Járngerðarstaðahverfi – bæir og nokkrar merkar minjar
Árið 2001 var gerð fornleifaskráning um, „Járngerðarstaði og hjáleigur“. Hér er getið um sumt það, sem fram kemur í skýrslunni um gömlu bæina og merkar minjar.
Járngerðarstaðir
Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir: Molda-Gnúpur Hrólfsson, er nam Grindavík, og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson, er nam Selvog og Krýsuvík. Gnúpur þessi fór til Íslands fyrir víga sakir og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár og allt Álftaver. Þar bjó hann, uns byggðin spilltist af hraunstraumi. Eftir vetursetu á Höfðabrekku fór hann um vorið ásamt sonum
sínum vestur til Grindavíkur, og tóku þeir sér þar bólfestu. „Vitneskja okkar um upphaf byggðar í Grindavík takmarkast við frásögn Landnámu af Molda-Gnúpi og sonum hans, og ekkert er vitað með neinni vissu um byggðina og sögu hennar næstu þrjár aldirnar.“
Heimildir um sögu jarðarinnar og ábúendur þar fyrir 1700 eru mjög af skornum skammti. Í fornbréfum er jarðarinnar sjaldan getið nema helst í sambandi við fjöruréttindi. Er þó sýnt að hún hefur komist í eigu Skálholtsstaðar ekki síðar en um miðbik 15. aldar. Er Wilkinsmáldagi var settur, árið 1397, hafði Staðarkirkja í Grindavík eignast hálfa heimajörðina á Stað og að auki ítök í Húsatóttum, Járngerðarstöðum og Hrauni.
Áttatíu árum síðar, 1477, setti Magnús biskup Eyjólfsson kirkjunni nýjan máldaga og átti hún þá allt heimaland á Stað. Í þeim máldaga kom ekkert fram um eignarhald á öðrum jörðum í víkinni, en líklegt er að þær hafi þá allar verið komnar í kirkjueign.
Í manntali 1703 voru tíu hjáleigur á Járngerðarstöðum, engin þeirra er þó nefnd með nafni. Þá voru tíu í heimili á höfuðbólinu. Á árunum 1785-1791 voru flestar stólsjarðirnar seldar og hófst sala stólseigna í Grindavík 30. júlí 1785 með sölu jarðanna Hrauns og Ísólfsskála. Um sölu Járngerðarstaða hafa engin skjöl fundist en jörðin mun engu að síður hafa verið seld um þetta leyti Jóni Jónssyni, ættföður Járngerðarstaðaættar.
Í manntali 1801 voru Járngerðarstaðir tvíbýli með 8 hjáleigum.
1816 voru þeir einnig tvíbýli með 9 hjáleigum, þar af einu tvíbýli.
1845 áfram tvíbýli og 9 hjáleigur, þar af eitt tvíbýli. Á túnakorti sem gert var 1918 kemur fram að tún eru slétt og voru þau flestöll sléttuð stuttu áður en kortið var gert.
Járngerðarstaðir voru þingstaður Grindvíkinga.
Náttúrufar og jarðabætur
Landamerki Járngerðarstaða 1889 voru: „Að vestan byrjuð: Frá Markhól við sjóinn beina stefnu á Stapafellsþúfu, þaðan á Arnarstein fyrir ofan Snorrastaða vatnsgjá, úr Arnarsteini í þúfuna á Skógfelli litla, þaðan í þúfuna á Stagafelli, þaðan beint fram í Markalón á Hópsrifi.“ Landamerkjum þessum var mótmælt af eigendum Hóps og Húsatópta.
Í lýsingu Grindavíkursóknar frá 1840-41 eftir sr. Geir Bachmann er svohljóðandi kafli um Járngerðarstaði: „Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sgr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. – Bæði í túninu og utan túns eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka væri og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landskosta fram yfir Stað og Húsatóttir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins og líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita.“
Á bls. 145-6 í sömu lýsingu segir: “ hlunnindi eru hér í sveit engi nema trjáreki, og ef menn kalla svo, allgóð sauðganga í fjörunni þá vel vetrar. …
Alla tíma eru kýr hér inni nema þá 2 mánuði, sem í seli eru. … Engin eru hér beitihús á vetrum, borgir né fjárhús. Sauðfé, sem fátt er, gengur allt úti í fjörunni gjafarlaust og kemur aldrei í hús.
