Reykjanesskaginn – verslun og verslunarstaðir fyrrum

Íslandskort 1590

Á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs, eru a.m.k. 12 þekktir verslunarstaðir frá upphagi byggðar og fram á 18. old. Þessir staðir voru Járngerðarstaðir, Staður, Hafnir, Básendar, Keflavík, Vogar, Bieringstangi, Hafnarfjörður, Reykjavík, Blikastaðir, Hvammur og Búðasandur (Maríuhöfn).

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum á 17. öld.

Í BA ritgerð Sigurjónu Guðnadóttur til náms í fornleifafræði, „Nautn og nytjar„, frá árinu 2012 er m.a. fjallað um uppgrafna verslunarstaði hér á landi og erlenda gripi, en í henni er einnig fjallað um verslun í hinu sögulega samhengi:

„Verslun og viðskipti hafa þekkst á milli manna hér á landi um langa tíð. Vöruviðskipti og verðlagning hefur gengið manna á milli og þróast í gegnum tíðina um leið og vöruleiðir breyttust og breiddust út með tilheyrandi afleiðingum.
Viðskipti og vöruskipti þekktust vel þar sem erlendir aðilar komu til Íslands með varning frá heimalandi sínu og hafa fornleifarannsóknir sýnt það, og eins eru til ritaðar heimildir um verslunarstaðina og hvernig lög voru í kringum þessa verslunarstaði.
Eftir landnám voru verslunarstaðirnir fáir á mikilvægum stöðum, en eftir að verslun Englendinga og síðan Þjóðverja fór vaxandi á 16. öld, fjölgaði stöðunum með tilheyrandi átökum. Sautjánda og og 18. öldin einkenndust síðan af einokunarverslun Dana.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Þar sem Ísland byggðist fyrst og fremst á bændasamfélagi, munu bændur sem hafa ætlað sér að taka þátt í vöruskiptum og verslun getað framleitt eitthvað umfram það sem þá vantaði fyrir bæi sína og ábúendur. Allt sem var umfram sjálfsnotkun á vörum var þá hægt að reyna að selja eða til að skipta út vörum fyrir aðrar sem hafa verið meiri þurfi fyrir bæinn.
Til að skilja tilgang verslunarstaðanna verður reynt að greina hugsunarháttinn á bak við þá, lögin, gjaldeyri og verð og hvers lenskir þessir viðkiptamenn voru sem komu til Íslands til þess að eiga viðskipti við heimamenn. Hægt er að sjá út frá legu og útfærslu á verslunarstöðunum að einhvers konar stýring og hugsunarháttur hefur farið fram á þessum stöðum. Staðirnir voru jafnan uppsettir sem lítil verslunarþorp og einhver miðstýring hefur verið við þessa staði. Reynt að finna tengingu á þeim hvað varðar uppsetningu þeirra og jafnvel hvort það hafi verið menn frá sama landi sem settust að á fleiri en einum stað.

Vissulega voru einhver lög um hvernig átti að hegða sér varðandi verslunarstaði. Skattar og annað fylgdi því að fá að leggja að landi og stunda sín viðskipti.
Nokkuð áberandi þykir að sjá í Biskupasögum að sjómenn og kaupmenn hafi heitið á biskup við Íslandsstrendur til að komast klakklaust að landi. Í því samhengi er helst heitið á Þorlák biskup sem var biskup í Skálholti frá árunum 1178 – 1193. Þar má nefna að kaupmenn sem komu frá Vestmannaeyjum og voru á leið sinni til Eyrar (Eyrarbakka), líklegast með varning, lentu í slæmu óveðri og hétu á Þorlák biskup um að þeir kæmust á leiðarenda. Fyrir kraftaverk hætti óveðrið og þeir komust samdægurs til Eyrar. Ekki er sagt frá því þarna hverju þeir hétu á Þorlák, en til eru í Biskupasögunum frásagnir um hverju var heitið fyrir góðan byr og örugga ferð.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

En þó svo að verslunarstaðirnir séu nefndir, þá hefur það sést að í fæstum tilvikum eru einhver viðskipti í gangi. Þessir staðir virðast frekar vera samkomustaðir þar sem fólk var að koma til landsins.
Ritaðar heimildir segja ýmislegt sem fornleifar myndu ekki sýna okkur. Þá helst um mannlífið og hvernig menn áttu að haga sér varðandi viðskiptahættina og samskipti við hina og þessa sem stunduðu viðskiptin eða réðu yfir svæðunum. Óháð því hvaða staður er til umfjöllunar, þá kemur sum staðar skýrt fram hvað mátti og hvað ekki á þessum stöðum á meðan aðrar heimildir sýna það aðeins óbeint s.s. verðlag á vörum og skatta. Þá er einnig mikilvægt að skilja hvernig almenn starfsemi hefur farið fram á stöðunum, á annan hátt en að þar hafi aðeins verið vörur til að eiga viðskipti með. Líkt og í dag hafa vörurnar kostað eitthvað, burtséð frá því í hvers konar formi gjaldeyririnn var. Þessar vörur þurfti að vega og meta.

