Leiðarendi II
Gengið var frá Bláfjallavegi um stíg norður yfir Tvíbollahraun, u.þ.b. 300 metra. Þá var komið í eldra hraun, Stórabollahraun, mosavaxið, en tiltölulega slétt. Hægra megin við stígsendann er jarðfall. Í því er Leiðarendi.
Haldið var niður um vítt opið að vestanverðu. Stórir steinar eru næst opinu, en hellirinn er samst sem áður greiður niðurgöngu. Fljótlega er komið inn á slétt gólf og víða og háa hraunrás. Litirnir í veggjum rásarinnar eru rauðlitið og verða fallegri eftir því sem innar dregur. Komið er að svolitlu hruni þar sem önnur rás liggur upp til hægri. Á rásmótunum eru falleg steinkerti á gólfum. Þegar gengið er áfram niður rásina má víða sjá stór hraunkerti og fallegar hraunnálar í loftum. Sumsstaðar lækkar rásin og á einum stað þarf að skríða yfir hrun. Þar fyrir innan er mjög hátt og vítt. Þegar komið er innst í rásina er víður hraunpollur.
Þegar komið er að pollinum má sjá beinagrind af rollu þar undir veggnum hægra megin. Rollan virðist hafa villst alla þessa leið, um 200-300 metra, inn í hellinn og lagst síðan þarna undir vegginn þar sem hún hefur borið beinin. Frá hraunpollinum lækkar hellirinn verulega. Þó má skríða í gegnum hrun lengst til hægri og spölkorn áfram. Ákveðið var að gera það ekki að þessu sinni.
Haldið var til baka og farið í rásina, sem fyrr var lýst. Hraun er víða í annars víðri rásinni, en hægt að fara hægra megin með því. Hellirinn ýmist lækkar eða hækkar. Á einum stað er geisifalleg hraunsepamyndun í loftinu og eins og skrautleg kóróna hangi nuður úr því.
Innar þrengist hellirinn á ný, en þegar komið er framhjá smá hruni opnast hann inn í víða þverrás. Hlaðin var lítið varða á mótunum svo auðveldara væri að rata til baka því auðvelt er að villast í margskiptum hellum. Þessi varða kom sér líka vel á bakaleiðinni.
Þverrásin virðist lækka nokkuð þegar neðar dregur, en hana á að vera hægt að skríða áfram út um eystra opið í jarðfallinu. Þegar ofar dregur hækkar og víttkar hellirinn og fallegir bálkar eru með veggjum. Efst í honum er hrun, en áður en komið að því er lítil varða hlaðin á mitt gólfið. Hún gaf til kynna að lengra væri ekki komist með góðu móti. Hins vegar liggur rás þarna til hægri, en hún er það lág að skríða þarf hana á maganum. Haldið var til baka að fyrr vörðunni og haldið niður eftir rásinni, sem genginn hafði verið. Þegar farið er til baka er eðlilegra að halda áfram, framhjá aðalrásinni, og því auðvelt að ganga framhjá opinu við hrunið. Seinni rásin er sviðuð að lengd og sú fyrri, um 200-300 metrar.
Eftir smáhvíld var haldið inn um eystra opið í jarðfallinu. Klöngrast þarf spölkorn inn í hellinn, en síðan tekur við slétt gólf. Miklir bálkar eru til beggja handa. Fljótlega er komið að stað þar sem nýja hraunið hefur lekið niður í rásina og storknað. Hægt er að skríða meðfram því vinstra megin og er þá komið inn í víða hraunrásina á ný. Þar fyrir innan er eins og hraunpollur því gólfið framundan hækkar nokkuð. Eftir það lækkar hellirinn mikið og verður einungis skriðinn. Þá er komið inn á þann stað, sem horfið var frá áður. Með eindregnum vilja má fara þar í gegn og er þá stutt eftir í efra opið á jarðfalli Leiðarenda.
Veðrið ofan jarðar skipti í rauninni engu máli. Niðri var bæði hlýtt og skjólgott.
Sjá meira um Leiðarenda HÉR, HÉR og HÉR.