir eins og börnin voru nokkun veginn talandi, var farið að kenna þeim signinguna, faðirvor og blessunarorð, og svo vers og bænir. Skilningurinn kom með aldrinum. Menntun miðaðist við fermingarundirbúninginn. Um aðra uppfræðingu barna var lítið.
5. Giftingum fylgu ýmsir siðir og venjur, og þar á meðal veisluhöld. Í brúðkaupsveilsum var oftast borðaður hrísgrjónagrautur (eða bankabyggsgrautur) og síðan steik á eftir og síðast lummur. Ef mjög miklir fátæklingar áttu í hlut, var matnum sleppt.
6. Dauðinn liggur fyrir öllum. Ýmislegt mætti finna af feigðarboðum. T.d. var feiðgaboði ef menn sáu ljós í kirkju eða heyrðu raddir eða sjá svip í kirkju. Þá á kirkjugarður að rísa, helst á nýársnótt, og vofurnar að ganga í kirkju, og eru þá í för með þeim svipir þeirra, sem eiga að deyja næsta ár í sókninni. Hver sem deyr, tekur 3 andköf eða andvörp í andlátinu;þegar hann hefir tekið þriðja andvarpið, er hann áreiðanlega látinn, en enginn skyldi trúa þeim, sem ekki sést taka fleiri en tvö.
7. Útförin var síðust hjá hverjum manni, þegar hann var farinn út úr lífinu – það að koma honum í jörðina. Til þess þurfti bæði kistu og líkklæði, ef gera átti með sóma. Oft voru lík fátæklinga og sveitameðlima jörðuð kistulaus, jafnvel fram á 19. öld. Voru þá aðeins saumaðir utan um þá einhverjar durgur eða látnir duga ræflarnir, sem þeir voru í. Sjaldnast voru líkræður haldnar við jarðarfarir, nema yfir heldri mönnum og ríkisbændum. Erfisdrykjur voru leifar frá fornaldarsiðum vorum og þóttu sjálfsagaðar.
Heilsufar og lækningar
1. Það ræður að líkindum, þegar gætt er að aðbúð þeirri, sem Íslendingar höfðu á fyrri öldum, bæði húsakosti, mataræði og fatnaði, að heilsufar landsmanna hefir ekki verið sem best.
2. Engir læknar voru hér settir fyrr en eftir 1760. Þá var landlæknir skipaður og síðan fjórðungslæknar.
3. Ef einhver veiktist snögglega, var ekki annað hendi nær en annað af tvennu; taka sjúklingi blóð eða láta hann svitna duglega. Blóðhorn voru almennt notuð, bæði við gigtarverkjum, takstingjum og fleiri kvillum. Það var almennt álit manna, eð ef hægt væri að fá sjúklinginn til að svitna duglega, þá væri allt búið og sigurinn unninn á veikinni. Meðal lyfja þeirra, er notuð voru til lækninga, voru einiberjaolía, terpentínuolía, hoffmannsdropar, laxerolía o.fl.
4. Augnveki var afar algeng með almenningi, og var eitt aðalmeðalið við henni að baða augun með seyði af augnfrjó. Almennt var að baða þau upp úr skírarvatni
5. Eyrna- eða hlustarverkur virðist hafa verið algengur kvilli fyrrum – svo eru mörg ráðin við honum. Hann batnar við að lata seyði af súru eða hvönn í eyrað.
6. Höfuðverkur er algengur kvilli, og var höfuðráð við honum að væta dúk í ediki og binda um höfuðið, eða taka njólarót, kljúfa hana og leggja sinn klofninginn hvoru megin á höfuðið og snúa sárinu að.
7. Við gigtinni var katta- og hundafeiti ágætur áburður.
8. Bakverkur var ærið tíður. Volg kúamykja var góð, ef hún var lögð við, sömuleiðis geitartað.
9. Bólgur allskonar voru læknarar með bakstri úr hvannarót.
10. Hálsbólga var læknuð með ljónslappa, enda heitir hann kverkagras.
11. Kvef, brjóstþyngsli og brjóstveiki var læknað með því að drekka blóðbergste eða te af blóðbergi og rjúpnalaufi saman.
12. Við kláða er ágætur áburður að hnoða saan sméri og brennisteini.
13. Krabbamein kom af því, að lifandi krabbi er gróinn fastur í holdinu. Gott ráð við því er að eta mannasaursösku og pipar drepur krabba.
14. Gula var læknuð með því að eta marflær.
15. Sár voru grædd með vallhumall og græðisúru.
16. Tannpína var löguð með því við að leggja saur við tönnina.
Hugsunar og trúarlífið
1. Þegar rita skal um andlegt líf þjóðarinnar á fyrri öldum, verður vandinn meiri en um margt annað.
2. Sparsemi þjóðarinnar hefir meira, að ég hygg, stafað af baslinu og skortinum, en því að það liggi í þjóðareðlinu. Peningar voru fátíðir,
3. Kirkju- og trúarlíf Íslendingar hefir verið mjög svo lifandi og fagurt á 17. og 18. öld og fyrra hluta hinnar 19., en hafi svo hnignað stórum á síðustu tímum.