Í íslensku fornbréfin segir að sex skip hafi átt að koma til landsins á hverju ári. Mikið misræmi er í túlkun þeirra. Í bréfi sem skrifað var á Þingvöllum þann 1. júlí 1419 segir; „Kom oc ydart bref hit j landhit til oss j huerio ij forbudut oss ath kaupslagha met nokora vtlendska mænn. En worar rettarbetøtr giora suo raadh firer atg oss skyldæ koma sæx skip af noreghi arligha: huat sæm æi hefuer komit vpp a langha tima: huar af ydr naadh ok þetta fatæka landh hefuir tækit grofuan skada:…“.

Búðasandur

Búðasandur – uppdráttur.

Í Lögmanns annál frá árinu 1419, þaðan sem þessi texti kemur, útskýrðu Íslendingar í bréfi til Eiríks konungs hvers vegna þeir skiptu við útlendinga þrátt fyrir bannið sem sett hafði verið á þá. Bréfið er undirritað af 24 mönnum þar sem tveir eru lögmenn og einn hirðstjóri.
Gamli sáttmáli er skrifaður á eftir bréfinu eða á 15. old. Tilgangurinn með bréfinu var að sýna fram á hvernig Ísland hafi verið áður en Íslendingar gengust undir stjórn Noregskonungs og að Íslendingar hafi ákveðið að sameinast konungi vegna fátæktar sem var í landinu, átti þá konungurinn að vera n.k. verndarhringur.
Í þessu skjali eru nefnd skipin sex sem áttu að hafa komið til Íslands og segir í bréfinu að þeir vilji þjóna konungi í samræmi við sín fornu lög, hefðir og skilmála sem forfeður þeirra settu.
Eins og áður kom fram hafa þessi sex skip verið túlkuð á ýmsan hátt og m.a. hefur til dæmis verið talið að þessi skip hafi verið tilraun konungs til einokunar á Íslandi, setja skorður konungs yfir vald viðskipta Íslendinga og Norðmanna og að tryggja kaupsiglingu fyrir afurðir sínar.
Ekkert bendir til að viðskiptakjör Íslendinga hafi farið versnandi um miðja 13. öld eða að illa hafi gengið að fá skip til landsins. Að tengja skipin sex við fátækt landsmanna hafi varð til á 15. öld, meðal annars þegar Íslendingar hylltu Eirík af Pommern árið 1419 en Lögmanns annáll greinir frá því að árið 1413 hafi Eiríkur af Pommern bannað alla verslun Íslendinga við útlenda kaupmenn sem þeir höfðu ekki skipt við áður. Aftur á móti hafði konungurinn í Englandi lagt blessun sína yfir viðskiptin á milli þeirra og Íslendinga. Það sem hvatti helst Íslendinga til að taka saman í sáttmálana var áhuginn á viðskiptum við Englendinga sem voru að aukast til muna og frekari bein viðskipti voru í gangi.

Maríuhöfn

Maríuhöfn 2020.

Ýmsar túlkanir hafa komið fram á þessum texta varðandi skipin sex og hvort fátækt hafi virkilega ríkt á Íslandi á 14. og 15. öld en þessi texti virðist vega þyngra en ýmsir aðrir textar sem er að finna í íslenskum fornritum. Það sem þykir svona mikilvægt við þetta textabrot er mikilvægi Íslendinga við samskipti erlendis og þá hvernig viðskiptin hafa farið fram. Var allt komið í ólag á 14. öld þannig að Íslendingar neyddust til að biðja um aðstoð frá Noregskonungi og þar af leiðandi að fá aðeins sex skip til Íslands á hverju ári, eða var þetta leið konungs til þess að einoka viðskipti Íslendinga eingöngu við Norðmenn?
Björn Þorsteinsson telur hins vegar að ekki sé víst að Íslendingar hafi í raun verið háðir Norðmönnum varðandi matvælainnflutning þar sem hann telur að sex skip til landsins hefðu ekki nægt til að flytja allt sem Íslendinga vantaði á síðari hluta 13. aldar, heldur að Íslendingar hefðu þurft að koma afurðum sínum á markað og að þessi sex skip hefðu verið nægilega mörg til þess. Þannig hafi verslun ekki verið svo illa stödd á þessum tíma þrátt fyrir það sem ritaðar heimildir virðast gefa í skyn.
Helgi Þorláksson tekur undir þetta og segir Gunnar Karlsson þar sem hann vitnar í Helga, að með þessum sex skipum hafi þau getað borið samtals 720 tonn, eða ríflega 120 tonn hvert þeirra. Áætlað er að Íslendingar hafi haft um 550 – 660 tonn af vaðmáli til að flytja út ár hvert og passar það við áætlanir á kaupsiglingunum til Íslands sem hafa verið, líkt og sagt var, um 700 tonn.
Líklegt er að umræðan um þessi sex skip séu til komin vegna deilna varðandi fiskveiði og verslun Englendinga á Íslandi á 15. öld. Englendingar voru farnir að venja komur sínar við Íslandsstrendur bæði til viðskipta og til veiða.

