Mosfell – Silfur Egils II
Í síðustu ferð FERLIRs þar sem metnar voru aðstæður í Bæjargili og Kirkjugili í sunnanverðu Mosfelli kom fátt fram er bent gæti til þess að silfur Egils væri þar að finna. Gilin eru, og hafa væntanlega ekki verið, vænleg til fjárfelu.
Nú var kíkt á Kýrgilið, það austasta af þremur fyrrnefndum. Gilið er jafnframt það grynnsta og lengsta af þeim. Á bökkum þess og ofar eru gróningar undir og millum mela. Þegar komið var upp fyrir brúnir, í gróningana, sáust tvær mannvistarleifar. Sú fyrri virðist vera af fornu húsi, en það efra er torráðnara. Fuglasöngur fyllti lognið við undirspil gilslækjarins. Þegar komið var að efri mannvistarleifunum tók málmleitartæki, sem hafði verið með í för í öðrum tilgangi, vel við sér – lét jafnvel svo illum látum að ekki var komist hjá því að slökkva á því til að fá viðværunæði á vettvangi.
Reglugerð um þjóðmunavörslu (374/98) segir m.a. að „yfrborðskannanir (mælingar, myndun o.þ.h.), jarðsjármælingar, kannanir með málmleitartæki (eftir leyfi þjóðminjavarðar) og aðrar þær aðgerðir á fornleifasvæðum, sem ekki hafa í för með sér jarðrask, teljast ekki til fornleifarannsókna í merkingu 54. gr. og 1. mgr. þessarar greinar.“
Í Þjóðminjalögum (107/2001) segir í 16. gr. að „óheimil er notkun málmleitartækja eða annars tækjabúnaðar við leit að forngripum í jörðu nema með sérstöku leyfi þjóðminjavarðar.“
Hér er reyndar um einstaklega þröngsýnt ákvæði að ræða, sett til að minnka líkur á að „einhverjir“ leiti að forngripum með málmleitartæki og „skjóti þeim undan“. Skynsamlegra væri að hvetja fólk til að nota málmleitartæki við leitir að forngripum – og að tilkynna um árangurinn. Í 19. gr. Þjóðminjalaga er t.a.m. hvati til þess að svo verði, sbr. að „nú finnst forngripur úr gulli eða silfri, þar á meðal gullpeningar eða silfurpeningar, og skal þá Fornleifavernd ríkisins meta málmverð hlutarins og leggja ofan á tíu af hundraði. Skal annar helmingur fjárhæðarinnar greiddur finnanda en hinn landeiganda…“
Í fyrsta lagi eru mjög litlar líkur á að forngripir finnist með hjálp tækjanna hér á landi (það hefur verið reynt af „sérfræðingum“) og í öðru lagi, ef slíkur gripur myndi finnast, þá má telja næsta öruggt að haft yrði samband við Þjóðminjasafnið, enda myndi hann verða lítt eigulegur hversdags og án allrar verðskuldugrar athygli. Fundurinn myndi áreiðanlega kalla á forvörslu og varðveislu, umleitan tengsla og samhengis og nánari uppljóstrun eða frekari upplýsingagjöf. Forngripir, sem finnast hér á landi, eru ekki í svo „eigulegu ástandi“ eða slíkt augnayndi að ástæða sé til að takmarka möguleika á fundi þeirra og þar með auknum líkum á almannayndi með framangreindu lagaómyndarákvæði.
Með aukinni notkun málmleitartækja aukast hins vegar líkur á að eitthvað áhugavert finnist, sem ella myndi liggja óhreyft í jörðu og engu til gangs.
Annað ákvæði laganna (18. gr) kveður á um að „forngripir eru lausar fornminjar, einstakir hlutir, 100 ára og eldri. Þegar forngripir finnast sem liggja eða legið hafa í jörðu skal finnandi tilkynna Fornleifavernd ríkisins fundinn svo fljótt sem við verður komið.“ Hér fara reyndar ákvæði laganna og raunveruleikinn lítt saman því varla er til verri stofnun en Fornleifaverndin til að annast móttöku slíkra tilkynninga. Hafa viðbrögð hennar hingað til frekar virkað fælandi en hvetjandi. Það eitt, umfram öll boð og bönn, dregur úr áhuga fólks á að tilkynna fundi, en eykur að sama skapi líkur á að munir skili sér ekki til opinberrar varðveislu.
Til að auka líkur á afrakstri fornleifakannanna hér á landi er nauðsynlegt að skapa sameiginlegan (vinsamlegan) vettvang fræðimanna og áhugafólks þar sem víðsýni, jákvæðni og skilningur ræður ríkjum.
Spurningin er hvort minjarnar á meðfylgjandi mynd, sem var tekin í ljósaskiptunum, gæti gefið til kynna hugsanlegan hvílustað þræla þeirra er Egill átti að hafa drepið eftir að hafa komið silfursjóð sínum fyrir á „öruggum“ stað? Stærðin gefur a.m.k. vísbendingu um tvöfalt mannvistarrými.
Frábært veður – sem og útsýni og hljómlist kvöldkyrrðarinnar.