Járngerðarstaðir – Tyrkjaránið – skilti
Í tilefni að uppsetningu söguskiltis á atburðarsviði „Tyrkjaránsins“ við Járngerðarstaði var efnt til menningar- og sögutengdrar göngu um gamla Járngerðarstaðahverfið (2006). Skiltið, sem staðsett er við horn Verbrautar og Víkurbrautar, á auk þess að minna á sögulegt upprunahlutverk Járngerðarstaða í þróun byggðar í Grindavík. Ætlunin er að setja svipuð skilti upp á fleiri sögustöðum í byggðarlaginu, s.s. Þórkötlustaðahverfi, Hópi, Stórubót og jafnvel Þórkötlustaðanesi og Staðarhverfi. Allt eru þetta staðir, sem telja verður til þeirra markverðari í forsögu bæjarins, auk þess sem vonandi fást sérstök tækifæri síðar til að vekja athygli á hinu merka mannlífi, búskap, útgerð og verslun í Grindavík áður fyrr.
Gangan var í boði Grindavíkurbæjar og Saltfisksetursins. Eftir stutta athöfn þar sem forstöðumaður Saltfisksetursins, Óskar Sævarsson, kynnti tilurð og tilgang skiltisins var tekið til við að lýsa atburðarrás „Tyrkjaránsins“ um Jónsmessubil árið 1627. Rifjaður var upp sá hluti hennar er gerðist þarna á sjónrænu sögusviði. Oft koma upp efasemdaraddir um nákvæma staðsetningu atburðarrásarinnar, einkum vegna þess að staðhættir hafa breyst á þeim nær 380 árum, sem liðnir eru frá atburðinum. Það er þó aðallega þrennt, sem styrkir fólk í þeirri trú að þetta geti verið staðurinn; a) frásögn þátttakenda og heimildamanna við skráningu atburðarrásarinnar, b) lýsing Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi þar sem sagt er frá því að „barist hafi verið í fiskigörðum Járngerðarstaða“ og c) þjóðsagan um Tyrki í þjóðsögusafni Jóns Árnasonar þar sem segir að „þyrnir hafi sprottið upp þar sem blóð heiðinna manna og kristinna blönduðust“ eftir bardagann. Þyrnir þessi, sem reyndar er þystill, vex einmitt við gatnamót Verbrautar og Víkurbrautar.
Í tilefni afhjúpunar upplýsingarskiltisins var talið vel við hæfi að þakka Guðjóni í Vík og Tómasi frá Núpi sérstaklega fyrir þeirra þátt við gerð þess. Báðir sýndu áhuga á verkinu og voru fúsir til að gefa allar þær upplýsingar er dygðu til að ljúka því með sómasamlegum hætti. Fleirri komu að verkinu. Eiga þeir allir verulegar þakkir skyldar.
Á nýja skiltinu eru m.a. eftirfarandi upplýsingar:
Þú ert hér
„Þú stendur á slorþró Hafrenningshússins. Það var einnig nefnt Grindvíkingahúsið um tíma. Aftan við þig eru nokkur gömul hús (byggð um og eftir aldarmótin 1900). Elst er Flaggstangarhúsið (Flagghúsið), byggt 1890. Nokkur hús eru horfin, t.a.m. Einarsbúð.
Framundan eru Járngerðarstaðir og nálægir bæir. Svæðið, sem þú hefur nú yfirsýn yfir, var vettvangur “Tyrkjaránsins” í júnímánuði árið 1627.
Uppdrátturinn byggir á örnefnalýsingu frá árinu 1967, lýsingum Guðjóns Þorlákssonar í Vík, Tómasar Þorvaldssonar o.fl. á staðháttum. Hafa ber m.a. í huga að heiti túnbletta og einstakra húsa hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars.
Járngerðarstaðir
Járngerðarstaðahverfið er einn þriggja byggðakjarna í Grindavík. Austast er Þórkötlustaðarhverfi og vestast er Staðarhverfi.
Talið er að Grindavík hafi byggst mjög snemma. Í landnámsbók er talað um að Molda-(G)Núpur Hrólfsson hafi numið hér land (í kringum 934). Gera má ráð fyrir því að bæjarkjarnar hafi byrjað að myndast á 10. eða 11. öld. Ekki er ólíklegt að staðsetning þeirra hafi ráðist af graslendi, aðgengi að vatni og aðstöðu til sjósóknar á þessum stöðum.
Talið er að þingstaður Grindvíkinga hafi frá upphafi verið á Járngerðarstöðum. Það bendir til þess að búið hafi verið þar allt frá landnámsöld.
