Kálfatjörn – letursteinn (A°1790)
Árna Óla fjallar um leturstein í bók sinni „Strönd og Vogar“ (1961) í hlaðinni brú gamla Kirkjuveginum vestan Kálfatjarnar (bls. 230-232). Þar segir hann m.a.: „Fyrir sunnan eða vestan Kálfatjörn er farvegur, sem nefnist Rás…
Yfir Rásina hefur verið hlaðin göngubrú úr grjóti, svo að menn gæti komizt þar yfir þurrum fótum. Sjálfsagt hefir brú þessi fyrst og fremst verið gerð sem kirkjuvegur, enda var hún oft farin allt fram að þeim tíma er þjóðvegurinn kom. En svo mjó er brúin, að ólíklegt er, að hægt hafi verið að bera líkkistu þar yfir. – Á einn allstóran stein í brú þessari er höggvið ártalið 1790, og má telja víst, að brúin hafi verið gerð það árið. Má þá vera að Bjarni Eyjólfsson hafi líka höggvið þetta ártal“ (sjá: Stóra-Knarrarnes – letursteinn).
FERLIR skoðaði nefndan ártalsstein í brúnni. Hún hefur greinilega verið hluti af gamalli götu frá Kálfatjörn að vesturbæjunum og öfugt. Gengið er yfir brúna suðaustan við Hlið, um garðana þar. Svo virtist sem letursteinnin geti verið „hornsteinn“ í brúna, en einnig hefur verið talið að steinninn hafi síðan verið notaður sem „skósteinn“, þ.e. kirkjugestir hafi skipt þar um skó á leið sinni að og frá kirkju; farið þar í betri skóna og úr þeim aftur að lokinni messu. Sambærileg frásögn er til um „skóstein“ eða „skóklöpp“ við Strandarkirkju, nánar tiltekið við gömlu kirkjugötuna að Vogsósum. Enn sést móta fyrir þeirri götu, auk þess sem hún er vörðuð vestan „Strandargarðs“ eða „Fornagarðs“, eins og hann hefur jafnan verið nefndur í seinni tíð. Talið er að garðurinn sé frá því um 1000.
Ártalssteinninn í gömlu brúnni við Kálfatjörn virðist, ef vel er að gáð, hafa áletrunina A° 1790. Svo er að sjá að næst aftasti tölustafurinn sé 9 og virðist hann greinilegur og, ef vel er gaumgæft, vera stærri en hinir.
Þarna utan garðs á Kálfatjörn er því að finna enn eina fornleifina á Reykjanesskaganum.
Áhugavert væri að gera uppdrátt af öllum minjum á Kálfatjarnarsvæðinu og staðsetja hann síðan á aðgengilegum stað á svæðinu.