Minjavernd á villugötum – Margrét Hermanns-Auðardóttir
Margrét Hermanns-Auðardóttir skrifaði grein í Morgunblaðið árið 2002 undir yfirskriftinni „Minjavernd á villigötum„:
„Í helgablaði Morgunblaðsins 16. júní sl. birtist tvöfalt viðtal við forstöðumenn Þjóðminjasafns („Þjóðminjavarslan mun vaxa“) og nýstofnaðrar Fornleifaverndar ríkisisns („Vernd í sátt við þjóðina“), sem veitir leyfi til fornleifarannsókna og hefur eftirlit með þeim og öðru sem varðar vernd og varðveislu fornleifa þjóðarinnar. Tilefnið var viðtal í blaðinu við mig sem birtist viku áður. Fyrri grein mín, sem er að finna á netútgáfu Morgunblaðsins í fullri lengd takmarkast að mestu við leiðréttingu rangmæla í þessum „viðbrögðum“ forstöðumannanna, einkum forstöðumanns Þjóðminjasafns, sem nauðsynlegt er að gera, og í framhaldi viðtalanna í Kastljósþætti í ríkissjónvarpinu og annarri umfjöllun þessu tengdri sem fylgdi í kjölfarið og birtist hvað mest í Morgunblaðinu á þessu „mesta uppgraftasumri allra tíma“.
Í þeirri grein er m.a. fjallað um þýlyndi við útlendinga sem hleypt er eftirlitslaust í 43 fornleifastaði þjóðarinnar, óráðsíu í málefnum Þjóðminjasafns, skil á gripum og einokunarhneigð í fornleifarannsóknum auk leyfisveitinga til stórtækra inngripa í eitt dýrmætasta fornleifasvæði landsins á Gásum í Eyjafirði. Leiðrétting rangmæla hefur dregist m.a. vegna tregðu í kerfinu við að veita umbeðnar upplýsingar, t.d. tók það Fornleifavernd ríkisins á 2. mánuð að verða við upplýsingum sem varða rannsóknaleyfi á liðnu sumri, og þá að takmörkuðu leyti, þegar þær bárust loks.
Síðari grein mín fjallar um „Nauðsyn á stefnu í fornleifavernd og vísindalega fornleifafræði„. Í henni er fjallað um stöðu fornleifaverndar frá sjónarhóli utan íslensku kerfismúranna, hina hlið málsins, ef svo mætti segja, sem ekki verður ráðin af ofangreindum viðtölum í Morgunblaðinu við forstöðumenn Þjóðminjasafns og Fornleifaverndar ríkisisns. Að draga fram þessa hlið málsins er viðleitni til að skýra nauðsyn þess að hafa vísindalega fornleifafræði að leiðarljósi við skilvirka varðveislu fornleifa þjóðarinnar, fylgja settum lögum og reglum hvað sem gengur á og hvaða þrýstingi sem beitt er, ekki síst þegar leyfi eru veitt til að raska fornleifum með uppgreftri.
Minjaverndin rekur augljóslega á reiðanum vegna holskeflu stóruppgrafta (m.a. þökk sé Kristnihátíðarsjóði), að verulegu leyti með „persónu- og sögudýrkandi“ forngripaleit að leiðarljósi, þar sem ófáum sem það stunda leyfist að vaða úr einum uppgreftrinum af öðrum án þess að hafa skilað af sér fyrri verkefnum sem skyldi. Í síðari greininni, verður þó ekki komist hjá því einnig að andmæla sumu af því sem fram kemur hjá forstöðumanni Fornleifaverndar ríkisins í viðtali hennar í Morgunblaðinu. Stefnumörkun í þágu fornleifaverndar og vísindaleg fornleifafræði er þó í fyrirrúmi í þeirri grein.
Hér á eftir fylgja valdir kaflar úr greinum mínum, sem er að finna í fullri lengd á netútgáfu Morgunblaðsins eins og áður segir. Áhersla er lögð á það enn á ný, hversu torskilið það ætlar að reynast hjá framkvæmdavaldinu, að vernd og varðveisla jarðfastra fornleifa kallar á annars konar sérhæfni og skyldur en safnastörf. Stjórnvöld hafa ekki skilið enn sem komið er mikilvægi þess, að aðeins á styrkum stoðum fornleifafræðinnar sem sjálfstæðs vísindasviðs á háskólastigi er unnt að byggja upp hjá okkur ábyrga skilvirka fornleifavernd og fornleifafræði.