Heimildir um um sögu jarðarinar og ábúendur fyrir 1700 eru mjög af skornum skammti. Helst er getið um fjöruréttindi, en þó er sýnt, að jörðin hefur komist í eigu Skálholtsstaðar ekki síðar en um miðbik 15. aldar.
Grindavík var verslunarstaður allt frá miðöldum og fram á 18. öld. Þjóðverjar og Englendingar höfðu aðstöðu við Járngerðarstaði á 15. og 16. öld. Sögulegur atburður gerðist hér aðfaranótt 11. júni 1532 við virki Englendinga ofan við Stóru bót. Þá voru 15 þeirra vegnir vegna ágreinings. Sá atburður breytti verslunarsögu landsins.
Af Jarðabókinni 1703 má sjá að Járngerðarstaðir voru taldir hin mesta kostajörð, en hún var þá enn í eigu Skálholtsdómkirkju.
Strax um aldamótin 1800 var þegar kominn vísir að þéttbýli. Það samanstóð af tveimur býlum, sem þar voru, auk hjáleiganna sem byggðar voru í landi jarðarinnar. Um aldarmótin 1900 bjuggu flestir í Járngerðarstaðarhverfi, 59 manns, en mun færri í hinum hverfunum. Á árunum 1840 og 1841 voru aðeins 7 aðalbýli í sókninni og 13 hjáleigur.
Á 19. öld hélt byggðin áfram að vaxa og Járngerðarstaðahverfi varð miðstöð byggðar í Grindavík. Upphaf kaupstaðarins sem nú stendur má rekja til Einars Einarssonar frá Garðhúsum en hann setti upp verslun í húsi sem hann byggði árið 1897. Einarsbúð var síðan reist hér skammt frá 1917.
Um aldamótin 1900 voru íbúarnir 357 talsins en árið 2006 voru þeir um 2600. Árið 1931 var gerð bryggja hér niður undan gömlu húsunum. Leifar hennar sjást enn. Árið 1939 var grafið skipalægi inn í Hópið þar sem aðalhöfnin er nú. Árið 1974 fékk bærinn kaupstaðarréttindi.
Grindavík er einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum.
“Tyrkjaránið”
Atburðurinn hafði mikil áhrif á alla landsmenn. Í langan tíma á eftir voru Íslendingar mjög á varbergi. Þeir óttuðust endurkomu sjóræningjanna.
Það var um Jónsmessuna 1927 að skip kom að Grindavíkurströndum. Íbúafjöldinn var nálægt 180 manns. Búðir kaupmannsins danska stóðu þá í Járngerðarstaðalandi.
Á Járngerðarstaðavíkinni lá danskt kaupskip. Lauritz Bentson, Grindavíkurkaupmaður, sendi átta Íslendinga að aðkomuskipinu. Þegar þeir komu um borð voru þeir umsvifalaust herteknir. Upplýst varð að fátt væri um varnir í landi. Foringi „Tyrkjanna“, Amorath Reis, fór frá skipi sínu með þrjátíu vopnaða menn. Þeir byrjuðu á því að hertaka danska skipstjórann og tvo menn með honum, rændu kaupmannsbúðina, en kaupmaður flúði og með honum aðrir Danir.
Þá gerðist margt á örfáum klukkustundum. „Tyrkirnir“ snéru sér að Grindvíkingunum. Þeir skunduðu eftir sjávargötunni heim að Járngerðarstöðum. “Tyrkjunum” lá á því þeir gátu alveg eins átt von á að kaupmaðurinn sneri aftur með lið manns. Í bænum gripu þeir Guðrúnu Jónsdóttur, konu Jóns Guðlaugssonar. Hún var borin nauðug frá bænum. Í götunni kom þar að bróðir Guðrúnar, Filippus. Þegar hann reyndi að koma henni til hjálpar var hann barinn og skilinn eftir hálfdauður. Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar, bar þá þar að ríðandi. Tóku „Tyrkir“ hestinn af honum og stungu. Lá Hjálmar óvígur eftir.
„Tyrkir” rændu fé úr bænum á Járngerðarstöðum, tóku Halldór Jónsson, bróður Guðrúnar og tvo sonu hennar, Helga og Héðinn, en bróðir hennar, Jón, hafði verið einn af þeim átta, sem fóru út í skipið í upphafi. Jón Guðlaugsson, bónda á Járngerðarstöðum ráku „Tyrkir“ til strandar með sonum hans og Halldóri, en vegna þess að Jón var þá orðinn aldraður maður og veikur gáfu þeir hann lausan er hann féll við í fjörunni. Stúlku eina, Guðrúnu Rafnsdóttur, tóku þeir með húsfrúnni og færðu til skips.
