Lofteldar og elding
Lofteldar
„Nú gekk skipshöfnin heim að Auðnum, og voru allir í skinnklæðum sínum. Á Auðnum var þá timburhús, en skammt frá því var gamli bærinn og var timburhúsið tengt við hann með skúr, svo að innangengt var á milli.
Skipverjar Jóhannesar röðuðu sér nú undir norðurgafl timburhússins og hugðust standa þar af sér élið. En Jóhannes ætlaði að ganga inn og var kominn rétt austur fyrir húshornið. Í sama bili laust eldingu niður í húsið og féllu þá allir mennirnir níu til jarðar, „eins og þeir hefði verið skotnir“, og vissu ekki af sér um hríð.
Skjótt var brugðið við að koma mönnunum til hjálpar. Þá var líkt og reykjarsvæla í kringum húsið og bæinn og lagði af henni vondan þef. Líktu sumir því við þann þef, sem kemur af blautu púðri, þegar kveikt er í því, en aðrir líktu því við brunaþef af óhreinsuðum brennisteini. Menn, sem staðið höfðu skammt frá, þegar eldingin reið yfir, sögðu svo frá, að timburhúsið hefði á sömu stundu hulizt reyk, og var engu líkara en að sá reykur hefði komið upp úr jörðinni.
Jóhann Árnason hafði staðið fyrir miðjum gafli hússins, og um leið og hann féll, féllu þeir ofan á hann Jón frá Rauðará og Stefán Þorleifsson. Þegar að var komið, voru þeir báðir örendir Jón og Stefán. Höfðu þeir fengið mikil brunasár og var Stefán þó verr út leikinn. Var hann og nakinn að mestu, því að skinnföt og önnur klæði höfðu tætzt utan af honum. En Jóhann sakaði hvergi og föt hans voru með öllu óskemmd. Hresstist hann fljótt. Aðra tvo menn sakaði ekki heldur, Vigfús í Grænuborg og þann, sem ekki er nafngreindur.
Þórður Jónsson frá Lambastöðum slapp einnig ómeiddur, en eldingin hafði klippt um lófastórt stykki úr skinnklæðum hans að framan, ytri fötum og nærfatnaði, svo að sá í bert hörundið, en hann var þó óbrunninn.
Af hinum, sem lifðu, var Jón Einarsson vinnumaður Jóhannesar Ólsens verst leikinn. Var hann gjörsamlega klæðflettur og nakinn að neðan, upp fyrir mjaðmir, og hafði fengið slæm brunasár.
Miklar skemmdir urðu á húsum á Auðnum. Virtist mönnum sem reiðarslagið hefði komið með mestum krafti á norðurgafl timburhússins. Tætti eldingin þar sundur hálfa þilsperruna og braut þilbitann um þvert, og var hann svartur í sárin eins og hann væri sviðinn. Einnig rifnaði allur gaflinn í miðju, frá burst að grunni, og þeytti ofviðrið sumum fjölunum úr honum 40—50 faðma. Rúður brotnuðu nær allar og margt gekk aflaga.
Einkennilegt þótti, að svo var að sjá sem eldingin hefði mestan usla gert þar sem eitthvað málmkyns var fyrir, eins og t.d. koparhúnar á hurðum. Ýmist sprungu hurðirnar sundur eða allur dyraumbúningur rifnaði með hurðunum. Ein hurðin var læst og kastaðist hún með lömum og læsingu inn í herbergið. Ógurleg stroka stóð í gegnum húsið og alla leið inn í baðstofu. Fannst fólki, sem þar var, sem það fengi högg á hendur eða fætur, andlit eða brjóst. Allt, sem lauslegt var í baðstofunni, sópaðist yfir í annan endann, og allar rúður í þeim enda þeyttust úr gluggum.
Einkennilegast var þó, hvernig eldingin fór með eirlituð skinnklæði. Þau tættust öll sundur, svo að varla var skæðisstærð eftir heil úr þeim. Eirlituð skinnbrók, sem hékk úti á gafli hússins, brann upp til agna. En ólituð skinnklæði, sem geymd voru hjá hinum, voru að mestu óskemmd.“
Elding á Brunnastöðum
„Aðfaranótt 10. janúar 1937 laust eldingu niður í íbúðarhúsið á Brunnastöðum. Þetta var tveggja ára gamalt hús úr steinsteypu, tvær hæðir. Á efri hæð voru þrjú herbergi og eldhús, á neðri hæð tvö herbergi, geymsla og þvottahús. Þarna bjuggu þá hjónin Margrét og Guðjón Pétursson, dóttir þeirra og tengdasonur og fjögur börn þeirra á aldrinum 1—4 ára. Ungu hjónin voru ekki heima þessa nótt. Þess vegna svaf Margrét í svefnherbergi þeirra í suðurenda ásamt 3 börnunum, en Guðjón var með elzta barnið í herbergi í norðurenda hússins.