Lagði Þjóðminjasafn grunninn að Fornleifavernd ríkisins?
Í viðtali Morgunblaðsins 16. júní sl. segir forstöðumaður Þjóðminjsafns: „Að Þjóðminjasafn hafi undanfarin sex ár lagt grunninn að Fornleifavernd ríkisins. Árangurinn af þessari vinnu má meðal annars sjá í nýju þjóðminjalögunum.“ Sannleikurinn er sá, að forstöðumaðurinn lagðist gegn aðskilnaði fornleifavörslunnar frá Þjóðminjasafni, enda var augljós fylgifiskur slíkrar breytingar skerðing á valdsköku hennar. Allt frá endurskoðun þjóðminjalaga 1988–89 hefur ítrekað verið lagt til að fornleifaverndin fengi sjálfstæða stöðu, og við síðustu endurskoðun þjóðminjalaga 2000–2001 voru nær allir fornleifafræðingar auk margra safnamanna fylgjandi slíkri breytingu.
En líkt og hjá öðrum þjóðum var mikilvægt að vernd fornleifa og eftirlit fornleifauppgrafta í landinu fengi sjálfstæða stöðu, óháð þeim skyldum og kvöðum sem hvíla á minjasöfnum. Meginhlutverk Þjóðminjasafnsins er að stuðla að sýningum og annarri kynningu „á minjum um menningarsögu þjóðarinnar“, sinna rannsóknum og varðveislu gripa og annarra menningarverðmæta þjóðarinnar sem varðveitt eru í safninu. Hjá öðrum í okkar heimshluta er það almennt viðurkennt að fornleifavernd kalli á annars konar sérhæfni og skyldur en safnastörf, enda útilokað að koma jarðföstum fornleifum fyrir í söfnum!
Fornleifavernd hefur engan veginn verið sinnt sem skyldi hér á landi, þrátt fyrir að við búum við betri aðstæður miðað við flest önnur lönd, þar sem þéttbýli og tilheyrandi framkvæmdir ógna fornleifum í miklu meira mæli en hjá okkur. Þessa stundina rekur yfirleitt á reiðanum í stjórnsýslunni vegna hagsmuna „vinavæðingar“ hér heima (sbr. t.d. Mbl. 23. júlí: „Einkavinavæðing út yfir gröf og dauða“) og þýlyndis við útlendinga, utan við lög og reglur. Ef ekki, sem er sjaldnar, þá eru þeir ágallar sem nú koma í ljós, þrátt fyrir gildistöku nýrra þjóðminjalaga, fyrst og fremst vegna áberandi vanþekkingar á því hvernig hlutunum er forgangsraðað við vernd og varðveislu fornleifa. Sú forgangsröðun, ef slíka skyldi kalla, er hér önnur en í öðrum Evrópuríkjum, þar sem fornleifafræðin sem vísindasvið hefur löngum átt sér sterka stöðu við helstu háskóla.
Er HÍ hindrun fyrir fornleifafræði sem vísindasvið?
Það virðist greinilega þörf á að skýra, að alþjóðleg fornleifafræði hefur einkum mótast sem sjálfstætt vísindasvið við rannsóknir á mannvistarleifum (fornleifum) frá forsögulegum tíma. Ritmálið kemur fyrst inn í myndina á síðustu árþúsundum á þeim óralanga tíma sem þróun mannkyns spannar. Þar af leiðandi hafa þær aðferðir og túlkunarhefðir sem fornleifafræðin hefur þróað, grundvallast umfram annað á því að mæla, flokka og ráða í þann margþætta og flókna vitnisburð sem jarðfastar fornleifar frá mismunandi tímum hafa að geyma, bæði fyrir og eftir tilkomu ritheimilda.

Fornleifauppgröftur í Arnarfirði. Um er að ræða sjálfstæðan fornleifauppgröft, þrátt fyrir ritheimildir.
En fornleifafræðileg nálgun er ekki síður nauðsynleg við rannsóknir á fornleifum frá sögulegum tíma. Hún er því einnig mikilvæg við rannsóknir á fornleifum okkar, sem geyma dýrmætan vitnisburð um ótalmargt sem viðkemur afkomu og verkmenningu þjóðarinnar í heild, sambúð hennar við landið og óblíð náttúruöfl allt aftur á landnámstíma.