Víkingar

Víkingaskip – knörr í legu.

Íslendingar versluðu vel við þá og hafa því viljað halda því áfram þó svo að Noregskonungur hafi sett bann á það. Árið 1412 greinir Lögmanns annáll frá því að ensk skip hefðu komið til Íslands. Sumir fræðimenn hafa dregið þá ályktun að ensk skip hafi ekki komið til landsins áður og því sé útilokað að enskir kaupmenn hafi verið hér á landi undir lok 14. aldar.
Enskir kaupmenn eru samkvæmt heimildum taldir fyrst hafa komið til Íslands árið 1412 og áttu þeir menn að hafa orðið strandaglópar fyrir austan á Mýrdalssandi. Sumarið eftir kom á sömu slóðir enskt kaupskip og endaði með því að sigla til Hafnarfjarðar því skipstjórinn vildi ekki sigla til Eyrarbakka. Þessir kaupmenn höfðu leyfi Noregskonungs til að versla við Íslendinga. Björn Þorsteinsson telur að þetta hafi sem sagt verið fyrstu tveir rannsóknarleiðangrarnir til að versla við Íslendinga. Árið 1413 og 1414 hafa Englendingar verið komnir til að vera við Íslandsstrendur. Í fyrstu voru það fiskiduggur sem voru við strendur Íslands en þegar Englendingarnir þurftu að koma að landi til að fá vatn og mat komust þeir að því að Íslendingar voru tilbúnir að selja þeim vistir og skreið fyrir annan nauðsynlegan varning.
Munur er á Gissurarsáttmála og Gamla sáttmála. Gissurarsáttmálinn er skrifaður af Gissuri jarli Þorvaldssyni og tók aðeins gildi á Norðurlandi og Suðurlandi. Gamli sáttmálinn tók gildi fyrir allt Ísland. Gissurarsáttmálinn kvað á um að sex skip skyldu koma til Íslands næstu tvö sumur þangað sem hentugast þætti eftir landi. Skipin áttu að vera hlaðin þeim gæðum sem Íslendinga vantaði. Íslendingar settu í skilmálaskrá á 14. öld að tvö þessara skipa ættu að fara suður fyrir land á Íslandi. Önnur tvö norðan megin og síðustu tvö ættu að fara sitt hvorum megin við Ísland, vestan megin og austan megin.

Víkingaskip

Steinrissa af víkingaskipi, sem fannst við fornleifauppgröftinn að Stöð hefur líklegast verið verndargripur fyrir erfiða ferð yfir hafið. Danskir sérfræðingar hafa að undanförnu grandskoðað steininn. Þeir efast ekki um að teikningin sé af skipi en þykir hún óvenjuleg.

Miklar breytingar urðu síðan um veturinn 1340 – 1341, en þá komu til landins ellefu skip frá Noregi sem fóru öll á suðurhluta landsins, þar af voru sex í Hvalfirði. En þó virðist sem mismunandi túlkanir hafi verið á þessum lögum eftir því hvaða fræðimaður hefur lesið sáttmálann, Boulhosa telur að samkvæmt sáttmálanum hafi konungurinn ekki áætlað sex skip á Ísland heldur hafi Íslendingar staðið vörð um að a.m.k. sex skip kæmu til Íslands fyrir viðskipti, en Noregskonungur hefði sett á einokun þar sem þýskir kaupmenn voru orðnir færari í viðskiptum. Um aldamótin 1300 var komið á bann frá Hákoni Magnússyni þar sem hann lýsti því yfir að: „Enginn útlenskur maður skyldi flytja góss eða senda norður um Bergvin eða í annars staðar til sölu í hérað eða gera félag til Íslands eða annarra skattlanda míns herra konungs“.

Hafnarfjarðarhöfn

Hafnarfjarðarhöfn 1776-1778 skv. mælingum H.E. Minor.

Talið er að Grágás hafi verið rituð á árunum 1117 – 11183. Í henni er sagt frá ýmsum lögum sem varða verslunarhætti á Íslandi. Lög þóttu það mikilvægasta þegar byrjað var að rita bækur. Í Íslendingabók segir frá þegar Bergþór Hrafnsson hafði fyrsta sumar sitt lesið upp lög Íslendinga og eftir það var ákveðið að rita skyldi þau lög niður. Hann, ásamt fleirum höfðu þá aðsetur hjá Hafliða Mássyni og festu lögin í bók, sem varð Grágás og skrifuðu einnig ný lög sem þeim leist betur á en fyrri lög er voru þá til staðar. Í Grágás er sagt að allir menn nema Norðmenn, skyldu greiða hafnartoll. Slíkt gjald rann til landeigenda og átti verðið að vera „…öln vaðmáls eða ullarreyfi það er sex geri hespu, eða lambsgæru.“ En þeim sem lögðu við land átti landeigandi einnig að útvega húsrúm fyrir komumenn.

