Reimleikar í Valahnúkshellinum
Árið 1804 rak á land á svo nefndri Valahnjúksmöl á Reykjanesi geysistóran timburflota. Var hann alveg ein samfelld heild og gyrtur afardigrum járnböndum. Allt voru það ferstrend tré. Það var til marks um stærð flotans, að 10 metra löng tré stóðu upp á endann í honum. Töluvert hafði verið af fötum og fataræflum upp á flotanum, og var haldið, að skip það, sem hafði hann aftan í, hefði farist, en skipshöfnin komist á flotann, en skolast svo aftur af honum í ofviðrinu.
Þegar mannfjöldi mikill hafði bjargað öllu timbrinu undan sjó, fór opinbert uppboð fram; voru þar mættir bændur úr allri Gullbringusýslu. Seldust trén á 4-8 dali hvert, sum þó nokkuð meira, allt upp að 12 dölum einstök tré. Allt voru þetta rauðviðartré, sem kallað var, og valinn viður. Til marks um gæði viðarins, þá var rifið hús eitt í Höfnum sumarið 1929, sem byggt var að mestu leyti úr Reykjanesstrandinu, og var mikið af viðnum alveg óskemmt eftir meira en heila öld. Mestan hluta trjánna keyptu Hafnahrepps- og Vatnsleysustrandarmenn á uppboðinu, dálítið lenti úti á Rosmhvalanesi, en minna í Grindavík og innhreppum sýslunnar. Ár eftir ár voru menn svo úr þessum sveitum að fletta trén í borðvið. Voru borðin svo flutt á hestum í dráttarklyfjum til eigendanna, og sjást vegslóðarnir inn Hafnaheiðina enn í dag, þar sem Strandarmenn og aðrir innan Stapa fóru með lestir sínar.
Hafnamenn einir söguðu lítið af trjánum suður frá, en reru þau aftan í skipum sínum, þegar logn og ládeyða var. Höfðu þeir oft 4-5 tré aftan í einu; var þá lagt af stað um háfjöru að sunnan og norðurfallið látið létta róðurinn með trén, og ef vel gekk, var lent í Kirkjuvogsvörinni um háflæði eftir 6 tíma þembingsróður. Engin byggð var þá á Reykjanesi og urðu sögunarmennirnir því að liggja í tjöldum eða grjótbyrgjum, er þeir hrófuðu upp og skýldu sér í yfir nóttina. En brátt urðu menn þess varir, að uppi á Valahnjúkshamrinum að sunnanverðu, beint upp af þeim stað, þar sem þeir voru að saga, var hellir; skoðuðu þeir hann, og leist þeim hann mjög girnilegur til hvíldar, því að þar var þurr, bjartur og hlýr bústaður fyrir hretviðrum haustsins. Hugðu nú margir gott til þessa staðar fyrir sjálfa sig og seppa sína.
Næsta dag var svo hafinn krossmessuflutningur úr tjöldum og grjóthreysum upp í hellinn. Bjuggu menn um sig eftir föngum og gjörðust glaðir mjög; var svo etið og drukkið af kappi miklu, sungin kvæði og sögur sagðar og hlegið dátt, svo að hellirinn glumdi við. Loks voru þó lesnar bænir og lagst til hvíldar. Hvíldi nú grafarkyrrð og helgur friður yfir hellisbúum hálfrar eyktar stund. Allt í einu tóku hundarnir að urra og gelta, og í sama vetfangi var kallað:
„Rífið hann Jón upp; hann er að hengjast. Heyrði þið ekki korrið í honum? Og nú er það komið ofan á hann Brand og hann Gvend og ætlar þá alveg að drepa.“
„Komið með kerti fljótt og kveikið ljós.“
Nú kom öll hundaþvagan þjótandi og skrækjandi upp í fangið á hellisbúum, og skriðu hundarnir titrandi upp fyrir húsbændur sína og þorðu sig ekki þaðan að hreyfa. Kertið fannst ekki í fátinu og myrkrinu, en úti var aftakaveður af landsuðri með úrfelli, en inni voru reimleikar þeir, sem sóttu að andfærum manna og dýra, og mátti því segja, að menn væru þarna milli steins og sleggju, því að hvorugur kosturinn var góður, að flýja út í veðrið eða reyna að haldast við í hellinum, þar til dagur ljómaði á lofti. Loks urðu hellisbúar ásáttir um að hreyfa sig ekki, en hafa við bænir og sálmasöng, það er eftir var nætur.