Þennan örlagaríka morgun var 12 Íslendingum, þarf af helmingur Grindvíkingar, og þremur Dönum, rænt í Grindavík.
Á útleið ginntu „Tyrkir“ hafskip á leið til vesturs til sín með fölsku flaggi. Þeir hertóku það skip.. Áður en „Tyrkir yfirgáfu Grindarvíkursjó gáfu þeir tveimur mönum, sem höfðu verið um borð í skipsbátnum, burtfararleyfi. Þeir náðu bát sínum og réru til lands. Eftir þetta fóru ræningjarnir burt frá Grindavík. Loks héldu þeir til heimahafnar í borginni Salé í Marokkó.
Afdrif Grindvíkinganna, sem rænt var, urðu með ýmsu móti. Þau Guðrún Jónsdóttir og Halldór bróðir hennar voru aðeins skamma hríð í þrældómi í Alsír. Komust þau til Danmerkur 1628 og heim til Íslands með vorskipunum sama ár. Halldór samdi rit um Tyrkjaránið. Um afdrif Guðrúnar Rafnsdóttur er ekki vitað. Árið 1630 skrifuðu þeir bræður Jón og Helgi foreldrum sínum bréf og voru þeir þá þrælar. Helgi varð frjáls eftir fjársöfnun 1636. Komst hann heim setti ásamt eiginkonu sinni saman bú á Járngerðarstöðum.
Jón bróðir hans, Héðinn og Jón Jónsson, móðurbróðir þeirra, hvíla sennilega í afrískri mold. Sama gildir um bátsverjana fimm, sem reru út að ræningjaskipinu þennan morgun 1627.
Þótt sjóræningarnir hafi jafnan verið nefndir “Tyrkir”, sem var þá samheiti yfir alla múslima í grennd við Miðjarðarhafið, hafa þeir að öllum líkindum verið Evrópubúar.
Sagan segir að: “Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan.” Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir auk þess: “En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið.”
Á árinu 2007 eru, sem fyrr segir, liðin 380 ár frá þessum sögulega atburði í Grindavík. Það væri því vel við hæfi að minnast hans sérstaklega, t.d. með því að gera þá staði, sem gætu hafa tengst atburðinum, sýnilega og aðgengilega áhugasömum íbúum og gestum þeirra.
ÓSÁ hannaði útlit upplýsingaspjaldsins, Martak í Grindavík bjó til standinn og Stapaprent annaðist prentun. Skiltagerðin er styrkt af Pokasjóði og Grindavíkurbæ.
Genginn var hringur um hverfið, þangað sem “blóðþyrnirinn” vex og síðan að dys Járngerðar og Járngerðarstaðabæjunum. Gengið var til baka meðfram strandlengjunni, með Járngerðarstaðavíkinni og vörunum að gömlu bryggjunni og ýmislegt skoðað sem fyrir augu bar á leiðinni. Reynt var að gera gönguna bæði skemmtilega og fræðandi fyrir alla fjölskylduna. Uppákomur s.s harðfisks- og hákarlamakk o.fl. var í boði á leiðinni. Gangan endaði síðan við gamla Flaggstangarhúsið (Flagghúsið, sem verið er að endurreisa og var til sýnis í tilefni dagsins. Einn eigandi þess, Erling Einarsson, bauð gesti velkomna, sagði frá forsögu hússins, lýsti tilkomu nafngiftarinnar sem og notkun þess. Fram kom að ætlunin er að hýsa krambúð í húsinu, sem verður að teljast bæði áhugavert, einkum í ljósi þess að Einarsbúð, afurð og afkoma forfeðra hans, var lengi framan af í næsta húsi að vestanverðu, og áskorun, bæði til bæjarstjórnarfólks er þarf nú að taka ákvörðun um markvissa uppbyggingu og nýtingu þessa fyrrum upphafs byggðaþróunar í Grindavík og viðhalds hennar til lengri framtíðar. Ljóst er að allflest húsanna á svæðinu eru í niðurníðslu. En þegar haft er í huga að þarna uxu fáeinir bæir og nokkur ver fyrrum upp í hverfi og síðan heilt samfélag kaupstaðar verður ekki hjá því komist að meta þetta afmarkaða svæði með tilliti til lengri framtíðar. Ekki verður langs að bíða að kaupstaðurinn (unglingurinn) verði borg (fullorðinn). Þá er ekki verra að til verði áþreifanleg merki upprunans – hjartans.