Grágás

Texti í Grágás.

Skattur, svo kallaðir landaurar, var lagður á skip Íslendinga sem komu að höfn í Noregi. Sá skattur rann til konungs í Noregi og þurftu þeir að borga skattinn til varðmanna í kaupstöðunum. Gjaldið var sex feldi og sex álnir vaðmáls eða hálf mörk silfurs. Íslendingar nutu þó þeirra fríðinda í Noregi að þeir máttu höggva allan þann við sem þeir þörfnuðust og fengu einnig að njóta vatns þar í landi.
Árið 1425 fullyrðir Hannes Pálsson að konungur fái fjórðung tekna af hverju skipi sem siglir til Íslands þannig að einhver skattur hefur verið lagður á skip sem sigla til Íslands vegna viðskipta. Sé það rétt, telur Boulhosa að það hljóti að hafa freistað kaupmenn til að reyna að komast framhjá banninu og sigla því til annarra hafna en Björgvinjar.
Jónsbók er talin hafa verið tekin í notkun árið 1281 en hún segir lítið til um reglur kaupmanna við verslun, aftur á móti eru ýmis lög í Jónsbók tekur þessa setningu beina frá Norges gamle lov III nr. 55. Bls. 134.

Í Íslendingabók er talað um að fyrsta handritið af lögum Íslands hafi upphaflega verið kallað Hafliðaskrá þar sem þeir höfðu aðsetur á Breiðabólsstað, bæ Hafliða Mássonar og telur Ól. Lárusson að sú bók sé varðveitt í meginatriðum í Grágás.
Lög voru í gildi varðandi magn sem átti að vera fyrir skipsmenn, þannig að miklu skipti greinilega hversu mikið var sett um borð í skipin áður en farið var erlendis. Fyrir tvo menn átti t.d. að vera jafn mikill þungi og samanlagðar þrjár tunnur fullar af vatni, sem átti þá að vera af fatnaði, mat og drykk. Einnig skipti máli í hvers konar ástandi skipin voru en leyfi var veitt til að sigla á skipi sem ausa þurfti úr þrisvar sinnum á tveimur dögum. Nema ef háseti segði til um annað. Komst hásetinn að því að ausið var úr skipum að næturlagi gat það varðað við sektum.

Herjólfshöfn

Herjólfshöfn í Hafnarfirði – forn verslunarstaður.

Einnig segir þar að þegar menn kæmu að landi áttu þeir að hlaða veggi fyrir skip sín og koma sér fyrir. Engan toll átti að greiða, sem var nýtt frá því að Grágás var í notkun. Jónsbók er talin hafa verið skrifuð á árunum 1280 – 1281 sem gerir um 163 ár á eftir Grágás, einhverjar breytingar áttu sér stað þar á milli þó svo stutt sé á milli þessara lagabóka, en engin ástæða var samt gefin fyrir þessum breytingum.
Gamli sáttmáli er sagður hafa verið ritaður á 13. öld þegar Íslendingar gengust undir vald Noregskonungs á árunum 1262 – 1264. Meira kemur fram í sáttmálanum heldur en í annálum og sögum um sama tíma þegar Ísland gekkst undir vald Noregskonungs en slíkt á sér skýringu þó hugmyndum og vangaveltum varðandi tilurð og þýðingu þessa texta hafa verið fleygt fram og aftur.
Sérstök leyfi voru gefin til viðskipta á milli landa þar sem konungurinn hafði stjórn. Með þessum leyfisveitingum gat konungurinn komið á viðskiptum við enska kaupmenn sem höfðu verslað lengi við Norðmenn, og Þjóðverja sem voru nýkomnir á vettvang og vildu auka sinn skerf innan viðskiptanna.
Goðar höfðu ákveðin völd yfir verslunarstöðunum þó svo ekki sé vitað nákvæmlega hver staða þeirra var. En líkur eru á að konungur hafi ráðið eitthvað um verðlag á Íslandi, löngu fyrir 1262 þá er líklegt að goðarnir hafi séð til þess að þau verð hafi verið notuð sem konungur hafði skipað.

Jónsbók

Texti í Jónsbók.