4. Trúartilfinningin var víða mjög lifandi með fólki, þar sem greind og kristileg þekking svo fyrir hendi, að það gat notið sín að nokkru. Kirkjurækni var almennt mikil, og messur hjá prestum féllu ekki niður, þó að eitthvað meira en lítið væri að veðri. Það mátti telja til afbrigða, ef ekki varð messað, og meira að segja ef ekki var nokkurn veginn full kirkja, þó að hríð og ófærð væri úti.
5. Fyrst þegar fólk ætlaði til kirkju, var það flestra siður að koma einhverju nafni á það að þvo sér, klæðast síðan sparifötum sínum, sækja hesta og leggja á þá, Síðan voru allir, sem heima voru, kvaddir með kossi, farið á bak og riðið af stað.
6. Prestar höfðu oft ærið langort og vildu menn þá sofna undir ræðum þeirra.
7. Húselstrar voru lesnir þegar fólk gat ekki farið til kirkju. Víða var fólk í herkjum með að koma húslestrinum á, af því að fátt var um læst fólk á sumum bæjum. Það lagaðist er kom fram á 18. öldina.
8. Biblíuþekking manna var sáralítil.
9. Lengi var losalegt nokkuð siðferði karla og kvenna hér á landi. Það var þegar á 12. og 13. öld og fór ekki batnandi, enda gengu biskupar og aðrir höfðingjar á undan með það athæfi, og það svo, að þeir heimtuðu jafnvel konur í sæng hjá sér, er þeir ferðuðust hér um land, eins og víkingar í heiðni. Þegar á leið lagaðist þetta, enda var voru þá hert lögin og Kristján fjórði tók þétt í taumana.
10. Jafnan var fátækt mikil meðal landsmanna, og bar margt til þess, harðindi, vankunnátta með fjárhirðingu og gamall ávani með hana, úrræðaleysi með að bjarga sér og hrikaleg verslun og stjórn.
11. Flestum kemur saman um það, að hvinnska og þjófnaður hafi verið tiltölulega fátíðir, enda virðist svo, sem fremur hafi ásælni manna á eignir náungans komið í yfirgangi en launungarþjófnaði.
12. Það hefir lengi verið sagt, að Íslendingar væru ólöghlýðnir, og má það gjarnan vera, að svo sé. En þess bera að geta, að þeir áttu bæði við þau lög að búa á einokunartímanum, að full von var á, að þeir reyndu að komast utan hjá þeim.
13. Heiðnar menjar má telja hjátrú þjóðarinnar og venjum þeim, sem standa í sambandi við hana. Það hefir stundum verið talið, að hugmyndalíf þjóðarinnar og ímyndunarafl hér á landi hafi meira fengist við skuggalegar og enda ljótar hliðar á hjátrúnni, en látið hið fegurri og glæsilegri hjá sér líða. Þetta má vel vera; það er líka arfur frá heiðinni fornöld. Hjátrúin okkar er víða æði forn, of sennilega fær engin rakið upptök slíkra sagna, sem af þeim rökum eru runnar. Eins og við má búast, var hjátrúin margvísleg, þar sem hliðar lífsins erusvo margar. Eitt af hinu forna, sem gamla fólkið trúði mikið á, voru ákveðnir dagar. Þá eru til margir láns- og ólánsvegir. Forlagatrúin er forn og frá heiðni sprottin, og má telja, að hún sé samrunnin blóði þjóðarinnar; mun hún því enn um langan aldur lifa innra með fólkinu, einkum meðan hið eldra snið hugsunar og uppeldis ræður mestu í afskekktari héruðum.
14. Náskyld þessu er trúin á álög, þar sem eitthvað er lagt menn og hluti. Fjölkyngi og galdrar voru ríkir með þjóðinni. Hin fyrsta tegund galdurs er tiltölulega meinlaus, enda var sú trú manna, að menn gætu orðið sáluhólpnir, þó að menn fengist við hana. Þar var sjaldan neitt verulega djöfullegt athæfi galdrinum samfara, heldur aðeins notaðir einhverjir kraftar, sem hjátrúin eignaði ýmsum hlutum í náttúrunni, án þess að neinir formálar eða særingar væru þar við hafðir, nema þá einhver meinslaus orðskrípi. Næstur er stafagaldur; að upphafi á hann ætt sína að rekja til rúnanna, og má finna þess mörg dæmi lengst frammi í heiðni, að rúnir og ristingar voru máttugar til forneskjubragða. Þá er hin þriðja tengund galdra og forneskju, það er hinn svarti galdur og særingarinnar. Það er alltaf eða oftast eitthvað djöfullegt eða að minnsta kosti vanheilagt við allt slíkt. Síðan má nefna hinar römmu, djöfullegu særingar, sem hafðar voru til að vekja upp drauga, stefna að sér álfum og andlegum vættum og kalla fram kölska sjálfan.