Og þá aftur að göngunni. Eftir að hafa gengið að „blóðþyrninum“
var Verbrautinni fylgt að „Járngerðardys“. Hún mun vera í vestanverðri (túnmegin) beygjunni á milli Hliðs og Víkur. Tómas Þorvaldsson, 85 ára, tók á sínum tíma á móti FERLIR í Grindavík. Þegar staðsetja átti dys Járngerðar, sbr. söguna, gekk hann hikalust að framangreindum stað. Gatan liggur til suðurs frá Garðhúsum, sem Einar kaupmaður byggði 1918.
Brynjúlfur Jónsson lýsir dysinni í frásögn sinni (1903). Segir hann að gamla sjávargatan hafi fyrrum legið til suðurs frá Járngerðarstöðum, en það var samheitið á torfunni, og yfir þar sem nú er Helgavöllur. Vergatan er yfir gömlu götunni. Þar sem gatan beygir á móts við Garð, á milli Víkur og Hliðs, var Járngerður dysjuð. Í þjóðsögunni segir að dysin hafi verið einn faðmur á breidd og þrír á lengd. Hafi dysin hækkað til austurs. Framhjá henni hafi vermenn gengið til skips. Vergatan hefur verið lögð yfir dysina, sem fyrr segir, en ef grannt er skoðað má sjá í suðvesturhorn dysjarinnar, sjávarmegin, undan veginum.
Brynjúlfur segir frá því að hann hafi grafið í dysina en þá hafi þar visrt vera gamall öskuhaugur. Hafa ber í huga að Rafnshús voru þarna skammt suðaustar, Syðri Gjáhús skamt norðar og Gjákot fast við. Gamli Víkurbærinn var svo örskammt norðar. Þarna gæti því verið um að ræða öskuhól frá hverjum þessara bæja, hvort sem hóll (dys) hafi verið þar fyrir eður ei.
Þjóðsagan segir að „Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.“
Vestan við Garðhús eru Járngerðarstaðir. Næsta hús að vestan er Valdabær, síðan Járngerðarstaðir og loks Vesturbær.
Gamla kirkjan var reist árið 1909 (-1982), að mestu leyti úr efni kirkjunnar að Stað (1858). Hún var afhelguð 1982 og nýtt sem barnaheimili eftir 1988. Nálægt henni er Krosshús, þar sem Halldór Laxnes skrifaði Sölku Völku, læknisbústaður Sigvalda Kaldalóns og Garðhús Einars G. Einarssonar, fyrsta kaupmanns Grindavíkur.
Árið 1803 var Nyrðra-Garðshorn orðin hjáleiga frá Járngerðarstöðum. Í Landnámi Ingólfs III, segir m.a. að 1840 er „eigi fagurt á Járngerðarstöðum, því þó þar ei sé ýkja illa húsað, þá stendur bærinn og allt hverfi þetta nema Krosshús niður í dæld eða dalverpi, og er þaðan hvergi víðsýnt. Þýfð hafa tún verið á Járngerðarstöðum, en eru mikið sléttuð í seinni tíð af bóndanum Þórði sál. Einarssyni og þar núverandi bónda sr. Einari Jónssyni. Hafa og nokkrir hjáleigubændurnir í seinni tíð þessa jarðarbót eftir þeim upp tekið. Bæði í túninu og utanhúss eru djúpar vatnsgjár, í hverjar sjór fellur að í og út; í sumum þeirra er oft veiddur áll, og mætti þó mikið meira veiða, ef atorka og rækt við höfð. Það hafa Járngerðarstaðir til landkosta fram yfir Stað og Húsatóptir og meiri en nokkurt annað býli í þessari sókn, að fyrst er þar nóg vatn í gjám þessum handa fénaðinum, og svo í öðrum smá stöðutjörnum, eins líka þar er grasgefnast utantúns, þó eigi megi hagar heita. Mætti þó halda þar fáum skepnum heima á sumardag, hvað ekki má heita mögulegt á Stað og Húsatóptum.“
Árið 1847 voru hjáleigurnar; Kvíhús, Rafnshús, Akurhús, Krosshús, Hóll, Lángi, Gjáhús, Garðhús og Vallhús. Stundum er þá talað um Járngerðarstaðahverfi.