Þegar Jónsbók var skrifuð hafa lögin um skatt með komu skipa verið afnumin, en slíkt tíðkaðist þó á þeim tíma þegar Grágás var í notkun, nema líkt og áður hefur verið sagt, hafi verið um Norðmenn að ræða. Þó svo að eitthvað sé sagt frá viðskiptum og kaupum í Grágás, þá er ekki mikið talað um erlenda kaupmenn sem komu til Íslands og hver lögin um þá ættu að vera, nema talað er um að allir nema Norðmenn skyldu greiða toll.
Hvað helst ætti að flytja til landsins eða reglur um viðskiptin er ekki sjáanlegt í lögunum, sem getur gefið þá skýringu að það hefur þótt mikilvægara hvernig kaupmenn höguðu sér sín á milli frekar en hvernig þeir háttuðu sínum viðskiptum.
Fyrir stjórn Noregskonungs réði hvert hérað fyrir sig yfir verslun en goðar náðu því að nokkru leyti undir sitt vald þegar leið á 13. öld. Gunnar Karlsson fer svolítið yfir þetta í Goðamenning. Hann segir þar að það hafi verið óvenjulegt að höfðingjar hafi ráðið verði á vörum á Íslandi um 1200 en það sem hafi breyst smám saman. Grágás sýnir að lagaákvæði hafi verið um skipulagt verðlagseftirlit og að landið hafi átt að skiptast í „héraðstakmörk“ með forráðsmenn til þess að leggja lag á mjöl, léreft, við, vax og tjöru. Gunnar telur þetta þó vera tilbúningur síðari alda og sé aðeins lagafrumvarp. Það eru engar upplýsingar til um hvernig hreppum var skipt niður fyrr á árum, ekki fyrr en árið 1703 þegar manntalið var skráð á landinu. Hafi slíkt verið til staðar þá hefðu goðar verið í hreppstjórnum. Goðar og höfðingjar voru sem sagt yfir verslunarstöðunum og seinna meir var það kirkjan sem var yfir þeim enda sést það á Grágás um hver helsta innflutningavaran hefur verið, mjöl, léreft, viður, vax og tjara.

Vaðmál

Vaðmál mælt. Stofnun Árna Magnússonar, Reykjavík, (Ref.: Jónsbók, GKS 3269b 4to. 15. öld.).

Menn áttu ekki að reyna að græða á viðskiptum og „ágóðahyggja“ var litin hornauga á Þjóðveldisöld. Það þótti ekki til sóma sé tekið mið af Hávamálum sem menn fóru mikið eftir á þeim tíma. Menn áttu aðeins að vera með jöfn vöruskipti.

Stjórnvöld í sunnan- og vestanverðri Evrópu vildu hafa ákveðin verð í samræmi við vörur. Gjaldmiðill hefur skipt öllu varðandi vöruskipti og -kaup. Þó lítið hafi fundist á uppgraftarsvæðunum af einhverju sem geti bent til að verslað hafi verið með gulli og silfri, hefur eitthvað fundist af því en heimildir segja einnig að hrein vöruskipti hafi verið í gangi þar sem t.d. vaðmál og skreið giltu sem ákveðin mælieining fyrir gjaldi.
Ákveðið verðlag var komið á milli íslenskra stjórnvalda og norskra kaupmanna á 13. öld. Helgi vitnar í kenningar um réttlátt verðlag sem hefur líklegast áður verið óþekkt á Íslandi, en þar sem segir í Grágás að matsmenn ættu að meta vörur og líklegast einnig aðrar vörur sem ekki höfðu neitt verð, þá hafi smám saman fest í sessi ákveðið verðlag fyrir ákveðna vöru eða sem ákveðinn gjaldmiðill.
Gjaldmiðill til afborgunar á ýmsum vörum voru margs konar líkt og hefur komið fram, og má í raun skipta vöruflokkum niður á tímabil í Íslandssögunni. Mjög algengt er t.d. að sjá að á fyrri hluta miðalda hafa Íslendingar verslað mikið með vaðmál og á seinni hluta miðalda hefur skreið aukist í miklu mæli.

Mælitæki

Mælitæki. Stofnun Árna Magnússonar, Reykjavík (Ref.: Jónsbók, AM 147 4to (Heynesbók), 15. öld.).

Silfur var gjaldgengur gjaldmiðill og var talið í aurum en einn eyrir vó um 27 grömm. Lögsilfur af ákveðnum skírleika reyndust vera 6 álnir í vaðmáli og nefndist vaðmálseyrir. Ein alin taldist vera 49 sm. Í einni mörk voru 8 aurar eða 48 álnir vaðmáls. Kringum 1100 reiknaðist einn eyrir silfurs á mörk vaðmála. Silfur hafði hækkað mjög í verði ef tekið er mið af vaðmálum, en hækkunin hafði verið áttföld. Til að vaðmál væri gjaldgengt, þurfti það að vera af ákveðinni gerð, breidd og þyngd miðað við lengd. Fyrir 1330 var vaðmál aðal gjaldmiðillinn og verðeiningin. Vaðmál og annað léreft áttu að vera í sömu mælieiningu en stika sem átti að mæla slíkt átti að vera tveggja álna löng sem jafngilti 98 sm. Sá sem ætlaði að kaupa vaðmál (léreft eða klæði) mátti síðan ráða hvort mælt væri að hrygg eða að jaðri.
Verslunarmál hafa verið bæði af félagslegum og pólitískum toga, en það hefur þótt ákveðin valdastaða að geta verslað með silfri, Silfrið gat einnig staðið eitt og sér sem skartgripur og stöðutákn. Vaðmálið tók við af silfri sem helsti verðmælir. Mikið magn af silfri hefur borist til landsins á fyrstu öldum eftir landnám en farið þverrandi þegar hefur liðið á 11. öld. Silfrið var vegið í vogarskálum og skírleikinn kannaður með því að marka skorur í silfrið.