Það er hverjum hugsandi manni ljóst, að allt um þetta er ekki að finna í varðveittum ritheimildum, sem auk þess eru snöggtum yngri en elstu minjar um búsetu í landinu. Það er hins vegar alls ekki viðurkennd aðferðafræði innan fornleifafræðinnar (og á raunar við um vísindarannsóknir á hvaða sviði sem er) að gefa sér niðurstöðu fornleifauppgraftrar fyrst á sögulegum grunni, og leita svo allra ráða til staðfestingar á „trú“ sinni (þ.e. fyrirframgefinni niðurstöðu).
Eða „ganga í skrokk“ á helstu minja- og sögustöðum með leit að tiltölulega vel þekktum atriðum í seinni tíma sögu okkar að leiðarljósi, svo sem skólahúsum eða prentsmiðjum biskupa eða öðru slíku. Slíkt er ekki ámælisvert í þágu sögudýrkunar eða ferðaþjónustu, en þetta er hvorki vísindaleg fornleifafræði né samræmist heldur skilvirkri fornleifavernd. Þar er verið að villa okkur sýn.
Það er mikilvægt, að þeir sem fá leyfi til að stjórna uppgröftum á íslenskum fornleifum, hafi heildstæða menntun og lokapróf að baki í fornleifafræði og hafi öðlast reynslu og þroska (þ.e. skilning) á ábyrgð sinni. Slík hæfnisskilyrði fyrir rannsóknaleyfum er skilvirk (þ.e. ábyrg) fornleifavernd. Sérþarfir okkar (þ.e. þjóðarinnar) til viðhalds og styrktar eigin fornleifavernd og fornleifafræði eiga að vera í fyrirrúmi við veitingu uppgraftrarleyfa, enda slík afstaða ríkjandi í öðrum Evrópuríkjum, þar sem fornleifafræðin hefur löngum átt sér sterka stöðu við helstu háskóla. Sönn fornleifafræðikennsla (ekki sem hliðargrein eða þjónustufag við önnur fræðasvið á háskólastigi), er forsenda þess, að fornleifafræðin geti þróast áfram sem sjálfstætt vísindasvið hjá okkur!
Hjá okkur hefur á hinn bóginn lítið sem ekkert faglegt aðhald verið fyrir hendi á sviði fornleifafræði. Nauðsynlegur bakhjarl fyrir þróun hennar sem vísindasviðs, hefur ekki verið fyrir hendi. Í Háskóla Íslands eru það „sagnfræðileg“ sjónarmið sem hafa ráðið því hvernig líta beri á hlutverk fornleifafræðinnar, án tillits til sjálfstæðis hennar sem háskólagreinar.
Í „opnu bréfi“ eins postulans í sagnfræðiskor (sem hefur setið á kennslustóli í aldarfjórðung) til „kollega“ sinna í heimspekideild á liðnu sumri, þegar hann gat ekki sætt sig við meirihlutaniðurstöðu samkennara sinna á fundi í sagnfræðiskor, þess efnis að vísa frá hlutdrægu dómnefndaráliti um umsækjendur um starf kennara í fornleifafræði við skorina og auglýsa starfið á ný.
Þar segir hann orðrétt m.a.: „sagnfræðingar eru best allra fallnir til þess að meta hæfni fornleifafræðinga, því eitt meginhlutverk fornleifafræði er að framreiða rannsóknarniðurstöður til samanburðar og ögrunar við niðurstöður sagnfræðinga af ritheimildum“!
Höfundur er dr. í fornleifafræði og sjálfstætt starfandi fræðimaður í Reykjavíkur Akademíunni með 30 ára feril í fornleifarannsóknum hér á landi sem erlendis.“
Síðan eru liðin 23 ár – að því er virðist án nokkurra áþreifanlegra breytinga til batnaðar í undirstöðum fræðigreinarinnar. T.d. tekur a.m.k. nokkra mánuði fyrir „venjulegt“ fólk að fá einhver svör sem skipta máli frá nefndum stofnunum, ef þau fást þá á annað borð…
Heimild:
-Morgunblaðið, 254. tbl. 10.11.2002, Minjavernd á villigötum! – Margrét Hermanns-Auðardóttir, bls. 34-35.





