Það liggur undir upphrófluðum skjólgörðum, til hverra það er rekið á hverju kvöldi. … Hver sá maður, er býli hefir hér í sókn, hefir og 1 eða 2 kálgarðsholur, eftir því ræktaðar sem hver er hneigður til atorku og pössunarsemi.“
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina. Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: Vallarhús, Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Gjáhús (Norður- Gjáhús heita nú Vík, en SuðurGjáhús tilheyra Garðhúsum), Krosshús, Garðhús, Völlur (byggður úr Kvíhúsum), Hóll og Langi. Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, Krubba og Litlu-Gjáhús.“ (Örn.,1)
Elsta heimild um húsakost og mannvirki í Vesturbænum á Járngerðarstöðum er úttekt frá 7. júní 1882, þar eru talin upp: baðstofa, göng frá baðstofu að bæjardyrum, bæjardyr, skáli frá bæjardyrum til eldahúss, eldahús og búr í norðurenda baðstofu. (J.Þ.Þ og G.M.H,58).
Völlur (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Völlur (byggður úr Kvíhúsum)…“ (Örn.,1).
Aðrar upplýsingar Skv. Guðjóni Þorlákssyni, sem býr í Vík, fór Völlur í miklu flóði 1924. Tóftin er að mestu horfin, þó sést aðeins móta fyrir henni í túninu ASA við Járngerðarstaði.
Gömlu-Rafnshús (hjáleiga)
„Hrafnshús eru á milli Gjáhúsa og Akurhúsa út við túngarðinn… Hrafnshús, sem áður stóðu milli Ekurhúsa og Kvíhúsa, eru í seinni tíð flutt þangað, hvar þau nú eru.“ (G.B.,137).
„Upp af Fornuvör eru leifar eftir Kvíhús niðri á sjávarbakkanum, og þar eru Gömlu-Rafnshús um 150 m austar.“ (Örn.,3).
Loftskofi (hjáleiga)
Í manntali frá 1816 er Loftskofi hjáleiga frá Járngerðarstöðum með 2 í heimili.
Nýibær (hjáleiga)
Í manntali frá 1816 er Nýibær hjáleiga frá Járngerðarstöðum með 3 í heimili.
Lambhús (hjáleiga)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Hjáleigur eru .. Lambhús, önnur hjáleiga, bygð fyrir innan xx ár“.
Hlaðhús (hjáleiga)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Hlaðhús, níunda hjáleiga, gömul.“
Gullekra (verbúð)
„Sjóbúðir eru nefndar 1703: Gullekra, …“ (Örn.,1)
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: Gullekra, hefur verið tómthús, búðarleiga var xx álnir.“
Krubba (verbúð)
„Sjóbúðir eru nefndar 1703: …, Krubba,…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: … Krubba. Og svo tómt hús, búðarleiga var xx álnir.“
Litlu-Gjáhús (verbúð)
„Sjóbúðir eru nefndar 1703: … Litlu-Gjáhús.“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „Til forna hafa hjer verið þessar búðir: … Litlu-Gjáhús, hafði grasnyt. Landsskyld var l álnir.“
Skjalda (hjáleiga)
Geir Bachmann segir svo í Lýsingu Grindavíkursóknar 1840-41: „Eyðikotið kallast Skjalda og liggur í vestur útnorður út við túngarðinn.“ (G.B., 137)
Járngerðarstaðir (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Þar gánga skip heimabóndans og þau inntökuskip, er þángað til fiskiafla ráðast fyrir undirgift, sem heimabóndi tekur, og lætur þá verbúð og vergögn í tje fyrir skipsöfnina.“
Járngerðarstaðir (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Skip stólsins gánga hjer venjulega iii eður iiii, og hafa þeir verbúðir fyrir sig, sem stóllinn uppbyggir. En soðningu kaupa skipverjar. Hafa þessi skip stólsins verið so um lángar stundir, en alt þar til í tíð Mag.
