Ögmundarhraun – eldfjallaferð
Gengið var upp frá Ísólfsskálavegi eftir gamalli götu að gígaröð þeirri er hluti Ögmundarhrauns kom úr haustið 1151. Síðan var formfagurri gígaröðinni fylgt til efsta gígsins í þeim hluta. Í henni er m.a. að finna fjárskjól með miklum hleðslum, bæði fyrir og inni. Sennilega hefur hann þjónað Þórkötlustaðaseli á og meðan var í notkun þar skammt ofar.
Til baka var gengið um slétta völlu er þrautseigur lækur í gegnum hraunið hefur mótað um aldir – og er enn að á leið sinni til sjávar.
Ögmundarhraun rann úr gígaröðinni framundan árið 1151, eða fyrir 857 árum síðan. Þeirri eldgosahrinu er þá hófst hefur síðan verið kennd við Krýsuvíkurelda. Þá gaus einnig við Trölladyngju. Afstapahraun og Kapelluhraun eru auk Ögmundarhrauns afsprengi Krýsuvíkureldanna. Um 25 metra löng sprunga opnaðist og hraun rann til sjávar bæði norðan og sunnan megin við Reykjanesskagann. „Hraun, þú talar um hraun. Hvað er það?,“ varð einhverjum að orði. „Hraun er það, sem þú stendur á, jarðskorpan.“ Hraun er reyndar jarðskorpa eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos. Hitastig sem getur verið frá 700 – 1200°C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun. Hér kom glóandi kvikan upp um sprunguna, sem gígaröðin myndar nú, flæddi út frá henni undan hallanum og storknaði – myndaði hraunið. Nú þekur það lægðir milli hæða og hóla, sem fyrir voru, auk þess það rann til sjávar og jók verulega við landið að sunnanverðu. Fyrir gosið var ströndin mun vogskornari, með litlum grunnum víkum. Ein þeirra nefndist Krýsuvík, en „krýs“ er gamalt orð yfir grunna skoru í aski. Ofan við víkina var þétt byggð, enda væntanlega verið góð lending innan við hana.
Þegar Ögmundarhraun rann yfir byggðina eyddi það byggðinni – að mestu. Það hélt þó eftir og umfaðmaði hluta af henni, svona til að eiga eitthvað til minningar um það sem þá var – og hafði verið. Tóftirnar við Húshólma, garðarnir í hólmanum og hvorutveggja í Óbrennishólma þar skammt vestar gefa til kynna að þarna hafi áður verið allnokkur byggð. Ekki einungis öskulagið frá gosinu 1151 þekja rústirnar heldur og öskulagið í Kötlugosinu frá árinu 872. Það vekur von um að byggðin við Krýsuvík hafi verið þar þegar fyrstu norrænu landnemarnir sigldu framhjá og tóku sér bólfestu norðar á Reykjanesskaganum.
Annars er Reykjanesskaginn stórbrotin kennslubók í jarðmyndunarfræðum. Á Reykjanesgosbeltinu eru 12-15 gos þekkt frá nútíma. Segja má að Reykjanesskaginn sé þakinn gosmenjum því að
nánast milli allra stapa og hryggja eru hraun frá nútíma. Það einkennir Reykjanesskagann hversu gróf þessi hraun eru og landslagið virðist því oft snautt af gróðri. Engar ár renna á yfirborði og því er lítið sem getur haldið lífi í gróðri. Lækir eru þó nokkrir. Þeir minnstu virðast hafa getað afkastað mestu hvað landmótunina varðar, s.s. hér í Ögmundarhrauni, í Króksmýri, á Lækjarvöllum og á Höskuldarvöllum, skammt ofar.
Á Reykjanesskaganum kemur Atlantshafshryggurinn á land og má ímynda sér að Reykjanestáin yst á skaganum sé þar sem hann er að teygja sig upp á landið. Þrjú goskerfi eru á Reykjanesskaganum; Reykjaneskerfið, Trölladyngjukerfið og Brennisteinsfjöll. Þrjár gerðir gosmyndana einkenna Reykjanesskagann en það eru litlar dyngjur sem hafa framleitt að mestu leyti framleitt Pikrít, önnur tegund er sprungugos sem hafa myndað hraun eins og Ögmundarhraun og Kapelluhraun.
Sprungugos hafa einnig skilið eftir sig gjall- og klepragíga og gjósku- og sprengigíga. Berggerð þeirra er oftast þóleiít. Þriðja gerð gosmyndana eru stórar dyngjur en líklega eru um 26 dyngjur á skaganum frá nútíma. Þær eru því áberandi á Reykjanesskaganum stundum tekur maður þó ekki eftir þeim þar sem hallinn á þeim er svo lítill og stærð þeirra er slík að maður missir eiginlega af þeim þær framleiða að mestu ólivín þóleiít (78% gosefna).