15. Trúin á fjölkyngi lifði langt fram á 19. öld, þó að þá hafi hún verið orðin dauf og gisin. Ráð til þess að venja menn af því að fást við galdra og gera kukl þeirra ónýtt, er að hýða þá rækilega með brenninetlu, en óbrigðult ráð til þess, að galdrar eða fjölkyngi vinni ekki á manni, er það að gefa galdramanninum svo duglega á hann, að blóð sökkvi af nösum hans, þurka blóðinu í klút af honum sjálfum og taka með sér.
16. Þá var almennt mjög trúað á huldufólk og álfa, og er sú trú lengst framan úr heiðni komin, eins og kunnugt er úr Eddunum og fornsögunum.
17. Tröllatrú var mögnuð í heiðni, og hafa sagnir um hana loðað við langt fram á 18. öld, en eftir það hefir hún dáið út að mestu.
18. Útilegumannatrúin var ætíð rík allt fram á 19. öld og sagnir um það, að menn hafi orðið þeirrar varir. Oftast eru útilegumenn þjóðtrúarinnar mennskir menn að fullu, en jafnan eru þeir þá sterkir og meiri fyrir sér en byggðamenn, bæði líkamlega og andlega.
19. Margr annað má að vísu telja til heiðinna menja, svo sem náttúrtrúna, draumatrúna og draugatrúna.
20. Náttúrutrúin lýsir trú á ýmsum grösum og steinum. Þannig er lággrasið eða fjögurralaufasmárinn þannig vaxið að, ef maður nær í hann, getur maður opnað með honum hverja læsingu. Trú á steina virðist hafa verið meir en á plöntrunar, voru þeir nefndir náttúrusteinar og fylgdi þeim kyngikraftur.
21. Dulargáfur mann valda því að þeir vita og skynja meira en aðrir menn. Trú þessi er afarforn og kemur mikið fram í fornsögum vorum og hefir haldist viðallt til þessa dags. Forspáir voru fornmenn sumir, svo sem Njáll. Margir þykjast hafa heyrt undalega hluti, en meira hefur borið á skyggni í trú manna eða þeirri gáfu, sem einstakir menn eru gæddir, að sjá hulda hluti, sem öðrum er fyrirmunað að sjá, t.d. huldufólk, svipi dauðra manna, drauga eða aðrar vættir. Þá er draumatrúin ekki hvað síst merkileg, enda er hún til hjá öllum þjóðum og hefir verið frá alda öðli.
22. Hugmyndir manna um annað líf eru þær að engum manni væri ætlað að ganga aftur. En það er það nú samt, að það hefir margan manninn hent allt fram undir þetta eftir þjóðtrúnni að dæma. Ýmis trú er tengd dauðum. T.d. getur það verið hættulegt fyrir lifandi menn að ögra dauðum mönnum; þeir eru þá vísir til að ganga aftur og hefna sín geysilega. Ekki ber mönnum saman um drauga.
23. Þannig hafa lifað og lifa enn í dag í meðvitund þjóðarinnar margvíslegar menjar framan úr heiðni, smar nærfellt óbreyytar, en aðrar í gerbreyttri mynd.
24. Hjátrú, eins og hún er stundum nefnd, hefir um langan aldur átt heima hjá fólkinu, og er hún tæplega útdauð enn í dag. Lofteldar eða eldglampar í lofti boðuðu eldgos.
25. Meðan hjátrúin var mögnuðust á 17. öld, fengu menn margar draumvitranir, er áttu að boða stórtíðindi. Þá trúðu menn því lengi, að sumsstaðar héldu til ýmsar forynjur og óvættir, og gengu margar og miklar sögur af þeim. Þá hefir lengi verið mikil trú á vatnaskrímslum í hinum og öðrum ám og vörnum hér á landi.
Húsaskipan og byggingar (greinilega innskotskafli frá öðrum, sjá Daniel Bruun)
1. Allir veggir voru gerðir úr torfi eða torfi og grjóti.
2. Timbur til húsagerðar var dýrt og var því sparað sem mest.
3. Bæir skiptust í göng, búr, baðstofu og eldhús.
4. Hvenær sem kýr var, var öll aðgætni höfð a hildunum og þær hirtar vandlega. Ytri hildahimnan var þvegin upp, þanin út og þurrkuð, en innsta lagið, vatnsbelgurinn, blásið upp og þurrkað í úthýsi, Svo var þetta hvorutveggja vafið saman og geymt vandlega, og hét það líknarbelgur. Þá var og hirt lífhimna úr nautgripum, flegin innan af magálunum, þanin og þurrkuð; sú homna var kölluð skæni.
5. Gluggar voru tvenns konar; gler og líknabelgir. Gler var fátítt og nær einungis í kirkjum.
-Íslenskir þjóðhættir – 1961 – Jónas Jónasson frá Hrafnagili.