Brynjólfs var gefin til heimabóndans undirgift undir þau skip, sem fleiri voru en tvö af stólsins hendi.Og hýsti þá heimabóndi þá skipsöfn. En í tíð Mag. Brynjólfs var uppbygð önnur staðarins verbúð, sem síðan hefur viðhaldist, og engin undirgift verið frá stólnum lögð til bóndans.“
Járngerðarstaðir (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Á Járngerðarstöðum eru fáeinna verbúða stæði, nú forfallinna, og hafa þar legið við skipshafnir inntökuskipa, sem undirgift gefið hafa.“
Járngerðarleiði
„Járngerðarleiði hafa menn kallað dálítinn aflangan bala í túninu á Hrafnshúsum á Járngerðarstaðahverfi. Eg lét grafa í þann bala, og reyndist hann gamall öskuhaugur.“ (B.J., 46)
Virki
Í Skarðsárannál, þar sem segir frá árinu 1532, stendur: „Gerði sagður Jóhann Breiði sér þá vígi eður virkisgarð skammt frá búðum á Járngerðarstöðum, sem enn sér merki“
„Þar sem nú er urð og grjót, voru grænir grasbalar fyrir u.þ.b. hálfri öld. Enn má þó greina þarna nokkur ummerki mannvistar, og er t.d. töluvert eftir af hól, þar sem munnmæli herma, að virki Jóhanns Breiða hafi staðið“ (J.Þ.Þ., 240).
Dys
Í Skarðsárannál, þar sem segir frá árinu 1532, stendur: „Tóku sig þá til hinir þýzku menn og Bessastaða fóveti, og komu óvart um nótt upp í Grindavík, komust upp í virki Jóhanns og slógu hann til dauðs og alla hans menn, en tóku skip og góss og allt hvað þeir áttu. Þar sést kuml þeirra eða dysjar hjá virkisgarði.“
Sel
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu hefur jörðin og brúkar enn nú þar sem heita Baðsvellir, og kvarta menn um að þar sjeu hagar oflitlir og þröngvir. Item sje þar stórt mein að vatnsleysi,
þá þerrar eru, og fyrir þessa lesti selstöðunnar segja menn fulla nauðsyn til að kaupa selstöðu annarstaðar.“
Baðsvellir voru skammt frá Járngerðarstöðum, þar sem nú er skógræktarlundur Grindvíkinga, skammt fyrir norðan Selháls. (J.Þ.Þ.,165).
Akurhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir:…Akurhús…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 18, eru Akurhús sögð „fimta hjáleiga bygð um langan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem um hinar.“
„Akurhús sópaðist af grunni í sjávarflóði 1925, en þá urðu nokkrir bæir að hólma.“ (Örn.,3).
„Akurhús, út við garð, rétt í suðurátt.“ (frá Járngerðarstöðum) (G.B.,137).
Tún
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn.,1).
Garðhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Garðhús…“
(Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 19 eru Garðhús sögð gömul og jarðardýrleiki óviss.
„Hjáleigan Garðhús stóð nokkru austan við heimabæinn á Járngerðarstöðum, lítið eitt norðar en stórhýsið, sem Einar G. Einarsson reisti og enn stendur. Síðasti torfbærinn stóð fram á þessa öld, og var hann notaður sem verbúð í nokkur ár, eftir að steinhúsið var byggt. … Býlið var tekið út … 14. júní 1861, en blaðsíðan, sem úttektin er færð á er svo ílla farin, að litla vitneskju er af
henni að hafa um húsakost á hjáleigunni og ástand hennar. Þó má greina, að þetta ár hefur verið í Garðhúsum baðstofa, sem var sex álna löng með inngangi og hálf fimmta alin á breidd.
Hún var öll undir súð, með einu rúmi, og á henni var einn þriggja rúða gluggi. Fimm aðrar byggingar voru taldar í úttektinni …“ (J.Þ.Þ. og G.M.H,62-3).
Gjáhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Gjáhús (Norður-Gjáhús heita nú Vík, en Suður-Gjáhús tilheyra Garðhúsum)…“ (Örn.,1)
Í Jarðabók Árna og Páls, bls. 18 segir: „Gjahus, sjötta hjáleiga bygð um langan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
Í Manntali 1801, bls. 323 eru Gjáhús einbýli, en 1816 eru þau orðin tvíbýli.
Hóll (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Hóll…“ (Örn.,1).
„Á Hóli bjuggu árið 1822 hjónin Sturlaugur Jónsson og Guðrún Jónsdóttir, en er þau fluttust brott, virðist hjáleigan hafa lagst í eyði um hríð. Árið 1840 var Hóll kominn í byggð á ný og hélst svo fram yfir aldamót.“ (J.Þ.Þ. og G.M.H.,71).
Krosshús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Krosshús…“ (Örn.,1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 19 segir: „Krosshús, sjöunda hjáleiga, gömul hjáleiga.
Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
„Krosshús í austur líka, en lengra frá og út við túngarðinn“ (frá Járngerðarstöðum) (G.B.,137)
Elsta heimild um húsakost í Krosshúsum er úttekt frá árinu 1888. „Samkvæmt henni hafa bæjarhúsin verið fjögur: baðstofa, göng, bæjardyr og eldhús. Baðstofan var fimm ára gömul, hálf sjötta alin á lengd og fimm álnir á breidd. Hún var öll undir súð, ,,…sem er að sjá lítt fúin en nokkuð vatnssósa af megnum slaga,“ eins og segir í úttektinni. Baðstofan var þiljuð innan, með ,, fjalargólfi fyrir gangi“, fjögurra rúða glugga og tveim rúmum. Önnur bæjarhús voru minni og sýnilega í lakara ástandi.“ (J.Þ.Þ. og G.M.H.,66).
Kvíhús (hjáleiga)
Kvíhús voru hjáleiga frá bænum Járngerðarstöðum í Grindavík. (Sjá Járngerðarstaði.)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Kvíhús…“ (Örn, 1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 17 segir: „Qví hús, þriðja hjáleiga yfir l ára gömul. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörð.“ (50 ára)
Kvíhús eru ekki nefnd í manntali 1801 né 1816, en 1845 eru þar 6 í heimili.
„Kvíhús í suður frá heimabænum. … Kvíhús standa árlega í miklum voða fyrir sjóaráfalli…“ (G.B.,137).
„Upp af Fornuvör eru leifar eftir Kvíhús niðri á sjávarbakkanum…“ (Örn., 3).
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn., 1).
Langi (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Langi.“ (Örn., 1).
„Austan við Járngerðarstaði var kot, sem hét Langi, eins og áður er getið. Túnið milli Járngerðarstaða og Garðhúsa var Langatún.“ (Örn.,4)
Rafnshús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Rafnshús…“ (Örn., 1).
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem rituð var 1703 bls. 18, voru Hrafnshús innan við 40 ára, þ.e. byggð eftir 1663. Jarðardýrleiki óviss.
„Hrafnshús eru á milli Gjáhúsa og Akurhúsa út við túngarðinn… Hrafnshús, sem áður stóðu milli Ekurhúsa og Kvíhúsa, eru í seinni tíð flutt þangað, hvar þau nú eru.“ (G.B.,137).
„Jörðin nær frá sjó og upp til fjalls eins og önnur býli hér. Stendur bærinn niðri við sjó, og eru þar nokkur önnur býli, sem hafa sameiginlegt land nema túnblettina.“ (Örn., 1).
Vallhús (hjáleiga)
„Býlin hafa verið þessi: Járngerðarstaðir voru höfuðbýlið, en kotabæir þessir: …Vallarhús…“ (Örn, 1).
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703, bls. 17 segir: „Hjáleigur eru Vallarhús. Hefur verið um lángan aldur. Jarðardýrleiki óviss sem á heimajörðu.“
„Vallarhús standa í suðurátt að heiman að sjá innan í öllum kotakransinum.“ (G.B.,137)
Staðhættir í Grindavík
Land Grindavíkur er að mestu þakið hrauni sem runnið hefur eftir lok síðustu ísaldar.
