Keflavíkurflugvöllur – norðursvæði
Stefnan var tekin á Keflavíkurflugvallarsvæðið upp á von og óvon. Svæðið innan Vallargirðingarinnar hefur verið landanum lítt aðgengilegt í u.þ.b. sex áratugi og lítið verið gert að því að skoða það m.t.t. hugsanlegra minja.
Eins og flestum er kunnugt um hefur flugvallarsvæðinu sjálfu verið mikið raskað vegna mannvirkjanna og flugbrautanna, sem þar eru. M.a. var heill gígur, sem stóð efst á heiðinni, jafnaður undir brautina á sínum tíma.
Á dögunum fór FERLIR með staðkunnugum frá Norðurkoti og Fuglavík (sjá aðra lýsingu) upp frá bæjunum í svarta þoku, inn um gat á varnargirðingunni í von um að finna þar einhverjar minjar. Í þeirri ferð fannst m.a. fallega gróin fjárborg og tóft utan í henni. Vatnsstæði var skammt sunnan við borgina.
FERLIR fékk góðar móttökur (sem reynar ávallt fyrrum) hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli til að komast inn á verndarsvæðið. Fulltrúi Flugmálastjórnar tók einnig vel í málaleitan FERLRs og fékkst leyfi til að fara inn fyrir það allar heilagasta. Eftir að hafa fengið fylgd um svæðið, hlið opnuð og síðan lokað á eftir göngufólkinu með loforð um að það fengi að fara út aftur að göngu lokinni, var gengið af stað.
Fljótlega var gengið fram á djúpt markaða götu er liðaðist um heiðina, með stefnu áleiðis að Básendum eða Stafnesi til Keflavíkur. Gatan beygir hins vegar til norðurs þarna nokkru vestar. Að sögn Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti er þarna hins vegar um að ræða hina gömlu Hvalsnesleið. Fallnar vörður voru við götuna og hefur verið nokkuð lagt í þær á sínum tíma. Ein var þó svo til alveg heil. Stóð hún á klapparhól sunnan götunnar. Leiðarsteinn vísaði til norðurs, að götunni. Önnur varða var á hól austar, svo til alveg við girðinguna. Þessi gata hefur greinilega verið mikið farin á sínum tíma, en ekkert í seinni tíð. Líklega má telja, miðað við hversu miklu hefur verið kastað upp úr götunni á kafla, að hún hafi verið notuð um nokkurn tíma. Vörðubrotin hafa greinilega verið látin óhreyfð. Fá kennileiti eru þarna utan nokkurra hóla.
Frá heilu vörðunni lá röð stórra, mjög heillegra, varða til vesturs. Leiðarsteinn stóð út úr þeim öllum og benti hann til suðurs. Vörðunum var fylgt að þeirri síðustu, en frá henni sást í turninn á Hvalsneskirkju. Svo virðist sem hætt hafi verið að varða leiðina áfram niður að Hvalsnesi. Ekki var að sjá stíg í móanum á milli varðanna, sem lágu svo til í beina stefnu. Að sögn Sigurðar er þarna um að ræða svonefnda vetrarleið að Hvalsnesi og skýrir það hversu lítt gatan sést í móanum. Leiðin yfir heiðina var mjög villandi í vpondum veðrum. Skráð var t.d. á sínum tíma að fjöldi manns hafi orðið úti á heiðinni á tiltölulega skömmum tíma. Flestir voru þeir að vísu á leið frá kaupmanninum í Keflavík eftir að hafa fengið sér þar svolítið of mikið í tána.
Melabergsgatan er þarna skammt norðar, að mestu utan girðingarinnar. Gatan, sem skoðuð var innan vallarsvæðisins kemur inn á hana við Melabergsvötnin, að sögn Sigurðar.
Þá var gengið að fjárborginni, sem minnst er á hér að framan. Þetta er nokkuð stór gróin borg. Tóft er austan í tóftinni og einnig virðist hafa verið mannvirki sunnan undir henni. Að sögn Sigurðar er hér um að ræða selstöðu frá Fuglavík. Hólarnir ofan (austan) selstöðunnar heita Selhólar. Á þeim er varða. Vestar er vatnsstæðið.
Ljóst er að leita þarf þetta svæði mun betur.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.