Árið 1840 var skv. sóknarlýsingu tvíbýli á heimajörðinni og fylgdu hverjum parti 5 hjáleigur. Elsta úttekt bæjarins er af Vesturbænum frá 1882. Þar voru þá baðstofa, göng, bæjardyr, skáli, eldahús, búr í norðurenda baðstofu, fjós með 3 básum, hesthús fyrir 3 hesta, heyhús, smiðja, sjómannabúð, fiskhjallur, húsagarður með bæjarrönd, túngarður 160 fðm, traðargarður 85 fðm og kálgarður. Fyrir sumu þessu mótar fyrir enn í dag.
Íbúðarhúsið, sem nú stendur á Járngerðarstöðum (Vesturbær) var byggt á síðasta áratug 19. aldar. Húsið er nýlega uppgert og byggt hefur verið við það. Um er að ræða járnbáruklætt timburhús með hlöðnum kjallara. Að sögn eiganda er húsið elsta hús Grindavíkur, sem enn er búið í.
Hlaðhús voru hjáleiga árið 1703. Hennar er ekki getið í tali Johnsens 1847. Ekki er vitað hvar Hlaðhús stóðu og örnefnið er nú týnt. Helst er að giska á að húsið hafi verið í námunda við hlað Járngerðarstaða þar sem nú er malbikaður vegur.
Dalurinn er tjörn í suðaustanverðu heimatúni Járngerðarstaða. Í henni eru brunnar á a.m.k. tveimur stöðum, frá Vallarhúsum og Hólshúsi, jafnan nefndir holur. Sölvhóll er gróin hraunhæð sunnan Dalsins. Jórunn í Njarðvík, uppalin á Járngerðarstöðum, sagði Guðmundi Finnbogasyni þá sögu að húsfreyjan í Vallarhúsum (Vallhúsum) hafi bent á að huldufólk byggi í Sölvhól. Hann mætti ekki slá. Eitts inn sló bóndinn í Vallarhúsum Sölvhól og rapst þá kýrin á bænum.
Staðnæmst var við Tíðarhliðið, bent á hin ýmsu örnefni, s.s. Píkuskarðsklett, Vatnsstæðið, Bóndastakkatún, Hliðartún, Kjöthól o.fl., auk þjóðsagnakennda staði, t.a.m. Þjófagjá í Þorbjarnarfelli, Silfru, Junkaragerði, Sölvhól, Járngerðardys, „blóðþyrnirinn“ og fleiri staði þarna í nágrenninu eða í sjónmáli.
Við girðinguna sunnan við Tíðarhliðið eru strompleifar af togaranum Ásu sem fórst utan við Litlubót 1926. Togarinn var í eigu Duus-verslunar. Fyrirtækið átti þrjú skip með Ásunafninu og fórust þau öll, en mannbjörg varð í öll skiptin. Þau voru í raun undirstaðan undir veldi Duus, en sagan segir að þegar átti að reis hús fyrir verslunina í Kaplaskjóli í Reykjavík hafi eiganda hennar birst kona í draumi. Sú hafi sagst heita Ása. Bað hún hann um að reisa ekki hús á þessum stað, ella myndi hann hafa verra af. Húsið var reist og afleiðingarnar urðu framangreindar.
Vatnsstæðið er afurð gjánna er liggja við grindavík ofanverða, en lágu einnig fyrrum í gegnum þorpið. Þær hafa nú verið fylltar.
Þetta voru (og eru) hyldjúpar gjáarsprungur með vatni í sem á yfirborði er að mestu ósalt og flæðir og fjarar í þeim eins og í sjónum. Silfurgjáin er einna stærst, skammt fyrir ofan túngarðinn á Járngerðarstöðum. Í gjá þessari segir sagan, að fólgin sé kista full af silfurpeningum. Hafa allar tilraunir til þess að hefja þennan fjársjóð upp strandað á því að þá er menn hafa náð kistunni upp á gjáarbarminn, þá hefir mönnum sýnzt allt Járngerðarstaðaþorpið standa í björtu báli og hafa menn því jafnan sleppt kistunni aftur. Síðasta tilraunin fór á þá leið að þeir slepptu ekki einungis kistunni heldur fylltu gjána upp með mold. Svo að nú er yfir kistunni grasi gróin brekka.