Hraunflákar skipta Byggðinni í þrennt og milli hraunanna eru gróin svæði þar sem byggðin hefur risið. Sjóndeildarhringur Grindvíkinga til norðurs einkennist af frekar lágum en
svipmiklum fjöllum sem flest eru í landi sveitarfélagsins. Til suðurs er ströndin fyrir opnu úthafinu og er víðast hvar lág og lítið vogskorin. Nokkrar litlar víkur ganga inn í hana og eru
Staðarvík, Járngerðarstaðarvík og Hraunsvík þeirra stærstar.
Landnám og byggðaþróun
Í landnámabók er greint frá því að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið land í Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson í Selvogi og Krýsuvík um árið 934. En Grindavíkurhreppur náði yfir tvær kirkjusóknir, Staðarsókn og Krýsuvíkursókn allt til ársins 1946. Synir Moldar-Gnúps settust að á þremur höfuðbólum sem hin 3 hverfi1 Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast. Þessi hverfi eru meðal þess sem einkenndi gerð og þróun byggðar í Grindavík fram á þessa öld. Lítið sem ekkert er vitað um byggð í Grindavík næstu þrjár aldir eftir landnám en gert er ráð fyrir því að hverfin þrjú hafi byrjað að myndast strax á 10. eða 11. öld. Líklegt verður að teljast að staðsetning hverfanna ráðist af samspili graslendis á þessum stöðum og því að aðstaða til sjósóknar hefur verið góð. Hverfin þrjú voru aldrei formlegar einingar heldur aðeins þrír hreppshlutar og á milli þeirra voru engin formleg mörk, heldur réðust þau af landamerkjum jarða. Um það bil þremur öldum eftir landnám (á 13. öld) hófst eldgosahrina sem almennt gengur undir nafninu Reykjaneseldar. Þessi umbrot ollu miklum landspjöllum í Grindavík. Rituð heimild frá því um aldamótin 1700 gefur til kynna að þau hafi jafnvel eytt vestasta hluta byggðarinnar sem þá var. Má reikna með að öskulagið hafi þakið alla sveitina, kæft gróður og valdið bændum miklum búsifjum.
Byggðin í hverfunum í Grindavík virðist hafa verið í svipuðu formi frá 13. öld og allt til upphafs 20. aldar. Byggð í hverfunum virðist hafa svipað mjög hver til annarrar og ekkert hverfi virðist hafa verið á nokkurn hátt fyrir hinum. Þó hefur Staður haft nokkra sérstöðu. Þar var kirkjustaður og grafreitur Grindvíkinga og þar hafði verslun einnig þróast og því munu Grindvíkingar hafa átt tíðari erindi þangað en á aðra bæi í sveitinni.
Eftir Svarta dauða 1402 mun þungamiðja byggðar hafa færst nær sjónum og sjávarútvegur efldist. Grindavíkurhverfin munu þá hafa vaxið og byggðin aukist. Risu þar fjöldi verbúða.
Ekki er ljóst hvenær Grindavík varð verslunarstaður, en heimildir eru um aukna verslun þar á 15. öld og líklegt virðist að Skálholtsstóll hafi átt þar vörugeymslu- eða verslunarhús í lok aldarinnar.
Þegar Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, var tekin saman árið 1703, voru allar jarðir í Grindavík, aðrar en Húsatóftir, í eigu Skálholtsstóls og voru það framundir aldamótin 1800, er biskupsstóll var lagður niður í Skálholti og stólsjarðirnar seldar. Húsatóftir voru konungseign, en höfðu verið eign Viðeyjarklausturs fyrir siðaskipti.
Á 15. öld og fyrri hluta þeirrar 16. stunduðu Englendingar og Hansakaupmenn verslun í Grindavík. Ekki voru samskipti þeirra þó friðsamleg og kom til átaka milli þeirra með mannavígum.
