Óskot – Tóftin
Þegar gengið var nýlega um norðvestanverða jörðina Óskot var gengið fram á tóft, sem virtist mjög gömul. Hún var augljós ofan frá heiðarbrúninni að sjá; grasi gróinn blettur í mólendinu. Þegar nær dró sást móta fyrir hleðslum, auk þess gera mátti ráð fyrir húsaskipan. Við fyrstu sín virtist þarna vera um fjárhústóft að ræða. Og þegar örnefnaskrá fyrir Óskot var skoðuð nánar kom eftirfarandi í ljós:
„Jörðin liggur vestanvert við Hafravatn, en sunnan við Úlfarsá. Þar sem áin kemur úr vatninu, heitir Ós, sem bærinn dregur nafn af. Nafnið er gamalt, frá því fyrir svartadauða; svo er mýri inn með vatninu, sem heitir Mómýri, og stórt, ávalt holt milli hennar og bæjarins heitir Holt. Austur af Holtinu er lítill lækur, sem heitir Rás, og þar austar er lítið holt, sem heitir Litlaholt, nær austur að á móts við bæ; þar austur af heitir Vörðuholtsmýri niður í Hafravatni (svo) og upp að holti, og efst í henni eru tvö lítil holt, sem nefnd eru Hulduhólar. Smámýrarhaft er milli þeirra. Austur af mýrinni er svo Vörðuholt, bungumyndað, hátt holt. Svo koma Eyrar, þar norðaustur frá Vörðuholti með vatninu, sléttar flatir að ánni.“ Þá segir frá Fjárhúsmel suðaustan frá bænum og Gömluhúsum, beitarhúsum, í heiðarbrúninni. Þær minjar á eftir að staðsetja og skoða (verður gert fljótlega).
Þá segir ennfremur: „Vestur af Fjárhúsmel eru valllendismóar, sem heita Mýrarver; þetta eru nefnd þau Efri-, en þau neðri eru í Reynisvatnslandi. Efsta mýrin upp við heiðina heitir Háavik, er í mýrarjaðri; þar austur af er svo Heybandsflöt, slétt valllendisflöt. Þá eru nafnlausar mýrar; milli þess og túns er framhald af Vörðuhólsmýri, svo er niður með heiðinni Tóft, ævagömul beitarhús; svo er aðeins neðar stór steinn á merkjum, sem heitir Skjóni. Svo er mýri, nefnd Neðrimýrar. Neðst í henni heitir Skógarholt, er niður við ána. Þau eru tvö, en milli þeirra er mýri, nafnlaus, en skilgreind sem Mýrin milli holtanna. Upp við tún er dýjavilpa í túnhorni, Mósulind.“
Hérna var sem sagt Tóftin komin, ævargömul beitarhús.
Þrátt fyrir mikla sinu, sem umliggur tóftina má greina rými sem og stærð þeirra. Veggir standa grónir, en erfitt er, sem fyrr sagði, að sjá að hér sé um tóft að ræða nema komið sé að henni ofan af heiðinni. Ofan við tóftina er varða, sennilega landamerkjavarða frá Óskoti.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.