Vaðmálsskór

Jarðfundinn skór úr vaðmáli, frá miðöldum.

Jón Jóhannesson nefnir að samkvæmt Íslendingasögunum virðist sem goðar hafi haft rétt á að leggja verð á vörur erlendra kaupmanna en öruggu dæmin fyrir því séu ekki eldri en frá 13. öld. Hann dregur því þá ályktun að goðar hafi ráðið um verð, hafi það verið talið nauðsynlegt og að eingöngu hefðu verið voldugustu goðar sem gátu ráðið um það. Gunnar Karlsson er sammála því og segir að lagaákvæði hafi verið í Grágás um „skipulagt verðlageftirlit“ þar sem landinu var skipt upp í nokkur héraðstakmörk með forsvarsmenn í hverju takmarki til þess að leggja lag á mjöl, léreft, við, vax og tjöru. Skipting þessara hreppa eru ekki til í heimildum og í raun eru fyrstu skráðu hrepparnir frá 1703.
Svokallaðir reiknispeningar voru notaðir við viðskipti erlendis og var Ísland engin undantekning frá því enda hafa nokkrir slíkir peningar fundist á Íslandi. Þessir reiknispeningar höfðu tvíþættan tilgang, annars vegar vegna stærðfræðinnar og hins vegar vegna myntarinnar sjálfrar.
Stærðfræðilegi grunnurinn svipar til talnagrindar, þar sem þurfti einnig eitthvað undir peningana til þess að geta reiknað, fjöl, borð eða jafnvel dúk. Þessar myntir voru verðlausar til kaupa og átti aðeins að notast við reikning.

Silfurmynd

Hluti silfurmyntar.

Myntin sjálf sagði til um verð á umsaminni vöru eða þjónustu. Myntir þessar gengu undir ýmsum nöfnum en þar má nefna svarta peninga og klausturpeninga. Á 13. öld fóru eftirlíkingar á enskum sterlingum og frönskum écum að verða lang algengastar. Útliti á myntunum var skipt í ýmsa flokka en algengustu flokkar voru í einhverjum trúarlegum tilgangi, útskýring á því að reiknispeningar væru í raun verðlausir, stærðfræðileg notkun á mynt og svo mætti lengi telja. Ástæða þess að reiknispeningar lögðust af er sögð vera vegna pappírs en það þótti síðar auðveldara að reikna á pappír frekar en með reiknispeninga. Kýrverð jafngilti sex ám loðnum og lembdum í fardögum á vori.

Fiskar og aðrar sjávarafurðir urðu síðan gjaldmiðill á 14. öld þegar aukning hafði verið á skipum sem komu til landsins en talið er að um árið 1340 hafi komið hingað 21 skip og fóru sjávarafurðir út frá því að vega meira í verðmæti heldur en vaðmál.
Árið 1420 var bréf skrifað sem segir að skreið hafi hækkað í verði úr 6 vættum hundraðið í allt að 3 ½ vætt. En það er um 71,4% hækkun en skreið varð aðalkaupeyrir Íslendinga.

Tjara

Tjara.

Verð á Íslandi voru föst í sér í ákveðnum hlutföllum. Verð á vörum þótti nokkuð mikilvægt og hægt er að sjá það í heimildum hvernig hlutfall var á milli verða og vara, þó hafa verðgildin verið breytileg í gegnum tíðina. Grágás segir eins og áður er nefnt, að leggja skyldi verðlag á mjöl, léreft, við, vax og tjöru, „átti að liggja við tólf merkur vaðmála ef menn keyptu dýrara en það verðlag sem sett var á“. Jónsbók segir aftur á móti að eftirfarandi vörutegundir yrðu að vera verðlagðar, léreft, vax, skrúðklæði og eirkatlar. Frjáls samkeppni átti að vera og því var samningur á milli kaupanda og seljanda bönnuð.
Verðlag sjálft á vörum var breytilegt og að ekki hefur alltaf verið sama verðeining fyrir vörurnar. Helstu gjaldmiðlarnir hafa þó verið alin og kúgildi, álnir þá helst notaðar tengt vaðmál. Helgi Þorláksson hefur skoðað verðgildin í Vaðmál og verðlag þar sem hann segir að kúgildið festist í 120 álnum á 14. öld og í raun voru komin föst verðgildi á 14. öld.
Ýmsar mælieiningar voru notaðar í verðgildum er sýna í hnotskurn að verðgildin á milli kúgildis annars vegar og silfurverð hins vegar. Nokkuð staðlað verð var á milli álna, marka og aura en kúgildi hefur verið svolítið á reiki gagnvart hinum verðeiningunum og líklegast verið ákveðið á hverju vorþingi fyrir sig. Eftir lögfestu Jónsbókar hefur þó líklegast verið komin regla á þessa verðeiningu.
Mælitækin voru ónákvæm og voru því oft þrír menn fengnir til þess að meta vöru til að komast að samkomulagi um verð en það er nákvæmlega það sem Grágás segir til um matsmennina sem áttu að koma sér saman um verð á vöru.