Talið er að stóru dyngjurnar séu allar eldri en 4500 ára (Ari Trausti 2001).
Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtishraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ber mest á mó og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hafa runnið frá. Allmargar eldstöðvar eru á Krýsuvíkurjörðinni en þær merkustu eru Stóra- og Litla-Eldborg undir Geitahlíð sem eru á austurmörkunum og sprengigígasvæði austan til í Sveifluhálsi. Stóra-Eldborg er 50 m há og gnæfir yfir umhverfið, 30 m djúp og mjög regluleg. Fáein samfelld gos hafa orðið á sögulegum tíma: Yngsta goshrinan (Krýsuvíkureldar) er talin hafa staðið 1151-1188, og Ögmundarhraun og Kapelluhraun runnið um 1151 og hrinunni lokið með gosi í Mávahlíðum.
Gjall- og klepragígaraðir eru víða þar sem gosið hefur apalhrauni á sprungum. Sprungugos af þessari gerð eru mjög algeng hér á landi og einkennandi fyrir eldvirkni landsins og virðist svo hafa verið frá upphafi jarðsögu Íslands. U.þ.b. 52% Reykjanesskagans (mælt úr botni Kollafjarðar til Þorlákshafnar) er þakinn hraunum, sem runnu eftir síðasta skeið ísaldar (43 km²).
Ef hægt væri að kalla einhver gos einkennisgos Íslands væru það sprungugosin. Þau geta verið nokkur hundruð metra upp í tugi kílómetra. Oft myndast gígar þegar líður á svona gos og þeir geta verið eins eða blandaðir.
Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við hraunrennsli á yfirborði kallast gosberg.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.
Helluhraun (e. Pahoehoe; úr Hawai’isku) er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Stærstu helluhraun heims eru á Hawaii en einnig eru helluhraun á Íslandi; svo sem Þráinsskjaldarhraun og Sandfellshæð.
Apalhraun (e. Aa, úr havaiísku) er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Dæmi um apalhraun er sum hraunin sem liggja yfir Suðurnesin.
Þegar komið var upp að gígaröðinni fyrstnefndu var henni fylgt til norðurs. Nokkrir myndarlegir gígar eru í henni og sumir dýpri en aðrir. Í þeim dýpsta er gat, sem kíkja þarf inn í við tækifæri. Sprungureinin hefur, meðan hún var virk á sínu tæplega 40 ára tímabili, verið tæplega 100 metra breið. Virknin hefur ekki alltaf verið allsstaðar heldur hefur hún greinilega færst til, þ.e. dottið niður um tíma, en síðan vaknað að nýju og þá myndað nýjar gígaraðir, gjallrana og hraunbreiður.
Fjárskjólið reyndist stútfullt af snjó þrátt fyrir tiltölulega lítinn slíkan að öllu jöfnu á svæðinu. Víðast hvar sást í auða jörð. Snjórinn var hins vegar frosinn svo ómögulegt var að reyna inngöngu. Þó sáust vel fótspor tófunnar, sem hafði vaknað snemma og farið vítt yfir í leit að þeirri einu upp til heiða, rjúpunni.
Læknum var fylgt inn á Suðurvelli og síðan niður hraunið milli Mælifells og Latshóla. Fáir vita af þessum litla læk. En „margur er knár þótt hann sé smár“. Í tæp 860 hefur hann af einurð hlaðið markvisst undir sig uppruna sínum, úr hlíðum Hettu og Sveiflu í Sveifluhálsi. Og það einungis yfir sumartímann, því hann, líkt og aðrir lækir, leggjast gjarnan í dvala á veturnar – bæði vegna efnisleysis og frosta. Hann hefur jafnan náð að þétta gljúpt hraunið og þannig komst áfram, smám saman. Þegar lækurinn mætti fyrirstöðu beygði hann af leið og reyndi fyrir sér á nýrri og lægri slóðum. Þannig hefur þetta gengið – svo vel að nú er hann kominn niður fyrir Ísólfsskálaveg og á væntanlega um fimmtungs leið eftir til sjávar. Með læknum eru grónir grösugir bakkar, sem féð hefur síðan sótt í og aðstoðað við að móta hraunlenduna á þessu svæði.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-Málfríður Ómarsdóttir – Reykjanesskagi – náttúrusaga og eldvörp, apríl 2007.
-Jónas Guðnason – Eldvirkni á Íslandi á nútíma, apríl 2007.