Þegar einokunarverslun Dana var komið á 1602 var Grindavík meðal þeirra 20 hafna sem gert var ráð fyrir að siglt yrði til árlega. Leyfi sem Hansakaupmenn höfðu til verslunar var úr gildi fallið. Íslandsversluninni var skipt milli þriggja borga, Kaupmannahafnar, Málmeyjar og Helsingjaeyrar. Í hlut Kaupmannahafnar komu Grindavík, Keflavík, Hafnarfjörður, Dýrafjörður, Ísafjörður og Hofsós. Þrátt fyrir þetta héldu Þjóðverjar áfram að versla á Íslandi á fyrstu áratugum 17. aldar og oft komu skip þeirra til Grindavíkur á þessu tímabili. Ákvæði um árlega skipakomu á verslunarstaði voru oft hunsuð og einokunarverslunin var stopul framan af.
Á einokunartímanum risu ýmiss konar verslunarhús í Grindavík eins og öðrum verslunarstöðum, bæði úr timbri og torfi. Verslunarfélögin fluttu tilsniðin hús til landsins af nokkrum gerðum. Mörg voru gerð úr láréttum stokkum, önnur voru grindarhús, klædd lóðréttum borðum og um 1765 risu svokölluð bolhús á mörgum verslunarstaðanna. Fáein hús eru enn uppi standandi frá þessum tíma annars staðar á landinu. Flest eru þau í Neðstakaupstað á Ísafirði, en þar getur að líta hús af þeim þremur gerðum sé hér hafa verið nefndar.
miðja 18. öld var Grindavíkurhöfn talin ófær venjulegum hafskipum og beinar siglingar þangað höfðu fallið niður. Vörur sem ætlaðar voru Grindavíkurverslun voru fluttar að Básendum og þaðan voru þær fluttar á hestum og bátum til Grindavíkur. Grindavík varð eins konar úthöfn Básendaverslunar.
Við afnám einokunarverslunarinnar 1786 voru eignir hennar seldar og víðast bárust nokkur tilboð. Enginn sýndi þó verslunareignunum í Grindavík áhuga í fyrstu enda staðurinn ekki árennilegur til verslunarreksturs. Veturinn 1788 – 1789 keypti Árni Jónsson á Eyrarbakka þó verslunina í Grindavík, meðal annars fjögur hús í landi Húsaftófta. Verslunarrekstur hans gekk afar illa og lognaðist út af um 1796. Haustið 1802 var verslunarhúsið rifið og efni þess selt og árið 1806 höfðu öll verslunarhúsin verið seld og rifin. Verslun lá niðri í Grindavík fram undir lok aldarinnar. Um aldamótin 1900 sóttu Grindvíkingar verslun til Lefoliiverslunar á Eyrarbakka og Duusverslunar í Keflavík.
Saga Grindavíkur
Einar G. Einarsson var fyrsti staðbundni kaupmaðurinn en hann hóf verslun í Grindavík árið 1897. Verslun hans dafnaði vel og að sama skapi dró úr umsvifum Eyrarbakka- og Keflavíkurverslana. Árið 1902 var stofnsettur þar löggildur verslunarstaður á ný en í þetta sinn var hann við Járngerðarstaðarvík. Árið 1932 tók til starfa önnur verslun á staðnum undir nafninu Gimli og upp úr 1940 hóf Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis starfsemi í Grindavík en Kaupfélag Suðurnesja tók svo við rekstrinum og varð stærsta verslunarfyrirtækið á staðnum.
Frá fyrstu tíð hefur sjósókn verið stunduð í Grindavík ásamt landbúnaði og héldust þeir búskaparhættir fram á miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar í svokölluðum landbýlahverfum. En þegar sjávarútvegur jókst á 14. öld byggðust svokölluð sæbýlahverfi í námunda við verstöðvar.
Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur. Aðalbýlin voru þessi, talin vestan frá, Staður, Húsatóftir, Járngerðarstaðir, Hóp, Þórkötlustaðir, Hraun og Ísólfsskáli.