Var nú allt með kyrrum kjörum, á meðan allir voru vakandi, og hellirinn bergmálaði af bænahaldi og sálmasöng. En er lifa myndi þriðjungur nætur, gerðust sumir af hellisbúum svefnhöfgir mjög og hugðu á hvíld um stund; áttu þeir, er vöktu, að vera trúir í hinu andlega starfi og vera til taks, ef friður yrði rofinn eða korr heyrðist í hálsum hinna sofandi manna. En ekki var mönnum þessum fyrr siginn blundur á brá en sömu ósköpin byrjuðu aftur, hundarnir vitlausir með ýlfri og emji, en mennirnir með kyrkingshljóði og korri miklu þar til félagar þeirra voru búnir að fá þá til fullrar meðvitundar. En nú gekk vindur til vesturs og veðrið batnaði, og skammt var til morguns, fóru því mennirnir allir hið bráðasta út úr hellinum og kvöddu hinn ógestrisna hellisráðanda með ófögrum kveðjum.
Liðu svo full 50 ár, að enginn maður varð til þess að leita skjóls í helli þessum, en árið 1862 leigði presturinn að Stað í Grindavík bændum í Hafnahreppi nokkuð af rekalandi prestssetursins. Bóndinn í Kalmannstjörn leigði svonefndar Krossvíkur sem eru stuttan spöl fyrir austan Valahnjúkinn og nálægt landamerkjum Staðar og Kalmannstjarnar. Valahnjúkurinn fylgir Kalmannstjörn.
Veturinn 1865 rak stórt, ferkantað tré á Krossvíkum. Sendi bóndinn vinnumenn sína og sjómenn marga til þess að koma trénu undan sjó og undir sögun, því að hann ætlaði að láta saga tréð þar suður frá. Lá svo tréð allt vorið og sumarið fram yfir höfuðdag á sögunarpallinum, en seint í september voru tveir vinnumenn, Þorleifur og Eyjólfur, sendir suður eftir að saga tréð. Voru þeir útbúnir með nesti og nýja skó, sængurföt og fleira. Loks var tjaldið og tjaldsúlurnar tekið niður af háalofti.
„Hvað eigum við að gera við þetta?“ spurði Leifi gamli.
„Auðvitað liggið þið ekki undir beru lofti,“ var honum svarað.
„Það ætla eg ekki heldur að gera,“ segir Leifi. „Eg ætla að lofa Valahnjúkshellinum að hýsa okkur“. Þá var Leifi minntur á ósköpin, sem á gengu, þegar Reykjanesstrandið var, en Leifi svaraði með því einu, að lygaþvættingur, heimska og hjátrú vitlausra manna hefði engin áhrif á sig.
Og svo lögðu þeir Þorleifur og Eyjólfur af stað með hund og hest og tjaldlausir. Eyjólfur var með afbrigðum blótsamur, og mátti segja, að hann tæki ærið oft upp í sig.
Næsta morgun um fótaferðartíma er Eyfi kominn á Blágrána gamla að sækja tjaldið. Nú átti auðvitað að spyrja Eyfa spjörunum úr; en það hafðist ekkert annað upp úr honum en hinar óttalegustu formælingar og helv… hann Kolur, og þóttust sumir hafa heyrt tóninn frá Eyfa suður um allt tún, er hann lagði af stað með tjaldið. En víst er, að Þorleifur þjappaði að Eyjólfi með að láta aldrei uppi við neinn, hvernig þeim reiddi af þessa einu nótt í Valahnjúkshellinum og aldrei hafðist neitt frekara upp úr þeim félögum um dvöl þeirra í hellinum.
Sjá meira um strandið við Valahnúkamöl HÉR.
Heimild:
-Rauðskinna I 161.