Um háttatíma var komið versta veður, ofsarok af suðaustri og herti er á leið nóttina. Um miðnætti byrjaði að ganga á með þrumum og eldingum. Og nokkru seinna laust eldingu niður í húsið. Hefir Guðjón skráð frásögn um þennan atburð og er hún á þessa leið:
— Þegar klukkan sló tvö, varð þvílíkur glampi í herbergi mínu, að ég get í sannleika ekki líkt honum við neitt, sem fyrir mín augu hefir borið áður. Gat ég ekki betur séð á því augnabliki, sem glampann bar fyrir, en að innveggir hússins og hús loguðu silfurbláum loga, og í næsta augnabliki skall svo sterkur gnýr yfir, að ég á naumast nógu sterk orð til að lýsa honum.
Hugsa ég mér, að ef skotið hefði verið af hinu stórkostlegasta skotvopni inni í húsinu, þá gæti ég líkt þessum voðagný við það. Það var sem björg væri að klofna. Húsið lék á reiðiskjálfi, og virtist sem það væri að molast niður. Hann hljóp nú inn í suðurherbergið að vitja um konu sína og börnin. Þau hafði ekki sakað, en aðkoman var þó ömurleg. Ljósið hafði slokknað og stormurinn stóð inn um mölbrotinn gluggann. Börnin voru dauðskelkuð og vissu ekki, hver ósköp gengu á. Var nú farið með þau yfir í norðurherbergið, og voru hjónin þar yfir þeim það sem lifði nætur. Síðan segir Guðjón svo frá:
— Þegar birti af degi, var ömurlegt um að litast, gólfið flóandi í vatni og húsmunir ofan í því sundurtættir. í húsinu voru 22 rúður brotnar og enginn gluggi heill, nema sá í nyrðra svefnherberginu, hann hafði ekki sakað hið minnsta. Gluggatjöld í suðurherberginu voru í henglum og sviðin. Karmar í sumum gluggum höfðu tætzt í sundur. Innveggir voru sviðnir, loftlistar sprungnir frá, myndir á veggjum höfðu flestar fallið niður og skemmzt, allstórir brunablettir á gólfdúkum (linoleum) og þó sérstaklega í þeirri stofunni, þar sem enginn svaf.
Útvarpstæki, sem stóð á borði þar, hafði kastazt til og niður á gólf, og var stórskemmt; skápur, sem þar var, lá líka á hvolfi, 2 metra frá þeim stað, er hann stóð á. Einnig skemmdist það, sem í honum var. Að öðru leyti var allt á tætingi, hvað innan um annað. Legubekkur lá á hliðinni og stólar brotnir. Ennfremur blómsturpottar og diskar, er þeir stóðu á. Mold, vatni og spýtnabraki úr tættum gluggum ægði saman á gólfinu.
Í eldhúsinu leit þannig út, að rör höfðu henzt frá eldavélinni og upp á borð og brotnað, og allt flóði út í sóti og vatni. Á neðri hæð hússins hafði eldavél í þvottahúsinu kastazt til og brotnað og gluggakarmar tætzt í sundur. Svona leit húsið út að innan í aðaldráttum, eftir þessa voðalega eldingu.
Að utan hafði húsið líka orðið fyrir skemmdum. Veggir þar voru alsettir smáholum, og var engu líkara en skotið hefði verið á þá kúlu við kúlu.
Á þaki hússins höfðu nokkur spjöll orðið. Þakjárnsplötur höfðu beyglazt upp hér og þar, og voru naglar dregnir út. Ofan á reykháfi hússins var steypupípa, og var hún nú fallin niður. Molar úr henni fundust hér og þar umhverfis húsið og sumir alllangt frá því. Það, sem gefur ef til vill bezta hugmynd um ógnarkraft eldingarinnar, var það, hversu fór um þakrennu þá, sem var við nyrðri þakbrún hússins. Var ekki annað sjáanlegt en að hún hefði bráðnað niður. Lá sumt af henni við húsið í nokkrum járnklumpum, en sumt fannst í margra metra fjarlægð frá húsinu.
Í kringum húsið hafði eldingin einnig látið á sér kenna. Hún hafði brotið steypuvegg á útihúsi, kastað tíl og brotíð eldavél, sem þar var, og brotið stólpa í girðingu umhverfis húsið. Þetta er saga mín af þessum ógnaratburði. Ef til vill er hún þó ekki nema hálfsögð.“
Strönd og Vogar, Árni Óla, 1961, bls. 135-145.