Byggð í Staðarhverfi var nokkuð stöðug á árunum 1801 – 1920 en lagðist svo alveg af fljótlega eftir 1920. Byggð í Þórkötlustaðahverfi og Járngerðarstaðahverfi var nokkuð jöfn fram til ársins 1910. Fólksfjöldi var svipaður en á fyrri hluta 20. aldarinnar dró þó nokkuð í sundur með hverfunum. Að lokum var svo komið að Þórkötlustaðahverfi var orðið nokkurs konar úthverfi við hlið meginbyggðarinnar.
Síðari heimsstyrjöld hafði mikil áhrif á byggðaþróun Grindavíkur. Fyrstu áhrif styrjaldarinnar voru að stórir markaðir lokuðust tímabundið árið 1939 en síðla sama árs tóku Bretar við nær allri vöru sem sett var á markað. Vinna tengd hersetuliðinu dró fólk frá fiskvinnslu svo tímabundin fækkun varð í Grindavík.
Fiskveiðar og útgerð
Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa löngum verið aðaluppistaðan í atvinnu og lífsbjörg í Grindavík.
Frá því Grindavík byggðist og fram á miðja 19. öld var ein og sama veiðiaðferð notuð, handfæri. Oftast var stutt róið, öldum saman á sömu miðin, út á víkurnar eða stutt út fyrir þær.
Fyrstu grindvísku bátarnir hafa sjálfsagt verið mjög litlir. Jafnvel aðeins fyrir tvo til fjóra. Skipin hafa verið smátt og smátt að stækka og talið er að um miðbik 14. aldar hafi tólfæringar verið mjög algengir í Grindavík. Strax á 15. öld sóttust erlendir menn mjög eftir fiski í Grindavík og lögðu útvegsmenn mikið kapp á að auka útgerð sína. Bændur í öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína á vertíð í verið á Suður- og Vesturlandi, og hafa þá verið settar upp einhvers konar verbúðir. Um miðja 19. öld var fyrst komið með lóð (línu) til Grindavíkur. Línan var stutt í byrjun og stutt á milli öngla, um 100 önglar á streng og 5-6 strengir með áttæringum, en þær smálengdust, ár frá ári en í upphafi var ávallt beitt á sjó. Þessi aðferð tíðkaðist fram um síðustu aldamót. Þá er byrjað að nota net og um svipað leyti er hætt að beita línur á sjó.
Árið 1924 hófst vélvæðing báta í Grindavík, nokkru seinna en annars staðar á landinu. Ástæða þess er líklega léleg hafnaraðstaða fyrir stærri báta miðað við önnur vogskornari landsvæði.
Árið 1928 voru allir bátar sem gerðir voru út frá Grindavík orðnir vélbátar en þá þurfti enn að setja bátana á land eftir hvern róður, það var ekki fyrr en á 20. öld sem menn byrjuðu að nota spil til þess að draga báta á land. Fyrsta bryggjan í Grindvík var byggð í Járngerðarstaðahverfi, önnur var svo byggð í Þórkötlustaðahverfi árið 1930 og 1933 var bryggja byggð í Staðarhverfi.
Árið 1939 var Ósinn grafinn og er með ólíkindum að það hafi tekist þar sem allt var grafið með handverkfærum. Dýpkun hafnarinnar árið 1949 markaði svo enn á ný tímamót í uppbyggingu staðarins. Í framhaldinu urðu miklar breytingar á atvinnuháttum þegar fyrirtæki um fiskvinnslu og útgerð voru stofnuð og voru hafnarframkvæmdir miklar á næstu árum og áratugum.
Landbúnaður
Eitt einkenni elsta hluta bæjarins er að húsin standa frekar strjált og eru túnskákir víða á milli en þetta helgast af því að svokallaður tómthúsbúskapur, sjósókn ásamt landbúnaði, tíðkaðist í Grindvík fram undir miðja 20. öld. Vægi landbúnaðar var mikið á fyrstu öldum byggðarinnar en hann hefur þó alla tíð verið erfiður í Grindavík, eldsumbrot með hraunrennsli og öskulagi hafa skert gróður og valdið búsifjum. Til að fóðra búpeninginn hafa bændur því þurft að grípa til fleiri ráða en heyskapar, einkum seljabúskapar á sumrin og fjörubeit og söfnun hríss og lyngs til að drýgja hey fyrir kýr. Sel eru þekkt víða í Grindavík og eru sum þeirra ævaforn.
