Jólakort
Þegar um 1850 voru margir listamenn sem unnu við að teikna jólakort en það var ekki fyrr en eftir 1860 að farið var að fjöldaframleiða þau og jólakortaiðnaðurinn blómstraði. Vinsælasti jólakortaframleiðandinn í Bretlandi var án vafa Raphael Tuck í London sem borgaði vel fyrir fallega hönnuð jólakort. Frægasti viðskiptavinur hans var frú Grover Cleveland, eiginkona bandaríska forsetans, sem lét hafa eftir sér: „Þúsundir Bandaríkjamanna verða stoltir viðtakendur þessa fallegu korta frá forsetanum og konu hans“.
Fyrstu bandarísku kortin voru gefin út af R.H.Pease í New York, en þrátt fyrir það er það útgefandinn Louis Prang frá Boston sem fær þann heiður að vera kallaður „faðir bandaríska jólakortsins“. Louis Prang var innflytjandi frá Þýskalandi 1850 og var frumkvöðull jólakortasamkeppna þar sem vegleg verðlaun voru í boði, allt að $1000, sem var afar rausnarlegt á þeim tíma. Sýnir það líka hve arðsöm þessi iðngrein hefur verið.
Úrvalið var einhæft í byrjun, og á meðan siðurinn var að þróast var myndvalið algerlega háð tískusveiflum. Í dagblöðum í New York var sérstakur dálkur með gagnrýni um nýjustu jólakortin. Þau kort sem þar fengu lofsamlega dóma voru jafnan söluhæst það árið. Myndefnið var vetrarmyndir, mistilteinn og kristsþyrnir.
Eftir 1850 fer Heilagur Nikulás að vera áberandi myndefni en jólatrén ruddu sér ekki rúms inn á jólakortin fyrr en á síðustu árum síðustu aldarinnar og blómið sem allir kannast við sem jólastjörnu kemur ekki til sögunnar á kortunum fyrr en á fyrstu árum 20. aldarinnar.
Á Íslandi hafa jólakort einkum verið bundin við 20. öldina. Fyrstu jólakortin voru erlend að uppruna, en smám saman komu út kort eftir íslenska listamenn, bæði málara og ljósmyndara. Síðan samsömuðu jólakortin íslensku sig þeim erlendu, útþynntust, svo nú er þar lítill munur á – því miður. Jólakort eru eitt af því sem bjóða upp á viðhald þjóðlegra sérkenna og geta jafnan bæði verið hin ágætasta landkynning og áminning um þjóðlega siði.
Jólakortin snúast yfirleitt um jólasveininn og gjafir, en ekki má gleyma í öllu amstrinu og gjafakaupunum fyrir hvað jólin standa á meðal kristinna samfélaga – fæðingu frelsarans og fagnaðarerindið innihaldsríka.
Heimild m.a. : http://www.jolahusid.com/isl/jolakort.htm