Skaldan var kynnt til sögunnar. Hún var orðið eyðikot 1840. Í sóknarlýsingu segir að það hafi legið í útnorður út við túngarðinn. Líklegast er að Skjalda hafi verið þar sem seinna var byggt steinhlaðið útihús við túngarð. Útihúsið var sambyggt við túngarðinn vestan við bæinn, norðvestan við heimreiðina. Enn má greina hvar húsið hafði staðið þó að sléttað hafi verið yfir það. Tómas Þorvaldsson, sem fæddur er á Járngerðarstöðum sagði Skjöldu hafa verið eitt fyrsta fátækraskjólið í Grindavík og til merkis um velvild Járngerðisstaðabænda sem og samfélagsins, sem þá var.
Tómas segir Hraunstekki vera austan við Gerðisvallabrunna. Sunnan við þá er hlaðinn stekkur og tótt undir grónum hól. Þar voru lömbin höfð um vorið þegar ærnar voru reknar í sel innan við Þorbjörn (Baðsvallasel).
Við Gerðisvallabrunna eru garðar hlaðnir í ferkantað gerði. Þar er Junkaragerði. Þýskir og heimamenn áttu í gerðinu með sér marga glettuna fyrr á öldum. Innan þess má sjá gamlar tóttir. Eftir að Englendingar höfðu verið hraktir frá Grindavík 1532 sátu Hansamenn nánast einir að verslun við Íslendinga um sjö áratuga skeið, eða þangað til Danir tóku að sauma að þeim og einokuðu verslunina. Líklegt má telja að Hansamenn hafi sest að þarna í búðum Englendinga eftir að þeir voru flæmdir á brott. Gerðið sést vel og gaman er að ganga um svæðið með hliðsjón af sögunni.
Junkarar bönnuðu t.d. heimamönnum að fara inn fyrir gerðið á meðan þeir voru í róðrum, en þeir læddust nú samt þar inn fyrir og náðu sér í ýmislegt nýtanlegt. Junkarar reyndu að hefna sín á Grindvíkingum, en þeir svöruðu fyrir sig með því að saga í sundur árar, gera gat á báta o.s.frv.
Einar Ól. Sveinsson segir svo frá því í útgáfu sinni á Íslenskum þjóðsögum og ævintýrum:
„Einhvern tíma í fyrri daga höfðu nokkrir menn – tólf eða átján – hafst við í óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíka. Áttu þeir sitt skip í hverri þessari veiðistöð og höfðu þar rammgjört gerði til að geyma í skipið og það, er til þess heyrði. Enn heitir bær einn í Höfnum Junkaragerði, og gömul girðing, er leifar sjást af á Gerðavöllum milli Járngerðarstaða og Húsatófta í Grindavík, er líka kölluð Junkaragerði. Eiga þeir að hafa haldið sig þar, er þeir voru í Grindavík, og róið út úr Stóru-Bót, sem þar er hjá. Þar er að vísu ekki ræði, nema brimlaust sé og vindur standi af landi. En Junkarar reru heldur aldrei nema þar, sem vindur stóð af landi og þá er svo var hvasst, að aðrir reru ekki. Þá er logn var, voru þeir á landi, komu þá til bæja og réðu einir öllu hjá konum, meðan karlmenn voru á sjó. Höfðu menn illan hug á þeim, en þorðu ekki á þá að ráða, því að þeir voru mestu garpar.
Og þó að menn kæmust í gerði þeirra, þá er þeir voru eigi þar, þorðu menn eigi að láta Junkara sjá þess nein merki; þá var við hefnd að búast. Menn vildu samt fyrir hvern mun ráða þá af dögum og leituðu ýmsra bragða til þess.
Einu sinni boruðu menn göt á skip þeirra upp við hástokk, þar sem ekkert bar á, fyrr en skipið var orðið hlaðið. Þá rann sjór inn um götin; en Junkarar flöttu þá fisk og lögðu fyrir þau og björgðust svo til lands.
Í annað sinn voru dregnir af keiparnir, keipanaglarnir sagaðir sundur til hálfs og keiparnir svo reknir á aftur. Naglarnir brustu þá, er í land skyldi róa, því að þá var mótvindur. Þá reru Junkarar við hné sér til lands.
Í þriðja sinn voru skautarnir dregnir af árum þeirra, árastokkarnir svo sagaðir sundur til hálfs eða meira, skautarnir síðan negldir á aftur, svo að ekki bar neitt á neinu. Nú reru Junkarar, er vindur stóð af landi; en í það sinn komu þeir ekki að landi aftur. Sagt er, að hverjir fyrir sig; Grindvíkingar, Hafnamenn og Njarðvíkingar hafi lengi eignað sér það, að þar hafi Junkarar verið af dögum ráðnir.“
Í upphafi sögunnar er getið um stað í „óbyggðinni milli Grindavíkur, Hafna og Njarðvíkur“, sem Junkarar höfðust við í. Ekki er ólíklegt að hér geti verið átt við byrgin í Sundvörðuhrauni þar sem þeir hafi geymt byrgðir sínar. Hafa þeir getað flutt og falið þær þar og verið jafnlagt fyrir alla að sækja þangað aðdrætti þegar þurfa hefur þótt.