Mjöl

Mjöl.

Almennt er sagt að á fyrstu árum eftir landnám hefðu Íslendingar að mestu verið með sjálfsþurftarbúskap. Rekaviður og íslenskur viður var notaður í hýbýli og báta, járnvinna var gerð með rauðablæstri og fatnaður unninn úr dýrum sem bjuggu á landinu. Á landnámstímanum hafi viðskipti á milli Íslands og Noregs verið þau helstu vegna þess að Íslendingar hafa sótt í það sem þeir þekktu og þar af leiðandi til Noregs. Talað er um 100 íslensk skip í tengslum við viðskipti en aðeins 47 norsk sem komu til Íslands, þ.e. Íslendingar fóru frekar til Noregs eftir vörum heldur en að Norðmenn kæmu til Íslands.
Rétt eins og í viðskiptum í dag, þarf jafnvægi í verslun þar sem nóg er af framboði og eftirspurn. Á meðan Íslendingar keyptu ýmsan varning erlendis frá voru þeir einnig að selja innlendar vörur til erlendra markaða. Það sem þótti helst vinsælast voru aðallega ullarvörur og þá helst vaðmál, vararfeldir og einnig var talað um að Íslendingar væru að selja óunna ull. Íslenska vaðmálið seldist helst í Þýskalandi og Englandi þar sem það var helst notað í föt, tjöld, segl og umbúðir.

Fiskur, brennisteinn, fálkar og lýsi var einnig vinsæll varningur erlendis en slíkt fór þó ekki að verða vinsælt fyrr en á 14. öld. Íslenskir fálkar voru þar vinsælastir og er talað um að þeir hafi verið notaðir síðan helst sem gjafir milli aðalsmanna og höfðingja. Á 14. öld breyttust aðalvörur til útflutnings, en skreið og lýsi fóru þá að vera vinsæl á sama tíma og eftirspurn eftir vaðmáli varð minni. Einnig fóru sjávarvörur að verða vinsælli en landbúnaðarvörur.
Fiskútflutningar var vinsælli á Suður- og Vesturlandi heldur en frá Norðurlandi og má þar nefna að norskt skip sem lagði frá höfn að Gásum fórst við strendur Íslands árið 1323 og náðist að bjarga miklum hluta farmsins, þar á meðal var ekki skreið en mikið magn af lýsi fannst þar, það er heimildin um að lýsi hafi verið útflutningsvara og er ritað í Biskupasögum.

Brennisteinn

Brennisteinn í Seltúni í Krýsuvík.

Gæði íslensks vaðmáls fóru þverrandi eftir því sem leið á og fyrsta kvörtunin barst árið 1329 frá Magnúsi Eiríkssyni konungi. Talið er að líklega skýringin á verri gæðum vaðmáls hafi verið vegna minnkandi vinsælda á því og að góð vaðmál voru nú farin að berast til Norðurlanda með Hansakaupmönnum.
Brennisteinn var vinsæll á 14. öld og var flutt út í tunnum, hann var síðan notaður sem púður fyrir byssur og annað slíkt. Um 1200 var vætt10 smjör sem hefur einnig verið útflutningsvara, metið á 30 álnir en í Jónsbók er sagt frá verði smjörs sem var þá metið á 48 álnir og á 14. eða 15. öld hækkaði verðið enn meir þar til það var komið uppí 80 álnir. Þessi mikla verðhækkun hefur stafað af mikilli eftirspurn en smjörið var vinsælt með harðfiski.
Skipta má íslenskum miðöldum í tvennt hvað helstu útflutningsvörur varðar. Fyrir 11. öld var helsta útflutningsvaran vaðmál og önnur ullarvara og á 13.-15. öld hefur það verið fiskur og þá helst skreið. Það stangast þó á við það sem Björn Þorsteinsson segir, að skreið hafi verið vinsælli á 14. öld. Slíkt er þó erfitt að segja með vissu þar sem ritaðar heimildir samræmast oft ekki og fræðimenn eru ekki sammála. Þessar breytingar hafa samt sem áður verið til staðar, að vaðmál vék fyrir fiski og skreið.

Skreiðalest

Skreiðalest.