Núlifandi Grindvíkingar (fæddir upp úr 1940) muna enn vel eftir því að á hverju heimili voru hænur og kindur og sums staðar einnig kýr, en þeir sem héldu kýr seldu oft nágrönnum sínum hluta af mjólkinni. Heimilisfeðurnir voru flestir sjómenn. Enn í dag er fjárbúskapur í Grindavík þó það sé í mjög litlu mæli og eingöngu stundaður af tómstundabændum.
Járngerðarstaðahverfi
Járngerðarstaðir voru vettvangur Grindavíkurstríðsins 1532 og Tyrkjaránsins 1627 og vex þar blóðþyrnir er heiðið og kristið blóð blandaðist.
Árið 1703 voru „öngvar engjar“ á Hópi. „Flæðihætt er fyrir sauð, og líka brýtur sjófargángur túnið, og er hætt við enn meira landbroti.“ Bærinn varð snemma eign Skálholtsstaðar, líkt og flestir útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans.
Um Járngerðarstaði 1840 segir í Landnámi Ingólfs III6 „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“
Árið 1847 voru Járngerðarstaðir eign Skálholtsstaðar líkt og flestir betri útvegsbæir á suðurströnd Reykjanesskagans. „Selstöðu hefur jörðin og brúkar þar sem heitir Baðsvellir.
Hjáleigur eru; Vallarhús, Lambús, Kvíhús, Hrafnshús, Akurhús, Gjáhús, Krosshús, Garðhús og Hlaðhús. Búðir til forna voru; Gullekra (tómthús), Krubba (tómthús) og Litlu-Gjáhús, skv. Jarðabók Árna Magnússonar 1703. Þá var „heimræði árið um kring og lending í betra lagi. Engvar öngvar. Jörðin nær frá sjó upp til fjalls eins og önnur býli hér.“
Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.
Þróun byggðarinnar í Járngerðarstaðahverfi hefur einkennst mjög af atvinnuháttum og landfræðilegum aðstæðum. Árið 1925 gerði mikið sjávarfljóð í Grindavík er eyðilagði mörg hús og skemmdi stórkostlega uppsátrið í annarri vörinni og eyðilagði hina að mestu.
Fram til þess tíma bjuggu margir í torfhúsum sem skemmdust í flóðinu. Mikið af húsum í gamla bænum er byggður á næstu árunum eftir flóðin, 1925-1930. Í Landnámi Ingólfs segir um 1840 „á bæ þessum bagar vatnsleysi til neyslu.“ En vatn hefur væntanlega ávallt verið verðmæti í Grindavík enda hraunið gljúpt og regnvatn rennur fljótt niður og saltur sjór gengur undir skagann og brim yfir hann og ofanvatn því oft heldur salt. Enda var í Grindavík lengi steypt vatnsþró við hvert hús þar sem regnvatni var safnað. Eftir að vatnsveita kom í bæinn var þessum þróm iðulega breytt í salernisaðstöðu.
Breyttir atvinnuhættir, eftir 1950 þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki eru stofnuð, hafa haft áhrif á heimilishald í Grindavík en smám saman lagðist búfjárhald af á heimilum og útihús grotnuðu því niður eða voru tekin til annarra nota.
Niðurstaða
Í Landnámu er sagt að Molda-Gnúpur Hrólfsson hafi numið Grindavík ásamt sonum sínum. Elsta ritaða heimild sem minnist á Járngerðarstaði sjálfa er Wilkinsmáldagi frá 1397. Annars eru heimildir um jörðina fyrir 1700 af mjög skornum skammti.
Heimild:
-Fornleifaskráning, Járngerðarstaðir í Grindavík og hjáleigur. Þjóðminjasafn 2001.
-Húsakönnun, Gamli bærinn í Grindavík – janúar 2015.