Staldrað var ofan við Litlubót, Hvítisandur barinn augum sem og Fúlatjörn og önnur örnefni austur með ströndinni. Af Hádegishól var litið yfir sögusviðið, rifjuð upp nöfn hinna gömlu bæja, bæði þeirra sem enn sjást sem og þeirra er hafa horfið. Vellir flutu t..a.m. upp í flóðinu mikla 1925. Hólsgarður, hlaðinn úr grjóti, við hjáleiguna Hól er enn svo til óraskaður. Þá sést Hólsholan enn í Dalnum.
Þeginn var hákarl hjá Óskari við hákarlahjall Gísla og Guðjóns. Þá var „reykofn“ (reykgámur) Víkurbænda kynnt til sögunnar. Verið er að endurnýja kyndinguna, en í hana er einungis notað úrvals tað, þriggja ára gamalt, úr Víkurfjárhúsunum. Þarna er því að mörgu leyti rekin einn sjálfbærasti búskapur bæjarfélagsins. Heimaslátrun var ekki hafin þegar gangan átti sér stað, sem betur fer.
Ofan við gömlu varirnar var farið yfir nöfnin á þeim frá vestri til austurs; Fornavör, Suðurvör, Stokkavör og Norðurvör (Skökk) innan við gömlu bryggjuna, sem byggð var 1931. Átta árum síðar var grafið inn í Hópið og varanleg bryggja gerð þar um 1950.
Ofan við gömlu bryggjuna eru enn nokkur gömul hús, s.s. Varir, Sæmundarhús, Bakki og Flagghúsið.
Flagghúsið er eitt elsta hús Grindavíkur, talið vera byggt árið 1890. Erling Einarsson, einn eiganda hússins, áformar að koma húsinu í upprunalegt horf og eru framkvæmdir vel á veg komnar. Hann hafði húsið opið í tilefni dagsins og bauð þátttakendur velkomna. Ljóst er að mikið verk er enn fyrir höndum. Erling er þegar búinn að endurbyggja skemmda hluta burðarvirkis hússins, skipta um gólf beggja hæða einnig er búið að skipta um þak og þaksperrur einangra húsið utanvert á gömlu klæðninguna og bárujárnsklæða að utan. Alla nýja viðarhluta hefur Erling gert gamla í útliti með sérstakri bæsunaraðferð.
Flagghúsið fékk viðurnefni sitt af því að það þjónaði sjófarendum á Járngerðarstaðasundi. Dagbjartur Einarsson frá Ásgarði (1876-1944) hætti formensku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum leiðbeiningar ú landi um veðurhofur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft erfið og illfær. Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um.
Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn. Þá var hífður upp einn belgur ef vá var í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddi aðgát á sundi og brim í lendingu.
Gifta fylgdi þessu starfi hans og færðu formenn í Járngerðastaðahverfi honum silfurskjöld er hann lét af þessum starfa sem viðukenningu fyrir hjálp á hættustundum.
Húsnúmer í Grindavík eru miðuð við þann stað, sem Flagghúsið er nú. Flagghúsið hefur gegnt margvíslegum verkefnum meðal annars verið íbúðarhús, verbúð, samkomustaður, beituskúr, pakkhús, salthús, veiðafærageymsla og netaloft. Auk þess er þarna sögusvið nóbelsverðlaunaskáldsins og leiksvið kvikmyndarinnar “Sölku Völku”. Þarna er uppspretta myndlistar málarans Gunnlaugs Scheving enda miðja margra mynda hans.
Erling hafði séð til þess að gestir gengu ekki beint inn á gólf Flagghússins á skítugm skónum. Hann hafði farið ásamt nokkrum öðrum á heimalendur Íslólfsskálalands, inn á Hraunssnes vestan Mölvíkur, og sótt þangað stóra og slétta hraunhellu. Mjög var haft fyrir því og mikið vandað við að koma henni heilli á þar til sniðna kerru. Þegar stöðvað var síðan við áfangastaðinn kom í ljós að stóra slétta hellan hafði brotnað í tvennt – ekki þolað flutninginn í kerrunni. Það er sem sagt skýringin á sprungunni í dyrahellu Flagghússins. Þetta þurfti að skrá því bæði er það að heimildir þurfa jú að vera fyrir öllu, ekki síst ef einhverjum dytti í hug að spyrja síðar.