Þegar leið á 14. öld voru gæði þeirra vara sem bárust til Íslands einnig farin að rýrna mikið. Í skilmálaskrá sem Íslendingar sendu til Magnúsar minniskjaldar segir; „Skreið og mjöl viljum vér ei flytjist meiri, meðan hallæri er í landinu, en kaupmenn þurfa til matar sér.“Hallæri var þá orðið svo mikið á Íslandi að menn voru ekki tilbúnir að sleppa meira en nauðsynlega þurfti af harðfiski og mjöli.
Einhverju hafa þeir þó þurft að fórna til að geta keypt aðrar nauðsynjar eins og timbur. Þær vörur sem taldar voru til nauðsynja til innflutnings voru samkvæmt Grágás mjöl, léreft, viður, vax og tjara. Mjöl hefur verið talið mjög mikilvægt þar sem ekki var hægt að rækta alls staðar korn á Íslandi. Mjölið kom lang oftast frá Noregi en þó stundum frá Orkneyjum. Oft var þó flókið að flytja það til landsins þar sem konungur Noregs og stundum erkibiskupinn í Niðarósi þurftu á tíðum að gefa leyfi til útflutning á mjöli. Tvenns konar léreft var flutt til landsins en báðar tegundirnar voru helst notaðar fyrir kirkjur og undirföt. Annað léreftið er talið hafa komið frá Niðurlöndum og hitt frá Englandi. Ýmsar aðrar vefnaðarvörur voru einnig fluttar til Íslands, þær voru misdýrar og til í ýmsum litum og þóttu því góð munaðarvara.
Mikill viðarskortur hefur orðið á Íslandi eftir landnám þar sem nær allur viður var notaður í húsabyggingu og annað sem þótti nytsamlegt, og því þurfti að flytja við til Íslands, einnig segir Jón Jóhannesson að Íslendingar hafi farið erlendis í sérstakar ferðir til þess eins að kaupa sér við. Tjara hefur verið nauðsynleg til varnar gegn fúa og var því notuð á kirkjur og skip. Tjaran hefur skipt það miklu máli að hægt var að greiða tíund sína í tjöru.

Reykjavík 1835

Reykjavík 1835.

Nýjustu rannsóknir við „urban“ eða þéttbýlisþróun á verslunarstöðum er að finna hjá Søren M. Sindbæk en hann hefur helst fjallað um verslunarstaði og þéttbýlismyndun, og fjallar gjarnan um tengingu þess á milli. Hann nefnir í einni grein sinni að það sem geri útslagið við staðsetningu verslunarstaða séu auðveld tengsl við útlönd, svo sem hvort staðsetning sé hentug upp á alfaraleið skipa eða ekki, fremur en pólitísk völd sem ákveði staðina. Fróðlegt væri að kanna hvort slíkt ætti við um Ísland, þrátt fyrir að ritaðar heimildir hafi gefið í skyn að verslun hafi stjórnast af pólitík gæti það hafa verið mál síðari tíma og við upphaf verslunarstaða hafi valið einkennst af þægindum við alfaraleið skipa og nálægð við helstu staði inni í landi. Þar sem verslunarmenn frá mismunandi stöðum hafa komið á hvern verslunarstað fyrir sig, hafa verið mismunandi reglur og mælieiningar á hverjum gjaldmiðli fyrir sig verið til staðar sem síðar með tímanum festu sig í sessi og urðu að ákveðnum reglum manna á milli þó svo enginn sérstakur með pólitísk völd stjórnaði hverjum verslunarstað fyrir sig.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Staðirnir voru fyrst og fremst tengd fiskveiðum og skipaviðgerðum en höfðu þróast þannig að skip gátu siglt þangað með varning þar sem hafnir voru þar til staðar. Algengasta sjávargreinin var án efa fiskveiðarnar við þessi svæði sem rannsökuð hafa verið. Sé mið tekið af tegundum í beinasöfnum frá mörgum stöðum voru Evrópumenn á víkingatímanum ekki vanir að veiða djúpsjávarfiska, heldur fiska úr grunnum vötnum nálægt ströndinni.
Fólk sem settist að við sjóinn hafði aðrar þarfir en fólk sem settist að inni í landi og stundaði landbúnað.
Verslunarstaðirnir á Íslandi voru nánast eingöngu við sjó en til var einnig að vöruverslun var stunduð við þingstaði. Aðeins fjórir verslunarstaðir sem voru með vöruskipti á milli erlendra aðila og Íslendinga á milli landnáms og siðaskipta á Íslandi hafa verið rannsakaðir með uppgrefti, Kolkuós, Gásir, Maríuhöfn og Gautavík.“

Heimild:
-Nautn og nytjar, Uppgrafnir verslunarstaðir á Íslandi og erlendir gripir. Ritgerð til BA í fornleifafræði, Sigurjóna Guðnadóttir maí 2012.

Þingvellir

Alinmálssteinninn framan við Þingvallakirkju. Á steininn eru ristaðar löggiltar alinlengdir.