Katanesdýrið
Við Katanes er Katanestjörn þar sem Katanesdýrið sást 1874 til 1876. Í bókinni „Sól skein sunnan“ skrifar Friðrik Sigurbjörnsson m.a. um Katanesdýrið í Katanestjörn, handan Hvalfjarðar gegnt Hvalfjarðareyri.
Var því lýst svo, að það væri á stærð við þrévett naut, aflangt nokkuð með langan haus og hala afarmikinn, á að giska þriggja álna langan, hvítleitt um búkinn, en hausinn rauður. Það hafði sex stórar klær á hverjum fæti eða löpp, en fæturnir stuttir, kjafturinn ákaflega mikill og framtennur fjórar í, miklar og hvassar, eyru hafði það lafandi, en þó sáu menn það reisa þau beint upp. Hvorki sáu menn hár né hreistur á húð þess, heldur því líkast sem hausinn og halinn væri húðlaus og sæi í rauða kvikuna. Það sögðu þeir, sem sáu dýrið í tjörninni, að það synti afarfljótt.
„Hvalfjarðarströndin og vötnin í Leirársveitinni liggja fyrir fótum okkar. Tjörnin, sem Katanesdýrið var í forðum, er þó horfin af sjónarsviðinu. Hann Jón Ólafsson frá Katanesi, sem stundum kallar sig „Skalla“, vann það verk að þurrka hana, ræsa hana fram og fann ekkert dýrið. Þar fór sú þjóðsagan fyrir lítið.
En við skulum samt ræða svolítið nánar um þetta Katanesdýr og uppruna þjóðsögunnar. Fer þar vonum tvennum sögum. Ég heyrði áðurnefndan Jón Ólafsson telja uppruna sögunnar vera lygar tveggja samala, annar var frá Katanesi, en hinn frá næsta bæ, og átti þetta að hafa gerzt rétt fyrir síðustu aldamót.
Í Landnámu segir frá því, að skozkur maður frá Katanesi, nyrst í Skotlandi, hafi numið land á Kiðafelli. Var hann eini skozki landnámsmaðurinn í hópi hinna mörgu landnámsmanna, sem hingað komu á landnámsöld. Hefur hann sjálfsagt haft með sér geitur, beitt kiðlingum í grösugar brekkur fjallsins fyrir ofan bæinn, m.a. í Löngulág; þar af nafnið Kiðafell. Katanes á Skotlandi er nefnt á enskum landakortum Caithnes, og hafa fjölmargir Íslendingar siglt þar fram hjá, þeir, sem siglt hafa eftir „Pentlinum“ svonefnda. Á Katanesi byggði írskur þjóðflokkur, „Piktar“, á landnámsöld.
Landnáma skýrir einnig frá því, að Svartkell katneski hafi síðar flutt bú sitt að Eyri þar innar við fjörðinn. Sá bær er nefndur eftir eyri þeirri hinni miklu [Hvalfjarðareyri], sem nær langt út í Hvalfjörð. Um ástæður fyrir búferlaflutningunum getur Landnáma ekki. Mætti segja mér, að landsynningurinn ofan af Dýjadalshnúki í Esju hefði eitthvað velgt karli undir uggum við heyskapinn, og hann viljað flytjast eitthvað burtu frá honum.
En nú hagar svo til, að Katanes er rétt handan eyrarinnar, og stutt á milli. Mér finnst þessi staðreynd geta tæpast verið tilviljun einber. Svartkell hefur sjálfsagt frá sínum heimahögum í Skotlandi verið nákunnugur öllum sögnum um skrímslið í Loch Nessvatninu, enda er það ekki fjarri Katanesi hans í Skotlandi.
Finnst mér ekkert líklegra en hann hafi viljað flytja með sér einhverja skrímsasögu hingað til lands, svona til skemmtunar börnum sínum og öðrum sveitungum, hafi verið kunnugt um vötn og tjarnir handan fjarðarins, kallað nesið gegnt Eyri Katanes eftir heimahögum sínum, og komið svo dýrinu fyrir í tjörninni á því nesi.
Nú kann einhver að spyrja, hvort ekki hefði verið nærtækara að koma dýrinu fyrir í Meðalfellsvatni, sem ekki er langt frá Eyri.
En karl hefur sjálfsagt verið stór upp á sig, og að hætti Skota, blátt áfram ekki tímt því að gefa Valþjófi Örlygssyni landnámsmanni á Meðalfelli slíka skrautfjöður í hatt sinn, enda má vel vera, að þeir hafi ekki neinir vinir verið, og þyrfti ekki annað en þeir hefðu deilt út af laxveiði.
Svo sem ég tók fram áður, get ég engin rök fært fram fyrir þessari tilgátu minni um uppruna sögunnar um Katanesdýrið, en byggi þar eingöngu á hugdettum mínum, og því, sem gæti verið sennilegt, ef hugmyndarflugið er látið koma við sögu. En mér finnst skýringin skemmtileg, og einhvern veginn finnst mér hún ekkert ósennilegri en allar hinar, nema síður væri, og læt ég svo staðar numið að segja frá Katanesdýrinu.“
Titill bókarinnar er fengin úr Völuspá, sbr. „áður Burs synir bjöðum um ypptu, þeir er Miðgarð mæran skópu; sól skein sunnan á salar steina, þá var grund gróin grænum lauki“. Margir, beggja vegna Hvalfjarðar, hafa löngum bæði velt fyrir sér og skyggnst eftir Katanesdýrinu. Sumir þeirra segjast hafa séð og hafa geta lýst skepnunni, en aðrir eru þögulir sem gröfin.
Heimild:
-Friðrik Sigurbjörnsson – Sól skein sunnan, Reykjavík 1970, bls. 99-103.