Í máli Erlings, eftir að hafa boðið, innkomna gesti velkomna, kom fram að Flagghúsið, sem var byggt árið 1890, varð að pakkhúsi verslunar Einars í Garðshúsum eftir að Einarsbúð var byggð norðan við það árið 1917.
Á milli hennar og pakkhússins var vegur milli húsanna. Afgirt port var austan Einarsbúðar. Sunnan við pakkhúsið var lítill kofi, jafnan nefndur Lubbi. Erling kvaðst hafa áhuga á að endurbyggja hann svo hann geti gegnt þar nýju hlutverki salernisaðstöðu og fleiru frá Flagghúsi framtíðarinnar. Ekki stæði til að breyta neinu í Flagghúsinu sjálfu, enda mátti þar innan dyra sjá hinar gömlu áletranir pakkhússhlutverksins á veggjum, súðum og bitum.
Loft er í Pakkhúsinu. Því er haldið uppi með hluta af mastri og bugtspjóti skútu er strandaði við Þórkötlustaðavík út frá Leifrunarhól, sama ár og húsið var endurbyggt. Hvorutveggja eru hinar ágætustu minjar um skútuöldina, afleiðingar sjósóknar og þá samtvinnuðu sögu er var óhjákvæmileg hlutdeild í lífi fólks í Grindavík fyrrum.
Erling benti á gamlar bækur er tilheyrðu bókhaldi Einarsverslunar og hafa varðveist. M.a. er þar um að ræða færslur er varða lagningu Grindavíkurvegarins á árunum 1913-1918. Þá fengu Grindvíkingar, að þeirra frumkvæði, fé frá Alþingi til vegalagningarinnar gegn því að formenn Grindavíkurbátanna legðu hluta lifrapeninga áhafnar þeirra á móti. Það varð til þess að vegurinn var lagður.
Sami háttur var hafður á er kvenfélagshúsið í Járngerðarstaðahverfi var byggt á sínum tíma.
Með endurbyggingu Flagghússins er kominn grundvöllur til að endurgera hluta gamla bæjarins, ofan við gömlu Norðurvörina, í Járngerðarstaðahverfi. Það myndi án efa setja mikinn svip á bæinn, fylla bæjarbúa stolti og jafnframt gera Grindavík að áhugaverðari kosti fyrir ferðamenn – ekki síst innlenda.
Aðgengið og umhverfið þarfnast lagfæringar, sem fyrr sagði. Vel væri við hæfi að steinleggja helstu samgönguæðar og gangstéttir, gerða ráð fyrir endurbyggingu gamalla húsa á svæðinu (að sjálfsögðu að uppfylltum nútímakröfum) frá „Resikó“ að Hópsnesi og gera þarna lítið þorpsgildi er um leið yrði nokkurs konar minnismerki um það sem var – og verður.
Flagghúsið mun nú ganga í endurnýjun lífdaga. Þar verður krambúð og e.t.v. eitthvað fleira áhugavert. Mikilvægt er að ráðafólk í Grindavík skoði, meti og ákveði hver eigi að verða framtíð þess gamla byggðakjarna er ávöxtur bæjarfélagsins er sprottin upp af, leifum þess liðna, en jafnframt áþreifanlegum minnismerkjum er sýna þarf tilhlýðilega virðingu – þar sem gömlu húsin eru annars vegar.
Grindavík, líkt og önnur byggðalög landsins, á sér merka sögu.
Frábært veður.
Heimild m.a.:
-Einar Ól. Sveinsson – Íslenskar þjóðsögur og ævintýri – 1952.
-Guðjón Þorláksson.
-Tómas Þorvaldsson.
-Erling Einarsson.
-Færslubækur Einarsverslunar 196 og 1917.
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-Öldin okkar – Öldin sautjánda; 1601-1800; 1966.
-Guðsteinn Einarsson – 1960.
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson.
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, „Hverjir voru Tyrkjaránsmenn“, Saga 1995, bls. 110-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Frásagnir Brynjúlfs frá Minna-Núpi.
-Rauðskinna.
-Rit Björns Jónssonar frá Skarðsá um Tyrkjaránið.
-Sagnir, munnmæli, frásagnir og leiðbeiningar elstu núlifandi manna í Grindavík.