Krýsuvíkurturnarnir tveir
Í Morgunblaðinu 1953 er m.a. fjallað um votheysturnana tvo í Krýsuvík:
Má segja að það sé e.t.v. ekki óeðlilegt, þar sem útilokað er fyrir menn sem sitja inni á skrifstofu að gera sér fulla grein fyrir hlutunum og kanna hvað rétt er hverju sinni.
Hafnfirðingar þekkja það mæta vel, þegar óverðugir hafa hlotið hinn dýrmæta gjaldeyri til fjárfestingar. Er þar glöggt dæmi sú geysimikla fjárfesting, sem orðin er í Krýsuvík vegna fyrirhugaðs búreksturs þar. Öll sú fjárfesting hefur ekki orðið til annars en byrða og armæðu fyrir bæjarbúa, og svo vegna þess, að Hafnarfjarðarbær hefur getað beitt aðstöðu sinni til að fá slík leyfi, hefur og dugandi mönnum verið neitað, sem nú hefðu verið farnir að ávaxta sitt pund til hagsældar fyrir sig og þjóðarbúið.
Eins og fólk, sem fer um Krýsuvík, hefur séð, þá standa þar votheysturnar miklir, að vísu ekki nema steinhólkarnir, því að lengra er ekki smíðinni komið. Þeir eru tveir að tölu og voru þeir steyptir upp á árinu 1949, svona rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar. Á meðfylgjandi mynd sjást turnarnir og fjósbygging í smíðum, en síðan hefur hún verið gerð fokheld. Í reikningum bæjarsjóðs Hafnarfjarðar sést að turnar þessir kosta ekki undir 55 þús. kr. og er það að vísu lítið fé af öllu þvi, sem búið er að eyða í Krýsuvíkurframkvæmdirnar, en þó verða þessar kr. til að þyngja baggana á bæjarbúum.
Þegar Hafnarfjarðarbær fékk leyfi fyrir votheysturnunum sínum, þá var frá því sagt í fréttum, að veitt hefðu verið fjárfestingarleyfi til að byggja 10 votheysturna á öllu landinu og af þeim fóru tvö leyfi í Krýsuvík, þar sem hvorki var búið að rækta gras til að láta í þá, né heldur var nokkur skepna til að fóðra og er hvorugt fyrir hendi ennþá, nálega fjórum árum síðar. Fer ekki hjá því, að margur hugsi sem svo, að það hefði verið nær að láta eitthvað af þeim á annað hundrað bændum, sem sóttu um fjárfestingarleyfi til slíkra bygginga, en var synjað, hafa þessi tvö leyfi, því þeir munu bæði hafa haft grasið til að láta í turnana og skepnur til að fóðra á því.“ – P
Nú, árið 2023, er fjósið í Krýsuvík að falli komið; norðurveggurinn fallinn út og þakið að mestu. Ef ekkert verður að gert munu leifar fjóssins fjúka út um nágrennið með tilheyrandi sóðaskap.
Heimild:
-Morgunblaðið, þriðjudagur 31. marz 1953, bls. 6.